Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

+ Selma Sigurjónsdóttir + minningarorð

Það sem heimurinn þarfnast nú er kærleikur – var sungið áðan. Og systur kærleikans eru efi og trú. Og saman eru þær frábærar systur, sem þurfa helst að tala mikið saman til að lífið megi þroskast gæfulega. Og þær hafa margt að segja um líf og dauða, veg og von, tíma og eilífð. Hvað er hinum megin? Hvernig er eilífðin? Á tímanum eftir páska eru þeir textar Biblíunnar gjarnan lesnir sem varða hvað tekur við, þegar dauðinn deyr og lífið lifir. Lífskraftur páska litar þennan tíma gróandans. Og ég las guðspjall síðasta sunnudags, sem greinir frá samtali Jesú og Tómasaar, sem ekki þekkti veginn, sem Jesús talaði um. Hann vissi ekki hvert Jesús færi og spurði, því trú, elska og efi bjuggu í honum. Og Jesús svaraði: „Ég er vegurinn sannleikurinn og lífið.“ Systurnar mega gjarnan ferðast saman og upplýsa álitaefnin. Öll spyrjum við einhvern tíma um hvað taki við. Og nú kveðjum við Selmu, þökkum fyrir líf hennar og gjafir. Við minnumst hennar, blessum minningarnar og beinum huga í hæðir vonanna.

Hugsandi líf

Selma fékk að halda á nýfæddum börnum og fagna þeim. Henni var í mun að vernda smáfólkið og að ungviðið mætti lifa vel. Við, sem höfum notið reynslunnar að lykta af nýburum og skoða þá, vitum að fátt er stórkostlegra en horfa í augu þeirra og finna elskuna og umhyggjuna hríslast hið innra. Öll vorum við slík smápeð. Hvað hugsuðum við þá? Og ef við förum lengra: Um hvað hugsaðir þú þegar þú enn varst í kviði móður þinnar? Gastu ímyndað þér veröldina þegar þú varst þar inni? Vissulega gastu heyrt hljóð, fannst til með mömmu þinni, fannst fyrir vellíðan hennar, þegar henni leið vel. Þú fannst fyrir veröldinni utan bumbunnar en skildir hana ekki. Vissir ekkert um liti hennar, fannst ekki fyrir vindinum, sást ekki fuglana, ásjónur þeirra sem elskuðu þig, vissir ekkert um útlit herbergjanna eða vistarveranna, sem fjölskylda þín bjó í. Nei, en þú varst samt sprellifandi. Smátilveran var þér fullkomlega nægileg. En þó tilveran væri stærri en móðurlífið skildir þú hana ekki. Við fæðumst öll fákunnandi um veröldina. Það er nóg sem gefið er til að hefja lífið. Kunnáttan, skilningurinn kemur síðar þegar þroskinn vex í þessari raunveröld okkar. Við fáum og njótum þess, sem er okkur nægilegt á hverju skeiði. Fóstrið hefur allt og nýtur síðan elskuarma til stuðnings eftir fæðingu til nýrrar veraldar. Og dæmið af fóstrinu er til skýringar um, hvernig við getum ímyndað okkur eða hugsað um eilífa lífið. Hvað tekur við eftir dauðann? Þó að þú hafir ekki getað ímyndað þér hvað tæki við þegar þú fæddist þá tók tilveran við og var margbreytileg og fjölskrúðug. Þó þú getir ekki ímyndað þér hvernig eilífa lífið verður getur það hugsanlega orðið mun stórkostlegra en þú ímyndar þér, rétt eins og tilveran varð litríkari og fjölbreytilegri en barn í móðurkviði hefði getað hugsað sér. Efinn á sér systur í trúnni og kærleikanum. Tómas efasemdarmaðurinn spurði hvernig væri hægt að vita um veginn. Svarið var: Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið /  kærleikur, efi og trú.

Æviágrip

Nú kveðjum við Selmu. Boðskapur kristninnar er boðskapur vonarinnar. Heimsmyndin er opin. Trú okkar í móðurkviði náttúrunnar er trú á, að meira sé í vændum en aðeins lokaðir ferlar. Í eða af þeirri trú talar prestur við útför. Í þeim anda kveðjum við í dag.

