Sólskinið kyssti okkur, skútufólk, á siglingu um sundin milli Koster og Strömstad í Svíþjóð. Skyndilega varð skýfall. Ofsarigning á sólskinsdegi og í skamman tíma. Þegar fossinn að ofan byrjaði kyrrði sjóinn. Öldugangurinn snarminnkaði þegar risadroparnir skullu á yfirborð sjávar og rugluðu sjávarbylgjurnar. Ofankoman stillti mátt að neðan og frá hlið, eins og jafnvægi kraftanna kæmist á, kannski til að dans vatnsins yrði sem bestur. Ekki aðeins menn, fuglar og dýr dansa. Vatn dansar líka á krossgötum samfundanna. Vatnsballettinn var hrífandi, samstilling allra krafta. Það er gömul, sprelllifandi speki Biblíunnar að til að lífið sé gott skuli kraftar samstillast. Við, menn, eru kallaðir til að beita okkur í þágu þeirrar samstillingar en líka gleðjast og hrífast þegar hún verður. Í þessum vatnsdansi fannst mér ég skynja húmor Guðs. Þetta var vitjun dagsins.
Aldrei aftur Útey
Útey er á einu dásamlegasta svæði Noregs. Eplaakrarnir við Tyrivatnið eru sannarlega heillandi. Systir mín og fjölskylda býr í nágrenninu og bátalægi þeirra er rétt við Útey, sem Verkamannaflokkurinn á. Systir mín fer með gesti sína á þetta svæði unaðar og dásemda. Þegar ég var við bryggjuna í Útey hugsaði ég um hvað svona eyja væri góður vettvangur fyrir lífsmótun fólks til framtíðar.
Svo varð heimsendir í þessari paradís, sem djöfull læddist inn í. Þegar sprengjan sprakk í Ósló héldu flestir, að óður múslimi hefði unnið hryllingsverkið. En hið illa kom ekki að utan heldur að innan. Hinn illi var ekki aðkomumaður heldur innfæddur. Forsætisráðherra Noregs endurómaði amerískan talshátt og sagði verknaðinn vera heigulsverk. Það er rangt því sprenging og fjöldamorð er fremur æði haturs.
Að baki djöfulskapnum er ótti, sem beinist að öllu því sem er öðruvísi: Ótti við aðrar lífsskoðanir, litarhætti, öðruvísi menningu og fólk. Ótti elur af sér hatur og hatur gengur alltaf í lið með dauðanum. Ofbeldið á sér því stefnu, berst gegn opnu samfélagi umhyggju og samhjálpar. Illvirkin eru atlaga gegn framtíð, sem umfaðmar ríkidæmi margra kynþátta og samvinnu menningar, átrúnaðar og fjölbreytileika. Hinn norski fjöldamorðingi er ekki ruglaður byssukall, heldur maður sem fyrirlítur öðruvísi fólk og hatar fjölbreytileika. Hann reynir að fyrirbyggja, að ólíkt fólk með mismunandi trú og sið geti búið saman í friði og jafnvel orðið ástfangið hvert af öðru.
Sprengingin í Ósló og fjöldamorðin vega að gildum, trú, menningu og stefnu norrænna þjóða. Við erum öll Norðmenn þessa sorgardaga. Eigum við að leyfa höggbylgjunni frá Ósló að hræða eða skothríðinni í Útey að beygja okkur? Nei. Mæður og feður, sem gáfu börnum sínum gildi, elsku og framtíð, fóru til að sækja lík barna sinna. Glæpur var unninn á þeim, norsku þjóðinni en líka okkur – öllum. Hatrið réðst gegn ástinni. Látum ekki ungt fólk deyja til einskis, heldur heiðrum það með því að treysta samfélagsfriðinn. Mætum ótta með trausti. Hvikum ekki frá uppeldi fólks til menningarlegrar og trúarlegrar fjölbreytni. Ræðum opinskátt eðli hatursins. Leyfum lífinu að lifa. Til forna var sagt: Aldrei aftur Masada. Gegn hatri nútíma: Aldrei aftur Útey.
IHS – fermingin
„Sæll og kærar þakkir fyrir flottu ferminguna og bókina og takk fyrir að vera svona skemmtilegur við okkur.“ Þessi fallega þakkarkveðja kom í tölvupósti og nokkrar myndir með frá fermingarstúlku eftir sumarfermingu í Hallgrímskirkju.
