Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Hamingjuleitin er aðalmálið

Ferming – sérblað Fréttablaðsins. Ýmislegt hefur breyst frá því Sigurður Árni Þórðarson, sóknarprestur Hallgrímskirkju, fermdist fyrir tæpum 53 árum í Neskirkju í vesturbæ Reykjavíkur. Í ár fermast yngstu börnin hans tvö.

Tæp 53 ár eru síðan Sigurður Árni Þórðarson,  sóknarprestur Hallgrímskirkju, fermdist en í ár fermast yngstu börnin hans, tvíburarnir Jón Kristján og Ísak. Starfsins vegna hefur hann séð fermingar þróast undanfarna áratugi betur en margir og segir þær snúast í æ meira mæli um upplifun og innlifun. „Ferming var siður í samfélaginu og flestir fermdust áður fyrr. Kirkjan var eins og skólinn, stofnun sem var nýtt og sótt. Áherslan í fermingarundirbúningnum var því á fræðslu en er í dag meiri á upplifun og innlifun, sem getur orðið á kostnað fræðslu. Það er mjög áberandi hvað fermingarungmenni eru upptekin af hamingjunni. Ég hef í fimmtán ár kannað viðhorf fermingarungmenna og hamingjuleitin er þeim aðalmál. Það er æviverkefni að vinna að lífshamingjunni og fermingartíminn er mikilvægt skref á þeim vegi.“

Spyrja gagnrýninna spurninga

Sjálfur fermdist Sigurður árið 1966 og hefur margt breyst síðan þá. „Menningarsamhengið hefur breyst, einhæfnin er rofin og fjölbreytnin er meiri. En inntakið í fermingarundirbúningnum er jafn áleitið og fyrrum. Mér þótti allt fermingarferlið merkilegt og sagði alvöru já við Guði og lífinu. Fermingarungmenni nútímans grufla af miklum heilindum, spyrja gagnrýninna spurninga og skoða mál trúar með opnum huga. Þau eru raunverulega að glíma við mennsku sína og þar með Guð. Og nú er framundan ferming tvíbura minna. Ég dáist að því hvað þeir eru tengdir sjálfum sér og opna fyrir lífsreynslu og hugsa stóru málin.“

Guð gefur lífið

Í fermingunni hljóma ekki aðeins já fermingarbarna segir Sigurður, heldur já, já, já Guðs. „Við erum oft með hugann við mannheima en gleymum stundum Guðsvíddinni. Mesta undrið í fermingunni er sama undrið og í skírninni. Guð gefur lífið og lofar að vera alltaf nærri. Guð svarar fermingarspurningunni ekki aðeins með fermingaryfirlýsingu: „Vertu trú(r) allt til dauða, og ég mun gefa þér kórónu lífsins.“ Guð svarar með því að gefa allt sem við þurfum til að lifa vel og með hamingju. Hvað er ferming? Já á jörðu og já á himni hljóma saman. Fermingarungmenni staðfesta lífið sem Guð gefur, staðfestir og viðheldur.“

Mættust á miðri leið

Ferming Sigurðar var eftirminnileg, ekki síst þar sem hann var yngri en hinir krakkarnir auk þess sem þau voru bara tvö fermingarbörnin í fermingarathöfninni í Neskirkju. „Ég var ekki fermdur að vori heldur haustið 1966. Við systkinin erum tvö og stutt á milli okkar. Ákveðið var að hafa eina fermingu og eina veislu. Systir mín er eldri og hún seinkaði fermingu sinni og ég fermdist hálfu ári á undan jafnöldrum mínum, var bara 12 ára. Við systkinin mættumst því á miðri leið og vorum fermd 23. október. Ég sótti fermingarfræðslu með krökkum á undan mér í aldri sem komu úr Hagaskóla en ég var úr Melaskóla. Í fermingarfræðslunni lærði ég 23 sálma, biblíuvers og fræði Lúthers og við vorum ágætlega undirbúin.“