Selma fæddist í síðsumars alþingishátíðarárið 1930. Foreldrar hennar voru Ingibjörg Hjálmarsdóttir og Sigurjón Sigurbjörnsson. Mamman var að austan, úr Loðmundarfirði, en pabbinn af Vesturlandi, frá Hítarnesi. Þau höfðu kynnst á Seyðisfirði en vegna atvinnu Sigurjóns fluttu þau til Vestmannaeyja. Ingbörg sá um heimilið og Sigurjón starfaði sem tollþjónn og verslunarstjóri. Inga var eldri systirin og fæddist árið 1929, ári á undan Selmu.

Vestmannaeyjar voru gjafmildur uppeldisreitur þeirra systra. Mikil fjölgun íbúa varð í Eyjunum á fyrri hluta tuttugustu aldar. Þegar Selma fæddist voru íbúarnir á fjórða þúsund og hafði fjölgað tífalt á undanliðnum áratugum. Samfélag í þennslu er ungu fólki jafnan spennandi. Mikið var um að vera, alltaf eitthvað nýtt á seiði og oftast gaman fyrir börn að vaxa úr grasi. Selma hugsaði alla tíð með gleði til baka til bernskunnar í Eyjum. Hún naut þess, sem samfélagið hafði að bjóða og naut tengsla við marga æ síðan, jafvel vestur í Ameríku þegar þau Friðþjófur fóru til náms og starfa.

Selma sótti skóla í Vestmannaeyjum. Á unglingsárum hennar voru foreldrarnir farnir að horfa til lands. Fjölskyldan flutti svo til Reykjavíkur undir lok fimmta áratugarins. Þau bjuggu m.a. um tíma á Ránargötu. Sigurjón fór að vinna hjá Gefjunni og Selma fékk vinnu hjá því fyrirtæki einnig. Svo vann hún við afgreiðslustörf og m.a. hjá hljóðfæraverslun Sigríðar Helgadóttur.

Uppvaxtarárin voru ekki ein samfelld gleðitíð. Selma var átjan ára þegar hún smitaðist af berklum. Hún var send á Vífilsstaði. Hún var lánsöm og náði heilsu.

Selma eignaðist Ágústu þegar hún var 22 ára. Faðir hennar var Axel Kristjánsson.

Og svo fékk Selma óvænta hjálp við að búa Ágústu góðar aðstæður. Hún fékk happdrættisvinning, sem hún lagði inn í byggingarfélag í Kópavogi. Og svo var hús byggt og fjölskylda Selmu flutti í fallegt Sigvaldahús í Lindarhvammi.

Svo kom Friðjófur Björnsson inn í líf Selmu og Ágústu. Þau gengu í hjónaband í mars árið 1957. Ágústa sagði frá, að það hefði kannski ekki verið alveg einfalt fyrir móður hennar því dóttirin var með eyrnaverk nóttina fyrir giftinguna og því haldið Selmu á vaktinni! Haukur kom í heiminn í ágúst síðar á árinu. Lífið blómstraði hjá ungu hjónunum, sem komu sér fyrir í kjallaranum á Lindarhvammi. Selma rak verslunina Hlíð á Hlíðaveginum í Kópavogi um tíma og seldi vörur til hannyrða og einnig ritföng og snyrtivörur. Þegar þau Friðþjófur ákváðu að stækka við sig og fengu íbúð í Sólheimum lauk Selma verslunarrekstri. Sigurjón fæddist árið 1962.

Friðþjófur lauk læknisnámi og ljóst var að fjölskyldan færi út fyrir bæjarmörkin. Fyrsta stopp var Vopnafjörður, en þar var Friðþjófur héraðslæknir á árunum 1964-65. Og svo var það vangaveltan um framhaldsnám. Selma var opin fyrir ævintýrum. Þau hjónin ræddu hugsanlega námsstaði. Selma taldi að fyrsti kosturinn væri Ameríka fremur en Evrópa, Bandaríkin frekar en Svíþjóð. Og Friðþjófur hlustaði alltaf vel á konu sína. Og vestur fóru þau. Og Ameríkudvölin var þeim og fjölskyldunni mikið ævintýri. Þau voru langdvölum bæði í Baltimore og Milwaukee. Selma góð mamma sem lagði gott til barna sinna og ameríkutíminn var fjölbreytilegur vaxtar- og þroskatími.

