Íkón Íslands

Ég byrja reisu mín,

Jesú, í nafni þín,

höndin þín helg mig leiði,

úr hættu allri greiði.

Jesús mér fylgi í friði

með fögru engla liði. 

Þessa ferðbæn orti Hallgrímur Pétursson. Fólk bað hana í upphafi ferða og þegar farið var  á sjó. Margt af því sem Hallgrímur samdi var á vörum fólks og til stuðnings lífinu. Svo hefur kirkjan á Skólavörðuholti fengið nafn hans og nú er hún orðin tákn. Hallgrímur var íkón þjóðarinnar um aldir og boðskapur hans flæddi um menningu okkar. En nú hefur kirkjan sem við hann er kennd líka orðið tákn. Myndir af kirkjunni hafa verið í auglýsingum í dagblöðum, í sjónvarpi og á samfélagsmiðlum. Kirkjan eða útlínur hennar hafa verið á rútum og strætisvögnum. Kuku-campers var með Hallgrímskirkju á bílum sínum í sumar. Fjöldi íslenskra fyrirtækja hafa notað kirkjuna sem baksvið fyrir auglýsingar s.s. Flugleiðir, Landsbankinn, Toyota og nú síðast líka Arionbanki. Ný púsl með glæsilegum Reykjavíkurmyndum notar Hallgrímskirkju sem meginefni. Kirkjan hefur birst á bókarforsíðum innlendum og erlendum. Þegar sýna á eitthvað stórkostlegt er kirkjan gjarnan í bakgrunni. Bílum er stillt nærri kirkjunni til að baksviðið sé flott. Ofurtrukkar líta jú betur út með Hallgrímskirkju í baksýn en við venjuleg íbúðarhús? Kvikmyndaframleiðendur bíða í röðum að fá að nota kirkjuna, úti og inni. Viðburðastjórar og auglýsendur virða og nýta táknmátt Hallgrímskirkju. Enginn staður landsins er vinsælli fyrir myndatökur en Hallgrímstorg og sjálfurnar sem teknar eru fyrir framan kirkjuna eru risabálkur í myndasafni alheimsins. Hallgrímskirkja rís eins og tákn úr náttúru og menningu Íslands og er orðin stórtákn í menningu heimsins. Hallgrímskirkja teiknar ekki aðeins sjónarrönd borgarlandslagsins heldur eru hún orðin íkón fyrir Ísland.

En fátt benti til þess þegar kirkjan var byggð. Hallgrímssókn er áttræður öldungur. Alþingi stofnaði sóknina árið 1940. Fljótlega eftir lok seinni heimsstyrjaldar var byrjað á byggingu kirkjunnar. Fyrst var gerður safnaðarsalur, sem er nú hluti kórsins. Veggir kirkjuskipsins voru síðan steyptir upp en ákveðið var að bíða með flókna bogahvelfinguna og þakið þar til síðar. Það voru klókindi sóknarnefndar að fullgera ekki kirkjuskipið heldur ljúka turninum fyrst. Ef það hefði ekki verið gert hefði turninn líklega aldrei verið byggður. Árið 1974 var hægt að messa í Suðursal turnvængsins og tólf árum síðar, 1986, var kirkjan svo vígð 26. október. Kirkjan er síðan orðin í hugum útlendinga samnefnari þess sem íslenskt er, tákn fyrir þjóð og land. Íkón Íslands.

En nú eru engir ferðamenn. Coronaveiran hefur gerbreytt samfélagi okkar, stúkað okkur af í heimssamfélaginu. Við prestarnir finnum að kvíði fólks vex. Þráðurinn er styttri hjá fólki og afkomuáhyggjur ógna. Æ fleirum er orðið ljóst að heimurinn er breyttur. Í færslum samfélagsmiðlanna kemur fram að mörgum finnst ástandið orðið biblíulegt, í merkingunni mjög alvarlegt. Ástandið er vissulega skrítið, aðstæður mörgum skelfilegar, já biblíulegar því við þurfum að leita djúpt og skoða gildi okkar. Hvað gerum við gagnvart vá? Saga okkar Íslendinga er litrík saga um hvernig gert var í voða, vanda og þraut eins og segir í ferðabæn Hallgríms Péturssonar. Úr reynslunni var unnið og til varð sjóður visku sem við megum gjarnan nýta okkur. Viska kynslóðanna á undan okkur er menning okkar og eiginlegur viskubrunnur sem við megum ausa af okkur til lífs og gagns.

