Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Handverkið mikla

Hundruð barna komu í Hallgrímskirkju laugardaginn 20. ágúst. Þau fóru í kirkjuna, horfðu upp í hvelfingarnar og hlustuðu á organistana spila á orgelmaraþoni. Sum kveiktu á kertum og mörg lituðu Hallgrímskirkju á blöð sem mynduðu kórónur fyrir börn. Við stigann úr forkirkjunni var búið að koma fyrir mikilli þrykkstöð fyrir unga fólkið. Þar báru þau liti á lófana og þrykktu síðan á risastóran myndflöt. Þegar leið á daginn varð til mikið handverk barna framtíðarinnar. Vissulega spurðu einstaka sem voru komin til fullorðinsára: „Má ég líka?“ Verkið er litfagurt og formsterkt verk framtíðarfólksins. Mörg þeirra fóru út í menningarnóttina með kirkjukórónu sem þau höfðu smellt á höfuðið.

Kristný Rós Gústafsdóttir og Ragnheiður Bjarnadóttir sáu um barnadagskrána.

England er yfirlýst

England er ekki grænt heldur yfirlýst. Margar stórár heimsins líða fyrir þurrka og hita. Vatnskerfi yfirborðs eru víða veikluð. Flutningar á ám hafa víða farið úr skorðum, ekki má vökva flatir eða gróður. Við fórum fjögur til Oxford í nokkurra daga ferð. Úr flugvélinni sást vel hve England var skrælnað. Flatirnar við Christ Church og Bodleian-bókasafnið voru dauðar og á siglingu á Thames þurfti skipperinn að vanda sig til að taka ekki niðri. Hann sagði yfirborðið hálfum metra lægra en í venjulegu ári. Þakklæti fyrir lífsvatnið barðist hið innra með mér við óttann við umhverfisvanda áranna sem koma. Oxford er dásamleg en jörðin er að verða jafn gul og dreymandi spírur borgarinnar.

Myndin er af Bodleian-safninu í Oxford. Flatirnar skrælnaðar. Myndir sáþ

 

Blómstrandi stríðsmenn

Verk Steinunnar Þórarinsdóttur á Hallgrímstorgi vekja athygli allra sem fara í kirkjuna. Margir stilla sér upp við fígúrurnar, snerta þær eða faðma. Sum taka sjálfur eða einhver ferðafélaganna smellir af. Steinunn stillti upp pörum á torginu. Á móti nöktum, kynlausum og varnarlausum verum eru brynjaðar verur sem eru tákn stríðsmanna allra alda. Spennan er áþreifanleg. Brynjuð mennin verða líka táknmyndir árásarþjóða sem stríða gegn vanmáttugri nágrönnum. Margir nefna Rússa og Úkraínu.

Brynjur vekja viðbrögð. Sýningin er í hugum margra ávirk þátttökusýning um stríð og frið, mennsku og ofbeldi og andstæður í lífi manna, hópa og þjóða. Það eru þó ekki aðeins tilfinningar og hugsanir sem vakna. Nokkur vildu bæta við listaverkin! Viðbætur eru tjáning. Í vikunni voru stríðsmennirnir allt í einu komnir með blóm í hendur og fang. Gróðurinn fór þeim mun betur en vopnin. Það var sem friðspillarnir vildu allt í einu gefa nöktum nágrönnum sínum blóm fremur en mæta þeim í herklæðum. Friðarblóm? Segðu það með blómum, var slagorð fyrir áratugum. Er ekki gæfulegra að blómstra en beita vopnum? Hernaður deyðir en gróandinn er tákn lífs. Á torginu fyrir framan Hallgrímskirkju verða gjörningar alla dag og suma daga blómstra stríðsmennirnir.

Vinátta

Uppástand RÚV þessa dagana er vinátta. Á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna 2022 var þessi pistill minn fluttur á rás 1 í hádeginu, skömmu fyrir fréttir: 

Því stundum verður mönnum á.
Styrka hönd þeir þurfa þá,
þegar lífið, allt í einu – sýnist einskisvert.

Þetta hefur verið sungið á mörgum böllum. Oft hefur allur hópurinn á dansgólfinu gefið í þegar kemur að niðurlaginu um vináttuna:

Gott er að geta talað við – einhvern sem að skilur þig.
Traustur vinur – getur gert – kraftaverk.

Er það svo? Hverjir eru traustir vinir? Gera þeir kraftaverk? Og hvað er að vera vinur? Bandarískur fræðimaður hélt fram að fjórðungur Bandaríkjamanna ættu enga vini – bara kunningja, ættingja og samstarfsfélaga. Hvað um okkur? Eigum við bara kunningja eða líka vini? Kunningjar geta skemmt sér saman og talað margt, en þó ekki um viðkvæmu málin. Það gera vinir hins vegar. Kunningjar eiga sér leikreglur um mörk samskipta, en vinir tala á grundvelli trausts og trúnaðar. Kunningjar fara að mörkum hins óþægilega, en vinir þora að fara lengra vegna gagnkvæms trausts, umhyggju og heiðarleika. Kunningjar geta verið afar skemmtilegir félagar, en vinir efla hvern annan. Og reynsla mín sem prests er að þau hjónabönd dugi best þegar makar eru vinir en ekki bara félagar með aðgang að sama ísskáp og rúmi.

