Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Lífskúlurnar

Kennslustund var að hefjast. Kennarinn rogaðist með stóra glerskál að kennarapúltinu og kom henni þar fyrir. Síðan fór hann að veiða úr fötu golfkúlur sem hann setti í glerílátið. Þegar það var orðið kúfað spurði hann áhorfendur hvort hann væri ekki búinn að fylla það. „Já,“ svaraði hópurinn í stofunni. Þá tók kennarinn kassa með föndurperlum og hellti yfir kúlurnar sem fyrir voru, hristi glerílátið svo perlurnar sáldruðust á milli golfkúlanna og settust í holrúmin á milli þeirra. „Er það núna fullt?“ spurði hann. „Jaaá,“ muldraði hópurinn, sem fylgdist með þessum óvænta gjörningi í stofunni. Enn á ný lyfti kennarinn íláti. Nú var það fata með þurrum sandi, sem hann hellti yfir það, sem fyrr var komið. Sandurinn rann á milli allra kúlanna. Ótrúlega mikið magn komst fyrir. „Er ílátið orðið fullt?“ spurði kennarinn. Nú var orðið augljóst, að ekki væri ráð að svara of ákveðið, enda tók kennarinn upp ölflösku, opnaði hana og hellti í ílátið, sem tók lengi við. Nemendurnir hlógu og kennarinn kímdi. „Er það nú fullt?“ spurði hann. „Já, já,“ svöruðu þau. Kennarinn sagði: „Mig langar til að þið hugsið um það, sem þið hafið séð, og svör ykkar.

Stóru kúlurnar – verðmætin

Golfkúlurnar eru tákn um það, sem skiptir ykkur raunverulega máli í lífinu. Það eru fjölskyldur ykkar, makar og börn, vinir, heimili, vinnan og hugðarefni. Ef þið misstuð allt annað en hélduð þessum þáttum væri líf ykkar samt ríkulegt og gott. Litlu kúlurnar, sem runnu á milli hinna stærri, eru tákin um allt það sem ekki skilgreinir hvað þú ert í lífinu, t.d. í hvaða húsi þú býrð, hvort þú átt bíl eða hvaða gerðar hann er, hvert þú fórst í sumarfrí, hvort þú nærð að fara í borgarferð í ár eða ekki og annað álíka. Sandurinn er það, sem skiptir enn minna máli, t.d. hvort þú varst búinn að taka til í bílskúrnum, þværð þvottinn í dag eða á morgun. Ef sandurinn er settur í glerskálina fyrst er ekkert pláss, hvorki fyrir smáar eða stórar kúlur. Ef við fyllum lífið af smáverkefnum og smáatriðum er ekki lengur pláss fyrir það, sem máli skiptir og veitir hamingju. Gefið gaum því, sem varðar lífshamingjuna. Leikið við börnin ykkar, gælið við ástina og munið eftir leiknum í samskiptum við fólk. Munið eftir að sinna heilsurækt, hinu andlega lífi og heimsækja foreldra ykkar. Ef þessum málum er sinnt og þau rækt verður alltaf tími til að þrífa á bak við eldavél eða taka til í kústaskápnum. Setjið lífsþættina í forgangsröð. Aðalmálin fyrst og síðan annað í gildaröð. Lífið fyrst og annað er sandur. Einn nemandinn lyfti hendi: „En hvað með vökvann sem þú helltir yfir hitt?“ “Gott að þú spurðir,“ var svarað. „Það er nú einu sinni svo að hversu gott og ríkulegt líf þitt er, getur verið ljómandi líka að setjast niður með vini þínum og fá sér bjór!“ 

