Greinasafn fyrir merki: Jesús Kristur

Dans, týndir synir og hrútar

Mynd Þorsteins JósepssonarVeisluglaumurinn í Reykjavík í nótt var ekki aðeins í miðbænum eða við skemmtistaðina. Þúsundir efndu til hátíða vegna háskólaútskrifta. Tilefni fyrir fjölskyldur að koma saman og gleðjast yfir áföngum og sigrum. Á öllu stór-Reykjavíkursvæðinu var fagnað og gleðin ríkti víðast frá því um kvöldmat og fram að miðnætti. Prúðbúið fólk var á ferð. Taktföss dansmúsík, hlátrar og hávær samtöl bárust um hverfið mitt í kvöldkyrrðinni. Það var ánægjulegt að upplifa fögnuðinn og glaumurinn rímaði algerlega við veislusögu guðspjallsins. Þegar ég lagði höfuð á koddann hugsaði ég um fólkið sem var að fagna.

Bræður í vanda

Jesús sagði sögu um fagnandi fjölskyldu. Saga dagsins er um ungan mann og fjölskylduveislu. Maðurin fór óvenjulega leið, neyddi föður sinn til að láta sig fá arfinn fyrirfram. Hann lifði svo hátt en klúðraði þó fjármálum sínum. Hann eignaðist viðhlægjendur meðan hann átti peninga. En svo þegar auðurinn var búinn blasti hryllilegur raunveruleikinn við. Þegar maðurinn hafði ekki annað en svín fyrir augum varð hann að horfast í augu við stöðu sína. Hann hafði náð botninum. Þegar hann viðurkenndi það var hann á leið heim í öllum skilningi.

Þrír kallar

Heima var hinum alræmda syni fagnað með grillveislu og dansi. Eldri bróðirinn hafði aldrei verið til vandræða. Hann bara puðaði heima og kom svo einn daginn úr vinnunni og horfði forviða á rjóðar, dansandi konur, syngjandi sveina og viðbjóðslegan bróður, sem hafði komið í tötrum en hafði verið færður í glansandi veisluklæði. Þegar sukkarinn kom var dekrað við hann.

Því lengur sem ég íhuga þessa sögu vex samúðin með eldri bróðurnum. Veisla fyrir ruglukollinn var meðvirkni. Í flestum fjölskyldum heimsins eru til sukkarar eða fólk sem „týnist“ af einhverjum ástæðum. Svo eru hin sem ekki lenda í neinu verulega vondu en klúðra þó einhverju. Eldri sonurinn í líkingasögu Jesú var ekki týndur í útlöndum heldur týndur heima, dugnaðarmaður en tepptur hið innra. Hann var sjálfmiðaður í gæðasókn sinni og hafði tapað tengslum við ástvini sína. Þegar fólk er týnt verður misskilningur. Þekkir þú svona fjölskyldulíf?

Meginstefið

Til hvers sagði Jesús þessa sögu? Var það til að benda á að brotnar fjölskyldur ættu að halda partí hvenær sem fíkillinn kæmi úr meðferð – hvenær sem einhver ólátabelgurinn kæmi heim frá útlöndum? Nei.

Hver er aðalpersóna sögunnar? Er það sukkarinn eða kannski heimalningurinn, bróðir hans? Eða getur verið að hvorugur sé lykilpersónan? Og sagan sé meira á dýptina?

Hinar yfirdrifnu sögur Jesú

Jesús Kristur var slyngur sögumaður, kunáttusamur um byggingu, flækju og merkingarburð sögu. Sögur Jesú eru gjarnan með andstæðupari og í þessari sögu eru bræðurnir spennuparið. En svo sprengir Jesús jafnan sögur sínar með óvæntri framvindu og furðulegum úrslitum. Sögur hans enda oftast með yfirdrifnum viðbrögðum og óvæntum niðurstöðum. Af hverju?

Jesús kallaði tilheyrendur sína til vits og guðsskilnings. Faðirinn, viðbrögð hans og örlæti eru á skjön við það, sem við myndum gera og andstæð því sem fólk í öllum heimshornum myndi gera í hliðstæðum aðstæðum þegar barnið kemur loks heim. Flest viljum við taka á móti iðrandi börnum okkar en ekki umbuna fyrir vitleysuna. Það eru lélegir uppeldishættir. Og iðrun og vilji til bóta er forsenda jarðnesks uppgjörs.

Miðjan í sögunni er faðirinn, viðbrögð hans og verk. En föðurmyndin sprengir þó allt faðerni og móðerni þessar veraldar. Það er ekki faðir af þessum heimi, sem sprettur fram í sögunni heldur hinn himneski Faðir. Afstaða þess föður einkennist af yfirfljótandi og markalaus ást sem umvefur allt og alla.

Hrútar

Tveir synir. Var annar týndur en hinn bara vís heima? Hvenær er maður týndur? Ertu á réttri leið, aflar lífspuðið þér hamingju?

Ég sá í vikunni hina verðlaunuðu og lofuðu kvikmynd Hrúta og naut þess eftir sýninguna að tala við leikstjóra myndarinnar með nokkrum félögum, vinum og kollegum. Myndin segir frá bræðrum sem höfðu týnst hvor öðrum og tapað samskiptum þótt þeir byggju á hlið við hlið í Bárðardal. Ég mæli með Hrútum. Hún er blessunarlega laus við klisjur og ristir djúpt. Í henni eru engar ódýrar lausnir heldur er sögð ávirk og átakanleg saga. Þetta er saga um fólk og rofin samskipti. Svona fólk þekkja flestir því sagan á sér hliðstæður í öllum fjölskyldum og samfélögum heimsins. Og Hútarnir eru ein útgáfa af Biblíusögunni um týnda syni (reyndar áhugavert að máta fleiri sögur Biblíunnar við myndina, t.d. sögurnar um Kain og Abel, Jakob og Esaú o.fl.).

Hver er týndur?

Ertu týndi sonurinn, dóttirin? Er komið að viðsnúningi, iðrun, heimgöngu. Jesús segir okkur sögu um alla, líka okkur, bendir á að við séum öll eins, týnd í einum eða öðrum skilningi. Vinna, eignir og athæfi greina okkur bara að í hinu ytra. Hið innra eru við að leita, reynum að tengja og gleðjast.

Þegar þú ert búinn að tæma alla gleðibikara lífsins getur þú komið til sjálfs þín og greint mistökin. Guð sér þig á veginum til lífs og tekur á móti þér. Ekki af því að þú ert búinn að vinna þér inn höfuðstól, heldur af því að Guð elskar þrátt fyrir vitleysur þínar. Guð opnar líka fyrir hinum sem alltaf voru heima – ekki vegna þess hver þú ert, hvað þú átt eða hefur gert, heldur af því að þannig er hömluleysi guðlegrar ástar.

Heim

Allir þrá hamingju og að lifa vel, falla í fang elskunnar. Veislufólkið, fjölskyldurnar, sem héldu partí í gærkvöldi eru eins og annað fólk heimsins. Þau vilja fagna og njóta lífsins. Allt þetta fólk leitar hins góða lífs, en í flestum fjölskyldum er fólk sem er villuráfandi. Systur, bræður, systkin, foreldrar, fjölskyldur í Palestínu, Bárðardal, Drammen og Þingholtunum geta klúðrað lífi sínu. En þá er komið að undri hins guðlega. Lífið er ekki búið heldur sprettur líf fram úr dauða. Boðskapur Jesú er fagnaðarerindi og það merkir að nýir möguleikar opnast, öllum er boðið til veislu himins. Guð er ekki lítill, smár, reiður og refsandi dómari heldur elskulind, sem veitir nýtt upphaf. Þegar við erum búin að týna öllu og erum riðurotuð og týnd megum ganga í okkur, taka sinnaskiptum, snúa við og halda heim. Guð býður nýja möguleika. Guð sér þig, finnur þig þegar þú heldur heim til sjálfs þín. „En nú varð að halda hátíð og fagna, því hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn.“

Prédikun í Hallgrímskirkju 21. júní, 2015.

