Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Kvöldbæn Gísla Kristjánssonar

Ég var að taka til í bókahillum mínum og meðal annars að skoða gamlar sálmabækur. Þá datt þessi kvöldbæn úr fyrstu sálmabók móður minnar. Bróðir hennar Gísli Björgvin Kristjánsson er höfundur. Hann var elstur sex Brautarhólssystkina, orðsnjall og hagyrðingur eins og þau öll voru. Móðir mín sagði mér að hann hefði oft sett saman vísur og þegar hann var farinn til náms í Hóla eða Kaupmannahafnar sendi hann systkinum sínum stundum kveðskapinn. Móður minni þótti undur vænt um Gísla og hefur líka þótt vænt þennan barnasálm fyrst hún geymdi hann í sálmabók sinni.  

Jesú breiddu þína blessun

yfir rúmið mitt.

Láttu blessað ljósið skína.

Lát mig vera barnið þitt.

 

Gef mig dreymi engla undur blíða

yfir mér sem vaka er sef ég rótt.

Veit ég þá að ég hef engu að kvíða.

Öllum bið ég góða nótt.

Á meðfylgjandi mynd er Gísli, höfundur kvöldsálmsins, annar frá vinstri í aftari röð. Thora, kona hans er honum á hægri hönd. Síðan er Sigurjón, þá Þórður og Svanfríður, foreldrar mínir. Í fremri röð frá vinstri eru Filippía (skáldkonan Hugrún), Kristín, amma og móðir þeirra Brautarhólssystkina, síðan Lilja Sólveig og lengsti til hægri Sigríður, kona Sigurjóns. Myndin er líklega tekin í afmæli Kristínar ömmu í janúar.

Hér að neðan er svo mynd af Brautarhólsbræðrum hinum fyrri. Gísli lengst til vinstri, Sigurjón í miðju og Sigurður Marinó til hægri. Myndin er afar lýsandi um skaphöfn og persónur þeirra bræðra. 

Jól í janúar

Úkraínumenn komu í Hallgrímskirkju á þrettándanum. Sr Laurentiy frá Kiev las og tónaði fagurlega frá altari kirkjunnar og Alexandra Chernyshova söng. Þegar komumenn heyrðu orð og söng á eigin tungu brostu þau út að eyrum. Tár sáust á hvörmum og friður settist að í sálum fólks. Jólin voru komin!

Tímatal austurkirkjunnar er annað en okkar gregoríanska. Jólin eru samkvæmt júlíönsku tímatali í janúar. Nærri tvö hundruð komu í Hallgrímskirkju til að taka þátt í aftansöng jóla. Það var eins og maður væri hrifinn burt úr iðandi, reykvísku föstudagskvöldi inn í aðra menningu og í aðra helgisiði. Það var hrífandi að verða vitni að tilbeiðslunni þrátt fyrir flugeldabombur utan kirkju sem minntu á stöðugar loftárásir Rússa á Úkraínu. Fólk kom og fór, foreldrar sinntu ungbörnum sínum og friður umvafði alla.

Birgir Þórarinsson alþingismaður fór til Úkraínu og hafði síðan milligöngu um að koma á tengslum við úkraínsku kirkjuna. Sr. Laurentiy, munkur og prestur var sendur til Íslands til að þjóna löndum sínum. Það tók hann sólarhring að komast frá heimaslóð og alla leið til Íslands. Úkraínska rétttrúnaðarkirkjan var hluti umdæmis patríarkans Kiril í Moskvu en vegna fylgispektar hans við stjórn og stríðsrekstur Pútíns hefur úkraínska kirkjan snúið sér til grísk-orþodoksku kirkjunnar. Patríark hennar og Cleantes umdæmisbiskup hennar á Norðurlöndum hafa myndað góð tengsl við þjóðkirkjuna íslensku og messuðu í Hallgrímskirkju í október 2017. Því var leitað til kirkjunnar um að vera fang fyrir jólahald Úkraínumanna.

Í Saltaranum er spurt: „Hvernig ættum við að syngja Drottins ljóð í öðru landi?” Úkraínumenn tilbiðja þó þeir séu á flótta og kirkjan er samhengi kynslóðanna. En þegar nágrannaþjóð hefur ráðist á heimalandið, flekkað það blóði þúsunda kreppir að. Það hefur löngum verið sagt að enginn sé trúlaus í skotgröfunum. En alþingsmenn, Íslendingar og íslensk kirkja styðja frelsisbaráttu og trúariðkun Úkraínumanna og annarra sem þarfnast stórs fangs. Lífið er alls konar en Guð elskar alla. Gleðileg jól í janúar og megi friður Guðs ríkja meðal manna og þjóða.

Nokkrar myndir frá hinum úkraínska aftansöng jóla er að baki þessari smellu. 

Kirkjuplattar

Á fjölsóttum heimilum til sjávar og sveita er gott að eiga marga diska. Prestur sem hefur sótt um lausn frá embætti og er á þriðja æfiskeiði lætur flest frá sér og grisjar stíft. En með hækkandi aldri leyfir maður sér að verða skrítnari en áður. Og ég safna kirkjuplöttum og nota þá sem forréttadiska. Margir fagrir og merkilegir hafa verið gerðir en mig vantar í safnið. Svona diskar eru dásamleg samtalsefni um mikilvægi kirkjustaða og kirkjuhúsa 🙂  Ég stefni að mikilli matseld og mörgum veislum og bæti í ef ég held heilsu og andlegu atgervi. Því er þörf á fleiri kirkjudiskum.

