Fólk er orðið þreytt á faraldrinum. Bylgjan nú er mörgum þungbærari en í vor. Ekki sér til enda farsóttarinnar. Veiran hemur samfélag manna. Þreyta fólks, ótti og leiði hefur nafn; fararsóttarþreyta. Sú þreyta er jafnvel í veldisvexti. Þegar álag vex og ekki sér út úr kófinu verður styttra í kviku fólks. Samfélagsstreitan vex og ósætti líka. Deilur hafa vaknað um hvert eigi að stefna og hvað og hver eigi að ráða. Hverjum á að þjóna í samfélaginu í aðkrepptum aðstæðum? Það eru djúpu siðferðisspurningarnar sem dynja á okkur þessa daga.
Hvenær dagar?
Einu sinni var spekingur í fornöld að kenna nemahóp og spurði spurningarinnar: „Á hvaða augnabliki endar nóttin og dagurinn byrjar?“ Einn neminn svaraði: „Það er þegar nógu bjart er til að hægt sé að greina milli hunds og kindar.“ Annar sagði: „Þegar það er nógu bjart er til að sjá hvað er ólífutré og hvað fíkjutré.“ Meistarinn sagði: „Þetta eru góð svör en þó ekki hin réttu. Svarið er: „Þegar ókunnugur maður kemur og við höldum að hann sé bróðir okkar og allar deilur hætta, þá er nákvæmlega stundin þegar nóttin endar og dagur byrjar.“
Hvað finnst þér um svona svar? Það er ekki svar um birtumagn eða myrkur, ekki um skilgreiningar eða yfirborðsmál heldur er það svar um fólk og lífsgæði. Þegar ókunnugir koma sem við ekki þekkjum og við sjáum í þeim hrífandi fólk, vini, eins og systur og bræður og höfum bara löngun til að gleðjast með þeim þá endar nóttin. Þegar við virðum aðra og metum enda deilurnar og dagurinn getur orðið bjartur.
Þrennan
Textar þessa sunnudags kirkjuársins eru eins og burðarvirki menningar og kristni. Lexían úr gamla testamentinu eru boðorðin. Þau eru eins og umferðarreglur fyrir lífið, forskriftir um hvað gagnist fólki í samskiptum. Í nýjatestamentistextanum segir frá að spekingur í lögfræði lífs og samfélags fór til Jesú Krists til að að spyrja hann hvernig hann fengi botn í lífsreglurnar og lögspekina. Hvað er æðsta boðorðið? spurði hann. Og Jesús svaraði með því að fara með það sem Gyðingar allra alda hafa lært: Shema Yisrael ( Heyr Ísrael… ). Það er æðsta boðorðið um að elska Guð algerlega, með sínu innsta inni, með skilningi og í öllu athæfi og annað fólk eins og sjálft sig. Þessi lífsspeki Gyðingdómsins – Shema – er arfur spekinnar í kristninni líka. Þetta boð er nefnt tvöfalda eða tvíþætta kærleiksboðið en það má líka kalla það þrefalda kærleiksboðið. Það er þrenna: Ást til Guðs, annarra og sjálfs sín. Allt þarf að vera í jafnvægi til að vel sé lifað. Ef fólk elskar bara aðra en ekki sjálft sig verður innra hrun. Ef maður elskar bara sjálfan sig hrynur maður inn í sjálfan sig og hamingjan visnar. Ef sambandið við Guð dofnar er lífi ógnað samkvæmt trú og reynslu þúsunda kynslóða.
Siðferði – líf
Hvenær endar nóttin og hvenær byrjar dagurinn? Lífið flæðir alltaf yfir mörk. Ekkert þolir algerar skorður og kassahugsun. Það er hægt að þjálfa fólk í hlýðni, en allt verður til einskis og óhamingju nema ræktin verði á dýptina í fólki. Það var þessi innsýn sem Jesús tjáði með því að beina sjónum að baki lögum og reglum og inn í fólk. Alla leið.
Jesús hafði enga trú á ytri þjónkun ef innri maður var ósnortinn. Hvaða skoðun hefur þú á því? Við getum lifað við allsnægtir en þó verið frosin, búið við stórkostleg kerfi, þróaða löggjöf og háleitar hugsjónir en ekkert verður þó gott nema fólk sé ræktað til dýpta. Jesús sagði að fólk væri ekki heilt nema innri maður þess væri tengdur hinu góða.
Hvenær endar nóttin og hvenær byrjar dagurinn? Það er þegar við viðurkennum dýrmæti annarra, að aðrir eru djásn Guðs, ómetanleg og undursamleg þá getum við elskað. Og dagur er á lofti þegar við virðum aðra eins og okkur sjálf. Getum við tamið okkur slíka mannsýn, mannrækt, mannelsku? Snilldarviðbót Jesú Krists var að Guð legði ekki aðeins til hugsun, mátt, kraft og anda heldur gerði eitthvað í málum, kæmi sjálfur. Guð sætti sig ekki við myrkur fólks heldur horfir á mennina sem sína bræður og systur. Saga Jesú er saga um dagrenningu heimsins, að Guð ákvað að sjá í mönnum bræður og systur. Okkar er að lifa í þeim anda.
Í farsóttarþreytu er myrkrið svart, kuldinn sækir í sálina, deilurnar magnast. Þegar innlokanir fara illa með fólk, streitan vex, kvíði og reiði er þarfast að opna, rækta hið jákvæða, sækja í það sem eflir fólk og láta ekki myrkrið taka yfir sál og útrýma vitund um gildi annarra. Hvenær byrjaði dagurinn? Það var þegar Guð horfði með vinaraugum á veröldina. Hvenær byrjar þinn dagur? Þegar þú lærir að lifa í elskuþrennunni.
Verkefnið er að elska Guð, elska aðra, elska okkur sjálf. Það er þrennan fyrir lífið. Og hefur mikil áhrif á hvort dagar í lífi þínu og margra annarra. En Guð í elskuþrennu sinni er þér nærri og styður.
Amen.
