Sigurbjörn Einarsson og Guð

Ég naut þeirra forréttinda og blessunar að kynnast Sigurbirni Einarssyni meðan ég enn var barn. Þegar Sigurbjörn var kosinn biskup árið 1959 fluttist hann og fjölskylda hans í húsið nr. 15 við Tómasarhaga og ég bjó í húsinu nr. 16. Samgangurinn var talsverður. Fyrir nokkrum árum barst mér saga úr fjölskyldu Sigurbjarnar um fyrstu samskipti okkar á frumbýlingsárunum við Tómasarhaga. Sigurbjörn gekk alla tíð mikið og einu sinni var hann á heimleið. Ég var við götukantinn að vinna við stífluframkvæmdir og fleyta bátum á milli lóna á holóttum Tómasarhaganum. Þegar Sigurbjörn kom að mér stoppaði hann. Mér varð starsýnt á hann og þótti maðurinn áhugaverður. Ég spurði kotroskinn: Hvað heitir þú? Hann svaraði: „Ég heiti Sigurbjörn og stundum kallaður biskup. En hvað heitir þú?“ Og svarið var: „Ég heiti Sigudur Ádni og stundum kallaður Litli.“

Sagan hefur örugglega verið snikkuð til en hún lifði í fjölskyldu Sigurbjarnar og hefur væntanlega verið skemmtiefni í þeirri glöðu fjölskyldu. Magnea Þorkelsdóttir, kona Sigurbjarnar, var góð við okkur krakkana og bauð okkur stundum inn og ég man eftir að mér þótti mikil furða að sjá froska í skál í stofunni. Okkur þótti áhugavert að fylgjast með lífinu á nr. 15 og sáum stundum Sigurbjörn taka strákastrolluna með sér í göngutúr. Sögur um þessar lærisveinaferðir og kennsluferðir Sigurbjarnar á göngu lifðu í hverfinu. Nágranni okkar við Lynghaga sagði mér fyrir nokkrum árum að Sigurbjörn hafi skipst á að tala við þá. Einn hefði verið með pabbanum fremst og svo hefði hann sent þann fremsta aftar og annar tekið við. Feðgar á lærdómsferð og það var Jesúaðferðin sem hann notaði.

Magnea og Sigurbjörn voru góðir grannar og komu í fermingarveisluna mína og gáfu mér Biblíu sem ég hef notað svo vel að kjölurinn er farinn en bókin er mér kær. Við Sigurbjörn voru í góðum tengslum alla tíð og hann fylgdist náið með námi mínu og bað mig um doktorsritgerðina mína þegar hún var til enda áhugasamur um guðfræði alla tíð. Ég byrjaði prestsskap í Ásaprestakalli, vestan við Kirkjubæjarklaustur, og kynntist Skaftfellingum og náttúrudýrmætum Íslands, Skaftafellssýslum. Þegar ég hitti Sigurbjörn á þessum árum spurði hann mig gjarnan um vini sína fyrir austan og sérstaklega í Meðallandinu. Svo fór ég til starfa í Skálholti og stýrði Skálholtsskóla og beitti mér fyrir að heimavistarskólanum yrði breytt í miðstöð menningar og fræða. Meðal þess sem sem ég vildi prófa í hinum nýja Skálholtsskóla voru kyrrðardagar. Ég hafði sannfærst um að staðurinn, húsakynni og helgi sögunnar væru ákjósanleg umgjörð sálarferða til dýpta. Ég treysti engum betur en Sigurbirni til sjá um íhuganir. Hann var með mér á fyrstu kyrrðardögunum árið 1986 og síðan árin þar á eftir. Kyrrðardagar slógu í gegn og hafa verið haldnir þar eystra í nær fjóra áratugi. Samvinna og verkaskipting okkar Sigurbjarnar var skýr og klár. Ég gætti rammans en líka hans og tryggði honum næði. Það var gott að þjóna Sigurbirni og gaman að dekra við hann. Við Litli og biskup áttu vel saman.

Upphafið

Sigurbjörn fór til náms í Svíþjóð eftir að hafa lokið prófi hér heima. Hann varð prestur í Breiðabólstaðarprestakalli á Skógaströnd árið 1938 og var þar í um tvö ár og var síðan í þjónustu Hallgrímskirkjusafnaðar frá upphafi árs 1941. Hann stundaði háskólakennslu meðfram preststörfum á árunum 1942-44 og eingöngu þaðan í frá þar til hann varð biskup árið 1959. Þegar vestur við Breiðafjörð uppgötvaði söfnuðurinn að Sigurbjörn var afburða prédikari. Ritsnilli hans varð öllum ljós með birtingu bóka og greina frá Skógastrandarárunum. Ég bendi á ritsmíðina „Við orf og altari“ frá 1939 sem er einn af kjarnatextum tuttugustu aldar íslenskuskrifa. Eftir að Sigurbjörn kom til Reykjavíkur komu margir í guðsþjónustur Hallgrímssafnaðar til að hlýða á hann. Sem háskólakennari kom Sigurbjörn við í fleiri predikunarstólum en áður. Hann efldist sem alhliða fræðari og hafði, þrátt fyrir ónæðisstundirnar allar, einnig næði til að kafa enn dýpra en honum hefði verið mögulegt sem bæjarpresti í miklum önnum í sístækkandi og ólgandi borg. Fyrirlesarinn, útvarpspredikarinn og háskólamaðurinn náði margra eyrum en sem biskup var honum tekið með opnum örmum af meirihluta þjóðarinnar. Þá varð hann ekki síst kunnur sem afburða kennimaður. Sem slíkur breytti hann kirkjunni eða alla vega viðhorfi til kirkjunnar. Síðan hefur Sigurbjörn verið viðmið um hvernig biskup ætti að vera. Ég hitt Harald Ólafsson mannfræðiprófessor og alþingsmann fyrir nokkrum dögum. Hann sagði mér hvað það hefði verið gaman og hrífandi að sækja tíma hjá Sigurbirni. Þeir Jökull Jakobsson, síðar rithöfundur, hefðu verið með stjörnur í augum þegar þeir komu út úr tímum hjá honum – „slík var mælskan og snilldin“ – sagði Haraldur.

Hvernig predikað
Sigurbjörn Einarsson kvaddi Hallgrímssöfnuð með ræðu í Dómkirkjunni 7. janúar 1945. Hann leit til baka og sagði: „Vinir. Ég kveð yður í dag. Þetta er ekki staður né stund fyrir tilfinningamál, og ég vil ekki tala um tilfinningar mínar, það er ekki meðfæri mitt á þessari stundu. En Guði, góðum Guði vil ég þakka fyrir liðin fjögur ár. Hann hefur eins og fyrr gjört langt fram yfir allt það, sem ég hef kunnað að biðja. … Ég get engu um framtíðina spáð. En það veit ég, að ég á ekki eftir að eignast dýrmætari stundir en ég hef átt sem prestur Hallgrímssafnaðar.“

Hvernig var svo boðskapur þessa kennimanns, sem kvaddi söfnuð sinn svo vel og elskulega? Hvernig voru predikanir hans? Ræðuháttur, stílbrögð og málfar þeirra eru merkilegt skoðunarefni. Kirkjan hefur valið ákveðna texta til skoðunar í hverri guðsþjónustu sem prestar fylgja oftast. Þeir leggja alla jafnan út af guðspjalli dagsins og er sömu textarnir til umfjöllunar í flestum guðsþjónustum þess helgidags í kirkjum landsins. Hægt er að útleggja frá versi til hins næsta allt til enda sem er Biblíuskýring viðkomandi texta. Þá er hægt að halda trúfræðifyrirlestur í samræmi við eitthvert atriði textans eða siðfræði í sama stíl. Aðrir endursegja textann og leggja hann út með því að skapa ljóðræna stemmingu eða segja smásögu. Enn aðrir gera textann að tilefni til samtals við samtíðina og boða sína stefnu eða einhverra annarra. Þegar verst lætur verður guðspjallstextinn að einhvers konar stökkbretti sem ræðumaðurinn stingur sér frá og kemur aldrei til baka úr sundferð sinni eða svamli um mismikilvæg málefni stundar eða sögu. En hvað einkennir predikun Sigurbjarnar Einarssonar? Eitthvað af þessu? Eiginlega ekki. Predikunarháttur hans er næst textaútleggingu en fyrst og fremst með tematísku móti. Einkennandi fyrir predikanir hans er að hann dregur út eitt meginstef eða stefjabúnt úr textanum sem hann gerir að aðalefni. Hann leyfir sér aldrei ótrúmennsku við guðspjallið eða Biblíutextann heldur lyftir stefinu eða meginefni með því að draga inn í ræðu sína önnur atriði viðkomandi texta svo það verður skýrara og meitlaðra eftir því sem á predikunina líður. Málefni hverrar predikunar eru mörg og hann leyfir sér að ræða samtíð sína, dægurmál, siðferðileg úrlausnarefni, höfuðkenningar kristninnar o.s.frv. en aldrei þó þannig að rammi textans sé sprengdur eða týndur. Svo öflugur kennimaður sem Sigurbjörn var hefði hann auðveldlega getað hafið sig til flugs frá texta, farið mikinn í einhvers konar andlegu heimsskautaflugi. En svo var ekki. Hinar tematísku predikanir voru ekki tilraunir með þanþol trúar eða tilheyrenda. Þær eru Biblíulegar. Þegar margt er sagt og mikinn farið sem er fremur einkenni en undantekning á þessum ræðum þá er talað úr heimi trúarinnar, glímunnar við Guð, úr spekisafni og lífsreynslu eða kannski betur sagt guðsreynslu Ritningarinnar. En ef það var hinn biblíulegi heimur sem Sigurbjörn jós af með fögnuði þá var viðmælandinn nútímafólk með beyglur sínar og vanda, á hraðaflótta undan sjálfu sér, skynsemi sinni, samvisku, réttlætiskröfum, á flótta frá Guði sem allt hefur lagt í sölur fyrir gallagrip, manninn. Sigurbjörn færði hinn biblíulega heim til samtals við samtíma sinn, hélt samræðunni öflugri og árangursríkri vegna þess hversu vel hann fótaði sig í báðum heimum og kannski helst vegna þess hversu vel hann var heima í hinni miklu veröld Biblíunnar og hversu djúpt hann skynjaði litróf og list hennar. Hann hafði reynt sannleik þeirrar trúar og hann fylgdi Jesú Kristi eftir, uppfyllingu hennar. Því urðu hinar tematísku predikanir svo trúverðugar og fluttar af sannfæringu þess sem hafði verið höndlaður og meinti sjálfur allt sem sagt var.

Mál og myndir
Það sem kitlar málunnendur og gefur ræðunum bæði lit og mátt eru nýyrði, hnittni, meitlaðar setningar, hlý og kærleiksríksrík írónía og frumsamið eða endurnýjað málsháttamálfar sem gerði prédikanirnar læsilegar: „En ekki myndi neistinn sjást, ef enginn væri eldur.“ Á öðrum stað segir: „Þú getur verið þjófur í leyndum hugans, þótt þú sért vítalaus að lögum. Þú ert ekki barn guðsríkis, þótt þú sért boðlegur samfélagsþegn.“

Kænska, útsjónarsemi og slyngi eru ekki uppfinning nútíma. Stjórnmál þá og nú eru hin sömu og Sigurbjörn dró saman: „Pólitíkusar nútímans eru allt eins slóttugir og foringjalið Gyðinga forðum. Óvinurinn lærir svo sem af reynslunni.“ Í predikun um kraftaverkið í Kana segir: „Hjónabönd geta ekki síður bilað sakir óhófs en skorts.“ Og í anda allt annarra Kana segir hann: „Í Hollywood er sagt, að allt geti komið fyrir – nema eitt: Þar er aldrei haldið silfurbrúðkaup.“ Í umfjöllun um afstöðu til Jesú út af ellefta kafla Lúkasarguðspjalls afmarkar Sigurbjörn þrjá hópa í afstöðunni til Jesú: Í fyrsta lagi talar hann um hugsunarleysingja, í öðru lagi eru til andlegir lausingjar og í þriðja lagi eru hatursmenn Jesú. Ræðan er nærgöngul. Spurningarnar þyrlast upp: Hver er ég, hver ert þú? Ertu hugsunarlaus, lausamaður í andlegum efnum, á sífeldum hnotskóg eftir einhverju furðulegu og óvenjulegu eða ertu hatursmaður Jesú? Í þessari ræðu segir Sigurbjörn fyrir munn eins hóps manna:

„Kristindómurinn er að vísu góður, en ekki nógu góður, ekki eins og hann ætti að vera. Það þarf að breyta honum. Mannkyninu er þó alltaf að fara fram. Það veit þó væntanlega eitthvað meira í dag um líf og dauða, um Guð og mann, en þessi 2000 ára gamli „meistari“ frá Nazaret og fákunnandi fylgismenn hans. Vér vitum þó líklega eitthvað meira um synd og sekt, um ábyrgð og alla aðstöðu mannsins í alheimi nú en t.d. Marteinn Lúther, sem er dáinn fyrir 400 árum. Oss sem þekkjum Darwin og Edison og Einstein, hlustum á útvarp og ökum í bílum og höfum fundið upp penicillin, oss hæfir blátt áfram ekki, að Guð virði oss svo lítils að bjóða upp á sama veg til hjálpræðis og mönnum, sem kunnu ekki einu sinni að bursta tennurnar.“

En Sigurbjörn veit að: „Keipóttur og illa artaður krakki fær aldrei það, sem hann vill, hvað oft, sem honum er fengið það, sem hann heimtar.“ Sigurbjörn minnir á, að mannshjartað er svipað nú og fyrr: „ … í gleði sinni, í synd og sælu, í ást og hatri. Móðirinn lætur eins að barni sínu, elskhuganum er líkt innanbrjósts og fyrir öldum, morðinginn, þjófurinn, sælkerinn, svíðingurinn, kúgarinn og hórkarlinn áþekkir innvortis. Við fæðumst ekki með hátíðlegri hætti en fáfróðir forfeður, og á banasænginni erum við væntanlega í sömu sporum og þeir. Bílar, tækni og tannburstar breyta engu um hver við erum.“ Þetta dregur Sigurbjörn allt upp og ræðan skilst.