Ég á þegar þessa: Akureyrarkirkja; Bústaðakirkja; Glerárkirkja; Hjarðarholtskirkja; Hvalsneskirkja; Hveragerðiskirkja; Ólafsvíkurkirkja; Reyðarfjarðarkirkja; Sauðárkrókskirkja; Setbergsprestakall -Grundarfjarðarkirkja; Skálholtskirkja; Stykkishólmskirkja (hin eldri vígð 1879); Stykkishólmskirkja (við byggjum kirkju); Stykkishólmskirkja (vígð 1990); Úlfljótsvatnskirkja; Þykkvarbæjarklausturskirkja.

Kirkjuplattar eru margir listilega gerðir og hluti af menningarsögu Íslands. Ef lesendur þessar greinar vita af fleiri kirkjuplöttum kaupi ég gjarnan, styrki kirkjurnar og vek athygli á staðasögu, menningarsögu og sögu kirkjunnar.

Ég á þrjá Stykkishólmsplatta og meðfylgjandi er mynd af forrétti á einum. Gerið mér greiða og verði ykkur að góðu. 

s@sigurdurarni.is eða í s. 8622312

Fætur söngvarans í helgidóminum

Flestir fara úr útiskónum þegar þeir koma heim. En fáir fara úr skónum þegar þeir koma í kirkju. Einn vina minna gerir það þó reglulega þegar hann fer í kór Hallgrímskirkju en er á sokkaleistunum. Á sönghátíðinni á fjórða sunnudegi í aðventu var einn söngvaranna sem kom bæði skólaus og sokkalaus í Hallgrímskirkju. Kristófer Kvaran, vinur minn frá Neskirkjuárunum, var vita sokka-og skólaus í kór kirkjunnar og söng í stóra kórnum og líka með Kór Neskirkju. Kristófer sleppti oft skóm og sokkum á Neskiurkjuárum mínum svo mér kom ekki á óvart að sjá tær hans og hæla að nýju. En skóleysið rifjaði upp fyrir mér enn og aftur versið í annarri Mósebók: „Komdu ekki nær, drag skó þína af fótum þér því að staðurinn, sem þú stendur á, er heilög jörð.“ Kristófer söng fagurlega og fætur fagnaðarboðans eru fagrir – eins og segir í Biblíunni líka (Jes. 52.7). 

Um fætur og fótþvotta er rætt í þessari prédikun. 

Lausn frá embætti

Ég óska lausnar frá embætti sóknarprests Hallgrímskirkju. Þannig var beiðnin sem ég sendi stjórnsýslu kirkjunnar um að ég óskaði að láta af starfi sóknarprests. Ég fékk svar til baka frá biskupi að mér væri veitt lausn. Ég lýk því brátt störfum sem prestur í þjóðkirkjunni og sóknarprestur Hallgrímskirkju.

Ég man að þegar ég hóf prestsþjónustu í Skaftafellssýslu var allt svo nýtt, allt var í fyrsta sinn og líka meðal Þingeyinga síðar. Svo var flest nýtt í Neskirkju og margt þurfti ég að læra þegar ég hóf störf í Hallgrímskirkju. En nú er fæst nýtt heldur allt síðast. Nú er aðventuguðsþjónustan á sunnudag sú síðasta á æfi minni sem prests. Síðasta „miðnæturmessan“ og síðasta jólaguðsþjónustan á annan í jólum. Ég prédika í síðasta sinn á gamlársdag og nýársmessan verður sú síðasta á minni æfi – líklega. Síðast er allt öðru vísi en í fyrsta sinn. Hvorki verra né betra en allt annarar merkingar. Í mínu tilviki er ég ekki að stoppa eða deyja heldur virða breytinguna, finna til og hugsa í gegnum hana. Opna til nýs lífs. Ég er að byrja þriðja æfiskeiðið og tíminn er opinn. Frelsið er róttækt.

Óska lausnar – en lausnar frá hverju? Orðfæri kirkjunnar eins og opinberrar stjórnsýslu er um þunga eða byrðar sem hægt er að létta af fólki. Okkur prestum eða djáknum er veitt lausn því embætti er byrði þess að bera ábyrgð á kirkjulegri þjónustu við ákveðinn hóp fólks og í ákveðnum aðstæðum. Stólan er tákn oksins og sett á axlir hins nývígða. En byrði mín hefur verið létt því ég hef virt inntak trúmennskunnar og skorður frelsisins. Nú verður skyldunum brátt létt af og ég ræð mínum tíma sjálfur, geri það sem ég hef mest gaman af, sinni því sem ég hef sett til hliðar jafnvel í áratugi, skrifa um það sem brennur í sinni eða blæðir í hjarta og geng þær leiðir sem kalla. Af mér verður létt embætti en ekki reisunni með Guði, ástvinum, fólki og öðrum skemmtikröftum lífsins.

Hvað ætla ég að gera? Ég ætla að læra meira og læra margt nýtt, fara lengra og breyta mörgu. Gefa út postilluna sem ég er að klára, úrval predikana minna. Svo langar mig líka til að ganga portúgalska Jakobsveginn í vor með elskunni minni. Drama kristninnar er lífið. Bakpokinn verður ok á öxlum og frelsið í fótum, hjarta og huga.

Meðfylgjandi mynd tók ég á norðurleið Camino – Jakobsveginum á Spáni. Nýr vaxtartími viðarteinunganna á aprílakrinum.