Himintungl yfir heimsins ystu brún – Jón Kalman Stefánsson

Við héldum suðræn bókajól, flugum til Sevilla skömmu fyrir hátíðina. Við tókum með okkur bunka af bókum en lítið af fötum. Við fórum svo suður til Cadiz og fengum í húsaskiptum lánað dásamlegt hús. Þar skiptumst við svo á að lesa bækurnar en létum föt hvers annars vera. Ég var sá þriðji á heimilinu að lesa hinmintunglbókina hans Jóns Kalmans. Tilhlökkunin óx því ég heyrði reglulega áhugaverðar upphrópanir: Þvílíkur texti; það ilmar af þessum blaðsíðum; snilld; skemmtileg efnistök. Ég byrjaði svo að lesa hina mögnuðu sögu um Pétur prest, Dórótheu, mannlíf og manndráp, menntun, lífsafstöðu, siðferði og siðklemmur fólks á Íslandi á 17. öld. Ég var sammála mínu fólki um bókargæðin. Í himingtunglbókinni eru engar klisjur eða þunnildi. Það eru engar menningarlegar grynningar heldur er sagan frábærlega skrifuð, um tengsl og manngildi, um rosamál fortíðar sem hafa augljósar skírskotanir til samtíma okkar, átaka og áfalla í samskiptum hópa og þjóða.

Persónusköpun bókarinnar er sterk. Prestar hafa gjarnan verið tuddar og hrottar í íslenskum bókum og kvikmyndum en Pétur prestur er góðmenni. Hann er glöggur og vel að sér, menntaður vinur orða, fræða og mannvinur. Hann skráir sögu eigin lífs, þjónustu, viðburða í héraði, landi og heimi, baráttu í starfi og líka í djúpum sálar. Jón Kalman uppteiknar gæskuríkan hæfileikamann sem reynir eftir megni að þjóna sem best mönnum og Guði, kirkju, yfirvöldum og lífinu. En þó klerkur sé klókur og vel meinandi er hann hrifnæmur og í texta Jóns Kalmans er enginn hörgull á hrífandi konum sem koma fyrir augu klerksins. Augu hans hvarfla til og hjartað fylgir. Jón Kalmann lýsir líka fleiri prestum og þeir spegla aðrar víddir og m.a. þjónkun við vald. Guðstrú bókarinnar er alls konar og trúarlífið þar með rétt eins og í nútímanum. Gott hjá Jóni Kalman.

Konurnar í bókinni eru sérlega áhugaverðar og ekki síðri en karlmyndirnar. Sterkust, litríkust og ásæknust er persóna Dórótheu bústýru á Meyjarhóli, prestssetrinu. Hún er eins og fjallkonan sjálf, lífströll elskunnar. Stórkostleg kona, réttnefnd guðsgjöf, og ein áhugaverðasta kvenímynd íslenskra bókmennta. Allar elskukonur og ástkonur Péturs eru ólíkar og litríkar, engar dúkkulísur heldur máttugar konur sem verða að hafa fyrir lífinu, lífsfyllingu og hamingju. Þær bregðast við verkefnum lífsins með ólíku móti. Annars ágæt kona Ara í Ögri beitir hótunum þegar veldi karls hennar er ógnað. Vald spillir og bókin er almennt valdgagnrýnin. Biskupsembætti er líka beitt í þágu samfélagsfriðar frekar en í þágu sannleika og manngildis. Karlmyndirnar eru fjölbreytilegar líka, valdsmennirnir eru ekki einsleitir heldur margbreytilegir. Bændur eru líka mismunandi í afstöðu, þroska, siðferði og hegðun. Tuddarnir eru auðvitað þarna á ferð en líka góðmenni og lífgjafar. Mannlífið á Íslandi 17. aldar var engu litdaufara en samfélag okkar tíma. Húmor og mannúð stýrir penna Jóns Kalmans.