Sannkölluð tertuveisla

Fermingarveislan var haldin heima á Tómasarhaga og segir Sigurður hana hafa verið eins og framlag Íslands í heimsmeistarakeppni í tertugerð. „Stórfjölskyldan og fjölskylduvinir komu og m.a. biskupshjónin sem bjuggu hinum megin götunnar, Magnea og Sigurbjörn. Þau gáfu mér Biblíu sem Sigurbjörn skrifaði fallega í. Veislan endaði á eftirminnilegri myndasýningu um náttúruperlur Hornstranda en við systkinin vorum ekki spurð um útfærslu veislunnar en hún varð þó eftirminnilegur menningarviðburður.“

Var sítengdur Guði

Eftir á að hyggja var kannski ekki skrýtið að Sigurður skyldi hafa valið sér þennan starfsvettvang. „Ég var sem barn sítengdur við Guð. Efni og andi, tími og eilífð, hafa alla tíð verið mér eining. Ég sótti að og í sjóinn við Ægisíðu og var á fjöllum og kafi í veiði og náttúrupplifunum í sveitinni. Náttúra og yfirnáttúra voru systur og aldrei andstæður í lífi mínu. Fermingarfræðslan varð eitt af mörgum skrefum í minni lífsframvindu. Á menntaskólaárunum hætti ég við að verða læknir og ætlaði að læra líffræði en tók u-beygju varðandi náms- og starfs-val um tvítugt og þá vegna veikinda.“

Grein í sérblaði Fréttablaðsins – Fermingar, 26. febrúar 2019. Ljósmyndina af okkur feðgum tók Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari. 

Frá vinstri: Jón Kristján, SÁÞ og Ísak. 

Alls konar kirkjulíf og athafnir

Tilboðum um lágstemmdar athafnir fjölgar í norrænu kirkjunum. Margir vilja ekki íburðarmiklar athafnir en vilja þó fá að nýta kirkju sem þeim líkar við. Þjónusta safnaðanna er að breytast vegna breyttra þarfa. Fleiri sæjast eftir persónulegri þjónustu en stóru athafnirnar eru kannski á útleið? Þetta tengist líklega djúptækum samfélagsbreytingum, sem hafa orðið síðustu áratugina og einnig að einangrun samfélags og þjóðfélags er rofin. Að skjótast til Kaupmannahafnar er ekki meira mál en að fara vestur á Snæfellsnes.

Félagstengingar fólks eru allt aðrar í nútíð en var í fortíðinni. Áður voru íslensk samfölg næsta kyrrstæð en nú einkennast þau af hraða og flæði. Fyrrum var fólk innrammað í aðstæður og tengsl þess voru nánast ákveðin fyrir það. Nú tilheyrir fólk ekki sjálfkrafa einhverju afmörkuðu svæði, stofnunum eða hverfiskirkjunni. Eitt árið býr fólk í einhverju hverfi í Reykjavík, næsta árið í Borgarnesi, síðan erlendis og svo þar á eftir austur á landi. Í borgarsamfélaginu er flest á floti og félagstengingar eru alls konar. Dæmi úr knattspyrnunni geta orðið einhverjum til skilningsauka. Þó menn búi í Vesturbæ Reykjavíkur getur verið að fótboltaáhugamennirnir hafi mun meiri áhuga á Liverpool eða Tottenham en KR. Margir Garðbæingar eru stuðningsmenn United frekar en Stjörnunnar. Búseta tryggir ekki skoðanir, tengsl eða stofnanasókn fólks. Börn í Kópavogi fara í Hjallaskóla í Reykjavík, fólk flengist höfuborgarsvæðið á enda með börnin sín í leikskóla og sækir félagslíf í önnur sveitarfélög. Flæðið hefur mikil áhrif á kirkjulífið. Hafnfirðingar, utan eða innan þjóðkirkju, sækja kirkju í Hallgrímskirkju og fermingarbörnin í Hallgrímskirkju koma víða að.

