Ásdís Jóhannesdóttir – minningarorð

Ásdís mynd 1b_ppÁsdís fór á bak hestinum. Vinkonur ætluðu í útreiðartúr. Svo lögðu þær af stað í góðviðri og sumarhita. Ásdís sat hestinn vel og alveg óþarfi að láta hann fara bara fetið. Grannur stúlkulíkaminn var léttur á baki, fingur héldu um taum og hestarnir fóru fljótt yfir, gangþýðir og viljugir – út tungurnar, alla leið út að Norðurá. Og svo fóru þær niður að ánni óhræddar. Þær þekktu Hábrekknavaðið og styttu sig ef áin næði upp á kvið hestanna. Svo fóru þær yfir, óttuðust ekki að falla í ána og svo upp á bakkann í Ytri-tungu og síðan alla leið heim til ömmu á Laxfossi. Þar var þeim vel tekið og bornar fyrir þær veitingar og gert við þær sem héraðshetjur.

Það er birta og yndisleiki í þessari mynd frá fjórða áratug tuttugustu aldar. Ásdís á ferð á heitum sumardegi, frjáls, fagnandi, skynug og meðvituð. Hún sá blómin, þekkti sögu umhverfisins, las landið, naut ferðarinnar, kunni að varast hættur, dró að sér ilm landsins og lyktina af heitum hestinum og gætti að sér að horfa ekki í struminn á vaðinu til að hana svimaði ekki. Svo heilsaði sínu fólki stefnuföst og frjálshuga. Það er gaman að gæla við þessa björtu ferðamynd og sjá í henni táknmynd um Ásdísarævina. Hún fór það sem hún vildi, var tengd gildum, sögu, landi og samhengi. Hún ræktaði tengslin við ættmenni og vinafólk, henni mátti alltaf treysta og hún stóð með lífinu.

Viturt hjarta

Matthías Jochumsson hreifst af nítugasta Davíðssálmi og orti út af þeim sálmi Lofsönginn árið 1874 sem síðar varð þjóðsöngur Íslendinga. Davíðssálmurinn er ljóð um mannlíf, samhengi og hlutverk mennskunnar í heiminum og er jafnan lesinn í kirkjum við áramót. Í fyrradag voru þessi orð lesin í kirkjum landsins og svo var þjóðsöngurinn víða sunginn í sömu athöfn, tvær útgáfur sama boðskapar. Í Davíðssálminum segir:

„Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns.
Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til,
frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.
Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins
og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn.“
Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka.

Kenn oss að telja daga vora,
að vér megum öðlast viturt hjarta.“

Ævi manns er ekki aðeins það fæðast, að slíta barnsskóm, fara í skóla og sinna ástvinum og vinnuverkefnum lífsins – heldur hvað? Að lifa vel. Kynslóðir koma, kynslóðir fara – athvarf frá kyni til kyns. Börn fæðast og vaxa úr grasi, öðlast vit til sjálfsbjargar eða ná aldrei þroska. Og ívaf allrar sögu er: “Hverfið aftur þér mannanna börn.” Orðstír manna lifir vissulega, en allt mannlegt er sem grasið eða blómgróðurinn, sem lifnar – “hverfið aftur…” Hvað gerum við gagnvart því boði? Stöldrum við og biðjum bænina í þessu ljóði guðsmannsins Móse: “Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta?” Ásdís lifði vel og nýtti hæfni sína til að þroskast. Hún er þér fyrirmynd og til þroska.

Ævistiklur

Ásdís Jóhannesdóttir fæddist 21. október árið 1925. Foreldrar hennar voru Hildur Áslaug Snorradóttir og Jóhannes Jónsson. Áslaug var fædd á Laxfossi við Norðurá og Jóhannes á Hömrum í Þverárhlíð. Þeim Áslaugu og Jóhannesi varð tveggja barna auðið. Eldri var Snorri sem var liðlega þremur árum eldri en Ásdís. Þau Jóhannes og Áslaug bjuggu í Efranesi í æsku þeirra systkina, bjuggu góðu búi og voru dugmiklir og framsýnir bændur. Heimilið var rismikið menningarheimili. Jóhannes var gagnfræðingur frá Akureyri og hann var kennari í sinni sveit og kenndi einkum í skólahúsinu í Hlöðutúni.