Andstæðuhlýja
Andstæður sem þessar hér að fram og stundum í bland við íróníu -sem aldrei verður köld í ræðu Sigurbjarnar – koma oft fyrir. Í ræðu á sunnudegi milli nýárs og þrettánda segir og með vísun til flótta hræddra foreldra með nýfæddan Jesú:

„Almættið á flótta fyrir ámátlegum leppkóngi, hin himneska alvizka í felum fyrir fólslegu ráðabruggi hans, hinn eilífi kærleikur hrakinn í útlegð af kórónuðum, sálsjúkum fanti! Unaðsraddir engla boða fæðingu guðlegs ríkiserfingja, hirðar og vitringar hylla hann, en rétt í sömu andrá er þessi himneski prins kominn á asna lengst út í eyðimörk og enginn fjöldi himneskra hersveita kringum hann eins og á jólannótt, aðeins einn engill er nefndur og hann laumast til Jósefs í draumi með flóttafyrirmælin.“

Með vísan til að Jesús nam staðar á hraðferð sinni til Jersúsalem, staldraði við til að sinna blindum og vesælum manni við veginn, spyr Sigurbjörn okkur, hvort við höfum tíma til að tala við Guð:

„Til að mynda á morgnana, áður en dagsverkið byrjar? Fimm mínútur frammi fyrir augliti hans, – það er líklega of mikið fyrir flesta af þesari vinnusömu kynslóð. En flestir hafa tíma til þess að lesa blaðið sitt eða blöðin. Eða á kvöldin? Verður ekki lítill tími aflögu til þess að minnast hans? Þó að oftast sé einhver tími fyrir útvarpið. Og það er með mestu herkjum að manni tekt að skjótast í messu og eyða í það einni klukkustund á viku. Raunar er það allt of mikil tímasóun í slíku fyrir lang-langflesta á þessari tímalausu öld, – eða réttara sagt eilífðarlausu. Og svo er allt þetta þindarlausa kapphlaup við tímann vitatilgangslaust, því að það endar á einn veg fyrir oss öllum, tíminn nær þér og mér og vér gefumst upp og hann fleygir oss fram af brotinu, ofan í hylinn mikla og sökkvir oss og heldur síðan áfram, áfram, eins og vér hefðum aldrei verið til, en dropafall þess lífs, sem vér lifðum, bergmálar inn í eilífðina á eftir oss þeirri spurningu, hvaða stundum vér vörðum til þess að treysta sambandið við Hann, sem minntist tímans blindu barna og lagði sjálfan sig í sölur til þess að þau fengju sjón, eilífan bata, eilíft líf.“

Er hægt að nýta sér andstæður með öllu skýrara móti í þágu hins góða málsstaðar? Í útleggingu Sigurbjarnar um rangláta ráðsmanninn segir hvernig ráðsmaðurinn braut fjármálaheilann, hratt og skjótrátt gagnvart hugsanlegri uppsögn:

„Auðvitað varð hann að lifa áfram fínu lífi eins og áður. Ekki gat hann farið að stunda púlsvinnu, fínn og feitur eins og hann var orðinn. – Ugglaust torveldara að koma við vinnusvikum þá en nú. – Og að biðja ölmusu – ekki var það gott, hann að ganga í flokk skítugra róna, sem þvældust um Hafnarstræti þeirrar borgar og lugu sér út peninga út á eymd sína! Nei, hann mátti ekki fara í hundana, ekki hrapa ofan í sauðsvartan, siggbarinn heiðarleik, eða fara á vonarvöl framan í öllum. Hvað myndi konan segja, og ónefnda, dýra vinkonan, og spilafélagarnir.“

Sálgæslupredikun
Einkennandi stílbragð predikana Sigurbjörns er notkun „ég“ og „þú“ fornafnanna. Saga Jesú er ekki forn saga sem einhverjir urðu vitni að í týndri tíð. Sú saga er um þig. Saga baráttu Guðs er ekki almenn saga alheimsins eða smáþjóðar í fyrndri fjarlægð. Hún er saga þín. Dæmi úr heimi Biblíunnar, sagnir af kraftaverki, af ótrúlegum atburðum, af stjórnmálum eða vandkvæðum eru allt í einu innanhúsmál þitt, varða samskipti þín við maka þinn, börn, vinnufélaga, stöðu þína, leyndustu hugsanir þínar, fýsnir, best földu leyndarmál þín og grafin gull hjarta þíns. Predikun Sigurbjarnar verður svo áleitin vegna þessarar aðferðar hans að beina tali allt í einu í farveg einkasamtals. Og það gengur upp vegna þess að predikarinn var trúverðurgur. Hann hafði ljóslega glímt við málið. Hann var sannfærður um að þessi saga varði þig í þínu ástandi og sé lausn á vandkvæðum þínum. Vegna þess hversu innlifaður Sigurbjörn var bæði biblíulegum heimi og stöðu nútímamannsins varð þessi persónulega aðferð svo sterk. Ræðan hætti að vera hlutlæg, utan manns, ópersónulegt viðfangsefni, eitthvað sem menn geta metið og vegið í rólegheitum. Hún varð knýjandi, einkalegt eða persónulegt trúnaðarmál sem verður að taka afstöðu til, bregðast við sem manneskja en ekki út frá hlutverki, málstað, þjóðerni, pólitík eða einhverri hyggju. Ræður Sigurbjarnar urðu því sálgæsla í söfnuði og predikarinn staðgengill Guðs en ekki einhver upplesari almennra tíðinda eða trúarlegra veðurfrétta um miðja nótt. Þessar ræður sverja sig til hins lútherska arfs. Lúther taldi manninn í heiminum ekki eiga neinn hlutlausan sjónarhól sem fólki væri gefinn til að skoða gnægtabúr andans og velja úr. Ræða Guðs væri persónulegt tiltal sem bregðast yrði við með innsta inni mannsins.

Þaulhugsaður vefur
Því má bæta við varðandi samsetningu predikana Sigurbjarnar að þær eru ekki óskipulegt samtal. Þær eru vel unnar. Ég heyrði tilheyrendur Sigurbjarnar tala um að ræður hans væru góðar af því að hann hefði haft svo mikla hæfileika. Manninum Sigurbirni Einarssyni var vissulega margt gefið en það hristir enginn mikla predikun fram úr erminni fremur en að gott tónverk hrapi fyrirhafnarlaust á blað, snilldarmálverk máli sig sjálft eða organisti leiki Bachstykki svona annars hugar. Ég var nærri Sigurbirni í ræðugerðarham á kyrrðardögum í mörg ár og veit því hversu mikið hann lagði á sig fyrir jafnvel lítinn bút í ræðu, hversu djúpt hann kafaði, að hann reyndi þanþol eigin líkama og sálar til að magna innsæi og grandskoða mál sem hann braut til mergjar. Stefjum raðaði hann og endurraðaði, vinsaði úr og valdi. Svo var vinnunni, íhugun, samningu og endurvinnslu lokið með ítrekuðum yfirlestri eða yfirferð sem skilaði oft blaðalausri, persónulegri ræðu, sem virtist útlátalítil þó hún væri hittin og áleitin. Þegar ræður Sigurbjarnar eru vandlega lesnar sést flókinn vefur og smekkvís stefjavinnsla.

Guð og flóttamaður
Tvö meginstef eru í predikun Sigurbjarnar Einarssonar fyrr og síðar. Það er Guð annars vegar og maðurinn hins vegar. Sá maður er á flótta undan sjálfum sér, skynsemi sinni, samvisku, köllun og þar með einnig Guði. Í predikun um týnda soninn kemur skýrt fram að báðir synirnir voru týndir og á flótta. Annar var heima en fjarlægur föðurnum samt. Hinn var týndur í útlöndum. Sigurbjörn dró þessa flóttamenn saman í samfelluna þú og ég. Manngildið er algert af því Guð er svo altækur, natinn og marksækinn í elsku sinni. Í þessum texta tjáir Sigurbjörn vel guðsmynd sína og guðsafstöðu:

„Er Guð þá ekki sæll, hinn ríki, voldugi konungur alheimsins? Nei, ekki á meðan þú ert ekki sæll, ekki á meðan hann vantar þig, ekki á meðan hann, Guð þinn og Faðir, er þér ekki annað en nafn, óljós grunur, reikul þrá – á meðan er Guð hryggur, hryggur yfir þér. Það er fylgzt með þér úr himnunum. Mennina skiptir svo litlu, hvernig leið þín liggur, hver afdrif þín verða, hvernig líf þitt fer. Það skiptir Guð svo miklu. Því að Guð elskar. Hann er hirðirinn, sem finnst hann missa allt, ef hann missir einn. Hann er Faðirinn, sem aldrei getur gleymt barninu, sem fór burt. Hann getur skapað milljónir sólna í stað einnar, sem slokknar. Gæti hann ekki skapað þúsundir engla í stað eins manns, eins vesalings, eins syndara, sem villist, hrapar, tapast, ferst? Hvað er ein manneskja? Fljót eru spor hennar að hverfa, hvar sem hún gekk, fljót er hún að gleymast. Það er enda orðið lítið handarvik að afmá milljónir á andartaki. Og heimurinn gengur sinn gang eftir sem áður. Vér erum sem skuggar, er líða yfir veginn, sem fis er fýkur fyrir skjáinn. Einu færra eða fleira, hverju skiptir það: Það skiptir Guð. Ég, skugginn, fisið, skúmið, minna en ekki neitt í mergð milljónanna, margfaldlega minna en ekki neitt í geimi stjarnanna, fyrir fáum árum ekki til, eftir fáein ár gleymdur, eins og ég hefði aldrei verið til – það er grátið yfir mér í himnunum, ef ég týnist, það er glaðst yfir mér í himunum er ég finnst. Það er svo margt óskiljanlegt í Biblíunni, segja menn, og því er svo erfitt að trúa. Hér er það, sem mér finnst óskiljanlegast í Biblíunni, lengst frá því að vera skiljanlegt af öllu, sem ég hef kynnzt. Og að geta orðið viss um þetta, það er ekki skilningsatriði, heldur það blessað undur Guðs, sem heitir trú. Sá, sem hefur fengið hugboð um, hvað í því undri felst af náð, er ekki framar að gera sig merkilegan á kostnað Biblíunnar og kirkjunnar. Hann er þakklátari en svo fyrir að mega vita, að hið undursamlegasta er satt, að Guð er slíkur, sem Jesús Kristur birti hann, í orði og lífi og dauða, að Jesús Kristur er slíkur, sem kirkjan hefur vitnað um hann í lærdómum sínum og boðskap.“