Þriðji sunnudagur eftir þrenningarhátíð. B-röð.

Lexían; Jes. 64. 3-8

Frá alda öðli hefir enginn haft spurn af eða heyrt, né auga séð nokkurn Guð nema þig, þann er gjörir slíkt fyrir þá, er á hann vona. Þú kemur í móti þeim er gjöra með gleði það, sem rétt er, þeim er minnast þín á vegum þínum. Sjá, þú reiddist, og vér urðum brotlegir, yfir tryggðrofi voru, og vér urðum sakfallnir. Vér urðum allir sem óhreinn maður, allar dyggðir vorar sem saurgað klæði. Vér visnuðum allir sem laufblað, og misgjörðir vorar feyktu oss burt eins og vindur. Enginn ákallar nafn þitt, enginn herðir sig upp til þess að halda fast við þig, því að þú hefir byrgt auglit þitt fyrir oss og gefið oss á vald misgjörðum vorum. En nú, Drottinn! Þú ert faðir vor! Vér erum leirinn, og þú ert sá, er myndar oss, og handaverk þín erum vér allir! Reiðst eigi, Drottinn, svo stórlega, og minnstu eigi misgjörða vorra eilíflega. Æ, lít þú á: Vér erum allir þitt fólk.

Pistillinn: 1 Tím 1.12-17

Ég þakka honum, sem mig styrkan gjörði, Kristi Jesú, Drottni vorum, fyrir það að hann sýndi mér það traust að fela mér þjónustu, mér, sem fyrrum var lastmælandi, ofsóknari og smánari. En mér var miskunnað, sökum þess að ég gjörði það í vantrú, án þess að vita, hvað ég gjörði. Og náðin Drottins vors varð stórlega rík með trúnni og kærleikanum, sem veitist í Kristi Jesú.

Það orð er satt, og í alla staði þess vert, að við því sé tekið, að Kristur Jesús kom í heiminn til að frelsa synduga menn, og er ég þeirra fremstur. En fyrir þá sök var mér miskunnað, að Kristur Jesús skyldi sýna á mér fyrstum gjörvallt langlyndi sitt, þeim til dæmis, er á hann munu trúa til eilífs lífs.

Konungi eilífðar, ódauðlegum, ósýnilegum, einum Guði sé heiður og dýrð um aldir alda. Amen.

Guðspjallið: Lúk. 15. 11-32

Enn sagði hann: Maður nokkur átti tvo sonu. Sá yngri þeirra sagði við föður sinn: Faðir, lát mig fá þann hluta eignanna, sem mér ber. Og hann skipti með þeim eigum sínum. Fáum dögum síðar tók yngri sonurinn allt fé sitt og fór burt í fjarlægt land. Þar sóaði hann eigum sínum í óhófsömum lifnaði. En er hann hafði öllu eytt, varð mikið hungur í því landi, og hann tók að líða skort. Fór hann þá og settist upp hjá manni einum í því landi. Sá sendi hann út á lendur sínar að gæta svína. Þá langaði hann að seðja sig á drafinu, er svínin átu, en enginn gaf honum.

En nú kom hann til sjálfs sín og sagði: Hve margir eru daglaunamenn föður míns og hafa gnægð matar, en ég ferst hér úr hungri! Nú tek ég mig upp, fer til föður míns og segi við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Lát mig vera sem einn af daglaunamönnum þínum.

Og hann tók sig upp og fór til föður síns. En er hann var enn langt í burtu, sá faðir hans hann og kenndi í brjósti um hann, hljóp og féll um háls honum og kyssti hann. En sonurinn sagði við hann: Faðir, ég hef syndgað móti himninum og gegn þér. Ég er ekki framar verður að heita sonur þinn. Þá sagði faðir hans við þjóna sína: Komið fljótt með hina bestu skikkju og færið hann í, dragið hring á hönd hans og skó á fætur honum. Sækið og alikálfinn og slátrið, vér skulum eta og gjöra oss glaðan dag. Því að þessi sonur minn var dauður og er lifnaður aftur. Hann var týndur og er fundinn. Tóku menn nú að gjöra sér glaðan dag.

En eldri sonur hans var á akri. Þegar hann kom og nálgaðist húsið, heyrði hann hljóðfæraslátt og dans. Hann kallaði á einn piltanna og spurði, hvað um væri að vera. Hann svaraði: Bróðir þinn er kominn, og faðir þinn hefur slátrað alikálfinum, af því að hann heimti hann heilan heim.

Þá reiddist hann og vildi ekki fara inn. En faðir hans fór út og bað hann koma. En hann svaraði föður sínum: Nú er ég búinn að þjóna þér öll þessi ár og hef aldrei breytt út af boðum þínum, og mér hefur þú aldrei gefið kiðling, að ég gæti glatt mig með vinum mínum. En þegar hann kemur, þessi sonur þinn, sem hefur sóað eigum þínum með skækjum, þá slátrar þú alikálfinum fyrir hann. Hann sagði þá við hann: Barnið mitt, þú ert alltaf hjá mér, og allt mitt er þitt. En nú varð að halda hátíð og fagna, því hann bróðir þinn, sem var dauður, er lifnaður aftur, hann var týndur og er fundinn.

 

Ég er Guð

storstavalt_logo_NY_130Hvernig er ellefta boðorðið? Eru einhver hér sem muna um hvað það er hvernig það hljómar? Dr. Þórir Kr. Þórðarson var guðfræðikennari og kom víða við og m.a. lagði grunn að félagsþjónustu Reykjavíkur. Hann mótaði prestastéttina því hann var frábær kennari og varpaði ljósi á torskilin mál. Einu sinni spurði hann í tíma guðfræðideildinni: Hvernig er ellefta boðorðið? Og þar sem við nemendur urðum heldur álkulegir svaraði hann sjálfur: „Þið skuluð ekki vera leiðininleg!“ Ég er sammála og hef síðan kennt fermingarunmennum þessa mikilvægu viðbót. Hún er eðlileg túlkun á boðorðunum, í fullkomnu samræmi við áherslu þeirra, sem er hver? Jú, á lífið. Við lifum í frelsi og megum velja. Hvort veljum við það sem verður til ills eða það sem verður til góðs? Að velja gleðina er ekki að velja aulahúmor heldur lífið, hamingjuna.

God’s chosen – God’s frozen

Lexía dagsins eru lífsorðin sem kölluð eru boðorðin tíu, viska hinna fornu hebrea sem hefur gagnast allri heimsbyggðinni við mótun samskiptareglna. Við Íslendingar höfum notað þessi speki í uppeldi einstaklinga um allar aldir og við menningargerð okkar. Orðin tíu eru byggingarefni löggjafar heimsins og hafa skilað sér í endurvinnslu í löggjöf nútímans. Hin djúpa mannúð og mannvernd þeirra hefur skilað sér í gildandi mannréttindabálkum, sem varða vernd allra, kvenna og karla, barna og fullorðinna, óháð lit, kynferði og trú.

Saga Íslendinga og Ísraela er ótrúlega lík. Löggjafarsaga þjóðanna er ekki bara áhugaverð og með ýmsum sameiginlegum einkennum. Báðar þjóðir einangruðust í baráttu aldanna frá öðrum þjóðum. Menning beggja varð einsleitt. Söguskema beggja er líkt. Flótti frá vondu yfirvaldi er upphaf sögu beggja þjóða. Á eftir kemur svo langvinn barátta. Byrjun löggjafar beggja er tengt undri, annars vegar á Sínaí og hins vegar á Þingvöllum, ekki síst tengt kristnitöku. Söguskemað segir frá landgjöf til ættbálks og hvernig stöðugt varð að berjast fyrir lífinu í rás tímans.

Báðar eru þjóðir bóka og menntunaráherslu. Þær eru söguelskar, ljóðrænar og dramatískar. Þær gengu báðar margar aldir afturábak inn í framtíðina og voru uppteknari af glæstri fortíð en opinni framtíð.

