Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Saffran, hrísgrjón og sætkryddað, hægeldað lamb

Litríkur matur og fjölbreytilegur matur þjóðanna fyrir botni Miðjarðarhafs heillar mig. Elín Sigrún, kona mín, og Yotam Ottolenghi sannfærðu mig um að það er lokkandi að skreyta mat og leyfa litum að brosa þegar matur er borinn fram. „Plenty is more“ á betur við mig en matarstefnan „less is more.“ Heba Helgadóttir kom í heimsókn á laugardag og opnaði masterclass.com fyrir okkur Elínu. Við skemmtum okkur svo við að horfa á tvo þætti með meistara Yotam. Litir fylltu höfuð okkar og svengdin magnaðist. Ég var svo marga klukkutíma í kokkhúsinu og eldaði. Meðfylgjandi er mín útgáfa af hægelduðu lambalæri Ottolenghi sem er kryddað með sætmeti og kryddi sem margir tengja kökubakstri. Hrísgrjónin, undir írönskum áhrifum, eru hluti uppskriftarinnar. Hægeldun er meðmælanleg. Þau sem meta svínakjöt meira en lambakjöt geta notað uppskriftina. Uppskrifin miðuð við sex til átta.

Hráefni fyrir kjötsteikingu

1,2 kg lambabógur eða læri úrbeinað

Salt og pipar

Tvær msk ólífuolía

8 hvítlauksrif

50 gr engifer, afhýddur og grófskorinn

3 tómatar grófskornir

1 gulur laukur grófskorinn

1 jalapeno eða rautt chili (fræhreinsað) grófskorið

20 gr kóríander, lauf og stilkar grófskorið

1 msk malað broddkúmen – cummín (ruglið ekki saman við kúmen)

1 msk malaður kanill

1 ½ tsk allrahanda

150 gr grísk jógúrt (ekki beint úr ísskáp heldur við herbergishita)

5 gr steinselja

Hráefni fyrir hrísgrhjónaréttinn

400 gr hvít basmatihrísgrjón (látin liggja í vatni amk klukkustund eða heila nótt)

1 tsk saffransoð

30 gr smjör

5 negulnaglar

3 heilar kanilstangir

Salt

Hráefni fyrir bragmikla og litríka skreytingu

60 gr sultanarúsínur (ljósi liturinn er mikilvægur fyrir litasprengjuna en auðvitað hægt að nota venjulegar rúsínur eða kúrenur)

20 gr barber – eða gojiber (sem maður linar í heitu vatni)

2 msk eplaedik

30 gr smjör

80 gr skornar (þver eða langsum) hvítar möndlur

Salt

5-10 gr kóríanderblöð grófskorin

10 gr steinselja grófskorin

Forhita ofninn á 165 °C fyrir þriggja tíma steikingu, lægra fyrir lengri steikingu. Skera kjötið í hnefastóra bita, þurrka og krydda með salti og pipar. Olía í stóran pott sem má setja í ofninn. Setja á meðalhita og þegar olían er orðin heit er kjötið steikt á alla kanta og þar til það er brúnað. Þá er kjötið sett til hliðar á fat.

Hvítlaukur, engifer, tómatar, laukur, jalapeno eða chilli og kóríander sett í matvinnsluvél og grófsaxað. Gætið að mauka ekki alveg heldur leyfa hráefnunum að halda sér. Gróft maukið svo sett á pönnuna og steikt á meðalhita í nokkrar mínútur. Bætið síðan við broddkúmeninu við (cummín), kanil einnig og allrahanda. Sjóðið í þrjátíu sekúndur. Komið svo kjötbitunum fyrir ofan á maukinu, þremur bollum af vatni, slatta af salti og pipar. Lok yfir og sett í ofn. Steikt í þrjá klukkutíma – má vera lengur en þá þarf að lækka hitann.

Eftir steikingu er fatið tekið út, safinn settur í skál, kjötið sett í fatið að nýju og hluti safans/mauksins sett yfir kjötið. Fatið, án loks, sett í ofninn aftur og steikt í hálfa klukkustund. Safinn í botni fatsins veiddur upp með ausu nokkrum sinnum á þessum hálftíma og hellt yfir bitana. Kjötið og þykkt maukið á helst að vera orðið brúnt í lokin. Tekið úr ofninum og sett til hliðar til að kjötið taki sig.