Verðmætamat og forgangur
Er viska í þessari sögu? Hvað er sandurinn í lífi þínu? Gerir þú of mikið úr þrifunum eða puðinu? Fer of mikill tími af lífi þínu í hringsól og snatt? Er ekki ráð að þú staldrir við og spyrjir hvað það er sem skiptir þig verulegu máli. Hvað má hverfa, án þess að líf þitt blikni? Hvað skaðar hamingju þína? Hvað myndi algerlega kremja í þér hjartað og eyða lífsgleðinni? Er lífsskál þín full af sandi eða er þar nóg pláss fyrir stóru lífskúlurnar? Er í þér ástarkraftur? Áttu nægan nægan tíma fyrir vini, börn, hlátur, strokur og kossa? Er eitthvað, sem mætti fara eða jafnvel verður að hverfa, til að meira næði sé fyrir það sem máli skiptir? Er einhver möl og grjót sem er í leið þinni. Hver er dýptin og hvar er Guð í þínu lífi? Jesús stendur hjá þér: Ég mun gefa ykkur nýtt hjarta og leggja ykkur nýjan anda í brjóst. Brautin hefur verið rudd. Þér standa til boða stórar og smáar lífskúlur. Það neyðir þig enginn til að lifa vel, en þér er boðið í veislu lífsleikninnnar.

Trúir þú á Guð?

Blaðamaður vildi tala við prest og kom svo í Hallgrímskirkju. Samtal okkar var skemmtilegt. Í lokin fórum við inn í kirkjuskipið og kvöddumst að lokum við ljósberann hjá Kristsstyttunni. Á leiðinni fram að dyrum sneri blaðamaðurinn allt í einu við, skaust fram hjá ferðamönnunum og kom aftur til mín og spurði: „Trúir þú á Guð?“ Spurningin var frá hjartanu, einlæg spurning en ekki eftirþanki eða grunur sem braust fram. Svarið var: „Já, ég trúi á Guð. Ég væri ekki prestur ef ég tryði ekki á Guð.“ Ég stóð þarna með logandi kerti í hendi og kom því fyrir hjá ljóshnettinum. Nýtt samtal hófst og risti djúpt. Ferðamenn heimsins fóru hjá með sínar spurningar um tilgang, líf og hamingju.

Trúir þú á Guð? Spurningin laumast að okkur á vitjunarstundum og krossgötum lífsins. Þegar við glímum við breytingar verða spurningar um Guð og trú stundum ágengar. Þegar lífi fólks er ógnað verður hún að spurningu um möguleika lífs. Hvað er hinum megin dauðastundarinnar? Nánd dauðans kallar á líf. Þegar dauðinn sækir að blossar upp lífsþrá. Þegar fólk undirbýr dauða sinn og kallar til prest verða himindjúp samtöl. Á dánarbeði spyr fólk mig stundum um trú mína, hvort ég sé hræddur við dauðann og hvert framhaldið verði. Það eru ekki bakþankar heldur alvöru spurningar úr sálardjúpum.

Margir endurmeta guðstrú sína, tengsl eða tengslaleysi við Guð einhvern tíma á æfinni, sumir oft. Trú er ekki fasti heldur breytist. Trú er gjöf tengsla og trú er traust. Menn bila og geta líka tapað trausti og tengslum við Guð. Ég get ekki verið prestur í kristinni kirkju ef ég tryði ekki eða væri ótengdur Guði. Ég myndi segja af mér prestsstarfinu ef ég missti trúna. Það hafa prestar gert þegar trúin hefur horfið þeim. Guðssamband er ekki fasteign heldur lifandi samband. Það geta orðið breytingar og skil í þem tengslum rétt eins og í samböndum fólks.

Blaðamaðurinn vildi vita hvernig guðstrú tengdist öðrum lífsefnum. Mín afstaða er að trú sé ástarsamband og að trú sé best túlkuð sem ástartengsl. Tjáskipti Guðs og manns eru samskipti elskunnar. Í sambúð fólks getur ást dvínað og trú getur með hliðstæðum hætti linast og jafnvel horfið. Ástartengsl geta líka dafnað og trú getur styrkst. Trú er samband lifandi aðila eins og ástin er lífssamband. Svo var ég spurður um bæn. Svarið var og er að ég bið. Ég gæti ekki hugsað mér orðalaust ástarsamband. Mér þykir óhugsandi að tala t.d. ekki við konuna mína. Bæn er tjáning elskunnar, hlý og óttalaus. Þannig lifi ég trú sem dýpstu tengsl lífsins, að Guð er mér nær en meðvitund mín. Anda Guðs túlka ég sem áhrifavald, ekki aðeins í ferlum og lífvefnaði náttúrunnar heldur líka í tækni, veraldarvefnum, lífspúlsum menningar og öllu því sem verður í veröldinni. Svona túlka ég veruleika Guðs og það er ekkert ódýrt í þeirri nálgun.

