Tekex og ansjósur

Í vetur barst fjölskyldu minni beiðni um húsaskipti. Hjón á norður-Spáni vildu gjarnan fá húsið okkar lánað í júlí og bílinn okkar líka. Það hefur verið meginregla okkar að fara ekki utan sumarmánuðina – vegna dásemdar hins íslenska sumars. En húsið, sem okkur stóð til boða ytra, var svo stórkostlegt og Cantabriu-svæðið það áhugavert að við slógum til og skiptumst á húsum og bílum. Íbúðarhúsið og Norður Spánn voru umfram allar okkar vonir. Þessi hluti Spánar er grænn og menningin á svæðinu er gömul, þykk og hrífandi. Aðbúnaður okkar var dásamlegur og við nutum sólar, birtu og blessunar. Við lifðum að hætti innfæddra og fórum oft út að borða. Fjölbreytilegt sjávarfang, kjöt og maturinn á norður Spáni hugnaðist okkur sælkerunum.

Einn daginn fórum við á veitingastað frægasta hótels Santanderborgar, sem hefur löngum hefur verið sumardvalarsvæði spænsku konungsfjölskyldunnar. Hótelið heitir Hótel Real og það merkir konungshótel. Og það er eiginlega hótel Borg þeirra í Santander, virðulegt og fínt. Svo er það einnig kennileiti í borginni, sést langt að og ber við himin eins og Hallgrímskirkja. Drengjunum mínum þótti hótelið minna á Titanic – með gömlum yfirstéttarstíll. Við höfðum lesið í veitingahúsayfirliti að matreiðslan væri góð og vissum ekki betur en matargerðin væri nútímaleg. Svo renndum við yfir matseðlana og pöntuðum. Meðan við biðum nutum við útsýnis yfir Santanderflóa, sem hefur verið mikilvæg skipahöfn allt frá tíð Rómverja. Og enn eru skip á ferð, stór og smá, seglskip og risafraktarar.

Svo kom fyrsti réttur og við undruðumst. Allir við borðið fengu tekex og smjör. Hvorki fyrr né síðar hef ég fengið tekex í forrétt í kvöldmat. Tekex fær maður helst í Englandi og þá fremur í morgunmat. Við smurðum hlýðin okkar kex og bárum að munni. Venjulegt tekexbragð og smjörið var venjulegt einnig og án nokkurrar bagðkúnstar. Jæja, mig fór að gruna að máltíðin gæti orðið með öðru móti en ég hafði ímyndað mér. Svo kom næsti réttur. Virðulegur þjónninn -uppáklæddur og hefði sómt sér vel í öllum betri hótelum heimsins – stikaði inn í salinn með disk á lofti. „Hvað kemur nú?“ spurði ég sjálfan mig. Undrunarhljóð hljómuðu frá okkur borðfélögum, sumir brostu og aðrir hlógu. Á fallegum diskinum, sem var lagður fyrir framan mig, var grá sardínudós á saltbing. Nakin sardínudós, enginn miði límdur á hana, sem upplýsti nokkuð um innihaldið. En ljóst var að lokið var laust og hægt að kippa því af dósinni. Og ég lyfti því og allir biðu spenntir eftir innihaldinu. Þar voru ekki sardínur í olíu eins og við þekkjum heldur ein flökuð og maríneruð ansjósa, sem synti í ólífuolíu. Þetta var mjög fyndið, borðfélagarnir hlógu og ég var hissa en naut matarins. Svo hélt máltíðin áfram, við vissum að þetta yrði furðumatur og ákváðum að njóta og upplifa. Og furðumatur var þetta, retróveisla og ártalið hefði allt eins getað verið 1935.

Hvað gerir gott?

Matarstíllinn var óvæntur og matargerð tengd öðrum tíma. Því varð þetta sérstæð reynsla. Í stað þess að fara í miðaldaveislu eins og í Skálholti, Tallin eða í Noregi, lentum við óvænt í tímatengdri máltíð, sem var allt öðru vísi en við áttum von á, eiginlega millistríðsáramatur. Það var sérstætt, eftirminnilegt og öðru vísi og varð mér til íhugunar og hefur haldið áfram að vekja mér þanka. Hvað er nútímamatur, hvað er gamaldags, hvað úreldist og hvað er skapandi? Af hverju nærist þú svo þú opnir, undrist, breytist og eflist? Hvað gerir þér gott?

Og dýpsta spurningin er: Hvað gefur líf og er til lífs?

Till lífs fyrir alla

Þá erum við komin að íhugun dagsins í guðspjallinu. Hópur af fólki samankominn og matarþurfi. Svo var borin fram máltíð sem varð eftirminnileg.

Íhugunarefni biblíunnar eru fremur um hvað viðburður merki fremur en um hvernig hlutir gerist eða hvaða aðferð sé notuð. Hvernig hægt var að metta mannfjölda er ekki það sem texti dagsins fjallar um heldur hvað máltíðin merkti. Hér er það sem endranær í biblíunni að hug er beint að merkingu fremur en aðferð, inntaki fremur en hinu ytra.

Brauð var brotið og Jesús notaði tækifærið til að minna nærstadda á hver gæfi brauð, hvaðan það kæmi og hvað það merkti. Í palestínsku samhengi var hveitiræktin mál lífsins og brauð tákn um lífsgæði. Þegar kornuppsprettan brást var vá fyrir dyrum og allir sultu. En þegar kornakrar náðu þroska var víst að allir myndu njóta næringar og lífið lifði. Því var gestrisni svo mikils metin, samfélagssamtaðan svo mikilvæg. Jesús reisti sér ekki minnisvarða af grjóti eða með hernaðarsigrum, heldur vildi að fólkið hans nyti matar – og gæfi öðrum með sér. Því eru ölturu í kirkjum og þau minna á að allir þarfnast næringar, ekki aðeins andlegrar heldur líkamlegrar einnig, venjulegrar fæðu, t.d. brauðs, fisks sem og annars sem gerir manninum gott. Að allir njóti gæða er hinn kristni boðskapur inn í aðstæður stríðs og átaka fyrir botni Miðjarðarhafs. Allir eiga að njóta brauðs, líka börn á Gasa. Og það merkir að þau eiga að njóta friðar, öryggis, gæsku og lands. Svo róttækur er boðskapur kristninnar og svo árangurstengt er það líf sem okkur er boðið að lifa.

Hvað gerir þér gott? Alveg áreiðanlega fjölbreytilegt fæði og í hæfilegum skömmtum – jafnvel líka tekex og ansjósa úr dós. Svo er það hin fæðan, t.d. tengsl við fólk, tilfinninganæring, líkamleg hreyfing, gæfa í tengslum og vinnu, að einhver sjái þig og meti, brosi við þér og segi þér að þú sért mikils virði, nýt eða nýtur. Hvað gerir þér gott? Hvers þarfnast þú?

Breyting til góðs

Reynslan í konungshótelinu í Santander var reynsla hins óvænta. Öðru vísi matur en við áttum von á. Og það minnti mig á að við megum gjarnan opna fyrir hið óvænta. Við getum skipulagt lífið svo algerlega að ekkert nýtt komist að og þá erum við byrjuð að deyja. En líf verður ekki gjöfult ef það er lokað í kerfi og fryst í ferla. Líf þitt má vera stöðug verðandi og opnun til framtíðar. Þannig er lífið, sem Guð gefur. Hvað gerir þér gott? Eru það nýjar hugsanir? Máttu leyfa þér að breytast? Getur þú breyst til góðs? Er eitthvað sem þú mátt hætta og úskrifa úr þínu lífi? Einhver löstur og eitthvað, sem þú vilt eða þarft að sleppa? Sorg, harmur, glötuð tengsl, horfin ást, samband, efni, vinna, hlutir, upplifanir – eitthvað sem þú dregur á eftir þér og verður þér lífshemill? Hvað geir þér gott og verður þér til næringar?