Þegar klukkutími er eftir af steikingunni er hægt að huga að hrísgrjónum og áleggsmaukinu.

Búið til saffranvatn, 100 ml sjóðheitt vatn yfir 1 tsk saffran (gætið að því að saffranvatnið slettist út ekki því liturinn er sterkur). Látið standa þar til búð er að sjóða hrísgrjónin.

Smjör er sett í pott og brætt. Á meðan er allur vökvi látinn renna af hrísgrjónunumn. Síðan eru grjónin sett út í bráðið smjörið og hrært í svo grjónin séu þakin smjörbráðinni. 3 bollum af vatni bætt út í, salti einnig. Lokið sett á og þegar suðan er komin upp er hitinn lækkaður niður eins og hægt er og soðið í 15 mínútur. Þá er hitinn tekinn af og potturinn látinn standa með hrísgrjónunum í aðrar 15 mínútur.

Meðan hrísgrjónin sjóða er skreytingin útbúin. Setjið sultan-rúsínurnar og berin í skál með eplaedikinu og látið marinerast í amk 15 mínútur. Setjið smjör á steikingarpönnu og bræðið við meðalhita. Setjið hvítt möndlukurlið (skornar möndlurnar) í smjörið og steikið þar til möndlurnar eru orðnar gullnar að lit. En brennið ekki. Takið af hitanum. Hellið af afgangsediki af blöndu rúsínum og berjum og setjið á möndlupönnuna ásamt með kórðíander og steinselju. Hrærið saman.

Takið hrísgrjónin úr pottinum og setjið á stórt fat. Fletjið út hrísgrjónin á fatið. Notið teskeið til að sletta út saffranvatni hér og þar á hrísgrjónin og notið svo gaffal til að hræra í kringum saffransletturnar til að sumt af hrísgrjónunum verði gult en annað hvítt. Hrísgrjónin eiga að vera mislit og það gefur réttinum ævintýralegan blæ.

Setjið kjötið í skál og góðan hluta mauksins í skál. Notið tvo gafla til að rífa sundur meira bitana. Ef eitthvað af hjötinu lítur illa út (húð eða sinar) má setja það til hliðar til nota síðar. Bætið grísku jógúrtinni út í og blandið öllu saman. Allt fer síðan í útflattan bing ofan á hrísgrjónin á stóra fatinu. Síðan er berja-, möndlu- og kryddblöndunni dreift yfir kjötið.

Ef eitthvað vantar upp á litríkið má skera ofurlítið af kóríander og steinselju til að setja ofan á alla dýrðina. Afgangur af steikingarmauki má nota sem viðbótarsósu. Setjið þá ofurlítið af grískri jógúrt út í og hrærið.

Þessi frábæri réttur er góð útgáfa af lambakjötsrétti. Guli saffranliturinn minnir á að dauðinn dó og lífið lifir. Sem sé páskar allt árið.

Þökkum Drottni, því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen.

Þingvallakirkja

Þingvallakirkja er smá en lykill að dyrum hennar er stór. Helgistaðurinn Þingvellir eru stórir en kirkjan er miðjan. Kirkjan var reist sumarið 1859 og vígð á jóladegi sama ár. Kirkjusmiður var Eyjólfur Þorvarðarson frá Bakka á Kjalarnesi en hann smíðaði einnig kirkjuna í Brautarholti á Kjalarnesi. Þingvallakirkja er með bindingsverki og í sama stíl og flestar timburkirkjur frá miðri 19. öld. Listasúð er á kirkjunni að utan, en spjaldaþil innan stokks. Þegar von var á konunungi árið 1907 var smíðaður nýr turn á kirkjuna. Fyrstu áratugina var kirkjan bikuð að utan, en var máluð á síðasta áratug 19. aldar. Mætti huga að bikun að nýju þegar kirkjunni verður næst gert gott til.

