Stjórn Landverndar ákvað að fjölga í stjórn Alviðru úr þremur fulltrúum í fimm. Núverandi stjórnamenn eru Auður I. Ottesen, gjaldkeri, Kristín Vala Ragnarsdóttir, fulltrúi stjórnar Landverndar, Margarita Hamatsu, Sigurður Árni Þórðarson, ritari, og Tryggvi Felixson, formaður. Myndin var tekin á fundi stjórnar Alviðru 8. mars 2025. Með vorinu lifnar Alviðra við eftir vetrardvala. Sjálfboðaliðar SEEDS mæta um miðjan apríl og vinna við endurbætur á fjósinu og fleira. Grenndargarðurinn tekur til starfa í maí og stangveiðimenn fjölmenna á bakka Sogsins. Skólarnir eru boðnir velkomnir með sumarkomu og opið hús verður fyrir kennara 25. apríl. Í sumar verður svo fjölþætt opin fræðslu- og upplifunardagskrá sem lýkur með uppskeruhátíð í september. Verið velkomin í Alviðru.
Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar
113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.
Hættum að byggja á uppfyllingum!
Í stórviðrum og brimi síðustu viku gekk sjór á land á suðvesturhorninu. Víða urðu skemmdir á mannvirkjum og dæla varð úr mörgum húsum á höfuðborgarsvæðinu. Við Skerjafjörð skemmdust göngustígar, mikið af þara barst á land sem og grjót og möl. Fjörukambarnir rofnuðu víða, möl og grjót í fjörunni sópaðist tugi metra upp á land og nýir malarhólar mynduðust. Ef sjór hefði staðið 20 cm hærra hefði farið verr og sjór flætt í fjölda húsa. Nú er ráð að viðurkenna breytingar á sjávarstöðu og virða stórflóð og huga betur að varnargörðum. Breytum forgangsröð varðandi húsbyggingar og mannvirkjagerð. Hættum að byggja á uppfyllingum.
Myndin er af grjótuppburði við Skerjafjörð. Áður var þarna fallegt tún.
Anna Kristín – blessuð veri minning hennar
Anna Kristín Arngrímsdóttir er látin. Hún var frænka mín. Þegar hún kom suður til að hefja leiklistarnám kom hún oft í heimsókn á heimili mitt, til að gleðja frænku sína, kynnast fændfólkinu og líka til að fá lánaðar bækur. Mér þótti gaman að ganga með fallegu en feimnu frænku meðfram mörgum bókaskápum heima og fylgjast með hvernig hún valdi. Hún fékk lánaðar þær bækur sem tengdust leikritum eða leikhúsinu, augljóslega til að menntast og lesa sér til. Stundum staldraði hún við ljóðabækurnar og fagnaði eftirminnilega vel þegar hún fann kvartmeter af bókum Davíðs Stefánssonar. Það kvöld fór hún klyfjuð til síns heima. Hún sagðist brosandi ætla að æfa sig á upplestrinum sem hefur orðið með bjartari og hlýrri blæ en hjá skáldinu frá Fagraskógi. Takk fyrir allar sýningarnar. Blessuð veri minning Önnu Kristínar og Guð umvefji ástini hennar og okkar.
Anna Kristín er sjötta frá vinstri – í hópi leiklistardrottninga.
Dagbók pabba – Kiev og Úkraína
Ef hringarnir gleymast í giftingu – hvað þá?
Meðan hvorugt hjónaefna segir nei í hjónavígslum geta frávik kætt og óvænt atvik dýpkað minningagildið. Brúðguminn hafði ætlað að taka hringaskrín úr vasanum þegar komið var að því að draga hring á fingur brúðarinnar. En skrínið hafði gleymst í skrúðhúsinu. Vandræðasvipur kom á unga manninn og ég áttaði mig á vandanum. Og þar sem athöfnin var fámenn voru allir slakir. Ég tilkynnti hlé í athöfninni og bað ungu hjónin sem voru búin að segja já-in sín að kyssast sem mest og tala á milli faðmlaga meðan ég skaust fram. Ég bar svo boxið með tilþrifum í kirkju. Hjónin ungu skellihlógu og athöfnin varð bæði djúpalvarleg með ákveðinni einbeitni og jáyrðum og líka eftirminnilega kátleg. Óttist ekki mistökin. Þau eru hluti af lífsflæðinu og vaxtarferli. Hvernig er gott hjónaband? Margþátta flétta. Hið óvænta má vera þar – og hlátrar líka.