Framtíðin í núinu

Lexía dagsins er úr seinni hluta Jesabókarinnar. Lestur þessa rismikla texta dró fram í huga mér minningar frá námstíma mínum í guðfræðideild Háskóla Íslands. Þar naut ég kennslu merkra lærimeistara og dr. Þórir Kr. Þórðarson var einn þeirra. Hann var frumlegur fræðimaður, listamaður, merkilegur forystumaður í borgarmálum Reykjavíkur og snilldarkennari. Tímar Þóris Kr. í fræðum Gamla testamentisins voru áhrifaríkir. Stundum var Þórir Kr. í svo miklu stuði að þegar tíma lauk gengu nemendur út úr tíma í uppnámi eða í leiðslu, en með kollana fulla af nýjum hugmyndum. Mér er sérlega eftirminnilegt þegar farið varið í gegnum Jesajabókina.

Lærifaðirinn kallaði mig einu sinni til sín og sagði að nú hefði hann verkefni: „Þú átt að halda tveggja tíma fyrirlestur um hugmyndir og túlkun Gerhards von Rad.“ Ég hóf undirbúning af kappi og las hina merkilegu bók Gerhard von Rad um boðskap spámannanna Die Botschaft der Propheten, sem til er á mörgum tungumálum því höfundurinn var sem páfi gamlatestamentisfræða á 20. öld. Og ég lærði meira en tilheyrendurnir. Það var – held ég – tilgangur Þóris Kr. að ég næði að orða með mínum hætti og miðla áfram glæsilegum hugmyndum von Rads.

Hverjar voru þær? Með einföldun má segja að von Rad lýsi að á tímum Jesaja hafi Ísraelsþjóðin bakkað inn í framtíðina. Hún hafi lifað í eftirsjá, syrgt fornan glæsitíma þegar þjóðin var sigursælt herveldi, byggði upp glæsilega aðstöðu trúardýrkunar og öfluga stjórnsýslu í Jerúsalem. En svo hafði öllu farið aftur, þjóðin hafði verið illa leikinn af erlendum herjum. Í stað þess að bregðast við hafi þjóðin helst horft til baka, verið upptekin af fornri frægð, glæstri fortíð – og hún bakkaði. En þá komu fram vonarmenn Guðs sem ekki héldu við þessari fortíðarþrá heldur sungu nýja söngva og boðuðu framtíð. Í spádómsbók Jesaja heyrast þeir söngvar. Þessum vonarmönnum framtíðar var trúað og þjóðin byrjaði að snúa sér við, hætti að bakka og tók að opna fyrir framvindu og von. Þar með fékk nútíðin frelsi úr viðjum fortíðarþrár. Guðsvitundin breyttist. Guð var ekki aðeins vald í fortíð. Guð lifði í öllum víddum tímans, kallaði úr framtíð og væri með í nútíð. Allt breyttist þar með.

Lífmagn lexíunnar

Það er þessi vitund og skilningur sem speglast í dýptarorðum lexíu dagsins. Guð er ekki smár heldur mikill. Guð er ekki aðeins goð fornaldar heldur Guð tímans. Guð er ekki innilokað skurðgoð í húsi heldur skapar heiminn, breiðir út land eins og brauð, þenur út himinhvelfinguna og leikur sér í sköpun heims og þar með tilveru manna. Guð kallar fólk til að verða ljós fyrir aðra, vill að hans fólk lækni sjón hið innra sem ytra og leiði þau til frelsis sem eru lægð og heft. Það er lífsmáttur í lexíunni.

Hvað viljum við með slíkan boðskap? Sem þjóð og einstaklingar? Snúum við aftur eða fram? Snýrðu baki og bossa í framtíðina? Fólk, sem hefur lent í lífsháska eða upplifað eitthvað sérstakt, nær stundum ekki að sleppa og halda lífinu áfram. Það er klossfast í fortíð og ferðafélagar þess eru bakþankar, eftirsjá og kvíði. Viljum við ganga afturábak inn í framtíðina eða snúa okkur og opna fyrir nýja möguleika?