Gerir þú gott?

Svo er það hin víddin sem er hin hlið sama máls. Hvað getur þú gert til að aðrir njóti upplifunnar til lífs? Hvað getur þú gert öðrum svo fólk vakni til lífs og gæða? Getur þú sagt eitthvað jákvætt og nærandi við samferðafólk þitt og ástvini? Getur þú bakað brauð og fært einhverjum syrgjandi, einmana eða þurfandi? Getur þú umlukið einhver með kærleiksríkum bænum? Þú verður aldrei lífgjafi fólks og þarft ekki að gera kraftaverk sem Guð getur. En öll erum við farvegir lífsins gagnvart öðrum. Öll getum við fært öðrum eitthvað sem verður þeim til góðs, næringar, jákvæðar tilfinningar og hlýju. Við getum öll tamið okkur að segja eitthvað jákvætt við samferðafólk okkar í stað þess að kvarta og nöldra. Það eru líka fiskar og brauð fyrir fólk, körfur sem við erum send með til fólks heimsins.

Þessi dagur, þessi helgi og þessi mánuður er tími fyrir veislu himinsins. Þér er ekki aðeins boðið til þjóðhátíðar heldur veislu himinsins sem þú mátt njóta og miðla. Og vittu til: Þér er boðið að breytast, eflast og stækka. Af hverju? Þannig er Guð, sem elskar að magna lífið og smitar anda elskunnar til allra.

Neskirkja, verslunarmannahelgi, 3. ágúst, 2014.

Textaröð: A

Lexía: Slm 147.1-11


Hallelúja.
 Gott er að syngja Guði vorum lof.
 Það er yndislegt, honum hæfir lofsöngur.
 Drottinn endurreisir Jerúsalem,
safnar saman hinum tvístruðu Ísraels. 
Hann græðir þá sem hafa sundurkramið hjarta 
og bindur um benjar þeirra.
 Hann ákveður tölu stjarnanna, 
nefnir þær allar með nafni. 
Mikill er Drottinn vor og voldugur í mætti sínum,
speki hans ómælanleg.
 Drottinn styður hjálparlausa
 en óguðlega fellir hann til jarðar. 
Syngið Drottni þakkargjörð, 
leikið fyrir Guði vorum á gígju.
 Hann hylur himininn skýjum, 
sér jörðinni fyrir regni,
 lætur gras spretta á fjöllunum, 
gefur skepnunum fóður þeirra, 
hrafnsungunum þegar þeir krunka.
 Hann hefur ekki mætur á styrk hestsins,
 hrífst ekki af fráum fótum mannsins.
 Drottinn hefur þóknun á þeim sem óttast hann,
 þeim sem setja von sína á miskunn hans.

Pistill: 2Kor 9.8-12


Guð er þess megnugur að veita ykkur ríkulega allar góðar gjafir til þess að þið í öllu og ávallt hafið allt sem þið þarfnist og getið sjálf veitt ríkulega til allra góðra verka. Eins og ritað er: Hann miðlaði mildilega, gaf hinum snauðu, réttlæti hans varir að eilífu.

Guð sem gefur sáðmanninum sæði og brauð til fæðu mun og gefa ykkur sáð og margfalda það og auka ávöxt réttlætis ykkar. Guð mun auðga ykkur í öllu svo að þið getið jafnan sýnt örlæti. Þá munu margir þakka Guði fyrir gjafirnar sem við komum með frá ykkur. Því að þessi þjónusta, sem þið innið af hendi, bætir ekki aðeins úr skorti hinna heilögu heldur leiðir hún einnig til þess að margir menn þakka Guði.

Guðspjall: Mrk 8.1-9


Um þessar mundir bar enn svo við að mikill mannfjöldi var saman kominn og hafði ekkert til matar. Jesús kallar þá til sín lærisveinana og segir við þá: „Ég kenni í brjósti um mannfjöldann. Menn hafa nú verið hjá mér þrjá daga og hafa ekkert til matar. Láti ég þá fara fastandi heim til sín örmagnast þeir á leiðinni en sumir þeirra eru langt að. “
Þá svöruðu lærisveinarnir: „Hvar er hægt að fá brauð til að metta þetta fólk hér í óbyggðum?“
 Hann spurði þá: „Hve mörg brauð hafið þið?“ 
Þeir sögðu: „Sjö. “
Þá bauð Jesús fólkinu að setjast á jörðina, tók brauðin sjö, gerði þakkir og braut þau og gaf lærisveinum sínum að þeir bæru þau fram. En þeir báru þau fram fyrir fólkið. Þeir höfðu og fáeina smáfiska. Hann bað Guð að blessa þá og bauð að einnig þeir skyldu bornir fram. Menn neyttu og urðu mettir. Síðan tóku lærisveinarnir saman leifarnar, sjö körfur. En þar voru um fjögur þúsund manns. Síðan lét hann fólkið fara.

Myntuhlaup

Við ræktum myntu í garðinum. Hún vex frábærlega vel, skýtur öngum í allar áttir og er fjölær. Það var því eins gott að finna einhverja aðra notkun en tilfallandi kryddun og te-uppáhellingu. Myntuhlaup er ljómandi gott t.d. með steiktu lambakjöti eða ofan á brauð. Það er líka gaman að vinna hlaupið, setja það í litlar krukkur og gæða sér á því með lambinu. Myntuhlaup er tilvalið til gjafa og þmt. jólagjafa!

1 kg græn epli eða 6 stykki

1 dl vatn

1/2 bolli sítrónusafi

2  1/2 bolli myntublöð

1/2 bolli fínsöxuð myntublöð

2/3 bolli sykur á móti hverjum bolla safa

Þvoðið eplin og skerið í sneiðar. Merjið stærstu eplabitana. Setjið eplin, vatnið, sítrónusafann  og heilu myntulaufin í stóran þykkbotna pott. Látið suðuna koma upp, minnkið hitan og setjið lok á og sjóðið 10  – 15 mín.

Hellið blöndunni í gegnum sigti í skál og náið safanum úr blöndunni. Geymið í kæli yfir nótt. Hendið hratinu. 

Mælið síaða safann  og setjið aftur í pott. Fyrir hvern bolla af safa setjið 2/3 bolla sykur. Hræra skal í blöndunni við vægan hita án þess að láta suðuna koma upp þar til sykurinn er allveg uppleystur. Látið þá suðuna koma upp og sjóðið í 20 mín við vægan hita.

Bætið fínt söxuðu myntunni út í og hrærið vel. Taka pottinn af hellunni og látið standa í 5 mínútur. Hellið í sótthreinsaðar, volgar litlar krukkur og loka skal vel þegar vökvinn er farinn að kólna. Njóta á köldum vetrarhelgum með vel hvítlauksstungnu lambakjöti!

Esther Þórðardóttir – minningarorð

Sumar umvefur okkur öll. Plöntur brosa mót himni og hita. Tré breiða út fangið. Fuglamömmur fljúga yfir felustaði ungviðis og reyna að villa um fyrir þeim, sem koma nærri. Ábyrgir foreldrar verja afkvæmi sín.