Margt líkt! Ég hitti einu sinni hinn heillandi stórpólitíkus Simon Perez, síðar forseta Ísraels, þegar hann var á ferð á Íslandi. Í ræðu sem var haldin honum til heiðurs kynnti forsætisráðherra Íslands mun þjóða Íslands og Ísraels og á ensku: „Israel is God’s chosen people but the Icelanders are God’s frozen people!” Guðs útvalda þjóð og hin freðna!

Orðin tíu

Um hvað eru boðorðin? Manstu þau? Jú, þau eru tíu og upphafið er: Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi… Sem sé, Guð er Guð vegna verka í sögu, vegna tengsla sem gögnuðust lifandi fólki í raunveruleika þeirra. Og mörg okkar muna að nafn Guðs eigi ekki að leggja við hégóma, að hæðast ekki að hinu heilaga. Svo muna flest að einhver staðar í boðorðunum er rætt um að heiðra foreldra, halda ekki framhjá, stela ekki og girnast ekki.

Hvaða boð fjalla um Guð og hver þeirra um menn? Boðorðin eru eiginlega í tveimur hlutum. Fyrstu boðorðin fjalla um Guð og afgangurinn um mennina. Jesús var vel heima í lögum Ísraels. Hann var ekki fastur í formi eða smáatriðum heldur snillingur sannleikans, lífsstefnu. Jesús dró saman öll boðorðin og setti þau fram í tvöfalda kærleiksboðinu. Og hvernig er það? Elska skaltu Drottin, Guð þinn … – og náunga þinn eins og sjálfan þig. Fyrri hlutinn er einfaldlega guðsáhersla boðorðanna. Seinni hluti boðorðanna fjallar síðan um mannvernd – að við virðum og elskum fólk – alla.

Svo minna allir krossar heimsins á þessar tvær víddir boðorðanna. Lóðrétta tréð minnir okkur á tengslin til Guðs annars. Lárétta tréð minnir okkur síðan á tengslin og umhyggjuna gagnvart samferðafólki okkar, þessum sem Biblían kallar náunga okkar. Og ég minni á að náttúran er líka náungi okkar. Boðorðin eru um lífið, ekki aðeins þig, heldur fólk, alla menn og lífríkið allt. Okkur er falið að vernda náttúruna sem djásn í sköpun Guðs.

Lögin verða til

Ég hafði í nokkur ár atvinnu af að fræða gesti á Þingvöllum. Á þeim tíma tók ég á móti þúsundum skólabarna og fræddi um sögu lands og þjóðar. Þegar börnin voru spurð um af hverju fornmenn hefðu farið um langan veg að heiman og þingað á Þingvöllum þá svöruðu þau eitthvað á þessa leið: Stundum förum að rífast. Við þurfum reglur til að lífið virki og hvernig eigi að leysa rifrildi. Svo bættu þau við að það væri svo fallegt á Þingvöllum og það væri gott að ræða um reglur á fallegum stað! Þér skuluð gæta að fegurð löggjafarinnar!

Fermingarungmenni Hallgrímskirkju hafa ljómandi regluvit. Í síðustu viku spurði ég þau hvað myndi gerast ef engar reglur væru í fótbolta? Svarið er einfalt þá yrði allt vitlaust og leikurinn myndi snúast upp í ofbeldi. En hvað myndi gerast ef engar reglur væru í þjóðfélaginu? Þá myndu frumskógarlögmálin taka yfir.

Ungt fólk á Íslandi skilur og veit að reglur eru settar til að þjóna lífi og velferð fólks. Þau vita vel hvar mörkin liggja og að til eru grá svæði. Og það þarf þroska til að velja lífið.

Íslensk saga og orðin tíu

Löggjöf íslenska þjóðríkisins til forna er hin merkasta og hún átti sér líka uppistöðu í eldri lagahefð, sem rekja má alla leið suður til fjallsins Sínaí. Þær fornu reglur, sem eru í tuttugasta kafla 2. Mósebókar hafa síðan verið túlkaðar og endurtúlkaðar, fyrst meðal hebrea, síðan í gyðingdómnum, svo í túlkun Jesú og hinni kristnu hefð. Síðan hafa boðorðin haft áhrif á siðfræði í öllum þeim heimshlutum sem hafa mótast af kristni, gyðingdómi og Islam. Og þó uxar og asnar séu ekki á eignalista okkar eru bílar, hlutir, hús og fyrirtæki komin í staðinn. Og þó það sé algerlega úrelt að líta á maka sem tæki girnist fólk yfir mörk sem ekki ætti að fara.

Ekkert þjóðfélag er hlutleysisþjóðfélag vegna þess að hefðir eru menningarvefur sem hefur áhrif. Íslenska ríkið er bundið af stjórnarskrá, sem kveður á um, að evangelísk-lúthersk kirkja sé þjóðkirkja Íslands. Það ákvæði var ekki aðeins lögformlega ákeðið við stjórnarskrárgerð við lýðveldisstofnun heldur hefur nýlega verið stutt með miklum meirihluta í opinberri atkvæðagreiðslu þjóðarinnar. Áhersla stjórnarskrár er bindandi stefna og varðar hvaða siður og siðferði skuli gilda í samfélagi okkar. Stjórnarskrá ríkis er ekki puntplagg heldur varðar uppistöðu menningarinnar. Það er svo annað og mikilvægt mál hvernig við eigum að þróa samfélag okkar. Ég hef löngum verið efins um að eitt trúfélag eigi að tilgreinast í stjórnarskrá, en álít það hins vegar mikilvægt að hið opinbera styðji og verndi trúariðkun í landinu. Gildir einu hvort menn eru kristnir, trúlausir, múslimar eða búddistar. Í þeim efnum eigum við að vanda okkur og læra óhikað af mistökum nágrannaþjóða.

Fyrsta boðorðið er: “Ég er Drottinn guð þinn” er skemmtilegasta boðorðið því það varðar meginstefnu. Ellefta boðorðið er í hinu fyrsta. Hvaðan þiggur þú líf, hvar áttu þér athvarf, hver verður þér til blessunar þegar allt þrýtur, öll efni hverfa og kraftur dvín? Guð er upphaf og endir alls sem er, líka þín. Og við megum snúa okkur til Guðs í öllum okkar málum.

Það var einu sinni karl sem lét sig dreyma og sagði við konu sína. “Mikið væri gaman að fara til Sínaí og hrópa boðorðin af fjallstindinum.” Konan horfði íbyggin á hann og sagði: „Ég held að það sé nú betra að vera heima og halda boðorðin!” Hvað segið þið um það?

Hlutverk okkar er ekki að skunda á Þingvöll eða til Sínaí heldur vera Guðs, sem er mál fyrsta boðorðsins, og lifa með ábyrgð og iðka trú í samfélagi – leggja lífinu lið. Þú, Guð og náunginn. Bráðskemmtilegt, gott líf. Amen

Hugleiðing í Hallgrímskirkju, 8. mars, 2015, 3. sunnudagur í föstu.

Guðlastarinn Jesús Kristur?

grid-cell-18468-1382382792-14Mér þykir dapurlegt þegar fólk missir stjórn á skapi sínu og hellir úr skálum reiði sinnar, æpir ókvæðisorð til fólks, hvort sem það er innan ramma fjölskyldunnar eða á almannafæri. Mér var í bernsku uppálagt að gæta orða minna og það var í sama anda sem afinn í barnabókinni Salómon svarti sagði við drenginn: „Vandaðu málfar þitt drengur minn.“ 

Á veraldarvefnum bulla margir landsmenn okkar, hella sér yfir aðra og tala niðrandi til fólks. Þar er stór hópur sem talar iðrandi um Guð, hnjóðar í trúarlegt atferli, lastar trúarkenningar einstaklinga og trúfélaga og smánar trúarefni með ýmsum hætti. Ef ríkissaksóknari hefði ekki annað þarfara að gera væri hægt að sækja marga til saka. Sem betur fer eltir embættið þó ekki kjánaskap þessa reiða fólks.