Þegar námi lauk var stefnan tekin heim. Við tóku aðlögun, að koma sér fyrir að nýju á Íslandi, koma börnunum til manns og alls konar störf biðu þeirra allra. Selma starfaði sjálf lengst hjá Tryggingastofnun ríkisins eða í um 15 ár.

Ágústa er kennari í Fjölbraut í Garðabæ. Maður Ágústu var Þorsteinn Snædal, sem lést fyrr á þessu ári. Ágústa á tvo syni, Daða og Óttar. Börn Daða og Gunnhildar Ólafsdóttur, konu hans, eru Þórdís og Axel. Sambýliskona Óttars er Eva Lind Gígja og börn hennar eru Skarphéðinn og Snæfríður.

Haukur lærði myndlist og hefur starfað sem sjómaður og vinnslustjóri á íslenskum og erlendum skipum. Hann býr nú á Spáni. Kona hans er Rannveig Gylfadóttir. Dóttir hennar er Urður Hákonardóttir og á hún dæturnar Kríu og Örk.

Sigurjón er heimspekingur.

Minningarnar

Síðustu árin hefur Selma búið á Droplaugarstöðum vegna Alzheimersjúdómsins. Og þökk sé starfsfólki Droplaugarstaða. Þolendur Alzheimer og ástvinir líða fyrir og ganga í gegnum alls konar álag og tilfinningar þegar tilveran verpist, orðin hverfa og tengingar rofna. Selma naut langrar og inntaksríkrar æfi. Hún var hæfileikarík, fór víða og sá margt. Og nú er færi til að teygja sig aftur og rifja upp það sem hún var, gerði og gaf af sér.

Hvaða minningar áttu um Selmu? Manstu fagurkerann? Hún hafði skoðun á húsagerð og líka hvaða arkitektar voru bestir. Hún mat gæði mikils og vildi fremur það sem var vandað en hitt. Og svo hafði hún líka skoðun á uppröðun og fyrirkomulagi á heimili sínu. Hún hafði sem sé gott auga og fagurkerinn hafði líka auga fyrir fallegum fötum. En svo var í henni sveifla, hún gat jafnvel átt það til að gefa unga fólkinu fólkinu undirföt af djarfara taginu.

Manstu lestrardugnað Selmu? Hún las ekki bara reyfara og rómana heldur lagði í doðranta líka og rússnesku stórskáld 19. aldarinnar voru m.a. vinir hennar.

Manstu kátínu hennar og hlýju, hlátra og skemmtiefni? Mér þótti gaman að sjá hlýjuna í augum hennar þegar við hittumst á Droplaugarstöðum. Og við sjáum kímna glettnina á myndunum í sálmaskránni.

Og hvernig var maturinn hennar Selmu? Manstu hve góður kokkur hún var?

Manstu geðslag hennar og skapfestu? Selma var ákveðin og viljasterk, hafði skoðanir á sínum málum og fjölskyldunnar. Og manstu að hún var jafnan umtalsfróm? Og svo var sambandið við Ingu systur hennar gefandi.

Manstu hve ferðaglöð Selma var? Hún hafði gaman af að skoða veröldina. Hún fór með foreldrum sínum um landið og síðan með manni sínum um heiminn. Selma naut þess, að Ágústa og bræðurnir voru sjálfbjarga, og gat því farið með Friðþjófi í lengri og skemmri vinnu- og námsferðir. Þau hjón fóru víða og það var gaman hjá þeim. Þau voru samstiga.

