Skáldaliljur

Lilja Sólveig Kristjánsdóttir var kvödd í maí fyrir sex árum. Hér er formáli minn að ljóðasafni Lilju, sem var gefið út þegar hún varð áttræð. 

Brautarhólsfólkið sótti kirkju á Völlum. Allur barnahópurinn fór með foreldrunum Kristjáni og Kristínu. Lilja Sólveig kom sér fyrir á suðurbekk við hlið mömmu. Sr. Stefán steig í stólinn eftir guðspjallssálm og hóf predikun sína. Þriggja ára stelpuskottið fylgdist með flugum í gluggakistunni. Augnalokin þyngdust og kirkja, helgihald og fólk varð eitt. Kirkjusvefninn hefur löngum verið sætur. En draumurinn leystist upp allt í einu þegar farið var að syngja sálminn “Á hendur fel þú honum…” Lilja glaðvaknaði og spratt upp. Þetta kunni hún og tók undir sem mest hún mátti. Þegar fyrsta erindinu lauk beið hún ekki eftir lokum kúnstpásu organistans og kantórsins við orgelið, heldur rauk af stað í annað erindið. Mjó barnsröddin hljómaði um kirkjuna áður en nokkur annar kirkjugestur byrjaði sinn söng. “Ef vel þú vilt þér líði…” Hún steinþagnaði, fylltist skelfinu og hélt að messan væri alveg eyðilögð! Boðskapur sálmsins hafði engin áhrif á smásöngvarann. “Hann styrkir þig í stríði og stjórnar öllu best!” Eftir messuna faldi hún sig í pilsi mömmu og hélt að fólkið, sem talaði um sönginn hennar, væri að stríða sér. Sálmasöngvarinn Lilja Sólveig hætti þó ekki eftir þetta fyrsta vers í lífinu, heldur orti eigin ljóð um Guð og mann á efnisskrá safnaðarins. Undir þau vers tóku margir síðar.

Blómin við ævigötuna

Í þessari bók eru ljóð og sálmar Lilju, sem hún hefur falið á hendur góðu fólki og Guði. Stökur og ljóð hafa orðið til í erli daganna. Að yrkja hefur verið Lilju dægradvöl og hugsvölun. Þá hefur Lilja þýtt mikinn fjölda sálma og eru sumir í þessari bók. Það var úr nokkuð vöndu að ráða að velja hvað skyldi í bókina og hvað ekki. Hér eru í bland stökur og ljóð bernskunnar og lífsviskuljóð hinnar lífsreyndu, draumarnir um sveitina og vonarlandið handan raunheims. Ljóð, sem hafa sprottið upp við ýmsar aðstæður ævinnar, fá að fljóta með sem sýnisljóð um líf og ljóðvinnslu Lilju. Hún hefur ort alla ævi og hvert tímabil ævinnar á sér eigin stef og draga dám af viðfangi æviskeiðanna. En sameiginlegt einkenni er Guð og barátta trúarinnar, sem síðan litar hvernig Lilja hefur túlkað líf og lífsþættina. Snemma lærði Lilja að yrkja til að sefa harm og veita sorg í skilvísan farveg ljóðanna. Hún gat því notað skáldskapinn í eigin sálgæsluskyni. Þótt hún færi leynt með gáfu sína varð æ fleirum ljóst að Lilja gat sett saman nothæfa sálma til söngs. Margir urðu til að leita til hennar með þýðingar. Lilja hefur aldrei kunnað vel að segja nei og því voru gjarnan einhverjir erlendir sálmar á borðinu. Þá átti að syngja í næstu viku á samkomu! Hún mátti því oft beisla skáldafákinn með hraði og þýða. Hún var því undir nokkru álagi. Skáld hafa aldrei verið sjálfsalar. Svo kvakar Lilja lítillega, að þetta hafi ekki verið nógu gott allt, sumt eiginlega ónothæft!