Um aldir hefur fólk á Íslandi glímt við vá af ýmsum gerðum sem hefur haft áhrif á sjálfsskilning, samfélagsanda og trúarviðhorf. Jarðskjálftar, eldgos, háfísár, uppskerubrestur, barnadauði, sjávarháskar, myrkur og kuldakrumlur langra vetra höfðu áhrif. Íslendingar fengu ofurskammt erfiðleika. Nærri einn þriðji hluti hrauna sem runnið hafa í heiminum síðustu fimm hundruð árin eru íslensk. Á aðeins einum degi í mars árið 1700 létust 165 sjómenn hér á landi. Ef Bandaríkjamenn dæju í sama hlutfalli á einum degi myndu fjöldinn vera hátt í sjö hundruð þúsund Bandaríkjamenn. Blóðtakan var því mikil. Farsóttir gengu yfir þjóðina um allar aldir og fjöldi fólks dó. Samanburður á mannfjöldaþróun á Íslandi og í Noregi skýrir glögglega hve íslensk náttúra var fólki erfið. Í lok 11. aldar voru Íslendingar um 70 þúsund talsins en á sama tíma voru Norðmenn um 250 þúsund. Nærri aldamótunum 1800 hafði Íslendingum fækkað niður í 47 þúsund en á sama tíma hafði Norðmönnum fjölgað í átta hundruð og áttatíu þúsund. Fangbrögðin við líf og land tóku skelfilegan toll en menningin slípaðist, andinn fór á flug og viska þjóðarinnar varð til. Íslensk menning var þríeyki aldanna, almannakerfi andans, hjálp til að lifa. Lífsviskan spratt fram þrátt fyrir kröpp kjör og sorg. Líf þrátt fyrir dauða.

Eftir að ég lauk guðfræðinámi á Íslandi fór ég að læra trúfræði, heimspeki og guðfræðisögu í Nashville í Tennessee í Bandaríkjunum. Það var skemmtilegt að kynnast Suðurríkjunum á níunda áratugnum og hlusta á sögur fólksins úr öllum menningarkimum. Það var skelfilegt að kíkja inn í byssuskápa hinna herskáu, hörmulegt að hlusta á þjáningarsögur hinna jaðarsettu, en hrífandi að hlusta á pólitíkusa framtíðarinnar æfa sig á háskólalóðinni. Í minningunni lifir munur ofurríks yfirstéttarsamfélags og skelfilega fátækrar lágstéttar. Söguljóð kántrítónlistarinnar fengu merkingu í þessu teygða samfélagi misskiptingar.

Allt blandaðist þetta inn í guðfræðina og hugmyndasöguna sem ég var að lesa. Þegar maður fær nýja sjónarhól og fer að sjá menningu sína úr fjarlægð er hægt að endurmeta gildi og gæði. Ég fór að lesa klassísk rit íslenskrar menningar með nýjum hætti, ekki bara fornbókmenntir okkar, goðafræðina, Íslendingasögur og þjóðsögur heldur líka kristnisöguna. Sagnarfurinn og líka klassískir höfundar eins og Jón Vídalín, Hallgrímur Pétursson og síðari höfundar töluðu til mín með nýjum hætti. Mér fannst ég uppgötva hjartslátt landsins í andvörpum menningarhefðar Íslands. Og gerði mér grein fyrir að margt af því sem fólk orkti eða talaði um – lifði í munnmælum eða var sett á blað – voru viðbrögð við vá og dauða. Þetta voru lífstjáningar um hvað væri til gagns í lífsbaráttunni. Þetta var lífsleikniefni fortíðar, speki og almannavarnaefni. Í bland við góðar sögur og dásamlegt skemmtiefni var hægt að greina hvernig uppeldið var, mótun fólks og hvaða gildum var miðlað til að bregðast við náttúruvá, samfélagsmálum, lífi og dauða.