Ísabella Helga Seymour kom fljúgandi frá Ameríku til að fermast í Hallgrímskirkju sunnudaginn 18. júlí. Viktoría, mamma hennar, og Margrét Helga, yngri systir, komu með henni í messu viku fyrir fermingardaginn. Það var gaman að kynnast þeim, allar svo jákvæðar og kraftmiklar. Ísabella Helga tók því vel að útdeila í altarisgöngunni með okkur Ágústu Þorbergsdóttur. Svo báru móðir hennar og systir ljósin út í lok messu. Ísabella Helga valdi vers úr Rómverjabréfinu: „Við vitum að þeim sem Guð elska samverkar allt til góðs, þeim sem hann hefur kallað samkvæmt ákvörðun sinni. … Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur?“
Í ávarpinu til Ísabellu var talað um nafnið hennar, merkingu og hún var minnt á að skammstöfun nafns hennar væri IHS. „Sú skammstöfun er algeng í kirkjum heimsins, í kirkjulistinni sem og munum, skreytingum kristninnar í húsum, bókum og miðlunarefni. Á fyrstu öldum kristninnar urðu til alls konar styttingar, nk. emoji þess tíma. IHS var eitt af þeim. Upprunalega var IHS stytting á Iesus Hominum Salvator, sem er latína og þýðir: Jesús frelsari mannkyns. Þegar þú sérð IHS í kirkjulist heimsins máttu muna að Guð er nærri, elskar, gefur líf, ástvini sem elska þig, fjölskyldu, vonir og lífskraft. Þú mátt vera vinur IHS – bæði sjálfrar þín og mannkynsfrelsarans. Svo vil ég minna þig á að ein merking nafnsins Isabella er að vera eiðsvarin Guði, vilja vera Guðs. Fermd Guði með jái. Nafnið Helga er tengt helgi, sem er ekki föstudagur til sunnudags heldur að vera heilög. Það merkir að vera tengd Guði og lifa fallega og vel. Nafnið, viðburðurinn í dag hvetur þig að lifa alltaf vel. Iðkaðu sjálfsvinsemd og Guðsvinsemd.“
Ísabella Helga Seymour er fermd og fékk Passíusálma að gjöf. Í kirkjunni var hún sjálf gleðigjafi, hrósaði fólki sem brást vel við þessari ungu og geislandi konu. Já og Ísabella Helga sendi mér þessar líka fínu myndir og þakkaði fallega fyrir sig. Það er rækt í svona sjálfstæði og þakkarafstöðu. Svo kemur hún vonandi aftur þegar hún staldrar við á Íslandi í framtíðinni. Svo samverkar allt til góðs í lífi hennar og hún á í Guði öflugan bandamanna. Sumarfermingar eru líka skemmtilegar. IHS.
Með á kennimyndinni, efstu myndinni, er Matthías Harðarson sem var orgelleikari dagsins. Til heiðurs Ísabellu Helgu spilaði hann Ungi vinur, sem er lag Oddgeirs Kristjánssonar við hvatningarljóð Ása í Bæ.
Æði og innræti
Að tapa í vítaspyrnukeppni er hluti af fótbolta – en kynþáttaníð er það ekki. Evrópukeppninni í knattspyrnu lauk um síðustu helgi. Hundruð milljóna fylgdust með og horfðu á útsendingar. Margt var eftirminnilegt. Mörg lið spiluðu stórkostlegan bolta og gæði keppninnar voru mikil. Besta Evrópukeppnin til þessa, líka betri en 2016 þegar Íslendingar tóku þátt. Margir leikmenn blómstruðu og mörg lið hrifu. Ég ætla þó hvorki að nefna mína uppáhaldsleikmenn né lið. En mig langar til að tala innræti og manngildi og ástæðan er tvennt sem tengt er Evrópukeppninni. Í fyrsta lagi rosaleg viðbrögð við vítaspyrnukeppni lokaleiks keppninnar. Og hins vegar atburðir í fyrsta leik Dana. Hvort tveggja sláandi viðburðir sem höfðu afleiðingar.