Selma kenndi börnum sínum bænir. Það er gott að geta varðveitt traust barnsins og þora að vona. Vera í stöðu nýbura á vegi merkingarinnar. Og orð Jesú um veginn, sannleikann og lífið varða, að Guð er merkingarvaki lífsins og móðurfaðmur. Við vitum ekki hvernig handantilveran er því hið biblíulega málfar er ekki bókstafleg lýsing. Mál trúarinnar er myndræn hliðstæðu-orðræða. En við megum ímynda okkur að gæði og dásemd í vistarveru eilífðar taki dýrð Vestmannaeyja og Baltimoore fram.

Og svo verður sungið nú á eftir – og þetta eru brot af eilífðinni – himnaríkismyndir:

Ó, hve fegin vildi ég verða aftur

vorsins barn og hérna leika mér.

 

Kemur ekki vor að liðnum vetri?

Vakna ́ei nýjar rósir sumar hvert?

Guð geymi Selmu og varðveiti þig. Amen.

Minningarorð í útför í Fossvogskapellu 16. maí. Jarðsett í Gufuneskirkjugarði. Erfidrykkja í Hótel natura. 

 

Kraftaverkið 1. maí

Dagur verkalýðsins, fyrsti maí, er í mínum huga dagur undra og stórmerkja. Kröfuspjöld, þungur göngutaktur eða hávaði ræðumanna eru ekki miðja minninga minna, heldur kaffipartí sem móðir mín og vinkonur hennar stóðu fyrir. Ilmur fyrsta maí er blanda af kaffikeim og kökulykt. Hljóð dagsins eru blanda af bollaglamri og hlýjum samræðum. Birtan, þessi dásamlega sólarbirta maíbyrjunar. Kraftaverkið varð í Betaníu, á horni Laufásvegar þar sem nú er safnaðarheimili Fríkirkjunnar. 

Aðfangadagur fyrsta maí

Seinni hluta apríl var mamma í önnum við bakstur, hringdi út og suður, talaði við félagskonurnar, vinkonur sínar í Kristniboðsfélagi kvenna. Að kvöldi 30. apríl fór öll fjölskyldan með alls konar varning niður í Betaníu. Kökur voru bornar inn, stólar færðir og borð dúkuð. Alltaf undraðist ég og laðaðist að hinum dularfullu og seiðmögnuðu myndverkum Betaníu. Þarna var stór mynd af litlum börnum, annað var hvítt, vestrænt og hitt kínverskt. Þau sátu á himnesku engi með dásamleg hús í baksýn og bentu á Jesúmynd. Þetta var merkileg mynd, með mynd í mynd, sem hafði að geyma predikun, sem Lúther hefði glaðst yfir, “bendir til Jesú.” Svo voru á ræðustólsveggnum líka einkennileg spjöld með kínversku letri, sem ég botnaði ekkert í. Ég var þó viss um að textinn væri hákristilegur.

Hið himneska hlé

Svo rann hasardagurinn upp. Mamma fór snemma og allar samstarfskonur hennar. Um tvöleytið fóru kristniboðsvinir að koma í kaffi. Betaníukaffið átti sér fasta og trygga aðdáendur, sem vissu vel að í upphafi var kökuúrvalið fullkomið. Svo voru auðvitað nokkur, sem komu snemma til að styrkja kristniboð en vildu dreifa aðsókn. Þetta voru hinir praktísku en staðföstu kristniboðsvinir. Þegar nær dró kaffitíma fóru svo lúnir verkamenn úr göngunni að skjótast inn. Verkalýðsleiðtogarnir komu líka og ég skildi síðar, að þeir voru ekkert að gera sér rellu út af Marxískum kreddum um trúna sem ópíum fólksins. Verkalýðsbarátta, kristniboð, borgarastétt, kröfuspjöld og verkafólk. Allt var þetta í jafnvægi og í himnesku hléi í kristniboðskaffi í Betaníu.

Kraftaverkakonur í Kristniboðsfélagi kvenna

Blessandi gjaldkeri og formaður

Mamma sat við dyrnar. Hún var gjaldkeri félagsins og það var hefð að slíkir sætu og tækju við greiðslu og ræddu við gesti á leið inn og út. Mamma hélt á brúnni smellutösku sem hún átti og setti borgun fyrir kaffið í töskuna. Margir greiddu margfalt. Þegar á leið voru gríðarlegir fjármunir komnir í töskuna. Ég man að hún hélt vel í töskuólina. Engum hefði tekist að hrifsa til sín fjárhirsluna og hlaupa með hana.

