Kristur er upprisinn

LífSprengjur sprungu í Belgíu í vikunni. Yfir þrjátíu létust og hundruð manna særðust. Myndirnar sem bárust með vefmiðlum heimsins voru hjartaslítandi. Drengirnir á mínu heimili voru heima í skólafríi og urðu varir við að dagskráin var rofin. Skyndifréttatími færði þeim vátíðindin og þeir hringdu í okkur foreldra sína til að ræða málin. Með sprengjurykinu þyrluðust spurningarnar upp. Koma þessir glæpamenn til okkar? Er hætta á að truflaðir sprengjumenn komi líka og ráðist á okkur? Við fórum yfir skelfingarefnin – og svipaðar spurningar og vöknuðu í tengslum við ofbeldisverkin í París í nóvember síðastliðnum. Brusselsprengjurnar voru ítrekun á voðaverkunum í Frakklandi. Og þar sem við fjölskyldan vorum nýlega á ferðinni í Evrópu og Afríku ræddum við ítarlega í tengslum við þá ferð um öryggi, líf, dauða, ofbeldi og hvernig við gætum brugðist við. Hvaða afstöðu temjum við okkur gagnvart því sem ógnar lífi og limum? Hvernig getum við brugðist sem best við?

Öryggi

Hvenær ertu örugg og öruggur? Í hverju eru hættur lífsins fólgnar? Það er ólíðandi að glæpalýður sem knúinn er af hatri og eyðingarfýsn nái að sprengja óttasprengjur sínar og skjóta skelfingarkúlum sínum í almannarými heimsins. En það eru ekki aðeins íbúar og ferðafólk í Brussel og París sem líða. Morðingjarnir í Sýrlandi hafa gert sig að óvinum okkar allra því þeir reyna að valda sem mestum ótta, raunum og skelfingum sem víðast. Og gleymum því ekki að milljónir Sýrlendinganna sem eru á flótta í og við Evrópu eru á flótta undan sömu sveitunum og sprengja í borgunum í nágrenni okkar.

Hvað ætlum við að hleypa þeim langt? Ætlum við að leyfa hatursflokkunum að sprengja óttasprengjur líka innan í okkur? Leyfum við soranum að síast inn í okkur og krydda hugsun okkar, móta innræti og magna okkur til andúðar og hræðsluviðbragða? Það væri að virða vald ofbeldissegjanna og játa mátt þeirra. Það er mál dauða og grafar.

Hátíð lífs

En nú er gröfin tóm. Páskar eru hátíð lífsins. Páskar eru dagar gleði, ljóss og fögnuðar því dauðinn dó en lífið lifir. Mál íslamska ríkisins er ekki mál páska heldur föstudagsins langa. Hverju trúum við og hvernig lifum við? Hvað temjum við okkur og hvaða lífsstefnu höfum við? Ertu föstudagskona eða föstudagskarl? Er í þér lífssafstaða föstudagsins langa? Leyfir þú ótta eða neikvæðni að ráða geðslagi þínu, hugsunum og tilfinningum? Bregstu við breytingum með neikvæðni, líka pólitískum tíðindum, listrænum gerningum eða alvarlegum heilsufarstíðindum? Hræðistu og ferð í bakkgírinn? Hvort ertu þá föstudagsvera eða páskakona eða páskakarl?

Kúbudeilan og móðursvör

Ég skildi vel spurningar drengjanna minna. Í bernsku minni varð Kúbudeilan að skelfingarviðburði í mínu lífi. Vegna fréttaflutningsins sannfærðist ég um að heimurinn væri á heljarþröm. Kennedy var kominn með puttann á kjarnorkutakkann og skuggi kjarnaoddana náði inn í barnssálina. Ég var svo sannfærður um vanda og endalok að ég tók ákvörðun um að ef heimurinn færist ekki á sjöunda áratugnum væri siðferðilega óábyrgt af mér að eignast börn því heimurinn hlyti að farast innan nokkurra áratuga. En móðir mín setti drenginn sinn á hné sér og minnti mig á að ef Guð væri til, páskarnir væru hátíð lífins, Jesús væri á lífi og Guð væri besti ferðafélagi mannsins væri ótti skiljanlegur en ætti þó ekki að fylla hugann og myrkva veröldina. Guð væri sterkari en brjálaðir karlar sem lékju sér að fjöreggjum heimsins. Þessi lífsviska ófst inn í trú mína og hefur síðan verið mér ljósgjafi í einkalífi og einnig forsenda í starfi mínu sem prests, frammi fyrir syrgjandi fólki og fórnarlömbum vonds kerfis eða spillts valds. Og svo eignaðist ég nú reyndar fimm börn sem er sterk tjáning á að Guð er gjafmildur og að lífið lifir!