Allt fólk leitar merkingar og skýringa á lífi sínu og sinna. Og það er uppistaðan í vefnaði menningarinnar. Fólk Íslands glímdi við fæðuskort, sjúkdóma, ógnir náttúru og óréttlæti. Mér sýnist að Íslendingar hafi búið til merkilega menningu, sem hjálpaði fólki við að greina mörk, vá og samfélagsskipan. Þessa menningu kalla ég mæramenningu. Þetta reddast-hugsunin á Íslandi er ekki afstaða kjánans heldur á sér dýpri rætur í lífsreynslu kynslóðanna í erfiðum aðstæðum. Það er líka skýr siðfræði í þessari viskumenningu okkar á mærum. Allir skyldu þjóna öðrum. Einstaklingurinn var einn af mörgum og ætti að vera til hags samfélagi sínu. Hinn kristni boðskapur fléttaðist að lífsreynslu fólks og var túlkaður inn í aðstæður. Samábyrgð, kærleikur, hófstilling, trúmennska og auðmjúk ráðsmennska var til stuðnings í almannavarnahugsun fortíðar. Þegar augum látinna barna var lokað í hinsta sinn féllu tár en þá voru líka sögð huggunarorð um elsku himinsins og eilífðarfang Guðs.

Og hvað kemur svo þessi lífsviska íslenskrar menningar okkur við í covid-fári? Jú, við erum allt í einu að lifa biblíulega tíma kreppu, mæranna. Við ættum að staldra við og hugsa um voða vanda og þraut. Æ fleiri íhuga hvort coronaveiran sem nú hefur kvíað veröldina svo skelfilega sé afleiðing röskunar á jafnvægi náttúrunnar. Nútímalandbúnaður hefur skaddað náttúrujafnvægi sem þróast hefur í milljónir ára. Fæðuval hefur breyst og veirur smitast fremur á milli kerfa nú en áður. Víða hafa mörk ekki verið virt. Vatni hefur verið spillt í heiminum. Gengið er á vatnsbirgðir og vatnsstreitan vex. Og átök um vatn hefur og mun leiða til stríða og mannfalls ef fram heldur sem horfir. Lofstslagsvandi hefur á síðustu árum orðið ofurvandi okkar allra. Í viskuhefð okkar Íslendinga eru fyrirmyndir um hvernig á að taka á áföllum og vanda, hvernig eigi eða megi lifa við mæri og lifa af með reisn.

Klassísk menning og heildarhugsun vestrænna þjóða hefur rofnað. Afleiðingar eru siðferðisglundroði og mengaður samfélagsandi. Einstaklingshyggja og sérgæska er á kostnað heildarhyggju og samúðar. Þeir ríku og sterku reyna bara að tryggja hag sinn og er sama um hvort einhverjir líða út af í kjölfarið. Slík afstaða er algerlega þvert á mæramenningu Íslendinga. Sóunarafstaða einstaklingshyggjunar er þvert á visku okkar þjóðar.

Covidtíminn nú opinberar okkur mikilvægi þess að standa saman, verja hvert annað, passa upp á hin veikustu, axla ábyrgð og að við setjum ekki heilsukerfi okkar á hliðina. Við erum vissulega öll almannavarnir. En við þurfum sem samfélag að endurskoða hvernig við lifum og hver gildi okkar eru og lífsafstaða. Við höfum ekki óskertan rétt heldur ber okkur að elska og virða. Okkur eru gefnar miklar gjafir. Okkur er boðið til veislu eins og segir í texta dagsins. En þegar við virðum ekki gjafir lífsins, ríkidæmi náttúrunnar, gæði menningarinnar og velferð heimsins þá segjum við okkur úr lögum við það sem máli skiptir, töpum tengslum, upp, út og niður. Á máli trúleysingjans er það að sinna ekki siðferðisskyldu sinni. En á máli trúmannsins er það að bregðast kalli Guðs til hins góða lífs. Guð kallar okkur til veislu í lífinu, að njóta lífsgæðanna og að virða mörk og þarfir manna og náttúru. Við erum kölluð til að rækta tengslin við hið góða, siðlega, ábyrga og gleðilega. Við erum kölluð öll til veislu – boðið í partí sem er svo gott að það fer ekki úr böndum. En nú læðist kvíðinn um og mörkin færast nær. Æ fleiri upplifa þrengingar og hætt er við að veturinn verði mörgum þungbær. Þá er komið að tíma vitjunar. Við þurfum að þora að endurskoða, að ganga í okkur sjálf, meta gildi okkar og tengsl.