Efi og trú eru að mínu viti tvíburasystur og vinir. Ég glími stöðugt við efasemdir mínar. Efinn hjálpar við að greina hið mikilvæga frá hinu sem er úrelt í trúarefnum. Forn heimsmynd er ekki aðalmál trúarinnar og trúmenn hljóta að fagna vísindum og aukinni þekkingu. Hlutverk Biblíunnar er ekki að færa okkur til baka í tíma heldur opna okkur framtíð. Biblíuna þarf að lesa með köldum en opnum huga. Trúarlærdóma þarf líka að skoða og skilja í sögulegu samhengi. Kirkjustofnanir breytast og jafnvel hrynja því verk mannanna eru skilyrt og stundum afar sjálfhverf. Því er vert að skoða allt sem tengist trú og trúariðkun með gagnrýnum huga. Ég dreg ekki á eftir mér gömul og úrelt fyrirmæli Biblíunnar. Ég er frjáls undan hvers konar kúgandi og lífshamlandi valdi. Ég hvorki kannast við né þekki stressaðan, skapstyggan Guð, sem er viðkvæmur fyrir mistökum og ranghugmyndum fólks. Guð reiðist ekki óvitaskap okkar manna þegar við gerum okkur rangar hugmyndir um Guð. Ég er afar gagnrýninn á lífsheftandi guðshugmyndir en ég trúi. Guð tjáir mér elsku sína í hjartslætti mínum, frumum líkamans, hrifningu daganna, faðmlögum og furðum og fegurð heimsins. Trúarspurningin berst öllum einhvern tíma. Hvernig er trú þín eða vantrú? Er allt búið þegar síðasti andardrátturinn hverfur? Hver eru ástartengsl þín við lífið? Trúir þú? Guð talar við þig því ástin orðar afstöðu og þarfnast alltaf samtals.

Messi pistill birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 5. maí, 2022. Meðfylgjandi mynd er af neðri hluta ljósbera kirkjunnar.

Tré í kirkju og pálminn í Hallgrímskirkju

„Af hverju er tré í kirkjunni?“ spurði barn og benti á pálmatré Hallgrímskirkju. Ég mundi líka að ég spurði foreldra mína sömu spurningar þegar ég var í guðsþjónustu í Hallgrímskirkju á sjötta áratug síðustu aldar. Stórar pálmagreinar blöstu við okkur og mér þótti gaman að horfa á þær. Mamma sagði mér að þetta væri pálmi sem vinafólk hennar hefði gefið. Pálmar væru merkileg tré og það væri líka talað um pálma í Biblíunni. Fólk hefði lagt greinar á götuna þegar Jesús reið á asnanum inn í borgina. Svo spurði hún: „Manstu eftir biblíumyndinni sem þú átt heima með mynd af fólkinu að setja greinar á jörðina?“