Afstaða til lífsins

Trú er ekki bláeyg heldur skarpskyggn. Trú er ekki flótti frá lífinu heldur forsenda lífsstyrkjandi afstöðu. Páskarnir eru tjáning þess að líf, ást, gæði og hamingja eru sterkari og altækari en neikvæðni, hatur, eiturlyfjabyrlun, sérhyggja, vond stjórnmál, ástleysi, hatursorðræða, mengun, fyrirlitning – alls þess sem hindrar fólk í að njóta hins góða lífs. Páskarnir eru veruleiki og tjáning kraftaverksins – að lífið er gott, – að maðurinn er ekki einn. Páskarnir eru ekki aðeins dagur með boðskap heldur lífshvati að við stoppum aldrei á löngum föstudegi heldur höldum áfram, berjust gegn því sem hindrar fólk til hamingjulífs. Því varðar páskadagur flóttafólk frá Sýrlandi og hvernig eigi að bregðast við í trú og af ábyrgð. Páskar varða líka pólitík í okkar eigin landi. Páskarnir eru boðskapur um hvernig við eigum að nota og umgangast land, sjó og loft. Páskatrúin er kraftuppspretta og lífsmótandi fyrir tengsl okkar við fólk. Dauðinn dó og lífið lifir varðar hvort við hættum að fyrirlíta aðra og förum að sjá í þeim vini Guðs, stórvini Jesú Krists, já fulltrúa hans í heimi. Páskatrú varðar því félagsafstöðu, pólitík, umhverfismál, utanríkismál, hlutverk kirkju í heiminum og einkalíf þitt við eldhúsborð og páskatrúin á líka erindi inn í svefnherbergin! Hvort við erum föstudagsfólk eða páskafólk varðar hvort við sjáum tilgang í að vera góðir foreldrar eða ekki, blása bjartsýni í hrædda drengi og skelfdar dætur eða ekki. Páskatrú er afstaða til lífsins – að fara út úr skugga föstudagsins langa og inn í birtuskin hinnar dansandi sólar á páskum, standa alltaf lífsmegin.

Hvernig ertu hið innra? Ertu föstudagsmaður eða sunnudagsmaður? Er glasið þitt hálffullt eða hálftómt? Kannski er í þér blanda af báðum dögum. Hvernig ferðu með allt, sem er þér mótdrægt og andsnúið? Ég heyrði um konu, sem alla ævi bjó við kröpp kjör, mikla fátækt og missti mikið. Hún átti sér orðtæki og sagði gjarnan: „Ég er svo heppin.“ Hún hafði lært að sjá í erfiðum aðstæðum ljós og möguleika. Hún var – þrátt fyrir áföllin – hamingjusöm og lánsöm því hún tamdi sér jákvæðni.

En lífið er ekki bara spurning um jákvæðni eða neikvæðni, að vera í stuði eða í mínus, föstudagsgeðslag eða sunnudagsstemmingu. Þegar föstudagurinn langi var að kvöldi kominn var öllu lokið. Guð og maður á krossi! Þá var illt í efni og verra verður það ekki. En síðan er seinni hluti sögunnar sá, að dauða var snúið í andhverfu sína og sagan endaði vel þrátt fyrir dauða söguhetjunnar. Gröfin sleppti feng sínum, lífið lifnaði og tilveran er góð. Það eru þær fréttir, sem breyta öllu í lífi kristins manns.

Ef við temjum okkur jákvæðni í lífinu höfum við lært lífsleikni, sem hjálpar í þrautum og þegar eitthvað verður okkur mótdrægt. Við verðum þar með sunnudagsfólk. En þegar við heyrum páskaboðskapinn og tökum hann til okkar verðum við að auki páskafólk. Og páskaboðskapurinn er kraftaverk í lífi sunnudagsjákvæðninnar. Því lífið er ekki bara af sjálfu sér heldur líf í sólarsamhengi Guðs. Ekkert er svo slæmt í þínu lífi, ekkert er svo dapurlegt, engin áföll eru svo stór, ekki í Brussel, París, Sýrlandi eða í Reykajvík, að Guð geti ekki, megni ekki og megi ekki koma þar að með hjálp sína og gleði. Trúir þú því?

Kristur er upprisinn. Hann reis upp fyrir þig og þér til lífs. Amen.

Textaröð: A

Lexía: Slm 118.14-24

Drottinn er styrkur minn og lofsöngur,

hann varð mér til hjálpræðis.

Fagnaðar- og siguróp kveða við í tjöldum réttlátra:

„Hægri hönd Drottins vinnur máttarverk,

hægri hönd Drottins er upphafin,

hægri hönd Drottins vinnur stórvirki.“

Ég mun eigi deyja heldur lifa

og kunngjöra dáðir Drottins.

Drottinn hefur hirt mig harðlega

en eigi ofurselt mig dauðanum.

Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins

að ég megi ganga inn um þau og lofa Drottin.

Þetta er hlið Drottins,

réttlátir ganga þar inn.

Ég þakka þér að þú bænheyrðir mig

og komst mér til hjálpar.

Steinninn, sem smiðirnir höfnuðu,

er orðinn að hyrningarsteini.

Að tilhlutan Drottins er þetta orðið,

það er dásamlegt í augum vorum.