Öllum tók mamma vel og við alla átti hún orðastað. Síðar, þegar hún var formaður, færði hún sig fram í forstofu til að geta rætt við fólk. Hún blessaði alla fyrir framlög og þakkaði fyrir stuðninginn við kristniboðið. Við dyr og í forstofu var hún í essinu sínu að þakka eða taka við greiðslu fyrir kaffi sem var eiginlega meira en borgun. Það var framlag til að kristnir menn á Íslandi gætu staðið við boð Jesú Krists: „Farið og kristnið allar þjóðir…” Kristniboðskonurnar og mamma voru að vinna Guði gagn. Allir sem komu vissu að þeir ættu hlut í stórvirki og góðu verki.

Hið smáa verður stórt í Guðsríki

Pabbi sótti svo mömmu seint að kvöldi 1. maí. Þegar hún kom heim var hún alltaf steinuppgefin en þó alsæl. Alltaf unnu konurnar í kristniboðinu stórvirki fyrir Jesú Krist á þessum dögum. Öll sem frá þeim fóru voru með fullan maga af góðmeti og þakkarorð í eyra og blessun fyrir daga og vegi lífsins. Öll fundu til þess sem fóru úr Betaníu að þau höfðu gert mikið gott með komu sinni. Öll afrekuðu eitthvað fyrir Guð. Á þessum kaffidögum í Betaníu lærði ég að í hinu smáa er mannlegt framlag til guðsríkisins. Kaffiundrið í Betaníu lifir í minningunni. Safnað var til kristniboðs í Eþíópu og sú kirkja er einhver mesta hraðvaxtarkirkja í heimi. Undrið heldur áfram. Starf Betaníukvenna bar árangur og ber enn ávöxt. Fólk í Afríku og Asíu fær menntun, nýtur heilsugæslu og fær að heyra þær góðu fréttir að Guð elskar. Þannig er kristniboð.

(Meðfylgjandi myndir eru annars vegar af Brautarhólssystrum og allar voru þær í Kristniboðsfélagi kvenna. Þær eru Lilja Sólveig, Filippía (sem notaði skáldanafnið Hugrún) og Svanfríður Guðný allar dætur Kristjáns Tryggva og Kristínar Sigfúsínu á Brautarhóli í Svarfaðardal. Hin myndin er af vinkonum í Kristniboðsfélaginu á sumarferð. Þar eru þær systur líka.)

 

Bænatré heimsins

Litríkt birkitré var í Hallgrímskirkju á föstunni. Á æskulýðsdegi þjóðkirkjunnar í byrjun mars 2019 var lögð áhersla á náttúruvernd og mannvernd. Lagt var til að tré yrðu sett í kirkjurnar og síðan gæti kirkjufólkið náð sér í garnspotta og bundið á tréð. Garnið var í sjö litum og fólk valdi sér þann lit, sem vísaði til þeirra bænaefna sem skipti það mestu máli.

Ég sótti birkitré austur í Árnessýslu og kom fyrir í jólatrésfætinum mínum við prédikunarstól kirkjunnar. Það var hrífandi að taka þátt í gjörningnum, binda garnspottana og biðja. Tréð varð litríkt í messunni og brosti við sól og mönnum. Ekkert ýtti á að taka tréð niður strax og ferðamennirnir héldu áfram að binda sína bænaspotta á birkitréð allt fram til miðvikudagsins í kyrruviku.

Í öðrum kafla biblíunnar er sagt frá alls konar trjám og lífsins tré sérstaklega nefnt. Tré hafa fangað athygli okkar og þau hafa gefið mannkyni ávexti til næringar. Tré hafa orðið tákn um öryggi, næringu, andlega líðan og velferð. Í 32. passíusálmi íhugar t.d Hallgrímur Pétursson merkingu hins græna trés og líka hins visnaða. Kristnir menn hafa um allar aldir munað, að kross Jesú var tré í þágu lífsins. Og trén, sem tákn umhverfisverndar, hafa svo sprottið upp úr jarðvegi kristninnar.