Úttekt 1860

Í úttekt á hinni nývígðu Þingvallakirkju segir í prófastsvísitasíu frá 1. júlí 1860: „Kirkjan er tæplega eins árs, vel byggð úr eintómu timbri. Hún er á lengd rúmar 12 álnir og á breidd rúmar 8 álnir, stafasætin 3 3/4 ál. í 5 stafgólfum. Sætisstofa í þremur fremri stafgólfum, en íbjúg súðshvelfing yfir þeim tveim innri. Hún er þiljuð innan súþarþili  til hliða í brúnása, innri gaflinn upp undir hvelfingu en fremri gaflinn upp undir bita. Altarið er lágaltari. Knéfallið er að ofan fóðrað með grænu klæði… …Til kirkjunnar er allt sem vandaðast og pryðilega frá öllu gengið.“

Besta umsjón og umhirða

Fimm árum síðar eða 1865 var lögð rennisúð á kirkjuna og turninn. Þá var turninn klæddur með timbri, en hafði áður verið varinn með þakdúk, sem reyndist illa og hefur væntanlega lekið. Næstu ár er í vísitasíugerðum sagt, að kirkjan sé góðu ástandi og njóti bestu umsjónar og umhirðu, enda hefur hún sjálfsagt notið þess að prestsaugun voru á kirkjunni og ferðamenn gistu í henni! Við úttekt vegna prestaskipta 1879 (sr. Símon Beck lést og sr. Jens Pálsson tók við embætti) sjá úttektarmenn enga galla. En tveimur árum síðar var farið að bera á fúa í listum.

Árið 1884 var gert við kirkjuna. Allt ytra þakið var tekið af henni, einnig allt innra þakið á suðurhlið og nokkuð af innra þakinu á norðurhlið. Var það timbur sem ekki var fúið síðan notað og nýju bætt við. Þá var einnig rifið það af turni, sem var rotið og fúið. Turnþak, turnveggir og allt kirkjuþakið voru þakin norskum spæni.

Árið 1890 var farið að ræða um að mála þyrfti kirkjuna. Ætlunin var að drífa í því strax það sumar. En ekki varð þó úr fyrr en þremur árum síðar, rétt fyrir vísitasíu Hallgríms Sveinssonar biskups árið 1893. Yfirvofandi biskupskoma hefur gert mörgum kirkjum gott. Í vísitasíugerð segir, eftir að getið er nýmálunar m.a.: „Kirkjan er yfirhöfuð lekalaus og í allgóðu standi. Þó vottar fyrir bilun á gólfslám í kórnum, sömuleiðis er grundvöllurinn ókalkaður og sumsstaðar dálítið bilaður og þyrfti að bæta úr því innan skamms.”

Þingvallakirkja skekktist í skjálftunum árið 1896. Þá fór að bera á fúa og hafði prestur góð orð um, að hann ætlaði að járnverja kirkjuna á næstu árum. Fyrir vísitasíu 1901 var grunnur steinlímdur, gert við bilanir á suðurhlið og austurgafli og þá var farið að járnverja því suðurhliðin var komin með járn. Þó spónn hafi verið farinn að bila eftir 17 ára álag var kirkjan lekalaus við aldamótin 1900. Á næstu árum var svo bætt við þakjárni utan á kirkjuna. Kirkjan var því um tíma nokkuð sundurgerðarleg.

Laglegur Rögnvaldarturn

Þegar prófastur vísiteraði árið 1905 sagði hann að honum þætti kirkjan of sviplítil og lagði fram teikningar húsameistara ríkisins að kirkjuturni. Áætlunin var samþykkt og 9 álna hár turn var síðan byggður. Efst var „ … kúla og þar uppaf stöng og vindhani með ártali.” Ártalið 1907 var miðað við turngerðina og hefur síðan ruglað fólk um aldur kirkjunnar.Til að auka dýrðina var turninn málaður ljósgrár að neðan en rauður að ofan og “… er yfirleitt mjög laglegur.” segir prófastur í vísitasíugerðinnni.

