Greinasafn fyrir merki: Siena

Dyggðir og lestir – Siena

Öld er liðin frá stríðslokum fyrri heimsstyjaldar. 9 milljónir hermanna féllu – eða 6000 hermenn hvern einasta dag stríðsins. Það er svipaður fjöldi og íbúar í Hallgrímssókn! Tugir milljóna annarra féllu eða urðu fyrir stórfelldu tjóni í átökunum eða vegna þeirra. Svo hélt hryllingurinn áfram tveimur áratugum síðan. Sú styrjöld var enn grimmilegri og lífsfrekari. Þau eru dæmd til hryllingsverka sem ekki læra af sögunni. Friður eða stríð, blóð eða réttlæti. Hvernig eflum við frið og sköpum réttlátan frið? Hvernig getum við gengið erinda friðar himins og jarðar? Lagt lífinu lið? Nært elskuna – verið fulltrúar Jesús Krists? Á þessum tímamótum flaug hugur minn suður til Toskana og til Siena sem er mér kær.

Friðarsalurinn í ráðhúsi borgarinnar er áhrifaríkur. Þar eru ávirkar myndskreytingar sem sýna áhorfendum hvernig góð stjórn kemur góðu til leiðar og hvernig ill stjórn spillir. Í kirkjum miðalda var almenningi kennd hin kristnu fræði með orðum en einnig með myndum. Myndskreytingar helgistaðanna voru Biblía hinum fátæku og þar með ólesandi. Þær voru Biblia pauperum. Borgaryfirvöldin í Siena skildu, að myndverk gætu þjónað líka borgaralegum tilgangi ekki síður en andlegum og kristilegum. Þau fengu listamenn til að uppteikna vanda og vegsemd hins góða borgarlífs. En einnig hins illa, sem stjórnvöld geta valdið borgurunum. Skömmu fyrir 1340 réðu borgaryfirvöld Ambrosíus Lorenzetti til að skreyta borgarstjórnarsalinn í ráðhúsinu fagra Siena, þar sem hinir níu borgarstjórnarmenn hittust. Freskumyndir Lorenzettis sýna hið góða og illa og hvernig mismunandi stjórnhættir hafa áhrif. Það er ástæða til að fara af hörputorginu inn í ráðhúsið og íhuga viskuna.

Mynd hinnar góðu stjórnar (allegorie del Buon Governo) sýnir skeggprúðan stjórnanda í miðju myndar og í svörtum og hvítum kyrtli. Við fætur honum er úlfynjan sem fóstraði Rómulus og Remus, en þeir koma við sögu Sienaborgar og er víða í borginni að finna af þeim myndir sem og fósturmóður þeirra. Á báðar hendur stjórnvaldi sitja hinar klassísku eða borgaralegu dyggðir (virtu civili). Yfir svífa hinar trúarlegu eða kristilegu dyggðir, Trú von og kærleikur (Fede, Speranza e Caritá). Hinar borgaralegu dyggðir er friður, kappsemi, hugrekki, göfuglyndi, hófstilling og réttlæti (Pace, Fortezza, Prudenza, Magnamita, Temperenza, Giustizia). Sýnu lötust og afslöppuðust er Pace, friðarengillinn eða gyðjan. Það er svo mikil værð yfir henni að einna líkast er að hún sé að leka út af. Er það húmor eða er það svo að friðurinn er óttalaus þegar stjórn er góð? Réttlætið nýtur sérstakrar áherslu myndarinnar. Yfir réttlætisgyðjunni svífur viskan, sapienza. En réttlætið kemur fram í tveimur útgáfum, sekt og sakleysi (sýknandi réttlæti en einnig refsandi réttlæti, aftaka). Á neðri hluta myndarinnar eru hermenn með fanga á ferð en á hinum neðri hlutanum eru 24 borgarar sem koma fram saman og eru samstiga. Fyrir framan þá eru tveir höfðingjar sem vilja afhenda ríki og kastala til hinnar góðu borgarstjórnar.

Nærri freskunni af hinni góðu ríkistjórn er sýnt hvernig afleiðingar eru fyrir borgarlífið; friður, hamingja, vinnusemi, ríkuleg uppskera landbunaðar, árangursrík verslun, öryggi og árgæska. Á hinum veggnum er sýnt hvernig vond stjórn er. Verurnar, sem birtast í líki stjórnherra, eru dýrslegar ásýndum. Þær eru harðstjórn, grimmd, blekking, fals, reiði, óeining og illska. Réttlætið er hamið og í fjötrum hlekkja og niðurtroðið af illskupúkum. Afleiðingarnar eru einnig sýndar í mynd stríðs, akrar og atvinnutæki brunnin eða í rúst, fólk í fangelsum, rænt,  nauðgað eða drepið. Ógnin, Terrore, ríkir. Hvort er nú betra? Friður eða stríð, góð stjórn eða ill? Almenningur í Siena hafði fyrir augum stöðuga áminningu um að valið, en stjórnendur höfðu einnig fyrir augum áminngu um að þeirra hlutverk og skylda væri að velja rétt.

Enn í dag eru sömu lögmál við landsstjórn, stjórn fyrirtækja og allra félaga. Okkar er valið. Hundrað ár frá fyrri heimstyrjöld en ótrúleg stríð hafa verið háð síðan. Að rækta frið er verkefni allra daga.