Þetta er dagurinn sem Drottinn gerði,

fögnum og verum glaðir á honum.

Pistill: 1Kor 5.7-8

Hreinsið burt gamla súrdeigið til þess að þið séuð nýtt deig enda eruð þið ósýrð brauð. Því að páskalambi okkar er slátrað sem er Kristur. Höldum því hátíð, ekki með gömlu súrdeigi eða súrdeigi illsku og vonsku heldur með ósýrðum brauðum hreinleikans og sannleikans.

Guðspjall: Mrk 16.1-7

Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust.

En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður.“

Guðrún Nielsen + minningarorð

Glæsilegur eldhugi er horfinn inn í himininn. Minningar um Guðrúnu Nielsen hafa lifnað síðustu daga og það er heillandi að lesa fjölda greina um hana sem veraldarvefurinn geymir ágætlega og miðlar greiðlega. Bros konu á eftirlaunum blasir við á forsíðu tímaritsins Ung í anda, sögurnar um leikfimi í Ármanni laða, frásögur frá uppeldinu syðra og nyrðra, vinnuæfin hennar opinberast sem og þjónusta við þúsundir skólabarna. Og við starfslok hófst nýr tími í lífi hennar, virkni- og sigurför í þágu aldraðra og íþróttaiðkunar þeirra. Guðrún kom öldruðum á stjá og er einn af merkustu íþróttafrömuðum þjóðarinnar síðustu áratugi. Svo er hún farin inn á íþróttasvæði himinsins. Við getum ímyndað okkur hana taka nokkur charlestonspor eða ganga rösklega inn á eitthvert ofuríþróttasvæði, standa svo framan við hóp brosandi, geislandi vera sem hreyfa sig með þokka. Guðrún liðkaði, lífgaði og efldi – og við megum skynja himininn sem allt hið besta sem við höfum þekkt í þessum heimi og lífi.

Bernskan

Guðrún lifði langa æfi og naut inntaksríks og gjöfuls lífs. Þegar hún lést var hún 92 ára gömul og hún lifði lífinu lifandi allt til loka. Guðrún var sumarbarn, fædd­ist í Reykjavík þann 29. júlí 1923. Hún kom í heiminn þegar Ísland var hluti dansks konungsríkis, en varð borgari í sjálfstæðu íslensku ríki. Hún var hálf-dönsk því faðir hennar var danskur, frá Svendborg á Fjóni, en mamman úr Garðinum á Reykjanesi. Foreldrarnir voru Jörgen C. C. Niel­sen, bak­ara­meist­ari, og kona hans Guðrún Ó. Ólafs­dótt­ir Niel­sen. Börnin þeirra voru fimm og Systa – eins og hún var kölluð – var næstelst. Eftirlifandi eru Ólafur og Helga, en Soffía og Valdemar eru látin. Á bernskuheimilinu bjuggu einnig tvær uppeldissystur sem foreldrar Guðrúnar tóku að sér. Þær hétu Nanna og Helga og eru báðar látnar. Mannlífið var ríkulegt og fjörlegt. Mamman rak heimilið og pabbinn bakaði. Þau voru samhent, dugmikil og stefnuföst. Þau festu sér hús á Bergstaðastræti og voru einbeitt í að skapa fjölskyldunni góðan ramma og lífsviðurværi.

Bergstaðastaðstræti var á þessum árum hluti litríks hverfis Reykjavíkur, sem var eiginlega úthverfi nærri byggðarmörkum. Mikill fjöldi var í húsunum, börnin voru mörg, fyrirtæki voru rekin í herbergjum og kjöllurum og byggðin þandist út á þessum árum. Guðrún var sein til gangs en þegar hún var búin að ná sér af beinkröm frumbernskunnar var hún kvik, snögg og fljót – út lífið. Dugnaðurinn og persónueinkennin komu strax fram og Guðrún sagði sjálf kitlandi lykilsögu um sjálfa sig og stefnuna. Í anda sjálfsþurftarbúskapar tíðarinnar voru kartöflugarðar víða í Þingholtunum og hlaðnir steingarðar umhverfis til að varna aðgangi búfjár. Guðrún sá strax í görðunum ljómandi kennslutæki. Hún safnaði nágrannabörnunum saman í hóp, stillti þeim upp og notaði kartöflugarð sem sundlaugarígildi og steingarð sem bakka og svo kenndi hún öllum hópnum sundtökin og hvernig ætti að stinga sér af bakka út í laug! Hún sagði skemmtilega frá þessum bernskuæfingum kennaraefnisins við að koma öllum á stjá og til fjörlegra lífs. Og svo bætti hún við og kímdi. „Ég hef verið óþolandi.“ Guðrún lærði að þekkja styrkleika sína og getu og hafði líka húmor fyrir aðstæðum. Hún hafði í sér getu leiðtogans – eldhugans.