Ásdís var efnisbarn, bráðskörp, fljót til bókar og bóksækinn. Jóhannes faðir hennar var umsjónarmaður lestrarfélagsins og sá um að bæta bókakost og lestrarefni sveitunga sinna. Ásdís hafði því þegar í bernsku góðan aðgang að bókum, hafði áhuga á þeim og inntaki þeirra og efni alla tíð. Hún lagði á sig að ná sér í bækur þegar komið var fram yfir svefntíma, lærði meira að segja að forðast brakandi gólffjalir þegar hún var að laumast í bækurnar seint á kvöldin.

Foreldrar Ásdísar kenndu henni og hún tók vel við. Þær mægður voru samstiga og Ásdís var alla tíð góð móður sinni. Pabbinn studdi og efldi dóttur sína til náms og kom vel til móts við námsgetu dóttur sinnar. Í foreldrahúsum lærði Ásdís strax að eitt eru gáfur og annað hvað menn gera úr. Lífshamingjan er áunninn. Þekkingu afla menn sér með því að nýta getu og gáfur og viskan er ávöxtur þekkingar, íhugunar – þroskuð úrvinnsla lífsefna, menningar og lífsreynslu. „Kenn oss að telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta.“ Hlöðutúnsskólinn reyndist Ásdísi vel og þar var hún í fjögur ár eins og jafnaldrar hennar.

Reykholtsskóli var í héraðinu. Héraðsskólarnir voru íslensk útgáfa hinna norrænu lýðháskóla og Reykholtsskóli var lengi góð menntastofnun. Foreldrar Ásdísar vildu að hún nyti góðrar menntunar og sendu hana í Reykholt. Þar var hún í þrjú ár. Hún átti auðvelt með nám og henni leið vel með bækur á milli handa. Hún fór suður vel undirbúin og margfróð og fór í Kennarskólann og beint í annan bekk. Ásdís lauk kennaraprófi árið 1946 og var strax ráðinn kennari til hins merka Laugarnesskóla. Þar starfaði hún sem barnakennari alla starfstíð sína og þar til hún lét af störfum árið 1993. Hún kenndi því börnum í Laugarneshverfinu hátt í hálfa öld.

Kennarinn

Og hvað er það að kenna börnum? Er það að tryggja að börnin kunni lágmark í reikningi, draga til stafs og geta lesið skammlaust af bók? Mann- og menntunarafstaða Ásdísar var ríkulegri en svo. Jú, hún kom þeim börnum til manns sem henni voru falin. En hún gerði meira, hún leit eftir hvernig börnunum liði, hvort þau nytu stuðnings og væru vel nærð. Ef ekki vann hún umfram alla skyldu, leyfði þeim að koma í skólann snemma til að gefa þeim matarbita sem voru vannærð og hjálpa þeim sem þurftu stuðning. Ásdís kennari var ekki aðeins menntunarstjóri heldur iðkaði það sem í kristninni hefur verið kallaður kærleikur. Hún hafði augun á fólki sem henni var falið að efla, sá það sem á vantaði, greindi geðslag og möguleika, styrkti þau sem hún gat og nærði með því móti sem henni sýndist best. Ásdís var því nálæg nemendum sínum og tengdist þeim vel. Mörg þeirra höfðu samskipti við hana í mörg ár eða jafnvel áratugi. Ásdís á þökk fyrir allt hennar starf að kennslu og mannrækt unga fólksins í Laugarnesskóla. Og falleg og lýsandi er sagan um að einn nemandi hennar nefndi dóttur sína Ásdísi til heiðurs kennara sínum.

Heimilið

Jóhannes faðir Ásdísar brá búi og hætti kennslu um miðjan aldur vegna heilsubrests. Foreldrar Ásdísar fluttu til Reykjavíkur og héldu heimili með henni. Fyrstu árin bjuggu þau í Hlíðunum en síðan keyptu þau saman hæðina á Silfurteigi 2. Jóhannes lést árið 1953 og síðan bjuggu þær mægður saman og með góðri samvinnu næstu tíu ár en Áslaug lést árið 1963. Var Ásdís alla tíð afar natin og umhyggjusöm dóttir og sá um að foreldrum hennar og síðar móður liði vel og nyti alls sem hún þurfti og vildi.

