Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is. Þá var talsvert af pistlum einnig á sigurdurarni.annall.is Sá vefur er nú lokaður.

Jósef og stóru draumarnir

JósefAðalpersónur jólasögunnar eru María og Jesúbarnið. Svo koma auðvitað við sögu hirðar, vitringar og englar. En svo er Jósef þarna líka. Þó hann sé næstum ósýnilegur í helgileikjum skóla og kirkju er hann þó miðlægur í upprunasögunni.

Það var Jósef, sem studdi heitmey sína á förinni til Betlehem. Hann hentist inn á alla gististaðina og fékk afsvör. Það var hann, sem tók á móti barninu þegar það kom í heiminn, skildi á milli og batt fyrir naflastreng. Hendur hans hafa eflaust skolfið þegar hann hélt á smálífinu í lúkunum og vafði klæði um barnið til að varna að næturkælan næði því. Hann hefur sett það í móðurfang þegar María bar það fyrst að brjósti.

Jósef hafði atvinnu af smíðum, en við vitum ekki hvað hann smíðaði eða hvernig verkmaður hann var. Væntanlega var Jósef ekki mállaus, en þó er ekki eitt einasta orð haft eftir honum í Biblíunni. Jesús var fullkominn snillingur í samræðum og örlátur í samskiptum og væntanlega hefur Jósef lagt til þeirrar hæfni.

Maðurinn á bak við konuna

Aukaleikarinn í jólasögunni er í raun aðalleikari. Hann var maðurinn á bak við konuna. Hann rataði í siðklemmu og brást stórmannlega við vanda festarkonu sinnar. Vegna manndóms og karlmennsku kastaði hann af sér karlrembunni og ákvað að axla ábyrgð á aðstæðum þeirra Maríu. Hann veik sér aldrei undan að taka erfiðar ákvarðanir og fara langar leiðir og ferðir ef það mætti verða til að vernda líf og hamingju fjölskyldu hans. Jósef er raunar fyrirmynd um karlmennsku í jafnvægi. Í miðju glimmerskreyttrar draumafrásögu er saga um sterkan mann, sem þorði. Sá Jósef hafði karlmannslund í lagi. Jósef var fyrirmyndarmaður sem þorði, gat og vildi.

Draumar Jósefs

Brasilíski ritjöfurinn Paulo Coelho opnaði augu mín fyrir hve fáir draumamenn eru í Nýja testamentinu. Í Gamla testamentinu er fjöldi drauma og draumspakra – en í því nýja fyrst og fremst Jósef. Í guðspjöllunum er aðeins sex sinnum sagt frá draumförum. Í fjórum af þessum sex tilvikum var það Jósef sem dreymdi. Hann var tengdur dýptum tilverunnar og tók mark á sínum innri manni. Draumar hans breyttu afstöðu hans, skoðun og stefnu. Því var lífi Jesú bjargað.

Í fyrsta lagi ákvað Jósef að skilja ekki við Maríu vegna óléttunnar. Samkvæmt sið, venjum og stöðlum samtíðarinnar hefði Jósef átt að rifta trúlofuninni. En hann hlustaði á draum sinn og þorði að gera annað en það, sem nágrannar hans ætluðust til. Svo dreymdi hann í Betlehem, að hann ætti að drífa sig með sitt fólk til Egyptalands. Ættmennin hafa væntanlega álitið það galið – vera maníukast – að rjúka í slíka óvissuferð með ungabarn. Og maður með snefil af bisnissviti hefði ekki hlaupið svo frá verkum sínum og skyldum. En Jósef var reiðubúinn að hlusta á kall til heilla þótt það kostaði hann mikið. Í þriðja skiptið fáum við að heyra af þessum draumajóa þegar hann var búinn að koma sér fyrir í Egyptalandi, var væntanlega í góðri vinnu og átti til hnífs og skeiðar. Enn einu sinni hlustaði hann á boðskap, sem þó kom honum illa. En hann lagði í´ann og enn einu sinni fékk hann bendingu í draumi um að stoppa ekki í Jerúsalem á leið heim í þorpið í Galíleu.

Draumur Guðs

Aðalpersónur í jólasögunni og þar með í allri kristninni eru María og Jesús. En vert er að taka eftir og sjá líka hinn trausta Jósef. Hann var ekki bara flottur, heldur glæsilegur. Ég met mest hve vel tengdur hann var sínum innri manni. Hann þorði að breyta um skoðun. Hann þorði, vildi og gat axlað ábyrgð í vondum aðstæðum, tryggði og efldi þar með líf annarra, ekki aðeins síns fólks heldur veraldarinnar. Að hlusta á drauma er okkur nauðsyn og veröldinni lífsnauðsyn.

