Greinasafn fyrir merki: Lilja Helga Gunnarsdóttir

Ingimundur Magnússon + minningarorð

Myndir hafa áhrif. Við horfum á veröldina með augunum, sjáum með ákveðnum hætti, skynjum og geymum svo í myndabanka minninganna. Frá því í árdaga hafa menn gert myndir, rist myndir á veggi, teiknað myndir í jarðveg og fest á pappír á síðari öldum. Platón mótaði heimspekikerfi um myndir, talaði um frummyndir og hafði sjálfur hugmynd um hvernig veröldin birtist skynjun manna sem myndheimur. Myndir manna hafa orðið lyklar að lífsskilningi. Málverk, skúlptúrar, hús, kvikmyndir og myndgjörningar – alls konar – hafa orðið mörgum uppspretta reynslu, sjálfsmyndar og heimstúlkunar. Ljósmyndirnar hafa bæst við síðustu öldina. Myndir eru svo mikilvægar að ekki er alltaf ljóst hvað er veigamest, fyrirmyndin eða túlkun eftirmyndarinnar.

Ingimundur var ljósmyndari – frábær ljósmyndari. Ég man eftir honum sem barn þegar hann var á ferð og mundaði ljósmyndavélina. Hann tók myndir af krökkum við hornsílaveiðar niður við Tjörn, af ungviðinu að leika sér í snjónum, Hemma Gunn á Valssvæðinu, líka Þórólfi Beck við skotæfingar. Og Ingi varð meira segja fyrir skoti Þórólfs þegar hann var að taka mynd af honum og sá á honum eftir! Þegar við gúglum Ingimund Magnússon birtast á skjánum fjöldi glæsilegra mynda sem hann tók, myndir sem fanga athygli, vekja tilfinningar og hugsun, gleðja. Ingimundur var fyrsti ljósmyndarinn sem ráðinn var til dagblaðsins Vísis, 1961. Árin þar á eftir fór hann víða , tók myndir og skráði þar með mannlífið í Reykjavík á þessum árum, þmt íþróttir, heimsóknir og viðburði. Myndirnar eru ekki aðeins góðar og til vitnis um hve vel sjáandi Ingi var heldur eru menningarlega mikilvægur vitnisburður um líf fólks í borginni og landinu á þessum árum og áratugum.

Myndir eru mikilvægar og hafa verið í tíma – en líka í eilífð – eða svo tjáir Biblían okkur. Guð gerði manninn í sinni mynd, segir þar. Og Jesús Kristur hefur haft tilfinningu fyrir myndum því hann tók einu sinni upp pening þegar verið var að reyna hann og spurði á móti: „Hvers mynd er þetta?“ Hvað er mynd, til hvers er hún? Hvernig getum við skilið og túlkað myndir best? Ingimundur tók myndir, ekki aðeins myndir af einhverju, heldur myndir sem sýndu en gáfu líka tilfinningu og túlkuðu veröldina. Í hinu trúarlega samhengi er oft sagt að Jesús Kristur sé mynd Guðs í tíma og rými. Hann sýndi elskaða veröld og guðsmynd sem umvefur. Hann var mönnum mynd þess heims sem er í góðum höndum, til góðs og er elskaður. Og svo þegar tíminn frýs í myndum eilífðar megum við vita að engin mynd megnar að túlka fyllilega hvað líf himins er fagurt og gott. Og nú megum við leyfa okkur að sjá Lilju og Inga brosa saman í grænum hvammi hlægjandi eilífðar. Þau voru okkur bæði fulltrúar þess að lífið er skemmtilegt og elskulegt.