Vestur í Ólafsvík léku börn út í móa og stelkmamma reyndi að draga athygli þeirra frá felustað litla ungans, svanaforeldrar vörðu ungana sína. Ung stelpa lærði lexíur fyrir lífið, lærði að mömmur halda fast og verja afkvæmi. Lífið verður best þegar börnin lifa, ekkert verður til að spilla og dauðinn kemur ekki of snemma. Mömmur gleyma ekki, brjóstabörnin týnast aldrei. En hvað gerist þegar slitið er á milli?

Fjölskylda og uppvöxur

Í dag kveðjum við Esther Þórðardóttur. Hún fæddist í Ólafsvík 5. janúar árið 1921. Foreldrar hennar voru Þórður Kristjánsson (f. 23.7. 1891, d. 28.9. 1980) og kona hans, Svanfríður Una Þorsteinsdóttir ( f.  21.12.1888, d. 8.5. 1960). Þau hjónin eignuðust 13 börn og fyrir hjúskap þeirra Þórðar átti Svanfríður dótturina Önnu Lárensínu, sem féll frá aðeins sex ára (f. 26.5. 1915, d. 9.7. 1921). Systkinahópurinn var stór og Esther var næstelst þeirra systkina, sem náðu fullorðinsaldri. Systkinin eru:  Ellert Kristján f. 24.7. 1916, d. 13.1. 1918; Elín Kristín f. 19.12. 1917, d. 21.6. 2006; Ebba f. 13. 10. 1919, d. 4.8. 1921; Ebba Anna f. 12. 12. 1921, d. 18.11. 1923; Þórður f. 1. 11. 1923; Aðalbjörg f. 11. 12. 1924, d. 28.3. 1925; Sigrún f. 5. 6. 1926; Rafn f. 4. 12.1927, d.13.7. 1996; Hrafnkell f. 3.1.1929 d. 23.07. 1935; Lilja f. 12. 9. 1930; Rakel f. 6. 10. 1931, d. 23.12. 1975; Unnur f. 25.8. 1933. 

Missir og líðan

Fjögur systkinanna lifa Esther, hin eru öll látin. Þau Þórður og Svanfríður nutu barnaláns en ekki lífsláns þeirra að sama skapi. Þegar rýnt er í æviskrárnar kemur í ljós, að þau misstu fimm börn á barnsaldri. Ellert Kristján dó eins árs árið 1918, Ebba var ekki tveggja ára þegar hún fór 1921, tæplega mánuði á eftir hálfsystur sinni Önnu Lárensíu. Ebba Anna var ekki tveggja ára þegar hún lést 1923, sautján dögum eftir að Þórður fæddist. Aðalbjörg var aðeins fjögurra mánaða þegar hún féll frá árið 1925. Foreldrar, sem staðið yfir moldum barna sinna hafa löngum stunið upp – með tár í augum, að það eigi ekki að leggja á nokkurn að grafa barnið sitt. Það er satt. Hvernig geta menn glímt við sorg barnmissis, hvernig er hægt að lýsa upp þann skugga svo hann verði ekki að innanmeini og þar með fjölskylduvoða? Það er skelfilegt að missa barn og fullkomlega óskiljanlegt hvernig er hægt að sjá á bak fimm börnum í dauðann. Hvernig farnaðist þeim Svanfríði og Þórði með þann bagga? Hvernig gátu þau unnið úr áfallinu.

Allar fjölskyldur eiga sér leyndarmál, sem seint verða opinberuð. Fjölskyldan á Fagrabakka bjó við sorgargímald. Foreldrar áttu gullin sín bæði þessa heims og annars, á Jaðri tveggja veralda. Það er eins öruggt og að sólin kemur upp og hnígur til viðar, að barnsmissir fyrstu áranna hefur haft mikil áhrif á líf og líðan þessa fólks og næsta örugglega mótað anda og skaphafnir meira en börnin á heimilinu gerðu sér grein fyrir á fyrri árum. Þegar börn fæðast er glaðst og þeim fagnað. En þau koma þó ekki í stað hinna, sem deyja. Hver einstaklingur er einstakur, sorgin eftir hann eða hana er einstök og sefast ekki þó ný augu horfi og litlir puttar leiki sér og munnur leiti að móðurbrjósti. Móðir og faðir gleyma ekki.

Rist þig á lófa mér

Elskan vaknar alls staðar þar sem líf kviknar. Fuglarnir elska afkvæmi sín, dýrin sömuleiðis. Tengslin eru ekki aðeins verndartilfinning, það vita allir sem hafa séð dýr sem hafa misst, kveina – já eiginlega æpa af harmi. Þar sem mannslíf kviknar verður ást – og sorg þegar lífið slokknar að nýju. Biblían er sneisafull af orðum um lífskveikjur, lífslát og átökin, sem verða hið innra af söknuði.

Í spádómsbók Jesaja er minnt á hversu sterk tengslin eru milli móður og barns. Þar er spurt – og ég les úr 49. kafla Jesajabókarinnar: „Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu, að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu? Og þó að þær gætu gleymt, þá gleymi ég þér samt ekki. Sjá, ég hefi rist þig á lófa mína…” Jesaja 49.15-16

Og þannig er Guð, sem talar skýrt. Lífsbarátta er söm hvort sem er á hæðunum norður af Jersúsalem eða í víkinni austan við Enni. Móðurástin er sterk, en ritari Jesajabókarinnar ber mönnum og heimi þá stórfregn að enn sterkari sé ást Guðs. Menn geta gleymt, en Guð ekki. Svo stefnuföst er Guðselskan, að mennirnir eru skráðir á lófa Guðs. Ekki vitum við hvernig hinn oddhagi hefur farið að, en líkingamálið er skýrt, með oddi hefur nafn manns, mynd manns, líf manns verið rist á lófa Guðs. Ekkert er gleymt, ekki Ellert Kristján, ekki Ebba, Anna Lárensía, Ebba Anna, Aðalbjörg, já eða Þórður og Svanfríður, – ekki heldur Elín Kristín, Rafn; Hrafnkell og Rakel. Hinn kristni boðskapur minnir á, að ekkert er glatað – fólkið, sem dó, er ekki gleymt þó við gleymum. Guð man – Guð varðveitir, Guð sér, Guð umvefur þig – hvort sem þú ert hérna megin við jaðar lífsins eða hinum megin í Guðsfanginu. 

Uppvöxtur

Ólafsvíkin var uppvaxtarreitur Estherar. Hún naut margmennis og fjölbreytileikans, nábýlis við frændfólk og góða granna og lærði á lífið. Hún gekk í skóla á bernskuslóð. Þegar hún var ung var pabbinn á sjó, skipstjóri á bát. Hann var því löngum fjarri heimili. Það kom í hlut Estherar að aðstoða móður sína á stórheimili og við margvísleg störf. Því sinnti hún með dugnaði og kappi.

Stríðið breytti Íslendingum og líka Esther. Hún fór suður – fyrst til Hafnarfjarðar og vann á Vífilstöðum og svo síðar á Reykjalundi. Hún flutti svo til Reykjavíkur og starfaði í Reykjavíkurapóteki í nokkur ár. Var í kjallaranum og vann m.a. við lyfjavinnslu og pökkun. Þaðan fór hún svo á Grund og vann þar á “frúarganginum.” Esther bjó þá á Ljósvallagötunni og þótti gott að geta hlaupið í og úr vinnu.