Af hverju sulla svo mörg smekkleysu inn í æðar netsins? Sumt af skætingi í garð trúar og trúarefna á sér rætur í slæmum smekk og/eða lélegu skopskyni, sem fer því miður oft saman! Og sumt af þeim aur, sem skvett er í garð trúarhugmynda, á sér baksvið í vondri bernskureynslu, óuppgerðri reiði í garð vondra uppeldisaðila, ofbeldismanna eða slæmra fulltrúa trúar. Það sem sýnist vera guðlast er oft tjáning óuppgerðar reiði í garð vonds foreldris eða hamingjusnauðrar bernsku. Trúmenn ættu ekki að reiðast særðu fólki.

Guðspjall dagsins vekur spurningar um guðlast. Lögfræðingar samtíma Jesú töldu að hann guðlastaði. Um það var löggjöf Gyðinga býsna skýr og lagaskýringar ljósar. Það var á hreinu hvenær menn fóru yfir strikið, gerðu eitthvað eða sögðu sem Guði væri ekki þóknanlegt. Allir vissu að það væri guðlast að setja sig í sæti Guðs. Og lagaspekingar hins gyðinglega samfélags töldu að Jesús ögraði, væri guðlastari og “brotaviljinn” væri svo ítrekaður, að að sækja yrði hann til saka. Því var hann líflátinn. Guðlast og líflát hafa löngum farið saman. Jesús gerði uppreisn gegn guðlastslöggjöf síns tíma. Jesús ögraði kerfi trúar og samfélags síns tíma.

Niðrandi tal um Guð

Hvað er þetta guðlast? Nokkur orð um sögu og félagsvídd guðlastsins. Orðabókin skýrir merkinguna, að guðlast sé að tala óvirðulega um Guð, lasta Guð, hafa Guð að spotti. Þessi skilningur, sem flestir hafa lagt í hugtakið, tengist túlkun á boðorðinu: “Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma.” Um aldir hefur verið reynt að sporna við bölvi fólks með því að benda á að ragnið væri brot á fyrsta og öðru boðorðinu. Hugtakið guðlast hefur því löngum verið túlkað sem óvirðulegt, niðrandi tal um Guð.

Guðlast var alvarlegur glæpur meðal hinna fornu Hebrea. Í þriðju Mósebók 24.16 er sagt að sá er fremji guðlast skuli grýttur. Á þessari aftökuhefð voru þær lögskýringar Gyðinga reistar, sem voru notaðar gegn Jesú og til að dæma hann.

Býzantíski keisarinn, Justinianus 1, sem uppi var á sjöttu öld hins kristna tímatals, tók upp dauðarefsingar við guðlasti. Fjöldi þjóða fylgdi þessu fordæmi og iðkaði í þúsund ár. Englendingar afnámu t.d. ekki dauðarefsingu vegna guðlasts fyrr en á sautjándu öld og Skotar ekki fyrr en á þeirri átjándu.

Mér sýnist flestir sagnfræðingar séu sammála um, að þessi refsiharka hafi ekki verið vegna Biblíuhlýðni eða trúarástæðna, heldur fremur vegna hagsmuna stjórnmála og valdamanna. Árás á trúargildi var jafnan túlkuð sem árás á ríkjandi samfélag og stjórnvöld. Trú og siður voru eitt. Að lasta Guð var ekki aðeins það að ráðast á trúarefni, heldur ekki síður að lasta valdstjórn eða mikilvæga þætti samfélagsins. Guðlast var eiginlega þjóðarlast. Guðlast var óbeint níð um samfélag og ekki liðið þess vegna. Refsingin var alltaf hörð og oft dauði. Þetta er mikilvæg og merkileg samfélags- og þjóðfélagsvídd guðlastsins. Enginn skyldi því halda að guðlast hafi bara verið grín.

Vestrænar þjóðir hafa sem betur fer lagt af dauðarefsingar við ógætilegu hjali. Við njótum nú mannréttinda, sem eru ávöxtur margra alda frelsisbaráttu. Við njótum frelsis til trúariðkunar og frelsis til tjáningar. Þau dýrmæti hafa ekki sprottið fram átakalaust. Og allir skyldu gera sér grein fyrir að þessi mikilvægu mannréttindi hafa sprottið upp á akri kristinnar kirkju og í skjóli kristinnar kenningar. Kristnin leggur áherslu á dýrmæti hverrar manneskju og mannréttindabálkar eru í samræmi við siðfræði, mannhugsun og elskustefnu kristninnar. Frelsi einstaklingsins er dýrmætt – ofurdýrmætt – og því má ekki fórna þó að því sé sótt úr ýmsum áttum.

Íslenskt guðlast

Þá ofurlítið um lögfræðina. Í almennum hegningarlögum eru ákvæði, sem úrskurða þá athöfn refsiverða, sem smánar trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúfélags (125 gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940). Árið 1984 féll dómur í Hæstarétti sem m.a. er kenndur er við tímaritið Spegilinn. Í Speglinum hafði verið gert grín að altarissakramentinu og dómurinn taldi umfjöllun blaðsins refsiverða. Af dómsorðunum má líka ráða, að það sé refsiverð háttsemi að grínast með kjarnaatriði tiltekinnar trúar eða trúfélaga.

Fyrr og síðar hefur margt verið sagt, skrifað í ritmiðlum, á netinu, flutt í útvarpi eða í sjónvarpi, sem hefur verið handan hins siðlega. En fleiri dómar hafa þó ekki gengið í guðlastsmálum – mér vitanlega. Það er gott. Samfélagið verður ekki Guði þóknanlegra, tillitssamara og betur meðvitað þótt dómar væru felldir varðandi guðlast. Þvert á móti. Ofsóknir fólks hafa aldrei eflt ríki elskunnar í heiminum. Hefðum við verið bættari ef grínistar, uppstandarar og spaugstofumenn þjóðarinnar hefðu verið sektaðir eða fangelsaðir fyrir trúarlegan glannaskap á kirkjulegum hátíðum fyrir og síðar? Nei, ekki þeir heldur og allra síst hefði Guði verið sómi sýndur. Að dæma menn fyrir guðlast bætir ekki guðsdýrkun eða samfélag.

Af hverju?

Í sálgæslu hef ég oft séð inn í heima þjáningar. Einkenni margra brotinna fjölskyldna og líðandi einstaklinga er tóm eða skortur. Ég var lengi að átta mig á hvers eðlis vöntunin væri, af hverju markaleysi margra væri svo skefjalaust, af hverju allt flyti, af hverju allt væri leyfilegt með óumflýjanlegum endi óhamingju og áfalla. Aðstæður fólks eru vissulega mismunandi og verða ekki skýrðar með einföldum hætti, en mér sýnist einkenna líf margra að þau skorti gildi, tilfinningu fyrir að til er dýpri réttur en einstaklingsrétturinn eða/og máttur hnefans. Sumt af þessu fólki, sem hefur ekki lært að gera greinarmun á réttu og röngu, að greina mikilvæg gildi frá yfirborðsgildum, hefur ekki hlotið djúpa elsku sem veganesti bernskunnar og skilur ekki muninn á spennu og ást, aga og frelsi, grunnþörfum og yfirboðsþáttum, inntaki og yfirborði.

Af hverju hafa hæðir og lægðir lífsins flast út í lífi svo margra? Niðurstaða mín er, að heilagleikinn hafi horfið úr lífi of stórs hluta samfélagsins, vitundin um að til eru gildi sem hafa gildi handan hagsmuna einstaklinga – gildi sem eru æðri einstaklingum. Í trúarsamhengi merkir það að til er Guð, sem vill að við umgöngumst lífið sem heilagar gjafir, en ekki einnota drasl í þágu skyndinota og án vitundar um afleiðingar gerða okkar.