Upphafið

Ingimundur Magnússon var Vesturbæingur, KR-ingur, tvíburi, valmenni og höfðingi. Ingi fæddist í Reykjavík 14. janúar árið 1931 og lést á Grund 12. september síðastliðinn. Foreldrar hans voru Helga Kristín Kristjánsdóttir og Magnús Ingimundarson. Tvíburabróðir Ingimundar var Kristján en hann lést árið 2003. Yngri en bræðurnir voru Vala Dóra sem fæddist 1937 en lést árið 2016 og Jórunn sem fæddist 1938 og lifir systkini sín. Bernskuárin bjó Ingimundur á Sólvallagötu. Hann lærði húsasmíði og vann við húsa- og húsgagnasmíði með föður sínum í nokkur ár. Ingi var alla tíð glöggur og næmur á tækni og tæki. Hann lærði snemma að mikilvægt væri að láta tækin vinna fyrir sig, þjösnast ekki á hefli og nota höfuðið við greiningu á vanda sem þurfti að vinna með. Ingi varð því góður og í mjög mörgu. Margir reiddu sig á að hann gæti bjargað úr vanda, hvort sem það var nú í rafmagni, smíðum eða smella keðjum á dekk.

Lilja og fjölskyldan

Svo var það Lilja Helga Gunnarsdóttir og hin farsæla ást þeirra Ingimundar. Ingi sá Lilju sá fyrst á götu í Hafnarfirði þegar hún var unglingur. Ingi hafði alltaf góð augu, sá vel, tók eftir og festi mynd í sinni. Hann mundi nákvæmlega hvernig kápan hennar Lilju var – að hægt var að snúa henni við og þá var komin ný flík. Löngu síðar sagði Ingi Lilju frá þessari sýn, mynd, sem greiptist í huga hans, af henni og hve sniðuglega kápan var gerð, tvær í einni. Nokkrum árum síðar hittust þau í Hveradölum þar sem ungviðið á suðvestur-horninu safnaðist saman til að hafa gaman og flest fóru eitthvað upp í brekkurnar. Ingi mundi eftir kápustúlkunni úr Hafnarfirði og hún gerði sér grein fyrir að hann tók eftir henni. Svo tók hún líka eftir hve glæsilegur þessi KR-skíðasnillingur var. Svo varð ævintýratími samdráttarins. Þau Lilja urðu par og gengu svo saman æfiveginn. Þau voru bráðung og Ingi fékk forsetaleyfið svo hann mætti ganga í hjónaband. Þau sögðu já í kirkjunni og gengu í hjónaband í lok október árið 1951. Hún var drottingin í lífi hans og hann kóngurinn. Líf þeirra var gott, litríkt og gjöfult.  

Synir þeirra Inga og Lilju eru Magnús, Gunnar og Bolli Þór.

Magnús er framhaldsskólakennari. Kona hans er Brynhildur Ingvarsdóttir, augnlæknir. Sonur Magnúsar er Ingi Fjalar og kona hans er Sólveig Ólafsdóttir.

Jóhanna Katrín Magnúsdóttir er gift Finni Vilhjálmssyni.

Lilja Ósk Magnúsdóttir fæddist 1986 og Gunnar Ingi Magnússon kom í heiminn 1991. Hans kona er Eva Harðardóttir.

Gunnar, annar sonur Lilju og Inga, er framkvæmdastjóri. Kona hans er Hrund Sch. Thorsteinsson, hjúkrunarfræðingur. Börn Gunnars eru Davíð, Jakob, Soffía og Magnús. Kona Davíðs er Nína Björk Arnbjörnsdóttir. Unnusti Soffíu er Jón Dagur Þorsteinsson og Glódís Ylgja Hilmarsdóttir er unnusta Magnúsar.

Bolli Þór Bollason er svo þriðji strákurinn og elstur. Hann kom ungur til Guðlaugar ömmu sinnar og Lilju þegar blóðforeldrar hans skildu. Faðir Bolla var bróðir Lilju og þeim mægðum rann blóðið til skyldunnar og hann varð eiginlega sonur þeirra beggja og gat þar með ráðið sjálfur til hvorrar hann leitaði. Það var því forréttindastaða sem hann var í – að njóta styrkleika tveggja kvenna sem voru báðar miklar fyrir sér. Svo þegar Ingi kom á heimilið varð hann stjúpi Bolla. Bolli Þór var ráðuneytisstjóri. Kona hans er Hrefna Sigurðardóttir viðskiptafræðingur. Elst barna Bolla er Ólöf og maður hennar er Guðmundur Pálsson.

