Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Ármannsfell er Helgafell Þingvellinga

Ingólfur Arnarson, landnámsmaður, upplýsti Ármann úr Dalmannsdölum að upp frá Hrafnabjörgum fyrir ofan skóga væru sagðir landkostir og fé væri þar feitara en annars staðar. Ármann settist að í Þingvallasveit og var Ármannsfell kennt við hann. Hann hafði fé sitt í helli eins og aðrir Þingvallabændur. Þegar hann lést varð hann hinn hollvættur manna og líka eftir að kristnin komst á og hétu menn á hann sér til stuðnings. Ármannssaga yngri er samin upp úr þjóðsögum og Ármannsrímum Jóns lærða. Sagan var fyrst gefin út árið 1782. Þegar þjóðfrelsisbarátta Íslendinga hófst á 19. öld notuðu Balvin Einarsson og félagar Ármann í Ármannsfelli til að ávarpa þjóðina og brýna til baráttu. Hann var því enn nothæfur hollvættur og Ármannsfell Helgafell héraðs og þjóðar. Mörg okkar eigum okkar Helgafell, öll höfum við þörf fyrir ármann í lífinu og heppin erum við sem njótum bæði ármanns og helgafells.

Bjartar nætur – þroskasaga Dostojevskí

„Pabbi, ég mæli með að þú lesir Bjartar nætur eftir Dostojevskí,“ sagði Ísak, sonur minn. Hann hafði verið að lesa bókina á kvöldin eftir göngudaga þeirra bræðra hátt í svissnesku Ölpunum – og hreifst. Það eru forréttindi að börnin manns rétta manni bækur til samtals. Ég var áður búinn að puða í Karamazov-bræðrunum sem er þroskaverk Dostojevskís og varð forvitinn um þetta æskuverk sem hann gaf út aðeins 27 ára.

Mér þótti margt forvitnilegt við Bjartar nætur, m.a. sögusvið Pétursborgar. Nærri hálf milljón manna bjó í borginni þegar sagan gerðist fyrir miðja 19. öld. Dostojevskí lýsir m.a. hvernig borgarbragurinn breyttist þegar fjöldi fólks fór í sumarhallirnar og sveitasetrin – dacha. Mér kom á óvart hve stór yfirstéttin var og að sumarfjörið hefði færst út í sveitirnar í kraganum umhverfis borgina. Mér þótti líka áhugavert að lesa um hvernig næmur og ungur maður glímdi við samskiptareglur og hvernig siðferðismótun ungra kvenna gat orðið í rússneskri borg í vexti. Bókin varð mér marglaga fræðslurit.

Sagan er þroskasaga og tímaramminn er aðeins fjórir sólarhringar. Söguhetjan er ungur maður sem glímir við einsemd, tengslaleysi en dreymir um djúptengsl. Hann gengur fram á snökktandi konu og síðan er sagt frá samskiptum þeirra og samtölum. Samfundirnir flétta saman strengi og þræði merkingar. Í sögunni er heimspekileg dýpt, guðfræðileg næmni og tilvistarleg nákvæmni sem er forsmekkur síðari sálarspegla Dostojevskís og rússneskra skáldsagna.

 Í guðfræðilegum skilningi má lesa söguna sem leit að ást sem er óháð yfirráðum eða eignarhaldi. Draumadrengurinn speglar tengslaþorsta – en hann elskar án þess að krefjast. Ást hans er handan allrar kröfu. Þetta er ekki saga um brostnar vonir heldur sálarsaga um að gildi djúprar reynslu jafnvel þótt hún vari stutt. Elskuhugsun kristninnar er jú að gjöf hafi gildi þótt hún sé ekki endurgoldin. Þegar stúlkan, Nastenka, velur elskhugann í stað söguhetjunnar bregst hann hann ekki við með sjálfhverfri reiði heldur þakklæti: „Blessuð sért þú fyrir þessi fjögur kvöld hamingju.“ Afstaðan er jákvæð en ekki neikvæð krafa. Þakklæti í sorg líknar og læknar.

Bjartar nætur á norðurslóð eru ekki bara sjónarspil heldur tákn um andlega vídd sem Dostojevskí orðar og nýtir. Sumarnætur eru honum trúarlegar, sýna ljós í myrkri einsemdar. Ljós í trúarhefð Biblíunnar opinberar, afhjúpar og stingur jafnvel. Draumajói Dostojevskís lifir í ljósinu og verður meðvitaður um eigin einangrun. Sagan verður n.k. helgiganga ungs manns á leið lífsvisku og þroska. Hann sér sig, hlutverk sitt og líf í nýju ljósi. Hann lærir að bregðast við eigin innri manni, öðru fólki og samskiptum með nærfærni og mildi. Ástaráfallið verður honum til þroska. Lífið er vegferð opinberunar.

Guðfræðilega má lesa Bjartar nætur sem dæmisögu um blessun, þetta sem kallað er náð á máli kristninnar. Í þessari sögu er náðin tengd hinu fínlega og birtist í samtölum, viðkvæmum samverustundum, mildi elskunnar, snertingu og reynslu augnablikanna. Boðskapur Dostjojevskís er að hið guðlega birtist fólki sem þorir að reyna og sjá. Jafnvel stuttir samfundir fólks sem glímir við lífsmálin geta orðið helgistundir sem veita þroska. Eilífðin birtist líka í augnablikunum.