Þetta ræðubrot – og hægt væri að veiða upp úr predikunum Sigurbjarnar líka og samhljóma texta – segir mikið um tvennuna manninn og Guð. Síðar í sömu predikun segir og dregið er saman:

„Jesús ætlaði öllum að sjá sjálfa sig sömu augum og hann sá þá. Hann sagðist vera kominn til þess að leita hins týnda og frelsa það. Hverra leitaði hann ekki? Hann leitaði allra, vildi frelsa alla. Allir voru týndir í augum hans, frávilltir. Vér sjáum mannkynið í mynd hinna tveggja bræðra. Guð er Faðirinn, vér börnin hans.“ „Sagan um glataða soninn birtir ekki sannleik sinn til fulls nema í skugga krossins. Þar sérðu gleggst, að sagan er einnig um þig. Og þú lofar Guð fyrir fullkomna soninn, sem gjörðist bróðir glataðra og fórnaði sér til þess að hjálpa þér heim.“

Gefast upp – ávinna allt
Ræður Sigurbjarnar eru öflugir kastarar sem beint er að hvers konar hrófatildrum sem við komum okkur upp í blekkingaræði. Sem sálfræði eru predikanirnar vel til þess fallnar til að láta renna af mönnum, rífa af okkur spjarir, opinbera sjálfumgleði okkar, hroka og hversu kengbogin við erum í sjálf okkur eins og Lúther orðaði það. Við erum engu minni fíklar en hinir sjúkustu í bullandi afneitun ef við viðurkennum ekki uppruna okkar í Guði, ef við viðurkennum ekki vanmátt okkar gagnvart hinum mestu og stærstu spurningum um sjálf okkur og heiminn, ef við þiggjum ekki lausnina og göngum leiðina. Þessu lýsir Sigurbjörn með umhyggju, nærfærni en ákveðni, vegna þess að viðmiðið er skýrt, ljóst og altækt. Guð biður menn að hætta að flýja staðreyndir, hætta að elta mýrarljós, hætta að rugla, hætta að reyna í eigin mætti og biður menn að stoppa, viðurkenna og þá jafnframt ávinna allt, líf, hamingju, tilgang, sanna mennsku – trúa á Guð. Þar með er mannlýsing Sigurbjarnar ekki sálfræði, rétt fíkilsfræði, túlkunarfræði, meðferðaraðferð eða heimspekikenning heldur kristindómur, djúpsæ trúarboðun, persónuleg játning um hvað reyndist honum, já milljónum fyrr og síðar, lausn alls vanda, tjáning þess að Guð er, Guð elskar, Guð leitar manna og hættir ekki, gefst ekki upp og svíkur aldrei. Saga Jesú er staðfesting þessa á allan hátt, í orði, verki, í öllum litum og tilbrigðum. Sigurbjörn dró sjálfur saman boðskap sinn í páskapredikun:

„Í upprisu Krists gerist það, að lífið í eiginlegustu, í fyllstu merkingu orðsins, Guðs eigið líf, ryður sér nýjan farveg inn í sköpunina, vinnur og auglýsir úrslitasigur sinn á þeim lífsspjöllum, þeirri eitrun lífsins, sem heitir synd, og markar örugglega stefnuna að því markmiði að útrýma öllum dauða úr tilverunni. Jesús segir ekki aðeins: Ég er upprisinn, heldur: Ég er upprisan. Hann segir ekki aðeins: Ég lifi. Hann segir: Ég er lífið. Hann leiðir ekki aðeins í ljós framhaldslíf handan líkamsdauðans, hann er sjálfur hið eina sanna líf og allt er komið undir því, bæði þessa heims og annars, að eiga hlutdeild í lífi hans. Það eitt er annað en skuggi, það eitt er himnesk, guðleg eilífð.“ (147)

Hin falska trú á manninn
Þetta er undiraldan, hafdjúpið í kennimennsku Sigurbjarnar. Hann óx og þroskaðist á tímum bjartsýni. Hann fór ungur utan og skildi skipbrot evrópskrar menningar í fyrri heimstyrjöldinni sem skolaði í land raunsæi heimspekinga, rithöfunda, sálfræðinga og guðfræðinga. Á Íslandi voru margir seinir til – kannski vegna sjálfstæðisbaráttu, bættra kjara og uppbyggingar og trúðu bláeygt á mátt og möguleika mannsins. Þetta kallaði Sigurbjörn „trúna á manninn“ og sveið mörgum prestum og velunnurum menningarinnar þessi nefning og boðskapur Sigurbjarnar. Þau gerðu sér ekki grein fyrir hvað valurinn við Verdun var óskaplegur og áfdráttarlaus dómur yfir menningu og einfeldni og hversu önnur heimsstyrjöldin var jafnvel óhjákvæmilegt framhald þess hildarleiks. Skarpskyggni Sigurbjarnar og rótfesta djúpt í heimi íslenskra trúarbókmennta gerði honum fært að endurflytja hinn klassíska kristna boðskap með mætti. Ástæða er einnig til að benda á hinar röklegu forsendur og menningargreiningu hans sem liggja einnig til grundvallar.

Jesúmyndin

Í prédikun Sigurbjarnar er ljóst að hann var náinn Jesú Kristi. Jesús var ekki aðeins björgunaraðili heldur leiðtogi, fyrirmynd og besti vinur hans. Tjáning Sigurbjarnar um Jesú Krist er djúp og fer langt að baki því sem hann myndi tjá um mennska veru. Jesúvitund og Jesúinnlifun Sigurbjarnar varðar guðlega nánd. Jesúmyndin tjáir guðsmynd hans. Jesús var honum hinn mildi, góði, agaði, einbeitti og fullkomni. Við vitum að þó Sigurbjörn væri gagnrýninn og skarpur greinandi gerði hann ekki uppreisn gegn klassískri guðfræðitúlkun. Hann hefði svarað einfaldri spurningu um guðfræði sína að hún rímaði við hefðbundna þrenningarkenningu kristninnar. En við sjáum svo í prédikunum og líka sálmum hina persónulegu tjáningu á sambandinu við Guð sem veitir okkur tilfinningu fyrir skynjun og túlkun prédikarans og skáldsins. Jesúmyndin er hin nána vinarmynd. Sigurbjörn vildi líkjast leiðtoga sínum, vera ásjóna hans, tjá veru hans og siðferði, afstöðu og mannvinsemd. Í mínum tengslum við Sigurbjörn lánaðist mér að sjá í honum Jesúmynd hans og þar með líka guðsmynd hans sem var í góðu samræmi við kirkjuræðurnar. Svo eru sálmar hans líka afar góð dæmi um afstöðu og tjáningu hans á þeirri mynd Guðs sem var uppteiknuð í hans sál.

Sigurbjarnarsálmar

Í hinni nýju sálmabók þjóðkirkjunnar eru hvorki meira né minna en 96 sálmar eftir Sigurbjörn af 811 sálmum – þe. tæplega 12% sálma bókarinnar. Sigurbjörn er orðinn sálmarisi Íslendinga. Sálmar Helga Hálfdánarsonar og Hallgríms Péturssonar eru mun færri í þessari Sigurbjarnarsálmabók. Skoðið þessa undursamlegu, persónulegu og litríku sálma hans. Sálmabókarhlutinn á kirkjan.is er góður til að fletta upp og lesa. Sálmarnir tjá hlýja guðsmynd elskunnar, Guðs sem gætir allra og blessar, en gengur ekki að neinum með offorsi heldur af umhyggjusamlegri virðingu. Í þeirri guðsmynd getum við líka séð Sigurbjörn sjálfan eða notað hann sem ásjónu. Hann notar náttúrutjáningar smekklega og með áhrifaríku móti. Ljós og hiti eru honum eðlilegar guðstjáningar og árstíðir notar hann gjarnan sem líkingar um sálarlíf og umbreytingar í lífi manna. Vetur er tákn hins þungbæra en svo umbreytist allt í lífskrafti vors og undri sumars. Vorstemming kemur t.d. fram í útfararsálminum Þótt líkaminn falli að foldu. Sigurbjörn var sálmaskáld ljóssins, dagrenningar, aftureldingar. Hann var prédikari upprisu og lífs þar sem hann talar og yrkir um að lífið batni, spíri, verði, fagni. Þegar ég fór að lesa prédikanir Sigurbjarnar að nýju og sálma hans nú í þessari yfirferð varð mér ljóst að öll þrætubókarlist er horfin í sálmum hans. Þeir eru ástartjáningar til Guðs annars vegar og hins vegar til heimsins sem guðselskan nærir og blessar. Sigurbjörn tjáir að allt væri honum tómt og dimmt ef Guð væri ekki. Í sálmunum er tjáð djúp trúarinnar og að ljós Guðs lýsir og er inntakið í möguleikum lífs, vaxtar og hamingju. Nokkrar sálmastiklur tjá þetta:

Ó, sól míns lífs, ég lofa þig

sem lífgar, frelsar, blessar mig

með guðdómsgeislum þínum.

Guðs míns kærleiks kraftur,

kom þú og ver mín sól.

 

Kom, himnesk sumarsól,

kom, sunna heilags anda,

sem endurfæðir allt

við efsta sólarlag.

Leiftra þú, sól, þér heilsar hvítasunna,

heilaga lindin alls sem birtu færir,

hann sem hvern geisla alheims á og nærir,

eilífur faðir ljóssins, skín á þig,

andar nú sinni elsku yfir þig.

Þorkell Sigurbjörnsson gerði dásamlegt lag við þennan stórkostlega hvítasunnusálm. Aðrir sálmar tjá birtunæmni Sigurbjarnar.

Þú, mikli Guð, ert með oss á jörðu,

miskunn þín nær en geisli á kinn.

Eins og vér finnum andvara morguns,

eins skynjar hjartað kærleik þinn.

 

Djúp er þín lind sem lífgar og nærir,

lófinn þinn stór, vort eilífa hlé.

Gjör þú oss, Kristur, Guðs sonur góði,

greinar á þínu lífsins tré.

Hið djúpa borið fram
Ég sat á rakarastofunni um daginn og vinur minn vissi að ég væri að fara að tala um Sigurbjörn. „Veistu“ sagði hann. „Ég les oft ræðu eftir Sigurbjörn á kvöldin til að fá næringu fyrir svefinn.“ Sigurbjarnarræður eru því ekki dottnar út heldur hafa í sér klassíska dýpt sem þolir áraun tímans. „Sigurbjarnarpredikanirnar munu fylgja mér allt lífið,“ sagði annar vinur minn. „Af hverju?“ spurði ég. „Vegna þess, að þær snerta tilfinningarnar“ svaraði hann og bætti við: „Ég hlustaði einu sinni á Sigurbjörn hugleiða það sem mér fannst heldur óyndislegt, rigningu. Þegar hann var búinn að ræða um rigninguna og benda á fjölmörg atriði sem ég hafði aldrei hugsað um hef ég ávallt síðan litið rigninguna velþóknunaraugum. Rigning er ekki rigning lengur, heldur margræður og trúarlegur veruleiki sem tjáir mér talsvert um Guð.“

Talað um Guð. Hallgrímskirkja 21. febrúar 2023.

Meðfylgjandi mynd SÁÞ af Sigurbirni Einarssyni. Sá litli er Jón Kristján og sat við hlið Sigurbjarnar og rannsakaði sessunaut sinn og kunni því vel þegar hönd hans var lögð mildilega á höfuð sveinsins.

Ég trúi ekki heldur á þann Guð

Hvar var Guð í jarðskjálftunum í Tyrklandi og Sýrlandi? Hvar er Guð í þessu andstyggilega árásarstríði Rússa í Úkraínu? Hvar er Guð þegar þér líður illa og verður fyrir olbeldi? Er Guð ábyrgur fyrir þessum ósköpum? Er Guð ekki almáttugur? Er Guð jafnvel vondur?

Að tjá Guði sterkar tilfinningar og æpa reiðilega til Guðs hafa menn allra alda iðkað. Leikarinn Stephen Fry var einu sinni spurður í sjónvarpsviðtali hvað hann myndi segja ef hann dæi og hitti Guð? Fry sagði að hann myndi spyrja hvernig Guð dirfðist að skapa heim sem í væri svo mikil þjáning sem menn bæru enga ábyrgð á. Í framhaldinu velti Fry upp af hverju hann ætti að virða illan, heimskan guð sem skapaði veröld sem væri svo full af óréttlæti og þjáningu? Niðurstaða Fry var að Guð væri sturlaðaður og sjálfselskur. Það var hiti í þessum ummælum og sársauki, nánast Jobsbókarfuni. Stephen var allt í einu í nýju hlutverki, nýrri senu við Gullna hliðið og hellti úr reiðiskálum sínum yfir Guð. Hugrakkur maður sem mótmælir illum einræðisherra. Hvernig lyki slíkri senu og svar Guðs væri áhugavert. En er það Guð sem Fry á orðastað við? Er Guð svona illur?