Sögusviðið er útnárasamfélag nærri hafísnum. En samfélag undir ystu brún fór ekki á mis við menningu, tískubylgjur eða fræðastrauma heimsins. Í lágum húsum voru stórmál rædd, fréttir af Galileó og sólmiðjukenningu voru til skoðunar í vetrarmyrkrinu. Bækur bárust ekki aðeins frá Kaupmannahöfn, heldur líka sunnan úr löndum. Grísk og rómversk klassík var endursögð og túlkuð á bæjunum. Alls konar tungumál hljómuðu og stærðfræðiþrautir af meginlandi Evrópu voru leystar af klókri konu í kokkhúsi á Ströndum. Útkjálkabyggð var í góðum og skapandi tengslum við framvindu tímans. Það er því ekki einangrað samfélag heimskunnar sem Jón Kalmann lýsir heldur sprelllifandi, þyrstandi mannfélag eftir þekkingu, fræðslu, fegurð, siðviti og menntun. Vissulega voru til sjálfskipaðir eftirlitsmenn valds og rétthugsunar í samfélaginu sem reyndu að slaufa vaxtarbroddum lífs. En máttur orðs og framtíðar verður ekki haminn af dragbítum. Ritskoðun heimskunnar lýtur sannleika. En lærdómur kostar fórnir – ekkert er ókeypis. Mér þótti heillandi að njóta samfélagslýsingar Jóns Kalmanns, auðvitað stílfærðri en hrífandi og nærandi.

Mér þótti líka áhugavert hvernig Pétur prestur, viðmælendur hans sem og lærdómsmennirnir sem hann hafði samband við íhuguðu eðli hins ritaða máls, hvernig niðurritun breytir gangi lífs og sögu. Skráð saga gengur erinda sannleika. Baskarnir voru drepnir af kappi en ekki forsjá. En drápin voru skrásett og þar með varð von til að mennirnir nytu meiri réttar og sanngirni en annars hefði orðið ef allt hefði verið þaggað niður og valdsmennirnir hefðu fengið að ráða túlkun og skilgreiningu atburða. Sannleikur er ekki eign valdsins.

Hlutverk máls og ritunar er sérstakt og áberandi í þessari bók Jóns Kalmans og kitlar alla sem hafa áhuga á skilgreiningum menningar, hlutverki guðstrúar og áhrifum á siðvit og merkingarmótun  kerfa menningar. Ég var hugsi en mun ekki frekar skrifa um það mál að sinni en freistandi er að greina skrif Jóns Kalmans um orð og trú, gildi og Guð í þessari bók. Ein spurningin eða íhugunin er þessi: Er hægt að snúa merkingu þess að „orðið varð hold“ yfir í að skráning skapi líf? Sleppa öllu hinu yfirjarðneska og túlka svo að efnisgerningur skapi lífið? Er ritlist inntak guðstrúar og réttlætis? 

Við ræddum einstaka útfærslur og snúninga í flækju Jóns Kalmans í jólagóðviðrinu suður við Gíbraltarsund. Málfar bókarinnar er eðlilegt, vísar til eldri málheima en er ekki óþægilega fyrnskuskotið. Við ræddum um hinn meditatíva flæðistíl bókarinnar. Gekk hann upp þessi valhoppandi hugrenningastíll sem Pétur prestur notar, hvattur áfram af Dórótheu, bústýru sannleika og lífs? Flæðistíllinn hefur sína kosti og sjarma en fælir líka frá þau sem þarfnast skýrrar söguframvindu. Stíllinn gengur almennt upp en það eru hnökrar á honum. Og ýmsum smáatriðum hefði mátt sleppa í lokatexta. Mér sýnist að gagnrýninn yfirlesari hefði grisjað út t.d. óþarfa tímaskekkjur. En ég kvarta ekki yfir smælkinu og nefni ekki anakrónismana sem breyta ekki heildaráhrifum. 

Himintungl yfir heimsins ystu brún er magnað rit um lífsbaráttu og siðklemmur, áleitin bók um siðferði, pólitík, átök, ást, grimmd og samsekt. Ekki bara bók um sautjándu aldar viðburði heldur verkefni okkar sem nú lifum. Hvernig tökum við á móti útlendingum og flóttafólki sem vegna áfalla lenda á okkar strönd? Erum við einfeldningar valdsaðila og lélegs réttrúnaðar? Erum við jafnvel handbendi úrelts hugsunarháttar? 

Himintungl yfir heinmsins ystu brún er bókmenntaafrek ársins og ætti að veita bókmenntaverðlaunin ársins. Fimm stjörnu bók. 

Jón Kalman Stefánsson, Benedikt útgáfa, Reykjavík 2024, 358 blaðsíður.