Carl og Guðrún Ryden gáfu Hallgrímskirkju pálmann þegar helgihald hófst í kór Hallgrímskirkju árið 1948. Guðrún og mamma voru vinkonur. Mamma talaði oft við Guðrúnu í síma og þegar hún talaði um hana bætti hún alltaf frú framan við Guðrúnarnafnið. Þau Rydenhjón studdu kirkjulíf af krafti, studdu byggingu Hallgrímskirkju og lögðu fé til tækjakaupa, t.d. til kaups á klukkuspilinu í turninum. Guðrún Ryden tók þátt í kvenfélagsstarfinu og einnig starfi kristniboðsfélags kvenna. Þar sem þau hjónin ráku kaffibrennsluna Rydenskaffi gáfu þau gjarnan kaffi þegar eitthvað mikið stóð til og verið var að safna fé til framkvæmda eða útbreiðslu hins góða boðskapar í heiminum. Þegar mér var sagt að stofupálmi Hallgrímskirkju væri gjöf þeirra Rydenhjóna tengdi ég ilm af rjúkandi kaffi við pálmann. Pálmi Hallgrímskirkju var í kórkapellunni frá 1948 og til 1974. Þá var Suðursalur kirkjunnar tekinn í notkun sem guðsþjónustusalur og pálminn var færður þangað. Þar var hann til 1986 er kirkjan var vígð og farið var að nota kirkjuskipið. Þá fór Hallgrímskirkjupálminn í enn eitt ferðalagið og var komið fyrir í kirkjunni. Þar hefur hann verið síðan.

Á síðari öldum hafa pálmar og greinar þeirra verið tákn um frið og velsæld. Í frumkristninni voru pálmagreinar tákn um píslarvætti trúmanna. Meðal Gyðinga voru pálmagreinar tákn um sjálfstæði og sjálfræði. Þess vegna lagði fólk sem þráði politískt frelsi frá Rómverjum greinar fyrir fætur Jesú. Þau vonuðu að hann færði þjóð sinni hernaðarsigur. En velsæld er marglaga og margs konar. Hernaður er ekki trygging friðar. Ég sá einu sinni mynd af rómverskum peningi sem er táknræn fyrir harmsögu Gyðinga. Rómverjar slógu mynt eftir að Gyðingauppreisn hafði verið barin niður. Á peningnum er mynd af stórum pálma sem var táknmynd Palestínu og hluti hins frjósama hálfmána. Pálmar voru einkennistré og allt svæðið fyrir botni Miðjarðarhafs var kallað Pálmaland – Fönikía. Þetta var Palm Beach þeirra Rómverja! Á rómverska pálmapeningnum var öðrum megin við tréð mynd af konu í hnipri. Hinum megin var mynd af stórum og ábúðarmiklum hermanni sem gætti konunnar. Konan var tákn um Gyðingaþjóð sem var ekki aðeins hersetin heldur líka kúguð. Hermaðurinn var fulltrúi þess valds sem líður ekki uppreisn. Þannig varð pálmapeningurinn tákn um gjaldþrot hinnar gyðinglegu uppreisnarstefnu sem aðeins ól hörmungar en enga von. Fólkið með pálmagreinar í höndum vænti herkonungs. Það varpaði eigin hugmyndum og þrá yfir á Jesú og vildi að hann uppfyllti sínar vonir. Það gerði hann ekki, því voru þessir pálmamenn tilbúnir að æpa hann til dauða nokkrum dögum síðar.

Alla helga daga berum við kross inn í helgidóminn í upphafi messu. Krossberi fer fyrir og heldur krossinum hátt á loft. Krossburður er tákn um að Jesús Kristur kemur til safnaðar síns.  Krossinn er tákn um Jesúnánd. Í dag veifum við tveimur pálmagreinum sem voru skornar af pálma í Suðursal kirkjunnar. En við veifum líka íslenskum pálmum, þ.e. birkigreinum til að fagna komu Jesú. Hann var þó ekki á stríðsfáki eins og konungi hefði sómt, heldur reið ösnufola. Biblíufróðir rifjuðu upp hin fornu spádómsorð úr Sakaríabók að konungurinn kæmi sigursæll, lítillátur og ríðandi á ungum asna (Sak. 9.9). Fólkið veifaði pálmagreinum en innreið Jesú var ekki pólitísk eða veraldleg sigurganga. Lengi hafði þjökuð þjóð Gyðinga beðið lausnara, sem gæti hrakið burt hervald. Lengi hafði hans verið beðið sem nefndur var í spádómsbókum Gyðinga. Jesús reið ösnufola inn í samfélag vona, ekki aðeins himneskra heldur líka pólitískra, menningarlegra og hernaðarlegra. Alla fyrstu öld hins kristna tímatals kraumaði uppreisnarbál í Palestínu og er hið ógurlega samhengi sögu Jesú. Þorstinn eftir frelsi undan valdi Rómar endaði í skelfilegri baráttu Gyðinga um fjórum áratugum eftir atburði kyrruviku. Uppreisn Gyðinga var brotin á bak aftur með svo algeru móti að Gyðingar dreifðumst um allt hið rómverska ríki og áttu ekki afturkvæmt úr dreifingunni fyrr en nær tvö þúsund árum síðar með stofnun Ísraelsríkis.