Draumar Jósefs voru merkir. Þeirra megum við vitja okkur til gagns. En við megum gjarnan fara í gegnum þá og vitja enn stærri drauma, raunar stærsta draums veraldar. Það er draumur Guðs um hamingju, gleði og réttlæti handa öllum mönnum: Þú ert í þeim draumi og þú ert ekki aukapersóna. Guð dreymir þig, bæði daga og nætur, dreymir að þér líði vel, að þú njótir elsku og hamingju, í einkalífi og vinnu.

Þegar Jósef tók með skjálfandi höndum hið litla líf í fangið birti Guð og auglýsti elskugerð veraldar, túlkaði drauminn um lífið og heiminn. Hið varnarlausa barn tjáir sögu um, að Guð lætur sig varða veröldina, vitjar fólks í raunverulegum aðstæðum en ekki bara í andlegri heilaleikfimi.

Vitjaðu draumsins þíns

Hver er draumur þinn? Hvers væntir þú? Á jólum og við áramót megum við gjarnan setjast niður, leyfa kyrrunni að koma. Hlustaðu á drauminn um gleðiefni þín, köllun þína. Hvert er þitt hlutverk? Hvað getur þú gert til að þú lifir vel? Hver er lífshamingja þín? Er eitthvað í lífi þínu, sem hindrar að þú sért hamingjusamur eða hamingjusöm?

Vegna þess að Jósef hlustaði á drauma sína bjargaði hann Maríu, Jesúbarninu og hamingju sinni. Guð dreymir þig og sá draumur situr í þér – býr í þér allt frá því að naflastrengur þinn var skorinn og bundinn – draumurinn um lífshamingju. Það er draumur til lífs.

Leita Guðs en sjá menn


KórÍ þessari viku hef ég nokkrum sinnum gengið inn langan kirkjugang Hallgrímskirkju – og alla leið upp að altarinu. Á mánudaginn síðasta hóf ég prestsþjónustu í þessu húsi og í þágu Hallgrímssafnaðar og þessa dagana er mér flest nýtt. En framgangan og upp að altarinu var ekki ný fyrir mér og rifjaði upp óvænta og sterka upplifun þegar ég gekk í fyrsta sinn fyrir altari kirkjunnar.

Hver er miðjan í kirkjunni? Flestar kirkjur eru svo skipulagðar, að nálgast altari veki tilfinningu fyrir mikilvægi. Miðjan, staður hins heilaga er jafnan á áhrifaríkasta bletti rýmisins. Þegar þangað er komið finnur fólk, að það er statt á „heitum“ reit, sem trúmaðurinn kallar heilagan stað.

Þið, sem hafið gengið inn kirkjugang Hallgrímskirkju vitið vel, að leiðin er löng, ferðalag sem gefur tilefni til skynjunar og hugsana.

Kórgluggarnir veita ljósi greiða leið og kórinn er jafnan bjartasta rými kirkjunnar á messutímum að degi. Því er það eins og að halda inn í ljósríkið að ganga að altarinu – og auðvitað enn fremur þegar sól skín. Sjónlínurnar í kirkjunni eru mikilvægar og stýra úrvinnsu upplifunarinnar.

Hvað sérðu þegar þú situr á kirkjubekknum og horfir inn í kórinn? Þú sérð ekki bíla, hús eða mannlíf heldur himinn – ef ekki bláan, þá leik skýja og stundum leik ljóssins í skýjabólstrum. Kórinn verður því upphafinn ljósveröld. Og kirkjan verður eins og forskáli himinsins. Augun leita fram og upp og hlið himins opnast. Sjá himins opnast hlið… segir í sálminum (sem er yfirskrift þriggja tónleika Mótettukórsins þessa dagana).

En hvað sér presturinn í kórnum? Ég gekk fyrir altarið áðan og þá breyttist útsýnin. Það, sem sést í kórnum, sjáið þið ekki sem eruð í kirkjunni. Sjónsvið prestsins er allt annað en sýn safnaðarins. Við altarið leita augun ekki lengur upp í himininn, til skýja eða himinljósa. Augun leita þvert á móti fremur niður! Upp við altarið sér maður beint út og niður um lága gluggana í bogahring kórsins. Frá altarinu blasa við borg, hús og mannlíf. Þessa borgarsýn hefur söfnuðurinn ekki og fjöllin eru í fjarska sem sjónarrönd

Þetta er raunar makalaus útsýn og áminning fyrir prest og önnur þau sem eiga erindi í kór og að altari. Þegar komið er í hið allra heilagasta breytist sjónsviðið. Fyrir augliti Guðs sér maður menn! Þetta skipulag kirkjunnar má verða okkur öllum til íhugunar og visku hvernig við megum skilja og túlka Guð, veröld, menn og kirkju. Þegar við komum næst Guði förum við að sjá með nýjum hætti. Við lærum að sjá með augum Guðs sem er ekki upptekinn af eigin upphöfnu dýrð, heldur tengslum við sköpun sína og menn – við þig.