Svo er það Lilja Guðlaug, sem fékk nöfn mæðranna beggja. Þá er Lárus og kona hans er Lára Björg Björnsdóttir. Þórunn er gift Sigurgeiri Guðlaugssyni. Stjúpdóttir Bolla er Jóhanna Guðmundsdóttir. Hennar maður er Mohsen Rezakahn Khajeh. Halla Lárusdóttir, fyrri kona Bolla, var móðir Lilju Guðlaugar, Lárusar og Þórunnar. Hún er látin.

Dætur Hrefnu eru Karen Þóra Sigurkarlsdóttir og hennar maki Jón Axel Björnsson og Hanna Christel Sigurkarlsdóttir og hennar maður er Elvar Kjartansson.

Þetta er stór og kraftmikill hópur, barnabörnin á annan tug og barnabarnabörnin þrír tugir. Ríkidæmi Inga og Lilju var mikið. Og þau fylgdust vel með sínu fólki. Margir afkomendanna voru svo lánsamir að fá að gista hjá Inga og Lilju og fara ferðir með þeim um landið og í sumarbústaðareisur. Fyrir hönd alls þessa fólks er þakkað í dag.

Svo eru þau sem beðið hafa fyrir kveðjur til ykkar. Bolli og Hrefna eiginkona hans eru erlendis og komast ekki til þessarar útfarar og biðja fyrir kveðjur til ykkar ástvina. Dætur Bolla, þær Ólöf, Lilja Guðlaug, Jóhanna og fjölskyldur þeirra biðja fyrir kveðjur. Sömuleiðis Guðmundur Jónsson. 

Þegar Ingi og Lilja gengu í hjónaband bjuggu þau fyrst við Laugaveginn. Magnús var þá í gerðinni. Síðan fluttu þau inn í Laugarnes árið 1957. En Vesturbæinga langar oftast „heim“ – og þau Ingi og Lilja byggðu sér íbúð á Kaplaskjólsvegi árið 1960 og fjölskyldan hjálpaðist við að klára íbúðina. Lilja og Ingi unnu úti en öll voru þau svo lánsöm að drengirnir undu vel KR-lífinu og uxu upp í fjörinu og krakkamergð svæðisins. Þar var líf, fjör, líkaminn stæltist í boltanum og persónuþroskinn og félagsfærnin í samskiptunum.

Minningarnar

Nú kveðjum við Inga. Hvernig manstu hann? Og við getum einfaldað með því að spyrja hvaða mynd hefur þú af honum í þínum myndabanka? Já, Ingi var listrænn og næmur. Hann var völdundur hins sjónræna, myndlistar og ljósmynda. Og þó hann hafi ákveðið að segja skilið við sög og hefil naut hann smíðaþjálfunar bernskunnar. Hann hafði fengið þjálfun í formskynjun, og náði að stæla verkhyggni og temja sér gott vinnulag. Myndirnar hans Inga sýna ljósvitund og góða formskynjun en líka auga fyrir margbreytileika mannlífsins. Mótífin hans eru fjölbreytileg. Eftir að erli dagblaðaljósmyndunar lauk tók við vinna í stúdíóum og auglýsingaljósmyndun. Þær voru því margar myndirnar sem Ingi tók um dagana, margar listaverk og fjöldi þeirra miklar tilfinningamyndir og þmt fjölskyldumyndirnar. Ingi hélt áfram að vinna með myndir og allt til loka. Ég hef ekki heyrt um nokkurn mann annan sem fékk flottan ljósmyndaprentara í afmælisgjöf á níræðisafmælinu. En Ingi var opinn, hugaður og þorði að vinna með nýja tækni í ljósmyndun og ljósmyndavinnslu. Ný tölva, nýr prentari hæfði Inga, líka á tíræðisaldri. Hann er ekki aðeins maður myndanna heldur líka fyrirmynd okkur um að vera opin, forvitin um líf, verðandi, tækni og breytingar.  Við týnum tímanum öllum en megum helst ekki týna lífsgleðinni og framtíðinni.