Þrátt fyrir góða hirðu fór margt að bila á öðrum og þriðja áratug 20. aldar, en lítið var þó gert. Ástæðan var “dýrtíð og fátækt kirkjunnar.” Árið 1915 voru stokkar undir gólfi kirkjunnar eru orðnir lélegir og þröskuldur farinn að fúna. Fleira var að og metið svo, að ekki yrði undan viðgerðum vikist. Bætt er við „…ef kirkjan verði ekki endurbyggð bráðlega” svo ástandið hefur ekki verið gott. En kostnaður skyldi greiðast af landsfé, „ … þar sem kirkjan standi á svo fornfrægum stað.” Ekkert varð þó úr stórviðgerðum. Tillögur voru svo gerðar um að rífa kirkjuna og byggja “almennilega” kirkju úr steinsteypu. Úr þeirri framkvæmd varð þó ekki og dittað var að kirkjunni í tengslum við Alþingishátíðna 1930. Fyrir lýðveldisstofnun var að nýju rætt um hvort rífa ætti gömlu kirkju og byggja nýja, þ.e. úr steinsteypu. Mín skoðun er að Þingvallakirkju þyrfti að gera sem upprunalegasta í útliti, þ.e. bika hana, þótt halda mætti í turninn af arkitektúrsögulegum ástæðum.

Hver á kirkjuna?

Þingvellir voru lén (beneficium) og sátu prestar Þingvallastað, líklega allt frá elleftu öld. Eftir að 1928-lögin um helgistaðinn (þjóðgarðinn) Þingvelli tóku gildi hefur Þingvallanefnd farið með húsbóndavald á Þingvöllum. Ráðbreytingin ruglaði og ekki var ljóst hver réði hverju í málum kirkjunnar. Af varð reiptog milli heimafólks og Reykjavíkurvaldsins eins og það var stundum kallað. Oftast var þó góð samvinna þó stundum væri nuddað. Tilefnin voru ýmis, t.d. lýðveldishátíðin 1944 og hundrað ára afmæli kirkjunnar árið 1959, þröngbýli á prestsetrinu, sem Þingvallanefndarmenn hirtu oft ekki um, þegar nefndin réð fyrir einni burst bæjarins.

Árið 1962 var rætt á fundi sóknarnefndar hver ætti Þingvallakirkju og grafreitinn. Ákveðið var að skrifa biskupi til að fá úr þeim spurningum skorið. Tilefnið var m.a. hver ætti að sjá um viðhaldið og viðgerðir á kirkjunni. Þingvallanefnd hafði ráðist í framkvæmdir án samráðs við sóknarnefnd. Síðan hefur ríkisvald, þ.e. Þingvallanefnd, gætt þess að eiga góða samvinnu við heimafólk í Þingvallasveit. Hefur kirkjunni jafnan verið vel við haldið síðustu áratugina, málað hefur verið reglulega og gert við skemmdir.

Frá og með 1953 sátu prestar Þingvelli og allt til 1997. Þá yfirtók Þingvallanefnd, f.h. ríkisins, prestssetrið og breytti því í mótttökuaðstöðu forsætisráðherra og aðstöðu fyrir starfsmenn þjóðgarðsins. Lögin um þjóðgarðinn (frá 1928) breyttu ekki eignarstöðu Þingvalla. Þeir voru kirkjueign þótt lögin feli ríkinu umsjón. Þingvallalögin eru því lög um nýtingu fremur en um breytingu á eignarhaldi. Ríkið hefur í flestu verið góður ráðsmaður Þingvalla, en þarf að æfa sig reglulega í tillitssemi við eiganda staðar, kirkjuhússins, þjóðgarðs og Þingvallajarðar. Óbyggðanefnd vann ágæta skýrslu með úrskurði sínum um þjóðlendur í Árnessýslu. Nefndin kvað ekki upp úr með eignarhald Þingvalla. En ríkið eignast ekki kirkjulendur þótt því hafi verið falin ráðsmennska í nokkra áratugi.

Instrumenta et ornamenta

Predikunarstóllinn er frá 1683 en fríkkaður af Frank Ponzi á seinni hluta tuttugustu aldar. Árið 1883 var í vísitasíugerð getið, að kirkjunni hafi verið gefin klaka-öxi! Oddhaginn Einar Jónsson gerði skírnarsáinn, en kvenfélagið í hreppnum gaf hann kirkjunni. Tinfat, sem hékk á vegg og var notað við skírnarathafnir, hvarf úr kirkjunni nærri miðri 20. öld. Sögur fóru af hvarfinu og m.a. að það hafi verið notað sem púnsfat á heimili í Reykjavík. Orgel var fyrst keypt til Þingvallakirkju 1911 fyrir samskot safnaðarfólks og fyrir arð af tombólu.