Guð þráir að tengjast þér, tala við þig, vera vinur þinn og eiga trúnað þinn. Það merkir að Guð er meðal manna. Þegar menn leita Guðs sem ákafast þá opnar Guð mönnum sýn til systra og bræðra, mannlífs og náttúru. Við menn erum kölluð til að elska – ekki aðeins að elska Guð – heldur fólk, hvert annað og þjóna öðrum. Þegar við sjáum Guð beinir Guð sjónum okkar að veröldinni, sem þarfnast okkar og verka okkar.

Hinn starfandi Guð

Í guðspjalli dagsins hljómar skýrt og klárt boðið: Vakið. Í þessum stutta guðspjallstexta er það m.a.s. þrítekið. Vakið. Að trúa er ekki að sofna frá þessum heimi og vakna til annars, heldur lifa glaðvakandi og vera til taks fyrir hið góða, sem Guð gefur – vaka fyrir Guð. Trú er ekki að skutlast frá jarðlífi til einhverrar geimstöðvar eilífðar. Í öllum bókum Biblíunnar er dregin upp vekjandi mynd af Guði, að Guð er ekki fjarlæg vera, heldur ástríðuvera sem elskar, grætur, faðmar, syrgir og gleðst.

Samkvæmt kristninni er Guð altengdur – þegar allt var brotið í mannheimi svaf Guð ekki heldur kom sem barn, mennsk vera til að þurrka tár, lækna mein og skapa grundvöll lífsins. Guð skapar fólk til frelsis og yfirgefur menn aldrei þrátt fyrir bresti. Fagnaðarerindið er, að lífið er góður gerningur Guðs, verk elskunnar.

Niður er leiðin upp!

Kirkjugangurinn og leiðin að altarinu er til íhugunar á aðventu. Leiðin fram og upp er jafnframt niður. Leiðin til jóla, leiðin upp í himininn er alltaf í gegnum mannheim. Leið elskunnar til Guðs er vegleysa nema um raunheim mennskunnar.

Himinhopp trúarinnar verða engin nema með því að lifa með ábyrgð meðal þurfandi manna. Trú, sem ætlar sér bara að veita mönnum gott símasamband við Guð í hæðum – en tengir fram hjá fólki í vandræðum – er guðlaus og þar með trúleysa.

Guð elskar og því eiga menn að elska menn. Það er undur byltingarinnar, sem hófst við komu Jesú Krists. Elska varðar það hugrekki að segja nei við öllu því, sem hemur og kúgar fólk. Að elska Guð er að elska hvert annað, á ljósum dögum þegar allt gengur vel og líka á myrkum dögum veikinda og sorgar. Við erum kölluð til að elska – jafnvel það, sem okkur hugnast ekki.

Þegar þú gengur inn í Hallgrímskirkju horfir þú til himins og þegar þú ferð alla leið að altarinu sérðu veröldina. Þannig er hin kristna afstaða táknuð og ferð trúmannsins í veröldinni. Að horfa upp til Guðs leiðir til að þú ferð að horfa á veröldina með augum Guðs og með elsku Guðs.

Aðventa

Hvar ert þú stödd? Hvar ertu þú staddur á aðventu? Hvernig getur aðventan nýst þér? Er margt sem þú þarft að puða við? Hefur þú áhyggjur af einhverju, af fólkinu þínu, sjálfum þér – eða sjálfri þér?

Ógnar þér allt sem þú átt eftir að gera? Hvernig er ferðalagið þitt? Ertu á leið inn einhvern kirkjugang? Hvað sérðu fyrir þér? Leitar þú í ljósið, ertu á leið að altari lífsins?

Aðventan er í samtíma okkar orðinn tími anna og undirbúnings. Fagnaðarefni kristnninnar er að við þurfum ekki að umbylta veröld okkar til að Jesús Kristur komi til okkar – hann fæddist jú ekki heima heldur í óvæntum aðstæðum, annars staðar en skipulagt hafði verið. Guð kemur til þín óháð ati og önnum. Guð kemur ekki til þín vegna þess að þú verður búin með öll verkin, heldur jafnvel þvert á skipulagið. Aðventan er eftirvæntingartími. Þú mátt opna huga, vænta og vona – það eru stef aðventunnar.