2020 11. OKT 18. SUNNUDAGUR EFTIR ÞRENNINGARHÁTÍÐ A
Lexía: 2Mós 20.1-17
Drottinn mælti öll þessi orð: „Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig. Þú skalt hvorki gera þér líkneski né neina eftirlíkingu af því sem er á himnum uppi eða því sem er á jörðu niðri eða í hafinu undir jörðinni. Þú skalt hvorki falla fram fyrir þeim né dýrka þau því að ég, Drottinn, Guð þinn, er vandlátur Guð og refsa niðjum í þriðja og fjórða lið fyrir sekt feðra þeirra sem hata mig en sýni kærleika þúsundum þeirra sem elska mig og halda boð mín. Þú skalt ekki leggja nafn Drottins, Guðs þíns, við hégóma því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt sem leggur nafn hans við hégóma. Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. Þú skalt vinna sex daga og sinna öllum verkum þínum. En sjöundi dagurinn er hvíldardagur Drottins, Guðs þíns. Þá skaltu ekkert verk vinna, hvorki þú sjálfur né sonur þinn eða dóttir, þræll þinn né ambátt eða skepnur þínar eða aðkomumaðurinn sem fær að búa innan borgarhliða þinna. Því að á sex dögum gerði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem í því er en hvíldist sjöunda daginn. Þess vegna blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann. Heiðra föður þinn og móður svo að þú verðir langlífur í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér. Þú skalt ekki morð fremja. Þú skalt ekki drýgja hór. Þú skalt ekki stela. Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum. Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, þræl hans eða ambátt, uxa hans eða asna eða nokkuð það sem náungi þinn á.“
Guðspjall: Mark 12.28-34
Þá kom til Jesú fræðimaður einn. Hann hafði hlýtt á orðaskipti þeirra og fann að Jesús hafði svarað þeim vel. Hann spurði: „Hvert er æðst allra boðorða?“Jesús svaraði: „Æðst er þetta: Heyr, Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn. Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. Annað er þetta: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ekkert boðorð annað er þessum meira.“Fræðimaðurinn sagði þá við Jesú: „Rétt er það, meistari, satt sagðir þú. Einn er Guð og enginn er Guð annar en hann. Og að elska hann af öllu hjarta, öllum skilningi og öllum mætti og elska náungann eins og sjálfan sig, það er öllum brennifórnum og sláturfórnum meira.“Jesús sá að hann svaraði viturlega og sagði við hann: „Þú ert ekki fjarri Guðs ríki.“
Þú, sem ert höfundur vatnsins, höfundur lífs,
– þú hefur mótað jarðarkringluna fagurlega og
sveipað líkama hennar vatnsklæðum,
sem blakta í golu, bylgjast – rísa og hníga.
Þú ert vatnaskáldið mikla,
sem yrkir af hita svo vatn svífur upp í himininn.
Þú leikur þér í baði veraldar
og veitir vatni í hringrás heimsins.
Þú veitir því í blóðrás lífsins,
tyllir því á fjallatoppa.
Svo stikla bunur niður stalla, kvíslast milli steina,
faðma aðrar lænur, sameinast,
endurvarpa ljós þitt í morgunsólinni,
dreyma hádegisdrauma
og hverfa í hafið, faðm þinn.
Vatni ausa, með fögnuði…
Þú gefur vatn fyrir lífið, fyrir gleðina.
Veitir vatni um líkama hvala og fjalldrapa,
og í smásyngjandi lyfjagras og dýjamosa,
fíla, apa, ær og menn –
í frumur og örverur,
í stóra keðju, sem þú gefur og mylkir.
Mig þyrstir – þú vökvar.
Ég er grænþörungur á steini – þú ert haf kærleikans.
Þú umspennir allan heiminn blessun,
Þú gefur vatn fyrir lífið.
Ég er ausinn vatni ….. þitt vatn þrýtur ekki.
En gefur þú fögnuð Guð?
Hvaða lindir eru lindir fagnaðar?
Hvað svalar nístandi þorsta hið innra?
Hvaða rekja sefar þegar kvíðinn sækir að?
Hvað endurreisir þegar sektin nagar?
Hvað græðir brotið fólk og marðar fjölskyldur?
Hvað bætir fyrir orð hryllings, illvilja, morð og mein?
Vatn umlykur allt.
Vatn af himni – vatni er hellt í font.
Barn hjalar við sólbroti vatnsins,
í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda.
Kross á enni, kross á brjóst,
vatn á höfuð.
Bros í augum.
Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins.
Þú, sem gefur vatn af himni, vatn í jörðu, haf,
kemur svo sjálfur með lífsins vatn.
Þú ert vatnsveitan eina – lindin lífs.
Þegar geimar gliðna, heimur riðlast,
menn æða og sál engist – þá gefur þú gott vatn.
Þorstinn er minn en þú ert lind lífsvatnsins.
(Bæn á kyrrðarstund – Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins. Jesaja 12:3)
Við Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar, séra Elínborg Sturludóttir, Dómkirkjuprestur og Einar Karl Haraldsson, Hallgrímskirkju, sátum í stúdíói í Borgarbókasafninu og ræddum um vatn og tuttugustu og þyrstu öldina. Skapa þarf nýjan rétt, lífsrétt. Samtalið, þ.e. hljóðskáin er meðfylgjandi.
Fleiri þættir eru aðgengilegir að baki þessari smellu. Einar Karl Haraldsson stýrir þessum þáttum.
Fyrir nokkrum árum var ég á ferð með fjölskyldu minni í Austur-Afríku. Í Eþíópíu og Keníu sá ég margar konur á ferð með vatnsbrúsa á höfðum. Margar þurftu að ganga langa leið og burðast með mikið vatn. Ef konurnar voru einhleypar þurftu þær ekki að fara nema eina ferð á dag en ef þær áttu fyrir heimili að sjá urðu þær að fara fleiri en eina ferð og taka jafnvel börnin með sér til að fækka ferðunum. Konur um allan heim fara langar leiðir í vatnsöflun. Það er því hagnýtt að Hjálparstarf kirkjunnar bendi þeim sem vilja styðja fólk í fátækari hluta heimsins að borga fyrir brunndælur. Brunnar eru lífsnauðsyn og koma að beinum notum.
Konan og vatnssamtalið
Sagan um samversku konuna sem Jesús talaði við er ein af ástsælustu sögum Biblíunnar. Um aldir hefur fólk hugsað um þennan fund og samtal við Jakobsbrunn, sem sagt er frá í fjórða kafla Jóhannesarguðsjalls. Jesús var þyrstur og ávarpaði konuna og bað um vatn. Af hverju náði hann ekki í vatnið sjálfur? Svo ræddu þau saman, konan og hann. Þetta varð kostulegt samtal og guðspjallshöfundurinn hefur greinilega haft gaman af að segja söguna og rita því hún er á mörgum plönum, þvers og kruss og upp og niður. Konan og Jesús tala í kross. Einföld beiðni þyrsts manns varð mikið drama, sem endaði með því að konan rauk öskrandi inn í nærliggjandi þorp. Í sögunni um Jesú og konuna flæðir yfir allar brúnir. Það er ofgnóttin í frásögunni sem er svo áhrifarík. Í sögunni er merkingarplús sem vert er að vitja. Fólk hefur skilið þessa sögu með ýmsu móti en flestum sem hafa íhugað frásögnina hefur verið ljóst, eins og Ágústínusi kirkjuföður, að sagan væri afar leyndardómsfull og þrungin af táknrænni merkingu.