Getið er í vísitasíu árið 1911, að altaristafla eftir Anker Lund hafi verið gefin kirkjunni, líklega 1896. Saga er að baki. Smekkur heimafólks í Þingvallasveit hafði breyst frá því Ófeigur Jónsson, Heiðarbæ, hafði smíðað töflu um 1834, gert liti og málað síðan altaristöflu. Ekki allir voru sáttir við hinn næfa stíl og hangikjöt á borði fyrir framan Jesú Krist. Að frumkvæði Kristjáns, bónda og hreppstjóra, í Skógarkoti var ný tafla hins afkastamikla málara Anker Lund keypt. Gömlu töflunni var svo komið í verð. Ferðagarpurinn Disney Leith, sem oft gisti í Þingvallakirkju, keypti hana og fór með til Englands. Hún gaf töfluna sem minningargjöf til sóknarkirkju sinnar, St. Peters, í Shorewell á Wight-eyju. Þar var hún og gleymdist flestum þar til farið var að undirbúa ellefu alda byggðarafmæli Íslands árið 1974. Eftir nokkra leit fannst hún og var gefin kirkjunni að nýju. Eftirgerð prýðir hina ensku kirkju, ljómandi vel unnin tafla og ástæða til að leggja krók á leið til eyjarinnar og vitja þessarar Þingvallasögu í Englandi. Báðar töflurnar, Ófeigs og Nasarenatafla hin danska Anker Lund, eru nú á austurgafli Þingvallakirkju.

Heimildir:

Máldaga-Inventaríi-og Reikninga-bók Þingvallakirkju frá 1829 – 1959.

Vísitasíugerðir biskupa: Pjeturs Pjeturssonar, 1874; Hallgríms Sveinssonar, 1893 og Þórhalls Bjarnarsonar, 1911.

Matthías Þórðarson, Lýðveldishátíðin,  m.a. bls. 271.

Skoðun Svavars Þorvarðarsonar og Aðalsteins Maack frá 3. nóv. 1989 (tilv. húsameistara K031191.STH.).

Um leitina að Ófeigstöflunni í Englandi og Disney Leith gerði Magnús Magnússon skemmtilega heimildarmynd sem er aðgengileg á youtube. Sjá https://www.youtube.com/watch?v=yKyGS6DsxSY

Meðfylgjandi myndir. Katla, Saga og Þórður uppáklædd til að fagna dr. Richard von Weizsäcker forseta Þýskalands 17. júlí 1992. Einkennismyndin er frá 1993 og Þórður Sigurðarson er í fangi mér að fagna gestum. 

EXIT

Ég var sjö ára gamall. Vorið var komið og börnin í götunni voru úti. Það var fjör á Tómasarhaganum. Eldri strákar sem ég þekkti komu og vildu sýna okkur krökkunum inn í bílskúr við götuna. Það var galsi í hópnum og ævintýraleiðangur hófst. Strákarnir opnuðu skott á bíl sem þar var og einn úr hópnum sneri sér að mér og skipaði mér að að klifra upp í skottið. Ég hlýddi og þá var skottlokinu skellt aftur. Ég var strand í myrkrinu og æpti: „Sleppið mér út!En strákarnir hlógu. Svo heyrði ég að þeir fóru, lokuðu bískúrshurðinni og allt hljóðnaði. Á nokkrum mínútum hrundi tilveran. Ég hafði verið úti, í birtu og undir berum himni frelsis og gleði. Allt í einu var ég strand í myrkri og bjargarlaus. Ópin skiluðu engu. Ekkert skínandi exitmerki vísaði veg í myrkrinu. Engin neyðarútgangur og ógerlegt að opna læsingu á skottlokinu. Mér tókst ekki heldur að spyrna því upp. Ég vonaðist til að ég myndi finnast en hversu langan tíma myndi það taka? Myndi ég vera týndur í bílnum heila nótt? Hvað átti ég að gera? Ná í felgulykil og berja mig til frelsis, æpa þar til einhver heyrði? Eða bíða, hlusta og biðja um Guðshjálpina? Ég komst að því að það væri það eina sem ég gæti gert. Eftir klukkutíma í líflausri og illa lyktandi farangursgeymslunni kom einn af sökudólgunum og opnaði skottið. Hann hljóp svo burt. Ég brölti úr fangelsinu. Mikið var frelsið stórkostlegt, birtan undursamleg og súrefnið svalandi sem streymdi niður í lungun. Upprisa. 