Heimili Ásdísar er prýtt bókum. Þar eru eiginlega fallegri bækur en á heimilum okkar hinna því flestar þessar bækur eru í fallegu bandi og bera vitni menningarafstöðu og öguðu fegurðarskyni. Bókakosturinn er eins og á vænu bókasafni. Og fallegar myndir eru á veggjum, myndir af fólki og dýrum í fallegu náttúruumhverfi. Svo eru húsgögnin falleg og heimilið ber smekkvísum fagurkera vitni.

Eigindir og tengsl

Hvernig manstu Ásdísi? Jú í henni bjó skapfesta, mannúð og reglusemi. Hún var merk kona og heiðarleg. Hún umvafði fólkið sitt elskusemi og afkomendur Snorra nutu vel og þeirra fólk. Þau hafa líka á síðari árum verið vakandi fyrir velferð hennar og gengið erinda hennar. Þau endurgjalda því að Ásdís var alla tíð vakandi fyrir þeirra velferð. Umhyggjan verður best þegar hún er gagnvirk.

Hvað er efst í hug þér er þú kveður Ásdísi? Hún hafði vakandi áhuga á öllu því sem íslenskt er. Hún lagði rækt við íslenskan menningararf, las mikið og á mörgum sviðum, s.s. sagnfræði, ljóð, skáldsögur, þjóðlegan fróðleik, náttúrufræði, byggðasögu. Og svo fór hún um landið í menningar- og sögu-rannsóknarferðir. Eitt sinn skiptu vinkonurnar Þuríður og Ásdís landinu í þrjá hluta og luku yfirferð eins-þriðja á ári. Í þessu þriggja ára Íslandsverkefni fóru þær yfir margar ár, margar tungur og hálsa, skoðuðu fjöll og byggðir, lásu land og menningu – „…að vér megum öðlast viturt hjarta.“

Ferðarlok og upphaf annarar

Stúlkan sem sveiflaði sér upp á hest í Efranesi til að heimsækja ömmu fer ekki fleiri ferðir í þessum heimi. Engir litlir munnar fá mat eða nammi frá henni. Hún kennir ekki fleirum íslensku – hvorki í skóla eða símafjarkennslu. Ásdís fer ekki í fleiri rannsóknarferðir og fólkið hennar getur ekki lengur hringt í hana eða heimsótt hana. Bækurnar hennar eru eftir, myndirnar hennar og minningar um hana. Þær minningar má gæla við í huga og leyfa þeim að bera ávöxt í lífinu. „Kenn oss að telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta.“

Í þessari útfararathöfn umlykja okkur textar Íslandsástar – textar um smávini í náttúru Íslands, litskrúðug blómin – söngvar um ást til heimahaga og hins ögrum skorna Íslands. Og svo eru það líka undursamlegir textar jóla: Fögur er foldin, um göngu pílagrímsins, fram um víða veröld. Og kynslóðir koma, kynslóðir fara. Nú eru bæði systkinin frá Efranesi farin inn í himininn, foreldrarnir líka. En boðskapurinn sem var fyrst fluttur fjárhirðum lifir enn, textarnir um frið á foldu eru enn sungnir. Fagna þú maður, frelsari heimsins fæddur er. Já, við getum efast en áfram lifir vonin um að lífið sé ekki bara leikur þessa heims heldur eigi tíminn sér fang í eilífðinni og dauðinn sé aðeins för yfir vað til landsins hinum megin – himneskar Stafholtstungur og uppsveitir eilífðar – þar sem amma er, afi líka, pabbi og mamma og öll þau sem við elskum. Það er boðskapur kristninnar sem við megum trúa – vonarboðskapur – boðskapur um lífið.

Guð geymi Ásdísi.

Guð geymi þig og blessi.

Amen.

Jarðsett í Kópavogskirkjugarði. Erfidrykkja á Silfurteigi 2.

