Árnabiblían

Ég hef aldrei keypt Biblíu handa sjálfum mér. Mér hefur þó aldrei verið Biblíuvant því ég hef verið svo lánsamur að hafa fengið margar Biblíur að gjöf. Ein af gjafabiblíunum rataði í hendur mínar síðla árs 2003. Hún er ekki aðeins falleg hið innra heldur líka hið ytra, bundin í skinn og silfurslegin. Það þarf engan bókelskling eða biblíuvitring til að sjá að þetta er mikið lesin bók.

Ég var settur til afleysingar í Hallgrímskirkju haustið 2003. Af því ég hafði sungið í einum kórnum þekkti ég marga í starfsliði kirkjunnar. Það var því ánægjulegt að koma til starfa fyrsta vinnudaginn. Eftir kaffibolla, hlátra og hlýjar móttökur héldu allir á sínar vinnustöðvar. Inn á skrifstofunni, sem mér var ætluð, var bókastafli á skjalaskápnum. Þarna voru gamlar bækur, Passíusálmar og guðsorðabækur. Þá sá ég kunnuglega Biblíu. Blóðið þaut fram í kinnar mínar. Ég þekkti hana því ég hafði svo oft handleikið hana í húsi við Sjafnargötu. Biblían var merkt Árna Þorleifssyni, sem hafði fengið hana að afmælisgjöf þegar hann varð sextugur árið 1937. Ég hafði ekki séð hana í meira en þrjátíu ár, þar til á þessum degi í Hallgrímskirkju.

Árni Þorleifsson var vinur foreldra minna og þau kynntust í hans skjóli. Þegar þeim fæddist drengur bað hann um að sá stutti fengi líka að bera nafn hans því hann átti ekki börn sjálfur. Ég heiti því Árni og þar sem ég var afalaus gekk hann mér í afa stað. Árni missti sjón á gamals aldri og bað mig um að lesa fyrir sig. Ég fór til hans í hverri viku öll unglingsárin. Hann gaf mér smjörköku eða vínarbrauð, við ræddum saman og svo bað hann mig oftast að lesa fyrir sig úr Biblíunni. Hann ákvað hvaða kaflar skyldu lesnir og ég tók bókina góðu og las upphátt. Við nutum samfélagsins og hann sá til þess að ég lærði að lesa í Biblíunni og skilja samhengi og dýrmæti. Síðan lést Árni og bækur hans og Biblíur hurfu mér einnig.

Svo varð samsláttur atburða í tíma. Nokkrum dögum áður en ég hóf störf var Biblían afhent kirkjunni að gjöf. Svo tók hún á móti mér. Hvaða verkfæri fær prestur betra en Biblíu við upphaf prestsstarfs? Tákn um ábyrgð prests að rannsaka ritningarnar og leyfa lífsorði Guðs að streyma um sig í menningu og kirkju. Í árslok 2003 var mér svo gefin þessi Árnabiblía. Síðan hefur hún fylgt mér.

Biblían kemur víða við sögu og flestir eiga sér einhverja persónulega minningu um hana. Persónur eða viðburðir Biblíunnar eiga sér afleggjara í bókmenntum, listum og sögu heimsins. Áhrifasaga Biblíunnar er mikilfengleg. En áherslur samfélaga breytast. Hvað í Biblíunni skiptir nútímafólk máli og hvað hefur hlutverki að gegna í menningu samtíðar? 

Á miðvikudögum í október og nóvember er á dagskrá í hádeginu í Hallgrímskirkju dagskrá um Biblíuna. Fyrirlesarar segja frá eftirminnilegum Biblíuviðburðum í lífi sínu og tala um hvað í Biblíunni skipti máli í menningunni eða eigin lífi. Biblíurnar koma til okkar með ýmsum hætti. 

Þessi pistill birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 20. október 2018.