Lokun

Innilokun er vond og getur valdið fólki djúptækum sálarskaða. Lokun getur verið með margvíslegu móti í lífi okkar manna. Við getum lokast í ofbeldissambandi eða í fangelsi fíkna. Vonska fólks getur farið illa með viðkvæmar sálir. Valdakerfi og hagsmunakerfi geta kramið. Áföll, veikindi og slys verða mörgum fjötrar. Kærleiksskert fólk kremur.

Oft hefur verið spurt hvað væri það hræðilegasta við það sem fólk túlkar sem helvíti? Svarið hefur löngum verið að þar væri engin neyðarútgangur, ekkert exit. Hið hræðilegasta af öllu skelfilegu erlokaður veruleiki. Dauðinn. Jesús var lagður í holu. Lífið var farið. Steini var velt fyrir hellismunnan. Engin útleið, engin flóttaleið, ekkert exit. Líkami Jesú var lokaður inni. Hann var þó ekki einn heldur í hlutverki sem fulltrúi allra manna. Í hinum fyrsta Adam voru allir menn og í Jesú voru sömuleiðis allir. Allt búið, engin útleið?

Út

Nútíma hús er svo gerð að fólk á ekki að geta lokast inni. Neyðarútgangar eru í byggingum, líka kirkjum. Til að leiðbeina fólki eru sett upp flóttaleiðarmerki. Á þeim er gjarnan mannvera á hlaupum. Þar er líka ör fyrir stefnu og oftast ljós reitur sem dyratákn. Svona merki eru líka í flugvélum og skipum. Merkin eru græn á Íslandi og í mörgum löndum erlendis en víða eru líka til rauð merki. Neyðarútgangur stendur á sumum hinna íslensku. Erlendis stendur gjarnan EXIT á merkjunum. Þau eru vegvísar sem er ætlað að leiðbeina þó dimmt sé, rafmagn farið og reykur fylli hús.

Flóttamerkin eru til að hjálpa í neyð. Þeim má treysta og stefnan út úr ógninni er gefin. En hvað um þegar við rötum í andlegar ógöngur? Eru til einhver græn leiðarmerki sem vísa veg? Jesús Kristur var ekki haminn af neinum festum. Grafhvelfingin hélt honum ekki föngnum. Dauðinn dó en lífið lifir. Opnun er einkenni lífs. Trúin sér í Jesú Kristi leiðina út úr heftingum. Ekkert myrkur er honum of myrkt, enginn sálarkreppa er honum ofraun. Engin ástarsorg er honum ókunn. Ekkert vinnupuð er honum framandi. Ekkert ofbeldi er honum fjarlægt. Hann er við hlið fólks í skottum lífsins, í hellum sorgarinnar og í lífleysu vonskunnar. Hann heldur í hendi okkar þegar við dettum, tekur á móti þegar við hrösum. Við erum laus úr skottinu því Kristur er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn. 

Páskar 2021

Ástarsaga

„Það er gott að elska“ söng þjóðpopparinn Bubbi. „All you need is love“ sungu Bítlarnir. „Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“ söng Páll postuli. Ástin er alls staðar og margvísleg. Ást til maka, barna, foreldra, eigin sjálfs og náttúrunnar. En hvað um Guð?