Norðrið rómantíska

Þegar tilboð barst að norðan um að Jörgen bakaði fyrir Akureyringa og Eyfirðinga ákváðu foreldrar Guðrúnar flytjast norður. Þar bakaði Jörgen í nokkur ár, fjölskyldunni leið vel, Guðrún hóf skólagöngu nyrðra sem hún minntist alla æfi með þakklæti og virðingu. Kennararnir voru hæfir og urðu sem lifandi fyrirmyndir um vegsemd og möguleika skólastarfs og kennslu. Guðrún sá Akureyri síðan í rómantísku ljósi og minntist þessara ára með þakklæti og tók með sér suður og fléttaði í eigið líf ungmennafélagskraftinn sem aldrei hvarf henni síðan.

Bergstaðastrætið að nýju og mótun

Og svo fóru þau öll suður aftur eftir ævintýrið norðan heiða – í húsið sitt við Bergstaðastræti. Þar var fjörlegt og skepnur, fuglar og svín, voru í garði. Það er meira að segja til bernskumynd af henni milli grísanna. Jörgen hélt áfram að baka brauð og kökur, Guðrún eldri stýrði heimilinu af skörungsskap og Guðrún yngri fór í Miðbæjarskólann og svo í gagnfræðaskóla. Hún lét til sín taka í barnahópnum, líktist föður sínum, varð dugmikil hannyrðakona, lærði að sníða, sauma, telja út og aga fegurðarskyn sitt svo að hún hafði alla tíð sterkar skoðanir á hvers konar fagurfræðilegum efnum. Og hún lærði að tengja anda og tilfinningar við hið snertanlega og kjólarnir hennar og hlutir urðu að sýnilegum og opnandi minningarlyklum. Þegar hún dró fram kjól eða einhvern mun komu sögurnar óhikað og minningarnar urðu ljóslifandi fyrir þeim sem nutu og heyrðu. Kennarar vita að pedagógísk hjálparmeðul eru góð og Guðrún notaði hluti til að minnast og opna eigin sögu og tjá eigin lífsreynslu.

Ármann, íþróttir, menntun – störf

Unglingsárin voru Guðrúnu gleðitími og gjöful. Hún var ekki aðeins virk í skóla og hverfi heldur heillaðist af fimleikum. Hún stundaði stíft æfingar í Ármanni og fór á fjöll á vegum þess félagsskapar um helgar. Hún tók þátt í að reisa Ármannsskálann, eignaðist fjölmarga félaga í störfum og við æfingar. Svo varð fimleikaiðkun ekki aðeins til að efla hreysti hennar líkamlega heldur varð félagsskapurinn að þroskavettvangi. Hún kynntist betur eigindum sínum og lærði m.a. að skilja eftir feimni. Og fimleikaiðkunin opnaði henni útlönd einnig og eftir að heimsstyrjöldinni lauk fór hún margar fimiferðir um Norðurlönd. Þar opnaðist henni heimur sem síðan var hennar heimaveröld og hún nýtti til starfs – og raunar alla æfi.

Jón Þorsteinsson íþróttafrömuður var glöggur á fólk og sá í Guðrúnu Nielsen konu framtíðar. Hann orðfærði við hana hvort hún gæti hugsað sér að læra til íþróttakennara. Spurningin varð sáðkorn í sálu Guðrúnar og hún fór austur á Laugarvatn, í Íþróttakennaraskóla Íslands. Hún var útskrifuð sem íþróttakennari vorið 1945 og sótti síðar nám­skeið í Dan­mörku, Finn­landi og Svíþjóð. Hún fékk strax vinnu í grein sinni og starfaði sem íþrótta­kenn­ari við Laug­ar­nesskóla frá árinu 1945. Hún kenndi einnig við Íþrótta­skóla Jóns Þor­steins­son­ar og Sam­vinnu­skól­ann. Þá kenndi hún leik­fimi og dans hjá Ármanni og þjálfaði aðalalega stúlknaflokka. Hún stýrði sýn­ing­ar­flokk­um kvenna í fim­leik­um sem sýndu m.a. á Háloga­landi og Mela­velli, í Þjóðleik­hús­inu og við Arn­ar­hól á 17. júní. Auk þess fór hún með fim­leika­flokka í sýn­ing­ar­ferðir til Nor­egs, Hol­lands, Finn­lands og Dan­merk­ur. Guðrún varð heiðursfélagi í Ármanni. Guðrún hóf að kenna við Lauga­lækj­ar­skóla 1961 og kenndi síðar við Fjöl­brauta­skól­ann í Ármúla. Hún kenndi öll­um ald­urshópum íþrótt­ir, sund, dans og fim­leika.