 

Vitringar á mörkunum

Íslenskir fjölmiðlar, m.a. tvo dagblöð, höfðu einu sinni eftir Rowan Williams, sem þá var erkibiskup í Kantararborg, að biblíusagan um vitringana væri goðsaga. Mér þótti ótrúlegt að hann hefði notað það hugtak um þessa frásögu um  ferðalangana úr Austurvegi. Að mér læddist að blaðamennirnir hefðu ruglast á hugtökum. Ég þekki erkibiskupinn, sat marga fundi með honum og vissi því vel hve nákvæmur og hnífskarpur greinandi hann var. Forystumaður risakirkjusamfélags getur ekki leyft sér fræðilega lausung eða trúarlegan stráksskap. Ég fletti því upp í bresku pressunni á netinu og í ljós kom að erkibiskupinn hafði sagt, að þetta væri helgisögn, hann notaði orðið legend en ekki orðið myth sem merkir goðsaga og er allt annað bókmenntaform en helgisögn. Blaðamenn og íslenska pressan ruglaði hugtökum og fréttin varð því misvísandi, villandi og röng. 

Það skiptir máli hvernig við lesum. Við eigum að lesa bókmenntaformið rétt. Það skiptir t.d. öllu máli að gera sér grein fyrir að sköpunarsagan í Biblíunni er ljóð en ekki grein í alfræðiriti um þróun vetrarbrautarinnar. Goðsaga lýsir tilurð heimsins og yfirskilvitlegum verum, en legendur eru helgisögur á mörkum raunveruleikans, sögur um einstaklinga, sem gætu hafa verið til og um líf eða viðburði sem eiga jafnvel við eitthvað að styðjast í raunveruleikanum. Áhersla helgisögu er ekki á söguferlið sjálft eða ytra form atburðanna, heldur dýpri merkingu og táknmál. Þetta skiptir máli og svona saga tekur sér mynd í samræmi við inntak. Inntakið kallar á form til að ramma inn og miðla með merkingu. Svona sögur á ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega.

Vitringar?

Hvað vitum við um þessa spekinga? Hvað voru þeir margir? Hvaðan komu þeir? Hvað hétu þeir og hvað gerðu þeir? Hugsanlega ímyndum við okkur eitthvað um þá sem Biblían segir ekki og gerum okkur ranga mynd? Hvað voru vitringarnir margir? Vitringarnir hafa gjarnan verið þrír í sögum og á myndum og nefndir Baltasar, Melkíor og Rafael. En í guðspjallinu segir ekkert um fjöldann þó okkur finnist, að svo hafi verið. Í austrænni kristni eru þeir allt að tólf karlar. Ekkert er heldur í guðspjöllunum um nöfn þeirra. Eru þetta allt karlar? Það getum við ekki fullyrt heldur. Sú hnyttni hefur löngum gengið í kristninni að vitringarnir hljóti að hafa verið karlkyns því ef þetta hefðu verið konur hefðu þær byrjað á að fá sér almennilegar leiðbeiningar um hvar Jesú myndi fæðast, þær hefðu verið á staðnum á réttum tíma, þrifið húsið til að undirbúa fæðinguna, hitað vatn, hjálpað til og gefið barninu og foreldrunum eitthvað nothæft s.s. bleyjur, mat og föt en ekki fullkomlega ónothæft dót eins og gull, reykelsi og myrru!

Uppruni og eðli

Margar tilgátur eru um uppruna vitringanna. Um aldir hafa menn séð í þeim tákn mismunandi hluta hins þekkta heims. Ýmsar sögur hafa gengið: Einn þeirra átti að vera svartur og frá Eþíópíu, annar frá Indlandi og einn frá Austurlöndum fjær. Enn í dag er álit sumra kínverskra kristinna að vitringur frá Kína hafi vottað Jesú virðingu sína. Um þetta er ekkert vitað með vissu.

Þegar rýnt er í textann eru mennirnir nefndir á grískunni magus og í ft. magoi. Magusar gátu verið töframenn og af þessu orði er magic sprottið t.d. í ensku. Ef komumenn hefðu verið konungar hefðu þeir verið nefndir öðrum nöfnum. Líkast til ber að skilja söguna sem svo að komumenn, hversu margir sem þeir voru, hafi ekki átt að vísa til töframanna heldur svonefndra mágusa, presta í norðurhluta þess svæðis sem við köllum Íran í nútímanum. Þeir hafi verið kunnáttumenn í stjörnuspeki og lagt sig eftir táknmáli stjarnanna, hugsanlega af væng Zóróastrían-átrúnaðarins, sem var opinn gagnvart guðlegri innkomu eða birtingu.