Allt leyfilegt?

Þegar Guð hverfur úr lífi fólks og þjóða er hætta á að á nokkrum kynslóðum rýrni gildin, daprist munur góðs og ills, siðgreind fólks veiklist og þar með verði flest eða allt leyfilegt. Kannski er þá aðeins eitt aðalgildi eftir, réttur einstaklingins. Þegar einstaklingshyggjan ríkir rýrnar samfélagsvíddin. Tjáningarfrelsið verður þá sem næst heilagur réttur, sem ekki má takmarka. En kristnin hafnar að tjáningarfrelsi lifi í tómarúmi – limbói, að það sé ofurréttur sem ekkert megi hrófla við eða takmarka. Tjáningarfrelsi er mikilvægt en má ekki verða gildi, sem allt annað verði að lúta. Mér sýnist að í lífi of margra Íslendinga séu þau gildi að rýrna, sem ekki eru í þágu einstaklinganna sjálfra. Þegar gildagrunnurinn springur verða slys í lífi fólks og samfélags.

Hvað er þér heilagt, hver eru gildi þín? Er eitthvað sem skiptir þig algeru máli? Þar er hið trúarlega í lífi þínu! Ef þú hefur ekkert af slíku er hætt við að margt og jafnvel allt fari á flot. Allir verða þá viðfang samkeppni, allir á bullandi siglingu á sjó eigin langana, reyna að fróa eigin sjálfi og duttlungum.

Tala, gera – vera

“Hann guðlastar” hugsuðu fræðimennirnir þegar Jesús fyrirgaf syndir. Þeir vissu að enginn mátti fyrirgefa syndir nema Guð. Jesús reyndi þá og spurði: Hvort er auðveldara að segjast fyrirgefa syndirnar eða reisa manninn upp? Jesús var hnyttinn og spurði hvort væri auðveldara að orða fyrirgefningu eða lækna. Og þar sem Jesús læknaði manninn snarlega var komið að hinni spurningunni um fyrirgefningu syndanna. Ef Jesús væri fær um að lækna gæti kannski verið, að þar færi maður með mátt himinsins í sér? Guðlegur! Gagnvart Jesú springa allir lagabókstafir um guðlast. Hann setur sig í Guðssætið. Hvort það er réttlætanlegt eða ekki er til sérstakur dómu. Það erum við sem fellum dóm. Guðlastaði Jesús eða ekki? Guðlöstum við eða ekki? Hundeltum ekki þau sem guðlasta. Hugum fremur að guðlastinu í okkur sjálfum og hvort við heyrum orð Jesú um fyrirgefning og lækningu.

Amen

  1. sunnudagur eftir þrenningarhátíð – A-röð. Prédikun í Neskirkju, 26. október, 2014.

Í liðinni viku keypti Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, lénið www.guðlast.is og sagði í því sambandi að fólk hefði ekki rétt til að móðgast ekki orðum annarra. Ég er Helga Hrafni sammála, fólk ber ekki skilyrðislaus réttur til að móðgast ekki í almannarýminu! En ég held að hann misskilji tilgang 125. greinar hegningarlaganna og of tengda einstaklingum. Löggjöf varðar dýpri rök en vernd einstaklinga, rökin varða fremur samfélag og hið opna rými, jákvæð þjóðfélagsgildi og m.a. að hatursorðræða sé ekki leyfileg. Á Íslandi eru – sem betur fer – orðasóðar ekki hundeltir og þeim refsað.

Lexían Es. 18.29-32

Og þegar Ísraelsmenn segja: ,Atferli Drottins er ekki rétt!’ – ætli það sé atferli mitt, sem ekki er rétt, þér Ísraelsmenn? Ætli það sé ekki fremur atferli yðar, sem ekki er rétt? Fyrir því mun ég dæma sérhvern yðar eftir breytni hans, þér Ísraelsmenn, segir Drottinn Guð. Snúið yður og látið af öllum syndum yðar, til þess að þær verði yður ekki fótakefli til hrösunar. Varpið frá yður öllum syndum yðar, er þér hafið drýgt í gegn mér, og fáið yður nýtt hjarta og nýjan anda. Því að hvers vegna viljið þér deyja, Ísraelsmenn? Því að ég hefi eigi velþóknun á dauða nokkurs manns, – segir Drottinn Guð. Látið því af, svo að þér megið lifa.“

Pistillinn Ef. 4.22-32

Þér eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni, sem er spilltur af tælandi girndum, en endurnýjast í anda og hugsun og íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.

Leggið nú af lygina og talið sannleika hver við sinn náunga, því að vér erum hver annars limir. Ef þér reiðist, þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar. Gefið djöflinum ekkert færi. Hinn stelvísi hætti að stela, en leggi hart að sér og gjöri það sem gagnlegt er með höndum sínum, svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim, sem þurfandi er. Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni, heldur það eitt, sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gjörist, til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra. Hryggið ekki Guðs heilaga anda, sem þér eruð innsiglaðir með til endurlausnardagsins. Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt. Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður.

Guðspjallið Matt. 9.1-8

Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar. Þar færa menn honum lama mann, sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra, sagði hann við lama manninn: „Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“

Nokkrir fræðimenn sögðu þá með sjálfum sér: „Hann guðlastar!“

En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: „Hví hugsið þér illt í hjörtum yðar? Hvort er auðveldara að segja: ,Syndir þínar eru fyrirgefnar’ eða: ,Statt upp og gakk’? En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir, þá segi ég þér“ – og nú talar hann við lama manninn: „Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín!“

Og hann stóð upp og fór heim til sín. En fólkið, sem horfði á þetta, varð ótta slegið og lofaði Guð, sem gefið hafði mönnum slíkt vald.

Lofsöngvar Lilju

IMG_0857Lilja samdi „Stjörnur og sól“ og „Ég kveiki einu kerti á.“ Engin kona á fleiri sálma í sálmabókum þjóðkirkjunnar. Í Liljuguðsþjónustu á Grund voru undur himins og Liljuljóðin íhuguð. Hugleiðingin á 12. sunnudegi eftir þrenningarhátíð er hér á eftir.

Grund er Guðsgrund – það er niðurstaða mín af umsögnum þeirra sem hér búa. Lilja Sólveig Kristjánsdóttir er til heimilis hér á Grund og talar svo fallega um starfsfólk og þau sem hún hefur eignast af vinum. Nú hafa vinir hennar meðal starfsfólks boðað til þessar guðsþjónustu og aðeins sálmar Lilju eru sungnir. Reyndar hefur hún samið marga sálma sem hafa verið sungnir af mörgum. Engar aðrar konur eiga fleiri sálma í sálmabókum þjóðkirkjunnar en Lilja. Við syngjum nokkra þessara sálma og íhugum erindi þeirra og samhengi.

Lilja frænka

Lilja er móðursystir mín og hún og móðir mín voru mjög nánar. Þegar ég fæddist starfaði Lilja í Noregi. Svo kom hún til landsins um nótt og gisti í stofunni á heimili mínu. Um morgunin fór móðir mín með systur mína í leikskólann og skildi mig eftir heima. Ég varð hræddur við einveruna því ég vissi ekki af þessari norsku Lilju sofandi inn í stofu. Þegar hún heyrði hljóðin í smásveininum kallaði hún til mín: „Siggi Árni minn – ég er hér.“ Og ég fór til hennar, horfði á þessa konu, skreið svo upp í hjá henni, hallaði mér aftur – og steinsofnaði. Síðan höfum við Lilja verið vinir. „Guð hefur stund, gleymir ei mér, Guð heyrir bænir allar. Tárum í bros, breytir hann hér, barnið sitt mig hann kallar.“ Það sungum við áðan. Og Lilja hefur alltaf opnað og verið fulltrúi Guðs, hefur allaf haft stund og breytt tárum í bros – ef ekki svefn.

