Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Kúmenkjúklingur með trönuberjafyllingu

Þetta er einn af þeim kjúklingaréttum sem mitt fólk minnir á og óskar eftir. Kúmen er aðalkryddið og svo eru trönuber í fyllingunni. Matseldin er einföld og ilmur fyllir húsið. Ljómani matur fyrir helgar sem hátíðir. Ég hef eldað þennan rétt fyrir eina af jólamáltíðum  og líka sem aðalrétt nýársdags.

Fyrir 4

Hráefni

  • 80 gr smjör
  • 5 tsk kúmenfræ, ristuð og létt mulin
  • 7 hvítlauksrif, pressuð
  • 1 msk mjúkur dökkur púðursykur
  • 1 heill stór kjúklingur
  • 3–4 stórir sellerístilkar, skornir í 1 cm teninga
  • 1 laukur, skorinn í 1 cm teninga
  • 100 g þurrkuð trönuber
  • 100 g forsoðnar kastaníur, grófsaxaðar (má sleppa)
  • 4–5 sneiðar súrdeigsbrauð úr rúgi og hveiti, skorpan fjarlægð, létt ristað og rifið í ca 2 cm bita
  • 15 g steinselja, grófsöxuð
  • 120 ml kjúklingasoð
  • Salt og nýmalaður pipar

Matseld

Marinering fyrir kjúklinginn

Bræðið 40 gr af smjörinu og hrærið saman við 1 msk af kúmenfræjum, 2 hvítlauksrif, púðursykurinn og ½ tsk salt. Setjið kjúklinginn í stórt fat, nuddið marineringunni vel yfir allan fuglinn og leggið til hliðar. Hitið ofn í 190°C (blástur).

Fyllingin

Setjið afganginn af smjörinu (40 g) á stóra pönnu við meðalháan hita. Bætið faganginum af kúmenfræjunum út í og steikið í 1–2 mínútur þar til þau ilma vel. Setjið síðan afganginn af hvítlauknum, sellerí, lauk, trönuber, kastaníur og 1 tsk salt á pönnuna. Steikið í 12–13 mínútur, hrærið reglulega í þar til grænmetið er orðið mjúkt. Setjið blönduna í skál og bætið við brauðinu, steinseljunni og kjúklingasoðinu og hrærið saman við.

Fylla og undirbúa kjúklinginn

Setjið kjúklinginn í lítið ofnfast fat. Kryddið ríkulega með salti og pipar. Fyllið holið með fyllingunni. Ef eitthvað eftir af fyllingunni má setja það í ofnfast fat og hita síðustu 30 mínúturnar á meðan kjúklingurinn er að fullsteikjast.

Steiking

Steikið kjúklinginn í 70–75 mínútur. Ausið yfir hann á 20 mínútna fresti þar til skinnið er gullið og stökkt og safinn sem rennur úr kjúklingnum er tær.

Hvíld

Takið kjúklinginn úr ofninum og látið hann hvíla í 10 mínútur áður en hann er skorinn og borinn fram.

Ljómandi að bera fram með góðum hrísgrjónum eða kúskús og uppáhalds sósunni. 

Uppskriftin er upprunalega frá Ottolenghi sem þakkar vini sínum fyrir að miðla henni.

Bæn. Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen.

Trú, efi og vald

Netflix sýnir þessar vikurnar hina mögnuðu kvikmynd Doubt frá árinu 2008, í leikstjórn John Patrick Shanley. Myndin kom mér á óvart og frábært handrit opnaði hvert merkingarlagið á fætur öðru og kallaði fram margar spurningar. Á yfirborðinu virðist myndin fjalla um hvort prestur misnotar ungan dreng eða ekki. Í ljós kemur svo að spurningin er ekki hvort klerkur sé vondur eða ekki, þ.e. um sekt eða sakleysi, heldur hvernig trú, vald og samviska takast á þegar engar afgerandi sannanir liggja fyrir um meint brot. Sögusviðið er kaþólskur skóli í Bronx í New York á tíma samfélagslegra og kirkjulegra breytinga – árið var 1964.

Tvær nunnur mynda spennupar og það neistar á milli þeirra. Annars vegar er skólastjórinn Aloysius Beauvier sem heimtar aga, gengst upp reglu, krefst siðferðilegrar vissu og að stefnan sé skýr. Hins vegar er systir James, ung nunna, kærleiksrík og jákvæð á mannlífsflóruna og mismunandi fólk. Þegar grunur vaknar um að faðir Brendan Flynn, prestur skólans og kirkjunnar í hverfinu, hafi sýnt af sér óviðeigandi hegðun gagnvart fyrsta svarta drengnum í skólanum, magnast átök. Má sýna börnum líkamlega umhyggju? Hvar liggja mörkin? Hvenær ber að grípa inn í? Hvað telst sönnun? Hver ber ábyrgð þegar hið versta gæti verið satt, en ekki er mögulegt að sanna neitt, til eða frá?

