Greinasafn fyrir merki: nýtt ár

Nýtt líf

Liðið ár var viðburðaríkt í lífi fjölskyldu minnar. Á skurðstofu fæðingardeildar Landspítalans var kona mín skorin upp. Læknir seildist inn í kvið hennar og dró út lítinn dreng og síðan annan mínútu síðar. Þeir hrinu báðir og gleðióp hljómuðu frá hjúkrunarfólkinu í stofunni. Svo var komið með annan guttann til að leggja í fang móðurinnar en þá kom að hinu óvænta. Vegna handadofa treysti mamman sér ekki til taka við stráknum og bað um að hann yrði settur í fangið á pabbanum óviðbúna. Það var mikil reynsla að fá nýburann í fangið svo óvænt. Tárin streymdu. Smádrengurinn kallaði fram elsku. Í bland við hraðrannsókn á hvort sköpulagið væri eðlilegt flugu lífsóskirnar: „Guð minn góður gefi þér líf, allt sem þú þarft til að lifa.“ Í fanginu var lítill kroppur með alla þrá heimsins og lífsvon í augum. Ekkert rífur betur í vanann og hvetur til dáða en barn sem á allt undir elskunni í foreldrum og frændgarði, á aðeins lífið og hamingju í vændum ef ég og við bregðumst vel við. Skyldi í svona reynslu vera eitthvað guðlegt?

Kross undir og ofan á

Í gamalli þjóðsögu segir frá álfkonum á ferð. Þær laumuðu sér í bæ og komu að vöggu þar sem hvítvoðungur var. Þær ætluðu að stela barninu og fara með það í eigin heima. Önnur álfkonan varaði við og sagði: „Ekki má, ekki má. Kross er undir og ofan á. Tvævetlingur situr hjá og segir frá.“ Þær hættu við barnsránið. Nýja árið er sem hvítvoðungur sem þarf að krossa til að enginn steli og trylli heldur nái þroska og verði það sem verða má. Í texta nýársdags segir frá því að Jesús fékk nafn og að hann var umskorinn eins og allir gyðingadrengir á áttunda degi frá fæðingu. Drengir hafa í þúsundir ára velt vöngum yfir hversu þjáningarfull umskurn væri. Tveir strákar voru eitt sinn að ræða saman. Annar spurði umskorinn gyðingastrák hvort honum hefði ekki fundist vont að láta skera af typpinu. Jú, hann hélt það nú. „Það var svo sárt að ég gat ekki gengið í heilt ár á eftir!“

Viðburður ársins

Hvað var það merkilegasta sem þú reyndir á liðnu ári? Þú hefur orðið fyrir reynslu af fólki, atburðum, náttúru og hlutum. Kannski hefur þú heimsótt stað eða fólk sem hafði áhrif á þig. Varðstu fyrir einhverju óvæntu sem vakti nýjar kenndir eða reif ofan af gömlum sárum? Ef þú varðst fyrir missi var rifið í sál þína. Er eitthvað á árinu sem hefur snortið þig í djúpum persónu þinnar, náð að strjúka strengina hið innra, magna lífssönginn og leyft þér þetta sem kallað er svo fallega að upplifa, lifa upp? Við áramótum megum við gjarnan gera upp reynslu liðins árs til að við verðum fær að opna og mæta viðburðum og tækifærum. Leyfum okkur að fæðast til opins tíma.

Nýtt ár

Við lærum að skrifa nýtt ártal. Við æfum okkur í staðreyndinni að árið er liðið í tímasafnið, í aldanna skaut og kemur aldrei til baka. Það er vottur af hryllingi í þeim boðskap áramótasálmsins. Aldrei til baka, algerlega farið og ekki hægt að bæta með beinum hætti það sem mistókst og fór aflaga. Beygur fer um huga og jafnvel líka sorg vegna þeirra sem voru slitin frá okkur og vegna hins sem við gátum ekki eða gerðum ekki. Stundum erum við óviðbúin nýjungum og viljum ekki opna huga okkar en nýtt ár er sem vonarbarn sem skellt er í fang okkar. Það er ómótað og á sín spyrjandi barnsaugu. Hvað viltu gera með mig? Hvað viltu verða á árinu? Við erum flest seigt íhald. Við höldum fast í hefðir og viljum ógjarnan verða öðruvísi og alls ekki missa heilsu, vinnu, forréttindi, hárið eða lífsmynstrið. Bara kíló og sorgir mega hverfa. Svo kemur hið nýja ár möguleikanna.