Hverjum að kenna?

Þegar við verðum fyrir böli, sjúkdómum og hryllilegri reynslu möglum við. Hver ber sökina? Oft kennir fólk Guði um. Hvar er Guð þegar dauðinn slær? Er bölið Guði að kenna? Er Guð að leika sér að heiminum? Er það Guð sem ýtir á snjóflóðið sem steypist yfir byggð manna og fjöldi fólks ferst? Er það Guð sem sendir brotsjó yfir skip og allir farast? Er það Guð sem býr til krabbameinsfrumur í fólki svo það deyr? Ef það er Guð sem gerir þetta þá hefur Stephen Fry ekki aðeins rétt til að hrauna yfir Guð heldur líka rétt til að kalla Guð illan. Slíkur Guð er hvorki góður né tilbeiðsluverður.

Í tvo áratugi hef ég spurt yfir þúsund fermingarungmenni í Reykjavík spurningarinnar um hverjum bölið sé að kenna. Eru sjúkdómarnir og hryllilegir atburði sök Guðs? Stephen Fry telur að svo sé en fermingarbörn í Reykjavík mun síður. Það er kraftur í ákæru hans en ég held að hann misskilji guðsmynd kristininnar. Af hverju? Ein af meginástæðunum er misskilningur á valdi. Margir telja að guðsmynd kristninnar sé gegnsýrð valdi. Vissulega hafa valdasæknir menn allra alda séð í Guði máttarvald og túlkað það vald sem einræðisvald sem allir ættu að hlýða skilyrðislaust. Og vísa til postulegu trúarjátningarinnar þar sem játuð er trú á almáttugan Guð. En hvað þýðir almætti? Fólk sem reynir að skilgreina tilveruna fremur ómúsíkalskt misskilur svona orð og heldur að almætti merki einfaldlega að nota vald til að ráða öllu, alltaf, alls staðar og í öllum málum. En almætti Guðs er annarar merkingar. Almætti Guðs er ekki skilgreining á hver Guð er heldur á afstöðu trúmannsins til Guðs. Trúarjátning er ekki lagatexti, vísindaformúla heldur tjáning á djúpu og persónulegu sambandi. Trúarjátning er ástarjátning. Í bænum trúmanna og söng safnaðar Guðs í helgihaldi er trú játuð með tjáningu, rétt eins og ástfangið fólk hvíslar ástarorð í eyru ástvinar. Ef þú hefur einhvern tíma elskað og notið ástar veistu hve dásamlegt er þegar ástvinir baða hvern annan með gífuryrðum elskunnar. Almætti er ekki um mátt heldur ást.

Fólk er gjarnan upptekið af valdi – hinu ytra toppavaldi. Það er annað vald en vald elskunnar. Fólk sækist í að stjórna, verða hluti af yfirvaldi, fjármálavaldi og stjórnvaldi. Í guðspjalli dagsins kemur fram að lærisveinar Jesú voru uppteknir af því hver þeirra hefði náð lengst, hver þeirra væri á toppnum. Þeir töluðu um þetta sín í millum og voru í samkeppni um vald. Þá notaði Jesús tækifæri til að kenna þeim eðli hins guðlega valds. Vald í heimi Jesú er ekki að vera á toppnum og láta þjóna sér. Jesús tilkynnti sínu liði að eðli valds væri að þjóna öðrum. Hann léti ekki þjóna sér heldur gengi í þjónustustörfin. Það ættu þeir líka að gera. Þar með umbreytti Jesús öllu, endurskilgreindi allt, sneri öllu á hvolf og breytti heiminum. Trú er ekki það að ná völdum heldur að lifa í tengslum við ástvinin Guð. Vald Guðs er ekki í þágu stjórnar heldur persónulegra tengsla og næringar lífs. Almáttugur Guð er Guð elskunnar. Ef við játumst svo róttækri hugsun förum við að skilja erindi, orð og gerðir Jesú Krists og guðsafstöðu hans. Sagan af Jesú er ekki fólgin í valdi heldur barni. Guð í Jesú Kristi er ekki sigursæll stríðsguð heldur hæddur, hjálparlaus Guð, deyjandi á krossi. Það er ekki mikið “almætti” þar – eða hvað?

Hvaða valdi viltu fylgja, æðstu strumpum veraldar eða valdi þjónustunnar. Viltu vera mestur, æðstur, bestur og stærstur eða viltu beygja huga og hné frammi fyrir hinu mjúka og sveigjanlega áhrifavaldi elskunnar? Ef svo – ja, þá ertu farinn að taka þátt í að umbylta valdastigunum veraldar.  Ég held að í ljósi slíks skilnings getum við nálgast reiðilestur Stephen Fry með jákvæðum hætti. Hann er á móti ofurvaldi Guðs. Hann mótmælir hinum alráðandi valdsguði. Og er það svo hræðilegt? Nei, það er skiljanlegt og eðlilegt. Og kannski kemur á óvart að Fry, þú og allir mótmælendur ofurvalds og böls eiga sér líka marga fulltrúa í Biblíunni. Job sem sagt er frá í Jobsbók og aðrir höfundar sálma biblíunnar hafa möglað og mótmælt allsráðandi Guði og molað þar með úr slíkri guðsmynd. Stephen Fry trúir ekki á valdagírugan Guð og getur ekki trúað á hann. Ég trúi ekki á slíkan Guð heldur. Jesús var ekki í neinu sambandi við slíkan Guð. Hann er ekki til, var ekki til og verður aldrei til nema í hugum þeirra sem sækja í vald og hafa eigingjarna þörf fyrir slíkan valdsguð.

Myndin af Guði

Guðsmyndir manna eru gjarnan tjáning á þrá og því klisjur. Guð er gjarnan samsafn drauma og óttaefna mennskunnar. Guð er frumljóð manna. En þegar við skiljum manngerðar klisjur getum við betur skilið að Guð er ekki með stýripinna eða putta á efnaferlum, snjóflóðum eða krabbameinum veraldar. Guð er ekki harðstjóri einhverra hungurleika mannanna. Valdsæknir henda upp á himininn eigin ímynd í bólginni yfirstærð til að geta síðan réttlætt eigið vald, eigin grimmd eða eigin hrylling. Slíkur Guð er ekki Guð kristninnar. Og gagnrýnendur slíkra grunnra klisjuhugmynda hafa rétt fyrir sér. Þannig Guð væri hræðilegur.

Guð kristninnar ýtir ekki af stað snjóflóðum eða lætur börn deyja og fólk missa ástvini. Ég vil ekki trúa á hann. Ég trúi ekki að slíkur Guð sé til. Slíkur Guð væri fáránlegur. Sá Guð sem ég þekki er bæði mennskur og guðlegur og hefur reynslu af lífi og þjáningu heimsins. Guð sem Jesús Kristur tengir okkur við er ekki hátt upp hafið vald sem bara skiptir sér af í stuði eða reiðikasti. Guð er lífgjafinn sjálfur og er jafn nálægur í gleði og í böli. Í hryllilegum aðstæðum hvíslar Guð í eyra þér: „Ég er með þér, nærri þér.“ Fólk sem missir börn sín en heldur áfram að trúa á Guð lifir fremur í ástartengslum við Guð en valdauðmýkt. Einkenni heilbrigðs guðssambands er frelsi. Í slíku trúarsambandi er Guð ekki lengur sá sem skipar eða veldur heldur hefur áhrif og er nærri. Í stað þess að stýra fólki eins og leikbrúðum er Guð nærri í öllu lífsferli manna og í náttúrunni líka. Guð sullar ekki sjálfur efnum, heldur skapar kjöraðstæður og laðar til farsældar.

Guð vill ekki vera ofurstjóri heimsins heldur elskhugi veraldar. Guð beitir þig ekki ofstjórn og þaðan af síður ofbeldi, heldur er þér andlegt fang til hjálpar. Guð kristninnar er Guð frelsis og nándar. Jesús segir: „En ég hef beðið fyrir þér að trú þín þrjóti ekki.“

Amen.

Meðfylgjandi mynd sáþ – góðviðrisdagur við Skerjafjörð

A few words on the sense of the sermon. Where is God in wars, avalanches, earthquakes, disasters and tragedies. Is God responsible? Is that the meaning of almighty? Those accusing God for being cruel are right if almighty means causing everything. But the so-called attributes of God are not philosophical definitions of God but rather statements of love and utterings of veneration. God‘s way of dealing with the world is not to exercise power but rather to love. I don‘t believe in a cruel despot. That type of a tricky god is not worthy of trust or faith. The God Jesus Christ revealed is a caring and loving being not causing evil but supportning humans and life fighting evil. God is not the tyrant of the world but rather the lover of the world.

  1. sunnudagur í föstu.

Lexía: 1Mós 4.3-7

Einhverju sinni færði Kain Drottni fórn af ávexti jarðarinnar. Abel færði einnig fórn af frumburðum hjarðar sinnar og feiti þeirra. Drottinn gaf gaum að Abel og fórn hans en leit ekki við Kain og fórn hans. Þá reiddist Kain mjög og varð þungur á brún. Drottinn sagði við Kain: „Hví reiðist þú og ert þungur á brún? Er ekki svo að þú getur verið upplitsdjarfur ef þú gerir rétt, en gerir þú rangt þá liggur syndin við dyrnar? Hún girnist þig en þú getur sigrast á henni.“

Pistill: Jak 1.12-16

Sæll er sá maður sem stenst freistingu og reynist hæfur. Guð mun veita honum kórónu lífsins sem hann hefur heitið þeim er elska hann. Enginn má segja er hann verður fyrir freistingu: „Guð freistar mín.“ Hið illa getur eigi freistað Guðs og sjálfur freistar hann einskis manns. Það er eigin girnd sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir. Þegar girndin síðan er orðin þunguð elur hún synd og þegar syndin er orðin fullþroskuð leiðir hún til dauða.
Villist ekki, elskuð systkin.

Guðspjall: Lúk 22.24-34

Og þeir fóru að metast um hver þeirra væri talinn mestur. En Jesús sagði við þá: „Konungar þjóða drottna yfir þeim og valdhafar þeirra kallast velgjörðamenn. En eigi sé yður svo farið heldur sé hinn mesti yðar á meðal sem væri hann yngstur og foringinn sem þjónn. Því hvort er sá meiri sem situr til borðs eða hinn sem þjónar? Er það ekki sá sem situr til borðs? Samt er ég meðal yðar eins og þjónninn.
En það eruð þér sem hafið staðið með mér í freistingum mínum. Og yður fæ ég ríki í hendur, eins og faðir minn hefur fengið mér, að þér megið eta og drekka við borð mitt í ríki mínu, sitja í hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.
Símon, Símon, Satan krafðist að fá að sælda yður eins og hveiti svo að hismið kæmi í ljós. En ég hef beðið fyrir þér að trú þín þrjóti ekki. Og styrk þú trúsystkin þín þegar þú ert snúinn við.“ En Símon sagði við hann: „Drottinn, ég er reiðubúinn að fylgja þér bæði í fangelsi og dauða.“ Jesús mælti: „Ég segi þér, Pétur: Áður en hani galar í dag munt þú þrisvar hafa neitað því að þú þekkir mig.“

 

Guðlaugur Stefánsson – minningarorð

Guðlaugur kom hjólandi að Ísaksskóla. Þar beið dótturdóttir hans í ofvæni eftir afa. Hann sveigði upp að skólanum, steig af hjólinu og tók á móti stúlkunni fagnandi. Henni fannst afi vera eins og frelsari sem bjargaði henni úr skólanum. Það eru fleiri slíkir en á hvítum hestum. Svo kom Guðlaugur mjúkum poka fyrir á bögglaberanum til að sæti dömunnar yrði sem þægilegast. Svo kom hún sér fyrir og þau fóru af stað. Þetta var þeirra ferð og gæðastund. Það var gaman þegar afi kom, að halda í hann og líða svo um heiminn, horfa á hús, bíla og mannlíf og vita að kaka biði heima hjá ömmu og afa. Svo sást fjölskyldutréð, hlynurinn í garðinum við Fjölnisveg og þá voru þau komin á leiðarenda. Engir hjálmar – en aldrei duttu þau eða lentu í áföllum. Þetta voru hamingjuferðir. Guðlaugur var traustsins verður, gætinn, glöggur og glaður. Svo þegar afastúlkan hugsar til baka þá voru þessar reisur þeirra góðar ævintýraferðir.