Samfélagslegt samhengi myndarinnar er hin stórri rammi. Hún gerist á tíma réttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum. Drengurinn í miðju sögunnar er á mörkum tveggja heima. Hann er svartur í hvítu stofnanakerfi, er í veikri stöðu og háður vernd fullorðinna. Móðir hans, sem Viola Davis leikur, dregur upp átakanlega mynd af aðstæðum jaðarsettra fjölskyldna, þar sem kostir eru fáir, snúnir og  sárir. Staða hinna svörtu er sem í grískum harmleik og málið er að reyna að lifa af ofbeldi og fjötra grimmdar.

Doubt tjáir vel spennu kaþólsku kirkjunnar á tíma mikilla breytinga. Faðir Flynn talar fyrir samúð, nánd og mannlegu sambandi. Hann er fulltrúi hinnar nýju kaþólsku kirkju sem gengur erinda fólks, talar merkingarbært tungumál samtímans og sýnir mildi og nánd. Hann er fulltrúi áherslna Vatikan2-þingsins sem vildi uppfæra og nútímavæða kaþólskuna. Systir Aloysius, skólastjóri, stendur hins vegar vörð um hefð, mörk, tortryggni og jafnvel hræðslu gagnvart breytingum. Barátta prestsins og nunnunnar er ekki aðeins persónuleg heldur speglar ólíka sýn á trú, valdi , hlutverkum og ábyrgð. Og svo er auðvitað spenna milli kvennavængs kaþólsku kirkjunnar og karlræði klerkanna.  

Myndin gefur engin einföld svör. Hún sýnir að harður agi og kærleiksríkur sveigjanleiki geta leitt til ills ef ekki er gætt að sjálfsgagnrýni, ábyrgð og gildi fólks. Siðklemmur eru sjaldnast einfaldar. Hvort eiga kirkjur og trúarhreyfingar að vernda stofnanir eða fólk, reglur eða manneskjur? Myndin tjáir líka kröftuglega að réttlátar félagslegar breytingar krefjast þess að fólk þori að horfast í augu við efa og óvissu. Efinn er systir trúarinnar og trú sem er laus við efa er skelfileg.

Í lok myndarinnar brotnar sú sem virtist öruggust um sannleika, lífshætti og kirkjuna. „Ég efast“ stundi systir Aloysius þegar hún uppgötvaði eigin flónsku og harðneskju. Skynhelgi getur verið grimm og hrottaleg. Hugsvitsamleg flétta sýnir að trú án efa verður blind og efi án ábyrgðar skaddar fólk. Milli trúar og efa mótast siðferðisþroski manna og gefur samfélagi möguleika til að þroskast til góðs.

Frábært handrit og stórkostlegur leikur. Af hverju var ég ekki búinn að heyra af, lesa um eða sjá þessa mynd fyrir löngu? Kannski vegna þess að tvíburarnir mínir voru tveggja ára þegar hún kom út og Ísland var Guði falið í hruni. Sem sé bleyjur, sálgæsla og lífsverkefni, klerkurinn að sinna merkingarbæru starfi og nánd í starfi og pabbinn ábyrgðarverkum heima!

Hlutverk

Þessi fjögur eru stórkostleg í hlutverkum sínum:

Meryl Streep leikur systur Aloysius Beauvier, nunnu og skólastjóra kaþólsks skóla. 

Philip Seymour Hoffman leikur prestinn Brendan Flynn.

Amy Adams leikur systur James, unga, öfluga og samviskusa nunnu í kennsluhlutverki.

Viola Davis leikur frú móður fyrsta svarata nemanda skólans.

Myndin er byggð á rómuðu leikriti John Patrick Shanleys.

 

ég hef lagt minn draum þér lágt við fót

Sálin er helgidómur sem auðvelt er að skemma. Um hin persónulegu himinhlið ættu menn að fara með virðingu og stillingu. Yates minnir á að dýrmæti birtast í berskjöldun.

Þessi jólin gaf sonur minn mér ljóðasafn W. B. Yates og vinir okkar gáfu okkur þýðingar Sölva Björns Sigurðssonar. Yates kom því úr tveimur áttum. Ég naut lýrískrar dulúðar hans og þetta ljóð fléttaðist að íhugun hátíðarinnar.

