Kvíði, ótti og uggur

Ég varð einu sinni vitni að vopnuðu ráni í sjoppu í borginni Nashville í Bandaríkjunum. Ég hafði farið á föstudagskvöldi til að kaupa nauðþurftir fyrir sambýlinga mína. Þegar grímuklæddur byssumaður hentist inn um sjoppudyrnar var ég eini viðskiptavinurinn í búðinni. Allt gerðist ofurhratt. Ég átti bágt með að trúa eigin augum og eyrum. Ránsmaðurinn var æstur og augnaráðið tryllingslegt. Hendur hans titruðu og skjálfandi byssan voru tákn þess að maðurinn væri til alls líklegur. Afgreiðslumaðurinn tók fyrir hjartað og staulaðist að peningakassanum. Hann gerði sig líklegan að afhenda grænt dollarabúnt. Allt í einu beindi ræninginn byssunni að mér. Mér fannst hlaupið svo stórt að það minnti helst á haglabyssuhlaup. Svo heyrði ég hann öskra: „Leggstu á gólfið með andlitið niður.” Ég lyppaðist niður. Það var mun verra að geta ekki séð neitt eða fylgst með með framvindunni. Ég vissi ekki, hvort maðurinn væri líklegur til að lóga okkur afgreiðslumanninum eða hvort þetta væri bara venjulegur þjófur sem vildi valda sem minnstum usla en ná sem mestu fé. Af því ég sá ekkert bjóst ég við hinu versta. Ég fékk sting í aftanverðan hálsinn og hnakka eins og kúla færi brátt í gegnum höfuð mitt. Ræninginn fékk féð og hljóp út. Ég staulaðist á fætur og fór að stumra yfir afgreiðslumanninum sem var enn með sáran verk í hjarta og ofsahræddur. Þá sá ég að hann hafði verið með skammbyssu í afgreiðsluborðinu og skildi að hann hafði verið í spennu hvort hann ætti að grípa hana og skjóta. Ránið settist að í mér og þegar ég minnist þess finn ég enn fyrir verknum í hnakkanum og óttanum.

Hví hræddir?

Texti dagsins er í áttunda kafla Mattheusarguðspjalls. Jesús og hópur hans hafði lokið verkum og þeir höfðu lagt í hann. Í stað þess að ganga fóru þeir í bát. Jesús var óttalaus og sofnaði. Veðrið snarversnaði og rokið skóflaði upp öldum. Lærisveinarnir ýttu við meistara sínum og báru upp erindið: „Herra, bjarga þú, við förumst.” Jesús spurði: „Hví eruð þið hræddir, þið trúlitlir?” Hann hastaði síðan á veður og vatn og þeir náðu áttum og landi og undruðust. Báturinn er tákn um stærri veruleika, hluti fyrir heild, hvort sem það varðar friðarmál, umhverfismál eða menningarmál. Við erum öll á sama báti hvort sem við erum söfnuður á Íslandi, vinahópur á Genesaretvatni, þjóð, mannkyn eða jarðakúlan. Við eigum samleið og eigum allt undir að báturinn farist ekki í einhverju stormviðrinu. Það skiptir síðan öllu máli hver er í bátnum og hver bjargar.

Samfélag óttans

Condoleezza Rice sem var utanríkisráðherra Bandaríkjanna notaði gjarnan orðasambandið „samfélag óttans“ fear society til aðgreiningar frá því samfélagi sem væri í jafnvægi. Ótti hefur um aldir læðst um og spillt heilbrigði þjóðfélaga og þar með menningar. Frá tíma Hermanns Göring í þriðja ríkinu hafa margir og meðvitað alið á ótta. Í samfélögum samtímans reyna hópar að magna spennu og tortryggni sem seytlar síðan um æðar menningar og samfélaga. Í öllum átakamálum samtímans eru óttavaldar á fullu. Óttamenning er þeirra kjörlendi.

Í máli okkar eru til fjölmörg orð yfir það sem er ógnvænlegt og vekur með okkur sterkar tilfinningar: Kvíði, ótti, hræðsla, beygur, uggur, angist og skelfing. Til skilningsauka getum við flokkað hræðsluheitin í þrjá flokka. Í fyrsta lagi eru þau orð sem vísa til þess sem er hið innra í okkur. Flokkur númer tvo varðar hræðsluefni hið ytra og eru fyrir utan okkur. Þriðji flokkurinn er síðan það sem er handan hins þekkta heims og lífs. Ég nota orðið hræðsla um allar víddirnar en síðan eru einstök hugtök, sem eiga betur við einstaka flokka en aðra. Hræðslu hið innra kalla ég kvíða en hræðslu við eitthvað hið ytra kalla ég ótta. Þriðji flokkurinn er sérstakur og varðar það sem ég kalla ugg eða lífsangist.

Kvíðinn

Hræðsla hið innra er kvíði gagnvart einhverju sem við ímyndum okkur, einhverju sem ekki er en gæti orðið, einhverju sem er ekki nálægt eða yfirvofandi en veldur samt hræðslu. Flughræðsla er dæmi um kvíðaefni. Staðreyndin er sú að það er hættulegra að keyra út á flugvöll en ferðast með flugvél. Þetta vita flestir en samt eru margir hræddir. Aðrir eru kvíðnir vegna veikinda eins og krabbameins þó ekkert bendi til slíks. Áætlað er að nærri sjö prósent fólks sé haldið kvíða þ.e. yfir tuttugu þúsund Íslendingar. Enginn smáfjöldi! Kvíðaefni geta orðið svo ógurleg í lífi einstaklinga að þeir verða sjúkir og líf viðkomandi undirlagt og brenglað með ýmsu móti.

Óttinn

Svo er hræðslan sem beinist að ákveðnum atriðum. Það er óttinn gagnvart beinum ógnum t.d ofbeldismanni sem beinir ofsa sínum að þér. Byssumaður í búð er hræðilegu ógnvaldur. Það er líka raunverulegt óttaefni að vera í sama rými og stórt og svangt rándýr. Óttinn á sér rætur í reynslu sem er miðlað í menningu eða sem einstaklingurinn hefur orðið fyrir. Ef tilefni óttans er ógurlegt og yfirvofandi getur fólk fyllst skelfingu. Ef maður er á efstu hæð háhýsis sem er alelda hið neðra, engar flóttaleiðir mögulegar og engar þyrlur nærri verður fólk hrætt. Þau sem voru á efstu hæðum tvíburaturnanna í New York eftir að flugvélarnar flugu á þá voru í þeirri stöðu. Ef maður keyrir í hálku og stór strætisvagn kemur skautandi stjórnlaus beint á móti manni, engar bremsur virka og áreksturinn virðist yfirvofandi er ekkert einkennilegt að skelfingin verði alger. 