Hrafn

Já stríðið breytti Esther. Hún sá og hreifst af glæsimenni í bandaríska setuliðinu, sem bar nafn stórskáldsins William Blake og átti að auki fjölskyldunafnið Warren (f. 22.8.1916, d. 15.11. 2006). Þau eignuðust soninn Hrafn Unnar Björnsson árið 1944 (f. 22.1.).

Í fjölskyldunni voru deildar meiningar um hvernig best væri að sjá fyrir drengnum og koma honum til manns. Svanfríður, móðir Estherar og fjölskyldan, beittu sér fyrir að hann færi til Elínar Kristínar, sem var eldri en Esther og barnlaus. Svo varð og Hrafn var alinn upp hjá þeim Elínu og Birni Sæmundsyni. Enginn veit nákvæmlega hvernig barnsflutningurinn var ræddur, hvaða sár urðu af né heldur hvernig tengslin breyttust. En víst er, að Esther leið fyrir og tengsl milli móður og sonar breyttust og trosnuðu. Hvernig getur móðir gleymt brjóstabarni sínu? Hrafn er kvæntur Guðrúnu Biering (f.13.11.1945). Hann hamingjumaður í lífinu og þau Guðrún eiga tvo syni. Sá eldri er Arnar (f. 25.12. 1971). Sambýliskona hans er Dagný Laxdal (f. 1.8.  25.11. 1977). Sonur þeirra er Franklín Máni (f. 2004). Yngri sonur Hrafns og Guðrúnar er Þröstur (f. 28. 12. 1973).

Heba

Esther var ferðafluga og fór víða, ekki síst um hálendið á árunum fyrir 1960. Á þeim ferðum kynntist hún eða tengdist Helga Enokssyni, rafvirkjameistara í Hafnarfirði (f. 27.11.1923, d. 6.8. 1999). Þau eignuðust Hebu árið 1961 (f.  23.7.). Esther söðlaði um og helgaði henni líf sitt þaðan í frá. Hún hafði misst Hrafn úr móðurfangi sínu og vildi allt fyrir kraftaverkabarnið Hebu gera. Esther og Helgi voru náin í nokkur ár, en svo slitnaði bandið á milli þeirra og mæðgurnar bjuggu í Skaftafelli á Grímsstaðaholti fyrstu árin en fóru síðan á Grettisgötu. Þaðan lá leið Estherar niður á Vatnsstíg og síðustu sex æviárin bjó hún á frúarganginum á Grund, sínum gamla vinnustað. Mennskan verður oft lifuð í hringjum og spíral.

Heba er hamingjukona. Hennar maður er Kristján Ívar Ólafsson (25 12. 1964), og synir þeirra eru Stefnir Húni, (f 21. 07. 1989) og Dagur Fróði (f. 21. 1. 1996).

Hugðarefni og gleðigjafar

Esther var margt til listar lagt. Hún var lestrarforkur og hélt upp á Sigrid Undset og Margit Söderholm. Svo féllu í kramið bækur bandarísku skáldkonunnar Pearl S. Buck, sem sagði svo eftirminnilega, að alltof margir biðu í lífinu bara stóru tækifæranna og í biðinni tækju þeir ekki eftir smágæðum lífsins.

En Esther kunni að meta og njóta hins smá- og fín-gerða, laut að blómi, hreifst af fugli, vindi sem gældi við kinn og dýrmæti núsins, sem hún upplifði. Hún hafði gaman af matseld og heimilisfegrun. Esther hafði áhuga á ljósmyndun og lét laga eða bjarga ýmsum fjölskyldumyndum, sem hún kom í viðgerð eða stækkun, eins og bréfin að vestan sýna og sanna. Svanfríður, mamma hennar, hreifst af ljósmyndunum, sem hún sendi. Esther var gjarnan með eitthvað í höndum, prjónaði og heklaði og skemmti sér við að sauma dúka, myndir og annað það sem fegraði eða var hagnýtt á barnafætur eða hendur. Hún var líka tónelsk og til er falleg myndin af henni við harmóníum og með Orgelskólann fyrir framan sig.

Ég man eftir Esther á Grímsstaðaholtinu á sjöunda áratugnum. Hún fór fram í garðinn sinn á Arnargötu 4, sem heitir Skaftafell, hugaði að blómgróðri og grænmeti. Sá um Hebu sína með einbeittri móðurást, en átti líka tíma og umhyggju aflögu fyrir annarra börn. Hún passaði fyrir kunningjakonur sínar, þegar hún var orðin heimavinnandi og varð þeim og börnunum mikil hjálp. Hún fór í smáferðir með Hebu til að kenna lífið, kenna ást á fuglunum, ekki síst svönunum, kenna að njóta hinnar látlausu fegurðar í náttúru og líka manngerðu umhverfi.

Á þrítugsaldri varð Esther fyrir að botnlangi sprakk og varð hún aldrei heilsuhraust eftir það. Á sjötugsaldri fór að halla undan – ekki síst eftir að minni hennar fór að förlast. Við það varð hún hræddari um sjálfstæði sitt, hvarf æ meir á vit eigin heima, en komst í góðar hendur þegar hún fór á Grund. Þar naut hún góðrar aðhlynningar, sem er þökkuð. Esther Þórðardóttir lést á dvalar- og hjúkrunar-heimilinu Grund þann 6. júlí síðastliðinn.

Lífsundrin

Við kveðjum Esther. Hún mætti mörgum mærum í lífinu, varð fyrir margs konar mótlæti. En hún ræktaði með sér elskuna til sinna, til barnanna sinna. Nú er hún öll. Minnstu hennar og heiðraðu minningu með því að rækta með þér virðingu fyrir gæðum lífsins. Bíddu ekki eftir stóru vinningunum, stóru tækifærunum heldur ræktaðu með þér, eins og Esther, næmi fyrir stund og stað, fyrir smáundrum lífsins og þá verður lífið að samfelldu stórundri. Hún ólst upp á Fagrabakka sem varð svo Jaðar. Hún hefur nú farið yfir mörkin, inn í Fagrabakka himins. Þar tekur við henni og umfaðmar hana Guð, sem hefur nafnið, mynd hennar, já líf hennar rist á lófa. Guð gleymir aldrei og í veru og vitund Guðs er eilífðin. Guð varðveiti þig sem lifir og minnist Estherar. Guð blessi Esther Þórðardóttur.

Neskirkja, júlí 2007.

Björn Árnason – minningarorð

Barnabörnin hans eignuðust afa, sem ekki var fjarlægur heldur nálægur, ekki deyjandi gamlingi heldur lífmikill orkubolti. Og þau endurguldu Birni með því að veita honum samhengi og hamingju. Sólin skein á kistu Björns þegar útför hans var gerð frá Neskirkju 11. maí 2007, minnti á lífshátt hans og líka himinljósið mikla. Minningarorðin fara hér á eftir. 

Hvaða mynd hefur þú af Birni Árnasyni? Hvaða minning um hann yljar þér og gleður? Er hann þér minnisstæður þegar hann sat í hópi fólks, sagði sögu, rétti upp hendi, hló og sló sér á læri?

Eða er það bæjarverkfræðingurinn, sem stóð við öskuhauga Hafnfirðinga, sá til þess að ruslið fyki ekki um allt og yrði öllum til ama og Hafnfirðingum til skammar?  

Eða er það þegar hann stóð stoltur og brosandi við hlið konu sinnar?