Þótt fólk sé ekki bundið af hverfiskirkjunni hverfa trúarþarfir þess þó ekki. Flestir glíma við trú og tilgang lífsins og atgangurinn er oftast óháður búsetu og hvaða kirkjur eru nærri. Bylgjuhreyfingin í norður og vestur-Evrópu er að snúast við skv. skýrslum kirkjugreinenda. Söfnuðirnir verða og vilja koma til móts við fólk á forsendum þarfa þess, en ekki aðeins í anda kirkjuhefðanna og hvað „alltaf“ hefur verið gert. Söfnuðirnir gera tilraunir með nýtt helgihald og efna t.d. til lágstemmdra athafna. Fólk í þéttbýli er ekki bundið hverfiskirkjunni, heldur sækir það kirkju sem svarar óskum og þörfum. Skyndiskírnir og hjónavígslukvöld eru meðal þess, sem ýmsir söfnuðir á Norðurlöndum efna til. Þróunin er frá hinu almenna og til hins persónulega og kemur fram í stíl og gerð þessara athafna. Ekki er slakað á undirbúningi af kirkjunnar hálfu, en reynt að koma til móts við þarfir fólks fyrir hið persónulega. Þröskuldarnir eru lækkaðir, íburðurinn minnkaður og kostnaði er haldið í lágmarki. Ekki er innheimt fyrir þjónustu presta, organista eða kirkjuvarða. Ekki er heldur greitt fyrir afnot af safnaðarheimili og kaffi og te er á könnunni í boði kirkjunnar.

Þorum við að opna? Það er nú reyndar skylda lifandi kirkju horfast í augu við köllun sína, breytta samfélagsgerð og þarfir fólks. Breytingar kalla á breytingar. Kirkjan á að vera opin.

Stóristyrkur

Í vorbirtunni 1941 settu stúdentar upp húfur sínar. Annar landsdúxanna var kona. Dúxar eru dýrmæti og hæsta einkunn skipti máli því dúxar fengu stórastyrk. Það var peningasjóður til að kosta nám erlendis. Svo var sagt frá í fréttum ríkisútvarpsins að menntamálaráð hefði ákveðið að styrkja ekki aðeins fjóra eins og verið hafði heldur tíu stúdenta. En engin kona var þó í hópi styrkþega! Stúdentinn með hæstu einkunn í landinu, kvendúxinn í MR, var ekki meðal þeirra. Og hver skyldi ástæðan hafa verið? Rökin voru að kona sem færi utan til náms myndi væntanlega falla í fang erlends eiginmanns, ekki rata til baka til Íslands, týnast. Að fjárfesta í kvendúx væri því vond fjárfesting!

Valborg Sigurðardóttir lærði að ágætiseinkunn er engin vörn gegn spilltu valdi. Að ná frábærum námsárangri er afleiðing góðrar ástundunar en svo eru fordómar og óréttlæti allt annað. En hún gaf sig ekki og hvikaði ekki í réttlætissókn sinni. Hún hafði sigur, fékk stórastyrk ári síðar og fór vestur um haf, lærði sálarfræði í Minnesota og síðan uppeldisfræði í Massachusetts. Þar var hún metin að verðleikum fyrir að vera dúx og lúx. Hún lærði í kvennaháskólanum Smith College sem slípaði dýrmæti og agaði námsforka til þroska. Skólinn útskrifaði ekki aðeins Nancy Reagan og Barböru Bush, heldur líka Betty Friedan, Gloriu Steinem og Valborgu! Þar óttaðist enginn að menntun kvenna gerði þær villugjarnar. Í deiglu skólans mótuðust ýmsir málsvarar mannréttinda og þar með femínisma eftirstríðsáranna, sem höfðu vítæk áhrif til góðs.