Fræðin og fordómarnir
Biblíufræði nútímans eru ekki bara um að endurraða því sem kirkjufeðurnir, Lúther, Calvin og síðari fræðimenn hafa sagt eða hugsað. Biblíufræði nútímans eru nútímafræði. Fjöldi fræðigreina nýtast við gagnrýnið endurmat texta Biblíunnar. Allt það sem kemur að notum, t.d. málvísindi, fornleifafræði og klassísk fræði, er nýtt til að greina samhengi, inntak og merkingu biblíutextanna. Jafnvel jarðfræði, veðurfræði, líffræði og jöklafræði koma við sögu ef þarf að greina einhver sértæk atriði.
Og hvað merkir svona gamall texti í fjórða guðspjallinu? Agústínus kirkjufaðir varaði við og minnti tilheyrendur sína á að konan í sögunni hafi verið vafasöm kvenpersóna. Ástalíf hennar hefði verið ansi skrautlegt því hún hafði átt marga menn. Sem sé, ekki góð siðferðisfyrirmynd! Strax þegar safaríkar sögur eru tjáðar fer ímyndun tilheyrenda af stað. Var þetta daðurdrós á karlaveiðum! Hún var ekki að sækja vatn á sama tíma og allar hinar konurnar sem fóru á morgnana eða á kvöldin í vatnsburðinn. Hvað var hún að gera? Varð hún að fara á öðrum tímum en hinar siðsömu? Hafði hún orðið fyrir aðkasti kvennanna í þorpinu? Vildu þær ekki leyfa henni að vera í kvennahópnum? Fékk hún ekki að fara með þeim? Eða var skömm hennar svo mikil að sjálf vildi hún ekki vera í samfloti með öllum hinum? Var hún úrhrak samfélagsins? Var henni hafnað af því hún var brotleg kynferðislega og hafði lent utan við ramman þess vegna? Það eru þessi stef eða þættir sem höfundar og prédikarar aldanna hafa einkum staldrað við, útmálað og skrifað um með mörgum orðum og litríkum hætti.
Samkvæmt forsendum hins gyðinglega samfélags var konan talin útlensk. Hún var samversk. Hún var ekki hluti hins viðurkennda hóps innvígðra og réttborinna Gyðinga. Hún var því sniðgengin af öllum rétttrúðum og rétthugsandi – nema af Jesú. Hann hlýddi ekki alltaf reglunum og oft, jafnvel óþægilega oft, gerði hann eitthvað sem var öðru vísi en fólk átti von á og óskrifuðu reglurnar sögðu að væri rétt hegðun. Svo var þessi kona búin að eiga fimm eiginmenn og var með sjötta karlinum. Það er mikið flóð í ástarsögum konunnar, nánast efni í heila sápuþáttaröð. Var þessi kona framhjáhaldari? Var hún hóra? Var hún kynóð? Hafði hún lent á grensunni eðan utan hrings fyrir hömluleysi? Biblíulesendur aldanna hafa undrast og furðað sig á ístöðuleysi hennar og reynt að finna hliðstæður í dramatískum konum eigin samtíðar. Þessi undarlega kona hefur verið uppteiknuð sem öðru vísi og óútreiknanleg, femme fatale. Hún sótti vatn á öðrum tíma en allar hinar konurnar. Á undarlegum tíma. Samkvæmt föstum samfélagsviðmiðum var hún neðar í goggunarröðinni, alla vega vatnsföturöðinni, en hinar konurnar. Það var ekki gæfuleg staða sem hún var í þegar hún kom að brunninum og hitti Jesú sem þekkti allar samfélagsreglur brunnasóknar og vatnsmála þjóðar sinnar og nágranna líka. Hann vissi að kona sem kæmi á þesum tíma að brunninum væri utan við heiminn. Hún væri kona í vondum málum.
Og beiðni Jesú Krists er einföld: „Gefðu mér að drekka.“ Svo fara þau að skiptast á orðum og setningum sem ekki tengjast. Þau tala þvers og kruss. Þegar Jesús býður konunni lifandi vatn bregst hún við með tækniábendingu. Hann hafi ekkert til að ausa með. Brunnurinn væri djúpur. Hvaðan fengi hann þetta lifandi vatn? Konan er á ská við orð og merkingu Jesú allt þar til þetta með lifandi vatnið skvettist inn í vitund hennar og síast inn í hana. Hvað átti maðurinn við? Gat verið að þetta væri hann? Hann vissi svo margt. Gæti verið að loksins, loksins væri eitthvað að gerast? Konan vissi auðvitað að brunnurinn var kenndur við Jakob, sem var ofurkarl, erkihetja hebreskrar sögu, hálfguðlegur forfaðir íbúanna í Palestínu. Brunnurinn hafði því mikilvægu táknrænu hlutverki að gegna. Í konunni kviknaði neisti, spratt fram hugsun, spurning, kenning, grunur. Gæti verið að þetta væri framtíðarleiðtoginn sem beðið væri eftir? Messías. En hvað um mig? Það var djúpspurning hennar. Yfirfljótandi samtal, margþrungið merkingu, margvísandi og svo var þessi útlendingur, margbrotna konan, utan marka – gat það verið?
Um aldir var þessi biblíutexti túlkaður sem tvennutexti, saga með hreinum andstæðum. Jesús var túlkaður sem lausnari, hann bauð vatn lífsins, hafði öll svör á hreinu, vissi allt um konuna og las hana eins og opna bók. Hann gat allt og olli fullkomnu uppnámi hjá henni, sem var öðru vísi en hinar konurnar, fór á skrítnum tíma að brunninum, á versta tíma og í mesta hita dagsins. Sem sé þarna voru skv. túlkun aldanna hinn mikli og hin aumkunarverðasta. Hann gat fært konunni vatn lífsins – en hún honum aðeins skítugt brunnvatn. Þau voru á sitt hvorum enda gilda og virðingar-stigans. Hann á toppnum og hún á botninum. Hann var hreinn en hún skítug, hann andlegur en hún líkamsskepna. Þannig flokkaði tvíhyggja aldanna samtal þeirra tveggja. Konan var eins og tæki til að sýna hvað Jesús væri æðislega klár. Konan var flekkuð á mannlífsbotninum. Hún var sorinn en hann sonur Guðs.
Er þetta það sem textinn segir okkur? Konan bara kvensnift, víti til varnaðar og hann ofurhetja? Eða er kannski eitthvað meira í þessum texta en tjáning á að karlar eru á toppnum og konur á botninum? Er eitthvað sem við sjáum ekki og kannski getum ekki séð vegna þess að gleraugu okkar brengla? Hindra fordómar dýpri skilning okkar? Þarf að þrífa sjónglerin, skúra allt upp á nýtt til að skilja betur?