Mattheus guðspjallamaður var ekki upptekinn af jólasögunni eins og við þekkjum hana úr Lúkasarguðspjalli, en segir hins vegar þessa vitringasögu. Og af hverju sagði hann hana? Í guðspjalli Matteusar er opnun, vitund um að kristnin eigi ekki aðeins erindi við lokaðan hóp Gyðinga heldur allan hinn þekkta heim manna. Guð velur ekki þröngt, heldur vítt. Guð er ekki smásmugulegur heldur stór. Guð er ekki bara einnar þjóðar Guð heldur allra manna. Guð lætur sig ekki aðeins varða einn átrúnað heldur allt líf, hugsun og veru allra. Það er áhersluatriðið og því er ekki einkennilegt að í þessu guðspjalli, sem býður að kristna allar þjóðir, skíra og kenna öllum, komi prestar við sögu utan úr heimi trúarbragðanna. Erindi vitringanna er m.a. að tjá opnun og alþjóðavæðingu hins trúarlega.

Kóngavæðingin

Táknleitandi hugsuðir aldanna hafa lesið í táknmálið og útvíkkað söguna. Þegar konungar fóru að trúa á Krist var ekkert einkennilegt að menn færu að telja að þessir vitru og góðu menn hefðu verið konungbornir, svona til að ítreka það að konungum væri ekki stætt á öðru en að lúta Jesúbarninu. Í ýmsum þýðingum Biblíunnar var gjarnan þýtt (t.d. í ýmsum enskum biblíuþýðingum), að vitringarnir hafi verið konungar, sem hafi fært konunglegar gjafir, en ekki aðeins (ein kenningin er að þetta hafi verið læknistæki eða lækningavörur) tákngjafir presta eða spekinga. Íslenska hómilíubókin segir berlega að þeir hafi verið Austurvegskonungar. En hins vegar þýddi Guðbrandur orðið magos sem vitringur í Guðbrandsbiblíu og þannig hefur verið þýtt allar götur síðan á 16. öld og vitringarnir eru vitringar í nýjustu Biblíuþýðingum.

Helgisagan og töfraraunsæið

Flestir halda, að vitringarnir hafi vitjað Jesú á fæðingarkvöldi í Betlehem af því þannig eru myndirnar og helgileikirnir. En helgisagan er sleip, ekkert er sagt í guðspjallinu um að þeir hafi vitjað Jesúbarnsins þegar það var nýfætt. Ekkert er sagt hvenær þeir komu heldur það eitt er sagt að þeir hafi opnað fjárhirslur sínar og gefið gjafir.

Hvað eigum við að gera við þessa skemmtilegu sögu og hvernig nýtist hún okkur? Það er gaman að segja hana og hún kitlar ímyndunaraflið. En sagan um vitringana er á mörkum raunveruleikans. Hún er vissulega helgisaga. Henni er ekki ætlað að tjá sögulega framvindu heldur merkingu eða inntak. Við leitum flest hins myndræna, dramatíska og sögulega fremur en skilgreininga, hugtaka og formlegrar framsetningar. Við notum sögur til að kenna börnum okkar góða siði, frekar en þylja yfir þeim siðfræðiformúlur. Við segjum smábörnum að diskurinn gráti og meiði sig ef hann dettur í stað þess að skýra hvað brotthætt merkir eða eðli þyngdarlögmálsins.

Birtingarhátíð, þrettándinn birtir hvað? Jú, að í Jesú Kristi opinberar Guð veru sína, kemur í krafti sínum, gerir þennan einstakling að farvegi hjálpar sinnar. Og af því að gagnvirkni er alltaf í guðsríkinu þá er hann leið okkar til himins, farvegur okkar til lífsins, og vettvangur og viðfang vona manna. Hvað eigum við að gera við helgisöguna um vitringana? Svarið er að við eigum að nota vitringana sem fyrirmyndir og íhuga og vitkast. Sagan tilheyrir áhrifasviði mannlífsins. Hún á sér líklega sögulega stoð. Engu skiptir þó hvort svo var eða ekki en þó hefur hún merkingu fyrir raunverulegt líf. Við þurfum ekki að trúa að vitringarnir hafi verið þrír eða tólf. Við þurfum ekki að vita hvort þeir voru frá Eþíópíu, Íran eða Kína. Við þurfum ekki að trúa þessari sögu frekar en við þurfum að trúa Hamlet eða Njálu. En helgisögur hafa merkingu eins og mikilvægar sögur mannkyns, sögur sem túlka mikilvægi og skilgreina lífsefnin.

Í Suður-Amerískum bókmenntum er stundum talað um töfraraunsæi. Bækur  Gabriel GarciaMarquez og Isabel Allende og ég vil bæta við Paulo Coelho líka, lifa á mörkum. Þessar bækur fjalla ekki aðeins um raunveruleikann heldur útvíkkaðan veruleika sem leyfir hið dásamlega, upphafna, undursamlega, teygir ímyndunaraflið og lífið svo að hægt er að opna fyrir viðbótarmerkingu sem síðan bætir lífsskilyrði. Legendur eiga að efla lífsgæði og hæfni fólks. Í þeim anda ættum við að lesa söguna um vitringana. Helgisögur á ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega.