Kynþáttaníð
Lokaleikur Evrópukeppninnar milli Ítala og Englendinga var æsispennandi. Vítaspyrnukeppnin í lok leiks var eftirminnileg og lauk með sigri Ítala. Ég ætla ekki að dvelja við hvaða þjóð sigraði heldur við eftirköstin. Þrír stórkostlegir knattspyrnumenn klúðruðu vítunum sem þeir tóku. Ástæðurnur voru margvíslegar og hefur verið rifist um þær í fjölmiðlum og fótboltagryfjum heimsins. Það sem vakti athygli flestra og skelfingu var að kynþáttahatur blossaði upp meðal margra sem héldu með Englandi. Þeir sem klúðruðu voru allir svartir. Þrátt fyrir áherslu knattspyrnusambanda heimsins, líka hins enska, að kynþáttamismunun skuli ekki liðin, var hellt úr skálum reiðinnar yfir þessa ólánssömu fótboltasnillinga. Stór mynd af einum þeirra, Marcus Rashford, sem er í Manchester var skemmd. Netmiðlarnir bólgnuðu af kynnþáttaníði og urðu um tíma eins og klóakstofnæðar. Hinir tapsáru opinberu alla veikleika sína í tapæðinu og helltu öllu því versta sem í þeim bjó yfir þrjá knattspyrnumenn sem voru svona ólánssamir að skora ekki. Engin mannvirðing, engin sjálfsvirðing – bara fordómar af verstu tegund. Ekki bætti úr að Boris Johnson, forsætisráðherran í London, sagði fordómamönnunum að skríða undir steinana sína þaðan sem þeir hefðu komið. Innanríkisráðherra tjáði að fótboltamenn ættu að æfa sig í íþrótt sinni en sleppa því að skipta sér af pólitík. En Marcus Rashford hefur beitt sér fyrir stuðningi við fátæk börn í Englandi og hlotið lof og medalíu fyrir. Kynþáttafordómarnir, sem voru opinberaðir, sýndu hve kynþáttasýkin er svæsin. Grunnt á illvígum fordómum. Enska knattspyrnusambandið hefur tekið vel á þessu máli. Enska landsliðið er einhuga í samstöðu sinni og landsliðsþjálfarinn axlar ábyrð og talar af mannvirðingu. Sem sé leikmenn og samband hafa unnið framúrskarandi með vandann. Að tapa í vítaspyrnukeppni er hluti af fótbolta – en kynþáttaníð er það aldrei. Nú þarf að skjóta boltanum inn í netmöskva fordómanna og vinna hrottana í vítaspyrnukeppni mennskunnar.
Manndómur og töfrar í tánum
Í fyrsta leiknum sem Danir léku á mótinu féll Christian Eriksen skyndilega niður í fyrri hálfleik. Enginn var í nágrenni við hann svo hann meiddist ekki í samstuði. Öllum sem horfðu á leikinn var ljóst að eitthvað alvarlegt hafði gerst og að hann væri í lífshættu. Hann virtist missa meðvitund og hræðslan í andlitum leikmanna danska liðsins sannfærði mig og milljónirnar, sem horfðu, að hann hefði fengið hjartáfall. Landsliðsmennirnir Simon Kjær og Kasper Schmeichel gerðu sér strax grein fyrir aðstæðum, brugðust snarlega við þrátt fyrir djúpa angist. Þeir stilltu upp félögunum og mynduðu skjöld umhverfis deyjandi félaga þeirra meðan hjúkrunarfólkið mundaði hjartastuðtæki og vann að endurlífgun Christian Eriksen. Þeir, Kjær og Schmeichel, tóku utan um þá sem voru bugaðir, tóku konu Eriksen í fangið og veittu henni skjól og styrk. Þessir menn sýndu manndóm, siðvit, visku og þroskað innræti. Viðbrögð lækna og hjúkrunarfólksins á Parken í Kaupmannahöfn björguðu lífi Eriksens og danska liðið slípaðist við áfallið og spilaði betri fótbolta en búist hafði verið við þrátt fyrir að missa einn sinna bestu manna. Innræti Kjær og Schmeichel kom í ljós. Þeir sýndu hvað raunverulega skiptir máli. Að hafa töfra í tánum er mikilvægt í fótbolta en mikilvægast er að hafa töfra hið innra, hafa unnið með ótta og veikleika til að umvefja og styrkja fólk. Innræti er áunnið.
Það sem fer inn í okkur hefur áhrif
Því minnist ég fordóma og manndóm að textar þessa sunnudags eru um forsendur og innræti. Lexían talar um dýpri víddir manna sem Guð nærir, andlegt fóður sem er engu síður mikilvægt en hið líkamlega. Í pistlinum er talað um það sem er hið innra og knýr manninn áfram, annars vegar til góðs og einnig til ills. Þegar innrætið er vont verða verkin vond. Þegar unnið er með innri mann og hjarta mannsins verður eitthvað gott. Slæmt innræti og fordómar skadda fólk og umhverfi.