Skilningur á textum breytist – túlkun
Um aldir hafa klassískir textar verið túlkaðir í samræmi við viðurkenndar skýringarreglur. Þannig hefur það verið með flesta bókmenntatexta, heimspekitexta og að sjálfsögðu einnig biblíutexta. Á tímum ólæsis var Biblían ekki á allra færi. Því voru sögur Biblíunnar oft myndgerðar. Fólk hafði í guðshúsunum aðgang að að myndum af biblíuatburðum, sem var svonefnd biblia pauperum. Í öllum hefðum skapast menning og kenningakerfi sem stýra hvernig eigi að tjá hið mikilvæga, megi túlka og þar með skilja. Allt verður séð með hjálp hefðar og túlkunarlykla. Biblíutúlkun var með slíku móti og mótaði hvernig ætti að skilja og miðla. Svo komu reglulega fram öflugir greinendur sem bentu á veilur og hvað væri betri skilningur, hvað væri líklegra og hvað væri rangt. Marteinn Lúther var einn slíkra ritrýnenda Biblíunnar. Hann hafði lagt á sig að læra klassísk mál. Hann las texta Biblíunnar á frummálum og gat því borið saman upprunatextann, þýðingar og túlkanir. Í tilviki Lúthers og fjölda annarra kom í ljós stöðugt þyrfti að rýna í textana því forsendur síðari tíma voru gjarnan til hindrunar og leyfðu ekki Biblíutextunum að hljóma eða skiljast í samræmi við eigin forsendur. Síðari tíma forsendur eru oftast grisjandi fordómar og skilningurinn sem fæst er rangur miðað við forsendur biblíutextanna.
Biblíurannsóknir, eins og aðrar rannsóknir fornra texta, breyttust og bötnuðu á tuttugustu öld. Fræðimennirnir nýttu fornleifarannsóknir, bætta þekkingu á menningu, náttúru, trúarbrögðum og pólitík Rómaveldis og þjóðanna sem þeir réðu. Þar með breyttust hugmyndir fræðimannanna um merkingu margra biblíutextanna og stundum opnuðust þessir textar. Textatúlkun síðustu ára hefur m.a. bent á hvernig fólk hefur lesið og skilið textana með mismunandi móti á mismunandi tímum. Viðbrögð lesara og viðbrögð þeirra hafa fengið gildi í nútímatextafræði. Hlutverk biblíufræðanna er ekki aðeins það að kreista fram einhverjar staðreyndir og óumbreytanleg algildi eða stórasannleika úr ritum eða af blöðum Biblíunnar. Sandra M. Schneider skrifaði með þessa þróun í huga: „… frá átjándu öld til miðrar tuttugustu aldar var aðalnálgun og túlkun sögu og texta fyrst og fremst hlut-túlkun (ojbect-centered). Lesendur texta voru sjaldnast spurðir. Og ef viðtakendur biblíutextans komu í ljós urðu ritskýrendurnir tortryggnir.”[i] Þá var eins þeir yrðu hræddir við að biblíufrásögurnar yrðu ekki eins trúverðugar og vera ætti, ekki eins hlutlægar og keppt væri að. Hvernig getur vitni sagt satt? Er tilveran minna trúverðug í frásögn vitnis? Hvað er satt, hvernig og frá hvaða sjónarhóli?
Biblíufræðin hafa haldið til haga þekkingu á fjölmörgum menningarkimum Biblíunnar. Á síðari áratugum hafa Biblíufræðingarnir þorað að skoða betur upplifun og túlkun fólksins sem kom við sögu í ritum Biblíunnar, hópum þeirra og hvernig menningarforsendur stýrðu upplifun þeirra og nálgun. Hvaða hugmyndir stýrðu, hvaða hagsmunum var þjónað í þessum textum og við ritun þeirra? Hvaða hópar st tókust á, hvaða hugmyndir urðu ofan á og hverjar voru bældar eða strokaðar út? Með svona nálgun var leit Biblíulesara og fræðimanna ekki lengur að því hvernig hin eina rétta túlkun texta ætti að vera. Ekki var lengur reynt að komast að því hvernig ætti að skilja forna texta og kreista út kórrétta túlkun, kjarnann sem væri hið guðlega aðalatriði gilt fyrir allar aldir, alla menn og alltaf. Margt breytist við svona nálgun. Allt verður opnara og líflegra ef viðurkennt er að textar helgiritasafns Biblíunnar eru marglaga, segja margar sögur, túlka alls konar tilfinningar, einstaklinga, fordóma, visku, tengsl, hagsmuni, vonir og hópa sem koma við sögu. Fortíð kemur við sögu hvers texta, samtíð. Framtíðin kyssir þá líka. Í stað einhæfrar túlkunar hafa nútíma biblíufræði opnað fyrir margræðni og ýmsa túlkunarmöguleika. Það merkir einfaldlega að það sem allir hafa verið sammála um í nálgun Biblíunnar er ekki svo sjálfsagt og einfalt. Í Biblíunni eru margar uppsprettur og margra alda. Í henni er sírennsli merkingar og líka ástarkossar eilífðar. Einstakir hópar, kirkjudeildir og fræðimenn hafa haft skoðanir á að þessi kvísl flóðsins væri hin eina nytsamlega og heilnæma og því hafnað öðru, ekki vilja af því vita og kúgað. Biblían hefur verið notuð sem vopn í baráttu og því verið túlkuð til að berja á þeim sem hafa farið aðrar leiðir en valdhafar, andlegir eða veraldlegir, hafa boðað og skipað.
Þolum við fjölbreytni, margræðni og mismunandi skoðanir? Biblían er stór og úr henni flæða margar merkingarkvíslar en þær geta þó tengst á mismunandi tímum og í samræmi við þarfir tímanna. Á einum tíma tók Lúther eftir að Guð biblíunnar er guð elsku og gleði. Á öðrum tíma uppgötvuðu vitrir menn í kirkjum Suður Ameríku að í Biblíunni er mikið talað um réttlæti. Og síðar uppgötvuðu margir, t.d. kvennaguðfræðingar, raddir kvenna í þessu mikla ritasafni. Sagan um konuna við Jakobsbrunn hefur verið opnuð og ritskýringarforsendurnar hafa breyst. Konan hafði rödd og tjáði sig. Jesús Kristur hlustaði á hana.
Konan við brunninn
Sagan um konuna sem hitti Jesú við brunninn er frábært dæmi um marglaga og margvídda texta, sem nálgast má með ólíku og margbreytilegu móti. Í greiningu á þessum texta í fortíðinni varð konan oftast túlkuð sem kynlífsvera fremur en manneskja. Hvernig samfélagið skilgreindi kynlíf, stöðu og samskipti kynjanna stýrði nálguninni. Tvíhyggja réði för túlkunar og Jesús Kristur var fyrst og fremst túlkaður sem andlegur snillingur. En konan var túlkuð sem jarðbundin holdgerving lostans. Andstæður túlkunarinnar, andstæðu-tvenndirnar voru;
andi og fýsnir;
lifandi vatn og brunnvatn;
karl og kona;
yfirstétt og undirstétt;
hinn réttborni og útlendingurinn;
við og þið.