Músíkmaðurinn

Ingi var líka músíkalskur. Hann hélt músík að sínu fólki og mat alls konar tónlist. Einar Kristjánsson, stórsöngvari var náfrændi, og Ingi hafði bæði mótun og næman skilning á sönglist og söngfærni. Hann mat klassíska tónlist, hlustaði með mikilli gleði á jazz. Hann var fínstilltur og vildi góð tæki til að tónlistin nyti sín, keypti góðar græju og smíðaði jafnvel hátalara sjálfur til að tryggja hlustunargleðina. Ungviðið á heimilinu og fjölskyldan naut góðs smekks hans en hafði líka græjurnar til að tónlistin yrði hljómgóð. Krakkarnir í nágrenninu gátu hlustað á Bítlana, Led Zeppelin og Rolling Stones með góðu sándi. Ingi hlustaði vel á sína músík hvort sem það var John Williams, Bill Evans eða Miles Davis. Músíksóknin lifði í Inga alla tíð og allt til enda. Hann heyrði tónlist ekki bara í hljóðfærum heldur gladdist líka yfir hljóðgæðum í Rolleiflexnum -eða öðrum góðum myndavélum – þegar smellt var af. Hann undraðist í seinni tíð hvað hann gæti fundið mikið á youtube af góðri músík og líka með myndskeiðum af meisturunum!

Sveitin og náttúruunnandinn

Svo var sveitin í Inga. Rastaða myndin í sálmaskráropnunni sýnir Bergstaði, Drumboddstaði og Tungurnar. Ingi var í sveit á Drumboddstöðum sem sést hægra megin á myndinni, er þarna á réttum stað – við Allt eins og blómstrið eina. Ingi lærði á búskap, skildi gróandann og blómstrin, lærði að vinna og tengdist fólki djúpum böndum. Hann var líka dýravinur. Í myndasafni sálmaskrárinnar sjáum við Inga sundríða hesti. Sjósundsslagorðið á við: Hættu að væla komdu að kæla. Það er kapp og fjör í báðum. Ingi átti hesta um árabil og naut samvistanna við dýrin, dýravinina og náttúrunar.

Vandvirkur Ingi

Manstu hve Ingi var vandvirkur og miðlaði til ástvina sinna að velvirkni væri dyggð. Snyrtimenni. Hann vildi engar lélegar reddingar, heldur að verkin væru almennilega unnin og allt gert vel. Og af því Ingi var næmur á tækni og möguleika var leitað til hans til að klára mál og redda. Hann setti upp hitamæla því hann vildi vita hver hitinn væri úti. Hann smellti upp loftnetum þar sem hann var því hann vildi að heyrðist í útvarpinu. Vinir hans í hljóðheiminum voru ráðhollir og hann miðlaði síðan þekkingunni þar sem hann fór. Og auðvitað kom hann allri blokkinni í samband og sá til þess að allir sem vildu gætu séð Kanasjónvarpið. Ingi staðnaði ekki, heldur var opinn þó hann eltist. Hann vildi fá að vita og skilja hvernig Internetið virkaði og var óhræddur við tölvuvæðinguna.

Stórfjölskyldan

Svo var fjölskyldumaðurinn Ingi. Þau Lilja voru skemmtileg hjón og mér þótti kraftmikil gleði einkenna þau sem par. Þau ræktuðu vel sitt fólk. Þegar barnabörnin komu í heiminn voru þau natin í ömmu- og afahlutverkunum og Ingi vílaði ekki fyrir sér bleyjuskiptin og tókst á við að passa einn. Allt fór honum þetta vel úr hendi eins og annað sem hann gerði. Hann vakti yfir velferð fólksins síns, tók sér til hjarta ef eitthvað fór úrskeiðis og gladdist yfir áföngum, sigrum og gleðimálum. Þau Ingi voru dugleg að fara með sitt fólk í ferðir og bústaði eins og sálmaskráin sýnir. Ömmubörnin muna dekrið, ferðirnar, natnina, fjölbreytileikann og hve amma og afi elskuðu þau mikið. Ingi var stoltur af sínu fólki og vildi allt þeim besta í lífinu. Stóð alltaf með þeim. Og svo má minna á að Ingi varð æ betri kokkur eftir því sem hann eltist. Í því þjónaði hann sínu fólki og ekki síst konu sinni þegar þörf var á.