Lífið og skrefin

Lilja Sólveig Kristjánsdóttir fæddist á Brautarhóli í Svarfaðardal 11. maí árið 1923. Hún var sjötta í röðinni og langyngst systkinanna. Elstur var Gísli og síðan komu Filippía, Sigurjón, Svanfríður og næstyngstur var Sigurður. Saga fjölskyldunnar var árangursrík baslsaga, sem lituð var heimiliselsku, vinnusemi, menntasókn og söng, en ekki síst trúrækni. Um það bera líka vitni hin almennu, kristilegu mót, sem haldin voru á Brautarhóli á árunum 1940-48. Systkinin veittu Lilju athygli, örvun, umhyggju og kenndu henni líka. Þó þau væru sum laus við komu þau heim til lengri eða skemmri dvalar. Munnhörpur og orgel voru til á heimilinu. Heimilisfólkið söng í rökkrinu, ekki síst ættjarðarljóð. Sálmar voru síðan sungnir á undan og eftir húslestri kvöldsins og svo auðvitað á sunnudögum ef ekki var farið til kirkju. Fjölskyldan var söngelsk, mamman var fljót að læra lög og pabbinn var kunnur kvæðamaður. Systkinin lærðu fjölradda söng í kirkjunni og höfðu gaman af. Á stilltum haustkvöldum fóru þau jafnvel í sönggönguferðir. Raddirnar hljómuðu vel saman, en tenór var þó enginn. Björt sópranrödd Lilju naut sín í þessum fjölradda kór. Söngur systkinanna barst um dalinn og einu sinni hélt heimilisfólkið á næsta bæ að ekki væri lengur hægt að slökkva á útvarpinu, þegar söngurinn hætti ekki! Vísnagerð var eðlileg heimilisiðja, sem nýttist sem jólagjöf eða gleðigjafi á tímamótum.

Skólar og menntun

Eins og annars staðar á Íslandi á þriðja og fjórða áratug tuttugustu aldar var bernskuheimilið mikilvæg mennta- og kennslustofnun, þegar skólaganga var stopul. Þá var betra að alast upp á heimili sem sótti í menntun. Heimilisfaðirinn var m.a. bóksali og bækur komu því í Brautarhól. Lilja Sólveig sótti unglingaskóla í heimadal sínum á árunum 1937-39. Hún fór síðan til náms í Menntaskólanum á Akureyri, tók próf beint í annan bekk og varð stúdent 1945. Á menntaskólaárunum stríddi Lilja við veikindi. Ekki mátti tæpara standa, þegar hún var síðan skorin eða öllu heldur brotin upp á Landakoti haustið 1941. Var hér nokkurs konar upphaf að veikindum, sem Lilja hefur glímt við alla tíð. Vegna heilsubrestsins ráðlögðu læknarnir Lilju að fara ekki í það háskólanám, læknisfræði, sem hún hafði hug til. Hún fór því heim og kenndi svarfdælsku ungviði einn vetur frammi í dölum. Fór hún því næst í hannyrðaskóla í Kaupmannahöfn veturinn 1946-47 og þaðan aftur heim og kenndi unglingum á Dalvík. Síðan vann hún á skattstofunni á Akureyri og þá fékk hún hina illvígu Akureyrarveiki árið 1948 og lá rúmföst í marga mánuði. Eftir það lá leiðin til Reykjavíkur til lækninga og hún kenndi við gagnfræðaskólann við Lindargötu frá 1949 og til ársloka 1951.

Predikarinn í Noregi

Sigurður skólameistari á Akureyri vildi að Lilja lærði guðfræði og yrði fyrsti kvenpresturinn á Íslandi. En hann var á undan sinni samtíð og það var ekki í tísku að konur væru prestar. En þótt Lilja settist ekki við fótskör kennara guðfræðideildar rannsakaði hún ritningarnar. Námið var í norsku samhengi. Hún fór til Noregs í ársbyrjun 1952 og hóf nám á biblíuskóla norska heimatrúboðsins. Í skólanum hennar, sem er rétt norðan við kóngshöllina í miðborg Osló, undi hún vel hag sínum í eitt og hálft ár. Lilja var þrítug þegar hér var komið sögu. Útlendingurinn hafði reynst öflugur leiðtogi. Lilju var því falið að verða umreikandi predikari og æskulýðsfulltrúi í Buskerudsýslu vestur af Osló. Gerðar voru miklar kröfur til þess fólks, sem þeim störfum gengdi og segir nokkra sögu um stöðu Lilju. Hún ferðaðist víða og predikaði á samkomum. Um tíma var hún einnig að störfum í Östfold og Vestfold. Hún sinnti sálgæslu ungu fólki í sálarnauð, reyndi að greiða úr lífsgátum yngri sem eldri og var öllum engill hins góða málstaðar Guðs. Hún bjó á heimilum fólks og bast mörgum vinaböndum. Þau bönd hefur hún treyst alla tíð og bera bréf og kort hennar fyrir jól hálfri öld síðar öflugt vitni um tengslahæfni og ræktarsemi Lilju.