Hvað gerist ef þessir lyklar eru hvíldir við túlkunina, teknir út og geymdir? Hvað gerist ef sagan er skoðuð með nýjum hætti og án þessara túlkunarforsendna? Hvað ef konunni er gefinn séns? Getur verið að við heyrum kannski í Jesú með nýjum hætti? Verður hann nær okkur en handan við tvö þúsund ára hljóðtjöld, fordóma og túlkunarkór?
Hið eftirtektarverða og merkilega er að konan reyndi Jesú. Hún lagði próf fyrir hann. Hún hlýddi honum yfir, þorði að spyrja hann lykilspurninga og gaf ekki færi á klisjum og gervilausnum. Hún þorði að hlusta, hrífast og bregðast við. Hún greindi að mál og viðfangsefni með greind hins skarpa hugar, raðaði síðan saman öllum brotunum og komst að viturlegri niðurstöðu. Hún dró ályktanir út frá forsendum og rökum. Hún þorði að treysta lífsreynslu sinni, gáfum sínum, þorði að hugsa og komst að niðurstöðu um það sem hún sá, heyrði og upplifði. Útkoman var sú að hún skildi Jesú eftir við brunninn og hljóp inn í bæ til að segja fréttir. Hún var kannski ekki í þeirri stöðu í samfélaginu að mega hafa miklar skoðanir eða tjá þær. En þegar hún komst að niðurstöðu um stærstu mál lífs og samfélags hennar þá var ekki neitt hik. Samfélagsreglurnar í smábæjarsamfélaginu giltu ekki um risamál. Konan gat ekki þagað um stórmál. Hún hljóp inn í bæ og varð boðberi Jesú, lærisveinn, kona sem þorði jafnvel gegn öllum fordómum, valdaaðilum og hæðni samfélagsins. Þegar hún talaði af svo mikilli undrun og sannfæringu og sagði fáheyrð tíðindi var hlustað.
Ef við nálgumst söguna um konuna við brunninn með opnu móti verður boðskapurinn dramtískur og sláandi. Útlend kona af lægstu stétt, úrkast úrhrakanna naut boðskapar um lífið í heiminum. Hún sem allir töldu óverðuga var verðug að heyra, skilja, trúa og síðan bera fram boðskapinn. Hún en ekki einhver góður karl varð ótrúlegt nokk postuli Samverja. Lærisveinn Jesú kom úr hópi kvennanna, hinna lægstu meðal lágra. Konan sem þorði. Hún mótmælti ekki aðeins Jesú, heldur benti honum á staðreyndir brunnmálanna. Hún þorði líka að segja tortryggnu fólki ótrúlega sögu. Hún talaði þar sem hún vildi, brást við, hugsaði og notaði skýra dómgreind.
Sagan um konuna við brunnin lýsir að kona í ómögulegum aðstæðum verður að nýrri mannveru, færist úr því að vera týnd og fávís yfir í að finna og fara síðan áfram með unna sögu, skýra merkingu og boðskap. Þetta er tilfærsla konunnar úr heimi fordóma, fortíðar og lágkúru til konu með hlutverk himins í heimi. Hún er í sögunni rétt við úr lægð og túlkuð sem skilningsríkari og vitrari en flestir aðrir í návist Jesú. Hún var ekki bara þögguð og falin heldur lyft upp sem hetju, ofurmanneskju.
Þegar sagan um konuna við brunninn er skoðuð í samhengi alls guðspjallsins er samanburðurinn áhugaverður. Í kaflanum á undan var sagt frá öðrum fundi Jesú. Yfirstéttarmaður, ráðherra, kom til meistarans til að ræða við hann. Hann hét Nikódemus og var innvígður og innmúraður Gyðingur, sem hafði hrifist af boðskap Jesú og vildi fara yfir trúmálin með Jesú. Hann naut sömu athygli Jesú, nándar og djúpsamtals og konan við Jakobsbrunn. Hann hafði svipuð tækifæri og konan til að greina og tengja. En hann þorði ekki. Hann var gunga sem hætti ekki stöðu og orðspori. Hann fór og hvarf því og kom ekki fram að nýju í Jesúsögunni fyrr en hann lagði til gröf fyrir hinn krossfesta. Afstaða gungunnar Nikódemusar skapar andstöðu við þorafstöðu konunnar, hetjunnar. Milli hans og hennar er innrím andstæðu. Lærisveinar Jesú voru stundum flónslegir, skildu ekki, náðu ekki hugsun, speki eða meiningu Jesú Krists en í samanburðinum við þá var samverska konan fljót að greina að aðalatriði og aukaatriði, greina hismi frá kjarna. Hún átti ekki í vandræðum með að skilja. Hún var einfaldlega klók og skörp. Þau Jesús töluðu ekki lengi þvers og kruss og í kross. Það var bara í byrjun. Þau tengdu og skildu fljótt hvort annað.
Trú og ljós
Myndmálið í sögunni um konuna við brunninn er áhugavert. Hún kom um hádegisbil sem var ekki brunntími kvenna í þorpinu. Vert er að muna að í Jóhannesarguðspjalli er mikið af táknum og táknmáli. Að konan kom um hádegið segir okkur jafnvel síður nokkuð um stund og tíma heldur meira um innri getu og trú. Konan kom til að taka við ljósi lífs. Ferðir hennar voru ekki bara hefðbundnar. Hún hafði getu til að fara og sækja í lífsgæði sem aðrir áttuðu sig ekki á, skildu ekki, höfðu ekki döngun í sér til að nýta og njóta. Konan hafði hins vegar getuna til að taka við lífsvatninu en ekki bara gamla, fúla brunnvatninu.[ii] Konan ræddi opinskátt við Jesú, hlustaði, bar fram andmæli og benti á staðreyndir. Hún heyrði rök, greindi víddirnar, komst sjálf að merkilegri niðurstöðu og tjáði hana öllum sem vildu heyra. Það varð síðan til að allt þorpið hitti Jesú. Samverska konan varð eins og samtímaútgáfa af Móse sem barði í steininn og fram spratt vatn til að gefa hinum þyrstu að drekka. Hún var sem Jóhannes skírari sínu fólki, spámaður, lærisveinn og postuli!