Sigurður Árni Þórðarson, s@neskirkja.is og s@sigurdurarni.is

Heimasíða: www.sigurdurarni.is

Hamingjan er heimilisiðnaður

heimilisiðnaðurHvað skiptir máli í lífinu? Stór spurning í upphafi nýs árs. Hugsaðu þig um hvað þér er mikilvægt. Spurningin er ekki flókin en þó reynist mörgum snúið að svara henni. Að svara er þó þarft því það hefur áhrif á líf og getur orðið afgerandi um lífsgæði þín og hamingju. Hvað eitt er þér allra mikilvægast á þessu nýja ári? Hvernig gengur þér í einkalífinu? Og hvernig líður þér í vinnunni? Langar þig kannski að sækja á nýjar slóðir og gera eitthvað nýtt?[i] Ertu á krossgötum og þráir að breyta en ert ekki viss um hvort þú getur eða jafnvel þorir?

Ein af bókunum sem hefur verið uppi við á mínu heimili á liðnu ári er The Happinessproject – sem er bók um hvernig hægt er að vinna að hamingjunni og rækta hana.[ii] Þetta er bók fyrir þau sem vilja bæta og langar til að lifa vel. Meðal þess sem lagt er til er að fólk sé meðvitað um stefnu og setji sér markmið – ekki bara almenn markmið heldur sértæk. Flestir vita vel að hægt er að setja sér markmið til langs tíma og skilgreina síðan með hvað hætti hægt er að ná þeim markmiðum, setja niður skref og gæta þess síðan að taka þau. Að setja sér markmið til skamms tíma sem og lengri tíma er til góðs. Hin marksæknu ná alltaf árangri – ef ekki öllum markmiðum þá mikilvægum áföngum.

Hvað skiptir máli í lífinu? Til að svara þeirri stóru spurningu er líka hægt að leita í sjóð annarra, njóta hjálpar þeirra sem hafa þegar svarað. Líklega er blóðríkasti og áhrifaríkasti sjóðurinn – sem ganga má í – vitnisburður þeirra sem hafa ekki getað vikið sér undan að svara þessum spurningum. Og hver eru þau? Hin deyjandi, þau sem hafa verið við dauðans dyr og hafa haft tækifæri til að gera upp lífið og undirbúa hinstu för sína í þessum heimi.

Deyjandi en mest lifandi

Prestar eru oft kallaðir til fólks áður en dauðinn kemur. Mér hefur þótt það merkileg og lífshvetjandi reynsla að tala við hin deyjandi. Mörg hafa trúað mér fyrir dýpstu vonum og sorgum. Og það merkilega er að lífsþorsti þessa fólks er oft óbugaður. Mörg þeirra tjá svo djúpa lífsvisku að allt lifnar í návist þeirra. Deyjandi fólk er stundum best lifandi fólkið. Og tilfinningar þeirra, vonir, gildi og þrá geta veitt okkur hinum sjónarhól eða sjónarhorn sem getur hvatt og stutt okkur til lífs.

Meira af hverju?

Hvað ætli sé hinum deyjandi mikilvægast? Ég nefni fimm atriði sem gætu orðið þér til íhugunar þegar þú mótar stefnu þína á nýju ári.

1. Trú sjálfum sér

Í fyrsta lagi er deyjandi fólk sorgmætt yfir að hafa ekki verið trútt sjálfu sér, ekki staðið með eigin löngunum – heldur látið undan þrýstingi annarra – fremur reynt að uppfylla væntingar þeirra en að virða eigin þrá. Þegar fólk uppgötvar að lífinu er að ljúka minnka varnir, afsakanir verða tilgangslausar og brostnar vonir leita á með fullum þunga. Fólk spyr sig af hverju það fylgdi ekki ástríðu sinni, þrá, löngun og von? Og: „Af hverju lét ég aðra ráða en hlýddi ekki innri rödd, því sem ég hafði þörf fyrir, mínum innri manni?“

Er kannski verkefni þitt á nýu ári að virða innsæi þitt? Það er þitt og er mikilvægt. Það er kall þíns innri manns um lífshamingju og að þú standir með þér. Er það mikils virði?