Flokkun reynslu

Bátsverjarnir voru hræddir. Kannski var einhver þeirra kvíðinn svona almennt talað. En ástandið var þó meira en kvíðvænlegt. Þeir voru fullir ótta við óveður sem var svo rosalegt að vanir sjómenn töldu að lífi væri raunverulega ógnað. Því vöktu þeir Jesú og leituðu aðstoðar. Hann spurði: „Við hvað eruð þið hræddir” og bætir við „þér trúlitlir?” Hver eru þá tengsl trúar og hræðslu? Það var ekki kvíði sem ég upplifði í búðarráninu heldur ótti við klikkaðan ránsmann. Ef mér hefði ekki lánast að vinna úr reynslunni hefði ég getað orðið kvíðinn og haldið að ég lenti í ráni í sjoppum heimsins í hvert sinn sem ég færi í slíka. Það sem varð mér drýgsta umhugsunarefnið í kjölfar þessarar reynslu var hversu lífið er brothætt og hve lítið þarf til að manneskjan drukkni í öldugangi daganna og lífið hverfi. Gagnvart háska vakna oft spurningar um hinstu rök. Það eru trúarlegu spurningarnar. Líf okkar gefur tilefni fyrir úrvinnslu. Það er trúarglíman. Ef við náum ekki að þroska með okkur trú geta hræðsluefni valdið skemmdum t.d. í mynd kvíða og alvarlegri andlegum sjúkleika.

Uggur og angist

Kvíði og ótti eru ekki trúarleg fyrirbæri en geta orðið tilefni til trúarlegrar glímu og hafa ýmsar trúarlegar skírskotanir. En ein tegund hræðslu varðar trú. Hún er handan þess sem við köllum kvíða og ótta. Þá á ég við það sem stundum hefur verið nefnt uggur eða angst í erlendum bókum og danski heimspekingurinn Sören Kierkegård notaði til að nefna það sem er djúprættara en venjulegur ótti við eitthvað. Þessa vídd hræðslunnar getum við líka kallað lífsangist. Í ritum Kierkegård og síðan ýmissa tilvistarspekinga á tuttugustu öld merkir angst allt annað en kvíða eða ótta við veraldarfyrirbæri eins og dýr, hættulegar aðstæður eða fólk. Kierkegård lagði áherslu á að menn væru frjálsir en gagnvart Guði mistækist þeim. Menn væru því fullir af ugg sem er staða hins seka gagnvart hinu guðlega. Uggur er líka hræðsla gagnvart djúpum sjálfsins og tilverunnar, hræðsla gagnvart innræti og merkingu heimsins, dýptum okkar sjálfra og líka myrkrinu. Uggur er hræðsla við hið óþekkta og hræðilega í okkur sjálfum og heiminum, því sem er handan við veruleikann eins og við sjáum hann og þreifum á. 

Lífsangist

Kvíða- og ótta-efni er hægt að sefa án hjálpar trúarinnar. En lífsháski og ótti rífur hins vegar falskt öryggi og opinberar sálarnekt okkar. Að okkur læðist í kjölfarið lífsangist, þessi grunur um að líf okkar sé ekki fyllilega rétt og ekki fullsátt eða fagurt nema eitthvað meira komi til, eitthvað sem sættir andstæðurnar hið innra, streituþætti veraldar og leysi tilvistargáturnar, geri upp óuppgerð mál og líka höfuðsyndir mannkyns sem engir menn megna að leysa. Dæmi um slíkt eru þjóðarmorð. Menn í þessum heimi eru í báti sem siglir sjó lífsbaráttu. Við reynum að túlka reynslu okkar. Þegar verst lætur mögnum við hjátrú, hindurvitni, ofstopa eða hatur á grundvelli hræðslu. Þegar vel fer lærum við af aðstæðum, horfumst í augu við hræðsluna og verðum skynug og vitur. Það er mannlegt að hræðast. En það er hollt að gera sér grein fyrir hvað eru kvíðaefni, hvað óttaefni og hvað uggur um inntak tilverunnar, okkur sjálf og Guð. Að lifa er oft háskalegt en það er hræðilegt að sjá bara bylgjurnar og taka ekki eftir honum sem er í bátnum með okkur og getur bjargað. Við þurfum að viðurkenna hræðsluefni okkar en líka læra að sjá það sem gerir upp angistina. Trúmenn hafa engin fyrirheit um að sleppa betur en hin trúlitlu. Það sem gerir gæfumuninn er að eiga þann að í bátnum sem hjálpar í óveðrinu. Við megum rífa í hann þegar allt virðist vera að sökkva. Þá tikkar trúin inn og hjálpar í glímunni við kvíða, óttaefni og líka angist hinnar meiri. Þeir sem eru einir á báti eru trúlitlir og sjá oft tilveruna bara í mynd óveðurs og ógna leggja því sitt til samfélags óttans. Þau eiga ekki neina algilda vörn gegn vonsku og hættum. Byssuhlaupin verða slíkum að skelfingarmálum sem kalla á ofbeldisviðbrögð og ofsa. En þegar menn gera sér grein fyrir að kvíðaefni og önnur fár heimsins eru gárur sem hægt er að hasta á með hjálp skapara himins og jarðar verður auðveldara að glíma við kvíðann, líka óttann sem og lífsangistina. Trú verður ekki til á grundvelli hræðslunnar. En hræðslan verður stundum tilefni þess að menn fara að leita til trúar og síðan til hans sem er viðfang og höfundur trúarinnar. Þegar menn eru í þeim sporum þá vaknar hann. Þá fá menn tækifæri til að upplifa að kvíðinn getur sefast, óttinn líka og uggurinn dvínar.

Fjórði sunnudagur eftir þrettánda. Jes. 40.25-31. Rm. 13.8-10. Matt. 8.23-27.

Meðfylgjandi mynd eftir Shepard Fairey, We the people are greater than fear frá árinu 2017.

Lifandi vatn

Hér að neðan er styttur fyrirlestur minn um vatn, vatnssókn kvenna í heiminum og samversku konuna sem Jesús talaði við. Lesturinn birtist einnig sem grein í 51. hefti Ritraðar Guðfræðistofnunar og hægt er að nálgast greinina að baki þessari smellu

Lifandi vatn

Vatn er þungi kvenna veraldar. Konur og stúlkubörn sækja vatn í 80% tilvika á hinum fátækari svæðum heims þar sem brunnar eru ekki nærri híbýlum fólks.[1] Yfir tveir milljarðar manna hafa ekki aðgang að vatnsveitu í húsum sínum og njóta þar með ekki góðrar hreinlætisaðstöðu. Um aldir og um allan heim hefur verið hlutverk kvenna að afla vatns. Því fjær sem vatnsból hafa verið frá heimilunum, þeim mun lengri tími hefur farið í vatnsburðinn. Tímafrek vatnssókn hefur verið á kostnað skólagöngu. Góðir brunnar eru vinir kvenna og forsenda þess að þær geti menntast. En þegar vatnið þrýtur eru þær oftast teknar úr skóla til að bera vatn. Vatnssókn er erfið, oft heilsuspillandi og afar tímafrek. Á hverjum degi nota konur heims um tvö hundruð milljón klukkutíma til að bera vatn heim fyrir sig og sína. Þann tíma vildu flestar þeirra fremur nýta með börnum, á heimilum, til gleðimála og menntunar.[2] Vatns­streita heimsins bitnar á konum. Vatnsbætur eru í þágu kvenna og lífsgæða fólks.