Hallgrímur Pétursson var ofurpoppari þjóðarinnar, ekki bara í nokkur ár heldur um aldir. En líka hann klúðraði málum sínum herfilega á unglingsárum en var bjargað. Saga Guðríðar Símonardóttur og Hallgríms er hrífandi ástarsaga fólks, sem hafði lent í rosalegum aðstæðum en þorði að elska og lifa. Þau misstu mikið, sáu á eftir börnum sínum en töpuðu aldrei ástinni. Þau unnu úr áföllum og vissu að lífið er til að elska og njóta. Þeirra smellur er eins heillandi og ástardrama getur orðið. Saga um konu, sem var rænt, herleidd, flekkuð, en varðveitti í sér undur lífs. Og svo sveinninn, sem hafði týnst í járnsmiðju í Evrópu, en var settur til að kenna íslenskum leysingjum frá N-Afríku kristinn sið að nýju. Ástin blómstraði. Þessi mikla ástarsaga varð jarðteinasaga á eftir-kaþólskum tíma. Hún er saga um hvernig hægt væri að elska þrátt fyrir hatur, lifa í reisn þrátt fyrir mótlæti, þroskast þrátt fyrir hræðileg veikindi og sækja í andlegan styrk þrátt fyrir holdsveiki. Ástarsaga, alvöru klassík fyrir allt ástarfólk.

Ástarsaga Guðríðar og Hallgríms er líka gluggi að safaríkum lífsvísdómi Passíusálma. Þar er sögð saga Guðs. Þar er uppteiknuð mynd af Guði umhyggjunnar, en ekki reiðum guði. Guð, sem kemur, en er ekki bara fastur á tróni fjarlægs himins. Guð, sem líknar og er vinur en ekki óvinur. Passíusálmarnir urðu guðspjall Íslands. Sálmarnir uppfylltu andlegar þarfir og svo var bókin lögð á brjóst látinna eins og vegabréf fyrir himinhlið. Á bak við Passíusálma er merkileg ástarsaga um Hallgrím og Guðríði. En á bak við þau og okkur öll er ástarsaga Guðs. Með því að skoða vel ástarsögur getum við komist að mörgu um Guð. Við getum líka skilið líf okkar sjálfra betur með því að hugsa um ástarsögu Guðs.

COVID-tíminn er tími þrenginga og endurskoðunar. Í öllum kreppum er hægt að bregðast við með því að flýja eða mæta. Annað hvort leggjum við á flótta og látum kreppuna fara illa með okkur. Töpum. Eða við mætum og horfumst í augu við sorg, sjúkleika, einsemd, þarfir eða áföll. Í Biblíunni og öðrum klassískum, kristnum bókmenntum eins og Passíusálmum er sagt frá lífi fólks. Þar er sagt frá farsóttum og rosalegum kreppum. Með ýmsum tilbrigðum er svo sögð mikil saga um hvernig má mæta farsóttum heimsins og öðrum áföllum. Það er erki-ástarsagan, um Guð, um heiminn og saga um fólk. Kristnin kennir að lífið er ekki aðkreppt heldur ástarsaga möguleikanna. Líf okkar er svo sannarlega stundum furðulegt, gleðilegt og sorglegt. En saga okkar og Guðs er þó ástarsaga. Kærleikurinn – ástin fellur aldrei úr gildi. Og ástarsaga Guðs er um okkur öll. Það er gott að elska.

Gleðilega páska á COVID-tíma.

Grein í Mbl á skírdegi 2021. Myndin er af gluggaskreytingu í stórverslun í San Francisco sem ég tók í janúar 2018.

 

 

Hvað meinti hann?

Hvað er inntakið eða merkingin í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar? Á fræðslusamverum í Hallgrímskirkju í mars var rætt um erindi sálma Hallgríms, uppbyggingu þeirra, tilgang, listfengi, barokk, málfar og ást. Guðríður Símonardóttir, kona Hallgríms, kom líka við sögu. Þrjár hljóðskrár urðu til í þessum samverum og hafa verið birtar á kirkjuvarpi þjóðkirkjunnar. Rætt er við Steinunni B. Jóhannesdóttur, dr. Margréti Eggertsdóttur og að auki flytur Sigurður Árni Þórðarson yfirlitserindi um um ástina í Passíusálmunum. Hægt er að nálgast og hlusta á samtölin og erindi að baki þessari smellu.