Greinasafn fyrir merki: Gísli Kristjánsson

Kvöldbæn Gísla Kristjánssonar

Ég var að taka til í bókahillum mínum og meðal annars að skoða gamlar sálmabækur. Þá datt þessi kvöldbæn úr fyrstu sálmabók móður minnar. Bróðir hennar Gísli Björgvin Kristjánsson er höfundur. Hann var elstur sex Brautarhólssystkina, orðsnjall og hagyrðingur eins og þau öll voru. Móðir mín sagði mér að hann hefði oft sett saman vísur og þegar hann var farinn til náms í Hóla eða Kaupmannahafnar sendi hann systkinum sínum stundum kveðskapinn. Móður minni þótti undur vænt um Gísla og hefur líka þótt vænt þennan barnasálm fyrst hún geymdi hann í sálmabók sinni.  

Jesú breiddu þína blessun

yfir rúmið mitt.

Láttu blessað ljósið skína.

Lát mig vera barnið þitt.

 

Gef mig dreymi engla undur blíða

yfir mér sem vaka er sef ég rótt.

Veit ég þá að ég hef engu að kvíða.

Öllum bið ég góða nótt.

Á meðfylgjandi mynd er Gísli, höfundur kvöldsálmsins, annar frá vinstri í aftari röð. Thora, kona hans er honum á hægri hönd. Síðan er Sigurjón, þá Þórður og Svanfríður, foreldrar mínir. Í fremri röð frá vinstri eru Filippía (skáldkonan Hugrún), Kristín, amma og móðir þeirra Brautarhólssystkina, síðan Lilja Sólveig og lengsti til hægri Sigríður, kona Sigurjóns. Myndin er líklega tekin í afmæli Kristínar ömmu í janúar.

Hér að neðan er svo mynd af Brautarhólsbræðrum hinum fyrri. Gísli lengst til vinstri, Sigurjón í miðju og Sigurður Marinó til hægri. Myndin er afar lýsandi um skaphöfn og persónur þeirra bræðra.