Pálmi Hallgrímskirkju er fallegur. Hann er líka vitnisburður um elskusemi fólks í garð guðsríksins. Hann er eldri en kirkjuhúsið. Hann var þegar kominn til ára sinna þegar hann kom fyrst í kirkjuna. Hann er líka eldri en kirkjumunirnir. Að pálminn hefur lifað af flutninga, ryk og hitabreytingar er vitnisburður um að gott fólk hefur gætt pálmans vel og hlúð að honum. Enn hugsa ég um Rydenhjónin þegar ég sé hann í kirkjunni. Þegar ég kem að honum finnst mér ég finna daufan kaffilm af honum. En þegar ég hugsa um pálmann finnst mér mikilvægast að hugsa um hann sem Jesútákn. Ekki sem sigurtákn heldur tákn um gott líf. Flestir hafa tilhneigingu til að varpa eigin draumum á tilveru sína og vilja að allt gangi upp samkvæmt eigin skilningi. Þegar illa fer verða til ofbeldismenn sem með ofbeldi varpa eigin hugmyndum yfir á aðra og veröldina. Það er ekki leið trúarinnar. Þegar við fögnum Jesú á pálmasunnudegi hættir okkur til að fagna eigin draumi. En köllun okkar er að fagna Guði. Trúmaðurinn gengur ekki neinna annarra erinda en Guðs. Á pálmasunnudegi ættum við að leggja niður okkar eigin pálma og eigin blekkingar og opna augun fyrir djúpmálum lífsins. Nú hefst tími íhugunar á lífsdrama kristninnar sem eiginlega er um okkur, líf okkar og val. Ekkert okkar er án vanda og áfalla, en sagan er þó um að lífið er gott, Guð er nærri og sagan endar gæfulega. Af hverju er tré í kirkju? Til að minna okkur á að Guð elskar veröldina, lífríkið og mannfólkið.

2022, 10. apríl. Pálmasunnudagur.

Lexía: Sak 9.9-10
Fagna mjög, dóttirin Síon,
lát gleðilátum, dóttirin Jerúsalem.
Sjá, konungur þinn kemur til þín.
Réttlátur er hann og sigursæll,
lítillátur og ríður asna,
ungum ösnufola.
Hann útrýmir hervögnum úr Efraím
og víghestum úr Jerúsalem.
Öllum herbogum verður eytt.
Hann mun boða þjóðunum frið
og ríki hans mun ná frá hafi til hafs
og frá Fljótinu
til endimarka jarðar.

Pistill: Fil 2.1-11
Fyrst Kristur veitir kjark, fyrst kærleikur hans uppörvar, fyrst andi hans skapar samfélag, fyrst þar ríkir hlýja og samúð gerið þá gleði mína fullkomna með því að vera einhuga, hafa sama kærleika, einn hug og eina sál. Gerið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillát og metið hvert annað meira en ykkur sjálf. Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra. Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var. Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi. Fyrir því hefur og Guð hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra, til þess að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar: Jesús Kristur er Drottinn.