Nú kveðjum við Inga. Hann er farinn inn í ljós eilífðar. Þið hafið tekið myndir fyrir minningarnar. Og við megum sjá Inga og Lilju í ljósheimi gleðinnar. Ingi má alveg glotta og skjóta fram kímniorðum sínum. Og ég held að hann fái alveg örugglega góðan prentara fyrir margvíddarprent. Lof sé Inga, Guð geymi hann og blessi ykkur ástvini í hinu mikilvæga lífsverkefni að lifa vel. Í því er Ingi okkur öllum fyrirmynd.

Amen.

Kistulagning og útför 24. september, 2021. Neskirkja. Bálför. Erfið á Torgi Neskirkju.

+ Lilja Helga Gunnarsdóttir +

Það var svo gaman þegar Lilja kom. Hún var glaðlynd, jákvæð og hrífandi. Og stutt stund leið þar til hún var orðin miðja fagnaðarins. Hún laðaði að sér fólk, var fultrúi hins bjarta og góða í lífinu. Og því var svo heillandi að fylgjast með henni í hópi fólks, hve auðveldlega og eðlilega hún var aflvaki kátínu og gleðigjafi. Kristindómur er átrúnaður fagnaðarerindis, gleðifréttarinnar stærstu, að lífið er sterkari en dauðinn. Skarparinn hefur skipulegt veröldina svo að lífið er til að njóta, hafa gaman. Lilja var fólkinu sem hún kynntist, vinkonum sínum og ástvinum fulltrúi þeirrar lífsafstöðu. Hún var fulltrúi hins besta og hafði ríkuleg áhrif á fólk. Hún var elskuð. Og nú kveðjum við. Við minnumst hennar og þökkum fyrir samskiptin. Og við megum gjarnan íhuga hvað það var sem hafði mest áhrif á okkur. Hvað það var sem var minnistæðast í lífi hennar? Við tímaskil megum við þakka og blessa brottför hennar. Nú er hún komin á einhvern Ísafjörð eilífðar. Það er gott að ímynda sér hana í miðjum stórskara í gleðiríku, himnesku samkvæmi þar sem enginn þarf að hafa áhyggjur af tveggja metra reglunni né heldur fjöldatakmörkum. Þar er Lilja í miðjum hópnum, gleðin hrein og hlátrarnir dillandi.

Ættir og upphaf

Lilja Helga Gunnarsdóttir fæddist á Ísafirði mivikudaginn 3. febrúar 1932. Guðlaug Kvaran, móðir hennar, var af skáldprestaættum. Foreldrar Guðlaugar voru hjónin Lilja Metta Kristín Ólafsdóttir og presturinn Jósef Hjörleifsson Kvaran. Afabróðir Lilju var því rithöfundurinn Einar Hjörleifsson Kvaran og langafi Hjörleifur Einarsson, sem sögufróðir kannast við úr íslenskri menningar- og kirkju-sögu 19. aldar.

Faðir Lilju var Gunnar Andrew. Hann fæddist á Þingeyri og var af kjarnmiklum, vestfirskum ættum. Foreldrar hans voru Helga Samsonardóttir og Jóhannes Ólafsson, alþingismaður. Gunnar starfaði við fræðslu- og stjórnunar-störf á Ísafirði og hann var m.a. forstöðumaður sjúkrahússins. Gunnar byggði upp skátastarf á Ísafirði, sem enn er í minnum haft vestra. Gunnar var kraftmikill leiðtogi og efldi hina ungu kynslóð Ísfirðinga til afreka í lífinu.  

Guðlaug og Gunnar eignuðust fimm börn. Lilja var yngst og hún var eina systirin í hópnum. Bræður Lilju voru Bolli, Jósef, Kári og Kjartan. Bolli fæddist við lok fyrri heimstyrkjaldar, árið 1918, og svo fæddust hinir bræðurnir næstu sex árin. Síðan varð hlé eða nær átta ár, en þá kom Liljan í heiminn og var fagnað. Það þarf ekki mikið hugarflug til gera sér grein fyrir að hún naut athygli og elsku, eina stúlkan í hópnum. Bræður og foreldrar voru öflug skjólvörn hennar. En hún þurfti líka að hafa fyrir til að heyrast og sjást í kraftmiklum og kátum hópi. Það efldi félagsgetu hennar og stælti eða jók hæfni hennar sem við nutum síðar. Lilja var alla tíð náin bræðrum sínum og var annt um velferð þeirra og fjölskyldna þeirra. Þá var hún vel tengd foreldrum sínum. Bræður Lilju eru allir látnir og nú er systkinahópurinn allur farinn í sólarkaffið efra.