Hallgrímssöfnuður á afmæli. Hallgrímskirkja er ekki bara sjónarrönd eða íkón Íslands og aðalmarkmið ferðamanna, heimshelgidómur. Erindi þessarar kirkju, helgihalds hennar og menningarlífs er að segja góða sögu gegn allri vá heimsins. Það var verkefni Hallgríms Péturssonar með Pássíusálmunum. Hallgrímur hafði meiri áhuga á lífinu en dauðanum. Í eigin lífi hafði hann reynt að vonin lifir í þessum heimi af því Guð elskar og kemur til að veita líf. Að vita í von er að trúa. Meðan byggð helst í þessu landi verða sagðar sögur í helgidómum og á heimilum þessarar þjóðar um að lífið er sterkara en dauðinn. Að dauðin dó en lífið lifir. Meðan byggð helst í landi og heimi teiknar þessi helgidómur himinlínu Reykjavíkurborgar og turnspíran mun benda beint upp í himininn. Boðskapur þessa húss, erindi presta, djákna, organista, kórs og inntakið í hvísli helgidómsins er að Guð stendur með lífinu. Guð kemur og veitir von til lífs. Coronaveirur munu fara um heiminn, heimsbyggðin er við ýmis mörk sem verður að virða. En vonaróður lífsins verður tjáður og sunginn áfram í þessari kirkju meðan lífið lifir. Mæramenning Íslendinga er til lífs. Guð er nærri. Hallgrímur Pétursson segir í öðru erindi ferðabænarinnar sem reyndar verður sungin á eftir:

Í voða, vanda og þraut / vel ég þig förunaut, / yfir mér virstu vaka

og vara á mér taka. / Jesús mér fylgi í friði / með fögru englaliði.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda – Amen.

Hallgrímskirkja, útvarpsguðsþjónusta, 25. október, 2020.

 

Sextug og stofnaði fyrirtæki fyrir fólk

Elín mín stofnaði fyrsta fyrirtækið sitt sextug – og blómstrar. Vegna myglu á fyrrverandi vinnustað ákvað hún að velja heilsuna fremur en vinnuna. En fólk hleypur ekki í störf þegar það er komið á sjötugsaldurinn. Hún skoðaði atvinnumöguleikana og fór svo í langa göngu og spurði sjálfa sig hvað hún vildi gera? Hver væri ástríða hennar og hvað henni þætti skemmtilegast? Þegar hún kom heim tilkynnti hún mér að hún ætlaði að stofna sérhæfða lögfræðiþjónustu fyrir fólk sem stæði á krossgötum og væri að íhuga búsetuskipti. Áherslan yrði að þjóna 59+. Hún kynni lögfræðina, hefði brennandi áhuga á fasteignamálum og vildi þjóna fólki. Ég þekkti glampann í augum hennar. Hún var ákveðin, búin að taka stefnuna. Nei, hún hafði engan áhuga á að stofna fasteignasölu því það væri nóg af slíkum. En það vantaði algerlega að þjónustu við fólk áður en það færi á fasteignasöluna og væri að hugsa og meta kostina. Það þyrfti að þjóna fólki sem væri á krossgötum, spyrja það spurninga um óskir, drauma og þarfir. Hún væri nú líka markþjálfi og gæti farið inn í stóru málin. Og svo væri gott að fagmaðurinn hjálpaði við að meta og vega kostina með fólki áður en það færi í leiðangurinn. 