Sjálboðastarfið – í þágu aldraðra

Þegar Guðrún hafði lokið skólakennslu, þau hjón höfðu fullklárað uppeldi barna og húsið í Lerkihlíð, og hún hafði orðið betri tíma hófst nýr kafli í lífi Guðrúnar Nielsen, sjálboðatíminn. Við starfslok sem skólakennari kynnti hún sér nýjar stefnur í íþróttum fyrir aldraða í Danmörku og vann svo að stofnun Félags áhugamanna um íþróttir aldraða, árið 1985, og var í fararbroddi í þeim málaflokki í aldarfjórðung. Þetta var hugsjóna- og sjálboða-starf. Hún varð brautryðjandi í nýrri hreyfingarbyltingu þjóðarinnar. Hún naut siðferðilegs stuðnings íþróttayfirvalda og síðar ofurlítinn fjárhagslegan stuðning stjórnvalda til að efna til átaks meðal Íslendinga sem voru komin til fullorðinsára. Á þriðja áratug var Guðrún einbeitt að koma fólki á stjá – aldrei of seint – sagði hún. Guðrún var sjálf fyrirmynd öðrum við hreyfingu, glæsileg og ungleg, sýndi og bar vitni um að máli skipti að iðka hreyfa sig og iðka íþróttir við hæfi. Og tímaritagreinarnar, viðtölin í fjölmiðlum, og dagblöðin tjá vel hve Guðrún geislaði í starfi og hafði áhrif á þúsundir – og varð til að bæta heilsu þjóðarinnar. Hvatningarstörf hennar við þessa þörfu byltingu fóru ekki fram hjá neinum sem létu sig lýðheilsu varða og Guðrún var vegna þessa sæmd riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu árið 2002. Það er vel og maklegt.

Hjúskapur og ástvinir

Svo var það ástalífið. 17. Júní var ekki bara sýningardagur Guðrúnar á stóra sviðinu. Hún dansaði sjálf og var svo heppinn að rata í fangið á Gunnari Guðröðarsyni (f. 1920, d. 2013), samkennara sínum í Laugarnesskóla, miklu prúðmenni og gáfumanni. Engum sögum fer af dansæfingum þeirra á kennarastofunni en dansinn þeirra á þjóðhátíðardeginum dró dilk á eftir sér. Þau dönsuðu sig inn í hjúskapinn. Þau voru bæði fullveðja, þroskuð, hæfileikarík og mótuð. Þau hófu hjúskap og héldu vel hjúskapartaktinn, stundum hratt og stundum hægt – allt til enda. Þau voru góð hjón. Gunnar lést fyrir tæpum þremur árum.

Þau Guðrún eignuðust tvö börn. Karl fæddist árið 1952. Hann er jarðeðlis­fræðingur og starfar hjá Íslenskum Orkurannsóknum. Bergrún Helga fæddist svo árið 1959. Hún er hjúkrunarfræðingur og starfar hjá Marel. Hennar maður er Gunnar Pálsson, verkfræðingur. Dætur þeirra eru Halla (f, 1991) og Vaka (f. 1988). Sambýlismaður Vöku er Guðmundur Vestmann (f. 1987) og þau eiga dótturina Kríu (f. 2012).

Fyrst bjuggu þau Guðrún í Bólstaðarhlíð en svo fengu þau lóð í Lerkihlíð og byggðu þar fallegt parhús sitt og áttu heima þar til lífsloka beggja.

Minningarnar

Hvernig manstu Guðrúnu? Hvað kemur upp í huga þinn? Manstu svipbrigði hennar og bros? Ef þú varst einn af þúsundum nemenda hennar manstu hve öflugur kennari hún var. Manstu kvikar hreyfingarnar? Manstu hve dugmikil og snar í snúningum hún var? Stakk hún þig einhvern tíma af á göngu? Það var ekki sjálfgefið að halda í hana og gildir einu hvort hún var þrítug eða áttræð. Undraðistu einhvern tíma hraða hennar? Hún var létt á sér og naut að hreyfa sig. Manstu stefnufestu hennar og geðstyrk? Manstu hve ákveðin hún var í flestum málum og marksækinn og fylgdi vel á eftir? Manstu viljann og einbeittnina?

Hvað gerði Guðrún fyrir þig sem þú getur nýtt og veitt áfram í eigin lífi og starfi? Manstu hve reglusöm hún var í öllum málum? Manstu iðjusemina og hve hún setti markið alltaf hátt? Og hefur þú einhvern tíma smurt júgursmyslum eða vaselín á auma öxl eins og Guðrún benti öllum að gera ef eymslin hömluðu? Manstu hve sókn Guðrúnar í líf og gáska var einbeitt og skýr – allt til hinstu stundar? Og manstu hve heitt hún elskaði fólkið sitt og beitti allri orku sinni í þeirra þágu? En svo átti hún líka orku og tíma aflögu fyrir íslensku þjóðina. Og manstu að hún tjáði, kenndi og sýndi langar og þokkafullar hreyfingar, sameinaði íþróttir og fegurð?