Svo er það guðspjallstexti dagsins sem er birtur í sálmaskránni. Jesús talar um súrdeig og flækja eða plot sögunnar varðar að Jesús var ekki að tala um brauð eða fiska eða hvaða brauðgerð menn iðkuðu og hvers konar súrdeig væri notað heldur að máli skipti hvað menn settu inn í sig, hverju menn leyfðu að flæða inn í huga og líf og sökkva til dýpta og móta. Við erum ekki bara skepnur og efnakerfi sem gerum allt samkvæmt eðlisávísun. Við erum meira. Við ráðum hvað fer inn í okkur, hvað stýrir okkur og hvernig við bregðumst við. Við ráðum hvort þessir fordómar eða hinir stýra tengslum okkar. Þrátt fyrir allt áreitið að innan og utan, forskriftir gena okkar og skothríð auglýsinga og áhrifa erum við samt frjáls um svo margt. Mannvísindin hafa opinberað vel að við erum hluti menningar, sem mótar. Að okkur er haldið hvað sé gott, hvaða gildi við ættum að virða og haugar af fordómum læðast að okkur og inn í okkur, taka sér bólfestu hið innra og verða eins og englar til góðs eða púkar sem stýra. Innræti kynþáttahatara kom berlega fram í æðinu og soranum eftir vítaspyrnurnar. Þar voru ekki bara einstaklingar sem ældu yfir fótboltasnillingana og síðan yfir allt og alla. Þar var líka rasísk menning sem átti fulltrúa og talsmenn í hrokagikkjum. Það er hlutverk okkar sem einstaklinga, hópa og þjóða að vinna með hið slæma og illa og laða fram og styrkja hið góða.
Guð og mannást
Jesús Kristur hafði jákvæða afstöðu gagnvart lífinu. Hann taldi að hlýðni við reglur væri ekki vænleg eða aðalmálið. Hann benti á, að lífið þjónar ekki reglum heldur þjóna reglur lífinu. Þannig ætti að nálgast lög, form, siðferði og kerfi manna. Jesús áleit að meginmálið værimannvirðing og Guð. Hann bjó til tvöfalda kærleiksboðið, sem er eiginlega samþjöppun hans á öllum boðorðunum. Hvernig er það nú aftur? Það er þetta með ástartvennuna að elska Guð og elska fólk og það hljóðar svo: „Elska skalt þú, Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, og öllum huga þínum. … og náunga þinn eins og sjálfan þig.”
Krossinn sem tákn um okkar líf
Þetta er hin elskulega útgáfa og túlkun Jesú fyrir fótbolta, heimilislíf, vinnustaði, tengsl fólk og mannkyn. Annars vegar uppstefnan og hins vegar þverstefnan. Krossinn er tákn þessa boðs. Elska til Guðs er himinstefna og himintenging hins trúaða eins og langtréð eða uppstólpinn. En trúin er einskis virði nema að hún bæti líf og hamingju fólks, einstaklinga og samfélags. Það er þvertréð á krossinum. Og í samtíð okkar hefur komið í ljós að ef við erum ekki rótfest í heilnæmri náttúrutengingu förum við villur vega, mengum og deyðum. Trú, sem aðeins varðar stefnu inn í eilífð, er á villigötum. Trú, sem aðeins sér menn, hefur tapað áttum. Guð og fólk, Guð og veröld – allt í senn og samfléttað. Þegar þú sérð kross + máttu muna Guð, menn, nátttúru og að Guð elskar þig og alla veröldina. Andsvar þitt við þeirri elsku er, að þú mátt elska Guð, veröldina og mennina þar með.
IHS
Ísabella Helga Seymour, IHS, var fermd í dag. Hennar verkefni er að ganga þroskaveg, læra margt í skólanum til að hún hafi möguleika að nýta hæfileika sína vel í lífinu. Hennar verkefni er líka að þroskast sem manneskja, vinna með forsendur sínar og fordóma, læra að virða sjálf sig, en líka að virða aðra mikils og læra að vinna með fordómana. Hún þarf í lífinu að ákveða hvað gerir henni gott og hvað sé illt og læra að leyfa aðeins því góða að fara inn og móta sig svo henni líði vel og geti tekið ákvarðanir til góðs fyrir sig og alla aðra. Hún þarf að læra að fótboltahæfni hefur ekkert með húðlit að gera og við erum öll elskuð óháð kynþætti, trú, kynferði og öðrum þáttum. IHS þarf að vera frjáls í jákvæðu sambandi við Guð.