2. Of mikið puð – of lítið líf

Í öðru lagi kemur stundum fram við lífslok samviskubit vegna vinnu og þrældóms. Mörg harma að hafa látið peninga ráða og ekki þorað að breyta til og gera það sem þau raunverulega langaði til. Þetta er stundum kallað gullhandjárn. Og þau halda mörgum föstum. Mörg syrgja að vinnan varð of tímafrek og tíminn sem fór í puðið var tekinn frá ástvinum, að fylgjast með börnunum vaxa úr grasi og kyssa og faðma maka sinn. Hvað setur þú í forgang á nýju ári og í lífinu? Viltu vera með fólkinu þínu? Og hvað gerir þér gott og veitir þér hamingu?

3. Að virða líka tilfinningar

Í þriðja lagi segja hin deyjandi að þau hefðu gjarnan viljað leyfa tilfinningum að blómstra. Kannski hefði mátt virða þær og tjá þær betur. Margir deyfa tilfinningar sínar og tjá þær ekki – til að særa ekki aðra eða halda friðinn. En allir ættu að skilja að bæla tilfinningar getur skaðað andlega heilsu, orðið meinvaldur og til tjóns. Við ráðum ekki hvernig fólk bregst við orðum okkar en hreinskilni er jafnan til góðs til lengdar og eflir þroskuð samskipti. Viltu gangast við þínum innri manni og taka mark á þér?

4. Vinirnir

Í fjórða lagi syrgja margir við lífslok að hafa ekki ræktað samband við vini betur. Vinna og verk hafa oft spillt góðum og gefandi tengslum svo fólk hefur í ati lífsins misst sjónar á þeim sem hafa verið þeim mikilvægir og viljað halda tengslum við. Fólk syrgir vini við æfilok. Það er fólk sem skiptir máli við lífslok en ekki hlutir, fjármunir eða vegtyllur. Hvað þykir þér um slíkar fréttir?

5. Hamingjan

Og í fimmta lagi syrgja margir að hafa ekki leyft sér meiri lífshamingju og hamingjusamara líf. Þegar dauðinn nálgast dagar oft á fólk að hamingja er ekki slys eða tilviljun heldur afrakstur ákvörðunar og stefnu. Hamingjan er ákveðin og raunar ávöxtur ákvörðunar. Hamingjan er meðvitaður heimilisiðnaður. Hvað aðrir segja, gera eða hugsa tryggir fólki ekki lífsfyllingu heldur það sem fólk ákveður sjálft með góðri sjálfsþekkingu og yfirvegun. Lífið er val og þitt er valið hvort þú velur hamingjuna eða eitthvað annað.

Kenn oss að telja daga vora

Í nótt var annar drengurinn minn – átta ára – yfirkominn af tímaöng, eftirsjá yfir að gamla árið væri farið og kæmi aldrei til baka. Hann var harmþrunginn yfir að gleðitími væri farinn og aldrei væri hægt að lifa hann aftur. Foreldrarnir tóku drenginn í fangið til að tala um möguleika lífsins. Og þá er gott að geta minnt á að amma drengsins lagði upp úr að nýársdagur væri hvítur dagur, dúkaði borð með hvítu, keypti hvít blóm til að tákna að dagurinn væri upphaf nýs og óspjallaðs tíma. Og þessa gætum við á mínu heimili og mörg ykkar líka. Til hvers? Til að minna á og innlifast að hið liðna er liðið.

Nýr tími merkir að við erum öll frjáls – þú líka ef þú vilt. Hvað bindur þinn hug og líf? Hvað langar þig og hvað ætlar þú að gera við tíma þinn, við eigið sjálf og við líkama þinn? Hvernig viltu nota tíma nýs árs – í vinnu, í einkalífi og í samskiptum.

Skáldið og vitringurinn sem samdi lexíu dagsins, nítugasta Davíðssálm, biður til Guðs: „Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.“ Það er verkefni okkar allra. Viturt hjarta – fyrir líf og dauða, fyrir gleðistundir og hörmungartíma, stefna hamingjunnar. Nú er framundan nýr tími, algerlega ómengaður og hreinn tími. Þú mátt velja lífið og lífsgæðin.