Þetta er ein af mörgum sögum sem ég hef heyrt um valmennið Guðlaug, um ferðirnar hans í þágu fólks og lífs, lífsreisur hans með Lilju, börnum hans, afkomendum og ástvinum. Guðlaugur þjónaði líka nemendum sínum og menntun og menningu þeirra sem hann bar ábyrgð á, hvort sem það var fyrir austan, hér syðra eða í þeim hópum og greinum sem hann tengdist.

Upphaf

Upphaf Guðlaugs var í Eyjum en svo fór hann austur barn að aldri. Hann var sumarmaður, fæddist í Vestmannaeyjum 12. júlí árið 1936, elstur í systkinahópnum. Foreldrar hans voru hjónin Stefán Pétur Pétursson og Halla B. Guðlaugsdóttir. Þau eignuðust þrjár systur eftir að skrákurinn fæddist. Elst systranna er Halla Valgerður sem kom í heiminn 1937, ári á eftir Guðlaugi. Þar á eftir fæddist systir árið 1942 en hún lést aðeins fjögurra mánaða gömul. Hvaða skuggar settust að í heimilislífinu og hvernig var unnið úr sorginni? Það vitum við ekki en mynd af henni í kistunni var til á heimilinu – en ekki um hana rætt. Svo kom gleðigjafin Stefanía árið 1947.

Guðlaugur sótti skóla í Neskaupstað. Lífið í bænum var fjörmikið. Sundlaugin var tekin í notkun 1943 og varð miðstöð yngri sem eldri bæjarbúa, gleðigjafi og sundiðkendum heilsubót. Guðlaugur varð snemma afburða sundmaður. Þeir félagarnir í Skyttunum þremur kepptu í sundi. Alla tíða þótti Guðlaugi gaman að synda og hann sótti í vatnið. Síðustu árin sóttu þau Lilja í sundlaugina í Laugardal. Guðlaugur varð snemma fjölhæfur íþróttamaður og keppti á unglingsárum í frjálsum íþróttum og einkum hlaupum. Alla tíð sinnti hann heilsurækt sinni dyggilega. Hann var líka valinn til forystu í félagsmálum og var um tíma formaður íþróttafélagsins Þróttar í Neskaupstað. Eftir hann liggja m.a. ritsmíðar á þess vegum og um íþróttir.

Stefán, faðir Guðlaugs, var vélstjóri og sjómaður. Vegna sjósóknar var hann löngum fjarri heimili. Halla, móðir hans, var dugmikil líka og eina vertíðina var hún í Sandgerði og sonur hennar var þar með henni. Guðlaugur lærði því snemma að bjarga sér, sjá um sig og sína. Hann varð sjálfbjarga og sjálfstæður.

Framhaldsskóli og nám

Guðlaugur tók stefnuna á hinn nýja Menntaskóla á Laugarvatni. Þá tóku við mótunar- og menntaár. Hann las ekki aðeins bækur, lærði fyrir tíma og glósaði danska og þýska texta heldur straujaði skyrturnar sínar og festi lausar tölur. Hann hafði gaman af námi og lífi, var góður námsmaður, kom sér vel, lagði gott til allra og var góð fyrirmynd samnemenda sinna. Stúdentshúfan fór á kollinn hans vorið 1956. Hann var hæfileikaríkur, gat margt, íhugaði möguleika og stefnu og í honum bjó líka útþrá. Þýskan togaði og hann fór til náms í þýsk-dönsku borginni Kiel. Svo athugull og skipulagður sem Guðlaugur var sá hann hve illa borgin hafði verið leikin af skelfingum seinni heimsstyrjaldar. Veran í Kiel varð til að Guðlaugur markaði sér fræðasvið. Hann valdi þýsku og dönsku, lauk kennaraprófi frá stúdentadeild Kennaraskólans árið 1960 og síðan BA-prófi þremur árum síðar eða 1963. Svo varð kennslan meginstarfi Guðlaugs þaðan í frá. Skólastjórinn í Vogaskóla hafði samband við hann og bað hann að koma til starfa sem hann gerði og kenndi þar í áratug eða til 1972. Svo var Menntaskólinn við Tjörnina stofnaður sem hleypti miklu lífi í miðborgina. Þangað fóru dugmikilir kennarar til starfa og Guðlaugur var einn þeirra. Hann kenndi þýsku í MT og fór síðan með kollegum sínum inn í Sund þegar MT varð að MS, Menntaskólanum við Sund. Guðlaugur kenndi einnig þýsku í MS til starfsloka árið 2006. Öllum kom Guðlaugur til nokkurs þroska. Hann var öflugur og hæfur skólamaður, góður félagsmálamaður og var því eftirsóttur til ýmissa starfa. Guðlaugur var flokksstjóri Vinnnuskólans í Reykjavík í mörg sumur og kenndi að auki um tíma í Námsflokkum Reykjavíkur.

Lilja og heimilið

Svo var það ástin og fjölskyldan. Guðlaugur og Lilja Jóhanna Gunnarsdóttir elskuðu hvort annað. Ást þeirra lifði öll árin þeirra. Þau gengu í hjónaband í Háskólakapellunni laugardaginn 16. júní 1962. Það er við hæfi að minna á að þann dag sem þau sögðu já við hvort annað var efst á vinsældalistanum í Bandaríkjunum hið dásamlega lag um ástina – I can‘t stop loving you í flutningi Ray Charles. Jáin þeirra voru staðföst og til framtíðar og þau hættu aldrei að elska. 

Guðlaugur og Lilja sáust fyrst í Lídó á fullveldisdeginum 1. desember 1961 og Lilju varð starsýnt á hinn vörpulega unga mann. Svo hittust þau á Garðsballi og fóru að dansa. Þau tóku falleg spor á gólfinu, fundu taktinn og dönsuðu sig til ástar sem lifði í sex áratugi. Þau hættu aldrei – stoppuðu aldrei – að elska hvort annað. Þau hófu búskapinn í fjölskylduhúsinu á Fjölnisvegi 15 og bjuggu þar alla tíð og nutu samvistanna við tengslafólkið í húsinu. Svo byggðu þau við húsið og bættu aðstöðu fyrir íbúana.

Stefán fæddist í nóvember 1962 og Jórunn Sjöfn kom í heiminn í febrúar árið 1967 og Halla Sif tólf árum síðar – í ágúst 1979. Þau fengu því öll rými, elsku og næði til þroska. Dóttir Jórunnar er Lilja Rut og hún á soninn Benedikt Búa með Eiríki Inga Lárussyni. Synir Höllu eru Daníel Snær; Anton Örn og Tómas Ari og þeir eru synir Jesús Rodríguez.

Húsið í skjóli fjölskylduhlynsins var hús ástar og vaxtarreitur kærleikans. Guðlaugur bar virðingu fyrir Lilju sinni, treysti dómgreind hennar, tók tillit til þarfa hennar og afstöðu og mat ráð hennar. Þau voru samrýmd og samstiga í lífinu. Sambúð þeirra var gæfusöm og hamingjurík.

Minningarnar

Hvernig manstu Guðlaug? Hvað var það sem hann sagði við þig sem sat í minni þér? Hver er skemmtilegasta minning þín um hann? Hvað kenndi hann þér? Manstu hve vel hann skrifaði og hve skrautskriftin hans var glæsileg? Nemendur og kollegar hans hafa sagt frá hve öflugur skólamaður og stöndugur kennari Guðlaugur var. Mannvirðing var honum í blóð borin. Hann var hlýr, orðvar, dagfarsprúður og kurteis í samskiptum við nemendur sína og samverkafólk, hvatti til dáða án nokkurs hávaða og kom hugmyndum sínum og skoðunum á framfæri með hlýju og lagni. Með því lagi þokaði hann málum fram.

Guðlaugur var vinnusamur. Honum var það gefið þegar í uppvexti frá foreldrum og samfélagi. Hann lærði af föður sínum smíðar og viðgerðir. Hann var laginn til verka og var sjálfbjarga um fleira en tölur og við straubretti. Heima dittaði hann að og smíðaði – jafnvel innréttingar. Nemendur gátu verið vissir um að Guðlaugur byggi til glósuhefti til að létta þeim vinnu í glímunni við þýskuna. Í sólbaði féll honum jafnvel ekki verk úr hendi heldur notaði yndisstundirnar til gefandi verka. Garðurinn naut hans ríkulega og ber alúð íbúanna vitni og atorku Guðlaugs sem þótti gott beita sér í útiverkunum við slátt, verk og snjómokstur.

Guðlaugur hafði auga fyrir umhverfi sínu. Hann fékk áhuga á ljósmyndun og tók mikið af myndum sem skrásettu og varðveita sögu hans og fjölskyldu. Svo hafði hann áhuga á tónlist og ekki síst jazz og hlustaði á Benny Goodman, Ellu Fitzgerald eða Lois Armstrong. Fegurðarskynið náði líka til handanna því hann var einnig drátthagur og ljómandi teiknari. 

Guðlaugur var alla tíð áhugasamur um útivist og íþróttir. Hann sótti íþróttaviðburði hvort sem það var nú leikur Eusebio og Benfica við Val eða skákmót Spasskys og Fishers. Hann var alla tíð léttur á fæti og gekk gjarnan á fjöll með vinum sínum um helgar. Þeir félagar voru vel heima á Vífilfelli, Helgafelli og í Jósepsdal. Þau Lilja gengu líka gjarnan saman í Öskjuhlíðina, á Mosfell eða eitthvað annað sér til heilsubótar og gleði. Guðlaugur hafði lært í bernsku að heilbrigð sál býr í hraustum líkama. Hann hafði alla tíð þörf fyrir loft í lungu og góðan félagsskap. Svo hvatti hann börn sín til heilsuræktar og fór með fjölskylduna á skíði og í sund.

Guðlaugur var reglumaður í öllu. Lágt vetrarsólskinið opinberaði ekki ryk á heimili þeirra Lilju. Hann sótti gjarnan ryksuguna ef þörf var á og sá til að allt væri í röð og reglu. Guðlaugur var opin og aðlagaðist þörfum hvers tíma. Hann tók tillit til annarra í fjölskylduhúsinu. Og þegar aðstæður breyttust var hann fús að sinna nýjum hlutverkum. Hann var ekki gamaldags húsbóndi sem var fastur í farinu heldur brást við með skapandi hætti. Þegar börnin komu í heiminn eldaði hann og axlaði líka ábyrgð á heimilisrekstrinum. Þegar Lilja þurfti að nota bílinn tók hann bara hjólið og fór í sína vinnu. Reglumaðurinn var opinn, sveigjanlegur, tillitsamur og aðlagaðist. Í vinnu vann hann með fólki og þoldi vel breytingar og þróun skólanna sem hann þjónaði. Guðlaugur var í mörgu á undan sinni samtíð. Pólitísk stefnumál var hann til í ræða og breyta um skoðun ef hann heyrði góð rök. Kynhlutverk og venjur voru eitthvað sem Guðlaugur einfaldlega vann með í þágu konu sinnar, fólksins síns og annarra. Við erum ekki eyland heldur í tengslum. Hlutverk okkar mega vera fljótandi og breytast til að tryggja gott líf, vöxt og gjöfula menningu. Guðlaugur er fyrirmynd okkur hinum.

Inn í eilífðina

En nú er Guðlaugur farinn inn í heiðríkjuna. Líf hans var góð guðsþjónusta. Hann skildi eftir þekkingu, visku og elsku í sál og lífi fólksins síns. Það verða ekki fleiri helgarkaffi eða samverur með honum en minningarnar um hann lifa. Handaverkin hans sjást í og við Fjölnisveg 15. Guðlaugur skrifar ekki framar á fjölda útskriftarskírteina MS en falleg rithönd hans sést í Biblíum barna hans. Hann mokar ekki framar skafla af stéttinni og engin handryksuga fer framar á loft til að hreinsa upp confetti-snifsin á gamlárskvöldi! Hann fer ekki framar í sund eða smellir mjúkum poka á bögglabera. Við vitum ekki hvort það verða einhver DBS-reiðhjól á eilífðarbrautunum en engin far- eða ferðabönn verða. Guðlaugur horfir ekki framar hlýlega á Lilju sína, börnin eða fjölskyldu. Nú er hann farinn inn í ljósríki himinsins. Öll stríð eru að baki og hann fær að hvíla í skugga einhvers himnesks fjölskylduhlyns – og blessa Lilju, börnin sín, ástvini og félaga.