Eða er það myndin af skógarbóndanum, sem vakti yfir vonarsprotum sínum, sá til að engin planta lægi rótarber og óniðursett á víðavangi, og átti skyrdollu til að geyma hana í þar til hún færi í mold?

 Eða er það af afanum, sem réð til sín barnabörnin, tengdi þau saman, kenndi þeim að verða hlekkur í keðju frændgarðs, tíma og lífs – afa sem vissulega elskaði góðan mat, en hafði líka húmor fyrir eigin gúrmetísku áföllum við einfalda pastasuðu?

Eða heillar þig myndin af berjamanninum, sem fremur vildi flengjast um fjöll á köldum haustdögum en fara til sólarlanda, vildi falla inn í litasprengjur haustsins, hamast í brekkunum við að draga björg í bú, fylla alla koppa og kirnur og hús sitt af ávexti jarðar og naut síðan lengi og hafði líka unun af að deila gæðunum með fólkinu sínu og vinum.

Myndirnar af Birni eru margar, flestar skemmtilegar og elskulegar. Hvaða mynd ætlar þú að lyfta í huga og til hvers? Hvernig viltu heiðra minningu Björns? Önnur vídd þeirrar spurningar er: Hvernig viltu lifa svo vel sé lifað og til góðs? 

Grænar grundir, dimma og líf

  1. sálmur Davíðs er ljóð um mennsku og líf:

Drottinn er minn hirðir,

mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum lætur hann mig hvílast….

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,

óttast ég ekkert illt,

því þú ert hjá mér…

Þú býrð mér borð…

bikar minn er barmafullur…

og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

Þegar við rjúkum af stað inn í lífið og út í verkefni og ævintýri með óþreyju og fyrirgangi er áhyggjan oft fjarri. En svo verða skaflarnir fyrir og líka áföll og sum djúp. Ævin er kaflaskipt og skiptir miklu að vinna úr, hreinsa gullið í lífinu og taka út þroska. Björn naut gjöfullar ævi, var mikið gefið, naut lengstum gæfu í einkalífi, en slapp ekki heldur við sorgirnar. Hann átti sínar grænu grundir, borð og barmafullan bikar, já langa ævi. En hvað er svo gildi þessa brambolts? Hvað skiptir máli? Að því lýtur þráin hið innra, lífsreynsluspurningarnar, sem eru eins og vængjaslög eilífðar í tíma.

Ætt og uppruni

Björn Árnason fæddist í Reykjavík 12. ágúst 1928. Foreldrar hans voru Árni Björn Björnsson, gullsmiður, og Svanbjörg Hróðný Einarsdóttir, prests í Reykholti. Gull og Guð voru því samhengi uppvaxtar Björns. Hann var yngsta barn foreldra sinna. Bræður Björns voru Haraldur og Einar. Þeir eru báðir látnir.  Eftirlifandi systir Björns er Kristín.

Eftir stúdentspróf frá M.R. árið 1948 hélt Björn utan til náms í vélaverkfræði í Svíþjóð og lauk prófi frá Chalmers Tekniska högskolan í Gautaborg árið 1954. Björn réð sig til Kockums Mekaniska Verkstad í Málmey. Wikipedia uppfræðir, að þetta mikla þungaiðnaðar-fyrirtæki hafi verið þessi árin eitt hið stærsta í heimi í sinni grein. Nýútskrifaður verkfræðingur fékk því verkefni við hæfi. Með reynslu og menntun í veganesti varð Björn svo yfirmaður Áhaldahúss Reykjavíkur árið 1957 og síðan forstjóri Vélamiðstöðvar 1964. Þegar framkvæmdir hófust við Búrfellsvirkjun tók hann glaður þátt í því ævintýri og var deildarverkfræðingur hjá Fosskraft. En lengst þjónaði Björn Hafnfirðingum. Hann var bæjarverkfræðingur í Firðinum í 27 ár eða frá 1968-95.

Hjúskapur

Í ársbyrjun 1953 gengu Ingunn Sigríður Ágústsdóttir og Björn í hjónaband. Gógó átti sér uppvaxtarreit á vatnsbakka Elliðaánna og verkfræðingnum þótti ekki verra að hún var alinn upp í nágrenni vélanna og í stuðinu í Elliðaárvirkjun – pabbi hennar var þar stöðvarstjóri. Og straumurinn hljóp í Björn þegar hann hitti hana fyrst. Það var alltaf stæll á þeim Birni og Gógó. Ef þau hefðu verið sjálfráð að, hefðu þau ekki geta valið öllu flottari stað en Ráðhústorgið í Kaupmannahöfn fyrir sinn fyrsta fund og tillit. Þar voru þeir skólabræður Manfreð Vilhjálmsson á leið heim og sáu þá tvær íslenskar draumadísir á torginu með stúdentshúfurnar á kollum – núútskrifaðar úr Versló. Siglingin heim varð þeim happadrjúg og þær urðu þeirra eiginkonur. Allir vissu og fundu, að Björn elskaði og átti alla hamingju lífsins miðjaða í Gógó.

Hún var honum jafnoki, ríkisstjórnin, sem var spurð, vinur, lífsakkeri og félagi. Saman stóðu þau í öllu verkum og áætlunum. Hún stóð við hlið hans í uppbyggingu heimilis, á Laugalæknum, á Markarflöt í Garðabæ og síðan í Hafnarfirði í Klettahrauninu. Ingunn var hin trausta húsmóðir og hélt flóknum þráðum heimilis og uppeldis saman og heimilislífið blómstraði, börnin komust til manns. Gógó fór svo að vinna, sem skólaritari í Flataskóla í Garðabæ. Og svo reið lagið yfir. Gógó féll fyrir krabbameini í júníbyrjun árið 1985 og veröldin umpólaðist. Björn bar sig vel, beit á jaxlinn, setti upp svip æðruleysis og hélt áfram lífinu. Sorgarvinna var ekki viðurkennd reikningskúnst karlmanna á þessum árum. 

Börnin

Þau Gógó og Björn eignuðust fjögur börn, sem öll lifa foreldra sína. Elst er Kristín og hennar maður er Friðrik Már Baldursson. Þeirra börn eru tvö. Næstelstur er Árni Björn og hans kona er Halldóra Kristín Bragadóttir. Þau eiga tvö börn einnig. Þriðja í röðinni er Sigríður. Hennar maður er Valur Ragnarsson. Börnin eru tvö og barnabarn að auki. Björn Ágúst er yngstur. Kona hans er Kristín Lúðvíksdóttir og þau eiga samtals þrjú börn.

Allur þessi hópur er glæsilegt manndómsfólk hvernig sem þau eru skoðuð og skilin. En mestu skiptir þó, að þetta er gæfufólk. Björnsbörnin eru foreldrum sínum öflugt vitni um elsku, natni, húmor og árvekni. Og tengdabörnin fengu hlýtt já og stuðning. Sterk fjölskyldubönd eru ekki sjálfsprottin, heldur ávöxtur tengslaæfinga og uppeldis.

Vaka Valsdóttir er erlendis og biður fyrir kveðjur til ykkar, sem hér eruð og kveðjið.

Eftir að Ingunn féll frá hóf Björn sambúð með Kristínu Hólmfríði Tryggvadóttur. Þau slitu samvistir eftir nokkurra ára sambúð. 