Kirkjusvefn og sálmasöngur Sálmar verða ekki til úr engu. Hymni verður til í lofsyngjandi sálu. Lilja hefur alla ævi opnað fyrir ljónrænu himinsins og sjálf sungið sálma.

Til er skemmtileg saga af sálmasöng Lilju frá bernsku hennar. Hún og fjölskylda hennar voru í kirkju á Völlum í Svarfaðardal. Sú stutta kom sér fyrir á suðurbekk við hlið mömmu sinnar. Presturinn, sr. Stefán Kristinsson, steig í stólinn eftir guðspjallssálm og hóf predikun sína. Þriggja ára stelpuskottið fylgdist með flugum í gluggakistunni. Augnalokin þyngdust og kirkja, helgihald og fólk urðu eitt. Kirkjusvefninn hefur löngum verið sætur. En draumur hennar leystist allt í einu þegar farið var að syngja sálminn „Á hendur fel þú honum…” Þá glaðvaknaði Lilja og spratt upp. Þennan sálm kunni hún og tók undir sem mest hún mátti…„ sem himna stýrir borg,
það allt, er áttu’ í vonum,
og allt, er veldur sorg.“ Þegar fyrsta erindinu lauk beið hún ekki eftir lokum kúnstpásu organistans, heldur rauk af stað í annað erindið. Mjó barnsröddin hljómaði um kirkjuna áður en nokkur annar kirkjugestur byrjaði sinn söng. “Ef vel þú vilt þér líði…” Hún gerði sér skynilega grein fyrir að hún söng ein og steinþagnaði, fylltist svo skelfinu og hélt að hún hefði eyðilagt messuna! Eftir athöfnina faldi hún sig í pilsi mömmunnar og hélt að fólkið, sem talaði um sönginn hennar, væri að stríða sér. Sálmasöngvarinn Lilja Sólveig hætti þó ekki eftir þetta fyrsta vers í lífinu, heldur söng áfram og orti eigin ljóð um Guð og menn. Undir þau vers tóku margir síðar.

Blómin við ævigötuna

Að yrkja hefur verið Lilju dægradvöl og hugsvölun alla tíð. Að ljóða er að opna eyru og tala. Lilja hefur einnig þýtt mikinn fjölda sálma. Hvert tímabil ævinnar á sér eigin stef og viðfang. Þótt Lilja færi leynt með gáfu sína varð æ fleirum ljóst að hún gat sett saman nothæfa sálma til söngs. Því leituðu margir til hennar með þýðingar. Lilja hefur aldrei kunnað vel að segja nei og þegar ég kom til hennar á unglingsárum voru gjarnan einhverjir erlendir sálmar á borðinu. Og þar sem kór eða söngvari beið eftir þýðingunni til flutnings eftir nokkra daga mátti Lilja því oft beisla skáldafákinn með hraði og þýða. Hún var því stundum undir nokkru álagi en skáld hafa aldrei verið sjálfsalar. Svo kvakaði Lilja lítillega, að það sem hún setti á blað hafi ekki verið nógu gott, sumt eiginlega ónothæft! En kröfurnar sem hún gerði voru miklar.

Sum ljóðin hennar Lilju eru n.k. dagbókarskrif í bundnu máli. Hún hefur ritað gleðiefni sín, sorgarefni, vonir, drauma og skref daganna. Það er samhengi í öllu, sem hún hefur skrifað og Lilja veitir okkur innsýn í ljóðunum í sál sína og hugarheim.

Góði Jesú, gefðu mér,

að geta sofnað rótt í þér,

Meðan heilög höndin þín,

heldur vörð og gætir mín.

Þessa kvöldbæn samdi Lilja, þegar hún var tíu ára. Bænin vísar með efni og tökum fram á þann veg sem Lilja fór. Sami boðskapur trausts og trúar blasir við í ljóðum hennar – um góðan og umhyggjusaman Guð sem ekki bregst. Með árunum og lífsreynslu dýpkuðu sálmar og ljóð og skuggarnir urðu jafnframt skarpari. Lilja fékk í arf tilbeiðslu Passíusálma og innlifaðist þeirri lífsafstöðu sem þar er boðuð. Fólkið hennar á Brautarhóli, þar sem hún fæddist og ólst upp, tengdist Guði persónulegum böndum. Trú þess var ekki ópersónulegur siður eða formlegur rammi, heldur náið og elskulegt samband við Guð. Lífsafstaða þessa fólks var jákvæð og traust, að öll veröldin sé Guðs og fyrir Guð. Hlutverk manna í heiminum væri að lifa í Guði og í því er einnig fólgið að laða og leiða aðra til Guðs.

Lilja hefur samið mikið af ljóðum með náttúrskírskotun. Þau ljóð eiga sér samsvörun og efnislegt innrím við sálmana. Náttúran í ljóðum Lilju er ekki aðeins falleg, stórkostleg og hrífandi heldur musteri Guðs, vitnisburður um skapara, sem gleðst yfir fjölbreytni, fegurð, árstíðum, smáblómi í klaka og lækjarbunu. Allt verður Lilju tilefni íhugunar og lærdóms. Sólargeislinn er í augum hennar geisli frá Guði – og skugginn í náttúru og mannlífi á sér einnig sama upphaf. Jafnvel frostrósir eru líking um líf manna og ljósið, sem bræðir frerann og rósir frostsins. Frostrósirnar eru listaverk frá Guði.

Oft notar Lilja jurtalíkingar til að ræða um manninn. Hún talar um rósir og græna sprota. En það vakti athygli mína þegar ég vann við útgáfu verka hennar að Lilja yrkir aldrei um liljur. Kannski er hún of hógvær til að fara svo beina leið. Líkingar og myndir hennar úr jurtaheimi eru því almennt um fólk og hún er ein af mörgum í þeim stóra hópi, frammi fyrir Guði með opin eyru og tilbúin að tala um það sem hún upplifir.

Krossferill

Sum ljóð Lilju hefur sorgin meitlað eða mótað. Lilja hefur ort sér til léttis. Ljóðin hafa orðið henni farvegir fyrir tilfinningar og sum eru jafnvel sorgarlausnir. Af ljóðunum má skynja að Lilja átti erfitt með að sætta sig við að missa heilsuna á unga aldri og stara í sjó brostinna vona. Ljóst er af því hvernig Lilja yrkir um Jesú Krist að hún lifir sig í feril hans. Vegna langrar veikindasögu hefur hún, kannski betur en margir, gert sér grein fyrir þjáningardjúpi og einsemdarbaráttu Jesú. Hún fylgir Jesú eftir á píslargöngunni. Þegar hún líður kemur Jesús til hennar: „Þá kemur Jesús Kristur inn og kveikri ljósið bjart. Þá hverfur allur ótti minn og efamyrkrið svart.“ Í Jesú á Lilja vin, sem aldrei svíkur. Nokkur verndarkvæði um engla hefur Lilja einnig samið. Þau ljóð túlka návist Guðs og að við menn erum aldrei yfirgefnir í erfiðleikum okkar.

Vitund um mannlegan breiskleika, brot og kvíða koma víða fyrir í Liljuljóðum. Hún hefur í veikindum alla tíð verið sér meðvituð um að Guð leysir fjötra, styrkir vilja og réttir fólk við. Upprisuboðskapurinn – boðskapurinn um lífið – á erindi við sjúkt fólk. Lilja speglar vel að maðurinn er flekkaður. Og Lilja ljóðar óhikað um tilfinningar, friðleysi, ótta og öryggisleysi. Lilja sópar ekki yfir tilfinningarnar heldur gefur þeim túlkunarramma. Þá talar Lilja víða í ljóðum og sálmum um einstaka hluta líkamans til að ræða um Guðstengslin. Er það vegna þess að heilsubrestur Lilju hefur vakið með henni skynjun um mikilvægi þess að allur líkaminn og allar sálargáfur séu tengdar? Er hún sér meðvituð um að allt getur þetta horfið manninum og því mikilvægt að allt sé Guði helgað?