Skil og eilífð

Og nú eru orðin skil. Hún borðar ekki lengur á heimsmælikvarða eða dansar við Gunnar sinn. Hún syngur ekki fleiri gleðisöngva með Senjórítunum. Hún kennir engum framar að rísa upp úr stól eða flögrar um. Hún kallar ekki þúsundir saman til íþróttadags eða fer fimleikaferðir í veröldinni. Hún fer ekki framar í minningageymslurnar og nær í fallegan kjól sem hún saumaði og segir kitlandi ævintýrasögur um vel saumaða spjörina og tengdar minningar. Hún týnir engan arfa í garðinum sínum framar og nú er nýgræðingurinn farinn að stinga upp kollunum en hús- og garð-ráðandinn farinn. Guðrún stýrir ekki framar teygjum eða hóp að dansa “kónga” á göngubrú yfir fjölförnasta akveg landsins. Hún fer ekki lengur til Kanarí eða í leikfimi. Nú er það stærsta sviðið – himininn. Og þegar við hugsum um Guð og eilífð þarf að stækka alla hugsun og skýra hugtök. Trúmaðurinn opnar vitund og tíma og getur séð Guðrúnu Nielsen í stórum hópi þakklátra vina, sem hreyfa sig með þokka og löngum hreyfingum. Rún hennar er leyst, Guðrún er í mynd Guðs, þokkinn alger, gleðin óspillt, engin markmið of háleit eða fjarlæg og lofsöngurinn samstilltur í fimleik eilífðar.

Guð geymi Guðrúnu og varðveiti hana í fegurð og ljósi himins.

Amen.

Við skil eru nokkur sem hafa beðið fyrir samúðarkveðjur til þessa safnaðar: Svava Egilsdóttir og Þorgerður Gísladóttir. Systkini Guðrúnar þakka samfyld, skemmtilegu samverustundirnar, kærleika og tryggð. Bergrún og Karl þakka Helgu Nielsen og Garðari, eiginmanni hennar, ómetanlega umhyggju þeirra í garð móður þeirra.

Bálför. Erfidrykkja í safnaðarheimili Háteigskirkju.

Minningarorð í við útför sem gerð var frá Háteigskirkju 21. mars, 2016.

Biblíuvers – minnisvers fyrir fermingu og lífið

Fermingarungmenni velja oft minnisvers fyrir fermingarathöfn. Hér er einn listi sem velja má úr en hann er þó er ekki tæmandi. Á hverju ári velja fermingarungmennin vers utan allra lista og vegna þess að þau hafa lesið eitthvað í Biblíunni sem hefur snert þau eða hrifið.

1Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir. Fil. 4:13

2Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Því að þetta er lögmálið og spámennirnir. Matt. 7:12

3Ákalla mig á degi neyðarinnar, og ég mun frelsa þig, og þú skalt vegsama mig. Sálm.50:15

4Biðjið, og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Matt. 7:7

5Drottinn er góður, miskunn hans varir að eilífu og trúfesti hans frá kyni til kyns. Sálm. 100:5

6Drottin er ljós mitt og fulltingi, hvern ætti ég að óttast? Drottinn er vígi lífs míns, hvern ætti ég að hræðast? Sálm. 27:1

7Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta. Sálm. 23:1

8Drottinn er réttlátur á öllum vegum sínum og miskunnsamur í öllum verkum sínum.. Sálm. 145:13b

9Drottinn er vörður þinn, Drottinn skýlir þér, hann er þér til hægri handar. Sálm.121:5

10Drottinn er öllum góður og miskunn hans hvílir yfir allri sköpun hans. Sálm. 145:9

11Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu, hann mun vernda sál þína. Sálm. 121:7

12Drottinn, þú ert minn Guð. Ég vegsama þig, ég lofa nafn þittþví að þú hefur unnið furðuverk, framkvæmt löngu ráðin ráð sem í engu brugðust. Jes. 25:1

13Ef Drottinn byggir ekki húsið erfiða smiðirnir til ónýtis. Sálm. 127:1

14En Guði er enginn hlutur um megn. Lúk. 1:37

15Engill Drottins setur vörð kringum þá er óttast hann og frelsar þá. Sálm. 34:8

16Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Jóh. 10:11

17Ég hef Drottin ætíð fyrir augum, þegar hann er mér til hægri handar hnýt ég ekki. Sálm. 16:8

18Ég vil lofa Drottin á meðan ég lifi, lofsyngja Guði mínum meðan ég er til. Sálm. 146:2

19Ég vil þakka þér, Drottinn, af öllu hjarta, kunngjöra öll máttarverk þín. Sálm. 9:2

20Ég vil vegsama Drottin alla tíma, ætíð sé lof hans mér í munni. Sálm. 34:2

21Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá. Sálm. 37:5

22Gott mannorð er dýrmætara en mikill auður, vinsældir eru betri en silfur og gull. Orðskv. 22:1

23Guð er oss hæli og styrkur, örugg hjálp í nauðum. Sálm. 46:2

24Hann veitir kraft hinum þreytta og þróttlausum eykur hann mátt.  Jesaja 40:29

25Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. Jóh. 14:1

26Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar. Sálm. 121:2

27Í friði leggst ég til hvíldar og sofna því að þú einn, Drottinn, lætur mig hvíla óhultan í náðum.  Sálm. 4:9

28Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Jóh. 1:1

29Í þínar hendur fel ég anda minn, þú frelsar mig, Drottinn, þú trúfasti Guð! Sálm 31:6

30Jesús mælti: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi.” Jóh. 11:25

31Jesús sagði: „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins. Jóh 8:12

32Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig.” Jóh. 14:6

33Kenn mér að gera vilja þinn því að þú ert Guð minn, þinn góði andi leiði mig um slétta braut. Sálm. 143:10

34Kærleikurinn breiðir yfir allt, trúir öllu , vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. I. Kor 13:7

35Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Matt. 11:28

36Lát engan líta smáum augum á æsku þína en ver fyrirmynd trúaðra í orði og hegðun, í kærleika, trú og hreinlífi. I. Tim. 4:12

37Leitið Drottins meðan hann er að finna, ákallið hann meðan hann er nálægur. Jesaja 55:6

38Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra. Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var. Fil. 2:4-5

39Lofa þú Drottin, sála mín, og gleym eigi neinum velgjörðum hans. Sálm 103:2

40Náð mín nægir þér því að mátturinn fullkomnast í veikleika. II. Kor. 12:9

41Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur. Sálm. 145:8

42Og Jesús sagði við alla: „Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kross sinn daglega og fylgi mér. Lúk. 9:23

43Óttast eigi því að ég er með þér, vertu ekki hræddur því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig með sigrandi hendi minni. Jes. 41:10

44Sá sem ástundar réttlæti og kærleika öðlast líf, velgengni og heiður.  Orðskv. 21:21

45Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda. Sálm. 51:12

46Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. Jóh 3:16

47Sælir eru friðflytjendur, því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða. Matt. 5:9

48Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá. Matt. 5:8

49Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa. Matt. 5:5

50Sælir eru miskunnsamir, því að þeim mun miskunnað verða. Matt. 5:7

51Sælir eru þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, því að þeir munu saddir verða. Matt 5:6

52Varðveit mig sem sjáaldur augans, fel mig í skugga vængja þinna. Sálm. 17:8

53Varðveit mig, Guð, því að hjá þér leita ég hælis. Sálm. 16:1

54Vegur Guðs er lýtalaus, orð Drottins er hreint, skjöldur er hann öllum sem leita hælis hjá honum. Sálm. 18:31

55Vísa mér veg þinn, Drottinn, að ég gangi í sannleika þínum, gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt. Sálm. 86:11

56Þakkið Drottni því hann er góður, því miskunn hans varir að eilífu. Sálm. 107:1

57Þér eruð vinir mínir ef þér gerið það sem ég býð yður. Jóh. 15:14

58Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum. Sálm. 119:105

59Þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig. Sálm. 23:4

60Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla. I. Kor. 13:1

61Þú ert von mín, Drottinn, þú, Drottinn, ert athvarf mitt frá æsku, Sálm. 71:15

62þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. . . . Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Mark. 12:30-31

63Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð. Jer. 29:11

64Því að ég, Drottinn, er Guð þinn, ég held í hægri hönd þína og segi við þig: „Óttast eigi, ég bjarga þér.“Jesaja 41:13

65Því að orð krossins er heimska þeim er stefna í glötun en okkur sem hólpin verðum er það kraftur Guðs. I. Kor 1:18

66Því að þín vegna býður hann út englum sínum til þess að gæta þín á öllum vegum þínum. Sálm. 91:11

Kanntu þetta?

05Merkilegar og mikilvægar stiklur í kristninni eru.

Gullna reglan: Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. (Matt. 7.12)

Litla Biblían
: Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. (Jóh. 3.16)

Tvöfalda kærleiksboðorðið
: Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig.
 (Lúkas 10.27)

Signing: Í nafni Guðs + Föður og Sonar og Heilags anda. Amen.

Bæn Jesú Krists 

Faðir vor, þú, sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni. Gef oss í dag vort daglegt brauð. Og fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum. Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu. Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu. Amen. (Matt. 6.9-13)

Trúarjátningin: 

Ég trúi á Guð, föður almáttugan, skapara himins og jarðar. Ég trúi á Jesú Krist, hans einkason, Drottin vorn, sem getinn er af heilögum anda, fæddur af Maríu mey, píndur á dögum Pontíusar Pílatusar, krossfestur, dáinn og grafinn, steig niður til heljar, reis á þriðja degi aftur upp frá dauðum, steig upp til himna, situr við hægri hönd Guðs föður almáttugs og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða. Ég trúi á heilagan anda, heilaga almenna kirkju, samfélag heilagra, fyrirgefningu syndanna, upprisu mannsins og eilíft líf. Amen.