Af hverju heldur þú að Jesús hafi komið í þennan heim? Af því Guð horfir á mennina og lætur sig þig varða. Að elska Guð er jafnframt að elska mennina – að verða augu, afstaða, hendur og faðmur Guðs í heimi. Það er að vaka. Gakktu fram til Guðs og þá sérðu heiminn.

Amen.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju, 7. desember, 2014. 2 sd. í aðventu.

Textaröð: B

Lexía: Jes 35.1-10


Eyðimörkin og skrælnað landið gleðjist,
öræfin fagni og blómstri.
Eins og dverglilja skal hún blómgast,
gleðjast, gleðjast og fagna.
Vegsemd Líbanons veitist henni,
skart Karmels og Sarons.
Menn munu sjá dýrð Drottins og vegsemd Guðs vors.
Styrkið máttvana hendur,
styðjið magnþrota hné,
segið við þá sem brestur kjark:
„Verið hughraustir, óttist ekki,
sjáið, hér er Guð yðar, hefndin kemur,
endurgjald frá Guði,
hann kemur sjálfur og bjargar yður.“
Þá munu augu blindra ljúkast upp
og eyru daufra opnast.
Þá stekkur hinn halti sem hjörtur
og tunga hins mállausa fagnar.
Já, vatnslindir spretta upp í eyðimörkinni
og lækir í auðninni.
Glóandi sandurinn verður að tjörn
og þyrst jörðin að uppsprettum.
Þar sem sjakalar höfðust við áður
sprettur stör, reyr og sef.
Þar verður breið braut
sem skal heita Brautin helga.
Enginn óhreinn má hana ganga
því að hún er ætluð lýð Guðs að fara um
og heimskingjar munu ekki villast þar.
Þar verður ekkert ljón,
ekkert glefsandi rándýr fer þar um,
þar verður þau ekki að finna.
Þar munu aðeins endurleystir ganga.
Hinir endurkeyptu Drottins hverfa aftur
og koma fagnandi til Síonar,
eilíf gleði fer fyrir þeim,
fögnuður og gleði fylgja þeim
en sorg og mæða flýja.

Pistill: Heb 10.35-37


Varpið því eigi frá ykkur djörfung ykkar. Hún mun hljóta mikla umbun. Þolgæðis hafið þið þörf, til þess að þið gerið Guðs vilja og öðlist fyrirheitið. Því að:
Innan harla skamms tíma
mun sá koma sem koma á og ekki dvelst honum.

Guðspjall: Mrk 13.31-37


Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða.
En þann dag eða stund veit enginn, hvorki englar á himni né sonurinn, enginn nema faðirinn. Gætið yðar, vakið! Þér vitið ekki nær tíminn er kominn. Svo er þetta sem maður fari úr landi, skilji við hús sitt og feli þjónum sínum umráðin, hverjum sitt verk. Dyraverðinum býður hann að vaka. Vakið því, þér vitið ekki nær húsbóndinn kemur, að kveldi, á miðnætti, í óttu eða dögun. Látið hann ekki finna yður sofandi þegar hann kemur allt í einu. Það sem ég segi yður, það segi ég öllum: Vakið!“

Prestur á breytingaskeiði

IMG_5641Tárin í augum vina minna gerðu útslagið. Margt hafði farið í gegnum hugann síðustudagana, en votir hvarmar fólks í altarisgöngu snertu kvikuna. Ég var á leiðinni, frá einum söfnuði til annars, frá vinum mínum og til annarra vina. Þetta voru tilfinningadagar og ýmislegt kom mér á óvart, bæði innan í mér og í samskiptum og viðbrögðum fólks.

Eftir tíu ára starf í Neskirkju og þjónustu við vesturbæinga sótti ég um prestsstarf við Hallgrímskirkju. Einföldu rökin voru að skynsamlegra væri að fara í annað prestakall áður en allir væru orðnir leiðir og farnir að bíða að maður hætti! En fleira og veigameira hafði afgerandi áhrif, sumt kirkjulegt, annað varðaði persónulega reynslu og tengsl við fólk. Svo var ég í stöðugu samtali við himinvin minn um hvort ég ætti að sækja eða ekki.