Fortíð er mikilvæg og enginn ætti að slíta sig algerlega frá sið og sögu, hvorki menningarlega né persónulega. Það væri afstaða hroka og einfeldni. En ógagnrýnin fortíðardýrkun verður jafnan til að draga úr lífsgæðum og hamingju í nútíð og framtíð. Öll ættum við að æfa okkur – temja okkur – að lifa í augnablikinu, njóta alls þess sem okkur er gefið, hvers annars, tækifæra, litbrigða, orða og upplifana. En þau, sem lifa bara í núinu og án nokkurra tengsla við fortíð eða framtíð, munu örugglega stranda á einhverju skeri og slasast illa. Skýjaglópar, sem eru bara uppteknir af draumum og framtíðinni, brotlenda líka. Öfgar meiða.

Bæði gamalt og nýtt


Flest erum við smeyk gagnvart hinu óþekkta en megum þó opna. Flest dröslumst við líka með einhver áföll úr fortíðinni, sem við megum gjarnan sleppa og losna við. Mörg okkar eru hamin af verkum eða vitleysu, sem við ættum að segja upp og láta gossa. Að bakka inn í framtíð og horfa aðeins til baka skerðir lífsgæði og fer illa með gleði.

Velferð okkar byggist á að okkur auðnist að læra af fortíð og reynslunni og draga lærdóminn til framtíðar. Fortíð – aftur – framtíð – opnun og nýjung. Það er spennan, sem við einstaklingar sem og kristin kirkja erum kölluð til að lifa við. Ætlum við að vera bara í fortíðinni, hefðinni, gera það alltaf hefur verið gert eða ætlum við að breyta svo róttækt að það verði engin fortíð heldur bara framtíð, reyna að vera algerlega á fullu í framtíðinni?

Guð í fortíð – Guð í framtíð


Kristnin tekur mið af hefð og sögu en hlustar á hvað Guð kallar til. Okkar viðbrögð verða heil og til farsældar þegar fortíð og framtíð lifa í fléttu.

Jesús var opinn og þorði. Því erum við hér í dag af því hann lifði ekki bara af fortíð, heldur opnaði gagnvart framtíðinni. Hann kom ekki til að brjóta niður fortíð heldur uppfylla hana, ekki til að eyðileggja það sem gert hafði verið heldur til að bera elsku Guðs inn í veröldina, gefa líf þar sem dauði var, hleypa lífsmætti í sið og samfélag. Aftur en líka fram. Til að þú getir lifið í núinu með hamingju og gleði þarftu að vera í góðum tengslum við fortíð en líka framtíð sem Guð kallar þig og aðra menn til. Gott líf er fléttað úr fortíð og framtíð. Söguguðfræði varðar gott jafnvægi tíðanna.

Lífið færir okkur verkefni og þau eru misjöfn og persónuleg. Hver er þín áskorun? Hverju máttu sleppa? Hverju máttu losna frá? Til hvers ertu kölluð eða kallaður?

Hvernig væri að hugsa framþanka í stað bakþanka, vona í stað kvíða? Það stórkostlega er að framtíðin finnur þig ekki í fortíð heldur aðeins í núinu. Jesús Kristur opnaði, þorði og uppfyllti.

Amen

Íhugun í Hallgrímskirkju 12. júlí, 2015

2015 sjötti sunnudagur eftir þrenningarhátíð – textaröð: B

Lexía: Jes 42.5-7


Svo segir Drottinn Guð
sem skapaði himininn og þandi hann út,
sem breiddi út jörðina með öllu sem á henni vex, 
sá er andardrátt gaf jarðarbúum og lífsanda þeim sem á jörðinni ganga:
 Ég, Drottinn, kallaði þig í réttlæti
og held í hönd þína.
 Ég móta þig,
geri þig að sáttmála fyrir þjóðirnar og að ljósi fyrir lýðina 
til að opna hin blindu augu, leiða fanga úr varðhaldi
 og úr dýflissu þá sem í myrkri sitja.