Guðspjall: Jóh 12.1-16
Sex dögum fyrir páska kom Jesús til Betaníu þar sem Lasarus var, sá er hann vakti frá dauðum. Þar var honum búinn kvöldverður og Marta gekk um beina en Lasarus var einn þeirra sem að borði sátu með honum. Þá tók María pund af ómenguðum, dýrum nardussmyrslum og smurði fætur Jesú og þerraði með hári sínu fætur hans. En húsið fylltist ilmi smyrslanna. Segir þá Júdas Ískaríot, einn lærisveina hans, sá er mundi svíkja hann: „Hví voru þessi smyrsl ekki seld fyrir þrjú hundruð denara og gefin fátækum?“ Ekki sagði hann þetta af því að hann léti sér annt um fátæka heldur af því að hann var þjófur. Hann hafði pyngjuna og tók af því sem í hana var látið. Þá sagði Jesús: „Lát hana í friði. Hún hefur geymt þetta til greftrunardags míns. Fátæka hafið þið ætíð hjá ykkur en mig hafið þið ekki ávallt.“ Nú frétti allur fjöldi Gyðinga af því að Jesús væri í Betaníu og þeir komu þangað, ekki aðeins hans vegna heldur og til að sjá Lasarus sem hann hafði vakið frá dauðum. Þá ákváðu æðstu prestarnir að taka einnig Lasarus af lífi því vegna hans sneru margir Gyðingar baki við þeim og fóru að trúa á Jesú. Degi síðar frétti hinn mikli mannfjöldi, sem kominn var til hátíðarinnar, að Jesús væri að koma til Jerúsalem. Fólk tók þá pálmagreinar, fór út á móti honum og hrópaði: „Hósanna! Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins, konungur Ísraels!“ Jesús fann ungan asna og settist á bak honum, eins og skrifað er: Óttast ekki, dóttir Síon. Konungur þinn kemur og ríður ösnufola. Lærisveinar hans skildu þetta ekki í fyrstu en þegar Jesús var dýrlegur orðinn minntust þeir þess að þetta var ritað um hann og að þeir höfðu gert þetta fyrir hann.

Megi þau …

Hugsum til Úkraínumanna sem ráðist var á – megi styrkur þeirra verða óskertur.

Hugsum til kvennanna og barnanna sem eru á flótta – megi gæfan umlykja þau.

Hugsum til allra þeirra sem geta ekki flúið eða farið – megi æðruleysið efla þau.

Hugsum til þeirra sem syrgja og gráta – megi þau finna frið.

Hugsum til allra þeirra sem eru kvíðin og stríðandi – í Úkraínu og um allan heim –  megi samheldni okkar umvefja þau.

Hugsum til þeirra Rússa sem eru ósátt við árásarstríð – megi þau finna farveg fyrir afstöðu og friðarsókn.

Hugsum um okkur sjálf, okkur sem hóp, samfélag og þjóðfélag –  megi okkur lánast að efla hvert annað til dáða, aðgerða, fegurðar, söngs, ástar og lífs.

Meðfylgjandi mynd: Sigurður Páll Sigurðsson. 

Efndir – mögnuð þroskasaga

Í skáldsögunni Efndir eftir Þórhildi Ólafsdóttur kemur Elísabet til baka úr lífsreisum sínum um skóla og menningarstofnanir Íslands og fjarlægðanna. Hún vitjar heimahaga, kemur heim í mannlausan og yfirgefinn bæ á norðlensku nesi, sem gæti verið Vatnsnes. Elísabet segir fjölskyldu og vinum að hún ætli að vera einhvern tíma á ættaróðalinu til að jafna sig á áföllum og kannski eiginlega lífinu. Svo fara svipir fortíðar að mæta henni, formæður og forfeður. Elísabet segir sögu þeirra af listfengi og elsku og andar fara á kreik. Söguhetjan vitjar sjálfrar sín, leitar að bernskugötum og tilfinningum liðinna daga þegar hún var að alast upp í stórfjölskyldu á hjara veraldar. Við fylgjumst með Elísabetu fara í nám, ferðast um heiminn, eignast erlendan mann, eignast dóttur sem varð ekkja og vinna og lifa. Svo kemur hún til baka úr lífsferðinni þegar skil eru orðin og vinnulífinu er lokið. Hvað er að koma heim? Hvað er heima og hvenær? Getur maður einhvern tíma fundið sjálfan sig, barnið í sér og veru sjálfs sín? Fann Elísabet sjálfa sig eða þarf maður bara að sætta sig við skuggamyndir dýpri sannleika eða veruleika?