Lilja ólst upp á Ísafirði fyrstu æviárin og sótti þar skóla. Foreldrar Lilju skildu þegar hún var að komast á unglingsárin. Lilja og Guðlaug, mamman, fluttu þá frá Ísafirði árið 1944 og fóru suður. Mægðurnar bjuggu síðan saman. Fyrst var Guðlaug húsmóðirin en eftir að Lilja byrjaði að búa með Inga sínum, var Guðlaug áfram á heimilinu og svo varð hún amman. Þrjár kynslóðir bjuggu saman. Fyrst eftir suðurferð bjuggu þær mæðgur í Hafnarfirði en síðar í Reykjavík og héldu þar heimili alla tíð síðan.

Vinnan utan heimilis

Lilja var félagslynd og glaðsinna og var því eftirsótt í störf, sem kröfðust félagsgreindar og samskiptahæfni. Lilja hóf ung störf í Reykjavíkurapóteki og vann þar við afgreiðslustörf í nærtvo áratugi. Þá fór hún til starfa í lyfjaheildversluninni Hermes hjá Kjartani, bróður hennar. Hún hafði ekki aðeins samband við apótekara þjóðarinnar símleiðis, heldur fór líka í söluferðir um landið til að koma apótekavörum til smásalanna. Hún þótti öflugur og skemmtilegur sölumaður og gerði góðar ferðir. Svo var það móttakan á Hótel Sögu. Lilja tók þar á móti landsmönnum með bros á vör og átti góð orð fyrir alla. Fyrstu áhrifin á hóteli skipta miklu máli. Og af því Lilja var góð í tungumálum sjarmeraði hún líka erlendu ferðamennina. Þegar hún hafði þjónað landsmönnum og ferðamönnum heimsins á Sögu færði hún sig um set og vann í Búnaðarbankanum. Alls staðar eignaðist Lilja vinkonur og vini. Hún hafði áhuga á fólki, lagði sig fram um að gera vinnustaðina sína ánægjulega og naut því elsku og virðingar.

Ingi, heimilið og ríkidæmið í fólkinu

Svo var það Ingimundur Magnússon. Ingi sá hana fyrst á götu í Hafnarfirði þegar hún var unglingur. Hann man enn hvernig kápan hennar var og að hægt var að snúa henni við og þá var komin ný flík. Síðar sagði Ingi Lilju frá þessari sýn, sem greiptist í huga hans. Ingi hafði sem sé frá bernsku gott auga fyrir fegurðinni og gæðunum. Svo hittust þau í Hveradölum næst þar sem unga fólkið safnaðist saman til að hafa gaman og flest fóru eitthvað upp í brekkurnar. Ingi mundi eftir kápustúlkunni úr Hafnarfirði og hún gerði sér grein fyrir hve flottur hann var. Þau Lilja náðu saman og gengu síðan saman æfiveginn. Hún 17 og hann 18. Svo fékk Ingi forsetaleyfið að hann mætti ganga í hjónaband bráðungur. Þau sögðu já í kirkjunni í októberlok árið 1951. Hún var drottingin í lífi hans og hann kóngurinn. Gott líf og litríkt.

Synir þeirra Lilju eru Magnús, Gunnar og Bolli Þór.

Magnús er framhaldsskólakennari. Kona hans er Brynhildur Ingvarsdóttir, augnlæknir. Sonur Magnúsar er Ingi Fjalar og kona hans er Sólveig Ólafsdóttir. Börn þeirra eru Þór Fjalar, Magnús Fjalar og Katrín Helga. Jóhanna Katrín Magnúsdóttir er gift Finni Vilhjálmssyni. Þau eiga börnin Öldu, Ægi og ónefnda dóttur. Svo eru Lilja Ósk Magnúsdóttir og Gunnar Ingi Magnússon. Unnusta hans er Eva Harðardóttir.