Þökk fyrir líf Guðlaugs. Guð blessi hann og geymi – og líkni ykkur ástvinum.

Lagt út af kærleiksóði Páls í 1. Korintubréfi 13 og leiðarlýsingu Jesú í Jóhannesarguðspjalli 14. Kistulagt í kapellunni Fossvogi 21. febrúar. Útför Hallgrímskirkju 24. febrúar kl. 15. Bálför. Jarðsett í Fossvogi 9. mars. Erfi í Þingholti á Hótel Holt. Útfararstofa kirkjugarðanna. Óskar Einarsson, tónlistarstjóri. 

Pönnusteikt rauðspretta / eða lúða

Ég elda þessar vikur rauðsprettu, lúðu eða kola á föstudögum. Sem sé pizzan á útleið og fiskur á innleið. Ljómandi skipti og allir kátir. 

Fyrir 4

800 g rauðspretta (roðflett) eða lúða eða koli
2 egg
2 dl hveiti
Salt, pipar og ofurlítið estragon eftir smekk
140 gr smjör

1 dl hvítvín
2 msk safi úr sítrónu
4 hvítlaukslauf kramin
3 dl rjómi
2 msk kapers
30 ólífur eða eftir smekk
Fersk steinselja

Kartöflur
1/2 kg kartöflur
2 msk ólífuolía

2 hvítlaukslauf kramin
Salt, pipar og ½ tsk kúmen

1 dl Parmesanostur

Aspargus

2 hvítlaukslauf kramin. 1 búnt aspargus. Snyrt og síðan gufusoðin í nokkrar mínútur. Síðan steikt í smjöri og hvítlauk á pönnu. Saltað og piprað.

Salat

Grænt með og má gjarnan gefa grænu salatinu uppfrískum með einhverju litríku með t.d. með granateplum og bláberjum

Aðferð

Skerið kartöflur fremur smátt. Blandið saman ólífuolíu, hvítlauk og kryddi og hellið yfir kartöflurnar. Veltið til að kryddölgurinn þeki þokkalega. Setjið í eldfast fat og bakið í ofni við 200°C í 20 mínútur eða þar til kartöflurnar eru fullbakaðar. Á meðan þær eru í ofninum er fiskurinn matreiddur.

Skerið fiskinn í bita og kryddið og veltið úr hveiti. Pískið egg í skál og veltið bitunum upp úr eggi og að lokum aftur upp úr hveiti.

Bræðið smjör á pönnu og steikið fiskinn í smjörinu í 3-4 mínútur á hvorri hlið eða þar til gyllt húð er mynduð á fiskinum.

Bætið ólífum, kapers, hvítvíni, safa úr sítrónu og hvítlauknum út í. Leyfið að malla í 1 mínútu. Bæta síðanrjóma út í. Leyfið að malla í nokkrar mínútur.

Parmesan ostur yfir kartöflurnar og steinselja yfir fiskinn.

Aspargusinn eldaður um leið og fiskurinn er steiktur.

Sanserre með. Pinot Grigio eða Sauvignon Blanc ganga líka ágætlega.

Þökkum Drottni því hann er góður og miskunn hans varir að eilífu.

Guðsmynd Vídalínspostillu

Verið velkomin til þessar fræðslusamveru Talað um Guð. Hallgrímskirkja er dásamlegt hús til að tala við Guð og líka vettvangur til að tala um Guð. Í síðustu viku var fjallað um guðsmynd Hallgríms Péturssonar. Þar kom fram að Hallgrímur hefði uppteiknað guðsmynd sem túlkuð var með áherslu á hinn líðandi konung. Kenning Hallgríms var hin ágústínska-lutherska hefð sem er dramatísk guðfræðihefð með áherslu á baráttu góðs og ills. Sá Guð sem Passíusálmar túlka er ekki Guð hátignar, fjarri lífsbaráttu manna í þessum heimi – heldur þvert á móti Guð sem lætur sér annt um veröldina, sköpun sína, að Guð kemur sjálfur – gefur eftir hátign sína og konungvald og kjör manna verða kjör hans í heimi. Hann er kaghýddur eins og Halldór Laxnes komst að orði. Jón Vídalín tók við af Hallgrími. Hann virti Hallgrím mikils, vitnaði til hans og notaði kveðskap hans við upphaf postillunnar. Gef þú að móðurmálið mitt, minn Jesú þess ég beiði, …

En Jón Vídalín lifði á öðrum tíma en Hallgrímur. Hann var ekki skáldið og prestur í sveit heldur kirkjuleiðtoginn, fræðimaðurinn og pólitíkus. Hvernig skyldi Jón Vídalín túlka og hver er munur hans og Hallgríms? Að því verður vikið en líka síðar í þessari röð fræðslusamvera.

Vídalínspostilla og Guð

Jón Þorkelsson Vídalín var maður tveggja alda. Hann fæddist á Görðum á Álftanesi að 21. mars árið 1666 og lést ofan Þingvalla á leið vestur á Snæfellsnes 30. ágúst árið 1720. Hann var og er einn af ræðusnillingum Íslands. Postilla hans er höfuðverk í ræðusöfnum Íslendinga og sýnisbók um list mælskufræði. Prédikanir hans voru lesnar í heimahúsum þjóðarinnar á helgidögum. Efni bókarinnar varð því kunnugt fólki. Eldibrandar og elskuyrði Vídalíns flugu og kveiktu bál í hugum, sókn til réttlætis og ástar til manna og Guðs. Mörgum þótti Jón Vídalín kjöftugur. Hann kunni jú vel fræðin og barokk varð að list fagurkerans, hugsuðarins, guðfræðingsins, baráttumannsins og guðsþjónsins. Í skólaskorti tíðarinnar varð þessi mikla bók ekki aðeins þekkingarbrunnur heldur var hún lestrarnámsbók þúsunda. Sum notuðu bókina til að stauta, önnur fylgdust með texta þegar lesið var og margar kynslóðir Íslendinga lærðu að hugsa með höfundinum. Jón Vídalín hafði gífurleg áhrif í tvær aldir. Nú eru meira en þrjú hundruð ár frá dauða hans við Biskupsbrekku norðan Þingvalla en erindi hans er ekki tæmt. Það er bergmál frá Vídalínspostillu í íslenskum bókmenntum og menningu.

Guðsmyndir

Trúarreynsla fólks er fjölbreytileg og svo hefur verið um allar aldir. Guðsreynsla fólks litast af persónugerð, hefðum sem fólk hefur verið alið upp í og lifir við. Svo skiptir kyn, aldur og reynsla líka máli. Sumir telja sig upplifa guðsáhrifin skýrast í náttúrunni. Aðrir verða fyrir sterkri blessunarreynslu sem breytir lífsafstöðu. Enn aðrir eru tilbúin að láta túlkunarkerfi og hóp móta sig og þar með trúarskilning. Hver er Guð og hvernig er hægt að tala um Guð? Hefur einhver skilið Guð? Við þær spurningar hafa trúmenn glímt, vitandi að skynsemi manna og skynjun eru takmörkuð. Við erum ekki alvitur og því er guðfræði okkar ekki og verður aldrei fullkomin lýsing Guðs. Við þekkjum okkur sjálf ekki fullkomlega, undirvitund okkar eða hræringar líffæranna. Við þekkjum ekki algerlega tilfinningar og hugsun maka eða barna okkar. Ef við þekkjum ekki sjálf okkur og fólkið okkar getum við ekki haldið fram að við þekkjum Guð fullkomlega.

Við notum gjarnan líkingar þegar við tölum um Guð. Við tölum um Guð sem ljós eða sem ást. Guði er lýst sem konungi, föður, dómara eða móður. Í Biblíunni er ríkulegt líkingasafn um Guð sem trúmenn í þúsundir ára hafa notað, endurunnið og bætt við. Trúmenn slípa stöðugt nýjar líkingar sem hæfa hverri samtíð til að nálgast eða tjá Guð, opna nýjar æðar skilnings og tilbeiðslu. Líkingar eru börn hvers tíma, sterkar líkingar daprast og veiklast í umróti menningar og sögu. Jafnvel líkingar um Guð hverfa ef þær ná ekki að kveikja ljós trúar, skilnings og tilbeiðslu. En þó líkingar eða lýsingar á Guði daprist eða deyji jafnvel veiklast Guði ekki þar með – heldur breytist trúar- og guðstúlkunin. Mannfólkið heldur áfram að þrá Guð þótt guðslýsingarnar breytist. Guðstrú er alls konar.

Vídalín og líkingarnar

Þá að postillunni. Jón Vídalín sagði margt um Guð. Hann var sér vel meðvitaður um orð og hugtök sem hann batt saman í samfellda mynd af guðdóminum. Vídalín var vissulega trúarrisi en líka barn síns tíma. Hann gaf sér ákveðnar forsendur um baráttu góðs og ills og hagnýtti sér hinar lúthersku guðfræðihugmyndir. Í prédikun Jóns Vídalíns á boðunardegi Maríu segir og málfarið er rótsterkt og vel kryddað. Látið ykkur ekki bregða:

„Ó, minn Guð, hvað er þó maðurinn þess, að þú minnist hans (Ps. 8). Þegar ég hugleiði þetta, þá smeltist mitt hjarta í mér út af blygðan, að soddan ein skelfileg hátign, hann gjörir sendiför ofan af sínu hásæti til vor dauðra hunda, til vor syndugra orma, þar vér skriðum í leirveltu þessari, og má hér af þessa sendiför meiri öllum velgjörðum kalla, þótt ekkert annað væri. En hvílíkur er nú þessi boðskapurinn? Það sýnir oss fyrst kveðja engilsins við Guðs móður: Heil sért þú, náðarfulla. Drottinn er með þér, blessuð sért þú á meðal kvenna.”[1]

Í þessum texta sjáum við eitt dæmi um að Jón Vídalín slengir saman hinum mestu andstæðum. Raunar kunni hann þá list til fullnustu að sauma að tilheyrendum sínum og lesendum með hjálp alls konar mælskutrixum og gera mönnum ljóst að staða þeirra væri hin háðuglegasta. Hvaða erindi á konungur himins í ormagryfju manna?

Rannsóknarsagan

Aðeins um rannsóknarsöguna og hverjir hafa rannsakað kenningu postillunnar. Margir hafa skrifað um hana og reynt að greina einkenni hugmynda Jóns og hugsana. Magnús Jónsson, prófessor og síðar alþingismaður, ritaði Vídalínsgrein í Eimreiðina árið 1920. Magnús taldi að styrkur Vídalíns hafi verið næmni á krókaleiðir hins illa í mannlífinu.[2] Páll Þorleifsson, prestur í Axarfirði og faðir fjölda þjóðkunnra systkina, hélt fram í inngangi að 1945-útgáfu postillunnar að Vídalín hefði lagt áherslu á dyggðir og sjálfsrannsókn manna.[3] Jón Helgason biskup hélt fram í kirkjusögu sinni að hin miklu skaut í kenningu Vídalíns væri skelfing syndarinnar og dýrð náðarinnar og því væri nauðsyn á afturhvarfi mannsins. Trúin hefði verið aðalatriði fyrir Vídalín en hann hann hefði ekki gert kenningu sem slíka að höfuðmáli heldur hvernig hún birtist í lífi manna.[4] Þá taldi Jón Helgason að kenning Vídalíns væri ekki Kristsmiðlæg. Sá eini, sem ritað hefur heila fræðibók um Vídalínspostillu er Arne Möller, danskur prestur og fræðimaður. Hann fullyrti að trúarhugtak Vídalíns hafi fyrst og fremst verið vitsmunalegt. Jón Vídalín hafi lagt áherslu á að menn ættu að þekkja rétta útlistun boðorðanna. Þessi vitsmunalega trúartúlkun hafi leitt til þess að Jón Vídalín hafi fallið aftur til kaþólsku og prestaáherslu með lögmálsskilningi á sakramentum, skriftum, eiðum og iðrun.[5] Áhersla Jón Vídalíns hafi verið á rétta hegðun, praxis pietatis, en ekki á trúarinnileika. Safnaðarlíf í hefðbundinni merkingu verði því útundan.[6] Þá sé kirkjutúlkun Vídalíns á villigötum klerkavæðingar. Í stað trúar safnaðar sé öll áhersla á prestinn og kirkjustofnuninni.[7] En mín skoðun er að Arne Möller hafi mislesið allt of margt. Aðferð Arne Möller var að finna út hvaða rit Jón Vídalín notaði og með því að úrskurða hvaða bækur voru Vídalín aðgengilegar hafi hann talið sig getað sýnt fram á hver væri kenning postillunnar. Sem sé að Jón Vídalín hafi ekki verið frumlegri höfundur en svo að hann hafi lotið fyrirmyndum í ósjálfstæðri hlýðni. Möller komst t.d. að þeirri niðurstöðu að bók sem Jón Vídalín hafði þýtt áður, enska ritið On the whole Duty of Man, hafi skilað til postillunnar hlýðniáherslu, siðvendni, löghyggju og vitsmunalegu trúarhugtaki.[8] Samfara þessu telur Arne Möller að Jón Vídalín sé eiginlega ekki lúterskur guðfræðingur heldur sé trúarhugtak hans og predikun fremur af ætt kalvínisma.[9] Með leit að ritgrunni sýnist mér að Arne Möller hafi rekið af leið og aðferð hans sé beinlínis röng. Túlkun hans var of einföld.