Efndir er afar vel skrifuð bók. Textinn túlkar og umvefur vel. Framvinda bókarinnar er sem djúpt og breitt fljót fremur en léttskoppandi lækur af hæðum og niður hlíðar tímaleysisins. Þetta er bók um lífsbaráttu, hve lífið er stutt, hve fljótt fennir í sporin, um flæði lífsins, verpingu tímans, hve liðnar kynslóðir eru fljótar að gleymast þótt grafirnar þeirra séu merktar og aðgengilegar í kirkjugörðunum. Þetta er bók mikilla tilfinninga, djúpköfunar og eftirsjár. Framtíðin er sem næst lokuð. Það er engin opinberunarkafli helgiritasafns í lokin heldur fremur æðruleysi endisins. Stefjavinnsla er dásamleg og öguð. Táknin eru nostursamlega valin, uppteiknuð og túlkuð.

Dómar um málfar og málbreytingar íslenskunnar eru hnyttnir og stundum fyndnir. Náttúrulýsingar hinnar heimkomnu heimskonu eru laðandi. Lýsingarnar tjá í bókinni vaxandi náttúrunánd, sem er tákn þess að færast nær sjálfum sér en áður var. Mér þótti áhugavert að beygur og óttaefni lífsins voru fremur tengd hinu yfirskilvitlega og dulræna en náttúrunni. Náttúran í öllum sínum myndum er vettvangur til að lifa í og með og auðvitað virða til að komast af.

Sálgreiningartímar er sérmál. Frásagnir af þeim læða að grun um að hjá sálgreininum hafi verið meira létt á en að sálarflækjur hafi verið greiddar eins og net voru greidd við Miðfjörð í bernsku höfundar. Tæknileg samtöl verða aldrei til að færa fólki líf en góðir spyrjendur geta auðvitað hjálpað til. Sálgreiningar bókarinnar tjá firringu fólks inn á við, í samskiptum og úrvinnslu lífsbaráttu. Þróun tilfinningatúlkunar kemur vel fram og því er bókin merkileg sem þroskasaga einstaklings.

Mikið er af alls konar merkilegu þjóðfræðiefni í þessari bók, hvernig fólk lifði, hver voru störf þess, tengsl kynja og hlutverk og samskipti. Mat og matarafstöðu er lýst og hvernig var að læra að lesa með bandprjónaðferð. Stiklað er á hugmyndum um karlmennsku og hvernig konur verða fyrir eða bregðast við í sögu og samtíð. Einelti í sláturhúsi á sjöunda áratugnum er nístandi vel lýst. Bókmenntir og ýmsir höfundar koma við sögu. Innsýn er veitt í mun á hugmyndum fólks til lífsgæða, annars vegar frá Austur-Evrópu og hins vegar Íslandi kalda-stríðstímans. Hugmyndir fólks eru menningarskilyrtar og því ekki auðvelt að breyta hömruðum skoðunum. Í ljós kemur að velviljaði franski strákurinn sem vill fá innsýn í landbúnaðarmenningu var ófær um að skilja og tengja. Fólk er fullt af fordómum sem lita og því skilur það ekki aðra eða framandi menningu. Tónlistarnotkun og innlifun var merkileg í bóikinni. Bach-notkunin breyttist. Svo var Lúther túlkaður eins og hann væri Calvin en áherslum siðbótarmannanna hefur jú oft verið víxlað.