Guðspjallstexti nýársdags

Dagurinn í dag heitir á kirkjumálinu áttidagur jóla. Vika er liðin frá aðfangadegi og dagurinn fellur saman við áramót. Guðspjallstexti nýársdags er stuttur og framhald á jólasögunni. Nýburinn í Betlehem var umskorinn í samræmi við hefðina. Blóð rann við upphafssögu hans og rímar við blóðfórn við lífslok. Endir er í upphafinu og öfugt, sem táknskynugir nema. Svo var hann nefndur Jesús sem þýðir að Guð frelsar. Hann bar þegar í nafninu skilgreiningu hlutverks síns. Kristsnafnið er síðari viðbót og tekur til vonarspádóma um hinn smurða konung sem muni frelsa. Gyðingar tengdu saman umskurn og nafngjöf. Það var ungbarnaritúal. Umskurnin var ekki síst iðkuð til að marka ungsveinana sem börn þjóðarinnar. Gyðingur gekk inn í sögu sem hafði tilgang og fjölbreytilegar skyldur. Nafnið skilgreinir síðan hlutverkið frekar. Jesús var umskorinn á áttunda degi. Vafalaust hefur hann ekki gengið mikið næsta árið, þetta var jú sárt!

Nafngjöfin

Í forngermönskum samfélögum voru nöfn talin skilgreinandi og fylgdi t.d. rándýrsnöfnum trú á að nafnberar yrðu öflugir. Svipað gilti meðal Gyðinga. Nafn var bæði lýsandi og leiðbeinandi um eigindir einstaklinga og hlutverk. Í Nýja testamentinu ber Jesús hina grísku umritun á hebreska nafninu Jósúa eða Jeshúa. Margir höfðu hlotið þetta vonarnafn áður en Jesús fékk það. Hann einn uppfyllti erindið. Hlutverk hans var að ganga erinda frelsis, færa kúguðum rétt, hinum stríðandi frið og bandingjum lausn. Hver er hemill í þínu lífi? Hver er hamur þinn?

Val nafna í samtíð okkar er með ýmsu móti. Sumir foreldrar hafa gaman af nafnamúsík og vilja að nöfnin hljómi glæsilega. Aðrir skírskota til ættar og sögu og stundum eru nöfn gefin vegna þess að fólk vill heiðra einhvern. Nú á tímum vitjar látið fólk sjaldan nafs eins og algengt var á fyrri öldum. Fjölbreytni í nafngjöfum á Íslandi vex með fleiri innflytjendum. Þó að mannanafnavefir á netinu séu brunnar fróðleiks um merkingu heita og erlendir nafnavefir séu aðgengilegir virðast íslenskir foreldrar hugsa meira um „lúkk“ og hljóm en merkingu, semantík og samhengi. Flestum þykir vænt um nafnið sitt. Nafnið skilgreinir að einhverju leyti mat á sjálfi og mótar, hvort sem menn heita Sigurjón Bláfeld, Logi Eldon eða eitthvað annað. Nöfn geta líka verið svo þungbær að eigandinn rís ekki undir þeim. Um allar aldir hafa menn vitað að nöfn skilgreina og hafa áhrif á líf einstaklinganna.

Gæska og guðshlátur

Litlu karlarnir mínir voru strax nefndir eftir fæðingu en eru skírðir á nýársdegi. Nöfnin þeirra eru Jón Kristján og Ísak. Jónsnafnið er ekki aðeins eitt algengasta nafn Íslendinga síðustu aldir heldur er einnig notað víða á Vesturlöndum en í ýmsum útgáfum. Það birtist í Jean, John o. fl. og merkir að Guð er góður. Kristján er sömuleiðis til í ótal myndum og vísar til kristinnar mennsku. Ísak er úr eldra testamentinu. Frægastur Ísaka er sonur Söru og Abrahams. Nafnið vísar til húmoristans Guðs og merkir hlátur Guðs. Himinhúmorinn á sér afleggjara í kátínu okkar, aldraðra foreldranna, yfir undrinu. Nöfn drengjanna eru úr hinni kristnu hefð. Jesúnafnið gefur kross sem er undir og ofan á. Þessi íklæðing hins trúarlega kemur meðal annars fram í táknatferli prestsins sem í skírn krossar á enni og brjóst. Það gerðu foreldrar við börn sín er þau voru þvegin og það var einnig gert við mig ungan. Í signingunni er tengt við merkingu Jesúnafnsins. Eilífa lífið byrjar ekki í dauða heldur í skírn. Við erum börn heimsins og heimsborgarar en í skírninni verðum við fullveðja börn eilífðar. Við gefum ungviðinu allt það besta sem við getum og eigum. Trúmenn bera börnin að skírnarlaug til að líf þeirra verði helgað því besta. Nöfnin þeirra og veruleiki er þá í Jesú nafni.