Heim

Lilja hefði eflaust dvalið lengur í Noregi ef Sigurður bróðir hennar hefði ekki sent henni bréf árið 1955. Faðir þeirra var þá löngu fallinn frá, bróðir hafði flutt burt og móðir þeirra komin á áttræðisaldur. Einhver varð að sjá um móður og búrekstur. Lilja brást ekki kalli og varð bústjóri á Brautarhóli. Fjórum árum síðar kallaði sami bróðirinn aftur til hennar, en nú til kennslustarfa á Laugum í Reykjadal. Þar var hún á árunum 1959-62. Síðan var hún skólastjóri á húsmæðraskólanum á Löngumýri einn vetur, þegar þjóðkirkjan tók við stofnuninni. En þjónusta Lilju varð styttri en áætlað hafði verið. Enn hindruðu veikindi hana í starfi. Hún fór heim, yfir í Svarfaðardal enn að nýju. Hún var gjaldkeri Dalvíkurhrepps á árunum 1963-64. Þá fór hún suður til Reykjavíkur og hefur búið þar síðan. Fyrst starfaði hún á rannsóknarstofu Borgarspítalans, sem var til húsa í Heilsuverndarstöðinni. Vorið 1971 varð Lilja safnvörður í Listasafni Einars Jónssonar og starfaði þar á þriðja áratug. Var Lilju einkar lagið að opna hinn trúarlega heim Einars. Margir muna leiftrandi og grípandi leiðsögn hennar.

Siguringi

Myndlistarsýning í Bogasalnum árið 1965 varð Lilju afdrifarík. Hún féll fyrir fallegri mynd af Hrafnabjörgum í Þingvallasveit, sem Siguringi E. Hjörleifsson hafði málað. Hún keypti myndina og svo hreifst hún líka af listamanninum fjölhæfa. Siguringi og Lilja gengu í hjónaband árið 1967. Þau voru bæði fullþroska þegar þau kynntust og áttu hamingjurík ár saman. Heimili þeirra á Sóleyjargötu 15 var hús sumarsins í lífi beggja. Enda máluðu þau það glöðum og björtum litum og það var fullt af tónlist, hljóðfærum, tónsmíðum, kveðskap, blómum, myndum og glaðværð. Siguringi ljóðaði til konu sinnar á fjölbreytilegan hátt. Jafnvel uppvask eftir matinn varð ævintýri líkast. Bæði voru hraðyrkjandi og Siguringi mátti hafa sig allan við, svo snögg var Lilja að botna og svara fyrir sig. Svo var hlegið og skrifaðar niður bestu stökurnar. Svo kom lagstúfur í framhaldinu. Í öllum verkum voru þau samhent. Þau voru bæði ræktunarfólk, hlúðu að litskrúðum blómagarði, sáðu og uppskáru ríkulega af grænmeti og  potuðu furuskinnum og birkihríslum í jörð þeirra, Hamraborg, í Árnessýslu. Tíminn þeirra saman var ríkulegur en allt of skammur, aðeins rúm átta ár. Siguringi féll frá í júlí 1975, langt fyrir aldur fram. Nokkur af hinum rismiklu sorgarkvæðum í þessari bók urðu til við fráfall hans og þegar sorgin vitjaði Lilju.

Ljóð og stíll

Ljóðin hennar Lilju eru dagbókarskrif hennar. Hún hefur ritað gleðiefni, sorgarefni, vonir, drauma og skref daganna. Það er samhengi í öllu, sem hún hefur skrifað og Lilja veitir okkur innsýn í sál sína og hugarheim. Kátlegum kvæðum og hreinum tækifærisljóðum hefur þó verið sleppt í þessari útgáfu og því verður ekki vikið að þeim hér.

Góði Jesú, gefðu mér,

að geta sofnað rótt í þér,

Meðan heilög höndin þín,

heldur vörð og gætir mín.