Konan og vatnssamtalið

Biblíukonur sóttu vatn. Sagan um samversku konuna við Jakobsbrunn sem Jesús Kristur talaði við er ein af ástsælustu sögum Biblíunnar. Sagt er frá fundinum og samtali þeirra í fjórða kafla Jóhannesarguðspjalls. Jesús var á ferð og var þyrstur. Hann ávarpaði konuna og bað um vatn. Af hverju náði hann ekki í það sjálfur? Samtalið varð kostulegt. Guðspjallshöfundurinn hafði greinilega gaman af að segja söguna og rita, því að hún er á mörgum plönum, þvers og kruss og upp og niður. Konan og Jesús töluðu í kross. Einföld beiðni þyrsts manns varð mikið drama, sem endaði með því að konan rauk öskrandi inn í nærliggjandi þorp. Í sögunni um Jesú og konuna flæðir yfir allar brúnir. Það er ofgnóttin í frásögunni sem er áhrifarík. Í sögunni er merkingarplús.

Kona utan hrings?

Hvað merkir þessi frásaga um konuna og Jesú við brunninn? Kirkjufeðurnir töldu að konan hefði verið vafasöm kvenpersóna. Ástalíf hennar hefði verið ansi skrautlegt því að hún hafði átt marga menn. Strax þegar safaríkar sögur eru sagðar fer ímyndun tilheyrenda af stað. Var konan daðurdrós á karlaveiðum? Hún sótti ekki vatn á sama tíma og hinar konurnar sem notuðu kælu morguns eða kvölds til vatnsburðarins. Af hverju? Varð hún að fara á öðrum tímum en hinar siðsömu? Vildu þær ekki leyfa henni að vera í kvennahópnum? Fékk hún ekki að fara með þeim? Eða var skömm hennar svo mikil að sjálf vildi hún ekki vera í samfloti með öllum hinum? Var hún úrhrak samfélagsins? Var henni hafnað af því hún var brotleg kynferðislega og hafði lent utan við ramma þess vegna? Það eru þessi stef eða þættir sem höfundar og prédikarar aldanna hafa einkum staldrað við, útmálað og skrifað um með mörgum orðum og litríkum hætti.

Samkvæmt forsendum hins gyðinglega samfélags var konan talin útlensk. Hún var samversk. Hún átti ekki aðild að hinum viðurkennda hópi innvígðra og réttborinna Gyð­inga. Hún var því sniðgengin af öllum rétttrúuðum og rétthugsandi — nema af Jesú. Hann hlýddi ekki alltaf reglunum og oft, jafnvel óþægilega oft, gerði hann ýmislegt sem var öðruvísi en fólk átti von á og óskrifaðar reglur sögðu að væri rétt hegðun. Hann vann með fordóma í orðum og hegðun. Svo var þessi kona búin að eiga fimm eigin­menn og var með sjötta karlinum. Það er flóð í ástarsögum konunnar, nánast efni í heila sápuþáttaröð. Biblíulesendur aldanna hafa undrast og furðað sig á ístöðu­leysi hennar og reynt að finna hliðstæður í dramatískum konum eigin samtíðar. Þessi undar­lega kona var teiknuð upp sem „öðruvísi“ og óútreiknanleg, femme fatale. Sam­kvæmt föstum samfélagsviðmiðum var hún neðar í goggunarröðinni, að minnsta kosti í vatnsburðar­röðinni, en hinar konurnar. Það var ekki gæfuleg staða sem hún var í þegar hún kom að brunninum og hitti Jesú sem þekkti allar samfélagsreglur brunnasóknar og vatns­mála þjóðar sinnar og nágranna líka. Hann vissi að kona sem kæmi á þessum tíma að brunninum væri utan við heiminn. Hún væri vondum málum.

Hún saurug en hann hreinn

Beiðni Jesú Krists var einföld: „Gefðu mér að drekka.“ Svo fóru þau að skiptast á orðum og setningum sem ekki tengdust. Þau töluðu þvers og kruss. Þegar Jesús bauð konunni lifandi vatn brást hún við með tæknilegri ábendingu. Hann hefði ekkert til að ausa með. Brunnurinn væri djúpur. Hvaðan fengi hann þetta lifandi vatn? Konan skildi ekki orð og merkingu Jesú, allt þar til þetta með lifandi vatnið skvettist inn í vitund hennar. Hvað átti maðurinn við? Gat verið að þetta væri hann? Hann vissi svo margt. Gæti verið að loksins, loksins væri eitthvað að gerast?

Konan vissi auðvitað að brunnurinn var kenndur við Jakob, sem var erkihetja hebreskrar sögu og hálfguðlegur forfaðir íbúanna í Palestínu. Brunnurinn hafði því mikilvægu táknrænu hlutverki að gegna. Í konunni kviknaði neisti, spratt fram hugsun, spurning, kenning, grunur. Gæti verið að þetta væri framtíðarleiðtoginn sem beðið væri eftir? Messías? En hvað um mig?

Um aldir var þessi biblíutexti túlkaður sem tvennutexti, saga með andstæðum. Jesús var túlkaður sem lausnari. Hann bauð vatn lífsins, hafði öll svör á hreinu, vissi allt um konuna og las hana eins og opna bók. Hann gat allt og olli uppnámi hjá henni, sem var öðruvísi en hinar konurnar, fór á skrítnum tíma að brunninum, á versta tíma og í mesta hita dagsins. Sem sé, þarna voru, samkvæmt túlkun aldanna, hinn mikli og hin aumkunarverðasta. Hann gat fært konunni vatn lífsins en hún honum aðeins skítugt brunnvatn. Þau voru á sitt hvorum enda gilda- og virðingarstigans. Hann á toppnum og hún á botninum. Konan var eins og tæki til að sýna hvað Jesús væri klár. Hún var sorinn en hann sonur Guðs. Er þetta það sem textinn segir okkur? Eða er kannski eitthvað meira í þessum texta en tjáning á að karlar eru toppmenn og konur á botninum? Er eitthvað sem við sjáum ekki og getum kannski ekki séð vegna þess að gleraugu okkar, fordómar, brengla?

Skilningur á textum breytist — túlkun

Klassískir textar hafa löngum verið túlkaðir í samræmi við viðurkenndar skýringar­reglur. Þannig hefur það verið með flesta bókmenntatexta, heimspekitexta og að sjálf­sögðu einnig biblíutexta. Á tímum ólæsis var Biblían ekki á allra færi. Því voru sögur Biblíunnar oft myndgerðar. Fólk hafði í guðshúsunum aðgang að myndum af biblíu­atburðum, biblia pauperum. Í öllum hefðum skapast menning og kenningakerfi sem stýra hvernig eigi að tjá hið mikilvæga, megi túlka og þar með skilja. Túlkunar­lyklarnir stýra og flokka. Biblíutúlkun var með slíku móti og mótaði hvernig ætti að skilja og miðla. Svo komu reglulega fram öflugir greinendur sem bentu á veilur og hvað væri betri skilningur og hvað væri rangt. Marteinn Lúther var einn slíkra rýn­enda Biblíunnar. Hann hafði lagt á sig að læra klassísk mál, las texta Biblíunnar á frummálum og gat því borið saman upprunatextann, þýðingar og túlkanir. Í tilviki Lúthers og fjölda annarra kom í ljós að stöðugt þyrfti að rýna í textana því að forsendur síðari tíma voru gjarnan til hindrunar og leyfðu ekki Biblíu­textunum að hljóma eða skiljast í samræmi við eigin forsendur. Síðari tíma forsendur eru oftast grisjandi fordómar og skilningurinn sem fæst er rangur miðað við forsendur biblíutextanna.