Ég dáðist að hvernig Elín Sigrún gekk í verkin, allt frá fyrstu hugmynd til blússandi rekstrar. Þegar hugmyndin kom skoðaði hún möguleika og útfærslur, kjarnaði svo umfang, viðfangsefni og þjónusturamma. Hún leysti út lögmannsréttindin og gerði samninga við fasteignasölur sem hún hafði góða reynslu af og treysti. Svo kom nafnið Búum vel. Hún skráði fyrirtækið og skráði líka nokkur lén hjá ISNIC, skráningaraðila íslenskra heimasíðna. Svo fór hún á erlendar hönnunarsíður og teiknaði merki eins og hún væri grafískur hönnuður. Svo var það heimasíðan. Elín ákvað að gera þetta bara sjálf frekar en að flækja málin með vefsíðuhönnuðum. Hún valdi wix-umsýslukerfi í stað word-press sem ég kann á. Ekki gafst hún upp þó alls konar hindranir yrðu og um tíma hvarf grunnur sem hún var búinn að vinna. Hún kláraði vefnaðinn og nú er síðan komin upp. Slóðin er www.buumvel.is

Elín Sigrún veit að margir óttast að taka ákvarðanir um peningamál, lagagerninga og fasteignaviðskipti. Margir skelfast þegar lesa þarf samninga og smáa letrið og óttast að gera afdrifarík mistök. Nú nýtir Elín sína fjölþættu þekkingu og reynslu og aðstoðar fólk við að meta kostina varðandi búsetuskipti og vinna pappíra í tengslum við skilnaði eða dánarbú. Fólk fær sinn einkalögmann. Fasteignasölurnar lækka sölugjaldið því vitað er hve þjónusta Elínar skilar fólki miklu öryggi, gleði og farsæld á álagstíma búsetuskipta. Sem sé lækkun þóknunar fasteignasalanna eru laun Elínar.

Það hefur verið sérstaklega skemmtilegt að fylgjast með Elínu stofna fyrirtækið Búum vel og verða vitni að því hve fagnandi hún gengur til starfa og þjónar fólki af mikilli fagmennsku, alúð og hlýju. Og það vermir þegar fólk tjáir djúpt þakklæti fyrir að hún tryggði að það seldi vel og gerði góð kaup og klúðraði ekki fjármálum sínum. Öryggi er aðalmál í fasteignaviðskiptum.

Búum vel er algerlega ný vídd í þjónustu við fólk sem er á krossgötum, ekki aðeins á Íslandi heldur er svona lögmannsþjónusta einstök. Hugmyndin kemur ekki frá útlöndum, hún kom af himnum og í kollinn á Elínu Sigrúnu Jónsdóttur á göngu við sjóinn. Það verður enginn svikinn af Búum vel og stefna Elínar er að fólk eigi að búa eins og vel og það vill. Hún er til þjónustu reiðubúin.

Allt er sextugum fært. Já, Elín Sigrún er fyrirmynd okkur eldra fólkinu og til fyrirmyndar í störfum. Og tímalínan þessi: Tala fyrst við Elínu Sigrúnu og þar á eftir að tala við fasteignasölurnar. Fá sinn eigin lögmann en borga ekkert meira.

Skrifstofa Búm vel verður í nýsköpunarhúsinu Grósku, húsinu við hlið Íslenskrar erfðagreiningar. Það verður væntanlega tekið í notkun í lok nóvember 2020. 

 

Það er gott að sækja í kyrru

Hallgrímssöfnuður á afmæli og er áttatíu ára. Árið 1940 ákvað Alþingi að stofna þrjár nýjar sóknir í Reykjavík og þar á meðal var Hallgrímssókn. Fyrstu árin var helgihald í Austurbæjarskóla. Bygging Hallgrímskirkju hófst svo árið 1945 og þremur árum síðar var kjallari kórsins vígður sem kirkjusalur. Þar var messað þar til nýr kirkjusalur var tekinn í notkun í suðurálmu turnsins árið 1974. Kirkjan var síðan vígð 26. október 1986, daginn fyrir 312. ártíð Hallgríms Péturssonar, sama ár og Reykjavík hélt upp á 200 ára afmæli sitt. Í lok október er ártíðar Hallgríms Péturssonar og vígslu kirkjunnar minnst.