Andlegt fóður, það býðst okkur í tengslum við Guð. Þegar við játumst Guði er okkur boðið að læra að horfa á heiminn með augum elskunnar. Læra að iðka kærleikann og þora að vera.
Amen
2021 18. júlí, 7. sunnudag eftir þrenningarhátíð. Hallgrímskirkja. Ísabella Helga Seymour var fermd í messunni. Matthías Harðarson var orgelleikari dagsins. Frábær kvartett söng. Og Matthías spilaði Ungi vinur Oddgeirs Kristjánssonar sem útspil, og hefur aldrei áður verið spilað sem eftirpil í allri sögu Hallgrímskirkju. Söfnuðurinn var kominn í gírinn við útidyr. Það hefur áhrif á okkur það sem kemur til okkar og við hleypum að okkur!
Lexía: Am 8.11-12
Sjá, þeir dagar koma, segir Drottinn Guð,
að ég sendi hungur til landsins,
hvorki hungur eftir brauði né þorsta eftir vatni,
heldur eftir orði Drottins.
Þá munu menn reika frá einu hafi til annars,
flakka frá norðri til austurs
og leita að orði Drottins
en þeir munu ekki finna það.
Pistill: Heb 13.1-6
Bróðurkærleikurinn haldist. Gleymið ekki gestrisninni því að vegna hennar hafa sumir hýst engla án þess að vita. Minnist bandingjanna sem væruð þið sambandingjar þeirra. Minnist þeirra er illt líða þar eð þið finnið til eins og þeir.
Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum og hjónasængin sé óflekkuð því að hórkarla og frillulífismenn mun Guð dæma.
Verið ekki fégráðug en látið ykkur nægja það sem þið hafið. Guð hefur sjálfur sagt: „Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“ 6 Því getum við örugg sagt:
Drottinn er minn hjálpari,
eigi mun ég óttast.
Hvað geta mennirnir gert mér?
Guðspjall: Matt 16.5-12
Þegar lærisveinarnir fóru yfir um vatnið höfðu þeir gleymt að taka með sér brauð. Jesús sagði við þá: „Gætið ykkar, varist súrdeig farísea og saddúkea.“ En lærisveinarnir ræddu sín á milli að þeir hefðu ekki tekið brauð. Jesús varð þess vís og sagði: „Hvað eruð þið að tala um það, trúlitlir menn, að þið hafið ekki brauð? Skynjið þið ekki enn? Minnist þið ekki brauðanna fimm handa fimm þúsundum og hve margar körfur þið tókuð saman? Eða brauðanna sjö handa fjórum þúsundum og hve margar körfur þið tókuð saman? Hvernig má það vera að þið skynjið ekki að ég var ekki að tala um brauð við ykkur? Varist súrdeig farísea og saddúkea.“ Þá skildu þeir að hann hafði ekki talað um að varast súrdeig í brauði heldur kenningu farísea og saddúkea.
No problem
Ekkert prestsverk er skemmtilegra en að skíra börnin. Það er svo undursamlegt að horfa í augu þeirra, ausa þau vatni og sjá viðbrögðin, finna fyrir straumi umhyggju, gleði og ást foreldra og vina. Vatnið glitrar í fontinum, tárin í augnakrókum fólksins og droparnir eru fagrir á hári barnanna. Í skírninni verða skírnarþegarnir meira en fólk tímans. Þau verða líka borgarar eilífðar – guðsríkis. Með tvöfalt ríkisfang. Vatnsflóð veraldar og vatnsflóð eilífðar renna saman í flaum lífs og gleði. Tími og eilífð kyssast.