Guð og barnslegt traust

Í ljóðum og sálmum Lilju er Guð vinur, góður og umhyggjusamur. Lilja var lánsöm að eiga öfluga og heillynda foreldra, sterka móður og hlýjan föður. Svo var Siguringi E. Hjörleifsson, eiginmaður Lilju, elskuríkur maður. Því er enga föðurkomplexa og karlabresti að finna í kveðskap Lilju. Guðsmyndin er heil og ósprungin föðurímynd og í samræmi við reynslu af umvefjandi móður og hlýjum föður. Áberandi í ljóðum Lilju er traust til að Guð geri gott úr vanda, leiði á betri veg, bæti úr, bræði hjarn mannlífsins og gefi gróanda í lífi hennar og annarra. Einu gildir frá hvaða æviskeiði ljóðin eru, ávallt hefur Lilja talað sem barn við Guð. Hvað erum við menn annað en þiggjendur allra gæða, börn hins himneska föður? Lilja hefur alla tíð tjáð að heimurinn sé fagur og lífið stórkostlegt. En hún hefur líka átt sína vonarhöfn á himnum. Heima er ekki aðeins í húsi norður í Svarfaðardal eða í Reykjavík. Himinninn er ávallt hinn mikli faðmur sem allt leitar til, allt stefnir að.

En kærust verður koma þín

er kvöldar hinsta sinn.

Þú leggur aftur augun mín

og opnar himin þinn.

Lilja notar gjarnan ljóslíkingar í tengslum við Guð. Í því nýtur hún skáldskaparhefðarinnar. Hún biður stundum til stjörnu á himni. Einhver myndi sjá í þeim ljóðum kaþólsk áhrif. En þegar Liljuljóðin eru skoðuð í heild kemur í ljós, að eðlilegast er að túlka stjörnuljóðin guðmiðlægt, þ.e. að stjarnan sé Guð fremur en María, dýrlingur, maður eða engill. Liljurnar Á miðaldamálverkum heldur Gabríel erkiengill gjarnan á lilju þegar hann boðar Maríu tíðindin um þunga hennar. Hlutverk Lilju Sólveigar hefur verið að boða gleðiboðskapinn og vera boðberi himins. Jesús sneri sér að manninum í sögu dagsins og sagði: Effaþa,“ Opnist þú. Og eyru hans opnuðust og haft tungu hans losnaði og hann talaði skýrt. Svo varð í lífi og starfi Lilju. Eyru hennar opnuðust og tungan talaði skýrt. Hlutverk hennar hefur verið að lifa og miðla boðskap gleðinnar og opna himininn. Lilja hefur miðlað ljóðlist himinsins í heimi tímans. Það hlutverk er okkar allra líka. Hún hefur notað sínar talentur og við megum nota okkar.

Amen.

Ég vil þakka fyrir þessa Liljuguðsþjónustu í dag, þakka starfsfólkinu á Grund fyrir áhugann, umhyggju þeirra gagnvart Lilju, vinsemd og hlýja afstöðu. Það er sú afstaða sem er dýrmæti Grundar. Þakka Guðbjörgu Guðmundsdóttur, sr. Auði Ingu Einarsdóttur, Kristínu Waage, organista, þessum fína kór sem syngur. Guð laun.

Tekex og ansjósur

Í vetur barst fjölskyldu minni beiðni um húsaskipti. Hjón á norður-Spáni vildu gjarnan fá húsið okkar lánað í júlí og bílinn okkar líka. Það hefur verið meginregla okkar að fara ekki utan sumarmánuðina – vegna dásemdar hins íslenska sumars. En húsið, sem okkur stóð til boða ytra, var svo stórkostlegt og Cantabriu-svæðið það áhugavert að við slógum til og skiptumst á húsum og bílum. Íbúðarhúsið og Norður Spánn voru umfram allar okkar vonir. Þessi hluti Spánar er grænn og menningin á svæðinu er gömul, þykk og hrífandi. Aðbúnaður okkar var dásamlegur og við nutum sólar, birtu og blessunar. Við lifðum að hætti innfæddra og fórum oft út að borða. Fjölbreytilegt sjávarfang, kjöt og maturinn á norður Spáni hugnaðist okkur sælkerunum.

Einn daginn fórum við á veitingastað frægasta hótels Santanderborgar, sem hefur löngum hefur verið sumardvalarsvæði spænsku konungsfjölskyldunnar. Hótelið heitir Hótel Real og það merkir konungshótel. Og það er eiginlega hótel Borg þeirra í Santander, virðulegt og fínt. Svo er það einnig kennileiti í borginni, sést langt að og ber við himin eins og Hallgrímskirkja. Drengjunum mínum þótti hótelið minna á Titanic – með gömlum yfirstéttarstíll. Við höfðum lesið í veitingahúsayfirliti að matreiðslan væri góð og vissum ekki betur en matargerðin væri nútímaleg. Svo renndum við yfir matseðlana og pöntuðum. Meðan við biðum nutum við útsýnis yfir Santanderflóa, sem hefur verið mikilvæg skipahöfn allt frá tíð Rómverja. Og enn eru skip á ferð, stór og smá, seglskip og risafraktarar.

Svo kom fyrsti réttur og við undruðumst. Allir við borðið fengu tekex og smjör. Hvorki fyrr né síðar hef ég fengið tekex í forrétt í kvöldmat. Tekex fær maður helst í Englandi og þá fremur í morgunmat. Við smurðum hlýðin okkar kex og bárum að munni. Venjulegt tekexbragð og smjörið var venjulegt einnig og án nokkurrar bagðkúnstar. Jæja, mig fór að gruna að máltíðin gæti orðið með öðru móti en ég hafði ímyndað mér. Svo kom næsti réttur. Virðulegur þjónninn -uppáklæddur og hefði sómt sér vel í öllum betri hótelum heimsins – stikaði inn í salinn með disk á lofti. „Hvað kemur nú?“ spurði ég sjálfan mig. Undrunarhljóð hljómuðu frá okkur borðfélögum, sumir brostu og aðrir hlógu. Á fallegum diskinum, sem var lagður fyrir framan mig, var grá sardínudós á saltbing. Nakin sardínudós, enginn miði límdur á hana, sem upplýsti nokkuð um innihaldið. En ljóst var að lokið var laust og hægt að kippa því af dósinni. Og ég lyfti því og allir biðu spenntir eftir innihaldinu. Þar voru ekki sardínur í olíu eins og við þekkjum heldur ein flökuð og maríneruð ansjósa, sem synti í ólífuolíu. Þetta var mjög fyndið, borðfélagarnir hlógu og ég var hissa en naut matarins. Svo hélt máltíðin áfram, við vissum að þetta yrði furðumatur og ákváðum að njóta og upplifa. Og furðumatur var þetta, retróveisla og ártalið hefði allt eins getað verið 1935.

Hvað gerir gott?

Matarstíllinn var óvæntur og matargerð tengd öðrum tíma. Því varð þetta sérstæð reynsla. Í stað þess að fara í miðaldaveislu eins og í Skálholti, Tallin eða í Noregi, lentum við óvænt í tímatengdri máltíð, sem var allt öðru vísi en við áttum von á, eiginlega millistríðsáramatur. Það var sérstætt, eftirminnilegt og öðru vísi og varð mér til íhugunar og hefur haldið áfram að vekja mér þanka. Hvað er nútímamatur, hvað er gamaldags, hvað úreldist og hvað er skapandi? Af hverju nærist þú svo þú opnir, undrist, breytist og eflist? Hvað gerir þér gott?

Og dýpsta spurningin er: Hvað gefur líf og er til lífs?

Till lífs fyrir alla

Þá erum við komin að íhugun dagsins í guðspjallinu. Hópur af fólki samankominn og matarþurfi. Svo var borin fram máltíð sem varð eftirminnileg.