Mikið er fjallað um sorg og missi. Bókin hverfist um þann möndul. Sorgin heggur stykki úr fólki segir á einum stað og bókin fjallar um ýmsa kosti sorgarinnar. Atferli og viðbrögð Elísabetar varða áföll og úrvinnslu og að missir varpar ekki aðeins skuggum yfir líf heldur verður sem net sem ekki sleppir. Samskipti við ástvini og kunningja eru um margt tjáning á getu eða getuleysi fólks gagnvart þeim sem eru djúpt niðri af hvaða ástæðum sem það er, missi eða geðlægð.

Elísabet gengur um land bernsku sinnar eins og til að rifja upp spor sín og fólksins hennar. Til að nálgast landið og söguna sameinast hún jörðinni í tjaldútilegum sem vekja grunsemdir nágranna og sveitunga um að þessi íslenska einsetukonu úr útlandinu sé ekki heil. Elísabet fer að laga gömul mannvirki liðinnar tíðar eins og til að vitja þeirra sem farin eru. Hún fer í gamla kartöflugarð bernskunnar og við fáum innsýn í að amma réð meiru en mamma hennar í garðinum enda mamma aðkomukona. Garðurinn var sem sé tákn um vald og skipulag þess. Oft er vikið að goggunarröðum í bókinni, í lífi fólks, samskiptum kynja, mismunandi aldri og meðal dýranna.

Vinur minn gaf mér bókina Efndir. Ég hafði jarðsungið báða foreldra höfundar bókarinnar, Halldóru og Ólaf. Ég hafði kynnst þeim og tengst þeim og þótti vænt um þau. Ég hafði hlustað á sögur þeirra frá Vatnsnesinu og hafði því tilfinningu fyrir mannlífi, lífsbaráttu og staðháttum þar nyrðra við hið ysta haf. En þessi baktenging vék fljótt þegar ég byrjaði að lesa. Bókin er sjálftætt listaverk, skáldsaga, sem krefst nýrrar nálgunar og persónulegri. Mér þótti líka heillandi að lesa þessa bók vegna tilfinningavinnu gagnvart eigin uppvexti. Hvar er heima og hvernig? Spírall er betri lýsing á lífsreisum okkar en hringur eða lína. Við verðum fyrir reynslu í uppvexti og mótun sem er mismikið unnin og afgreidd og fer með okkur út í at lífsins. Við förum um dali og fjöll lífsins en komum til baka, þó ekki eins áður heldur með alls konar pinkla, túlkun, þroska, gildi og lesti í farteskinu. Ferð Elísabetar heim og norður á nesið er ekki endurkoma barnsins eða endurfundir við barnið. Hún fann margt úr bernsku sinni, veiddi úr minni sínu, hafði gert upp við sumt og annað ekki. En hún var á nýjum stað. Að vitja sjálfs sín, virða sögu sína og gera upp er verkefni okkar allra. Að lifa vel er ekki að lifa átakalausu lífi, heldur að lifa með alúð, virða sjálf, aðra, sögu, menningu, náttúru og trú og bregðast við þeim og lífsáföllum með einurð. Flóttlaus heimför er besti lífsmátinn. Það eru bestu efndirnar.

Bókin er sérstæð og fallega unnin. Skriða gaf út. Snæfríð Þorsteins braut um og með áhugaverðum hætti. Síðurnar eru ekki hvítar heldur litaðar. Svartur borði er handhægur til að smella í opnu þegar hlé verður á lestrinum. Ég rakst ekki á neina ásláttarvillu sem er fátítt í bókum og segir mikið um vandvirkni og nostrið sem þessi bók hefur notið. Hún hefur fengið að hvíla í öruggu fangi höfundar áður en hún hélt út í heiminn.

Takk Þórhildur Ólafsdóttir.

Minningarorð um Ólaf Þórð Þórhallson:

https://www.sigurdurarni.is/2013/08/30/olafur-thordur-thorhallsson-minningarord/

og Halldóru Kristinsdóttur:

https://www.sigurdurarni.is/2013/02/08/halldora-kristinsdottir-minningarord/