Samverska konan við brunn var margslungin vera. Þegar fordómum er sleppt og ekki reynt að strípa samversku konuna getur nálgunin opnað. Þá kemur í ljós að það er flóð í þessum biblíutexta, margar kvíslir túlkunar eru möglegar.[iii]Grunur vaknar að kannski hafi konan alls ekki verið auli og úrhrak. Kannski var hún klár og vissi hvað hún söng og sagði. Kannski var hún jafnvel skarpari en hinir lærisveinarnir, betri guðfræðingur og kunnáttusamari manneskja en flestir, með himin í hjarta? Kannski var hún frjálsari, opnari, styrkari og meiri leiðtogi en aðrir? Hvað ef hún var slík? Hvað eigum við þá að gera við þennan texta og hvernig eigum við að túlka hann? Hvernig talar hann til okkar? Er kannski næring í þessu vatni, flóði textans, sem konan býður okkur? Lifandi vatn hennar og lifandi vatn Jesú?
Vatnið í Jóhannesarguðspjalli
Svo er það vatnið í fjórða guðspjallinu. Vatn kemur víð við sögu og er stef í guðspjalli Jóhannesar. Nýja testamenntisfræðingurinn Stephen Moore benti á að þessa brunnsögu og samtalssögu megi tengja við þorstafrásögn krossfestingarinnar. Í dauðastríðinu þyrsti Jesú og bað um vatn að drekka. Moore skrifaði: „Öllu er snúið við og teygt í krossfrásögunni. Hið mikilvæga og mesta, lifandi vatn (Andi) þarfnaðist hins lága og ónóga (brunnvatns) sem er andhverfa við það sem guðspjallið annars kennir.“[iv] Frá krossþorstanum er fólki beint til sögunnar um lífsvatnið. Báðar kvíslarnar eða flaumarnir renna saman. Hið andlega þarfnast hins efnislega. Og svo gagnvirkt líka: Hið efnislega þarfnast hins andlega í lífi fólks í heiminum. Maðurinn lifir ekki af vatninu einu, heldur þarfnast svo margs að auki. En allt það, sem er að auki, lifir ekki án vatns. Vatn heldur lífi í fólki og lífverum. Öll speki heimsins hverfur ef vatnið hverfur. Skilningsljósin slokkna þegar skrúfað er fyrir vatnið. Svo dramatískt er það að vernda vatnið í veröldinni. Konan og Jesús hafa lykilhlutverkum að gegna. Sagan við Jakobsbrunn er ríkuleg. Við þörfnumst vatns. Konan og Jesús voru bæði í vatnsleit, bæði þyrst. Við eigum auðvitað að virða forsendur fortíðar þegar við nálgumst textann. En við megum nálgast hann með opnum huga og prufa merkingarvíddirnar.
Við sem búum við þann lúxus að fá vatnið hreint og ómengað úr pípunum gleymum oft að vatn er ekki sjálfsagt. Það veit ég ekki aðeins af ferðum í Afríku heldur af langri æfi og vinnu við vatnsveitur. Í sveitinni í gamla daga var ég oft að hreinsa slý og óhreinindi úr túðunni þar sem vatnið var tekið úr bæjarlæknum. Þetta þekkja sveitamennirnir. Þegar ég var prestur austur í Skaftafellssýslu varð að leggja nýja vatnsveitu fyrir prestssetrið. Vatnið þvarr reglulega. Svo hef ég lagt vatnsveitu í sumarbústaðarlandi fjölskyldunnar. Stundum höfum við orðið að fara í bæinn þegar dælan bilað hefur bilað og vatnið hefur ekki runnið. Það er sístætt viðfangsefni að tryggja að vatnsveitur virki. Um alla heimsbyggðina verður fók að puða við að afla vatns. Víða er margra klukkutíma ferð að ná í vatn og erfitt að bera það langar leiðir. Vatn er ekki sjálfgefið. Jafnvel Gvendarbrunnavatn getur smitast og óhreinkast eins og dæmin sanna. Vatnsveitur á Íslandi verða stundum fyrir skaða þegar mistök eru gerð eða áföll verða. Fúlt vatn kemst í þær, saurgerlar eða spilliefni. Þá er mönnum hætt, matvinnsla er í hættu og heimilsrekstur raskast. Fólk getur orðið veikt og menn og skepnur dáið. Fyrir nokkrum dögum var í fréttum að fílar og dýr á stóru svæði í Afríu hefði dáið. Niðurstaðan var að vatnsbólin hefðu spillst af þörungagróðri.
Konurnar og vatnið
Kynjavíddin eitt af því sem við megum gjarnan meta og virða. Það eru konur sem sækja vatn í heiminum. Milljarðar kvenna bera ábyrgð á að koma vatni til fjölskyldna sinna. Mæður, ömmur og dætur en karlarnir sinna einhverju öðru. Vatn er þungi kvenna veraldar. Þær bera vatnið á líkama sínu og svitna undan burðinum í hitanum. Því fjær sem vatnsbólið er þeim mun lengri tími fer í vatnsferðir kvenna. Og vatnsburðinn verður víða til að stúlkur fá ekki notið menntunar því þær eru bundnar við vatnsburðinn. Góð vatnsöflun, góðir brunnar eru um víða veröld vinir kvenna og forsenda fyrir að þær geti gengið í skóla og menntast. Þegar vatnið þrýtur eru þær víða teknar úr skóla til að fara að bera vatn um langan veg.
Samverska konan fór að brunninum um miðjan dag. Margar konur eru á ferð við brunna og lindir um miðjan dag af því þær hafa ekkert val. Þær eru kvenkyns og kerfi samfélagsins skilgreina að það sé kvennaverk að sækja vatn. Vandinn er félagslegur, menningarlegur og kerfislegur. Hafði samverska konan val? Gat hún sagt við sjálfa sig að nennti ekki að fara, hún bara færi á morgun eða eftir viku? Nei, hún varð að sækja vatn því annars væri lífi ógnað.
Kynferðisvíddin
Síðan er það vídd hins kynferðislega. Var þessi samverska kona stödd þarna við brunninn til að leita að tilkippilegum körlum? Er það ástæðan fyrir tímasetningu vatnssóknarinnar. Vildi hún vera á öðru róli en hinar konurnar sem komu í hópi og höfðu vörn í hinum konunum? Nei, það er ólíklegasta skýringin. Að vera ein á ferð á óeðlilegum tíma stofnaði aleinni konu í hættu. Reynsla kvenna af slíkum ferðum var og er skelfileg. Á konur er ráðist, sem eru einar á ferð og fjarri öðrum. Það eru ekki aðeins villidýr merkurinnar heldur líka villidýr mannheima sem leita uppi þær konur sem eru utanveltu, standa höllum fæti og njóta ekki félagsstuðnings annarra. Á einsömul stúlkubörn er ráðist, unglingsstúlkur og einar konur á ferð. Þeim hefur verið og er misþyrmt og nauðgað.[v] Í samtímanum höfum við lært að kenna ekki fórnarlambinu um ofbeldisverk. Þegar konur ná í vatn hefur það sjaldnast verið til að tæla aðra. En það hefur oft verið ráðist á slíkar konur. Það er ekki þeirra sök.