Þessa kvöldbæn samdi Lilja, þegar hún var tíu ára. Bænin vísar með efni og tökum fram á þann veg sem Lilja fór. Sami boðskapur blasir við í ljóðum hennar, um góðan og umhyggjusaman Guð og trúartraust. Með árunum dýpka sálmar og ljóð með lífsreynslu og skuggarnir verða jafnframt skarpari. Trúarlegur boðskapur er í öllu samhljóða hinni klassísku, kristnu kenningu. Ljóðunum er ekki ætlað að brjóta nýjan guðfræðiakur og í þeim er málfar klassískrar trúarhefðar á Íslandi. Lilja fékk í arf tilbeiðslu Passíusálma og Brautarhólsfólkið var sammála um að fólk tengist Guði persónulegum böndum. Trú þess var ekki ópersónulegur siður eða formlegur rammi, heldur náið samband við Guð. Trú var því barátta lífsins og traust. Öll veröldin er af Guði og fyrir Guð. Ef til er prótestantísk vinnuhugsun í ljóðum Lilju þá varðar hún boðunarhlutverk manna. Hlutverk mannsins í heiminum er að lifa í Guði og í því er einnig fólgið að leiða aðra til Guðs.

Svipuð atriði má einnig greina í náttúruljóðum Lilju, sem eiga sér samsvörun og efnislegt innrím við sálma. Náttúran í Liljuljóðum er vitnisburður um skapara, sem gleðst yfir fjölbreytni, fegurð, árstíðum, smáblómi í klaka og lækjarbunu. Allt verður tilefni íhugunar og mönnum til lærdóms. Sólargeislinn er geisli frá Guði og skugginn í náttúru og mannlífi á sér einnig sama upphaf. Jafnvel frostrósir eru líking um líf manna. Ljósið, sem bræðir frerann og rósir frostsins, er frá Guði. Oft notar Lilja jurtalíkingar til að ræða um manninn. Hún talar um rósir og græna sprota. En það vekur athygli að hún talar ekki um liljur. Kannski er hún of hógvær til að fara svo beina leið. Líkingar og myndir hennar úr jurtaheimi eru því almennt um fólk og hún er ein af mörgum í þeim stóra hópi, frammi fyrir Guði.

Eins og margir á undan Lilju lýsir hún náttúrunni, ekki síst svarfdælskri náttúru, með því að nota fjallkonulíkingar. Lilju verður oft hugsað til konunnar, sem greip í klæðafald Jesú. Hún trúði og Jesús reiknaði henni það til réttlætis og hún varð heil. Lilja setur sig í spor þessarar konu og hún sér í henni tákn fyrir sig.

Krossferill

Mörg ljóð Lilju hefur sorg meitlað. Lilja hefur ort sér til léttis og ljóðin eru hennar sorgarlyftur eða höfuðlausnir. Af ljóðunum er ljóst að Lilja átti erfitt með að sætta sig við að missa heilsuna á unga aldri, verða að stara í sjó brostinna vona. Ljóðið Vonbrigði eftir 17 ára stúlku er sláandi. Það fjallar um vonarfley ævinnar, sem rennur að feigðarósi! Síðar urðu til harmljóðin: Það kom maður með ljá og Söknuður. Ljóð við dauðsföll og til flutnings við húskveðjur eru nokkur og bent skal á ljóð, sem Lilja samdi við dauðsfall föður síns árið 1944.

Ljóst er af því hvernig Lilja yrkir um Jesú Krist að hún lifir sig í feril hans. Vegna veikindasögu hefur hún, kannski betur en margir, gert sér grein fyrir þjáningardjúpi og einsemdarbaráttu Jesú. Hún fylgir Jesú eftir á píslargöngunni. Í honum á hún einnig samfylgdarmann, sem ekki víkur frá henni. Nokkur verndarkvæði um engla hefur Lilja einnig samið. Þessi túlka návist Guðs og að við menn erum aldrei yfirgefnir í erfiðleikum okkar.