Gunnar Kristjánsson og Mörður Árnason sáu um glæsilega útgáfu Vídalínspostillu Máls og Menningar og Bókmenntastofnunar HÍ árið 1995. Það var finmtánda útgáfa postillunnar frá upphafi. Í ítarlegum formála fer Gunnar yfir rannsóknarsöguna og dregur vel saman og af þekkingu bókmenntagreinandans. Hann fer yfir guðfræðisöguna frá Lúther, áhrif barokksins, náttúruvá á íslandi, t.d. að þriðjungur þjóðarinnar féll í bólusótt í upphafi átjándu aldar og þar á meðal einkadóttir Jóns og þeirra hjóna. Ég mæli með grein Gunnars. Hún fljótlesin og skrifuð af þekkingu og yfirvegun. Mörður skrifar vel um málfar og málfræðina. Ég skrifaði á sínum tíma talsvert um Vídalínspostillu í doktorsritgerð minni. Gunnar nýtir þá vinnu m.a. í formála sínum. Sumt af þessu efni er aðgengilegt á heimasíðu minni. Aukinn áhugi virðist vera á verkum Jón Vídalín. Nýlega kom t.d. út bók Torfa Hjaltalín Stefánssonar um Jón Vídalín. Það er vel að sem flestir komi að verkum. Það er komin tími á að sem flestir leggi saman í fræðaþing um hann – kannski á næsta ári en þá eru þrjú hundruð ár liðin frá annari útgáfu postillunnar.

Til að opna og skýra prédikun Vídalínspostillu og draga fram einkenni hennar er mikilvægast að gaumgæfa inntak trúarhugmyndanna sjálfra í postillunni og sérstaklega Guðshugmyndirnar. Þegar skoðaðar eru guðslíkingarnar kemur vel í ljós af hverju Jóni Vídalín er tíðrætt um ákveðna þætti en aðra síður. Þá skýrist einfaldlega einnig hvers vegna mannhugsun hans er með ákveðnu móti og hvernig hann talar um Jesú Krist, um heilagan Anda og þann heim sem menn byggja. Mín skoðun er sú, að greining á guðslíkingum nái best að opna og skýra hugmyndir postillunnar og Jóns Vídalín.

Baráttan við hið illa

Höfðingi heimsins, satan, er sem flaðrandi en þjófgefinn hundur segir sveitamaðurinn Vídalín glottandi. Forsendur og samhengi guðsímyndar Vídalínspostillu er hið altæka eða kosmíska stríð sem Guð á í gegn valdi hins illa. Jón Vídalín fylgir Marteini Lúther um djöfulstjáningar. Hvorugur taldi sig þess umkomin að skilgreina vald hins illa og hvorugur taldi að vald satans væri jafnmikið valdi Guðs. Þeir aðhylltust ekki þá frumspekilega tvíhyggju að til væru tvö jafnstæð máttarvöld. En báðir aðhylltust hins vegar siðferðilega tvíhyggju að tvö völd tækjust á, annað væri gott en hitt vont. Satan er ekki skilgreindur sem hlutlaust, sjálfstætt afl heldur túlkaður í ljósi þeirra árása sem vonskan gerir á Guðsríkið. Vald satans er afvegaleitt vald Guðs og jafnframt afskræming þess valds. Atferli satans felst í því að reyna að brengla hina góðu skikkan skaparans og þar með veikja vald Guðs. Eins og Lúther lagði Jón Vídalín áherslu á hinn innri mann og trúnað hans. Vídalín fjallar ekki aðeins um einstaklinginn, innræti hans og tiltrú heldur beinir sjónum ekki síður að hinni félagslegu vídd. Maðurinn er ekki eyland. Áherslan í samfélagsmálum er sú að menn eigi fyrst og fremst að efla velferð náunga sinna bæði hvað varðar efnisleg gæði sem og andleg. Vídalín leggur áherslu á að efnisleg gæði séu ekki einráð heldur séu andlegum gæðum samfara. Þeir sem ekki trúa á Guð sýna vantrú sína í verki og snúa óhjákvæmilega baki við hinum hrjáðu og smáðu í heiminum.

Gegn valdi hins illa stendur Guð ávallt. Guð verður í baráttunni hinn snjalli herforingi. Vídalín undrast jafnvel, að Guð skuli ekki nú þegar vera búinn að setja krók á nasir andskotans (166)! Árás Guðs á ríki myrkursins var gerð með komu Jesú Krists. Hann vann sigur.

Stórkonungurinn

Tími Jóns Þorkelssonar Vídalín var konungatími. Einveldistíminn hófst formlega um það leyti sem hann fæddist. Jón Vídalín, fyrrum hermaður í her Danakóngs, nálgaðist veröld og vald með skilningi stríðsmannsins. Hann vissi að stríð væri ekkert gamanmál og áleit heiminn vera orrustuvöll stríðandi herra. Hann var raunsær á eigin breyskleika og sá vel mein samfélagsins. Sá Guð sem hann trúði á og talaði við vildi frið, hamingju manna og barðist við illskuöfl. Í ljósi styrjaldar milli Guðs og Satans er sú mynd, sem Vídalín dregur upp af Guði mótuð af því samhengi. Raunar má segja að stríð liti alla þætti í postillunni. Vídalín notar gjarnan líkingar um Guð sem tengjast baráttu. Þegar dregnar eru saman helstu ímyndir Vídalíns um Guð kemur eftirfarandi í ljós.

Í fyrsta lagi er Guði lýst sem konungi og raunar er það ímyndin af stórkonungi sem Vídalín notar. Þetta er ráðandi guðsmynd postillunnar.

Í öðru lagi er Guði lýst í líkingu löggjafa, sem er að mínu viti stuðningslíking í postillunni og túlkur konungsímyndarinnar. Guð hefur skýran vilja og setur lög bæði við stofnun ríkis síns en bregst einnig við sem góður stjórnandi við þeim aðstæðum sem upp koma og ávallt í samræmi við eðli og markmið ríkis síns.

Í þriðja lagi er guði lýst í mynd dómara sem hefur allt vald til að skera úr öllum málum. Guð hefur vald til að dæma mönnum og sköpun sinni kjör og örlög með hliðsjón af velferð einstaklinga en einnig með baráttu við hið illa í huga. Dómaralíkingin virðist vera í eðlilegu samhengi við konungsímyndina og jafnframt stuðningslíking.

Í fjórða lagi er Guði lýst sem hinum snjalla herstjóra sem er konungur í stríði. Guð fer fyrir sínum mönnum en þarfnast þeirra jafnframt til að ríkið liðist ekki í sundur og óvinurinn nái þeim völdum sem honum ber ekki og má ekki hafa.

Í fimmta lagi er Guði lýst í mynd húsbónda eða húsföður, sem jafnframt er í samræmi við konungslíkinguna og tengd hinum líkingunum. Guð sem alfaðir er bæði miskunnsamur og góður og vill sköpun sinni vel. Því er honum eiginlegt að skikka sköpun sinni kjör. Þessu tengt er handleiðsluáhersla postillunnar. Sem góður konungur og faðir gefur Guð allar þær gjafir sem skepna og menn þarfnast, mettar sem umhyggjusamt foreldri, gefur ráð, hlustar vel og skilur og veitir það sem menn þarfnast. Þrátt fyrir hátign sína er Guð þolinmóður og miskunnsamur en einnig agandi og tyftandi.

Þú stóri konungur allrar veraldar

Bæn Vídalíns fyrir predikun dregur fram með sláandi móti tilfinningu og trúnaðartraust hans til konungs himinsins. Bænir eru sem ljóð og skyldi ekki lemstra með oftúlkun og bókstafslestri. Orðalagið er mótað af tilbeiðslu og trúnaðartengslum. Við lestur bænar er vert að setja sig í spor trúmannsins í kirkju, fella varnir og klæði rökhyggjunnar. Í bæn Vídalíns er það hinn smái sem lýkur upp munni gagnvart þeim sem allt er:

„Þú stóri konungur allrar veraldar, sem býr í því ljósi, er enginn fær til komist. Vér syndugir ormar skríðum á þessari blessaðri stundu upp úr voru dufti fram á skör þinna fóta til að friðmælast við þína guðdómlega hátign, er vér með saurugum verkum og illgjörðum vorum svo þráfaldlega móðgað höfum allt í frá barnæsku vorri. En æ oss, drottinn. Vér erum svo vanmegna undir byrði syndanna, að þegar vér girnumst að lyfta oss upp í hæðirnar til þín, þá draga vor eigin saurindi oss niður aftur. Þú hefur að sönnu fyrigefið oss margar syndir og sparað oss mitt í þeim allt á þennan dag, en vort hjarta skelfur í oss og kvíðir við þínu stranga réttlæti, nær vér til þess hugsum, að vér þverbrotnar manneskjur höfum svo langsamlega forsmáð þína miskunnsemi og sjálfir ónýtt svo marga kvittun vorra synda, er vér þegið höfum, með þverúðarsamlegri iðkun sömu glæpa og illgjörða. Hvert skulum vér þá flýja undan þinni hendi? Þú uppfyllir bæði himin og jörð, en þín miskunnsemi er eins stór og þú sjálfur. Hún hefur öllum þeim vel gefist, sem hennar með bljúgu hjarta og sundur knosuðum anda leitað hafa…  …. Lát einn glóandi anda brenna upp allt sorp annarlegra þanka úr voru hjarta, sem er þitt musteri, svo þín orð fái rúm þar inni. Lát oss ekki heyra það svo í dag, að það fordæmi oss á síðasta degi, heldur gef, að það verði eftirlæti sálna vorra. Lát þess sætleika burt drífa allt tómlæti og gáleysi frá oss, svo vér varðveitum það í góðu og siðsömu hjarta… …Amen.“ (4)

Í ljósi þessarar mjög ákveðnu stórkonungsbænar er eðlilegt að búast við prédikunarefnið og hátignarræða sé keimlík í postillunni. Lútherskir guðfræðingar hafa virt mörk hugsunar og þar með löngu á undan Immanuel Kant og upplýsingunni forðast frumspekilegar lýsingar á Guði og í þeim efnum er Jón Vídalín engin undantekning. Hann reynir ekki og treystir sér ekki til að lýsa Guði nákvæmlega. Vídalín telur enga möguleika á því að skoða Guð með augum hlutleysisins. Aðeins augu trúarinnar sjá Guð. Engin opinberun hefur orðið á heild Guðs svo takmarkaður maður geti skilið. Það eitt er skiljanlegt sem Guð hefur valið að gera opinbert og það verður ekki metið án jákvæðrar afstöðu til Guðs.

Í Vídalínspostillu sem og öðrum guðsorðabókum og guðfræðiritum fyrri alda er Guði lýst sem ásýnd eða ásjónu sem snýr að mönnum. Guð verður aðeins lifaður í tengslum við upplifanir í lífi og heimi. Guðsreynsla er tengd lífsreynslu manna. Um Guð er talað í ljósi þeirrar skynjunar sem menn hafa orðið fyrir. Vídalín talar vissulega um Guð með hefðbundnu móti. Hann aðhyllist helstu kenningar kirkjunnar, t.d. þrenningarkenninguna og hefðbundna Kristsfræði. Sá Guð sem Vídalín trúir á og túlkar er Guð himins og jarðar sem er valdur veraldar og allt vald ber. Hann stjórnar öllu og allt er sköpun hans. Því skyldi hver skepna tilbiðja Guð.