Föstutréð í Hallgrímskirkju sló í gegn. Það var tákntré sem kallaði fólk til bæna. Tréð bar bænatákn alls heimsins. Og svo grænkaði það! Á bak við alla spotta og litina sprungu birkibrumin út. Lífið lifir. Bænir virka og Guð heyrir ágætlega.

Skýtur presturinn engla?

Fyrir mörgum árum fór að vitja konu, sem hafði ekki lengur fótavist. Þegar við höfðum rætt saman um stund, reis hún upp við dogg í rúmi sínu, horfði alvörugefin á prestinn sinn og spurði: “ Er það rétt, að presturinn skjóti engla?” Ég hváði við og hún endurtók: “Er það rétt, að presturinn skjóti engla?” Til skýringar bætti hún við, að hún hefði heyrt, að presturinn hefði gengið til rjúpna, henni væri illa við slíkt og teldi það löst á ráði allra manna og hvað þá klerks. Já, ég viðurkenndi að ég hefði skotið svoleiðis engla og hún áminnti sálgæti sinn að hætta slíku. Síðan hef ég ekki skotið engla mér vitandi. Sjokkspurning hinnar öldruðu konu hafði tilætluð áhrif. Ekki held ég þó, að það sé dauðasynd að skjóta rjúpur. Öll nærumst við á því, sem lifað hefur og gefur öðru líf. Það er einn þátturinn í speki hinnar kristnu hefðar um líf Jesú og lífgjöf heimsins.

Vegir Drottins

Hvað er trú og hvernig kemur hún fram? Hvernig er Guð? Hefur guðstrú einhver áhrif á siðferði fólks? Og ef svo er hvað gerir trúað fólk og hvernig bregst það við lífskreppum? Getur verið að trú sé stundum hindrum í samskiptum? Eða eru kreppur fólks fremur tengdar geðrænum sveiflum fólks en hugmyndum þess eða lífsskoðun? Það eru svona spurningar sem eru að baki þáttaröðinni, sem sýnd var í ríkissjónvarpsstöðum Norðurlanda haustið 2018. Sýndir voru tíu þættir í fyrri umferð, en sú seinni enn ekki verið sýnd á Íslandi, hvað sem verður.

Í Vegir Drottins er fylgst með litríkri en furðulegri prestsfjölskyldu í Danmörku. Ég þekki margar prestsfjölskyldur, íslenskar sem erlendar. Sumar eru skrítnar – en þessi prestsfjölskylda í Kaupmannahöfn er ólík öllum þeim, sem ég þekki. En dramatíkin verður nú að hafa eitthvað til að vinna með. Góð saga á ekki að líða fyrir sannleikann eða jafnvel trúverðuleikann. Og Vegir Drottins er ekki um raunverulega fjölskyldu og ekki heldur um danskt kirkjulíf. Heldur hvað?

Flest fer úrskeiðis í lífi Jóhannesar prests, fjölskyldu hans og söfnuði. Lestir mannanna eru fyrirferðarmiklir og talsverður skortur er á dyggðum. Fjölskyldufaðirinn er drykkjurútur, litrík týpa en bæði nærsýnn og þröngsýnn í guðfræði. Svo heldur þessi íhaldsami og sjálfumglaði karl framhjá konunni sinni. Þau eiga tvo syni sem eru ólíkir. Sá yngri er hlýðinn gæðadrengur sem tapar áttum, viti, ráði og rænu eftir að hann varð konu að bana í herþjónustu erlendis. Og hann deyr í lok tíunda þáttar, verður fyrir bíl og helst að skilja að sektin, sem hann bar, hafi orðið honum til dauða. Eldri sonurinn er vargur í samskiptum, en tekur þó sönsum þegar hann fer út fyrir kassa fjölskyldulífsins og opnar fyrir visku og húmor austursins. Svo er það mamman, sem hefur þjónað karli sínum og kerfum hans alla tíð. Hún hefur ekki hlustað vel á sjálfa sig fyrr en norsk tónlistarkona spilar upp tilfinningar hennar. Það dagar á prestsfrúna, að hún hafi bælt hneigðir sínar. Í dramatískri flækju þáttanna gerist margt og hraðinn er mikill. Stóru spurningar um lífið þyrlast upp. Hver er tilgangur með þessu lífi? Hvernig eigum við að lifa sem manneskjur? Hver eru tengsl mín við aðra? Hvað með Guð? Er Guð farinn, dáinn, úreltur? Eru vegir Guðs órannsakanlegir, þ.e. ófærir eða kannski óvæntir?