Í teiknimyndinni Tommi og Jenni mála bæinn rauðan er gott lag og grípandi texti sem margir krakkar hafa sungið fyrir framan skjáinn:

Ekkert jafnast á við það,
að eiga góðan vin í stað.
Að standa tveir í hverri raun
eru vináttulaun.

Þó skáldskapurinn sé ekki rismikill skilst boðskapurinn – að það sé mikilvægt vera ekki einn þegar maður á erfitt. Allir þarfnast stuðnings einhvern tíma. Í afþreyingarefni er vinátta fremur tengd börnum en fullorðnum. Þegar vinátta er gúgluð á netinu birtast aðallega myndir af bangsa, teiknimyndir eða myndir af hestum og hundum! Hvað merkir það? Eru bestu vinirnir dýr en mennirnir eru frekar kunningjar og félagar?

Maður, sem ég hef þekkt í áratugi, kom í heimsókn til að tala við mig. Við röbbuðum saman, miðluðum fréttum og fórum víða. En svo kom að því að viðmælandi minn fór inn á svið, sem var hvorki einfalt né auðvelt. Hann var kominn til að gagnrýna mig og benda mér á bresti mína. Hann sagði mér frá göllunum, sem ég gæti bætt. Ég sat á móti þessum manni, sem ég hef svo oft talað við, dáðst að, stundum pirrað mig yfir en líka hrifist af. Ég fann hversu heill hann var og talaði við mig í trúnaði. Svona talar ekki kunningi manns, heldur raunverulegur vinur. Vinur er sá er til vamms segir.

Allir þarfnast vináttu. Djúprit mannkyns tala um vinaþörf. Í Biblíunni er Guði lýst sem vini. Jesús sagði: „Ég kalla ykkur ekki framar þjóna … en ég kalla ykkur vini.” Vinirnir styðja þig í vandræðum tjá Tommi og Jenni. Og „traustir vinir geta gert kraftaverk“ var sungið á móti sól. Fjölskyldubönd hafa verið sterk á Íslandi, en mig grunar að gildi þeirra fari minnkandi og önnur tengsl fólks komi í staðinn og þá ekki síst vinatengsl. Kunningjar eru mikilvægir í lífinu en vinir dýrmæti. Áttu vin? Hverjum treystir þú fyrir stóru málunum? Traustur vinur – getur gert – kraftaverk.

Uppástand, mánudaginn 4. júlí 2022. Hljóðskráin RÚV er að baki þessari smellu.

Vatn og fræðsla

Vatn er dýrmæti. Lífið skírist í vatni. Vatn verður ekki aðeins metið til peninga – ekki frekar en lífið sjálft. Jafnvel í köldu Þingvallavatni lifa um 120 þúsund lífverur á hverjum fermetra við vatnsbakka. Það er heilt samfélag á litlum bletti og í stóru samhengi. Það lífríki er verðmætt. Göngumst við ríkidæminu og ábyrgð okkar. Gerum vatnalífi landsins gott til með fræðslu, gestastofum, almennri menntun um lífið í vatninu. Já, verndum vatnið hæfilega.

Fyrir nokkrum árum kom ég í safn í Vestur-Noregi, sem helgað er lífinu í merkilegri laxá. Þegar inn var komið var þar ekki aðeins miðlað upplýsingum um ofurfiska, sögu veiða og árnýtingar, heldur var sem einn hluti árinnar rynni í gegnum húsið.
Eins og í góðum vatna- og sjávarlífs-söfnum erlendis var hægt að ganga að stórum sýnisgluggum. Þeir veittu innsýn beint í hylinn. Þar syntu árbúarnir og hægt var að fylgjast með gerð, stærð, hreyfingum og samskiptum fiskanna. Þetta var heillandi heimur og ég hugsaði með mér: Góð hugmynd fyrir fólk, sem metur vatnið og lífið mikils – frábær hugmynd fyrir Árnesinga. Gullhringurinn – Þingvellir, Gullfoss, Geysir og Skálholt – er góður en yrði enn betri ef hægt væri í ferðarlok að skoða stórfiska á leið upp ána og fræðast um dýrmæti og nýtingu vatns. Allt vatn og líf þess er gott og við erum vörslumenn þess. Ekki er verra að fiskur í kristninni er tákn hins heilaga. Er ekki tími til kominn að Árnesingar gangist við ríkidæmi sínu, byggi laxastofu og opni fjársjóðskistu vatnaheims héraðsins. Gullið má sýna. Slíka vatnsstofu má gera í eða við Árborg. Alviðra var fyrir hálfri öld gefin af stórhug til verndar náttúru og fræðslu. Gestastofa í Alviðru við brúna yfir Sogið er kjörin staðsetning fyrir slíka gestastofu.