Karl I var síðasti keisari Austurríkis og konungur Ungverjalands. Karl var maður friðarins í heimi ófriðar. Þegar heimsstyrjöldin fyrri braust út reyndi hann án árangurs að binda endi á blóðbaðið. Keisaradæmið hrundi og fjölskylda Karls var svipt völdum og eignum. Karl var sendur í útlegð árið 1921 og eiginkona hans, keisaraynjan Zita, fluttu þá til Funchal á Madeira. Þar dvaldi Karl fársjúkur síðustu mánuði lífsins. Hann dó 1. apríl 1922, aðeins 34 ára gamall. Í kirkjunni í Monte í Funchal er grafhýsi hans enn varðveitt.
Það er tilkomumikið að fara með kláfferjunni frá hafnarsvæðinu í Funcahl, liðlega þriggja kílómetra leið upp í hæðirnar í Monte. Þegar út er komið blasir við Frúarkirkjan á fjallinu. Hvít og látlaus kirkja sem brosir í grænni hlíð Funchal. Útsýnið er stórkostlegt þar efra og undarlegt að hugsa um líf fólksins sem hefur búið hér, átt sér drauma, sorgir, gleði og líf.
Fjallsbyggðin í Monte hófst á 19. öld þegar ríkir Evrópumenn reistu hallir þar efra, yfir 500 metra hæð yfir sjávarmáli. Montehöllin er eitt þessara húsa sem á sér mikla sögu, var um tíma hótel og komst svo í eigu fólks sem vildi varðveita gróðurvin fyrri eigenda. Rétt neðan við fjallskirkjuna er glæsilegur grasagarður, Monte Palace Tropical Garden. Þar er gróðurparadís með lækjum og fossum, skemmtilegum mósaíkskiltum portúgalskrar sögu, japönskum brúm og áhugaverðum listaverkum. Mér þótti merkilegt að koma í þessa vin fegurðar, sögu og ríkulegs samhengis á allra heilagra messu. Lífið sækir fram. Friðurinn í Monte er nærandi og Madeira er heillandi.