Ertu við stjórnvöl eigin lífs eða ertu jafnvel bara farþegi? Viltu móta stefnuna, vera við stýrið? Varðandi framtíðina máttu gjarnan spyrja þig: Af hverju viltu verða stoltust eða stoltastur?

Nýr tími, nýtt ár. Engir aðrir en þú eiga að ákveða stefnu þína á nýju ári. Þarftu að stilla kompásinn að nýju? Guð hefur sent þér verkfærakistu til að vinna verkin, vit til að greina úrræðin og mátt sinn til að þú lýjist ekki. Og Guð hefur skapað tímann og þig svo listilega að það er gerlegt. „Kenn oss að telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta.“

Amen.

Íhugun í Neskirkju á nýársdegi 2014.

Lexía Sl 90.1-4, 12

Bæn guðsmannsins Móse.
Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns.
Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til,
frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.
Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins
og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn.“
Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka.

Kenn oss að telja daga vora,
að vér megum öðlast viturt hjarta.

Sonja Sigrún Nikulásdóttir 1940-2013

IMG_0958Sonja Sigrún Nikulásdóttir f. 23. júlí 1940 d. 14. desember 2013.

Ævi manns er ekki aðeins það fæðast, að slíta barnsskóm, fara í skóla og sinna ástvinum og vinnuverkefnum lífsins – heldur hvað? Að lifa vel. Í 90. Davíðssálmi segir:

“Drottinn, þú hefir verið oss athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð. Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins og segir: “Hverfið aftur þér mannanna börn!” Því þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær… …Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.”

Kynslóðir koma, kynslóðir fara – athvarf frá kyni til kyns. Börn fæðast og dreymir, vaxa úr grasi, öðlast vit til sjálfsbjargar eða ná aldrei þroska. Og ívaf allrar sögu er: “Hverfið aftur þér mannanna börn.” Sagan verður þykk þegar forgengileikinn er numinn og framlag manna er skoðað. Lofstír manna lifir vissulega, en allt mannlegt er sem grasið eða blómgróðurinn, sem nú lifnar – “hverfið aftur…” Hvað gerum við gagnvart því boði? Stöldrum við og biðjum bænina í þessu ljóði guðsmannsins Móse:

“Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta?”

Ævistiklur

Sonja Sigrún Nikulásdóttir fæddist á Akranesi 23. júlí 1940. Hún fæddist inn í sumarið og bar með sér birtu og yl æ síðan. Sonja var dóttir hjónanna Nikulásar Oddgeirssonar (f. 9.10.1906 d. 04.08.1983) og Sigrúnar Sigurðardóttur (f. 3.01.1913 d. 28.10. 1972). Hann var vélstjóri og hún húsmóðir. Þeim varð fjögurra barna auðið. Elstir eru Grétar Geir (f. 10.10.1933) og Sigurður Þorsteinn (f. 11.11.1934).

Drengirnir fæddust 1933 og 1934 og svo liðu fjögur ár. Þá fæddist þeim Sigrúnu og Nikulási árið 1938 stúlkubarn. Hún fékk nafnið Sonja Ester en lifði aðeins tæpa fjóra mánuði og lést vöggudauða í febrúar 1939 (f. 23.10.1938 d.15.02.1939). Einu og hálfi ári síðar kom svo Sonja Sigrún í heiminn. Hún fékk nafn eftir látinni og syrgrðri systur og Sigrúnarnafnið var frá móðurinni.

Fyrstu æviár Sonju bjó fjölskyldan á Akranesi, en eftir stríð fluttust þau búferlum suður fyrir Faxaflóa og Reykjavík og settust að í Hafnarfriði – á Tjarnarbraut 3. Pabbinn kom í land og fór að vinna hjá Rafha og þar nýttist vélstjóraþekking hans og þjálfun vel. Sonja gekk í skóla í Hafnarfirði og lauk gagnfræðaprófi frá Flensborg.