Hugðarefni og störf

Björn var manna kátastur á mannamótum, orðheppinn, minnugur á nöfn, staði og staðreyndir, glaðsinna, jafnlyndur, hlýr og sögumaður. Hann var glæsimenni, fínn í tauinu, bar sig vel og hreif fólk. Björn var praktískur fagurkeri. Margir vildu njóta félagsskapar hans og liðsinnis. Birni voru falin mörg embætti á lífsleiðinni. Hann starfaði lengi í Rotary-klúbbi Hafnarfjarðar. Hann var áhugamaður um stjórnmál og staðfastur sjálfstæðismaður. Hann hafði gaman að ræða pólitík og sem margsjóaður embættismaður gat hann greint kjarna frá hismi, fúskið frá hagnýtri og skilvirkri pólitík.

Í bernsku blésu foreldrar Birni í brjóst gróður- og skógræktaráhuga. Hann tók þátt í starfi skógræktarfélagsins í Hafnarfirði og Skógræktarfélagi Íslands. Hann tengdi verkfræðina og umhverfismál. Björn beitti sér mjög fyrir ábyrgri sorpförgun, tók þátt í undirbúningi Sorpu og var frumkvöðull í sorphirðumálum sveitarfélaganna á suðvesturhorninu. Svo hafði hann áhuga á gróðurvernd í landnámi Ingólfs og vann að stofnun fólkvangs og var um tíma í stjórn Landgræðslusjóðs.  

Björn var áhugamaður um tónlist, unni henni, var klassískur í smekk, lék á hljóðfæri í æsku og sótti tónleika hvenær sem færi gafst.

Mykjunes

Nýr áfangi hófst í lífi Björns þegar þeir Haraldur, bróðir hans, keyptu jörðina Mykjunes í Holtum árið 1990. Í því, sem Björn skildi eftir sig á prenti er ljóst, að í honum bjó ræktunar-, gróður- og ekki síst skógræktar-áhugi. Allt líf á sér aðveituæðar, tré eiga sér rætur og ræktunaráhugi líka. Reykholtsfjölskyldan hafði, með miklum krafti, efnt til og komið upp hinum stóra skógarreit í Reykholti til minningar um prestshjónin þar. Björn tók vel við skógarviti síns fólks og í minningariti um Reykholtshjónin segir Björn, að hann hyggi á langlífi og ætli sér að lokum að deyja standandi í eigin skógi! Það, eins og flest sem Björn stefndi að, gekk fullkomlega eftir. Hann dó í miðju verki, í vorinu, í vaknandi skóginum fyrir austan 30. apríl síðastliðinn.

Skógræktin í Mykjunesi er rismikill bautasteinn, sem Björn reisti sjálfum sér, eða eigum við að segja vistkerfi sem hann þjónaði með natni lífgjafans. Það er afrek að planta um þrjú hundruð þúsund plöntum á annað hundrað hektara lands á þessum fáu árum, sem liðin eru, eiginlega kraftaverk. Þegar Björn var laus undan verkum, skyldum og kvöðum annarra gat hann snúið sér að skógræktinni með fullum krafti. Það gerði hann, en hann var ekki einn. Haraldur, bróðir, var þarna fyrstu árin og svo líka stór hópur barnabarna, sem Björn var svo snjall að ráða í vinnu. Krakkarnir puðuðu saman og tengdust því. Björn kenndi þeim verklægni, verkferla og afköst, skemmti þeim og þjónaði, blés þeim brjóst virðingu fyrir gróðri, natni í störfum, tilfinningu fyrir lífkeðjunni, sem jafnframt er æfing í visku um eigin stöðu í stærra samhengi, mörk og tíðir.

Barnabörnin hans eignuðust afa, sem ekki var fjarlægur heldur nálægur, ekki deyjandi gamlingi heldur lífmikill orkubolti. Og þau endurguldu Birni með því að veita honum samhengi og hamingju. Þau vissu öll hversu mikilvægt Mykjunes var honum og hversu djúpar rætur hans voru orðnar meðal þessara vina, sem voru að vakna inn í vorið, teygja anga sína mót lofti og sól sumarsins. “Það er allt vel lukkað, gott og blessað, fagurt og indælt.” Strípuð Holtin eru að breytast í skóglendi og framtíðin spírar í unga fólkinu. 

Björn og lífið

Hvað mynd af Birni hefur þú í huga, hvaða lærdóm dregur þú heim, frá honum? Hvernig ætlar þú að heiðra minningu hans með hamingjurækt í eigin lífi? Hann færir þér ekki lengur “svartini” á góðri stund. Hann kemur ekki framar með þunga berjafötu í hendi og kátínu í augum. Hann slær sér ekki framar á lær og segir þér kostulegar sögur. Hann stoppar ekki lengur elda í sorpinu. Og hann ræður afkvæmi barna sinna aldrei aftur í vinnu. Björn er farinn og stingandi fjarvera hans spyr þig um eigið líf.

Drottinn er minn hirðir… Á grænum grundum lætur hann mig hvílast…. Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt, því þú ert hjá mér… Þú býrð mér borð… bikar minn er barmafullur… og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

Faðmur himinsins umlykur Gógó, Björn, já, öll þessi sem þú manst og elskar. Þakkaðu fyrir hann Björn, þakkaðu fyrir kynnin og farðu vel með eigið líf.  

Austur í Mykjunesi leika hrossagaukarnir sér og stunda sínar músíkdýfur. Mófuglar vinna að hreiðurgerð og mikill skógur vaknar til lífs. Milljarðar laufblaða lifa af því Björn elskaði lífið og vildi skila sínu. Allur þessi lauf- og barrheimur mun syngja í sumar og jafnvel aldir kliðmjúka lífssálma, um lífgjafa sinn, um fegurð heimsins, um ást, um að lífið er sterkari en dauðinn. Í því mikla samhengi lifði Björn og mun lifa. Guð blessi og varðveiti Björn Árnason.

 Minningarorð við útför Björns í Neskirkju 11. maí 2007.