Aðalskálin
Fyrir mikilvæga athöfn er það fallegasta eða besta tekið fram og notað. Í heimaskírnum er tekin fram aðalskál heimilisins eða fjölskyldunnar, stundum kristalsskál ömmu og afa eða einhver fallegur hönnunargripur. Vatni er hellt varlega í skálina og gætt að hitanum til að hvorki verði barni kalt eða illt af hita. Stundum er í upphafi athafnar vatnið borið í karöflu eða könnu til stofu og hellt í skálina. Það markar upphaf með ákveðnum hætti. Ofast hafa skálar sem notaðar eru tilfinningagildi í fjölskyldunum. Þær hafa verið á borðum á stærstu hátíðum og mikilvægu stundum fjölskyldunnar. Sumar þeirra hafa oft verið notaðar í skírnum og hafa orðið helgigripir á heimilum, tákn um samhengi ættar eða fjölskyldu.
Skírnarker í kirkjunum eru eins ólík og skírnarskálar heimahúsanna. Í kirkjum fyrri tíðar var skálin stundum fat sem hékk á vegg en var tekið ofan þegar skírt var. Oft voru ílátin úr tini eða mjúkum málmi. Meiri sundurgerð hefur orðið í gerð skírnarfonta á síðari árum. Frægasti fonturinn á Íslandi var skírnarsár Bertels Thorvaldsens í Dómkirkjunni sem var vígður árið 1839. Merkilegir fontar eru í kirkjum landsins og margir eiga sér merkilega tilurðar- eða gjafasögu. Í Neskirkju í Reykjavík er skírnarfontur sem Þór Sigmundsson, steinsmiður, gerði. Á sama tíma og Guðrún Rannveig Stefánsdóttir, kona Þórs, bar sveinbarn undir belti klappaði steinsmiðurinn grjótið og gaf kirkjunni gripinn. Þegar drengurinn, Kolbeinn Flóki, var kominn í heiminn var Neskirkjufonturinn í fyrsta sinn notaður þegar hann var skírður.
Hallgrímskirkjufonturinn
Svo er það skírnarfontur Hallgrímskirkju, sem er einn merkasti dýrgripur í íslenskum kirkjum. Fonturinn var gefinn af kvenfélagi kirkjunnar og af velunnurum. Það mun óumdeilt að fonturinn hefur mesta útgeislun allra fonta hérlendis. Þegar himinljósið skín í kirkjunni sést litadýrð þegar ljósið brotnar í kristalnum og myndar friðarboga, jafnvel fleiri en einn. Oft er litadýrð á gólfi kirkjunnar og bekkjum þegar ljósið brotnar og teiknar marga friðarboga. En fonturinn varpar ekki aðeins ljósi út heldur hefur inngeislun, dregur til sín athgyli. Þegar bjart er sjást líka stafir og orð bæði á dökka fletinum á fontinum en líka ljósa hlutanum. Á dökka hlutanum er bæn Hallgríms Péturssonar sem við fórum með áðan:
„Vertu Guð faðir, faðir minn
í frelsarans Jesú nafni.
Hönd þín leiði mig út og inn
svo allri synd ég hafni.“
Það er við hæfi að setja bænina á skírnarsáinn, því það er lífsháttur kristins fólks að endurnýja tengslin við skapara og lífgjafann með því að ávarpa ástvin eilífðar, helst á hverjum degi og á hverri tíð. Biðja Guð um að vera faðir, vinur, nánd. Og að við verðum náin í tengslum og lifum í anda guðstengslanna.
Svo sést líka texti inn í fontinum. Hægt er að lesa í gegnum þykkan kristalinn biblíuvers. Þar stendur: „Sá sem trúir og skírist mun hólpinn verða.“ Þetta vers er í 16. kafla Markúsarguðspjalls. Það eru orð guðspjalls dagsins, sem var lesið frá altarinu áðan.
Við megum þakka fyrir og gleðjast yfir fonti kirkjunnar. Leifur Breiðfjörð og Guðjón Samúelsson, arkitekt og húsameistari, eru hinir miklu sjónlistamenn Hallgrímskirkju. Ef Hallgrímur er fimmti guðspjallamaðurinn er Leifur Breiðfjörð okkur einn af postulum Jesú. Leifur hefur gert aðaldyr kirkjunnar, stóra gluggann yfir innganginum, glermyndir inngangsdyra inn í kirkjuna, einnig unnið prédikunarstólinn og svo hannað skírnarfontinn.