Boðorðin tíu: 

  1. Ég er Drottinn Guð þinn. Þú skalt ekki aðra Guði hafa.
  2. Þú skalt ekki leggja nafn Guðs þíns við hégóma.
  3. Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan.
  4. Heiðra skaltu föður þinn og móður.
  5. Þú skalt ekki mann deyða.
  6. Þú skalt ekki drýgja hór.
  7. Þú skalt ekki stela.
  8. Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.
  9. Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns.
  10. Þú skalt ekki girnast konu náunga þins, þjón, þernu, uxa, asna né nokkuð það sem náungi þinn á. (2.M 20.1-17)

Bænvers

Bænin má aldrei bresta þig,

búin er freisting ýmislig.

Þá líf og sál er lúð og þjáð,

lykill er hún að Drottins náð.

 

Vaktu, minn Jesú, vaktu í mér,

vaka láttu mig eins í þér.

Sálin vaki, þá sofnar líf,

sé hún ætíð í þinni hlíf.

 

Vertu, Guð faðir, faðir minn,

í frelsarans Jesú nafni,

hönd þín leiði mig út og inn,

svo allri synd ég hafni.

Jesús er sætt líf sálnanna

heimild sagnaheimarÞegar ég kom frá messugerð í Hallgrímskirkju og loknum viðtölum 1. sunnudags eftir þrettánda beið mín póstur frá Báru Grímsdóttur, tónskáldi. Hún var í messu og hlustaði grannt, ekki bara á góðan söng Mótettukórsins og spilerí Björns Steinars Sólbergssonar, heldur líka á ræðing klerks í stól. Og prédikunin fjallaði um myndir og Jesúnálgun og trúarskiling fólks, sem er mismunandi og áhrifatengdur tímanum. Íhugunarsálmur sr. Jóns Þorsteinssonar í Kirkjubæ kom í hug hennar og því sendi hún hann áfram. Sr. Jón var merkisklerkur, vel skáldmæltur, og er kunnur í sögunni vegna píslarvættis hans í Tyrkjaráninu. Jón var prestur í Eyjum þegar Alsíringar réðust á Eyjar og var hann hálshöggvinn. Íhugunarsálmur Jóns sýnir innlilega trúarinnlifun, frumlútherska Jesúáherslu og líríska getu höfundarins. Klifunin er vissulega sérstæð, hugnast ekki öllum en Hallgrímur notaði það besta og fór vel með aðferðina síðar. Jón er augljóslega fyrirboði , forgengill, en ekki eftirmaður Hallgríms Péturssonar, sem breytti öllum Jesúkveðskap Íslendinga til skerpu og batnaðar. Barnsleg einlægni Jóns Þorsteinssonar hreif mig.

Jesús er sætt líf sálnanna

eftir sr. Jón Þorsteinsson (1570 – 1627) frá Kirkjubæ í Vestmannaeyjum

Jesús er sætt líf sálnanna,
Jesús er best ljós mannanna,
Jesús er hunang hjartnanna,
Jesús er unan eyrnanna.

Jesús er lömdum lækning dýr,
Jesús er veikum hressing hýr.
Jesús klöguðum kvittan skír,
Jesús hræddum kastali nýr.

Jesús er villtum vegur beinn,
Jesús sárum græðari hreinn.
Jesús er aumum aðstoð einn,
Jesús er Guðs húss styrktarsteinn.

Jesús er ríkum æran fest,
Jesús er aumum upphaf mest.
Jesús er ekkjum aðstoð flest,
Jesús er börnum forsvar best.

Jesús er gleði guðhræddra,
Jesús er huggun sorgmæddra.
Jesús er líf endurfæddra,
Jesús er styrkur nýgræddra.

Jesús er höfuð limana,
Jesús er víntréð kvistanna.
Jesús er hænan unganna,
Jesús er hirðir sauðanna.

Jesús er góðra frelsari,
Jesús er illra dómari.
Jesús er Satans sigrari,
Jesús er dauðans eyðari.

Jesús er fæðan hungraðra,
Jesús er friður ofsóttra.
Jesús er brunnur örþyrstra,
Jesús er kraftur vanfærra.

 

Jesús er ungum menntin mæt,
Jesús er gömlum girndin sæt.
Jesús bugnuðum björg ágæt,
Jesús allra vor allt umbæt.

Ó, Jesú, sanna andarlíf,
ó, Jesú, vert mín staðföst hlíf,
ó, Jesú, hjá mér ætíð blíf,
ó, Jesú, frá mér Satan dríf.

Ó, Jesú góði, unn mér fá,
ó, Jesú, þína dýrð að sjá.
Ó, Jesú, haf mig æ þér hjá,
ó, Jesú, svo þig lofi eg þá.

Ó, Jesú, girnd mín innilig,
ó, Jesú, prýði minnilig.
Ó, Jesú fríði, eigðu mig,
ó, Jesú blíði, eg á þig.

Ó, Jesú sálna eilíft hnoss,
ó, Jesú, fyrir þinn deyð á kross,
ó, Jesú, fyrir þinn undafoss,
ó, Jesú Kristi, hjálpa oss.

Ó, Jesú, þína annastu hirð,
ó, Jesú, þína kvölunum firrð.
Ó, Jesú, sé þér ætíð skýrð,
ó, Jesú, heiður, lof og dýrð!