Vatnssaga samversku konunnar nær að gefa okkur nýtt bragð á varir. Við megum leyfa þessari kvísl staðreyndanna flæða inn í okkur. Konur eru í hættu í vatnsleit og í vatnsferðum. Það ætti #metoo-hreyfingin að kenna okkur. Sagan um Jesú og konunar við Jakobsbrunn er mögnuð saga. Hún opnar vatnsmálin að nýju og skvettir á okkur spurningum og nýjum glufum merkingar.
3. þriðjudagsfundur. Um vatnið. 29. september 2020. Dr. Sigurvin Jónsson benti mér m.a. á að konur hefðu verið háðar körlum í fornöld. Efnahagskerfið var karlstýrt og raunar hefðu ekkjurnar verið einu konurnar sem gátu notið einhvers frelsis frá stýringum valdsins.
[i] Sandra M. Schneiders, “The Gospels and the Reader,” The Cambridge Companion to the Gospels ed. Stephen C. Barton (New York: Cambridge University Press, 2006), 97.
[ii] Jerome Neyrev, The Gospel of John. The New Cambrdge Bible Commentary (New York: The Cambridge University Press, 2007,) 87-88.
[iii] Sandra M. Schneiders, Written That You May Believe: Encountering Jesus in the Fourth Gospel (New York: Herder and Herder, 1999) 143-44.
[iv] Stephen D. Moore, “Are There Impurities in the Living Water that the Johannine Jesus dispenses? Deconstruction, Feminism, and the Samaritan Woman“ í The Interpretation of John, ritstj. John Ashton (Edinburgh: T. & T. Clark, 1997).
[v] Sjá upplýsingar á síðu Sameinuðu þjóðanna: http://www.unwomen.org/en
Á þessum fagra degi – og jafnvel í grænlensku góðviðri – kveðjum við Pétur Hauk Guðmundsson. Öflugan mann, kraftmikinn fagmann með skarpan huga. Pétur gerði kröfur til sjálfs sín, var mikill af sjálfum sér, talaði ekki af sér, náin þeim sem hann tók og trúr þeim sem hann batt hug við. Verkefnin sem honum voru falin voru í góðum höndum og voru unnin til enda.
Hvað skiptir þig mestu máli í tengslunum við Pétur? Hvað var það eftirminnilegasta og hvað þótti þér vænst um? Var það festan, traustið? Já, nafnið hans merkir klettur og það var ástæða til að Jesús veldi mann að nafni Pétur, sem einn styrkasta og öflugasta byggingarmann kristinnar kirkju í heiminum. Það stóð sem Pétur Haukur byggði og lauk. Manstu húmorinn, eða spilagetuna, gáturnar hans og smáprófin? Manstu hve flottur hann var? Naustu handarverka Péturs eða eldaði hann einhvern tíma stórsteik fyrir þig með bernaisesósu? Var hann þér Haukur í horni – öflugur verkstjóri, stuðningur og traust fyrirmynd? Hann reiknaði yfirleitt rétt, en var líka opinn fyrir að hafa nota stundum rangar forsendur. Þannig vinnur öflugur og glöggur spilamaður. Og hann kunni líka að bíða í lífinu og vissi að utanaðkomandi breytur hafa áhrif á lífsferil og viðburði. Því reiknaði hann út fólk og aðstæður með íhygli og visku. Hann horfði og komst að niðurstöðu.
Lífsferill Péturs er merkilegur og íhugunarefni. Hann þurfti að hafa fyrir lífinu og var traustur í því sem hann tók að sér. Nú eru skil og þú mátt gjarnan nýta þessa stund til að hugsa um það merkilega og dýrmæta – íhuga lífið. Hvað skiptir máli og hvernig getur líf, eigindir og verk Péturs orðið þér til lífsbóta og eflingar?
Upphaf og uppvöxtur
Pétur Haukur Guðmundsson var sumardrengur. Hann fæddist á Akureyri þriðjudaginn 6. júlí árið 1948. Móðir hans var Gréta Doak Pétursdóttir. Pétur fékk nafn afa síns. Svo var hann skráður Guðmundsson í þjóðskrá og kirkjubækur. En sú feðrun var ákvörðun móðurinnar því hann var ekki kenndur til blóðföður. Pétur vissi hver raunverulegur faðir hans var og hitti hann þótt hann hafi ekki borið nafn hans. Það er margt í þessari veröld vitað þótt skráningin hafi þjónað einhverju öðru en raunveruleikanum.
Pétur var annar í röð fimm systkina. Ásta Guðrún Guðmundsdóttir – síðar Hurrin – var elst. Hún fædist árið 1947. Ásgeir V. Bjarnason var sá þriðji og fæddist árið 1952. Síðan komu Heimir Jón Guðjónsson 1954 og yngstur er John Michael Doak sem fæddist árið 1964.
Fyrstu árin bjó Pétur í fjölskylduhúsinu á Akureyri og naut gæða ástvina og fjölskyldu. Þegar Gréta, móðir hans, flutti suður var Pétur sendur í fóstur í Syðri Velli í Kirkjuhvammshreppi í V.-Húnavatnssýslu. Þar ílentist hann hjá Steinbirni Jónssyni og Elínbjörgu Jónasdóttir. Þar var barnafjöldi og hann var yngstur. Pétur eignaðist á Syðri Völlum fimm fóstursystkini sem hann naut samvista við og lærði af. Þau eru Steinbjörn Björnsson, Álfhildur Steinbjörnsdóttir, Samúel Ósvald Steinbjörnsson, Anna Steinbjörnsdóttir, kölluð Dúdda, og Sigurður Ingvi Steinbjörnsson. Heimilið var gott og það var ekki bara puð heldur líka skáldskapur í heimilismenningunni – tengingar til moldar, út til samfélags og upp í hæðir andans.
Steinbjörn og Elínbjörg hættu búskap þegar Pétur Haukur var á unglingsaldri. Þau fluttu suður og í Hveragerði árið 1962. Flutningurinn var til góðs fyrir Pétur. Hann naut bæjarlífisins syðra, eignaðist félaga í skólanum og á fótboltavellinum og hafði gaman af að etja kappi við sveitunga og líka Selfyssingana. Hann var duglegur og eftirsóttur til vinnu og góður félagi.
Námsmaðurinn og fjölhæfur dúx
Pétur hóf skólagöngu fyrir norðan, í Vestur Húnavatnssýslu og hélt svo áfram námi í Hveragerði. Svo fór hann norður á Akureyri og auk námsins í MA varð hann snjall briddsspilari. Hann festi ekki hug við menntaskólanámið og fór í launavinnu og var m.a. í múrverki hjá Hauki frænda. Pétur talaði oft um tímann fyrir norðan og sagði skemmtisögur af litríku mannlífi í höfuðstað Norðurlands.