Leifur og Sigríður, kona hans, voru einu sinni í Sydney í Ástralíu. Þar hittu þau tékkneskan kristalssérfræðing og spurðu hvort hægt væri að steypa stóran kristalsklump í skírnarfont Hallgrímskirkju. „No problem“ sagði Tékkinn. Þá var stefnan mörkuð og Leifur ákvað lag og mótun fontsins. Svo byrjaði merkilegt ferli. Tékkarnir í Železný Brod sem gerðu tilraunir með kristalssteypuna lentu í miklum vandræðum. Kristalsklumpurinn, um 270 kílógramma, sprakk hvað eftir annað í kælingunni. Orðspor kristalmannanna var í hættu! Góð ráð voru dýr. „No problem“ varð „a big problem – a very big problem!“ Leifur ákvað því að skipta kristalsblokkinni í tvennt. Kælt var í marga mánuði og verkið tókst loks. Orðspori kristalsmanna var borgið, hægt var að setja stykkin saman, slípa út fjórblaðsskálina og sandblása versið úr Makúsarguðspjalli í kristalinn með Leifsletri. Úr varð hið mikla listaverk efnis, ljóss og anda sem skírnarfonturinn er. Fyrsta sunnudag í aðventu árið 2001 var fonturinn tekinn í notkun. Í ár er því tuttugu ára vígsluafmæli.
Trúir og skírist – hólpinn
Trú, skírn og blessun eru lífleg þrenna. Í versi skírnarfontsins er fólgið ferðalag fólks og frumkirkjunnar í tíma. Tengslin við Jesú Krist, reynslan af veru hans, orðum og gerðum sannfærði fólk um að hann væri traustins verður, Guð meðal manna. Þegar tengslin urðu – trúin – vildu vinir Jesú merkja sig honum og innvígjast guðsríkinu með sama hætti og hann sjálfur – með skírn. Vatn er efni lífsins. Vatnsbaðið er tákngjörningur sem varð siður kristninnar til lífs og tjáir ást Guðs. Í skírninni var og er miðlað að skírnarþeginn væri elskaður og virtur.
Guð er ekki háður skírn en kristin kirkja ber börnin til skírnarlaugarinnar til blessunar. Fontur merkir lind, uppspretta. Guðspjallstextinn er ekki neikvæður. Hann merkir ekki að sá sem trúir og er óskírður fari á mis við blessun. En eins og við njótum sífellt nýrrar blessunar með að neyta vatns njóta mannabörn blessunar í þessari uppsprettu hins góða. Skírnin er ekki eins og að fá sér vegabréf inn í eilífðina heldur er hún ástartjáning Guðs gagnvart börnum heimsins. Ekki lögmál heldur ást, tilboð en ekki skylda. Að vera hólpinn merkir að njóta samvista við Guð. Sú blessun verður ekki aðeins þegar fólk deyr, heldur kemur fram í öllum undrum lífsins sem við njótum, þessa heims og annars.
Gerð skírnarfonts Hallgrímskirku tjáir vel margar víddir Guðsblessunarinnar. Kristall og grjót kyssast rétt eins og tími og eilífð. Hluti fontsins er dökkur og hinn er ljós. Annar er gegnsær en hinn ekki. Í fontinum eru andstæður sem tákna víddir lífsins í gleði og sorg, vonbrigði og von, ljós og myrkur, dauða og líf. Fontur Hallgrímskirkju tjáir dauða og upprisu, langan föstudag en líka dansandi sól páskanna. Við erum ekki bara felld við dimma mold, af jörðu og til jarðar, heldur erum við, mannfólkið, ljósgeislar úr ljóslind eilífðar. Við eigum okkar upphaf í efni en erum meira. Við erum kölluð til að vera bæði tíma og eilífðar, veita elsku eilífðar inn í líf barna tímans. Sá sem trúir og skírist mun hólpinn verða. Þessi boðskapur brosir við öllum sem vilja sjá og blessunin umvefur skírnarbörnin sem eru ausin vatni.
Það er hægt að fara að skírnarfonti Hallgrímskirkju og sjá kristalinn og dást að formi hans og sjá litadýrð brotins ljóss. Friðarbogar himins og fonts minna okkur á að rækta frið við menn, Guð og okkur sjálf. Þegar við beygjum okkur niður sjáum við textana, sem tjá hið guðlega samhengi og við erum fullvissuð um að trú og skírn eru staðfesting á þegnrétti okkar manna í tíma og eilífð. Kærleikur kristninnar er hógvær, hlýr, umlykjandi og ríkur að birtu og fegurð. „Sá sem trúir og skírist mun hólpinn verða.“
Amen.
Messa 11. júlí, 2021. 6. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Þriðja textaröð.