Fangið fullt af lífi

Stundum hættir okkur við að smætta trú og Guð og horfa með augum fordóma eða með gleraugum þröngsýnna trúmanna. Miðja kristninnar er Guð en ekki sögulegar birtingar trúarinnar. Nafn þess sem best túlkar guð kristninnar er Jesús og merking og nafn hans er frelsi, boð um að fjötrar falla og þú, menning, þjóðir og veruleikinn fæði frið, réttlæti og lausn. Þetta er boðskapur sem við þurfum að heyra við áramót. Hvað hamlar í hinu íslenska samfélagi? Hvað getur orðið til bóta í alþjóðasamfélaginu? Hvað hemur þig? Hvernig getur þú losnað úr viðjum og lifað vel og í hamingju? Allt lífið er spurn og ávallt berst svar sem er guðlegt. Allt lífið er barátta sem eilífðin faðmar. Allur vandi heimsins er umlukinn þessu himneska: að Guð frelsar. Þannig gefur Guð nafn. Þannig nefnir Guð heiminn með von og huggun.

Þegar barn var lagt í fang mitt öðlaðist ég ekki aðeins lífsreynslu heldur fylgdi líka með vitund um stöðu okkar manna. Við erum í elskufangi í öllum lífsaðstæðum. Allt mennskt endurómar hið guðlega. Í skírn færum við börn í fang Guðs. Ef við getum upplifað mikla hamingju þegar nýburi er í fangi hlýtur Guð að samgleðjast okkur. Við áramót megum við kasta fortíðarham og öllu sem letur okkur. Við getum gert þá lúxustilraun að prufa hvort treysta megi möguleikunum sem opnast: sem sé, að við séum hvítvoðungar í stórum elskufaðmi. Þar eru engir ránsálfar sem ógna lífinu. Þar er ekkert sárt og þar þurfum við ekki að bíða í heilt ár til að ganga eða hlaupa. Þar megum við sprikla og læra að tala og sjá tilveruna í róttæku ljósi hins góða og gjöfula. Þar búa nú Ísak og Jón Kristján. Þar mátt þú líka hjala og vera í Jesú nafni. Kross undir og ofan á.

Nýársdagur 2006. Slm 90.1–4; Gal 3.23–29; Lúk 2.21.

Nýr tími

Tímaskil geta orðið ágeng og vakið miklar tilfinningar. Mér er minnistætt þegar einn drengja minna var sjö ára og yfirkominn af tímaöng. Hann fylltist af depurð yfir glötuðum tíma. Hann sá svo óskaplega eftir gamla árinu sem kæmi aldrei til baka. Hann var lostinn harmi yfir að gleðitíminn væri farinn og aldrei væri hægt að lifa hann aftur. Við foreldrarnir tókum drenginn í fangið og töluðum um víddir og takt tímans og möguleika lífsins. Þá var líka gott að tala um hvað afar og ömmur, við foreldrar og allir hinir ástvinirnir hugsum og gerum gagnvart tortímanda tímans. Eftir gamlárskvöld kemur nýr dagur og nýir möguleikar. Tíminn er ekki búinn heldur opinn. Til að tákna það breiðum við á nýársdegi hvítan dúk á borð nýársdags. Blóm dagsins væru hvít til að tákna að dagurinn væri upphaf nýs og óspjallaðs tíma. Meira segja litur kirkjunnar á þessum degi væri hvítur til að minna okkur á að framtíðinn væri opinn faðmur. Hvítt gegn myrkvaðri glatkistu fortíðar til að minna okkur á að hið liðna er farið. En tíminn er opinn.