Biblíurannsóknir, eins og aðrar rannsóknir fornra texta, breyttust á tuttugustu öld. Fræðimenn nýttu fornleifarannsóknir, bætta þekkingu á menningu, náttúru, trúar­brögðum og pólitík Rómaveldis og þjóðanna sem þeir drottnuðu yfir. Þar með breyttust hugmyndir þeirra um merkingu margra biblíutexta og stundum opnuðust þeir. Með textatúlkun síðustu ára hefur m.a. verið hægt að greina hvernig fólk hefur lesið og skilið textana með mismunandi móti á mismunandi tímum. Viðbrögð almennra lesara og viðbrögð þeirrahafa fengið gildi í nútímatextafræði. Hlutverk biblíufræðanna er ekki aðeins það að kreista fram einhverjar staðreyndir og óumbreytanleg algildi eða stórasannleika úr ritum eða af blöðum Biblíunnar. Sandra M. Schneiders skrifaði með þessa þróun í huga: „… frá átjándu öld til miðrar tuttugustu aldar var nálgun og túlkun sögu og texta fyrst og fremst hlut-túlkun (e. object-centered). Lesendur texta voru sjaldnast spurðir. Og ef viðtakendur biblíutextans komu í ljós urðu ritskýrendurnir tortryggnir.“[3] Þá var eins og þeir yrðu hræddir við að biblíufrásögurnar yrðu ekki eins trúverðugar og vera ætti, ekki eins hlutlægar og keppt væri að. Hvernig getur vitni sagt satt? Er tilveran minna trúverðug í frásögn vitnis? Hvað er satt, hvernig og frá hvaða sjónarhóli?

Lifandi fólk, hagsmunir og afstaða

Biblíufræðin hafa safnað þekkingu og skilningi á fjölmörgum menningarkimum Biblíunnar. Á síðari áratugum hafa biblíufræðingar þorað að skoða betur upplifun og túlkun fólksins sem kom við sögu í ritum Biblíunnar, hópum þeirra og hvernig menningarforsendur stýrðu upplifun þeirra og nálgun. Hvaða hagsmunum var þjónað í þessum textum og við ritun þeirra? Hvaða hópar tókust á? Hvaða hug­myndir urðu ofan á og hverjar voru bældar eða strokaðar út? Biblíulestur fræði­manna breyttist. Ekki var lengur reynt að kreista út kjarnann sem væri hið guðlega aðalatriði og gilt fyrir allar aldir, alla menn og alltaf. Nálgunin varð opnari þegar textar Biblíunnar voru skoðaðir sem marglaga, textar sem segja margar sögur, túlka alls konar tilfinningar einstaklinga, fordóma, visku, tengsl, hagsmuni, vonir og hópa sem koma við sögu. Fortíð kemur við sögu hvers texta, sem og samtíð. Framtíðin kyssir þá líka. Í stað einhæfrar túlkunar hafa nútímabiblíufræði opnað fyrir marg­ræðni og ýmsa túlkunar­möguleika. Í Biblíunni eru margar uppsprettur, uppsprettur margra alda. Í henni er sí­rennsli merkingar og líka ástarkossar eilífðar. Einstakir hópar, kirkju­deild­ir og fræði­menn hafa haft skoðanir á því að ákveðin kvísl flóðsins væri hin eina nytsamlega og heilnæma og því hafnað öðrum. Það sem ekki var valið vék í skugg­ann eða hvarf. Biblían hefur líka verið notuð sem vopn í baráttu og því verið túlkuð til að berja á þeim sem hafa farið aðrar leiðir en valdhafar — andlegir eða veraldlegir — hafa boðað og skipað.

Biblían er stór og frá henni flæða margar merkingarkvíslar en þær geta þó tengst á mismunandi tímum og í samræmi við þarfir tímanna. Á einum tíma tók Lúther eftir að Guð Biblíunnar er Guð elsku og gleði. Á öðrum tíma uppgötvuðu vitrir menn í kirkjum Suður-Ameríku að í Biblíunni er mikið talað um réttlæti. Síðar fóru æ fleiri, t.d. kvennaguðfræðingar, að heyra raddir kvenna í þessu mikla safni. Sagan um konuna við Jakobsbrunn hefur verið opnuð og ritskýringarforsendurnar hafa breyst. Konan hafði rödd og Jesús Kristur hlustaði og talaði við hana.

Á tali við konuna við brunninn

Sagan um samtal konunnar og Jesú um vatnið er dæmi um marglaga og margvíðan texta, sem nálgast má með ólíku og margbreytilegu móti. Flestir ritskýrendur aldanna hafa túlkað konuna sem kynlífsveru fremur en manneskju. Hvernig samfélagið skil­greindi ástalíf, stöðu og samskipti kynjanna stýrði nálguninni. Tvíhyggja réð oftast túlkun og Jesús Kristur var fyrst og fremst teiknaður upp sem andlegur snillingur — en konan var túlkuð sem jarðbundin holdgerving lostans. Andstæður túlkunarinnar, tvenndirnar, voru:

andi — fýsnir

lifandi vatn — brunnvatn

karl — kona

yfirstétt — undirstétt

hinn réttborni — útlendingurinn

við — þið

Hvað gerist ef þessir lyklar eru teknir út og geymdir? Hvað gerist ef sagan er skoðuð með nýjum hætti og án þessara túlkunarforsendna og fordóma? Hvað ef konunni er gefinn séns? Getur verið að við heyrum kannski líka í Jesú með nýjum hætti? Verður hann nær okkur en handan við tvö þúsund ára hljóðtjöld fordóma?

Hið eftirtektarverða er að konan reyndi Jesú. Hún lagði próf fyrir hann. Hún hlýddi honum yfir, þorði að spyrja hann lykilspurninga og gaf ekki færi á klisjum og gervi­lausn­um. Hún þorði að hlusta, hrífast og bregðast við. Hún greindi að mál og við­fangs­efni með greind hins skarpa hugar, raðaði síðan saman öllum brotunum og komst að viturlegri niðurstöðu. Hún dró ályktanir út frá forsendum og rökum. Hún þorði að treysta lífsreynslu sinni og gáfum. Hún þorði að hugsa og komst að niður­stöðu um það sem hún sá, heyrði og upplifði. Niðurstaðan var sú að hún skildi Jesú eftir við brunninn og hljóp inn í bæ til að segja fréttir. Hún var kannski ekki í þeirri stöðu í samfélaginu að mega hafa miklar skoðanir eða tjá þær opinberlega. En þegar hún komst að niðurstöðu um stærstu mál lífs síns og samfélags þá var ekki neitt hik. Konan gat ekki þagað um stórmál. Hún hljóp inn í bæ og varð boðberi Jesú og lærisveinn, kona sem þorði jafnvel að fara gegn öllum fordómum, valdaaðilum og hæðni samfélagsins. Þegar hún sagði fáheyrð tíðindi var hlustað.