Hallgrímskirkja er mikið hátíðahús og vaninn að efna til litríks helgihalds og menningarviðburða. En gleði kirkju og samfélags eru nú skorður settar. Hvernig er hægt að fagna á þessum sóttvarnatíma? Kirkjan er hverfiskirkja og þjóðarhelgidómur. Hallgrímskirkja er komin á ofurskrár heimshúsa – topp tíu, topp fimmtíu og topp hundrað. Hún er á ofurlistum um mikilvæga ferðamannastaði, hrífandi kirkjur og mikil steinsteypumannvirki. Hún er líka á lista the Guardian sem eitt af tíu mikilvægustu tilbeiðsluhúsum heims. Fólk nær sambandi hvort sem það leitar sjálfs sín, friðar, vonar eða Guðs.

Þó auglýstar athafnir verði ekki í kirkjum þjóðarinnar í október eru kirkjurnar opin bænahús. Alla daga er opið í Hallgrímskirkju milli 11 og 14. Það er gott að sækja í kyrru Hallgrímskirkju til að stilla huga, íhuga, kveikja kerti, hlusta á tónlist orgels eða veðurs og njóta síbreytilegs ljósaleiks himinsins utan glugganna. Að fara í kirkju styrkir fólk, líka á álagstímum. Í stað þess að láta skuggana lita sálarlífið getum við ákveðið að leggja rækt við það sem skiptir okkur máli og það sem gleður og eflir. Hallgrímskirkja er hlið himins fyrir okkur öll. Verið velkomin.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 20. október, 2020.

 

 

Hvenær endar þetta?

Fólk er orðið þreytt á faraldrinum. Bylgjan nú er mörgum þungbærari en í vor. Ekki sér til enda farsóttarinnar. Veiran hemur samfélag manna. Þreyta fólks, ótti og leiði hefur nafn; fararsóttarþreyta. Sú þreyta er jafnvel í veldisvexti. Þegar álag vex og ekki sér út úr kófinu verður styttra í kviku fólks. Samfélagsstreitan vex og ósætti líka. Deilur hafa vaknað um hvert eigi að stefna og hvað og hver eigi að ráða. Hverjum á að þjóna í samfélaginu í aðkrepptum aðstæðum? Það eru djúpu siðferðisspurningarnar sem dynja á okkur þessa daga.

Hvenær dagar?

Einu sinni var spekingur í fornöld að kenna nemahóp og spurði spurningarinnar: „Á hvaða augnabliki endar nóttin og dagurinn byrjar?“ Einn neminn svaraði: „Það er þegar nógu bjart er til að hægt sé að greina milli hunds og kindar.“ Annar sagði: „Þegar það er nógu bjart er til að sjá hvað er ólífutré og hvað fíkjutré.“ Meistarinn sagði: „Þetta eru góð svör en þó ekki hin réttu. Svarið er: „Þegar ókunnugur maður kemur og við höldum að hann sé bróðir okkar og allar deilur hætta, þá er nákvæmlega stundin þegar nóttin endar og dagur byrjar.“

Hvað finnst þér um svona svar? Það er ekki svar um birtumagn eða myrkur, ekki um skilgreiningar eða yfirborðsmál heldur er það svar um fólk og lífsgæði. Þegar ókunnugir koma sem við ekki þekkjum og við sjáum í þeim hrífandi fólk, vini, eins og systur og bræður og höfum bara löngun til að gleðjast með þeim þá endar nóttin. Þegar við virðum aðra og metum enda deilurnar og dagurinn getur orðið bjartur.

Þrennan

Textar þessa sunnudags kirkjuársins eru eins og burðarvirki menningar og kristni. Lexían úr gamla testamentinu eru boðorðin. Þau eru eins og umferðarreglur fyrir lífið, forskriftir um hvað gagnist fólki í samskiptum. Í nýjatestamentistextanum segir frá að spekingur í lögfræði lífs og samfélags fór til Jesú Krists til að að spyrja hann hvernig hann fengi botn í lífsreglurnar og lögspekina. Hvað er æðsta boðorðið? spurði hann. Og Jesús svaraði með því að fara með það sem Gyðingar allra alda hafa lært: Shema Yisrael ( Heyr Ísrael… ). Það er æðsta boðorðið um að elska Guð algerlega, með sínu innsta inni, með skilningi og í öllu athæfi og annað fólk eins og sjálft sig. Þessi lífsspeki Gyðingdómsins – Shema – er arfur spekinnar í kristninni líka. Þetta boð er nefnt tvöfalda eða tvíþætta kærleiksboðið en það má líka kalla það þrefalda kærleiksboðið. Það er þrenna: Ást til Guðs, annarra og sjálfs sín. Allt þarf að vera í jafnvægi til að vel sé lifað. Ef fólk elskar bara aðra en ekki sjálft sig verður innra hrun. Ef maður elskar bara sjálfan sig hrynur maður inn í sjálfan sig og hamingjan visnar. Ef sambandið við Guð dofnar er lífi ógnað samkvæmt trú og reynslu þúsunda kynslóða.