Syndavitund, hlekkir, kvíði og breiskleiki koma víða fyrir í Liljuljóðum. Hún hefur í veikindum alla tíð vonað, verið sér meðvituð um að Guð leysir fjötra, styrkir vilja og réttir fólk við. Upprisuboðskapurinn á erindi við fallið fólk og sjúkt. Lilja speglar vel að maðurinn er flekkaður og breyskur. En það er áhugavert að sjá hversu víða Lilja talar um kvíða, friðleysi, ótta og öryggisleysi. Er það vegna þess að það er kona sem yrkir og þorir að tala um tilfinningar? Ekki er reynt að sópa yfir tilfinningarnar og þær eiga sér auðvitað ákveðinn túlkunarramma. Þá talar Lilja víða í ljóðum og sálmum um einstaka hluta líkamans til að ræða um Guðstengslin. Er það vegna þess að heilsubrestur Lilju hefur vakið með henni skynjun um mikilvægi þess að allur líkaminn og allar sálargáfur séu tengdar? Er hún sér meðvituð um að allt getur þetta horfið manninum og því mikilvægt að allt sé Guði helgað?

Guð og barnslegt traust

Guð er vinur Lilju, góður og umhyggjusamur. Það er alveg greinilegt að Lilja hefur í sínum uppvexti átt góðan, blíðan og elskulegan föður. Föðurbresti er ekki að finna í kveðskap Lilju. Guðsmyndin er heil og ósprungin föðurímynd og í samræmi við reynslu af sterkri móður og hlýjum föður á Brautarhóli. Það eru önnur mál en kynjun guðsmyndarinnar, sem hafa dregið að sér athygli Lilju í gegnum tíðina. Maðurinn er víðast túlkaður í mynd barnsins eða þess, sem þiggur. Áberandi í ljóðum Lilju er traust til að Guð geri gott úr vanda, leiði á betri veg, bæti úr, bræði hjarn mannlífsins og gefi gróanda í lífi hennar og annarra. Einu gildir frá hvaða æviskeiði ljóðin eru, ávallt getur Lilja talað sem barn við og um Guð. Hvað er maðurinn annað en þiggjandi allra gæða? Og himinninn er ávallt hið mikla takmark, hinn mikli faðmur sem allt leitar til, allt stefnir að. Ljóslíkingar eru algengar í tengslum við Guð. Í því nýtur Lilja skáldskaparhefðarinnar. Áhugaverð eru stjörnuljóð hennar. Hún biður stundum til stjörnu á himni. Einhver myndi sjá í þeim ljóðum kaþólsk áhrif. En þegar Liljuljóðin eru skoðuð í heild kemur í ljós, að eðlilegast er að túlka stjörnuljóðin guðmiðlægt, þ.e. að stjarnan sé Guð fremur en María, dýrlingur, maður eða engill.

Lilja er sú kona sem hefur ort flesta sálma í sálmabók þjóðkirkjunnar, frumorta og þýdda. Sálmarnir eru þó aðeins þrír. Betur má ef duga skal og er þess að vænta að hlutur kvenna aukist mjög við næstu endurskoðun. Margir sálma Lilju eiga erindi í söng kirkjunnar. Það er engin ástæða til að hætta við fyrsta versið. Liljuljóðin eru mörg vers og flest má syngja kirkjunni. Engin þarf að skammast sín fyrir þann söng, ekki höfundurinn, ekki kórinn og ekki söfnuðurinn.

Hurðarspjald og hjartablöð

Það var ánægjulegt að velja ljóðin með Lilju og ræða við hana um inntak og efnisskipan. Þá uppgötvaði ég nýjar víddir móðursystur minnar, sem ég taldi mig þó þekkja vel fyrir. Fyrir það er ég þakklátur. Á kápunni er mynd af hurðarspjaldinu á heimili Lilju. Með þessari bók lýkur hún upp, ekki aðeins heimilinu, heldur hjartaveröld sinni. Innan við dyrnar sjáum við liljurnar, sem kenndar eru við hvítasunnu. Það er við hæfi, enda Lilja fædd skömmu fyrir þá hátíð anda, huggunar og þýðingar. Líf hennar hefur snúist um ljóðlist himins og jarðar. Á málverkum genginna meistara heldur Gabríel erkiengill gjarnan á lilju þegar hann boðar Maríu tíðindin um þunga hennar. Hlutverk Lilju Sólveigar hefur einnig verið að boða gleðiboðskapinn og vera boðberi himins. Þá er upplýsandi einnig að hvítasunnuliljan er kennd við skáldskap í latneska blómaheitinu, narcissus poeticus. Dyrum er upp lokið. Liljuljóðin eru skáldaliljur áttræðs afmælisbarns til syngjandi fólks og íslenskrar kirkju.

Sigurður Árni Þórðarson. Formáli Liljuljóða.