Tilfærsla — ný staða

Ef sagan um konuna við brunninn er skoðuð með þessum hætti verður boðskapur­inn dramatískur. Útlend kona af lægstu stétt, úrhrak úrhrakanna, naut boðskapar um lífið í heiminum. Hún, sem allir töldu óverðuga, var verðug að heyra, skilja, trúa og síðan bera fram boðskapinn. Hún, en ekki einhver karl, varð postuli Samverja. Læri­sveinn Jesú kom úr hópi kvennanna, hinna lægstu meðal lágra. Konan sem þorði. Hún mótmælti ekki aðeins Jesú, heldur benti honum á staðreyndir brunnmálanna. Hún þorði líka að segja tortryggnu fólki ótrúlega sögu. Hún talaði þar sem hún vildi, brást við, hugsaði og notaði skýra dómgreind.

Sagan um samversku konuna lýsir konu í ómögulegum aðstæðum sem varð að nýrri mannveru, færðist úr því að vera týnd og fávís yfir í að finna og fara síðan áfram með unna sögu, skýra merkingu og boðskap. Þetta var tilfærsla konunnar úr heimi fordóma, fortíðar og lágkúru til konu með hlutverk himins í heimi. Hún er í sögunni rétt við úr lægð og túlkuð sem skilningsríkari og vitrari en flestir aðrir í návist Jesú. Hún var ekki bara þögguð og falin heldur lyft upp sem guðhetju.

Engin gunga!

Áhugavert er að skoða samhengi sögunnar í guðspjallinu. Í kaflanum á undan var sagt frá öðrum fundi Jesú. Yfirstéttarmaður kom til meistarans til að ræða við hann. Hann hét Nikódemus og var innvígður og innmúraður Gyðingur og vildi ræða trú­málin. Hann naut sömu athygli Jesú, nándar og djúpsamtals og konan við Jakobs­brunn. Hann hafði svipuð tækifæri og hún til að greina og tengja. En hann þorði ekki. Hann var gunga sem hætti ekki stöðu sinni og orðspori. Hann fór og hvarf og kom ekki fram að nýju í Jesúsögunni fyrr en hann lagði til gröf fyrir hinn kros­sfesta. Hann var maður grafar og dauða. Afstaða gungunnar Nikódemusar skapar andstöðu við kjark og þor konunnar. Milli hans og hennar er innrím andstæðu. Lærisveinar Jesú voru stundum flónslegir, skildu ekki speki eða meiningu Jesú Krists. Í samanburð­inum við þá var samverska konan fljót að greina hismi frá kjarna. Hún átti ekki í vandræðum með að skilja. Hún var klók og skörp. Þau Jesús töluðu ekki lengi í kross. Það var bara í byrjun. Þau tengdu fljótt og skildu hvort annað.

Trú og ljós

Myndmálið í sögunni um konuna við brunninn er merkilegt. Hún kom um hádegisbil, sem var ekki brunntími kvenna í þorpinu. Þessi hádegisferð segir líklega minna um stund og tíma en um innri getu og trú. Konan kom til að taka við ljósi lífs. Ferðir hennar voru ekki bara hefðbundnar. Hún hafði getu til að fara og sækja í lífsgæði sem aðrir áttuðu sig ekki á, höfðu ekki döngun í sér til að nýta og njóta. Konan hafði getuna til að taka við lífsvatninu en ekki bara gamla, fúla brunnvatninu.[4] Konan ræddi opinskátt við Jesú, hlustaði, bar fram andmæli og benti á staðreyndir. Hún heyrði rök, greindi víddirnar, komst sjálf að merkilegri niðurstöðu og tjáði hana öllum sem vildu heyra. Það varð síðan til þess að allt þorpið hitti Jesú. Samverska konan varð eins og samtímaútgáfa af Móse sem barði í steininn og fram spratt vatn til að gefa hinum þyrstu að drekka. Hún var sem Jóhannes skírari sínu fólki, spámaður, lærisveinn og postuli!

Þegar fordómum er sleppt og ekki reynt að strípa samversku konuna getur saga og texti opnast. Þá kemur í ljós að það er flóð í þessum biblíutexta.[5] Grunur vaknar um að kannski hafi konan alls ekki verið úrhrak. Kannski var hún klár og vissi hvað hún söng og sagði? Kannski var hún jafnvel skarpari en hinir lærisveinarnir, betri guð­fræð­ingur og kunnáttusamari manneskja en flestir, með himin í hjarta? Kannski var hún frjálsari, opnari, styrkari og meiri leiðtogi en aðrir? Er kannski næring í þessu flóði textans sem konan býður okkur? Lifandi vatn hennar og lifandi vatn Jesú?

Vatnið í Jóhannesarguðspjalli

Vatn kemur víða við sögu og er stef í guðspjalli Jóhannesar. Tengja má þessa brunn­sögu og samtalssögu við frásögnina um þorstann í krossfestingunni. Í dauðastríðinu þyrsti Jesú og bað um vatn. Öllu var snúið við og teygt í krossfestingarfrásögunni. Hið mikilvæga og mesta, lifandi vatn, Andi, þarfnaðist hins lága og ónóga, brunnvatns, sem er andhverfa þess sem guðspjallið annars kennir. Frá krossþorstanum er fólki beint til sögunnar um lífsvatnið. Báðar kvíslarnar eða flaumarnir renna saman. Hið andlega þarfnast hins efnislega. Og öfugt líka: Hið efnislega þarfnast hins andlega í lífi fólks í heiminum. Manneskjur lifa ekki af vatninu einu, heldur þarfnast svo margs að auki. En allt það sem er að auki lifir ekki án vatns. Vatn heldur lífi í lífverum. Öll speki heimsins hverfur ef vatnið hverfur. Skilningsljósin slokkna þegar skrúfað er fyrir vatnið. Svo dramatísk eru vatnsmál veraldar.

Vatn og þungi kvenna

Samverska konan fór að brunninum um miðjan dag. Margar konur eru í samtíð okkar á ferð við brunna og lindir á öllum tímum dagsins af því þær hafa ekkert val. Þær eru kven­kyns og í menningu þeirra er það að sækja vatn skilgreint sem kvennaverk. Vand­inn er félagslegur, menningarlegur og kerfislegur. Hafði samverska konan val? Gat hún sagt við sjálfa sig að hún nennti ekki að fara og færi bara seinna? Nei, hún varð að sækja vatn því að annars væri lífi ógnað. Var þessi kona stödd þarna við brunninn til að leita að körlum? Var það ástæðan fyrir tímasetningu vatnssóknar­innar? Nei, það er ólíklegasta skýringin. Að vera ein á ferð á óeðlilegum tíma stofnaði aleinni konu í hættu. Reynsla kvenna af slíkum ferðum var — og er — skelfileg. Á konur sem eru fjarri öðrum er ráðist. Villidýr merkurinnar leita uppi konur einar á ferð en líka villidýr mannheima sem leita uppi þær konur sem eru utanveltu, standa höllum fæti og njóta ekki stuðnings annarra. Á einsömul stúlkubörn er ráðist, unglingsstúlkur og konur sem eru einar á ferð. Þeim hefur verið — og er —  misþyrmt og nauðgað. Í samtímanum höfum við lært að kenna ekki þolendum um ofbeldisverk. Þegar konur ná í vatn hefur það sjaldnast verið til að tæla aðra. En það hefur oft verið ráðist á slíkar konur. Það er ekki þeirra sök. Konur eru í hættu í vatnsleit og í vatnsferðum. Sagan um Jesú og konuna við Jakobsbrunn er mögnuð saga, sem varðar vatnssókn, vit og trú. Lifandi vatn og gott brunnvatn er kröftugur kokteill.

