Eldgjá – á mesta hamfarasvæði heims. Þegar ég bjó í Ásum í Skaftártungu á níunda áratug síðustu aldar fór ég og smalaði með sveitungum mínum afréttinn. Þegar Eldgjársvæðið var smalað sat ég á hestbaki nærri Ófærufoss. Hvasst var, hesturinn kvikur og fældist að lokum við gjárbarminn. Við vorum báðir í hættu, hrossið og ég. Mér lánaðist þó að snúa klárinn niður, róa hann og teymdi hann síðan þægan og bljúgan. Atgangurinn rifjaðist upp er ég kom að og í Eldgjá um helgina. Engin rosi þann daginn – né í sál minni – aðeins djúp lotning gagnvart undri jarðar og heims.
Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar
113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.
Rimpað á Hornströndum
Hálfrar aldar minning – saumspretta lagfærð fyrir messuferð í Staðarkirkju, Aðalvík á Hornströndum. Viðgerðin heldur enn og kirkjan stendur – en gleraugun farin í eyðingu tímans. Við vorum saman þrír guðfræðinemar og tæknimaður – dásamlegt kombó. Þræddum allar víkur, klifum fjöll, kynntumst kraftmiklu fólki og nutum gestrisni þess, skoðum stríðsminjar, ræddum djúpmálin og fengum að sofa í aðalhorninu hjá vitaverðinum á Horni. Sigldum svo hugsi og sælir undan huliðshjálminum til Ísafjarðar, saumsprettausir. Mannlíf, dýr og undur við Íshafið lifa í minningu. Þegar myndirnar koma úr kafinu finn ég enn lyktina úr lynginu, sé brosandi augu fólksins og alls konar gamlar hugsanir banka upp á.
Gamli, freki kallinn?
Hvert er hlutverk okkar sem erum á þriðja æviskeiði? Er það að stjórna og láta alla hlýða okkur? Nei. Hlutverk okkar er að miðla því sem við höfum lært, þeim lífsráðum sem við vitum best og höfum jafnvel uppgötvað í baráttu við mestu sorg og áföll. Hlutverk okkar er að miðla visku og lífi en valda ekki ógn og dauða.
En veröldin situr uppi með gamla og freka kalla. Þeir sem ráða örlögum heimsins eru svo aldraðir að þeir eru í slag við þennan með ljáinn. Khameiní í Íran er 86 ára, Trump 79 ára, Netanyahu 75 ára, Modi 74, Pútín og Xi eru báðir 72 ára. Og þeir sprengja og vilja – já krefjast – fleiri vígvéla og heimta öflugri bombur. Trump vill að Nató leggi mun meiri fjármuni í hernaðartól sem merkir auðvitað að evrópsk ríki kaupi miklu meira af amerískum vopnaframleiðendum. Haag-fundur Nató í júní 2025 hlýddi og varð stefnufundur sprengjukallanna. Hið sérkennilega er að ekki var rætt, skoðað og síðan rökstutt hvað þyrfti mikla peninga til að tryggja varnir. Nei, bara miklu meiri peninga – ja, kannski svona 5% af vergri þjóðarframleiðslu. Engin rök, engar skýringar – bara frekjukast. Og auðvitað undirlægjuhlýðni hinna yngri leiðtoga Nató. Látum kallinn fá það – það sem hann vill. Ekki rökleg og heildstæð stefnumótun heldur undirgefni til að Nató liðist ekki í sundur. Mikill sigur? Nei.
Freku kallar öldrunarstjórnarinnar fæddust og nutu uppeldis í skjóli friðar eftirstríðsára tuttugustu aldar. Nú grafa þeir undan friði. Þau stórmál sem heimurinn glímir við eru hnattræn hlýnun, ógn við lífríki jarðarinnar, skelfileg mengun, vatnsskortur og mannréttindavá. Slagur freku kallanna við þann með ljáinn veldur þeim óbærilegri óþreyju og ofsaþrá að beita valdi, láta til sína taka með látum. Heimsendir verður hvort sem er ekki fyrr en eftir þeirra dag.