Annar sonur Lilju og Inga, Gunnar, er framkvæmdastjóri. Kona hans er Hrund Sch. Thorsteinsson, hjúkrunarfræðingur. Börn Gunnars eru Davíð, Jakob, Soffía og Magnús. Kona Davíðs er Nína Björg Arnbjörnsdóttir. Börn þeirra eru Soffía Hrund og Gunnar Óli. Börn Nínu eru Kjartan Páll og Kolbrún Dís. Unnusti Soffíu er Jón Dagur Þorsteinsson og Glódís Ylja Hilmarsdóttir er unnusta Magnúsar.

Bolli Þór Bollason er svo þriðji strákurinn og elstur. Hann kom ungur til Guðlaugar ömmu sinnar og Lilju þegar blóðforeldrar hans skildu. Faðir Bolla var bróðir Lilju og þeim mægðum rann blóðið til skyldunnar og hann varð eiginlega sonur þeirra beggja og gat þar með ráðið sjálfur til hvorrar hann leitaði. Það var því talsverð forréttindastaða, að njóta styrkleika tveggja kvenna sem voru báðar miklar fyrir sér. Svo þegar Ingi kom á heimilið varð hann stjúpi Bolla. Bolli Þór var ráðuneytisstjóri. Kona hans er Hrefna Sigurðardóttir viðskiptafræðingur. Börn Bolla eru Ólöf og maki hennar Guðmundur Pálsson. Þau eiga Pál, sem giftur er Margréti Ósk Hildar Hallgrímsdóttur. Sonur  þeirra er Guðmundur Alex. Anna Þórunn er gift Jósef K. Jósefssyni og þau eiga synina Daníel Loga og Arnór Breka. Þá er Guðmundur Ingi og Lárusog unnusta hans er Aþena Eir Jónsdóttir Elizondo og þau eiga óskírða dóttur. Svo er það Lilja Guðlaug, sem fékk nöfn mæðranna beggja. Sonur hennar er Jóhann Arnar Sigurþórsson. Unnusta hans er Ástrós Eiðsdóttir og á dóttirina Katrínu. Þá er Lárus og kona hans er Lára Björg Björnsdóttir. Dóttir þeirra er Halla María. Þórunn er gift SigurgeiriGuðlaugssyni og þau eiga synina Aron Fannar, Ísak Andra og Guðlaug Breka. Stjúpdóttir Bolla er Jóhanna Guðmundsdóttir. Hennar maður er Mohsen Rezakahn Khajeh. Börn þeirra eru Bolli Þór og unnusta hans er Heiðveig R. Madsen. Síðan eru Lárus og Anna Birna. Dóttir Jóhönnu er Halla Guðrún Richter og hún á börnin Jóhönnu, Jakob og Önnu Lilju. Dætur Hrefnu eru Karen Þóra og Hanna Christel Sigurkarlsdætur.

Þetta er mikill ættbogi sem Lilja fylgdist með. Hún hafði áhuga á fólki, fagnaði auðlegðinni í fólki og opnaði heimili sitt og hjarta fyrir öllum sem hún mátti og gat sinnt. Mörg þessara, sem hér hafa verið nefnd voru svo lánsöm að fá að gista hjá Lilju og Inga eða fara í sumarbústaði með þeim eða í ferðir um landið. Í Lilju var alltaf einhver lífsplús sem hún var tilbúin að deila með öðrum og leyfa öðrum að njóta. Undur lífsins. Fyrir hönd alls þessa fólk er þakkað í dag.

Svo eru þau sem beðið hafa fyrir kveðjur til ykkar. Fólkið hans Bolla sem býr í Danmörkukemst ekki til útfararinnar vegna ferðaskerðinga. Lilja Guðlaug og sonur hennar, Jóhann Arnar, og Jóhanna og fjölskylda biðja fyrir kveðjur. Þá biðja einnig fyrir kveðjur Soffía í Danmörk og Ingi Fjalar í Noregi, en þau komast ekki heldur af sömu ástæðum. Elín Kristjánsdóttir, æskuvinkona Lilju, biður fyrir saknaðarkveðju.