Dúxinn umbreyttist í menntakonu. Stríðinu lauk, karlaherirnir streymdu heim af vígstöðvunum en meistaraneminn sem var að skrifa lokaritgerð sína var ekki með hugann við þá. Henni var ekki villugjarnt. Valborg var beðin um að stýra skóla sem gæti fagmenntað starfsfólk til starfa á stofnunum fyrir forskólabörn. Hún fór heim og faðmaði síðar Ármann Snævarr og eignaðist fimm börn. Valborg breytti íslensku menntakerfi og viðmiðum í uppeldi barna. Hún mótaði nýjan skóla, í nýju lýðveldi og á nýjum tíma. Hún skrifaði uppeldisstefnu fyrir leikskólastigið og bækur um uppeldi. Svo kenndi hún og útskrifaði um 900 fóstrur og síðar leikskólakennara á ferli sínum sem skólastjóri. Á níræðisaldri skrifaði hún og gaf út bókina: Íslensk menntakona verður til. Valborgarsaga er heillandi lykilsaga og varðar hæfni, gildi, réttlæti og vald. Og af henni getum við margt lært um afstöðu til fólks, stjórnsýslu og við erum smiðir gæfunnar.

Valborg lést 25. nóvember 2012. Síðustu lífsvikurnar las hún í Saltara Biblíunnar. Þar segir í 46. Davíðssálmi: „Guð er oss hæli og styrkur, örugg hjálp í nauðum. Því óttumst vér eigi…“ Merkingin er að mannfólkið og veröldin nýtur verndar, blessunar, styrks og hælis. Valborg naut stórastyrks, varð stóristyrkur og nýtur nú þess sem er stóristyrkur lífsins. Þar eru engin svik, ekki fordómar eða áföll. Þar ríkir friður Guðs.

Kletturinn Alcatraz

 

Hvenær erum við innan hrings mennskunnar og hvenær utan hans? Hvenær erum við tengd öðrum og hvenær ekki? Hvernig líður manni, sem er greindur frá mannfélagi, kippt út úr menningunni og færður nauðugur út í eyju, sem enginn má heimsækja nema með sérstöku leyfi og undir ströngu eftirliti? Hvernig líður manni, sem fjölskylda hans segir skilið við vegna glæpa og er síðan einagraður með siðlausum morðingjum? 

Alcatraz-eyja er í San Francisco-flóa, einangruð en er þó fyrir allra augum. Eyjan blasir við af öllu flóasvæðinu. Hún sést vel frá austurlandinu, t.d. Berkeley. Þegar gengið er um hafnarsvæðið í San Francisco sést hún vel, enda aðeins um tveggja kílómetra fjarlægð frá landi. Og þegar maður röltir yfir Golden Gate-brúna – eða ekur yfir – horfir maður niður á hana. Fyrrum var eyjan fuglaparadís. Vegna einangrunar var svo farið að nota klettinn til að hýsa fanga. Á fjórða áratug tuttugustu aldar var byggt rammgert öryggisfangelsi til að hýsa hættulegustu fanga Bandaríkjanna. Reglan í bandarískum fangelsum var einföld: „Hegðaðu þér vel annars verðurðu sendur á Alcatraz.“ Þar var endastöðin, sem ekki var hægt að flýja (hugsanlega hafa þó þrír sloppið). Á sjöunda áratugnum ákvað Robert Kennedy að leggja fangelsið af.

Ég heimsótti Klettinn með þremur sonum mínum og konu minni. Við höfðum séð hasarkvikmyndir, sem áttu að gerast þar eða lesið um fjöldamorðingjana sem þar voru vistaðir. Við fórum frá bryggju 33 San Francisco-megin. Og það var eins og að fara um borð í flóabátinn Baldur. Það gustaði á leiðinni yfir sundið og hrollurinn leitaði í kroppinn. Þungur straumur var og er í sundinu og hann var ein af ástæðunum fyrir að setja fangelsi í eyjuna. Það var og er yfirmannleg þrekraun að synda til lands vegna strauma.

Við gengum upp í eyjuna. Mannvirkin voru stór en skemmd vegna viðhaldsleysis. Við heyrðum leiðsögumenn segja sögu þrenginga, sem var allt öðru vísi en saga lífseyja eins og Flateyjar, Hríseyjar eða Vestmannaeyja. Á Alcatraz var líf fólks í bið. Kletturinn var ekki fyrir mannlíf, heldur til að vernda mannlíf fyrir ólánsmönnum, sem voru færðir út úr lífinu af tillitssemi við hina. Þarna voru þeir úti, með byssur á sér, undir eftirliti og fjarri lífinu.