Nýr tími merkir að við erum frjáls. Hvað um tíma nýs árs í vinnu, í einkalífi og í samskiptum? Er eitthvað sem bindur hug og líf? Þarf að losa festur, opna tabú og segja satt? Hver er djúplöngunin? Hvað viljum við gera við tímann, hvernig næra sjálf og stæla líkama? Kostur hvers tíma og hvers dags er að vera farþegi eða við stýrið í eigin lífi.

Skáldið bað: „Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.“ Það er verkefnið. Viturt hjarta – fyrir líf og dauða, fyrir gleðistundir, hörmungartíma og hamingjuvegi. Guð hefur úthlutað gáfum og gæðum til að vinna verkin og vit til að greina úrræðin. Guð hefur skapað tímann og okkur mannfólkið svo listilega að okkur er það mögulegt. Framundan er nýr tími, ómengaður og hreinn tími. Tímaöng varðar fortíð en fögnuður hæfir framtíð. Gleðilegt nýtt ár 2021.

Myndina tók SÁÞ eftir helgihald í Hallgrímskirkju á nýársdegi. Myndin er af bílrúðu við Hnitbjörg, safn Einars Jónssonar. Textinn er Gleðilegt nýtt ár 2021.

Klikk, kikk og áramótaheit

IMG_5522

Dagar liðinna vikna hafa verið mér dagar sterkra upplifana. Flest er mér nýtt og áhrifaríkt vegna þess að ég starfa á nýjum stað, í nýju umhverfi og með nýjum samstarfsmönnum. Allir dagar eru sem veisla. Ég hef notið að fylgjast með starfsfólki kirkjunnar að störfum, metnaði þeirra, lagni við að leysa flókin mál, æðruleysi og kátínu gagnvart furðum mannlífsins og einbeittni við að þjóna herra þessa helgidóms. Alla daga er fjölmenni hér á Holtinu. Fjöldi tungumála heimsins eru töluð daglega í kirkjunni.

Myndirnar

Ég horft á förumenn heimsins í þessu hliði himinsins. Hvernig líður þeim? Hvað hugsa þau? Að hverju leita þau? Tilfinningu, dægrastyttingu, lífsfyllingu? Við sum hef ég talað og fengið staðfest að markmiðin eru ólík. Flest halda á myndavélum. Efst á Skólavörðustígnum byrjar klikkið. Svo taka þau myndir á Halgrímstorginu, við Leifsstyttuna, taka myndir af ferðafélögum sínum – eða sjálfu – með hurð og Hallgrímsglugga í basksýn. Svo storma þau klikkandi inn í kirkju. Sum ganga að kórtröppum og leika sér að góma myndir ljóssins í þessum katedral birtunnar. Önnur staldra við orgelið og taka myndir af spilandi organista. Og mörg fara upp í turn – til að ná útsýn. Þessa síðustu daga ársins hefur lyftubiðröðin verið tíu metra long. Hvaða yfirsýn fá þau og hvað festist í þeim?

Líklega er enginn blettur á Íslandi með jafnmörg myndavélaklikk og í eða við Hallgrímskirkju. Vinsældir staða eru ekki aðeins spurning um “like” á tölvunni heldur klikk á myndavél!

Til hvers?

Fólk á ferð – förumenn. Hver er þeirra hamingja og hver óhamingja? Njóta þau ferðarinnar? Hjörtum svipar saman í Súdan og Grímsnesinu – þau eru á lífsleið og teygja sig eftir hamingjunni – eins og þú.

Ég hef verið hugsi yfir klikkunum. Eins og það er auðvelt að tapa sér á bak við tölvuskjá er hægt að tapa sambandi við eigið sjálf á bak við linsu – gleyma að lifa í stað þess að klikka. Að taka myndir er undursamlegt og myndirnar varðveita margt sem hægt er nýta til innri vinnu og í þágu fjölskyldu og mannlífs. En röðin ætti að vera: Upplifun fyrst og myndin svo. Hvort viltu kikk í lífinu eða klikk í myndavél?