Við mannfólkið erum ferðalangar á leið til fundar við barnið, til að mæta manninum Jesú. Okkar köllun er að gefa það sem okkur er mikilvægt, af okkur sjálfum, já okkur sjálf, og snúa síðan til okkar heima með reynslu af hinu stórkostlega í veganesti. Við erum frjáls að því að túlka þessa vitringa eftir okkar hætti, en tilvera þeirra er tilvera mín og þín. Þú ert í sporum eins þessara manna. Því þarftu ekki að trúa að þeir hafi verið þrír eða tólf. Fjöldi þessara vitringa getur verið allur fjöldi – allra manna á öllum öldum. Þín er vænst í hóp þeirra. Þú mátt vera þarna við hlið þeirra. Þegar þú íhugar sögu þeirra er endursköpuð þín eigin saga. Helgisaga er utan við lífið ef hún er skilin bókstaflega en eflir lífið ef hún fær að tjá merkingu. Þú verður einn af vitringunum þegar þú viðurkennir mikilvægi þess að lúta barninu, manninum, veruleika Jesú Krists. Þá verður lífið töfrandi.

KUL – Sunna Dís Másdóttir

Ég er í aðdáendaklúbbi Sunnu Dísar Másdóttur. Ég setti því ekki upp stóru gagnrýnisgleraugun þegar ég byrjaði að lesa KUL-bókina hennar. Málgaldur bókarinnar kitlaði og sagan byrjaði blíðlega. En svo undraðist ég hægaganginn og velti vöngum yfir hvort lopinn væri teygður um of. En tökin voru hert, hraðinn jókst og í ljós kom við lokin að engu var ofaukið. Vefnaður Sunnu Dísar var nostursamlega unninn, efnistökin voru snilldarleg og heillandi mynd birtist. 

Já, KUL er um kulnun. Örmögnun fólks er ömurleg og engum eftirsóknarvert skemmtiefni. En flækjan, kaldranaleg náttúruöfl, litríkt vestfirskt sjávarþorp, alls konar íslenskir víkingar í innrás og útrás upplýsa myrkrið, veita drunga líf, endurbata lit og slæma fálmurum og spurningum inn í okkur sem lesum. Við bókarlok uppgötvaði ég að KUL er ekki sértæk bók sem hentar fáum og drungasæknum. Hún er raunar um okkur öll, tengist atburðum í öllum fjölskyldum og byggðum. Ekkert okkar hefur sloppið við að glíma við einhvern þeirra þátta sem KUL dregur svo vel fram. Góðar bækur vitja manns aftur og aftur, sækja á og varpa ljósi á atburði og fólk sem maður hefur hitt og jafnvel átt í erfiðleikum með. Þannig er KUL. Hún er ekki sjálfshjálparbók heldur vel skrifuð skáldsaga en persónur sögunnar verða eins og lyklar að mörgum samferðamönnum okkar og ástvinum sem við höfum glímt við. Hún er því viskubók líka. 

KUL er glæsileg skáldsaga á litríkri, ilmandi íslensku. Hún er full af kímni, gráglettni og skemmtir kostulega og oft um óskemmtileg mál. Hún segir frá skondnum uppátækjum, fjölvíddum íslenskrar menningar og byggða, sýnir manneskjurnar að baki hlutverkum og baráttu fólks sem elskar. Ábyrgð er dýr og kremur oft. KUL er snilldarbók um lífsflækjur sem má leysa og að lífið getur verið sterkara en dauðinn, bók um lífssókn en ekki dauðadjúpar sprungur. Í bókinni er unnið með stóru stef menningar okkar, myrkur, ásókn, depurð, missi og dauða en líka um hitasókn, rými, lykt, þrá, tengsl, sátt og virðingu. Og kannski dýpst um ást og líf. KUL er heitasta bókin sem ég las á árinu og einu gildir hvaða gleraugu voru á nebbanum.  