Þegar niðurstaða var fengin hóf ég umsóknarskrifin. Mér þótti áhugavert og að skrifa umsókn í samræmi við ný og breytt viðmið varðandi slíkar umsóknir. Ragnhildur Bragadóttir á Biskupsstofu sagðist aldrei hafa séð svo fallega umsókn! Skýringin var að Katla, sem er bæði fagurkeri og dóttir mín, braut um textann svo ágætlega og smellti inn myndum á góða staði að hinn smekkvísi bókasafnsfræðingur biskups gladdist. Já, pappírinn var líka fallegur og allar myndirnar, sem ég hafði tekið í Hallgrímskirkju, voru í lit.

Svo tók við umsóknarferli. Ég var í önnum, útfarir voru margar og tóku hug minn. Svo varð ég að sinna kirkjuþingi í klemmu á milli jarðarfaranna. Eitt kvöldið á kirkjuþingstímanum var ég kallaður til valnefndarfundar í Hallgrímskirkju. Formaður kjörnefndar, Halldóra Þorvarðardóttir, stýrði fundi örugglega og glæsilega. Svo beið ég – og hinir umsækjendur – niðurstöðu. Ég fagnaði þegar mér var tilkynnt að ég hefði verið valinn til að gegna sóknarprestsstöðu á holtinu. Mér þótti að vísu leitt að aðrir frábærir umsækjendur voru þar með ekki valdir en gladdist jafnframt yfir að Irma Sjöfn Óskarsdóttir var valin sem hinn prestur kirkjunnar.

Annir héldu áfram, að mörgu er að hyggja við skil í Neskirkju og síðan byrjaði undirbúningur fyrir störfin í Hallgrímskirkju. Ákveðið var að kveðjumessan yrði í Neskirkju síðasta sunnudag kirkjurársins, 23. nóvember. Ég yrði síðan settur í embætti (tekinn í notkun eins og starfsfólkið orðaði það!) í messu fyrsta sunnudag í aðventu, 30. nóvember. Við Steingrímur Þórhallson, organisti, ákváðum sálma fyrir kveðjumessuna. Ég skoðaði textana, sóknarnefndarfólkið vildi þjóna sem messuhópur á þessum skiladegi. Ég skutlaði inn í tölvuna nokkrum þönkum að gefnu tilefni. En mér leið þó hálf-einkennilega. Eiginlega alla vikuna. Hvað var að mér? Var það bara flensuræfill sem herjaði? Eða var eitthvað annað? Presturinn, sem hefur gengið sorgargöngur með mörgum, fór að hugsa og spurði hið innra: „Heyrðu, karlinn, ertu í sorgarferli? Svo kafaði ég í ávirka texta síðasta sunnudags kirkjuársins. Jesús spyr þar stórra spurninga um hvort við höfum heimsótt sjúka, fangelsaða, gefið næringarsnauðum mat – iðkað kærleika. Og þau, sem ekki hafa í sér þessa Jesúafstöðu samúðarinnar, eru mörkuð dauðanum. Þetta eru dómstextar, merking þeirra er krísa – enda merkir gríska orðið krisis dóm og dómsniðurstöðu. Boðskapur kristninnar varðar ekki yfirborðsmál heldur mennskuna í öllum víddum. Og þennan gamlársdag kirkjuársins hljómuðu dómsorð um krísu okkar allra. Við dæmum okkur sjálf.

Því vöknuðu íhuganir um eigið líf. Hafði ég staðið mig í starfi síðustu ár? Hafði ég sýnt árangur? Hafði ég ekki brugðist fólkinu í sókninni með margvíslegu móti? Ég gæti fært frávísunarrök og vikið mér undan ábyrgð og vísað á aðra. Nei, ég hafði vissulega ekki brugðist í öllu, en þó – ég sá bresti mína. Þegar ég leit til baka var mér ljóst að ég hafði ekki heimsótt alla sem ég vildi, ekki slökkt þorsta fólks eftir næringu, alla vega ekki þeirri andlegu.

Og ókyrran óx alla vikuna er ég undirbjó kveðjumessuna. Kvefpestin ágerðist og á sunnudagsmorgni var ég orðinn raddlaus. Aldrei hafði þetta gerst síðustu tíu ár. Hvað væri til ráða? Dómur himins – tjáning þess að ég hefði brugðist líka í orðum en ekki bara gerðum? Birgir Ás Guðmundsson kenndi okkur guðfræðinemum nokkur radd-krísu-trix og nú komu þau að góðum notum. Röddin skírðist nokkuð – en var þó þvæld eins og eftir sigurleik Íslendinga í fótbolta – en þó nothæf.