Siðferði – líf

Hvenær endar nóttin og hvenær byrjar dagurinn? Lífið flæðir alltaf yfir mörk. Ekkert þolir algerar skorður og kassahugsun. Það er hægt að þjálfa fólk í hlýðni, en allt verður til einskis og óhamingju nema ræktin verði á dýptina í fólki. Það var þessi innsýn sem Jesús tjáði með því að beina sjónum að baki lögum og reglum og inn í fólk. Alla leið.

Jesús hafði enga trú á ytri þjónkun ef innri maður var ósnortinn. Hvaða skoðun hefur þú á því? Við getum lifað við allsnægtir en þó verið frosin, búið við stórkostleg kerfi, þróaða löggjöf og háleitar hugsjónir en ekkert verður þó gott nema fólk sé ræktað til dýpta. Jesús sagði að fólk væri ekki heilt nema innri maður þess væri tengdur hinu góða.

Hvenær endar nóttin og hvenær byrjar dagurinn? Það er þegar við viðurkennum dýrmæti annarra, að aðrir eru djásn Guðs, ómetanleg og undursamleg þá getum við elskað. Og dagur er á lofti þegar við virðum aðra eins og okkur sjálf. Getum við tamið okkur slíka mannsýn, mannrækt, mannelsku? Snilldarviðbót Jesú Krists var að Guð legði ekki aðeins til hugsun, mátt, kraft og anda heldur gerði eitthvað í málum, kæmi sjálfur. Guð sætti sig ekki við myrkur fólks heldur horfir á mennina sem sína bræður og systur. Saga Jesú er saga um dagrenningu heimsins, að Guð ákvað að sjá í mönnum bræður og systur. Okkar er að lifa í þeim anda.

Í farsóttarþreytu er myrkrið svart, kuldinn sækir í sálina, deilurnar magnast. Þegar innlokanir fara illa með fólk, streitan vex, kvíði og reiði er þarfast að opna, rækta hið jákvæða, sækja í það sem eflir fólk og láta ekki myrkrið taka yfir sál og útrýma vitund um gildi annarra. Hvenær byrjaði dagurinn? Það var þegar Guð horfði með vinaraugum á veröldina. Hvenær byrjar þinn dagur? Þegar þú lærir að lifa í elskuþrennunni.

Verkefnið er að elska Guð, elska aðra, elska okkur sjálf. Það er þrennan fyrir lífið. Og hefur mikil áhrif á hvort dagar í lífi þínu og margra annarra. En Guð í elskuþrennu sinni er þér nærri og styður.

Amen.