Nýtt líf

Liðið ár var viðburðaríkt í lífi fjölskyldu minnar. Á skurðstofu fæðingardeildar Landspítalans var kona mín skorin upp. Læknir seildist inn í kvið hennar og dró út lítinn dreng og síðan annan mínútu síðar. Þeir hrinu báðir og gleðióp hljómuðu frá hjúkrunarfólkinu í stofunni. Svo var komið með annan guttann til að leggja í fang móðurinnar en þá kom að hinu óvænta. Vegna handadofa treysti mamman sér ekki til taka við stráknum og bað um að hann yrði settur í fangið á pabbanum óviðbúna. Það var mikil reynsla að fá nýburann í fangið svo óvænt. Tárin streymdu. Smádrengurinn kallaði fram elsku. Í bland við hraðrannsókn á hvort sköpulagið væri eðlilegt flugu lífsóskirnar: „Guð minn góður gefi þér líf, allt sem þú þarft til að lifa.“ Í fanginu var lítill kroppur með alla þrá heimsins og lífsvon í augum. Ekkert rífur betur í vanann og hvetur til dáða en barn sem á allt undir elskunni í foreldrum og frændgarði, á aðeins lífið og hamingju í vændum ef ég og við bregðumst vel við. Skyldi í svona reynslu vera eitthvað guðlegt?

Kross undir og ofan á

Í gamalli þjóðsögu segir frá álfkonum á ferð. Þær laumuðu sér í bæ og komu að vöggu þar sem hvítvoðungur var. Þær ætluðu að stela barninu og fara með það í eigin heima. Önnur álfkonan varaði við og sagði: „Ekki má, ekki má. Kross er undir og ofan á. Tvævetlingur situr hjá og segir frá.“ Þær hættu við barnsránið. Nýja árið er sem hvítvoðungur sem þarf að krossa til að enginn steli og trylli heldur nái þroska og verði það sem verða má. Í texta nýársdags segir frá því að Jesús fékk nafn og að hann var umskorinn eins og allir gyðingadrengir á áttunda degi frá fæðingu. Drengir hafa í þúsundir ára velt vöngum yfir hversu þjáningarfull umskurn væri. Tveir strákar voru eitt sinn að ræða saman. Annar spurði umskorinn gyðingastrák hvort honum hefði ekki fundist vont að láta skera af typpinu. Jú, hann hélt það nú. „Það var svo sárt að ég gat ekki gengið í heilt ár á eftir!“

Viðburður ársins

Hvað var það merkilegasta sem þú reyndir á liðnu ári? Þú hefur orðið fyrir reynslu af fólki, atburðum, náttúru og hlutum. Kannski hefur þú heimsótt stað eða fólk sem hafði áhrif á þig. Varðstu fyrir einhverju óvæntu sem vakti nýjar kenndir eða reif ofan af gömlum sárum? Ef þú varðst fyrir missi var rifið í sál þína. Er eitthvað á árinu sem hefur snortið þig í djúpum persónu þinnar, náð að strjúka strengina hið innra, magna lífssönginn og leyft þér þetta sem kallað er svo fallega að upplifa, lifa upp? Við áramótum megum við gjarnan gera upp reynslu liðins árs til að við verðum fær að opna og mæta viðburðum og tækifærum. Leyfum okkur að fæðast til opins tíma.

Nýtt ár

Við lærum að skrifa nýtt ártal. Við æfum okkur í staðreyndinni að árið er liðið í tímasafnið, í aldanna skaut og kemur aldrei til baka. Það er vottur af hryllingi í þeim boðskap áramótasálmsins. Aldrei til baka, algerlega farið og ekki hægt að bæta með beinum hætti það sem mistókst og fór aflaga. Beygur fer um huga og jafnvel líka sorg vegna þeirra sem voru slitin frá okkur og vegna hins sem við gátum ekki eða gerðum ekki. Stundum erum við óviðbúin nýjungum og viljum ekki opna huga okkar en nýtt ár er sem vonarbarn sem skellt er í fang okkar. Það er ómótað og á sín spyrjandi barnsaugu. Hvað viltu gera með mig? Hvað viltu verða á árinu? Við erum flest seigt íhald. Við höldum fast í hefðir og viljum ógjarnan verða öðruvísi og alls ekki missa heilsu, vinnu, forréttindi, hárið eða lífsmynstrið. Bara kíló og sorgir mega hverfa. Svo kemur hið nýja ár möguleikanna.