 

[1] „Facts and Figures“, UN Water, ódagsett, sótt 21. september 2020 af https://www.unwater.org/water-facts/gender/.

[2] „UNICEF: Collecting Water Is Often a Colossal Waste of Time for Women and Girls“, UNICEF, 29. ágúst 2016, sótt 21. september 2020 af https://www.unicef.org/media/media_92690.html. Sjá einnig „The Water Crisis“, Water.org, ódagsett, sótt 21. september 2020 af https://water.org/our-impact/water-crisis/.

[3] Sandra M. Schneiders, „The Gospels and the Reader,“ The Cambridge Companion to the Gospels, ritstj. Stephen C. Barton, New York: Cambridge University Press, 2006, bls. 97.

[4] Jerome Neyrev, The Gospel of John: The New Cambridge Bible Commentary, New York: The Cambridge University Press, 2007, bls. 87–88.

[5] Sandra M. Schneiders, Written That You May Believe: Encountering Jesus in the Fourth Gospel, New York: Herder and Herder, 1999, bls. 143–144.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Bertel Thorvaldsen

Hádegisbænir voru í Hallgrímskirkju kl. 12 á Þorláksmessu 2020. Þrátt fyrir að stutt væri til jóla og annir í öllum húsum kom hópur fólks í kirkju. Fjöldinn var þó innan viðmiða sóttvarnalænis og ráðherra. Meðal viðstaddra var Ólafur Egilsson, fyrrum sendiherra. Eftir bænir kom hann til mín brosandi og rétti mér pakka. „Mig langar til að færa þér bók á afmælisdegi þínum“ sagði hann. „Áttu afmæli?“ hljómaði þá frá nokkrum sem stóðu nærri. Ég sá svo að þetta var nýja bókin um Bertel Thorvaldsen. Ég bað Ólaf að skrifa fremst í bókina. Svo áttaði ég mig á að bókin var endurútgáfa og hafði fyrst komið út í lok seinni heimsstyrjaldar. Höfundurinn var Helgi Konráðsson sem ég vissi að hafði verið prestur í Skagafirði því ég hafði þjónað fólkinu hans. Ég vissi líka að ég hafði séð frumútgáfu bókarinnar og mundi að kjölurinn var blár og vandað hafði verið til útgáfunnar.  

Svo fór ég heim með þessa nýju, fallegu bók. Hún beið mín í góðu yfirlæti með hinum jólabókunum. Seinni partinn í janúar fékk ég næði til að lesa og stundum upphátt fyrir konuna mína. Ég heillaðist af kyrrlátri, hófstilltri alúð og aðdáun höfundar á söguhetjunni Bertel Thorvaldsen. Bókin er vel skrifuð og farið í sauma á flestum álitaefnum. Spurningum er svarað um sögu og persónu Thorvaldsens, um íslenskan bakgrunn, ættboga, bernsku, nám, mótun hans sem listamanns og hvernig fátækur verkamannssonur gat brotist til náms og orðið einn helsti listjöfur og menningarstjarna Evrópu 19. aldar. Ég furðaði mig líka á að skagfirskur prestur á fyrri hluta 20. aldar – í miklum önnum prestsstarfs og kennslu – skuli hafa lagst yfir Thorvaldsensfræðin, farið í saumana á álitaefnum og ferðast um heiminn til að skoða staði og staðhætti á slóðum Thorvaldsens, skrifað og komið út þessu mikla ritverki í miðri heimstyrjöld. Ég dáist að afreki Helga og lof sé honum.

Hvernig bók er Bertel Thorvaldsen – ævisaga? Hún rekur bakgrunn og segir sögu Thorvaldsens frá upphafi og til enda. Þetta er engin jarðteinasaga um dýrling sem höfundur dáir án vitundar um breiskleika. Helgi mótar ásýnd Thorvaldsens af alúð listamannsins, nánast meitlar hann í orðastein, segir frá kostum og göllum söguhetjunnar, málar persónueinkennin skýrt, forðast ekki skuggana heldur metur og rýnir eins vel og hann getur og skýrir forsendur sínar. Þetta er ævisaga en það er fræðaleitandi prestur sem greinir. Þetta er þó ekki súper-útfararræða. En Helgi naut þess við skrifin að hafa oft jarðað og skrifað minningarorð um látið fólk. Hann þekkti hvernig hægt væri að gefa í skyn í stað þess að fella ógrundaða dóma um álitamál. Fræðimenn um líkræður presta geta því séð í þessari bók þroskuð og fræðilega vel unnin minningarorð. Bókin er þó ekki skrifuð sem kristileg bók. Forsendurnar eru fremur menningarlegar og þjóðernislegar en kirkjulegar. Bókin er skrifuð á árunum fyrir stofnun lýðveldisins. Hún þjónar m.a. því hlutverki að tengja Thorvaldsen við menningu Íslands, sýna að Ísland gæti lagt til manns sem færi á toppinn í menningu heimsins, sem var mikilvægt þegar fólk var að æfa sig í sjálfstæði þjóðarinnar. Helgi naut þess að vera mótaður prestur sem kunni til fræða og verka og gat að auki lagt menningu Skagfirðinga lið sem og mótun þjóðernisvitundar í aðdraganda lýðveldisstofnunar. Að bókin var af útgefendum skilin sem framlag til sjálfstæðibaráttunnar sést á umslagi eða bókarhlíf 1944-útgáfunnar. Þar segir: Bertel Thorvaldsen mestur listamaður Norðurlanda. Listgáfa hans var af íslenzkum rótum runnin.