Æviágrip

Björn Árnason fæddist í Reykjavík, 12. ágúst árið 1928.  Hann lést á heimili sínu í Mykjunesi í Holtum 30. apríl síðastliðinn.  Björn var sonur hjónanna Árna Björns Björnssonar gullsmíðameistara og kaupmanns í Reykjavík, f. 11. mars 1896, d. 2. júlí 1947 og Svanbjargar Hróðnýjar Einarsdóttur, f. 20. júlí 1899, d. 27. nóvember 1986. Föðurforeldrar: Björn Símonarson, gullsmiður á Sauðárkróki og í Reykjavík, f. 26. apríl 1853, d. 27. desember 1914 og Kristín Björnsdóttir forstöðukona veitingasölu og Björnsbakarís, f. 11. desember 1866, d. 5. maí 1927.Móðurforeldrar: Einar Pálsson, prestur í Reykholti, f. 24. júlí 1868, d. 27. janúar 1951 og Jóhanna Katrín Kristjana Eggertsdóttir Briem, f. 2. febrúar 1872, d. 4. desember 1962. Bræður Björns voru Haraldur, f. 7. febrúar 1923, d. 10. mars 2003 og Einar, f. 22. desember 1926, d. 15. september 1992.  Eftirlifandi systir Björns er Kristín, f. 12. júní 1925.  Björn giftist 10. janúar 1953, Ingunni Sigríði Ágústsdóttur, f. 2. október 1930, d. 8. júní 1985. Hún var dóttir hjónanna Björns Ágústar Guðmundssonar yfirvélstjóra Rafmagnsveitu Reykjavíkur og Sogsvirkjana, f. 10. desember 1889, d. 27. desember 1952 og  Sigríðar Pálsdóttur f. 21. júní 1895, d. 12. febrúar 1989. Björn Ágúst og Sigríður voru kennd við Rafstöðina við Elliðaár þar sem þau bjuggu í áratugi. Ingunn starfaði síðustu æviár sín sem skólaritari í Garðabæ. Börn Björns og Ingunnar eru: 1) Kristín, prófessor við Háskóla Íslands, f. 22. desember 1956.  Eiginmaður hennar er Friðrik Már Baldursson, prófessor við Háskóla Íslands, f. 11. apríl 1957.  Börn þeirra eru: a) Jóhanna Katrín, f. 1. apríl 1980 og b) Björn Már, f. 11. júní 1990.  2)  Árni Björn, verkfræðingur, f. 20. september 1958.  Eiginkona hans er Halldóra Kristín Bragadóttir, arkitekt, f. 21. maí 1960. Börn þeirra eru: a) Bragi, f. 2. október 1986 og b) Ingunn Sigríður, f. 16. nóvember 1990.  3)  Sigríður, lyfjafræðingur, f. 2. apríl 1962. Eiginmaður hennar er Valur Ragnarsson, lyfjafræðingur, f. 13. janúar 1964.  Börn þeirra eru: a) Ingunn Ýr, f. 17. maí 1983, hennar maki er Hannes Þorsteinn Sigurðsson og eiga þau eina dóttur, Freyju, f. 16. nóvember 2006.  b) Vaka, f. 3. maí 1989.  4) Björn Ágúst, verkfræðingur, f. 9. júlí 1967.  Eiginkona hans er Kristín Lúðvíksdóttir, viðskiptafræðingur, f. 5. nóvember 1969.  Börn þeirra eru: a) Þorsteinn Friðrik, f. 19. nóvember 1992, b) Sólveig, f. 5. ágúst 1999 og c) Haraldur f. 24. september 2006.  Björn var um tíma í sambúð með Kristínu Hólmfríði Tryggvadóttur, f. 14. ágúst 1936, en þau slitu samvistum. Björn lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1948 og prófi í vélaverkfræði frá Chalmers Tekniska Högskola í Gautaborg í Svíþjóð árið 1954.  Árin 1954-56 starfaði Björn hjá Kockums Mekaniska Verkstad AB í Málmey í Svíþjóð.  Hann starfaði hjá Áhaldahúsi Reykjavíkurbæjar 1956-66 og var forstöðumaður þess frá 1957-66.  Hann undirbjó sameiningu bifreiða- og farvélareksturs flestra fyrirtækja Reykjavíkurborgar 1960-64.  Björn var forstjóri Vélamiðstöðvar Reykjavíkurborgar 1964-66 og síðan deildarverkfræðingur hjá Fosskraft sf. við Búrfellsvirkjun 1966-67.  Á árunum 1968-95 starfaði hann sem bæjarverkfræðingur í Hafnarfirði.  Frá árinu 1995 og til dauðadags var Björn skógarbóndi í Mykjunesi í Holtum.  Björn var Rótaryfélagi frá árinu 1970 og var forseti Rótaryklúbbs Hafnarfjarðar 1976-77 og formaður skógræktarnefndar klúbbsins. Hann var varaformaður Skógræktarfélags Hafnafjarðar og heiðursfélagi frá árinu 2006. Stjórnarmaður í Skógræktarfélagi Íslands og stjórnarmaður og stjórnaformaður í Landgræðslusjóði. Björn tók fyrir hönd Hafnarfjarðarbæjar þátt í undirbúningi sameiginlegrar sorpeyðingar höfuðborgarsvæðisins frá upphafi; var varaformaður stjórnar undirbúningsfélags 1984-88; og Sorpu bs. frá stofnun árið 1988 til ársins 1994. Formaður stjórnar  Sorpu 1992-94.  Björn sat í nefndum um útgáfu fræðslurita um sorphirðu og fráveitur á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Umhverfisráðuneytisins.  Var meðdómari og dómkvaddur matsmaður í allmörgum málum við héraðsdómstóla í Hafnarfirði og víðar.

Í ofsa og ógn

Páll og strandHvað tekur kórfélagi með sér í upphitun fyrir messu? Í morgun sá ég að einn tók með sér bangsann sinn. Það hef ég ekki séð fyrr! En þau sem syngja í Neskirkju í dag eru ung að árum – sum mjög ung. Tveir barnakórar syngja, annar er Barnakór Neskirkju en hinn er frá Friðriksbergskirkjunni í miðborg Kaupmannahafnar. Danski kórinn er komin hingað vegna þess að Selma bjó einu sinni á Tómasarhaga og mikill samgangur var milli hennar fjölskyldu og minnar. En nú býr hún og fjölskylda hennar í Kaupmannahöfn og Selma syngur í Fredriksbergkirke Juniorkor. Þegar við, fjölskylda mín, vorum á ferð í Kaupmannahöfn, var okkur boðið að hlusta á kórinn syngja í kirkjunni. Þá kviknaði hugmyndin að hópurinn heimsækti Ísland. Nú eru þau komin, gista í kjallara Neskirkju, syngja í messu og á nokkrum stöðum höfuðborgarsvæðinu. Þau syngja um lífið, eilífðina og fegurðina. Bangsinn fær að vera með – á æfingu – og okkar eigin kór svarar með söngvum af sama tagi.

Það er dásamlegt að söngvar unga fólksins – raddir framtíðar – hljómi á sjómannadegi eftir kosningar – söngur um líf og von. Lítil stúlka með bangsann sinn á leið inn í kirkju er tákn um mannkyn í þörf fyrir öryggi. Dramatískir biblíutextar dagsins minna á að í lífi er Guð er alltaf nærri.

Guð – líka á kantinum

Í pistli sjómannadagsins er sagt frá viðburðaríkri ferð Páls postula. Hann var á ferð við eyjuna Krít. Hann hafði reyndar illan bifur á íbúum hennar. Fram kemur t.d. í fyrra bréfi hans til Tímótesuar þessi óskaplega umsögn: „Krítarmenn eru síljúgandi, óargadýr og letimagar!“ Og gott fólk – þetta stendur í Biblíunni! En Páll átti ekki sökótt við Kríteyinga í þetta sinn. Hann var fangi Rómverja og um borð í rómversku skipi. Páll var vanur að fara beint á torgin til að tala um Jesú Krist, mesta kraftaverk heimsins. Þess vegna var honum oft kastað í fangelsi. Enn á ný var hann dreginn fyrir dóm, en vegna stöðu sinnar sem rómverskur borgari átti að senda hann til Rómar. Veðurofsi skall á, magnaður af krítverskum snæfjöllum. Allt virtist stefna á versta veg. En Páll var draumamaður, svefnmyndirnar voru farvegur í boðmiðlun milli himins og hans. Hann hóf upp raust sína að morgni, talaði spádóms- og huggunarorð, talaði kjark í áhöfn og lagði til góð ráð og stefnu. Mark var tekið á orðum hans og því fórst enginn þegar skipið strandaði.

Þessi magnþrungna saga í 27. og 28. kafla Postulasögunnar er merkileg og inntaksrík. Þetta er lítil saga af stóru skipi, fjölmennri áhöfn og úr öllum heimshornum hins þekkta heims þeirrar tíðar. Skip á siglingu frá útkjálka og á leið til miðjunnar í Róm. Sagan er smámynd um stóran heim. Í hættunni hljómar boðskapurinn um björgun.