Pétur var skarpur, söggur að læra og gerði sér fljótt grein fyrir að það væri betra að hafa starfsréttindi en ekki. Hann skráði sig í Tækniskólann og lauk byggingatæknifræði árið 1974. Skemmtilega saga um Pétur barst til mín nú í vikunni alla leið frá Tyrklandi. Sigurjón Jónsson og Pétur voru félagar í skóla. Þeir höfðu steypt og kunnu til verka og töldu sig geta nýtt dæmatímann betur en að reikna. Þeir tefldu því og Steindór kennari horfði á þá við skákina á meðan hinir nemarnir reiknuðu. En Pétur og Sigurjón urðu þó dúxarnir um vorið. Þeir sem reiknuðu um veturinn töldu að þeir hefðu orðið svona snjallir vegna þess að skákin hefði eflt heilastarfsemina. En Sigurjón fullyrti að þeir hefðu bara verið góðir í fræðnunum líka.
Svo bætti Pétur við réttindum í múrverki. Hann varð meistari í því fagi einnig. Pétur var alla tíð góður í því sem hann tók sér fyrir hendur eða sinnti. Hann gerði kröfur til sjálf sín, setti kröfurnar hátt varðandi gæði þess sem hann vann að. Hann var fagmaður í anda og störfum. Hann gat gert margt en dúxað samt.
Með tæknifræðiprófið upp á vasa og múrverkið að auki fékk Pétur vinnu hjá Hafnarfjarðarbæ. Hann vann að og stýrði framkvæmdum á vegum bæjarins. Árið 1983 söðlaði hann um og fór yfir til Hagvirkis og var meðal annars staðarhaldari við Sultartangavirkjun sem fyrirtækið byggði. Um 1990 ákvað hann að vera engum öðrum háður og var með eigin verktakarekstur. Hann tók að sér verk eða vann sem undirverktaki. Árið 1997 fór hann með gömlum félögum sínum hjá Hagvirki til Grænlands og vann þar á vegum Íslenskra Aðalverktaka. Það var upphafið að langdvölum Péturs á Grænlandi. Næstu árin vann hann til skiptis í Keflavík og á Grænlandi. Pétur náði að vera langdvölum á austurströnd Grænlands, vesturströndinni og syðst líka. Hann var í Tassilak, Assiat og Nanortalik. Árið 2009 flutti hann svo til Nuuk þar sem hann fór að vinna fyrir KANUKOKA, sem var samband sveitarfélaga. Í þágu þeirra vann hann til 2018 þegar sambandið var leyst upp. Eftir það gerðist hann eftirlitsmaður með uppyggingu spennistöðvar sem hann vann við þar til veikindi meinuðu honum að starfa áfram.
Ástin og fjölskyldan
Svo er það heimilislífið og ástin í lífi Péturs Hauks Guðmundssonar. Hann var 22 ára þegar hann sá Magneu Þórunni Ásmundsdóttur austur á Laugarvatni. Sumarið var þeim gott og þau urðu par. Þau giftust í september árið 1971. Þau eignuðust dæturnar Ásdísi Elvu og Árdísi Ösp. Þau gengu líka John, yngsta bróður Péturs í foreldrastað. Þau Pétur og Magnea skildu árið 2000.
Ásdís Elva er myndlistarkennari í Norðlingaskóla. Hún er gift Hallgrími Ólafssyni. Börn þeirra eru þau Ísabella Ýrr (1997) og Kormákur Logi (2001).
Árdís Ösp er meistari í bílamálun. Hún er gift Destiny Nwaokoro. Börn þeirra eru Pétur Uzoamaka (2018) og Ásmundur Obiageri sem er nýkominn í heiminn (2020).
Á Grænlandi kynntist Pétur Elisu Olsen. Þau gengu í hjónaband árið 2006 og voru um tíma með fósturdrenginn Erneeraq hjá sér. Þau skildu árið 2016.
Síðustu tuttugu árin bjó Pétur á Grænlandi og lést hann á heimili sínu þann 8. september síðastliðinn.
Mótun
Lífsferill Péturs er laðandi og vekur marga þanka. Upphafið og lífsmótunin var flókin en Pétur varð mikill af sjálfum sér. Hann vann úr lífsháska áranna og var stöndugur og staðfastur í lífinu. Hvernig leið barninu að fara að heiman og í fóstur hjá vandalausum? Hvað skilur slíkt eftir? Það var eftirminnilegt að heyra af því að þegar hann var barn og átti að sækja kýrnar í haga fann hann þær ekki. Í ljós kom að hann var sjónskertur. Og alla tíð síðan vildi hann gera vel, var ákveðinn að skila sínu og missa ekki sjónar á verkefnu sínum í lífinu. Hvaða áhrif hefur föðurleysi á persónumótun? Og hvernig mótast maður af því að eiga sér mörg systkin en vera lítið hjá þeim, mörg fóstursystkin og öll mun eldri? Hvað var það í grænlenskri menningu og náttúru sem seiddi Pétur svo mjög að hann var ekki bara heima í Vestur Húnavatnssýslu, í Hveragerði, Hafnarfirði eða Skerjafirðinum? Hann var heima á Grænlandi, skynjaði hræringar fólksins, blístraði jáið á innsoginu að grænlenskum hætti og lagði gott til uppbyggingar samfélagsins. Hann vildi líka deyja fjáls í Grænlandi þótt líkami hans yrði lagður í festu íslenskrar moldar.
Lífið í eilífð Nú er lagður upp í lengstu og hinstu ferðina. Hann eldar ekki framar fyrir þig og pískar bernaisesósu. Hann dottar ekki framar með barnabarn við brjóst. Þú getur aldrei hringt í hann eða leitað til hans með einhver mál, stærri eða minni. Hann klæðir sig ekki framar upp. Bendir ekki á glas í hyllu eða leggur til góða meðferð á lífverum heimsins. Hann keyrir ekki framar stóran bíl eða rennir línu í á. Hann kennir ekki lengur þakklæti eða segir sögu um fortíð sem líka er saga um hann sjálfan. Hann horfir ekki framar á fólk til að greina það og hvort það væri traustins vert. Hann talar ekki framar hægt til að hjálpa fólki að skilja stóru málin. Og dansar ekki tangó eða vals.
Nú er þessi stóri, fallegi maður farinn inn í himininn, Syðri Velli eilífðar. Þar er ljómandi stuð, kærleiksheimur þar sem allt er rétt. Allar sudoku-þrautir lífsins ganga upp. Drengur góður, vinur vina sinna, óáreitinn. Takk Pétur Haukur.
Guð geymi Pétur Hauk og Guð styrki ykkur ástvini og vini. Amen.
Hallgrímskirkja 25. september 2020, útför. Kistulagt í Kapellunni í Fossvogi 23. september. Bálför. Jarðsett í Kópavogskirkjugarði.