Síðan fór hún að afla sér tekna og stundaði ýmis störf. Hún vann á Sólvangi í Hafnarfirði og svo hjá heildverslun Ásbjörns Ólafssonar en megnið af starfsævinni var Sonja starfsmaður Landsbankans, lengstum í gjaldeyrisdeild og á alþjóðasviði. Og starfsstöðvarnar voru margar. Hún vann m.a. í aðalbankanum, á Laugavegi 77, á Lynghálsi og svo inn í Mjódd.

Pétur og dæturnar

Og svo kom Pétur inn í líf Sonju. Pétur Guðmundsson var á ferð með vini sínum kvöld eitt árið 1960 og Sonja bauð hópi ungs fólks í kaffi á Tjarnarbraut 3. Það var upphafið að kynnum þeirra. Þau urðu svo par og gengu í hjónaband í Hafnarfjarðarkirkju á annan í jólum árið 1962. Þegar Sonja lést voru þau Pétur búin að vera hjón í tæplega 51 ár.

Pétur er bifvélavirki að mennt og starfaði við iðn sína. Þau Sonja keyptu sér íbúð á Kaplaskjólsvegi 29 í Reykjavík og bjuggu þau þar alla tíð – meira en hálfa öld, ólu þar upp dætur sínar og tóku þátt í mannlífinu í vesturbænum. Síðustu árin vann Pétur svo í sundlaug Vesturbæjar.

Dóttir þeirra Sonju er Ólöf sem fæddist 8. nóvember árið 1962. Hún er viðurkenndur bókari.

Maður hennar er Eyþór T. Heiðberg. Þau eiga börnin Evu Ýr (f.20.09.1991) og Hreiðar Þór  (f.17.02.1995).

Dóttir Sonju og Sæmundar Guðmundssonar er Sigrún sem fæddist 9. apríl árið 1959. Hún er grafískur hönnuður. Maður hennar  er Steinar Már Gunnsteinsson.

Dóttir Sigrúnar er Alda Rose Cartwright. Maður hennar er Pétur Már Guðmundsson og börn Öldu Rose eru Máni og Urður Ylfa.

Eigindir

Sonja var dugmikil fjölskyldukona, hélt vel um sitt fólk, þjónaði því og gladdi. Hún hafði mikla ánægju af afkomendum sínum og þau sóttu til hennar. Þegar unga fólkið kom var amma tilbúin með dagskrá og ómótstæðileg tilboð. Og stórfjölskyldan gat alltaf gengið að því vísu að gott og gaman væri að fara í heimsókn til Sonju og Péturs. Þar var þeim vel tekið og glatt var á hjalla.

Sonja var félagslynd og félagshæf. Glaðlyndi hennar smitaði og gladdi samferðafólk hennar. Hún var frændrækin eins og hún átti kyn til. Og hún ræktaði tengsl við samferðafólk sitt og fjölskyldu. Hún var hnyttin og lagði gott til fólks. Hún var umtalsfróm og vildi engan særa. Hún efldi því samfélag sitt og stillti til friðar og gleði.

Alla tíð hafði Sonja gaman af fjölbreytileika mannlífsins. Hún var áhugasöm um framandi menningarheima og naut ferðalaga. Þau Pétur ferðuðust víða innan lands og utan. Á fyrri árum fóru þau á skíði og studdu KR með ýmsum hætti. Sonja hafði nautn af ferðalögum erlendis og fóru þær vinkonur hún og Ásrún Ingadóttir einnig í margar ferðir saman. Sonja fór ekki aðeins í ferðir til Evrópulanda heldur alla leið til Kína. Einnig fór hún í enskunám til Englands og var þá búsett á ensku heimili. Sonja var órög til ferða og fræðslu. Svo var Sonja spilandi gáskafull og uppátækjasöm. Hún hafði t.d. sérstakt dálæti á mótorhjólum og settist gjarnan á þau ef þau urðu á vegi hennar. Hún hefði sjálfsagt alveg getað hugsað sér að eiga eitt stykki Harley Davidson.

Sonja var listhneigð og opnaði hug sinn gagnvart undri leikhússins. Hún hafði mjög gaman af leikhúsferðum, fór með ástvinum og líka vinkonum sínum. Svo miðlaði hún gleðinni til yngri kynslóðarinnar með því að fara með unga fólkið í leikhús og að í því húsi undursins gæti maður notið mikillar reynslu.