Ef ætti ég himinsins höfuðflík

heimta med gulli og við silfurljós,

þá bláu og mynstruðu og myrku flík

af mistri og nótt og við hálfljós,

þá myndi ég þræð’ana þér við fót;

en ég, sem á ekkert, nema aðeins minn draum;

ég hef lagt minn draum þér lágt við fót;

farðu hægt, því þú heldur minn draum.

(Aedh óskar sér himnaflíkur, þýð. SBS.)

Á gelísku merkir Aedh logi og Yates notaði það sem nafn á skáldið í persónu sinni. Svo má magna myndlíkinguna til að nema ástríðu himins og heims.

Mara kemur í heimsókn

Mara kemur í heimsókn eftir ljóðabók Natöshu S. Bókfróð mágkona mína færði mér hana í afmælisgjöf á Þorláksmessu og taldi að ég gæti notið snilldarinnar. Ég las bókina á jóladagsmorgni og heillaðist. Þetta er mögnuð íslensk-rússnesk bók, persónuleg og menningarpólitísk lífsbók. 

Mara er leiðarstef bókarinnar, mara sem birtist í samskiptum, í heilsubresti fólks en líka í samfélagsfári. Hvað er mara? Orðið er eldgamalt og táknar hryllingsdrauma fólks, martraðir. Mara vísar til djúpótta manna í milljónir ára. Stofnorðið hefur eignast afkomendur í mörgum tungumálum og miðlar sameiginlegu minni. Natasha ljóðar um þessi tengsl.

Í norrænum menningarheimi er mara vættur sem þrýsti á brjóst þeirra er sváfu og olli köfnunartilfinningu og skelfingu. Maran leggst með þunga á fólk og martröð er þegar mara traðkar, treður, á fólki. Í ensku lifir orðið í nightmare, og mare vísar ekki til merar heldur óvætts. Í frönsku birtist orðið sem cauchemar, mara sem þrýstir, þ.e. treður. Orðið er líka til í slavneskum tungumálum – á rússnesku kaesmar – og er tengd bæði draugum, ranghugmyndum og blekkingu. Allir menn óttast eitthvað og mara vísar til djúpreynslu milljóna kynslóða. Maran er hið óttalega sem leggst yfir mann, lamandi, þögul, skelfileg og ósýnileg – en í mismunandi myndum, verum, aðstæðum og menningu. 

Natasha S. nýtir þessa orðsifjadýpt og vensl manna og tengir rússneska marglaga martröð við landflótta dóttur á Íslandi sem óttast bæði um föður og menningu sína.

Við upphaf bókarinnar kynnir hún heimsfjanda mannanna. Mara í meðförum hennar er ekki aðeins draumvættur heldur einnig pólitísk martröð og persónuleg aðsókn. Maran sækir að þegar fortíð og samtíð skella saman, þegar heimkoma verður ekki fagnaðarfundur heldur uppgjör og dapurleg átök. Maran er í ljóðunum það sem hrellir samfélag og þegar stríð geisa, vald er misnotað og lygar flæða um í kerfi óttastjórnar. Mara kremur fólk í sorg, sekt, minnistapi og hrörnun.

Með áhrifaríkum hætti fléttar bókin saman stórpólitíska martröð og líkamlega martröð veikinda. Natasha S. skilur og túlkar vel að pólitískt ofbeldi læðist inn í fólk, líkama, sál, menningu, samskipti fólks og hópa í margar kynslóðir. Og maran er djöfullega seig.  

Í bókinni er faðirinn marglaga tákn. Hann var sterkur og hugrakkur en er orðinn veikur og bugaður. Hinn frjálsi andi varð birtingarmynd martraðar, líkami sem ber ör sögunnar og nútíma. Hann er minnisberi þess sem var en líka tákn um sorglegan missi. Í veikindum hans birtist maran. Hvað gerist þegar hinir sterku eru sviftir mætti sínum,  gildum og frelsi? Mara er ekki aðeins ógn, heldur líka ákall um ábyrgð, að muna, að vera áfram til staðar.

Þótt maran sé óttaleg fer hún að lokum, jafnvel martröð endar. Natasha S. túlkar valdníðslu, pyntingar listamanna og andófsmanna, stríð og siðferðilegt rof sem mörur samtímans. En hið mikilvæga er að illt fólk og kúgandi stjörnvöld eru tímabundnar martraðir sem má greina, vakna og hverfa frá. Að nefna hið óttalega er fyrsta skrefið til að svipta möru stjórn. Veikleikinn afhjúpar ekki aðeins hið sorglega, heldur líka nærveru, mildi og ábyrgð. Von leysir höft.