Bók Helga um Bertel Thorvaldsen opnaði mér ýmsa heima. Þó ég hafi kynnt mér hugmyndasögu tímans eftir upplýsingu þekkti ég ekki nema fáa í heimi höggmyndalistar Evrópu þess tíma. Mér þótti merkilegt að fylgjast með hvernig listamenn urðu til um og eftir aldamótin 1800, hvernig þeir þjónuðu fólki, hreyfingum og þjóðum á miklum pólitískum, menningarlegum og hernaðarlegum umbrotatímum. Thorvaldsen vann fyrir fólk þvert á ýmsar átakalínur. Á sóttvarnatíma þegar við fórum ekki í utanlandsferðir var skemmtilegt að kynnast ferðaháttum fyrri tíðar og fara allar langferðirnar um Evrópu með Thorvaldsen á sjó og á landi. Þetta voru raunverulegar langferðir og sumar voru margra mánaða ferðir. Fjölskyldumálum Thorvaldsens er lýst, kvennamálum og tengslum. Presturinn greinir varkárni höfundarins, prestsins, við skrifin og skort á dýpri skýringum. Af hverju voru tengsl Thorvaldsens eins og þau voru? Menningarlífið í Róm er skemmtilega uppteiknað og skapandi spennan milli kristni og grískrar hefðar, fagurfræði og speki. Svo kemur goðafræði Norðurlanda við sögu og nafnið Þór – enda maðurinn Thor-valdsen. Þróun hugmynda Thorvaldsens er lýst og hve trú skipti hann æ meira máli eftir því sem hann kynntist fleiri konum og aldur færðist yfir og hann fékk fleiri verkefni fyrir kirkjur. Tilurð og samhengi myndverkanna í Frúarkirkjunni er skýrð. Færni handverksmannsins Thorvaldsens er vel lýst enda maðurinn upprunalega oddhagur smíðasveinn. Við lestur bókarinnar uppgötvaði ég hvernig breytingar urðu á nálgun, hugsun og aðferðum myndhöggvara á tíma Thorvaldsens sem skýrði fyrir mér hvað gerðist síðar og af hverju maður eins og Einar Jónsson spratt fram á Íslandi. Menningarsaga Kaupmannahafnar, þ.e. tímabilsins frá 1770 til 1850, er sögð og Thorvaldsen gegnir þar merkilegu hlutverki. Skírnarfontar Dómkirkjunnar og Akureyrarkirkju koma við sögu og hvernig Miklabæjarkirkja tengist og á tilkall eða pant í fonti Dómkirkjunnar.

Ég sat svo við og las og las. Hin agaða ást Helga Konráðssonar á viðfangsefni sínu heillaði, getan til að skrifa, ótrúlega litríkt viðfangsefni, mikil fræðsla og hve bókin var allt öðru vísi en ég hélt að hún væri. Hún hélt mér við efnið. Ólafur Egilsson og fleiri eiga þakkir skildar fyrir að koma þessari bók út að nýju. Bjarni Harðarson, útgefandi, fyrir metnaðinn, Skagfirðingum og fleirum fyrir að styrkja útgáfu þessa rits um Skagfirðing og skrifaðri af Skagfirðingi. Myndirnar sem bættust við þessa útgáfu eru til bóta og skýringar. Formáli Guðna Th Johannessonar er líflegur og eftirmáli Stefano Grandesso, listfræðings, hinn merkasti og opnar listasöguna fyrir okkur lesendum.

Þegar ég var kominn af stað að lesa sótti æ sterkar að mér að ég þekkti ekki bara kjöl bókarinnar. Ég vissi að ég hafði ekki lesið bókina en þóttist eiga hana. Svo ég fór í bókahvelfinguna í kjallara húss okkar. Og mikið rétt þarna var komin fyrri útgáfan og Lilja Sólveig Kristjánsdóttir og Siguringi Hjörleifsson höfðu átt bókina og frá þeim kom hún til mín. Svo lentu bækurnar saman á stofuborðið, glæsileg stríðsútgáfan frá 1944 og svo þessi fallega bók næstu kynslóðar. Þær kystust, góðar báðar. Takk Ólafur Egilsson. Ég mæli svo sannarlega með æfisögu Helga Konráðssonar um Bertel Gottskálsson Thorvaldsen, Skagfirðing. Vinir mínir geta fengið aðra hvora bókina að láni. 

Umfjöllun Hreins S. Hákonarsonar um bókina er hægt að nálgast að baki þessari smellu

Myndina af Kristsstyttu Thorvaldsens í Frúarkirkjunni tók ég í október 2017.

 

 

 

 

Guði að kenna?

Fjöldi fólks hvarf í svelg skriðunnar í Gjerdrum. Og Norðmenn spyrja. Af hverju? Við Íslendingar spyrjum gagnvart snjóflóðum og aurskriðum vetrarins: Af hverju? Næsta spurning er oft: Höfum við gert eitthvað af okkur? Heimsbyggðin spyr í nærri ársgömlu heimsfári: Af hverju? Voru gerð einhver mistök? 

Stórar spurningar kalla á stór svör. Sum varða mistök manna og rangar ákvarðanir. En svo vakna líka trúarspurningar. Í leikriti Shakespeare um Lér konung er spurt hvort mennirnir séu eins og flugur, sem guðirnir leiki sér að því að deyða. Er Guð valdur að dauðaskriðum? Er Guð að leika sér að því lauma veirum á milli lífkerfa á votmörkuðum í Kína og inn í mannheima til að gera tilraunir með fólk eða kannski bara skemmta sér? Er Guð eins og skapillur risi, harðbrjósta ofurvera sem ekki virðir reglur. Er það sá Guð sem við þekkjum og trúum á? Nei, svo sannarlega ekki.

Af hverju leyfir Guð að þetta komi fyrir? Fólk spyr, þegar áföllin dynja yfir, sjúkdómar æða, slys verða og ástvinir deyja. Glíma við sorg og merkingu þjáningarinnar er sístæð. Á öllum öldum hafa menn reynt að skilja hið óskiljanlega, botna í sorginni og leita trúarlegra raka. Í Biblíunni eru margar Guðsglímurnar vegna þjáningar, t.d. sagt frá hinum guðhrædda Job sem ekki skildi af hverju Guð leyfði að hann þjáðist án tilefnis. Trúarhefðirnar reyna að svara hinum stóru spurningum um illsku og þjáningu.

Einhæfni í guðstúlkun

Var Guð í heimsfaraldri og flóðum? Spurningin varðar Guðsímyndina og þær myndir, sem við notum til að túlka Guð. Ef Guð er í okkar huga sem einræðisherra er ekki einkennilegt að spurningin um Guð í flóðinu vakni. Slík mynd af Guði túlkar gjarnan bókstaflega hugtök um almætti og alvitund Guðs og önnur álíka. Síðan eru einnig oftúlkaðar líkingar af Guði sem heimssmið, konungi, herforingja, heimsarkitekt, tyftara, dómara og stríðsherra. Ef allt er tekið saman og menn varpa síðan yfir á Guð bókstafsskilningi á þessum hlutverkum í heimi manna verður til ímynd af guði sem allt skipuleggur fyrirfram. Guð sem hefur í höndum sér allt til góðs og ills í heimi, guð sem skipuleggur fæðingu og dauða hvers manns. Sem sé, þá vakna allar hinar djúptæku og skelfilegu spurningar um af hverju guð leyfi flóð og heimsfár. Gagnvart slíkum guði er eðlilegt að menn spyrji: Af hverju guð? Og gagnvart þeim guði er eðlilegt að menn segi: “Fyrst þú ert svona vil ég ekki lengur trúa á þig. Þú ert vondur!”