Ég gekk svo í morgunkælunni til kirkju. Óvenju margt fólk var að undirbúningsstörfum, sóknarnefndarfólk við veisluundirbúning, stóri kórinn mættur í upphitun, kórall úr jólaóratóríu-Bach skyldi sunginn eftir prédikun. Alls konar hugsanir læddust að. Síðasta messan? Aldrei aftur í Neskirkju? Kannski fengi ég að prédika síðar eða hjálpa til við útdeilingu? Svo dreif fólk að, eldra og yngra, og mörg þekkti ég vel. Þegar ég horfði í augu þeirra var ég snortinn á dýptina. Ég hafði jarðsungið foreldra eða maka sumra, skírt fyrir önnur, fermt ungmenni í fjölskyldum margra og gift sum. Samfélag, kirkja, söfnuður. Og svo hófst messan, kveikt var á altariskertunum, við sungum lofsöng og báðum bænirnar. Miskunnarbænin fyllti helgidóminn á jörðu og himni. Lestrarnir hljómuðu og Sigurþór Heimisson las stórkostlega. Rúnar Reynisson afskrýddi prestinn og svo var lagt var út af erfiðum og dæmandi textum sem segja þó satt um okkur öll. Kirkja er ekki fallegt hús fyrir klisjur. Kirkja er þar sem góð afstaða til Jesú er ræktuð og afstaða Jesú til manna er iðkuð. Að venju lét söfnuðurinn ræðinginn yfir sig ganga, hlustaði vel, nikkaði kolli eða setti í brýrnar vegna krísunnar.

Já, Bach dillaði, engladans jólaóratóríunnar hleypti dans í kórinn sem lyftist og hneig í hljómfallinu. Spennandi tónleikar framundan. En verð ég með þar? Verð ég ekki hættur, hvenær hættir maður að vera prestur í söfnuði? Verð ég komin í tónverk og alls konar verk í Hallgrímskirkju? Og svo Sanctus, heilagur – þessi dásamlegi hjartsláttur aldanna, viðlag kynslóðanna, játning sálna himinsins, þvert á dómsorðin, orð vonanna sem Jesús Kristur kveikti. Orð um lífið gegn dauða. Og innsetningarorðin rímuðu fullkomlega – um bikar og brauð.

Og svo stóðum við fjögur við útdeilingu. En stemmingin var sérstök. Svo sá ég tár í auga. Síðan voru fleiri tár sem féllu og ég nánast beygði af. Í lokin sungum við öll þann yndislega tímaskilasálm nr. 712 – Dag í senn, eitt andartak í einu. Þakklætið hríslaðist um mig, en tárin leituðu djúpt í vitundina. Mörg faðmlög við dyr, allir tjáðu ósk um hamingju, sum með gleði en mörg með votan hvarm og vanlíðan. Ljúfsár kveðjustund. Svo vorum við kona mín leyst út með höfðinglegum gjöfum sem verma og gleðja um ókomin ár. Droplaug Guðnadóttir og Sigurvin Jónsson héldu snjallar ræður. Takk fyrir mig.

IMG_5700

Í Hallgrímskirkju munu núverandi prestar brátt láta af störfum, Jón Dalbú Hróbjartsson og Birgir Ásgeirsson. Vísast bærast líka í þeim margvíslegar tilfinningar eins og í mér. Þeir glíma væntanlega við vistaskipti og breytingaskeið. Ég get að einhverju leyti sett mig í þeirra spor. Það er ekkert einfalt að skipta um starf eða láta af störfum, eiginlega trúarleg glíma og pílagrímsferð í hópi fólks. Svo eru hin, sem ekki voru valin til starfa. Þau glíma við höfnun og vonbrigði. Sóknarfólk og starfsfólk kirknanna gengur í gegnum breytingaskeið þegar prestaskipti verða. Tilfinningar eru ekki léttvægar heldur mikilvægar – þær “kirkjulegu” og prestslegu líka.

Undarlegur dagar að baki, undarleg vika og sérstæður tími einnig. Ég sé enn tárvot augun við útdeilingu. Tár ljúga ekki og þessi tjáðu afstöðu. Var ég að bregðast eða ekki. Dómstár? Sorgartár já – og tjáðu líklega missi, glataðan tíma, lok fremur en sárindi. Mér var ekki álasað eða skammaður, heldur var sagt að eftir yrði skarð. Nú er lokið tíma, lokið þjónustu og ég fer. Reyndar ekki langt og sum eiga eftir að koma í Hallgrímskirkju og önnur eiga eftir að óska þjónustu minnar. „Þú ert nú áfram sóknarbarn Neskirkju, kallinn minn“ sagði einn. „Við eigum nú eftir að hittast í Melabúðinni, já og kannski líka í Neskirkju“ sagði ein. Ég tilheyri þessu fólki, þessum söfnuði, þessum hverfi, er einn af þeim, deili með þeim gildum og vonum og vil að fjölskylda mín fái að njóta þeirra og líka vera þeim fang þegar á reynir. Það er gott að vera prestur og manneskja í Vesturbænum. Og þó ég færi mig um set er ég einn af þeim. Hvort sem Vesturbærinn nær upp í Þingholt eða ekki er Jesús Kristur sá sami á Högum, Melum og á Skólavörðuholti. Ferðin er á hans vegum.