Í anda rómantískra forvera eins og í sögu Goethes um Werter unga lifir sögupersónan í tilfinningauppnámi. En þroskasaga Dostojevskís lýkur ekki með sjálfsvígi heldur þroskaglímu við sorg og áfall. Sögur Dostojevskís fara alltaf á dýptina, líka þessi æskusaga hans. Hún á því enn erindi til fólks sem lætur sér ekki nægja skorthugsun efnishyggju eða einhæfni sjálfhverfunnar.

Takk Ísak – mögnuð saga – Dostó er djúpur.

Ég las ensku Penguin-útgáfuna sem heitir White Nights í þýðingu Ronald Meyer. Íslensk þýðing Arnórs Hannibalssonar, þess mæta og góða kennara míns, heitir í hans útgáfu Vornætur: Úr endurminningum draumóramanns og kom út árið 1998. 

Limits and Life

Limits and Life: Meaning and Metaphors in the Religious Language of Iceland not only contributes to the field of Nordic cultural history, it is a valuable resource for those who may find themselves confronting threats and preparing for catastrophes in the twenty-first century. How can we best cope with traumatic events in nature, society, and the home? Facing and interpreting limits has been the pivotal religious task of Icelanders throughout the centuries. Strategies for survival became a necessity and included interpretations that assisted in coping with these crises along with strategies of escape. The theology of Icelanders offers potential ways for coping with difficulties and suggests strategies for addressing the limit-issues threatening us and later generations.

“Given the harsh beauty of the environment, it is not surprising that Icelandic religious thinkers should emphasize liminal features of human existence: death, finitude, transience, threats, challenges. Sigurdur Arni Thordarson distinguishes between two types of theological response: struggling responsibly to bring forth what is good in the world and escaping to an inner spirituality. Proposing strategies for overcoming the dualism of nature and spirit, the author has written a book that is very relevant to today’s global ecological crises.”

Peter C. Hodgson, Finney Professor of Theology Emeritus, Divinity School, Vanderbilt University, Nashville, Tennessee

“Limits and Life is a central work and a key to spirituality in Iceland. Sigurdur Arni Thordarson demonstrates an indigenous religious spirituality informed by European theological analysis. His profound and original interpretation allows Icelandic religious tradition to become a creative and powerful source for theology struggling with limits and crises of the future.”

Pétur Pétursson, Professor of Practical Theology, University of Iceland.

This is the back-page of Limits and Life. The book can be bought from Blackwells and other international book-sellers and it is also in major academic libraries. On ChaptGPT summary of the book. 

Skordýr í salatinu

Við ræktum lífrænt og notum ekki skordýraeitur. Grænmetið er heilbrigt, sprelllifandi og skordýrin hafa áhuga! Við skolum salatið annað hvort með því að láta salatblöðin liggja í köldu vatni eða eplaediksblöndu. Þurrkum með því að hrista blöðin eða þurrka þau með hreinu viskustykki eða klút. Síðast notum við þeytivindu, salatþurrkuna, sem vindur salatblöðin hratt og ef einhver skordýrin eru eftir vatnsbaðið þeytast þau úr. Salatþurrka er þarfaþing – líka á rigningartíð þegar salatið er blautt. 

  1. Skola í köldu vatni

Salatblöðin eru tekin af stilknum. Blöðin látin liggja í köldu vatninu í 5–10 mínútur og skordýrin fljóta upp. Endurtaktu ef þarf. Þetta dugar oftast!

  1. Eplaedik

Eplaedik (eða vínedik), 1 msk edik í 1 lítra af vatni. Liggja í vatninu í 10–15 mínútur. Skola svo vel með köldu vatni.

  1. Þurrka með salateytingu

Eftir skolun er gott að nota salatþurrku sem þeytir (annars með viskustykki). Blaðlýs sem ekki voru fjarlægðar skolast út við snúninginn.

 

Leiðarvísir og borgarskipan Nikulásar ábóta

Nikulás Bergsson ábóti frá Munkaþverá skrifaði ferðabók og borgalýsingu pílagrímaferðar sem hann fór frá Íslandi til Rómar og síðan áfram til Jerúsalem. Ferðin var líklega farin á sjötta áratug 12. aldar, þ.e. milli 1152-1158. Ferðarskipulag Nikulásar var í samræmi við helstu pílagrímaleiðir í Evrópu á miðöldum og Nikulás skrifar lýsingar á helstu leiðum og viðkomustöðum.

Textinn er elsta varðveitta norræna ferðalýsingin og því margir sem hafa birt hana í tengslum við rit um pílagrímaleiðir og evrópska menningu miðalda. Nikulás Bergsson skrifar ekki aðeins leiðarlýsingu heldur lýsir líka helgistöðum, þ.e. kirkjum. Í Róm lýsir hann Laterankirkjunni, Péturskirkju og Santa Maria Maggiore-kirkjunni. Hann segir einnig frá hve margir pílagrímar voru á ferð og hvert gildi helstu staða var í kristninni. Í Jerúsalem lýsir hann Grafarkirkjunni, Golgatahæð og Olíufjallinu.

Í Skemmunni er texti og upplýsandi skýringar Luana Giampiccolo á riti Nikulásar. Slóðin er að baki þessari smellu.

Á https://no.wikipedia.org/wiki/Nikulás_Bergsson#Tyskland er yfirlit ferðaleiðar ábótans.