Áramótaheitið

Öll eigum við sögu að baki sem við vinnum úr eftir bestu getu. Mörg strengja heit við áramót, ákveða hvað megi bæta og göfga lífið. Ég hef í aðdraganda áramóta horft á ferðamenn heimsins, skoðað eigið ferðalag og horft í augu ástvina minna og tekið þá ákvörðun að njóta lífsins á þessu nýbyrjaða ári. Að njóta er stefnan. Vinna, verk, heimili, samtöl, ferðir, matur, – já öll gæði verða tengd markmiðinu að njóta. Við vitum fæst hvað okkur er útmælt af dögum eða hvernig hjartsláttur daga og tíma verður, en ég hef einsett mér að njóta – njóta þess sem fólk, vindur daganna, vinnustaður og ferðalangar lífsins færa mér. Eflaust mun ég klikka með myndavélinni minni, en ég mun ekki forðast lífið á bak við linsu – heldur njóta þess.

Drottinn blessi þig

Í lexíu dagsins er Aronsblessunin, sem oft er kölluð prestslega blessunin eða hin drottinlega blessun. Hver er hún? Það eru orðin sem presturinn fer alltaf með í lok allra helgiathafna:

Drottinn blessi þig og varðveiti þig.

Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur.

Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.

Þetta er mögnuð kveðja og hún virkar. Og það hjálpar að kunna skil á einu í hebreskri bragfræði til að skilja stílinn. Rím í hebreska textanum er fremur inntaksrím, merkingarrím, en hljóðrím. Blessun og varðveisla eru ekki rímorð í eyrum Íslendinga, en það eru þau í þessum texta því þau eru skyldrar merkingar. Og að Guð snúi ásjónu sinni að þér rímar við að Guð sé þér elskulegur. Að Guð horfi á þig merkir líka að Guð tryggi þér og gefi þér frið.

Og þegar þessi merkilega blessun er skoðuð í heild er ljóst að Guð er frumkvöðull blessunarinnar, að menn – þú ert viðtakandi gernings Guðs. Þetta er þykk blessun því hún spannar allt líf þitt og allra þeirra sem hennar njóta. Og þessarar blessunar verður ekki notið til fullnustu nema í krafti Guðs. Að vera blessaður er að njóta gjafa og elsku Guðs. Það er gott líf – og til að njóta.

Ferðamenn heimsins hlaupa inn í þetta hlið himinsins. Njóta þeir blessunar? Ef þeir koma aðeins til að ná góðri mynd ná þeir ekki fyllingu blessunarinnar, heldur aðeins eftirmynd. En mörg þeirra, sem jafnvel bera lítið skynbragð á kristin átrúnað, ganga inn í helgidóminn og eru tilbúin að upplifa og hrífast. Þau eru tilbúin að opna.

Ferðamenn heimsins, ferðalangar í Hallgrímskirkju, hafa orðið mér sem veraldartorg í þessu hliði himins, dæmi um mismunandi nálgun gagnvart lífsreynslu, undri lífsins, fegurð, – já blessun. Sum taka bara það með sér sem er hægt að eiga og jafnvel selja. Önnur leyfa sér að hrífast, opna og vera. Það er að njóta (minni á aðgreiningu Erich Fromm  haben oder sein).

Og mörg hrífast svo að þau koma í kirkju af því þau vilja njóta helgihaldsins líka. Og þá mætir þeim túlkun alls sem er – ekki aðeins í kirkjunni – heldur í lífinu – í söng, hinni kristnu erkisögu. Það er boðskapurinn um blessun Guðs, að Guð kemur, elskar þig svo ákaft að Guð vill nálgast þig, ekki aðeins í ljósi eða náttúrunni, ekki með því að stjórna þér, stýra því sem þú upplifir eða hugsar – heldur með því að verða manneskja eins og þú – nálgast þig á mennskum forsendum. Og það er rímið við: Drottinn blessi þig og varðveiti þig. Viltu njóta ástar Guðs og túlka líf þitt í ljósi Guðs? Þú heldur áfram að njóta gjafa, hæfileika, gáfna þinna og menntunar hvort sem þú tengir við Guð eða ekki – en í krafti hvers og til hvers viltu lifa? Það er hin trúarlega nálgun og tenging.