Hin kristna sýn

Jesús breytti öllum forsendum, skipti út bæði stýrikerfi trúarinnar og öllum forritum. Hann breytti hinum gyðinglega boðskap um sértækan guð þjóðar eða kynþáttar sem útvaldi sumt fólk en hafnaði öðrum, valdi fólk til lífs og aðra til slátrunar. Sá Guð, sem Jesús opinberaði í orði og verki var persóna elskunnar, sem var tilbúinn að fórna öllu í þágu ástarinnar. Sá Guð fylgdist með höfuðhári og hamförum en ávallt í ljósi elskunnar. Það er slíkur Jesús sem ég sé í Biblíunni og starfi kristninnar um allan heim og á öllum öldum.

Því fer fjarri að allir sem kenna sig við Krist séu mér sammála. Í kristninni má greina margar túlkunarhefðir. Þær trúarútgáfur eru ekki allar jafnfagrar.[i] Í þeim verstu hefur Guð verið túlkaður sem orsök og samhengi erfiðleika, sjúkdóma, hamfara og dauða. Slíkur guð sprettur fram í hugum þröngt hugsandi manna.

Frelsið

En ef Guð elskar hvað gerir þá Guð? Í kvikmyndinni Bruce Almighty fær söguhetjan innsýn í vanda þess að vera Guð og fær jafnvel að leika hlutverk Guðs. Í ljós kemur að Guð hefur gefið mönnum frelsi til að ákveða og leggur á það þunga áherslu að alls ekki megi skerða það frelsi. Kvikmyndin tjáir ágætlega að við menn eru frelsisverur.

Við þennan boðskap vil ég bæta að náttúran er með sömu einkennum. Vissulega lýtur hún leikreglum náttúrulögmála og þróunarferla. En þar ríkir líka frelsi og samspil. Við skulum ekki vanmeta þann þátt eins og fram kemur skýrt í svo sértækum viðburðum eins og heimsfaraldri eða skriðuföllum. Í mannheimi hefur fólk frelsi til að ákveða stefnu og gerðir. Vitaskuld erum við bundin af skorðum erfða og aðstæðna en frelsið er ótrúlega mikið samt. Í ljósi þessa getum við nálgast allan hrylling heimsins.

Guð beitir ekki inngripsvaldi. Guð sleppir ekki veirum lausum að geðþótta, hristir ekki jarðskorpufleka heinsins, ýtir ekki af stað skriðum í fjöllum eða þrýstir á kvikleir til að kalla fram hrun íbúðabyggða. Ég þekki engan ábyrgan guðfræðing eða trúmann sem heldur slíku fram. Slík guðsmynd er aðeins í hugum brenglaðra sem aflaga guðsmynd að eigin þörfum og þrám, hvað sem það kostar.

Kærleiksmáttur

Hvað þá? Hver er hlutur Guðs? Guð er sá andlegi kraftur sem á öllum augnablikum beitir kærleiksáhrifum sínum, varpar upp möguleikum, í efnaferlum náttúrunnar, í huga einstaklinga, í góðum samhug hópa og þjóða – já mannkynsins alls. En á öllum þrepum og stigum getur efni, náttúruferlar, einstaklingar, hópar og þjóðir brugðist við með réttu eða röngu móti eða blöndu af hvoru tveggja í einhverjum hlutföllum. Hlutverk manna og þar með talið stjórnvalda er að sinna kalli til öryggis. Til okkar er kallað sem einstaklinga, samtaka, þjóða og mannheims að rétta hjálparhendur þegar þarf og styðja í úrvinnslu hörmunganna.

Hinn hvetjandi Guðsnánd

Menn hafa notað hugtakið almætti til að tjá mátt Guðs. En Guð er ekki eins og mennskur alræðisforstjóri eða einræðisherra veraldar. Í Guði sjá kristnir menn dýpri og mennskari veruleika nándar. Guð tekur þátt í baráttu fólks, grætur með þeim sem syrgja og hlær með hinum fagnandi. Því varð þessi makalausa sendiför Guðssonarins inn þennan heim til að samsamast öllu lífi manna, leysa úr viðjum og bjarga.

Guð skelfist og stendur með með óttaslegnu fólki í skriðubyggðum Ísands. Guð stjórnar ekki atburðarásinni, en Guð líður ferlið með sköpun sinni. Guð er ekki ofvirkur heldur samvirkur. Guð er ekki eins og kúgandi móðir eða harður pabbi sem neyðir börn sín. Guð ofstjórnar ekki heldur meðstýrir. Guð tekur ekki af sköpun sinni frelsi heldur bendir á ábyrgð. Guð hefur ekki yfirgefið sköpun sína, heldur styður með kærleikskrafti sínum.

Faraldur og umhverfisvá eru ekki refsingar af himnum, ekki hefndaræði guðlegrar reiði. Breytingar í náttúrunni og hamfarir má skýra með rökum fræða og almennrar dómgreindar. En áföll kallar á næmni og hvetur til öflugs viðnáms gegn siðferðisbrotum. Guð er að starfi en ekki sem íhlutandi Guð, heldur sem nálæg systir eða bróðir sem stendur við hlið manna, hvetur til starfa, styður þegar við föllum, hvíslar að okkur huggunarorð þegar við höfum misst og yfirgefur okkur aldrei, þótt við bregðumst. Guð er nærri.

[i] Ég bendi á rit Pjeturs Pjeturssonar, biskups á Íslandi á 19. öld, sem dæmi um skelfilega trúarhugsun. „Guð og þjáningin í Pjeturspostillu : „En lof sé þér líka, líknsami faðir! fyrir sóttir og sjúkdóma“ Kirkjuritið 67 (3): 2001.

Nýr tími Bandaríkja Norður Ameríku

Ljós mun lýsa –

ef við þorum að horfa

ef við þorum að spegla það

Tímaskil urðu í heiminum 20. janúar. Tímabili lyganna lauk og nú er runninn upp tími til að segja satt um menn og málefni. Tímabil sundrungar, aðgreiningar og sérhyggju er að baki og mikilvægt að gott fólk taki til hendi og sameinist um að leggja góðu lið. Hvað tekur við er óljóst. 

Innsetningarathöfnin við þinghúsið var einföld en heillandi. Kona er varaforseti Bandaríkjanna í fyrsta sinn. Glerþakið var tjakkað upp. Lady Gaga söng þjóðsönginn með stæl. Ekki skemmdi kjóllinn hennar og friðardúfan sem minnti á dúfu Picasso. Amy Klobucher smitaði gleði yfir að eldurinn væri slökktur og nýr tími fæddur. Vettlingar og föðurland Bernie Sanders vermdu og skemmtu. Ræða Jo Bidens sannfærði að stjórnsýslan verður skilvís en ekki lemstruð af bræðisköstum síðustu ára.

Þetta var ekki bara byrjun heldur líka útfararathöfn. Af öllu sem sagt var og gert á þessari innsetningarhátíð var ljóðið sem Amanda Gorman samdi og flutti um opnun. Hún nefndi vanda og verkefni, litaði og færði til, lokaði og opnaði. Það er frjálst fólk sem yrkir og gengur svo vasklega inn í nýjan tíma. Ljóð Gorman sem er að baki þessari smellu. Fíkjutré Biblíunnar hafa skotið nýjum rótum.

Ljós mun lýsa –

ef við þorum að horfa

ef við þorum að spegla það

Myndina tók ég  um kl. 16 þegar innsetningarathöfnin í Washington var að hefjast.