Um valdið sem brotnar

Í þáttunum verðum við vitni að því þegar djúptækar breytingar verða og gamall heimur hrynur. Jóhannes, fjölskyldufaðirinn, er tákn fyrir úrelt karla-valdakerfi. Það stenst ekki lífið, menningarlegan fjölbreytileika, breytt samfélag, innflytjendastraum og breytt samfélagsviðmið. Gamli presturinn stenst ekki siðferðilega, guðfræðilega eða félagslega. Hann bregst öllu og öllum, sjálfum sér, konu sinni, sonum og þar með Guði, sem hann notar sem einhvers konar vonaregó sjálfs sín. Og Jóhannes prestur er æpandi tákn, um úrelta valdastofnun trúmála og þegar dýpst er skoðað valdastofnanir almennt.

Trú?

Eru þættirnir um trú og Guð? Nei, ekki sérstaklega. En kirkja og trú kemur oft við sögu vegna þess að það er prestsfjölskylda en ekki forstjórafjölskylda sem er notuð til að tala um samfélagsbreytingar, gildaþróun og breytt lífsmynstur fólks, sem reynir á samskipti og tengsl. Þættirnir Vegir Drottins eru minna um Guð og trú en um fordóma og úrelt gildi, sem leiða fólk í ógöngur, siðferðiskrísur og samslátt gilda og hugmynda á breytingatímum vestrænna samfélaga. Stofnanir, og þar með talin kirkjustofnun, höndla illa að þjóna fólki í kreppum og á hraðferð í tilraunum með gildi. Tröppustofnanir þjóna oft fremur þörfum stjórnenda og eigenda en þörfum fólks. Kirkjur í hinum vestræna heimi mega gjarnan muna að yfirmenn, kirkjueigendur, hafa tilhneigingu til að nota stofnun í eigin þágu. Í þáttunum er trú túlkuð, sem flótti frá lífinu fremur en aflvaki lífs fólks í lífsbaráttu. Trú í þessum þáttum aðskilur fólk frekar en tengir saman í samfélag, sem er skilgreining kirkju. Trú í þessum þáttum lengir bil milli fólks og skaðar hið mannlega, sem er andstæða klassísks trúarskilnings kristninnar.

Aðalpersónan hefur einfeldningslega afstöðu til trúar, siðferðis og lífs. Hann lifir í aðskildum siðferðisheimum. Á góðum dögum getur Jóhannes prestur haldið smellnar ræður, en svo lemur hann fólk óhikað með þröngsýnum boðskap lífsfjarlægrar bókstafshyggu. Hann réttlætir alls konar bresti og eigin óra með trú og guðstengslum. Trúartúlkun þáttanna er því fremur sjúkleg en heilbrigð. Í prestsfjölskyldunni eru blóðböndin sterk þó allt sé í rugli. Allir hafa sínar þarfir og upplifanir, sem þó er ekki unnið úr. Þar er hreyfikraftur þáttanna. Þetta er lemstruð fjölskylda, sem passar að ræða ekki erfiðu málin og tabúin. Og kannski eru margar nútímafjölskyldur þannig. Fólk vill vel, vill vera gott við hvert annað, stendur saman á tímum áfalla en á erfitt með að höndla aðalmál lífsins og vinna í gegnum vandamálin.