Þjóðgarðastofnun Bandaríkjanna stýrir heimsóknum í eyjuna og gerir vel. Eins og aðrir gestir fengum við heyrnartól fyrir leiðsögn og stýrðum sjálf hversu hratt eða hægt við fórum. Sögurnar um fanga og tilfinningar þeirra voru sterkastar. Við komumst að því að á hátíðadögum barst ómur frá skemmtunum frá landi. En þegar veröldin hló varð harmur fanganna þungur. Þegar glaumurinn í landi barst út og í eyrun skar í hjarta og einsemdin varð stingsár.

Einn fanginn sagði frá því, að fjölskyldan hafði algerlega snúið baki við honum. Hann hafði komið óorði á fókið sitt. Honum var útskúfað, hann var náðarlaust úrhrak. Hann var morðingi í versta fangelsi Bandaríkjanna. Hann var utan hrings mennskunnar. Öll tengsl við hann voru rofin, engin bréf bárust, engin símtöl heldur og engin kom. Náðarlaus maður vænti einskis en beið aðeins endisins. Honum brá því þegar honum var tilkynnt, að hann hefði fengið heimsókn og ætti að fara að glerinu. Þar var komin systir hans. Yfirgefinn maður og ósýnilegur sem enginn yrti á nema sem fanga til frambúðar. En allt í einu var honum kippt inn í hringinn. Systir kom út úr dimmu fjölskylduútskúfunnar, fór yfir sund, upp á klett, virti lánalausan bróður viðlits, sá hann og yrti á hann. Að einhver skyldi vitja hins útskúfaða var honum djúp upplifun og breytti lífi hans. Maðurinn var uppreistur í kröm sinni. Hans var vitjað. Náðin var ekki ekki horfin.

Hvnær ertu í sambandi og hvenær ertu einmana? Hvenær ertu innan hrings og hvenær utan? Við höfum þörf fyrir tengsl, að vera séð, heyrð og virt. Mennska okkar varðar tengsl við fólk. Við þörfnust frelsis, inn á við, meðal fólks og upp á við – andlega.

Kletturinn og öll fangelsi heimsins eru tákn um menn á nöfinni. Hvað er maðurinn og hver er mennskan. Ertu séð ertu virt? Sér þig einhver, metur þig og jafnvel elskar?

„Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna,
tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar,
hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans,
og mannsins barn að þú vitjir þess?
Þú gerðir hann litlu minni en Guð,
krýndir hann hátign og heiðri … “

Við erum á rófi einsemdarinnar. Við erum sandkorn á strönd eyjar í tíma. En þó við séum einmana, óséð og enginn mannvera hlusti – erum við samt dýrmæti, sem Guð man eftir, virðir og metur. Aldrei utan Guðshringsins.

Klókir fuglar

Vinur minn sagði mér frá því að hann hefði séð máv fljúga með skel í kjaftinum og sleppa svo yfir fjörugrjótinu. Skelinn féll og brotnaði. Og það var það sem fuglinn vildi. Mér þótti þetta merkileg saga um klókindi svangs fugls sem ekki réð við að opna skel sem fiskurinn lokaði. Svo vorum við synir mínir á leið við vesturenda flugbrautarinnar Skerjafjarðarmegin. Þá sáum máv koma fljúgandi frá sjó með eitthvað í kjaftinum og stefna að flugbrautinni. Ég sagði mínum mönnum að fylgjast með fuglinum. Við sáum hann hækka sig þegar komið var yfir malbikið og svo sleppti hann. Já, mikið rétt það var skel sem maskaðist á flugbrautinni. Mávurinn flaug niður, settist að snæðingi og hóf sig svo til flugs heldur mettari. Þeir eru klókari mávarnir en ég hafði ímyndað mér í einfeldninni. Hefur þú orðið vitni að klókum mávi við skeljabrot?