Guðspjallstexti nýársdags

Dagurinn í dag heitir á kirkjumálinu áttidagur jóla. Vika er liðin frá aðfangadegi og dagurinn fellur saman við áramót. Guðspjallstexti nýársdags er stuttur og framhald á jólasögunni. Nýburinn í Betlehem var umskorinn í samræmi við hefðina. Blóð rann við upphafssögu hans og rímar við blóðfórn við lífslok. Endir er í upphafinu og öfugt, sem táknskynugir nema. Svo var hann nefndur Jesús sem þýðir að Guð frelsar. Hann bar þegar í nafninu skilgreiningu hlutverks síns. Kristsnafnið er síðari viðbót og tekur til vonarspádóma um hinn smurða konung sem muni frelsa. Gyðingar tengdu saman umskurn og nafngjöf. Það var ungbarnaritúal. Umskurnin var ekki síst iðkuð til að marka ungsveinana sem börn þjóðarinnar. Gyðingur gekk inn í sögu sem hafði tilgang og fjölbreytilegar skyldur. Nafnið skilgreinir síðan hlutverkið frekar. Jesús var umskorinn á áttunda degi. Vafalaust hefur hann ekki gengið mikið næsta árið, þetta var jú sárt!

Nafngjöfin

Í forngermönskum samfélögum voru nöfn talin skilgreinandi og fylgdi t.d. rándýrsnöfnum trú á að nafnberar yrðu öflugir. Svipað gilti meðal Gyðinga. Nafn var bæði lýsandi og leiðbeinandi um eigindir einstaklinga og hlutverk. Í Nýja testamentinu ber Jesús hina grísku umritun á hebreska nafninu Jósúa eða Jeshúa. Margir höfðu hlotið þetta vonarnafn áður en Jesús fékk það. Hann einn uppfyllti erindið. Hlutverk hans var að ganga erinda frelsis, færa kúguðum rétt, hinum stríðandi frið og bandingjum lausn. Hver er hemill í þínu lífi? Hver er hamur þinn?

Val nafna í samtíð okkar er með ýmsu móti. Sumir foreldrar hafa gaman af nafnamúsík og vilja að nöfnin hljómi glæsilega. Aðrir skírskota til ættar og sögu og stundum eru nöfn gefin vegna þess að fólk vill heiðra einhvern. Nú á tímum vitjar látið fólk sjaldan nafs eins og algengt var á fyrri öldum. Fjölbreytni í nafngjöfum á Íslandi vex með fleiri innflytjendum. Þó að mannanafnavefir á netinu séu brunnar fróðleiks um merkingu heita og erlendir nafnavefir séu aðgengilegir virðast íslenskir foreldrar hugsa meira um „lúkk“ og hljóm en merkingu, semantík og samhengi. Flestum þykir vænt um nafnið sitt. Nafnið skilgreinir að einhverju leyti mat á sjálfi og mótar, hvort sem menn heita Sigurjón Bláfeld, Logi Eldon eða eitthvað annað. Nöfn geta líka verið svo þungbær að eigandinn rís ekki undir þeim. Um allar aldir hafa menn vitað að nöfn skilgreina og hafa áhrif á líf einstaklinganna.

Gæska og guðshlátur

Litlu karlarnir mínir voru strax nefndir eftir fæðingu en eru skírðir á nýársdegi. Nöfnin þeirra eru Jón Kristján og Ísak. Jónsnafnið er ekki aðeins eitt algengasta nafn Íslendinga síðustu aldir heldur er einnig notað víða á Vesturlöndum en í ýmsum útgáfum. Það birtist í Jean, John o. fl. og merkir að Guð er góður. Kristján er sömuleiðis til í ótal myndum og vísar til kristinnar mennsku. Ísak er úr eldra testamentinu. Frægastur Ísaka er sonur Söru og Abrahams. Nafnið vísar til húmoristans Guðs og merkir hlátur Guðs. Himinhúmorinn á sér afleggjara í kátínu okkar, aldraðra foreldranna, yfir undrinu. Nöfn drengjanna eru úr hinni kristnu hefð. Jesúnafnið gefur kross sem er undir og ofan á. Þessi íklæðing hins trúarlega kemur meðal annars fram í táknatferli prestsins sem í skírn krossar á enni og brjóst. Það gerðu foreldrar við börn sín er þau voru þvegin og það var einnig gert við mig ungan. Í signingunni er tengt við merkingu Jesúnafnsins. Eilífa lífið byrjar ekki í dauða heldur í skírn. Við erum börn heimsins og heimsborgarar en í skírninni verðum við fullveðja börn eilífðar. Við gefum ungviðinu allt það besta sem við getum og eigum. Trúmenn bera börnin að skírnarlaug til að líf þeirra verði helgað því besta. Nöfnin þeirra og veruleiki er þá í Jesú nafni.