Mara kemur í heimsókn er kraftmikil ljóðabók, pólitískur andófsgjörningur og mögnuð vonarbók. Natasha S. er meistari. 

Mara er sú bók sem kom mér mest á óvart á þessu ári sem er að líða – og hef ég þó lesið margar. 

Smekkleg hönnun og umbrot bókarinnar: Elías Rúni. Útgefandi: Benedikt bókaútgáfa. 

Menntun, viðhorf og stjórnmál í Ameríku

Ég rakst á kort af menntunarstigi fólks í Norður-Ameríku sem opnaði augu mín. Á því sést að menntun er mjög misskipt og svæðabundin í Bandaríkjunum. Möguleiki til menntunar hefur löngum tengst fjárhag. Menntunarskortur eykur einfeldni en menntun veitir yfirsýn og eykur gjarnan getu til greiningar sem er forsenda víðsýni. Kanadabúar hafa notið mun meiri menntunar en Bandaríkjamenn.

Á síðustu áratugum hefur góð menntun eða skert menntun orðið æ gildari þáttur í þróun stjórnmála í Norður-Ameríku. Í Bandaríkjunum er fylgni milli þess hversu margir íbúar hafa lokið háskóla- eða starfsmenntun og hvort íbúar á viðkomandi svæði kjósa frjálslynda fulltrúa eða íhaldssama. Fræðimenn hafa talað gjarnan um “diploma divide”. Ríki og sýslur með hátt hlutfall háskólamenntaðra íbúa kjósa aðallega demókrata. Á svæðum með lægra menntunarhlutfall hallast fólk frekar að repúblikönum. Fólk með háskólapróf hefur oftast frjálslyndari afstöðu til félags- og menningarmála en þau sem hafa minni menntun. Aðalskýringin er peningaleg. Nám er ekki sjálfgefið. Háskólanám er mjög dýrt í Bandaríkjunum og fyrst og fremst opið þeim ríku. Elítugagnrýnin er vein hinna efnaminni.

Í Kanada er menntakerfið fjölbreytilegra en sunnan landamæranna. Fleiri en peningafólkið hafa þar möguleika á góðri menntun. Sérhæfð starfs- og tæknimenntun nýtur einnig meiri virðingar norðan mæranna, háskólanám er almennt aðgengilegra og félagslegt öryggi meira. Stjórnmálaafstaða er ekki í Kanada jafn tengd menntun eða menntunarskorti eins og í Bandaríkjunum. Pólitískur munur milli fylkja í Kanada snýst aðallega um orkumál, tungumál, menningu og samband ríkis og markaðar – og kannski líka nú afstöðu til tollastefnu og yfirgangs núverandi Bandaríkjastjórnar.

Samanburðurinn bendir til þess að munur á menntun hafi pólitískt sundrandi áhrif fyrst og fremst þegar hún er dýr. Kerfisvandi Bandaríkjamanna er dýr menntun og þar með spenna milli þeirra betur settu og hinna menntunarskertu. Þar sem menntakerfi eru djúp og breið og fólk getur menntast þrátt fyrir fátækt dregur úr líkum á að menntun verði stétta- og afstöðustýrandi í stjórnmálum. Sem sé: Það sem getur bætt líðan Bandaríkjamanna, minnkað spennu í Ameríku og öllum heiminum er ódýr gæðamenntun handa öllum íbúum Bandaríkjanna, ekki aðeins þeim ríku.

Þökk sé áherslu á alþýðumenntun á Íslandi og þeirri óumdeildu meginstefnu að allir eigi að njóta sömu möguleika til náms. Gætum þeirrar menningarstefnu að allir eigi að fá að njóta gæðamenntunar.

Og við Kanadabúa vil ég segja: Flytjið út menntunaráherslur ykkar suður fyrir landamærin. Það er enginn tollur á góðum hugmyndum og góðri menningu.

Já, blindur er bóklaus maður. Og „…þjóð mín mun farast því að hún hefur enga þekkingu.“ Hós 4.6. 

„Vísindin efla alla dáð,
orkuna styrkja, viljann hvessa,
vonina glæða, hugann hressa,
farsældum vefja lýð og láð …“

(úr ljóðinu: Til herra Páls Gaimard eftir Jónas Hallgrímsson)