Skíthælar

Vegir Drottins fjalla sýna hve fólk getur verið miklir skíthælar. Söguhetjur þáttanna eru sjúkar. Annar sonurinn, sem virðist góður, er morðingi. Hann deyr að lokum vegna brots, sem ekki var unnið með. Áföll í lífinu deyða. Hinn sonurinn snýr baki við trú og siðferði og verður sjálfhverfur notandi fólks. Honum er þó ekki alls varnað fremur en mörgum dólgum heims. Þættirnir fjalla um spillt vald, valdastofnanir og frekju fremur en um kærleika. Þó prestakraginn hafi verið hengdur á þessa þætti eru þeir um hið sammannlega en ekki sérkirkjulega.

Sýndarlíf og völd

Vegir Drottins sýna okkur sýndarmennsku marga í samfélagi okkar. Leikrit fólks, sýndargerningar, gagnvart öllum öðrum verða að halda áfram. Allir eiga og verða að leika sitt hlutverk samkvæmt stýrikerfi hins drottnandi stjórnanda. Og þegar þarfir vanhæfs stjórnanda og spilltrar stjórnar stýrir ferð fer illa. Vont vald spillir. Hið illa veldur böli og dauða. Fjölskyldan í þáttunum gæti verið hvaða valdafjölskylda sem er, peningafólk, eigendur fyrirtækis með marga í vinnu, pólitísk valdafjölskylda. Staða og vald spilla þegar eftirlit og ganrýni fær ekki að hreinsa vitleysu og spillingu. Prestar eiga trúnaðarsamtöl við fólk á ögurstundum lífs og vita að í öllum fjölskyldum er eitthvað rotið í pokahorninu. Margir burðast með stór og óuppgerð mál, sem grátið er yfir þegar mismikið elskaðir fjölskyldumeðlimir deyja.

Elskan mest?

Hver elskar mest? Það er eiginlega mamman. Hún elskar karlinn sem er ómögulegur, drengina sína sem eru um margt mjög misheppnaðir, hún elskar líka norsku vinkonu sína. Hún talar ekki stöðugt um Guð en þjónar í kærleika.

Sonurinn Ágúst er einfeldningurinn. Hann vill vel og hegðar sér vel. Reynir að þóknast en er veikur í ósjálfstæði sínu. Hann höndlar ekki sekt og vinnur ekki úr. Í þúsundasta lið… sekt kynslóðanna kemur fram í honum og á honum. Hann deyr vegna sektar sinnar en kannski annarra líka. Getur einn dáið fyrir marga? Ágúst er sem fulltrúi ungs fólks. Hann leitar að hlutverki en misskilur sjálfan sig, stöðu sína og hlutverk, og stendur utan við líf fólks.

Húmor og leikur

Mér hefur lengi þótt húmor fléttast um allt hið danska samfélag. Og hlýja kímni hefur oftast liðast inn í danskar kvikmyndir og þætti. En furðulegt nokk, það vantar alveg húmor í Vegi Drottins. Í starfi presta sem eru alltaf við mörkin, dauða og fæðingu, kreppur og stórhátíðr er hláturinn eins eðlilegur og hinn djúpi grátur. Samtöl verða því gjarnan snarpdjúp. Í kviku fólks er myrkur og ljós, reiði og hlátur. En í samtölunum í þáttunum eru flest samtöl yfirborðsleg og án sveiflu, dýptar og húmors. Það eru fáir prestar sem eru svoleiðis. Í þessum þáttum er heilmikið talað um Guð en mjög lítið um hvernig trú hefur áhrif á gott líf. Fjölskyldudramað stýrir öllu og svo er trú og Guð eins og uppfylliefni.

Þættirnir eru sjónræn veisla. Myndatakan er flott, myndmálið kraftmikið og flæðandi táknmálið vekur marga þanka. Stjörnufans danskra leikara kemur fram. Lars Mikkelsen er frábær leikari, en karlinn, sem hann leikur verður heldur leiðigjarn þegar á líður. Ann Elenora Jörgensen túlkar prestsfrúna vel á leið hennar út úr meðvirkni og til sjálfsvirðingar. Simon Sears er skemmtilega frakkur og sveiflar sér milli andstæðna manns í leit að sjálfi, heilbrigði og trú. Adam Price er óumdeilanlega meistari.