Myndmálið um Guð er ríkulegt í postillunni og þjónar því markmiði að upphefja og hylla Guð, tryggja vald Guðs og mikla hátign sem best. Sjónrænar lýsingar eru algengar. Guð býr í ljósi og er ljós (4, 273). Guði er einnig lýst sem eyðandi eldi, ógnarlegum sem og dýrlegum. Guð býr í dýrðarljóma sem enginn færi komist til af sjálfsdáðum. Guð er hreinleiki sem ekkert saurugt þolir við hástól sinn. Guð býr í hátignarsal og frá honum verður ekki flúið því hátign hans felur jafnframt í sér yfirlit og nærveru (200, 273). Tengt hátign eru síðan hinar hefðbundnu guðfræðilegu lofsyrði og elskutjáningar um alvitund Guðs, almætti, eilífð, ómælanleika og hversu Guð sé meiri elska og undur en það sem við menn skiljum og skynjum.

Guð – skapari og löggjafi

Guði er gjarnan lýst í Vídalínspostillu sem viljaveru, sem bæði ákvarðar gerð og eðli sköpunar en einnig sem löggjafa. Vilji Guðs er ofar öllu í krafti tignar og forræðis Guðs. Menn hafa að sjálfsögðu rétt til viðbragða og skapa sér eigin örlög. En þegar grannt er skoðað er kenning postillunnar sú að mönnum sé fyrir bestu að hlíta vilja og skikkan Skaparans. Vídalín kennir að Guði skapi aðeins það sem er gott og nytsamlegt. Allt sem menn þiggja af Guði er til góðs (86). Guð skapar bæði himin og jörð og veitir öllu lífi þau gæði sem þörf er á til hamingjuríks lífs, líkama, önd, ráð, skilning, elsku, fæðu, fögnuð og alla saðningu manna og skepnu. Markmið sköpunar er friður milli Guðs og manna. Vídalín telur þennan frið mikilvægari en frið milli manna (57). Öll skikkan í heiminum er Guðs gjöf, foreldrar og samfélagsskipan. Við eigum því að hlýða foreldrum og vera sönn í samfélagi (138). Guð mun ekki láta af að útdeila mönnum gæðum og mætti. Guð mun ekki þreytast þótt menn verði örmagna og ekki verða snauður þó menn verði uppiskroppa. Guð mun að lyktum bjóða mönnum til veislu með sér á himnum (134, 167, 260).

Svo er það með frelsi konungsins á öld einveldisins. Vídalín minnir á að enginn konungur er bundinn af lögum sem hann hefur sett. Konungum er heimilt að rétta lögin og endurskoða með hliðsjón af nýjum aðstæðum þó menn séu bundnir af þeim. Lög Guðs tengjast hinum hulda vilja sem maðurinn fær ekki skilið en Guð skilur (213). Þar sem Guð er vitur stjórnandi veit Guð hvað mönnum er fyrir bestu (235). Í orði sínu hefur Guð opinberað vilja sinn og speki, réttlæti og gæsku. Í spegli laga Guðs sem eru fyrirmæli um hegðun og líferni fáum við vitund um stefnu okkar en jafnframt hver staða okkar er (630). Vegna breyskleika og syndugs lífernis manna hefur Guð sent mönnum lögmál sem herjar á og dæmir menn seka. Hið ægilega í mannlífi er að við erum í bullandi órétti gagnvart Guði (51). Guð vill fyrst og fremst að við viðurkennum stöðu okkar og sekt, skömmumst okkar og iðrumst og auðmýkjum okkur og komum fram fyrir Guð með sundurknosaðan anda.

Guð dómarinn

Tengt löggjafarstarfi Guðs er dómaratign hans. Þar sem Guð er hátignin sjálf, réttlátur og strangur og hefur þar að auki lögmál eru menn stöðuglega í órétti gagnvart Guði. Guð hefur því eiginlega sjálfdæmi í málum manna. Þar sem forsenda Guðs er velferð allra manna útdeilir Guð kjörum sem bæði eru til hins besta í lífi manna sem og lúta baráttu Guðs fyrir rétti og gæsku í heiminum. Enginn maður getur áfrýjað hæstaréttardómi Guðs. Menn eiga stöðugt á hættu að dómarinn sendi þá frá réttinum eða skyrpi þeim burt eins og Jón Vídalín orðaði það. Allt hvílir á almættisákvörðun. Guð ákvarðar og útvelur. En menn hafa rétt til að standa stöðugir í köllun sinni en allir falla þó í breyskleika sínum. Dómur Guðs er mönnum ægilegur veruleiki vegna þess hve sekir og óréttlátir menn eru og hversu heilagur og hátignarfullur Guð er. Þegar Guð útdeilir kjörum meðal manna má maður ekki mögla, því gæði eru gjafir Guðs. Maðurinn á ekkert gott skilið í krafti eigin verðleika. Dómarahlutverk Guðs er því annars vegar tjáning á alveldi og fullkomnu réttlæti. Guð hefur allan rétt og allan mátt. En hins vegar er þessu hlutverki tengd miskunnsemi. Dómarinn aumkvar sig yfir þá sem ekkert eiga annað en glæpi. Dómarahlutverkið er því mótað af stórkonungsímyndinni og tengt föðurhugmyndinni og einnig herstjórnarlíkingunni. Guð á í stríði og vill að menn hans séu með í baráttunni en ekki fjarri vígvelli.

Guð herstjórinn

Þar sem satan ræðst á ríki Guðs á öllum sviðum er aðalstarfi Guðs í heiminum í kjölfar syndafallsins að berjast við þennan óvin. Baráttan er altæk. Guði er gjarnan lýst í mynd hins snjalla herstjóra. Þar sem Guð á fyrir þegnum að sjá verður hann að stjórna lífi þeirra sem best, reyna þá og treysta til þeirrar baráttu sem þeir geta ekki flúið eða skorast undan. Guð leyfir t.d. að hinir kristnu menn verði á stundum niðurþrykktir þó Guð leyfi aldrei að þeir verði algerlega undirþrykktir eins og segir í postillunni (189). Hinn kristni maður á að taka þátt í baráttu Guðs. Stærsti sigur Guðs varð þegar Guð varð maður í Jesú Kristi. Guðssonurinn tók á sig mannlegt hold, leið hungur þorsta, klæðleysi, útlegð, örbirgð, háð og spott til að opinbera vald Guðs og vinna sigur á ríki satans. Guð lætur hinn illa falla á eigin bragði, beitir brögðum og ofkeyrir óvininn í glímunni við Jesú Krist. Með því fær Guð stjórnað. (244-45). Á jarðlífsgöngu verða menn bardagamenn fyrir Guð og verða að vera sannir í lífi sínu til að veldi Guðs verði ekki ógnað og sigur hins góða vinnist (628).

Guð faðir

Föðurímynd af Guði í Vídalínspostillu er til stuðnings konungslíkingunni. Sem faðir allra manna er Guð umhyggjusamur, langlyndur, miskunnsamur og góðviljaður (53, 364, 23. En sem dómari og konungur er faðirinn einnig hinn strangi uppalandi, sem ekki líður óreglu og óhlýðni í lífi manna. Guð elur upp í ótta og festu, tyftar og stjórnar með styrkri hendi. En Guð bægir ekki frá mönnum háska og erfiðleikum, freistingum, meðlæti og mótlæti (164, 168, 223-24, 359, 364, 604, 616). Þessi agandi guðsstjórn tekur bæði til sálarlífs, líkamsþátta manna sem og samfélagsmála og sögu. Á öllum sviðum vill Guð leiða allt til hins besta vegar. Guði föður er ekki síst umhugað um þau sem eru smáð og minnimáttar. Fyrir slíkum elur Guð sérstaka önn.[10] Viðbrögð manna skyldu því vera traust á hverju sem gengur (364).

Niðurlag

Vídalínspostilla er litrík, gjöful, stórkostleg á köflum, skemmtiefni og áhrifarík. Hún dró dám af tímanum sem hún var skrifuð inn í. Viðtakendur voru ekki yfirstétt Íslendinga heldur fólk í landinu. Hún er ekki aðeins hirðisbréf kirkjuleiðtoga heldur líka innlegg í pólitík tímans, prestsleg huggunarbók, siðfræði, bók elskunnar um dásemd lífsins, klassísk fræði og faðmvíð og djúprist kristinfræði.

Guðsmyndin er skýr í þessu riti. Málfarið er klassískt, litríkt og rhetórískt. Vídalín notaði meðvitað myndmál um hið guðlega. Í þessu mikla riti er ekki lengur áhersla á hinn líðandi, kaghýdda kóng eins og í Passíusálmum, heldur er Guð stórkonungurinn í stríði. Þannig hafa orðið skil tímanna frá ljóðmælandanum Hallgrími til kirkjuhirðisins Jóns Vídalíns á miklum umbrotatíma. Einu sinni var sagt að Jón Vídalín hefði verið igenio ad magna nato – borinn til stórvirkja. Og guðsmynd hans er líka vörpun á lífi hans, stöðu, hugsun, verkefnum og lífsreynslu upp á himinn hugmyndanna og trúartúlkunar. Afstaða margra túlkenda postillunnar er að boðskapur postillunnar hafi stuðlað að áherslu meðal alemnnings á réttlæti í samfélagininu, mannúð og manngildi. Það er rétt en postillan var hin hliðin á trúarpeningnum. Þeir töluðu saman og í samhljómi Hallgrímur og Vídalín um Guð og heim. Þeir lýsa báðir að allt er markað, takmarkað, mannlíf líka. Og Guð sem elskar umvefur takmörk og opnar. Hallgrímur lýsti hinum líðandi kóngi en Vídalín hinum sigrandi kóngi. Líkinganotkunin gekk upp hjá hvorum um sig en varð ekki til að menningin brotnaði, andstæður mögnuðust heldur að fólk gat numið og lifað sig í báðar víddir.

Ég las mig algerlega inn í postillu Jóns Vídalíns á sínum tíma og þegar ég kom út var dýpst skynjunin að hann væri ekki stórkonungsdýrandi heldur guðsdýrkandi trúmaður. Það eru tengslin við elsku heimsins sem Vídalín tjáir með hinu litríka og oft stórkallalega málfari. Sensus eða dýpt ritsins varðar undrið mikla – Guð.

Í næstu viku stekk ég yfir tvær aldir – hefði viljað ræða um rómantíkina, Mynster, Pjetur Pjetursson biskup, Jón Bjarnason Vesturheimsklerk, risana Harald Níelsson og Jón Helgason, Pál Sigurðsson og Helga Hálfdánarson líka. En það bíður betri tíma og við munum ganga inn í undraheim Sigurbjörns Einarssonar.

Framsaga Sigurðar Árna Þórðasonar á þriðjudagsfundi í Hallgrímskirkju – í fræðsluröðinni Talað um Guð. 

[1]Páll Þorleifsson: „Meistari Jón og postillan,” Vídalínspostilla, rits. Björn Sigfússon og Páll Þorleifsson. Reykjavík: Bókaútgáfa Kristjáns Friðrikssonar, 194, XX, XXII, XXIII. Vitnað er í þessa útgáfu postillunnar í þessu erindi. Þegar tölustafir birtast í meginmáli er vitnað til postillunnar og þá síðu eða síðna. Þessi tilvitnun er á blaðsíðu 273.

[2]Magnús Jónsson, Jón biskup Vídalín og postilla hans, Eimreiðin 1920, 5.-6. tölublað, 257.

[3]Páll Þorleifsson, Vídalínspostilla, XVIII-XXIX.

[4]Jón Helgason, Kristnisaga Íslands: Frá Öndverðu til Vorra Tíma, I-II. Reykjavík: Félagsprenstsmiðjan, 1925-27. 222ff.

[5]Sjá Arne Möller, Vidalin og hans postill: En biografisk og litterærkritisk undersögelse. Odense: Hempelske boghandel, 1929, 360ff.

[6]Möller, 377.

[7]Möller, 369.

[8]Möller 348ff, 373.

[9]Möller, 373, 377ff.

[10] Vídalínspostilla, 634. Um ögun Guðs og stjórn sjá 53, 164, 23, 359, 357, 616.