Í lok tuttugugustu aldar var Vigdís Finnbogadóttir meðstofnandi Heimsráðs kvenleiðtoga sem síðan fléttaðist inn í Madrídarhópinn. Þau voru öldungahópur leiðtoga sem þjónuðu lýðræði og mannréttindum. Nelson Mandela stofnaði síðan ráðgjafahópinn The Elders árið 2007. Öldungarnir voru leiðtogar og þjóðhöfðingjar sem höfðu látið af störfum, s.s. Kofi Annan, Jimmy Carter, Desmond Tutu, Mary Robinson og fl. Verkefni þeirra var að stuðla að friði, mannréttindum og sjálfbærri þróun samfélaga. Í starfi þeirra birtist viska og einurð sem aldur getur fært fólki – þegar unnið er með lífsreynslu í auðmýkt og af ábyrgð. Á hvorum hópi öldunga hefur heimsbyggðin meiri þörf nú – öldungunum sem blessa og stuðla að lífi eða gömlu bombuköllunum, þessum freku?
Vandinn er ekki aldurinn sjálfur, heldur hvernig ævinni hefur verið varið og til hvers. Heim okkar skortir ekki valdasækna öldunga, heldur þjónandi leiðtoga – konur og karla – sem skilja að lífsgildi felast ekki í völdum og vopnaglamri – heldur í því hvernig fólk skilar af sér garði sínum, samfélagi og veröld. Nú er ráð að fara að skoða sögu Jesú Krists um ráðsmanninn í sextánda kafla Lúkasarguðspjalls.
Morguníhugun 1. ágúst, 2025.
Myndirnar veiddi ég úr heimi gervigreindar.
Heimþrá sálar – og málningarveður
Heimkoma og heimþrá hafa blundað í mér liðna daga og merkingarsvið hugtakanna orðið til íhugunar. Ég ætlaði reyndar að drífa mig út í morgun til að mála húsveggina heima en morgunskúrirnar hindruðu þann ásetning. Í mér var óþreyja og mér til sefunar rifjaði ég upp dýptaróþreyju Ágústínusar í Játningum hans, þessa heimþrá hjartans, til þess sem var, er og verður.
„Þú skapaðir okkur til þín og hjarta okkar er órótt þar til það finnur hvíld í þér.“
Það er gaman að skoða merkingu orða og grískan er okkur guðfræðingum bæði heimahagar og almenningur. Orðið nostalgía er samsett úr nostos – heimkoma – og algos – sársauki. Það er sársaukafull löngun eftir heimkynnum, þrá eftir því að komast aftur til einhvers sem var. Nostalgía varðar það sem við misstum, eitthvað sem við skynjum í fjarska.
En trúarþrá er annað og meira en einföld heimþrá sálar. Hún er ekki nostalgía vegna fortíðar. Hún er líka framtíðartengd von. Hún er elpis – sú von sem væntir hins góða, t.d. lausnar, réttlætis, endurfunda og friðar. Hún býr í djúpum þess sem trúir að til sé sannleikur sem lýsir, kærleikur sem læknar og Guð sem kallar heim. Trú, von og kærleikur – πίστις, ἐλπίς, ἀγάπη – 1Kor 13:13.
Trúarþráin er líka tilvistarþrá – þörf fyrir samhengi, tilgang og tengsl við það sem er meira en sjálf og heimur. Hún er ekki aðeins hugsun heldur jafnvel fremur hungur eftir því sem sefar, nærir og mótar lífið. Hún birtist sem óþreyja í sálardjúpum og kemur fram í von og vilja að veröldin hafi merkingu. Hún væntir heilinda þrátt fyrir brotinn heim, bölvun ofbeldis og hryllings manna. Hún bregst við tómhyggju og uppgjöf, líka hlutasókn í neysluæði og skeytingarleysi manna. Hún leitar lausna, réttláts friðar og sáttar. Og gleðidansins líka!