Hver biblíutexti á sér eigin rök og eigin merkingu. En síðan hefur hver lesari möguleika á að lesa með nýjum augum, frá öðrum sjónarhól, með nýjum gleraugum, ekki til að afskræma merkingu textans, heldur til að nýta hann til andlegs fóðurs. Biblíutextar eru máltíð með dásamlegum desert – bónus til lífs. Hægt er að sjá í mynd Páls kristniboðann, sem má verða okkur fyrirmynd um siðferðisstyrk og siðvit. Hann er fordæmi um samskipti kristins manns og samfélagsábyrgð. En við getum dregið lærdóminn lengra og séð allan heim speglast í þessu sögulega og biblíulega sjávarlöðri.

Einstaklingar og samfélög lenda í raunum. Enginn maður hefur lifað án átaka. Í sögunni um Pál kemur fram að í sjávarháskanum hafi mönnum fyrst dottið í hug að drepa fangana. En það er þó einn fanganna sem sér lausnina, leysir vandann og talar máli lífsins. Þannig er það oft. Í háska bregðast valdsmenn oft og björgun verður með óvæntu móti – að neðan. Í sögu dagsins – pistlinum – eru það fangarnir sem bjarga þeim sem gæta þeirra. Þannig starfar Guð gjarnan. Guð starfar ekki aðeins með viðurkenndum lögum og kerfistækni heldur opnar lífið, hjálpar með óvæntu móti og með hjálp hinna vanmetnu. Guð er líka neðst, á kantinum og meðal hinna fyrirlitnu. Hjálpin er að handan og verður til góðs ef menn opna í auðmýkt og virða heilagleika fólks og lífs. Sagan er þrungin merkingu og er til íhugunar.

Sjórinn

Já, í dag er sjómannadagur – merkilegur dagur sem minnir okkur á upphaf okkar Íslendinga, lífsbaráttu fólksins okkar og þjóðar. Við erum flest komin af sjósóknurum. Sjávarútvegur hefur verið Íslendingum mikilvægur og mun verða meðan menn spilla ekki lífríkinu. Hafið gaf og hafið tók – fæstar þjóðir í veröldinni hafa tapað eins mörgum hlutfallslega í stríðum og Íslendingar í glímunni við sjóinn. Neskirkjuglugginn – Stóribláinn – sem varpar lit á kórvegginn á sólardögum minnir á lífsbaráttu fólk við sjávarsíðuna, sjósóknina, lífsbjörgina og stóran himinn sem umlykur allt, allan heiminn og lífið.

Úrslitin

Svo er þetta dagurinn eftir kosningar. Margir hafa stundað atkvæðaveiðar síðustu vikurnar, reynt að skýra mál sín til að afla atkvæða til stuðnings. Stjórnmál er ein tegund útgerðar. Pólitíkin er mikilvæg og á að þjóna því göfuga markmiði að stýra málum samfélags til réttlætis og farsældar. Nú er dómur fallinn – hvort sem hann hugnast mönnum eða ekki. Síðan er að vinna úr og stýra vel og vinna úr aflanum til lífs.

Skip kirkjunnar

Í kirkjum eru oft skipstákn og við tölum um kirkjuskip. Í mörgum kirkjum heimsins eru skip hengd upp til að minna á að við erum fólk á ferð, við erum á siglingu frá tíma og inn í eilífð. Við erum á ferð – með bangsann okkar – þrána eftir öryggi og blessun sem Guð einn getur í raun gefið. Jesús Kristur lét sig fólk varða, kallaði til lífs og gleði og lofaði að vera með hvað sem kæmi fyrir. Pólitík, óveður, sjómennska, söngur og samskipti eru mál sem varða Guð. Hann vill vera með og býður alltaf til veislu.

Þegar Páll lenti í sjávarháska við Krít bauð hann til máltíðar, gerði sjálfur þakkir og braut brauðið. Þekkir þú orðalagið – þekkir þú aðferðina og gjöfina? Og þá erum við í skyndi komin heim, að altarinu, að borði Drottins, hingað. Við erum komin með þrá okkar um velferð, vináttu og öryggi. Um allan heim brjóta menn brauð, í snarvitlausu umhverfi, óskaplegum aðstæðum – undir góðri stjórn eða vondri og tjá með þessari táknathöfn að Guð kemur til manna, blessar og bjargar.

Textaröð: A

Lexía: Slm 107.1-2, 20-31

Þakkið Drottni því að hann er góður,
 því að miskunn hans varir að eilífu.
 Svo skulu hinir endurleystu Drottins segja,
 þeir er hann hefur leyst úr nauðum sendi orð sitt og læknaði þá
og bjargaði þeim frá gröfinni. 
Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans 
og dásemdarverk hans við mannanna börn,
 færa honum þakkarfórnir
og segja frá verkum hans með fögnuði. 
Þeir sem fóru um hafið á skipum 
og ráku verslun á hinum miklu höfum
 sáu verk Drottins 
og dásemdarverk hans á djúpinu.
 Því að hann bauð og þá kom stormviðri 
sem hóf upp öldur hafsins. 
Þeir hófust til himins, hnigu í djúpið,
 og þeim féllst hugur í háskanum. 
Þeir skjögruðu og reikuðu eins og drukkinn maður 
og kunnátta þeirra kom að engu haldi. 
Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni
 og hann bjargaði þeim úr þrengingum þeirra.
 Hann breytti storminum í blíðan blæ 
og öldur hafsins lægði. 
Þeir glöddust þegar þær kyrrðust 
og hann leiddi þá til þeirrar hafnar sem þeir þráðu.
 Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans 
og dásemdarverk hans við mannanna börn,

Pistill: Post 27.13-15, 20-25


Nú rann á hægur sunnanvindur. Hugðust þeir þá hafa ráð þetta í hendi sér, léttu akkerum og sigldu fram með Krít nærri landi. En áður en langt leið skall á af landi ofan fárviðri, hinn illræmdi landnyrðingur. Skipið hrakti og varð því ekki beitt upp í vindinn. Slógum við undan og létum reka.

Dögum saman sá hvorki til sólar né stjarna og ekkert lát varð á ofviðrinu. Tók þá að þrjóta öll von um að við kæmumst af. 
Nú höfðu menn lengi einskis matar neytt. Þá stóð Páll upp meðal þeirra og mælti: „Góðir menn, þið hefðuð átt að hlíta mínu ráði og leggja ekki út frá Krít. Þá hefðuð þið komist hjá hrakningum þessum og tjóni. En nú hvet ég ykkur til að vera vonglaðir því enginn ykkar mun lífi týna en skipið mun farast. Því að á þessari nóttu stóð hjá mér engill þess Guðs sem ég heyri til og þjóna og mælti: Óttast þú eigi, Páll, fyrir keisarann átt þú að koma. Guð hefur gefið þér alla þá sem þér eru samskipa. Verið því vonglaðir, góðir menn. Ég treysti Guði, að svo muni fara sem við mig hefur verið mælt.

Guðspjall: Matt 8.23-27


Nú fór Jesús í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. Þá gerði svo mikið veður á vatninu að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. Þeir fara til, vekja hann og segja: „Drottinn, bjarga okkur, við förumst.“
Hann sagði við þá: „Hví eruð þið hræddir, þið trúlitlir?“ Síðan reis hann upp, hastaði á vindinn og vatnið og varð stillilogn.
Mennirnir undruðust og sögðu: „Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum.“