Ég vil að lífsnautn mín verði blessuð á þessu nýja og ómótaða ári. Ég þekki muninn á að nota lífsgæðin og njóta þeirra. En mér er í mun að líf mitt verði ekki bara klikk heldur blessun Guðs. Ég kann að njóta matar en ég vil gjarnan setja mat betur í blessunarsamhengi og njóta hans af því hann er gefinn af Guði. Ég kann að njóta stórkostlegra sjónrænna unaðssemda, en ég vil gjarnan leyfa þeirri nautn að tengjast djúpskynjun minni af guðlegri fegurð og nánd í öllu sem er. Ég nýt hreyfingar en mér þykir blessun í því að upplifa í andardrætti og hjartslætti mínum og náttúrunnar algera nánd Guðs, að Guð er nær mér en ég sjálfur. Það er að leyfa lífi að verað rím við blessun Guðs. Ég get skipulagt og áformað, en bið um að mínar reisur verði farnar frammi fyrir Guði, í fullvissu þess að Guð hefur hafið upp ásjónu sína yfir mig, sér mig, elskar mig, leiðir og gætir. Það er blessun í lífinu. Þetta er skerpingarverkefni mitt. Þessi lífsafstaða varðar að helga heiminn og lífið. Leyfa veröldinni að njóta þess sem hún er, að vera smíð og verk Guðs. Að sjá í öllu nánd hins heilaga. Hvað vilt þú?

Skilja lífið

Börn í skóla fengu eitt sinn það vekefni að setja á blað drauma sína og áform um hvað þau vildu verða í lífinu. Einn drengurinn skrifaði: „Mig langar að vera hamingjusamur.“ Þegar kennarinn sá hvað strákurinn hafði skrifað, sagði hann:“ Þú hefur ekki skilið verkefnið!“ En drengurinn horði þá á kennara sinn og svarði: „Þú hefur ekki skilið lífið!“

Skiljum við lífið? Hvað um þig? Hver eru þín áform? Og ef þú hefur ekki strengt nein heit má þó spyrja hvernig þú vonist til að lifa þetta nýja ár? Og það er mikilvægt að þú lifir í samræmi við þínar vonir og þarfir. Við þurfum ekki lottóvinninga til að vera lukkuhrólfar í lífinu. Hamingjusamasta fólkið hefur ekki endilega allt það mesta og besta, heldur gerir það besta úr því sem það hefur og nýtur blessunar.

Þú þarft ekki að lifa fyrir aðra eða í samræmi við það, sem þú heldur að aðrir vilji. Þú mátt gjarnan setja þér skemmtileg markmið – þau nást betur en hin. Og rannsóknir sýna að þau sem segja frá markmiðum sínum eru tíu sinnum líklegri að ná þeim en hin, sem hafa áramótaheitin aðeins óljóst orðuð og aðeins fyrir sjálf sig.

Viltu njóta, viltu hamingu? Hvað viltu rækta í lífinu þetta árið? Verður það klikk eða lífsins kikk – sem heitir blessun á máli trúarinnar? Hvernig get ég sagt við þig að ég óski þér hamingju og gæfu á þessu ári? Það get ég gert með því að segja: Guð geymi þig. Og það, sem rímar við þá kveðju er hin aronska kveðja: Drottinn blessi þig og varðveiti þig. Það er boðskapurinn sem mér er falið að flytja þér við upphaf árs og sem þú munt heyra alltaf þegar þú kemur í kirkju. Þú mátt svo ganga um, breiða út hinar góðu fréttir og segja við fólk: „Guð varðveiti þig“ eða „Guð blessi þig.“ Og betra verður það ekki.

Amen

Hugleiðing í Hallgrímskirkju 1. janúar, 2015.

Lexía:  4Mós 6.22-27

Drottinn talaði til Móse og sagði: 
„Ávarpaðu Aron og syni hans og segðu: Með þessum orðum skuluð þið blessa Ísraelsmenn:
 Drottinn blessi þig og varðveiti þig,
 Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur,
 Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.
 Þannig skuluð þið leggja nafn mitt yfir Ísraelsmenn og ég mun blessa þá.“

Pistill: Post 10.42-43

Og hann bauð okkur að prédika fyrir alþjóð og vitna að hann er sá sem Guð hefur skipað dómara lifenda og dauðra. Honum bera allir spámennirnir vitni að sérhver sem trúir á hann fái vegna hans fyrirgefningu syndanna.“

Guðspjall: Jóh 2.23-25

Meðan hann var í Jerúsalem á páskahátíðinni fóru margir að trúa á hann því þeir sáu þau tákn sem hann gerði. En Jesús gaf þeim ekki trúnað sinn því hann þekkti alla. Hann þurfti þess ekki að neinn bæri öðrum manni vitni. Hann vissi sjálfur hvað í manni býr.