Trúarþráin virðist bæði nostos – heimþrá en líka elpis – von. Trúin snýr bæði aftur og fram, hefur rætur til fortíðar en opnar þó til framtíðar. Á blautum degi er skemmtilegt að vitja grískra hugtaka en vænta þurrksins samt. Já, dagurinn er opinn og lífið líka – og ég trúi að það sé þrungið merkingu, fegurð og tilhlökkunarefnum. Ég dansa “vonandi” með pensla og rúllur við húsveggi í dag og gleðst svo með mínu fólki í kvöld – og ævi mig þar með í himnaríkisvistinni.
- júlí 2025.
Nostos og heimkoma – Odysseifskviða
„Hver vegur að heiman er vegur heim“ orkti Snorri Hjartarson og Magnús Eiríksson notaði síðar í söngtexta. Hvernig er ferðalag okkar manna og hvernig endar það? Er einhver tilgangur?
Heimleið og heimkoma er magnað stef í sagnasveig heimsins. Í forngrískum bókmenntum er hugtakið nostos – νόστος – eitt þeirra og fangar og varðar bæði líkamlega og andlega þrá heimkomunnar. Í Ódysseifskviðu Hómers er nostos meginþema. Ódysseifur, konungur Íþöku, barðist í tíu ár eftir fall Tróju við óvini, goðmögn, sjálfan sig og örlögin. En markmið hans var alltaf að komast heim. En nostos merkir meira en að snúa aftur í hús eða til staðar eða í hóp blóðskyldra ættmenna. Það tjáir djúpstæða löngun að verða heill – og verða að nýju persóna og þátttakandi í lífgefandi samhengi sem skilur mann. Þar er heima og þar á maður heima.
Á ferðalagi Ódysseifs er heimkoma tákn um endurheimt sjálfsins, skyldur við fjölskyldu og vilja mannsins gagnvart örlögum og yfirnáttúrulegum öflum. Nostos er samtvinnun þrautseigju hetjunnar og þroskasögu sjálfsins. En sá eða sú sem snýr heim er þó ekki sama mannveran og í upphafi. Heimkoma er ekki að falla í þekkt fang. Söguhetjur snúa heim frá lífsreynslu með nýjan skilning og nýja nálgun. Þroskareynsla stækkar þau sem vinna með reynslu sína og gefur nýja sýn á aðstæður, fólk, sjálf og heim. Lífið er því ekki hringferð heldur fremur í mynd þroskaspírals (eins og túlkunarfræðingarnir, s.s.Gadamer, hafa kennt).
Gömul grísk viska um nostos varðar líf okkar í nútíma. Viska er jú tímalaus og klassísk. Hvernig er hægt komast heim til sjálfs sín eftir kulnun, úr tölvufíkn netheima, úr depurð eða sjálfsskaða, eftir veikindi eða djúpa sorg og til líkama, fjölskyldu, trúar, náttúru og lífsfyllingar? Sterk náttúrulifun fólks opnar oft og vekur tilfinningu fyrir að vera kominn heim. Ganga á öræfaslóð getur orðið leið að dýptum sjálfsins.
Saga Ódysseifs og okkar flestra er nostos-ferð mæralifunar. Lífsreynsla, sem unnið er með, er mærareynsla okkar á innri hetjuferð lífsins. Setningu Snorra má túlka sem þroskaverkefni okkar allra, hetjureisu sálarinnar og dýptarkönnun lífsreisunnar. Innri og dýpri köllun okkar er að fara alla leiðina heim. Á mannamáli er það að ná sátt í lífinu – vera heima í málum hamingjunnar. Á máli trúarinnar er það að auki að lifa í guðstengslum.
Nostrum við sjálfið og lífsreynslu okkar.
Morguníhugun 30. júlí 2025 um nostos – ferðalagið í Ódysseifskviðu.