Foreldrar mínir keyptu bækur og lásu. Svo fóru þær upp í einhvern bókaskápinn og biðu næsta lesanda. Kilirnir kitluðu, brostu við manni og báðu um samtal. Mamma vildi að allar bækur væru teknar fram einu sinni á ári, ryksugaðar og hyllurnar hreinsaðar. Ég var stundum settur í það verk. Vorhreingerning bókasafnsins var stefnumót sem oft leiddi til nánari kynna. Enska öldin Björns Þorsteinssonar var ein af þessum bókum sem ég handlék, velti vöngum yfir og kíkti í. Ég áttaði mig á að sú enska væri fimmtánda öldin, áður en sú þýska hófst með ferðum Þjóðverja, m.a. fram hjá Lönguskerjunum og inn til Hafnarfjarðar, með andófi gegn páfanum og umróti í trúmálum og pólitík sem leiddi til siðbótar.
En enska öldin var mér eiginlega hulduöld þrátt fyrir bókaþrif, skoðun og kirkjusögulestur síðar. Svo kom út bók Sigríðar Hagalín Björnsdóttur Hamingja þessa heims árið 2022 með skýringunni „riddarasaga.“ Ég kynntist Eyjólfi Úlfssyni, fjölþreifandi, flöskukærum sagnfræðingi í háskólanum sem var slaufað og rekinn í útlegð vestur á Skarðsströnd. Þar uppgötvaði hann spennandi handrit og mannlíf með rætur í hefðum aldanna. Heimur Ólafar ríku og Skarðverja opnaðist. Dásamleg frásaga frá leyniöldinni hinum megin siðbótar. Sigríður Hagalín lyfti álagaham þekkingarskorts míns, svipti tjaldi frá veröld sem var spriklandi af lifandi fólki, miklum viðburðum og ríkulegum samskiptum við útlönd. Nærri 1% af verslun Englendinga á þessari öld voru við Ísland og líklega 10% af viðskiptunum í Hull. Skipin sem sigldu til Íslands á sumrin fóru suður um höf á haustin, suður til Madeira og jafnvel til Faro. Með þeim voru Íslendingar – já lengi hefur verið útþrá í okkar fólki.
Svo kom framhald hamingjubókar Sigríðar í haust: Vegur allrar veraldar og skýringin er að hún sé skálkarit! Yfirstéttin var vegin og léttvæg fundin. Ekki er seinni bókin síðri hinni fyrri. Sannkallaður yndislestur og við kynnumst Ólöfu ríku betur – raunar vel, þeim íhugandi fræðaþul Sveini döggskó, Sunnevu saumakonu víðförlu, klaustrafólkinu, Skálholtslífinu, stórbokkunum í Vatnsfirði og á Skarði, ferðaháttum, viðmiðum, gildum, trúbadorum, trúarvíddum, valdabaráttu, köstulum og yfirstéttarlífi í Orkneyjum, Edinborg og Kaupmannahöfn, kóngum og bændum og já, dramatík stjórnmálanna. Eins og Trump vill Grænland í samtíð okkar vildu kóngarnir og höfðingjar sögunnar eiga auðlindir og pláss ef gróða væri von. Alþýðan leið fyrir.
Eyjólfur Úlfsson heldur áfram að puða í fræðunum þrátt fyrir að vera á skjön við sjálfan sig, son sinn, akademíuna, frænku, fjölskyldu, siði og reglur. Lukkuriddari fræða en lukkugrannur í lífinu. Sigríður fléttar sjálfa sig skemmtilega inn í leit nútímafólks að merkingu í fortíðinni. Hvenær er sagnfræði sannfræði og hvenær list góðra og leiftrandi sagna? Metasagnfræðin kryddar fléttu og furður. Á góð saga að líða fyrir sannleika og þá hvaða? Hvað er aðal og hvað auka? Hverjir eru höfðingjarnir og hverjir ekki? Var Sunneva hin nálhaga ríkari en Ólöf og ljóðandi döggskórinn meiri yfirvaldinu?
Ég er í klappliði Sigríðar Hagalín Björnsdóttur og tel Eyland og Eldana með bestu bókum. Deus hennar er að vísu vond bók en þessar tvær um ensku öldina eru yndislestur, dásamlegar sögur. Sigríður var vel nestuð til skrifanna, búinn að lesa fræðaefnið (gaukaði jafnvel að okkur doktorsritgerð um fölsun Gamla sáttmála) og hafði því gott yfirlit og þekkingu á átakasögu fimmtándu aldar.
Þessar bækur hennar eru ekki sagnfræði – ekki frekar en bækur Dan Brown, Umbert Eco eða svipaðra. Það á ekki að trúa þeim heldur njóta. Það má vissulega nöldra yfir löngum bréfum Eyjólfs eða málfari einstakra persóna sem ekki passar eða rímar við öldina – en það hrelldi mig ekki eða truflaði. Þessar bækur eru upplýstar og sviðsettar sögur í þykkri menningu og ramma sextándu aldar. Þær eru listilega vel stílaðar fyrir lesendur í nútíma, textinn kraftmikill og hugmyndaauðgin næsta ótrúleg. Þær brosa við manni, kitla, upplýsa, draga og seiða inn í tíma sem áður var grár og óljós. Nú hefur Sigríði tekist að gefa þessum tíma lit, drama og stórar persónur. Ég fer um Skarðströnd, horfi heim í Vatnsfjörð og skoða Breiðafjörð með allt öðrum hætti en áður. Ég skil betur Skálholtssögu, hugsa um Madeirasiglingar Íslandsfaranna, marglaga sögu enskrar aldar og þar með talið kirkjusögu.
Ég segi takk fyrir mig, Sigríður, og bravó. Kveðja góð.
Hönnun kápu Eva Majegren, Benedikt bókaútgáfa.
Á birtingarhátíð Drottins, 2026.