Íhugunarefni biblíunnar eru fremur um hvað viðburður merki fremur en um hvernig hlutir gerist eða hvaða aðferð sé notuð. Hvernig hægt var að metta mannfjölda er ekki það sem texti dagsins fjallar um heldur hvað máltíðin merkti. Hér er það sem endranær í biblíunni að hug er beint að merkingu fremur en aðferð, inntaki fremur en hinu ytra.

Brauð var brotið og Jesús notaði tækifærið til að minna nærstadda á hver gæfi brauð, hvaðan það kæmi og hvað það merkti. Í palestínsku samhengi var hveitiræktin mál lífsins og brauð tákn um lífsgæði. Þegar kornuppsprettan brást var vá fyrir dyrum og allir sultu. En þegar kornakrar náðu þroska var víst að allir myndu njóta næringar og lífið lifði. Því var gestrisni svo mikils metin, samfélagssamtaðan svo mikilvæg. Jesús reisti sér ekki minnisvarða af grjóti eða með hernaðarsigrum, heldur vildi að fólkið hans nyti matar – og gæfi öðrum með sér. Því eru ölturu í kirkjum og þau minna á að allir þarfnast næringar, ekki aðeins andlegrar heldur líkamlegrar einnig, venjulegrar fæðu, t.d. brauðs, fisks sem og annars sem gerir manninum gott. Að allir njóti gæða er hinn kristni boðskapur inn í aðstæður stríðs og átaka fyrir botni Miðjarðarhafs. Allir eiga að njóta brauðs, líka börn á Gasa. Og það merkir að þau eiga að njóta friðar, öryggis, gæsku og lands. Svo róttækur er boðskapur kristninnar og svo árangurstengt er það líf sem okkur er boðið að lifa.

Hvað gerir þér gott? Alveg áreiðanlega fjölbreytilegt fæði og í hæfilegum skömmtum – jafnvel líka tekex og ansjósa úr dós. Svo er það hin fæðan, t.d. tengsl við fólk, tilfinninganæring, líkamleg hreyfing, gæfa í tengslum og vinnu, að einhver sjái þig og meti, brosi við þér og segi þér að þú sért mikils virði, nýt eða nýtur. Hvað gerir þér gott? Hvers þarfnast þú?

Breyting til góðs

Reynslan í konungshótelinu í Santander var reynsla hins óvænta. Öðru vísi matur en við áttum von á. Og það minnti mig á að við megum gjarnan opna fyrir hið óvænta. Við getum skipulagt lífið svo algerlega að ekkert nýtt komist að og þá erum við byrjuð að deyja. En líf verður ekki gjöfult ef það er lokað í kerfi og fryst í ferla. Líf þitt má vera stöðug verðandi og opnun til framtíðar. Þannig er lífið, sem Guð gefur. Hvað gerir þér gott? Eru það nýjar hugsanir? Máttu leyfa þér að breytast? Getur þú breyst til góðs? Er eitthvað sem þú mátt hætta og úskrifa úr þínu lífi? Einhver löstur og eitthvað, sem þú vilt eða þarft að sleppa? Sorg, harmur, glötuð tengsl, horfin ást, samband, efni, vinna, hlutir, upplifanir – eitthvað sem þú dregur á eftir þér og verður þér lífshemill? Hvað geir þér gott og verður þér til næringar?

Gerir þú gott?

Svo er það hin víddin sem er hin hlið sama máls. Hvað getur þú gert til að aðrir njóti upplifunnar til lífs? Hvað getur þú gert öðrum svo fólk vakni til lífs og gæða? Getur þú sagt eitthvað jákvætt og nærandi við samferðafólk þitt og ástvini? Getur þú bakað brauð og fært einhverjum syrgjandi, einmana eða þurfandi? Getur þú umlukið einhver með kærleiksríkum bænum? Þú verður aldrei lífgjafi fólks og þarft ekki að gera kraftaverk sem Guð getur. En öll erum við farvegir lífsins gagnvart öðrum. Öll getum við fært öðrum eitthvað sem verður þeim til góðs, næringar, jákvæðar tilfinningar og hlýju. Við getum öll tamið okkur að segja eitthvað jákvætt við samferðafólk okkar í stað þess að kvarta og nöldra. Það eru líka fiskar og brauð fyrir fólk, körfur sem við erum send með til fólks heimsins.

Þessi dagur, þessi helgi og þessi mánuður er tími fyrir veislu himinsins. Þér er ekki aðeins boðið til þjóðhátíðar heldur veislu himinsins sem þú mátt njóta og miðla. Og vittu til: Þér er boðið að breytast, eflast og stækka. Af hverju? Þannig er Guð, sem elskar að magna lífið og smitar anda elskunnar til allra.

Neskirkja, verslunarmannahelgi, 3. ágúst, 2014.

Textaröð: A

Lexía: Slm 147.1-11


Hallelúja.
 Gott er að syngja Guði vorum lof.
 Það er yndislegt, honum hæfir lofsöngur.
 Drottinn endurreisir Jerúsalem,
safnar saman hinum tvístruðu Ísraels. 
Hann græðir þá sem hafa sundurkramið hjarta 
og bindur um benjar þeirra.
 Hann ákveður tölu stjarnanna, 
nefnir þær allar með nafni. 
Mikill er Drottinn vor og voldugur í mætti sínum,
speki hans ómælanleg.
 Drottinn styður hjálparlausa
 en óguðlega fellir hann til jarðar. 
Syngið Drottni þakkargjörð, 
leikið fyrir Guði vorum á gígju.
 Hann hylur himininn skýjum, 
sér jörðinni fyrir regni,
 lætur gras spretta á fjöllunum, 
gefur skepnunum fóður þeirra, 
hrafnsungunum þegar þeir krunka.
 Hann hefur ekki mætur á styrk hestsins,
 hrífst ekki af fráum fótum mannsins.
 Drottinn hefur þóknun á þeim sem óttast hann,
 þeim sem setja von sína á miskunn hans.

Pistill: 2Kor 9.8-12


Guð er þess megnugur að veita ykkur ríkulega allar góðar gjafir til þess að þið í öllu og ávallt hafið allt sem þið þarfnist og getið sjálf veitt ríkulega til allra góðra verka. Eins og ritað er: Hann miðlaði mildilega, gaf hinum snauðu, réttlæti hans varir að eilífu.

Guð sem gefur sáðmanninum sæði og brauð til fæðu mun og gefa ykkur sáð og margfalda það og auka ávöxt réttlætis ykkar. Guð mun auðga ykkur í öllu svo að þið getið jafnan sýnt örlæti. Þá munu margir þakka Guði fyrir gjafirnar sem við komum með frá ykkur. Því að þessi þjónusta, sem þið innið af hendi, bætir ekki aðeins úr skorti hinna heilögu heldur leiðir hún einnig til þess að margir menn þakka Guði.

Guðspjall: Mrk 8.1-9


Um þessar mundir bar enn svo við að mikill mannfjöldi var saman kominn og hafði ekkert til matar. Jesús kallar þá til sín lærisveinana og segir við þá: „Ég kenni í brjósti um mannfjöldann. Menn hafa nú verið hjá mér þrjá daga og hafa ekkert til matar. Láti ég þá fara fastandi heim til sín örmagnast þeir á leiðinni en sumir þeirra eru langt að. “
Þá svöruðu lærisveinarnir: „Hvar er hægt að fá brauð til að metta þetta fólk hér í óbyggðum?“
 Hann spurði þá: „Hve mörg brauð hafið þið?“ 
Þeir sögðu: „Sjö. “
Þá bauð Jesús fólkinu að setjast á jörðina, tók brauðin sjö, gerði þakkir og braut þau og gaf lærisveinum sínum að þeir bæru þau fram. En þeir báru þau fram fyrir fólkið. Þeir höfðu og fáeina smáfiska. Hann bað Guð að blessa þá og bauð að einnig þeir skyldu bornir fram. Menn neyttu og urðu mettir. Síðan tóku lærisveinarnir saman leifarnar, sjö körfur. En þar voru um fjögur þúsund manns. Síðan lét hann fólkið fara.