Minningarnar

KONICA MINOLTA DIGITAL CAMERA

Að kveðja vini sína og ástvini er mikilvægt, þakka fyrir tímann, hlátrana, hlýjuna, ferðalögin, gleðiefnin og allt þetta ríkulega, sem Lilja gaf vinum og fólkinu sínu. Hvernig manstu hana? Manstu eftir pólitískum áhuga ömmu krata? Manstu, að Ísafjörður var nánast himanríki á jörðu og þau voru eðalborin sem þaðan komu – eða fengu syndakvittun út á upphafið? Manstu félagsgetu Lilju, verkin hennar, matin sem hún bjó til og kökurnar sem hún gladdi með? Manstu hve ræktarsöm hún var? Manstu að hún gat verið föst fyrir í uppeldinu? Það muna strákarnir alla vega! Manstu hve fagurlega hún bjó heimili sitt? Og manstu kannski líka, að þegar hún var á Kaplaskjólsveginum hrópaði hún á strákana sína út á völl? Það var nú þægilegt fyrir hana en kannski þótti þeim síðra að fá svona beinskeitt kall úr eldhúsinu heima og út á og yfir KR-svæðið. Manstu menntunaráhersluna hennar Lilju og flestir ættu að fara vesturbæjarleiðina, Melaskóla, Hagaskóla, MR og HÍ? Aðrar leiðir voru síðri að hennar áliti. Manstu handverkskonuna Lilju og hve dugmikil hún var og gaf mörgum fallegar peysur og prjónles? Og svo var hún á ferðinni og allt til hinstu stundar var hún dugmikil og snögg í hreyfingum. Sagði Lilja þér einhvern tíma sögur, sem hún spann og dramatíseraði þau ósköp, að sögurnar urðu upphafin ævitýri? Lilja gat spunnið. Hún átti til skálda að telja. Manstu hve Lilju var létt að halda uppi vörnum fyrir sitt fólk? Manstu umhyggju hennar? Hvað þótti þér skemmtilegast við Lilju? Hvað sagði hún sem lifir í þér? Hvað hefur þú lært af henni eða getur dregið lærdóm af til að efla þitt eigið líf?

Mörk tímans – tilgangur á göngu lífsins

Það var svo gaman þegar Lilja kom. Nú kemur hún ekki framar í Neskirkju og ekki í þitt hús. Nú lifir hún í minningu þinni. Amma krati fer ekki framar með þér á pólitískan fund. Hún fær sé enga fingurbjörg framar hjá þér. Hún hringir ekki. Hún drífur ekki stóran hóp af vinkonum sínum í ferð til útlanda. Hún setur ekki framar upp andlitið eða spyr um ástalíf þitt. Hún kemur ekki framar og býður barnafólkinu pössun eða kemur með súkkulaðiköku Lilju í afmælin. Hún er farin. Svo verður hún jarðsett síðar í Sóllandinu nær. Lilja var trúuð og hún hafði unnið úr gæðum og áföllum lífsins. Hún gekk ljóssins megin í lífinu og þjónaði fólki. Og svo túlkaði hún líf sitt og sinna með jákvæðum hætti. Um dagana sendi hún frá sér margar minningargreinar. Fyrsta lína í einni þeirra er þessi: „Hvert er hlutverk okkar og tilgangur á göngu lífsins.“ Það eru meginspurningar, sem læðast að okkur þegar við elskum og kveðjum. Og svarið er: Að vera lífsins megin, þjóna gleðinni og trúa að lífið lifir. Lilja sagði við æfilok: „Nú fer ég bráðum til ömmu Guðlaugar.“ Og nú er hún farin inn í Sólland eilífðar.

Guð geymi Lilju og Guð styrki Inga, Magnús, Gunnar, Bolla og ykkur ástvini og vini.

Kistulagning, útför og erfidrykkja í Neskirkju og safnaðarheimili kirkjunnar miðvikudaginn 27. maí. Bálför og jarðsett í Sóllandi. 

KONICA MINOLTA DIGITAL CAMERA