 

 

 

Bleikt og blátt á aðventunni og fleira!

HP2Þjóðkirkjan hefur notað fjóra liti, grænan, hvítan, rauðan og fjólubláan í helgihaldi sínu síðustu áratugi. Litanotkun er þó að breytast og verða fjölbreytilegri og ríkulegri. Aukin áhrif eru frá erlendum kirkjum sem er vel. Hér á eftir verður farið yfir nokkra aðalliti og merkingu þeirra í skrúða kirkna. Það eru því fleiri litir í boði en aðeins þeir sem hafa skapað sér hefð og notkun í íslensku þjóðkirkjunni. Og hefðin er ekki löng og þarf stöðugt að endurskoða og endurmeta.

Konungblátt

Konungbláminn er litur konungsins og notaður til að fagna hinum konungborna. Er einnig tákn næturhiminsins sem stjarna jólanna birtist á og minnir því á Jesúkomuna. Blátt er æ meira notað á aðventutímanum fyrir jól í stóru kirkjudeildunum og þá til aðgreiningar frá fjólubláa litnum á föstunni fyrir páska. Aðventutíminn er tími eftirvæntingar, biðarinnar eftir að sveinn jólanna, guð-maðurinn, komi inn í heim manna.

Skærblátt

Táknar gjarnan himininn. Í ýmsum hefðum er skærbláminn tákn fyrir Maríu, drottningu himinsins. Skærbláminn táknar einnig frumvötnin í 1. Mósebók, vötnin við upphaf heimsins. Skærbláminn er æ meira notaður í stóru kirkjudeildunum og þá á aðventunni einnig.

Bleikt

Táknar gjarnan gleði og hamingju. Í ýmsum kirkjudeildum er bleikt notað á þriðja eða fjórða sunnudegi í aðventu, þ.e. fyrir jól og þá til að tákna gleði, fögnuð, vegna Jesúkomunnar, fæðingarinnar. Ekki ónýtt það – bleik og blátt – á aðventunni!

Rósrautt

Notað til að tákna gleði og hamingju og er notað í stað bleiks á þriðja eða fjórða sunnudegi í aðventu.

Hvítt

Hvítt táknar gjarnan hreinleika, fullkomleika og heilagleika. Hvítt er notað á hátíðum kirkjuársins, fyrsta sunnudegi í aðventu, aðfangadegi og jóladögunum (nema 2. jóladegi á Stefánsmessu), þrettándasunnudegi, skírdegi, páskum og eftir páska, þrenningarhátíð og allra heilagra messu o.fl. Einnig víða í kirkjum heimsins notað við skírnir, giftingar, vígslur og einnig við útfarir og þá sem tákn upprisu.

Silfrað

Stundum notað í stað hvíta litarins vegna skærleika.

Gyllt

Tákn gleði, hátignar og hátíðar. Gyllti liturinn gjarnan notaður til að tákna návist Guðs. Oft notað með hvítum á hátíðum, ekki síst á jólum og páskum. Oft notað sem viðbótarlitur á öðrum hlutum kirkjuársins.

Gult

Guli liturinn er ljóstákn og notað um návist Guðs. Tákn um endurnýjun og sem vonarlitur, gjarnan tengt upprisu Jesú. Notað oft í stað gyllts eða hvíts og stundum sem viðbótarlitur með öðrum lit á ýmsum tímabilum kirkjuársins, t.d. páskum.

Grænt

Grænt táknar einkum líf, vöxt og viðgang og von. Notað á Íslandi á tímanum eftir þrettánda og fram að föstu, sem og langa tímabilið eftir þrenningarhátíð og að mestu til loka kirkjuársins. Grænn er mest notaði litur kirkjuársins á Íslandi.

Ljósgrænn

Ljósgrænn stundum notaður sem ígildi hins græna. Í sumum kirkjudeildum er ljósgrænn notaður á föstunni fyrir páska en grænn notaður á tímanum eftir hvítasunnu.