Fangið fullt af lífi

Stundum hættir okkur við að smætta trú og Guð og horfa með augum fordóma eða með gleraugum þröngsýnna trúmanna. Miðja kristninnar er Guð en ekki sögulegar birtingar trúarinnar. Nafn þess sem best túlkar guð kristninnar er Jesús og merking og nafn hans er frelsi, boð um að fjötrar falla og þú, menning, þjóðir og veruleikinn fæði frið, réttlæti og lausn. Þetta er boðskapur sem við þurfum að heyra við áramót. Hvað hamlar í hinu íslenska samfélagi? Hvað getur orðið til bóta í alþjóðasamfélaginu? Hvað hemur þig? Hvernig getur þú losnað úr viðjum og lifað vel og í hamingju? Allt lífið er spurn og ávallt berst svar sem er guðlegt. Allt lífið er barátta sem eilífðin faðmar. Allur vandi heimsins er umlukinn þessu himneska: að Guð frelsar. Þannig gefur Guð nafn. Þannig nefnir Guð heiminn með von og huggun.

Þegar barn var lagt í fang mitt öðlaðist ég ekki aðeins lífsreynslu heldur fylgdi líka með vitund um stöðu okkar manna. Við erum í elskufangi í öllum lífsaðstæðum. Allt mennskt endurómar hið guðlega. Í skírn færum við börn í fang Guðs. Ef við getum upplifað mikla hamingju þegar nýburi er í fangi hlýtur Guð að samgleðjast okkur. Við áramót megum við kasta fortíðarham og öllu sem letur okkur. Við getum gert þá lúxustilraun að prufa hvort treysta megi möguleikunum sem opnast: sem sé, að við séum hvítvoðungar í stórum elskufaðmi. Þar eru engir ránsálfar sem ógna lífinu. Þar er ekkert sárt og þar þurfum við ekki að bíða í heilt ár til að ganga eða hlaupa. Þar megum við sprikla og læra að tala og sjá tilveruna í róttæku ljósi hins góða og gjöfula. Þar búa nú Ísak og Jón Kristján. Þar mátt þú líka hjala og vera í Jesú nafni. Kross undir og ofan á.

Nýársdagur 2006. Slm 90.1–4; Gal 3.23–29; Lúk 2.21.

Andalæri á blini eða lummum

Þetta er undursamlegur smáréttur. Ég byrja á því að baka blini eða lummur. Ef rétturinn á að vera fingrafæði er hægt að hafa blinistærðina og einfalda áleggið en lummustærðin með öllu dýrðarálegginu er hentugri fyrir dögurð-bröns. Þegar búið er að baka er farið í að undirbúa áleggið, sem auðvitað er hægt að breyta að smekk. Ég nota wasabiþykkni til að blanda út í léttmajones. En hægt er að fara aðrar leiðir, jafnvel nota chili-majó eða aðra uppáhaldssósu.

Hentar fyrir 6 og jafnvel fleirum ef margir smáréttir fylgja með.

4 stk. anda­læri úr dós

200 gr hois­insósa

1 dl kjúk­linga­soð

sítr­ónusafi

graslauk­ur eða vorlaukur

stein­selja

langskornar gulrótarflísar og agúrkustrimlar

sesamfræ

Aðferð

Ég set andalærisdós­ina í heitt vatnsbað (vask eða stóran pott) til að bræða vel andafituna. Taka anda­lærin úr fit­unni, hreinsa skinn og bein frá og merja með puttunum kjötvöðvana sundur. Geyma andafit­una (t.d. frysta) og nota til steik­ing­ar síðar. Setja hois­in-sósu í pott með kjúk­linga­soði, hita upp ró­lega og bæta kjötinu svo út í og leyfa því að hitna og taka til sín sósuna.

Blini – lummur

1 bolli hveiti

1/2 tsk salt

1 egg

2 msk góð olía

2/3 bolli mjólk

1/2 tsk lyftiduft

Blandið öllu saman og steikið blinis eða lummurnar á pönnu. Látið kólna. Til eru blinipönnur sem ég hef prufað en mér hefur ekki þótt að þær gefi betri árangur en að baka frítt á pönnukökupönnu eða góðri steikingarpönnu. En um smekk er ósmekklegt að deila. Mér þykir skemmtilegt að blini verði í steikingu mismunandi í laginu og tilbrigði verði í lit líka.

Wasa­bimajo­nes

1msk wasa­bipaste

3 dl léttmaj­o­nes

Öllu blandað sam­an og sett í sprautu­poka

Á blini-lummurnar eru settir gulrótar- og ágúrkustrimlarnir. Þá kemur hrúga af andalærinu. Wasabimajonesinu sprautað yfir og síðan kemur graslaukur eða vorlaukur yfir og svo sesamfræ. 

Bliniuppskriftin frá Albert eldar og andalærisuppskriftin af mbl. Takk fyrir.