2020 11. OKT 18. SUNNUDAGUR EFTIR ÞRENNINGARHÁTÍÐ A

Lexía: 2Mós 20.1-17

Drottinn mælti öll þessi orð: „Ég er Drottinn, Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig. Þú skalt hvorki gera þér líkneski né neina eftirlíkingu af því sem er á himnum uppi eða því sem er á jörðu niðri eða í hafinu undir jörðinni. Þú skalt hvorki falla fram fyrir þeim né dýrka þau því að ég, Drottinn, Guð þinn, er vandlátur Guð og refsa niðjum í þriðja og fjórða lið fyrir sekt feðra þeirra sem hata mig en sýni kærleika þúsundum þeirra sem elska mig og halda boð mín. Þú skalt ekki leggja nafn Drottins, Guðs þíns, við hégóma því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt sem leggur nafn hans við hégóma. Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. Þú skalt vinna sex daga og sinna öllum verkum þínum. En sjöundi dagurinn er hvíldardagur Drottins, Guðs þíns. Þá skaltu ekkert verk vinna, hvorki þú sjálfur né sonur þinn eða dóttir, þræll þinn né ambátt eða skepnur þínar eða aðkomumaðurinn sem fær að búa innan borgarhliða þinna. Því að á sex dögum gerði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem í því er en hvíldist sjöunda daginn. Þess vegna blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann. Heiðra föður þinn og móður svo að þú verðir langlífur í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér. Þú skalt ekki morð fremja. Þú skalt ekki drýgja hór. Þú skalt ekki stela. Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum. Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, þræl hans eða ambátt, uxa hans eða asna eða nokkuð það sem náungi þinn á.“

Guðspjall: Mark 12.28-34

Þá kom til Jesú fræðimaður einn. Hann hafði hlýtt á orðaskipti þeirra og fann að Jesús hafði svarað þeim vel. Hann spurði: „Hvert er æðst allra boðorða?“Jesús svaraði: „Æðst er þetta: Heyr, Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn. Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. Annað er þetta: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ekkert boðorð annað er þessum meira.“Fræðimaðurinn sagði þá við Jesú: „Rétt er það, meistari, satt sagðir þú. Einn er Guð og enginn er Guð annar en hann. Og að elska hann af öllu hjarta, öllum skilningi og öllum mætti og elska náungann eins og sjálfan sig, það er öllum brennifórnum og sláturfórnum meira.“Jesús sá að hann svaraði viturlega og sagði við hann: „Þú ert ekki fjarri Guðs ríki.“

Lífslind

Þú, sem ert höfundur vatnsins, höfundur lífs,
– þú hefur mótað jarðarkringluna fagurlega og
sveipað líkama hennar vatnsklæðum,
sem blakta í golu, bylgjast – rísa og hníga.
Þú ert vatnaskáldið mikla,
sem yrkir af hita svo vatn svífur upp í himininn.

Þú leikur þér í baði veraldar

og veitir vatni í hringrás heimsins.
Þú veitir því í blóðrás lífsins,
tyllir því á fjallatoppa.

Svo stikla bunur niður stalla, kvíslast milli steina,
faðma aðrar lænur, sameinast,
endurvarpa ljós þitt í morgunsólinni,
dreyma hádegisdrauma
og hverfa í hafið, faðm þinn.

Vatni ausa, með fögnuði…
Þú gefur vatn fyrir lífið, fyrir gleðina.
Veitir vatni um líkama hvala og fjalldrapa,
og í smásyngjandi lyfjagras og dýjamosa,
fíla, apa, ær og menn –
í frumur og örverur,
í stóra keðju, sem þú gefur og mylkir.

Mig þyrstir – þú vökvar.
Ég er grænþörungur á steini – þú ert haf kærleikans.

Þú umspennir allan heiminn blessun,
Þú gefur vatn fyrir lífið.

Ég er ausinn vatni ….. þitt vatn þrýtur ekki.

En gefur þú fögnuð Guð?

Hvaða lindir eru lindir fagnaðar?
Hvað svalar nístandi þorsta hið innra?
Hvaða rekja sefar þegar kvíðinn sækir að?
Hvað endurreisir þegar sektin nagar?
Hvað græðir brotið fólk og marðar fjölskyldur?
Hvað bætir fyrir orð hryllings, illvilja, morð og mein?

Vatn umlykur allt.

Vatn af himni – vatni er hellt í font.

Barn hjalar við sólbroti vatnsins,
í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda.
Kross á enni, kross á brjóst,
vatn á höfuð.

Bros í augum.

Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins.
Þú, sem gefur vatn af himni, vatn í jörðu, haf,
kemur svo sjálfur með lífsins vatn.
Þú ert vatnsveitan eina – lindin lífs.

Þegar geimar gliðna, heimur riðlast,
menn æða og sál engist – þá gefur þú gott vatn.
Þorstinn er minn en þú ert lind lífsvatnsins.

(Bæn á kyrrðarstund – Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins. Jesaja 12:3)