Fjólublár

Fjólublár táknar gjarnan þjáningu, iðrun yfirbót, undirbúning og sorg. Þetta er algengasti föstuliturinn. Stundum notaður sem konungslitur. Hefur verið notaður á Íslandi á jólaföstu líka og er hinn eiginlegi föstulitur skv. Handbók kirkjunnar en ég legg til að við leggjum hann af sem aðventulit og notum fremur bláan í hans stað eins og margar mótmælendakirkjur eru að gera.

Vínrauður

Vínrauður er tákn þjáningar og er oft notaður í stað fjólubláa litarins. Gömlu rómönsku höklarnir á Íslandi voru gjarnan í þessum lit. Slíkir höklar eru varðveittir og líka notaðir í mörgum kirkjum og víða um landið.

Grátt

Grár er litur ösku og gjarnan litur sorgar og iðrunar. Í ýmsum kirkju heimsins er þessi litur notaður á öskudegi og á föstu sem og á dögum föstu og bæna.

Svartur

Svartur táknar dauða og sorg. Svartur er notaður á föstudeginum langa. Aldrei notaður sem viðbótarlitur með öðrum litum. Svartur notaður oft í stólur sem notaðar eru við útfarir.

Rauður

Rauður er litur nándar Guðs, litur baráttu trúarinnar og jafnvel fórna sem menn færa vegna trúar sinnar, þ.e. píslarvættis. Þá er rauði liturinn blóðtákn. Rauður er litur hvítasunnunnar, kristniboðsdags og minningardaga, t.d. Stefánsdags ef hann er haldinn hátíðlegur 2. jóladag. Kaþólikkar nota sumir rautt á pálmasunnudegi til að minna á yfirvofandi dauða Jesú.

Flott hjá þér

IMG_1006Góðan daginn kæru hlustendur. Við fjölskylda mín fórum einu sinni til Ameríku. Við lentum í Seattle og ég átti von á hefðbundinni stórflugvallafýlu starfsmanna, sem tækju út pirring sinn á okkur ferðalöngum. Nei, ónei. Elskulegt fólk mætti þreyttum útlendingum. Einn sagði með hlýju í augum “verið velkomin” og annar sagði “njótið verunnar í Bandaríkjunum.” Takk, þetta var óvænt móttaka. Smáfólkið fékk líka sinn skammt af elskulegum viðbrögðum: “Fínn hattur” og “falleg peysa.” Jákvæðnin var skýr og almenn.

Svo héldum við áfram og enduðum suður við landamæri Mexíkó og bleyttum tærnar í Kyrrahafinu. Herra Fúll og frú Fýla virtust gersamlega týnd. Var eitthvað að? Fólk hafði getu til að sjá, virða og hrósa. Jafnvel í atinu í Disneylandi og Legolandi tjáðu vandalausir ef eitthvað hreif. Svo vorum við boðin inn á heimili vina okkar og eflingarorðin flugu.

Þessi áberandi jákvæðni og hrós urðu mér íhugunarefni. Fúll og Fýla lauma sér ótrúlega oft og fljótt í umræðu fólks. En þó margt sé okkur mótdrægt er óþarfi að temja sér neikvæðni í tengslum við fólk. Börnin hafa þörf fyrir að við sjáum þau og við bregðumst við þegar þau gera vel og vinna sigra í smáu eða stóru. Nábíturinn á ekki heldur að stjórna atvinnulífi, stofnunum og þmt. fjölmiðlum. Við megum og þurfum að tjá fólki, að það og verk þess veki hrifningu og gleði. Maki þinn þarfnast að þú sjáir hann og bregðist við með jákvæðum hætti. Fólk við búðarkassa tekur jafnan vel við þegar hlý orð falla í þess garð.

Hrós varðar ekki málæði og yfirborðstjáningu, heldur að temja sér ákveðna afstöðu til annarra og lífsins. Fólk er dýrmæti og þannig skapað. Allir þarfnast orða. Við lifum í krafti tengsla, höfum þörf fyrir að vera séð, að lífshættir, hæfileikar, eigindir og verk séu færð í tal með jákvæðum hætti. Öllum verður gott af því, sem hefur verið kallað H-vítamín – hrós. Það er trúverðug lífsleikni að næra aðra með orðum þegar vert er og ástæða til. Jesús kenndi okkur þessa mannvinsamlegu nálgun. Hann hafði alltaf áhuga á fólki og sá í öllum eilíft gildi og gæði. Við þig segir hann með jákvæðum hætti og eins og satt er. „Þú ert frábær!“

Er einhver nálægt þér, sem þarfnast þess að heyra það líka? Blóm dagsins er hrós.

Bænir…

Guð gefi þér yndislegan dag og gleðiríka helgi.

Morgunorð og morgunbæn RÚV 3. október, 2014.