Sonja var umhyggjusöm. Sjöfn Kristinnsdóttir vinkona og mágkona hennar vissi hve mannelsk hún var og einnig hve félagslega fær hún var og fékk Sonju til starfa við Thorvaldsensfélagið. Þar nýttust gáfur hennar og hæfni hennar vel. Sonja var í stjórn barnauppeldissjóðs félagsins. Mannræktarstarf félagsins naut starfskrafta Sonju til lífsloka hennar. Félagskonur og vinkonur Sonju biðja fyrir kveðjur og þakkir og votta henni þá virðingu að bera kistu hennar úr kirkju í lok þessarar athafnar.

Hvernig var Sonja? Hvernig manstu hana? Já, hún var glaðsinna, ljúf, traust, skörp, gjafmild, trygg, hjálpsöm, bóngóð, elskurík og skemmtileg. Eitthvað fleira? Já, raunar margt. Þú mátt gjarnan bæta í sjóðinn og til þess eru erfidrykkjur góðar. Þar má líka segja sögur og halda ræður. Og erfidrykkja verður í safnaðarheimili Neskirkju strax að útför lokinni.

Mér hefur verið falið að bera þessum söfnuði kveðju Steinunnar Helgu Sigurðardóttur í Danmörku.

Æviverkin

“Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.” Hvað er viskan? Það er viska að bera virðingu fyrir lífi og lifendum. Það er viturlegt að lifa og lifa vel. Það er mikilvægt að nýta sér gleðiefnin til skemmtunar og vera sterkur hlekkur í keðju kynslóða.

Ágústínus kirkjufaðir minnti á að lífsgangan er sveigur, för frá Guði og í sveig og til baka til eilífðar og í fang Guðs. Hvaða leið sem við förum, hvaða fjöll sem við klífum og hvaða blóm sem við lútum að eru lok – og við hverfum í faðm eilífðar, þá lokast Guðssveigurinn. Nú eru jól – sendiboði Guðs sem kom á jólum var sá sem skapaði Guðssveiginn.

Sonja fer ekki í leikhús framar, ekki til útlanda og hlær ekki við vinum sínum eða ættingjum. Nú er hún komin heim í himin Guðs. Hún hefur lifað vel. Konan sem fæddist inn sumarið hefur nú fæðist inn í himininn á jólum og Guðssveigur hennar er alger og heill.

Guð geymi Sonju um alla eilífð, Guð geymi Pétur, Sigrúnu, Ólöfu, afkomendur og ástvini.

Guð blessi þig. Í Jesú nafni. Amen.

Minningarorð í útför – Neskirkju 30. desember 2013.

Bálför og jarðsett síðar í duftagarðinu í Sóllandi.

Altari himsins

Tiburvölvan og ÁgústusSænski nóbelshöfundurinn Selma Lagerlöf skrifaði merk trúarleg rit, t.d. bókina Jerúsalem, sem Billie August kvikmyndaði ágætlega árið 1996. Lagerlöf skrifaði ýmsar sögur um Jesú Krist eða sögur sem tengdust lífi hans og veru. Í einni þeirra segir hún frá lífsreynslu keisarans í Róm þegar hann fór til helgihalds á myrku vetrarkvöldi. Ágústus keisari, þessi sem nú er einkum frægur af því hann er nefndur í jólaguðspjallinu, sá til völvu þegar hann kom á helgistaðinn. Lesa áfram Altari himsins

Ástarsagan

DSC07926_4494926787_l

Boðskapur þessara jóla. Hver er hann? Ástin og ástalífið!

Hefur þú elskað? Strák eða stúlku, konu eða karl, mömmu eða pabba, barnið þitt, fólkið þitt? Hefur þú orðið fyrir ástarsorg – og þótt lífið hryssingslegt? Á þriðja aldursskeiði æfinnar er ég frjáls, get ég horft til baka og að fenginni reynslu viðurkennt að það besta og dýrmætasta í lífinu er að elska og vera elskaður.  Lesa áfram Ástarsagan