Pistill: Gal 3.26-29

Með því að trúa á Krist Jesú eruð þið öll Guðs börn. Þið öll, sem eruð skírð til samfélags við Krist, hafið íklæðst Kristi. Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú. Ef þið eruð í samfélagi við Krist þá eruð þið niðjar Abrahams og erfið það sem honum var heitið.

Guðspjall: Matt 5.17-19


Ætlið ekki að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema heldur uppfylla. Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu uns allt er komið fram. Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það mun kallast minnstur í himnaríki en sá sem heldur þau og kennir mun mikill kallast í himnaríki.

Ísleifur Sumarliðason + 1926 – 2015

Ísleifur Sumarliðason
Ísleifur Sumarliðason

Hvað var það skemmtilegasta sem Ísleifur á Vöglum gerði? Börn hans urðu hugsi því margt kom til greina, margs að minnast á heimili, úr starfi skógarvarðarins í 38 ár og plöntuframleiðslu í áratugi.

Sáning í helgidóminum

Kannski var það þegar hann fór með fræpokana að sáningarreitunum til að sá. Þá urðu börnin að hafa hljótt um sig – ekki vera fyrir þegar Ísleifur varð samverkamaður skaparans, varð prestur í gjörningi sköpunarinnar, dreifði samviskusamlega trjáfræi í frjóa mold og í sléttum beðum. Augu hans horfðu yfir sáðbeðin, hendur hans og fingur dreifðu með agaðri natni mjúku fræinu svo það lagðist á spírunarstað í hæfilegri dreifingu. Og svo var jafnað yfir, vökvað og hlúð að.

Skógurinn varð helgistaður, Vaglir kórinn og sáðreiturinn altarið. Svo spíraði undir gleri í reitum. Fuglum var haldið frá og skepnum einnig. Illgresi var reitt burt og svo uxu upp fjarska lítil birkiskott, lerki, furuskinn, heggur eða einhverjar fáséðar tilraunaplöntur sem Ísleifur hafði löngun til að reyna að rækta undir misblíðum himni við brjóst landsins.

Myndin af sáðmanninum Ísleifi Sumarliðasyni er laðandi fögur. Hún dregur saman þræði í lífi hans, eðliskosti, upphaf og lífsstarf. Og hún tengir hann í sögu Íslands á 20. öld, framvinu samfélags, hugmyndir um hlutverk fólk í landinu, atvinnusögu og einnig menningarpólitík. En svo er sáðmaðurinn líka fulltrúi mannkyns í faðmlögum við náttúru, umhverfi og svo auðvitað við Guð, sem er “yfirskógarvörður” alheimsins.

Upphaf og mótun

Ísleifur Sumarliðason fæddist á Akranesi 12. nóvember 1926. Foreldrar hans voru hjónin Sigríður Guðmundsdóttir Thorgrímsen og Sumarliði Halldórsson. Nafn Ísleifs var vitjunarnafn eins og nafn föður hans. Fyrstu árin bjuggu foreldrar Ísleifs og Sigríðar, eldri systur hans, á Krossi við Akranes. Sumarliði var af fyrstu kynslóð skógfræðimenntaðra manna á Íslandi. Hann starfaði á árunum 1910-14 sem fyrsti skógarvörðurinn á Vesturlandi. Sumarliði var ekki aðeins áhugamaður um að endurklæða landið ilmandi skógi heldur vildi stuðla að innri ræktun íslenskrar æsku og var í þeim efnum samverkamaður sr. Friðriks Friðrikssonar í KFUM og sá um starf félagsins á Akranesi. Vegna tæprar heilsu og veikinda foreldra Ísleifs fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur þegar hann var á unglingsárum. Og móðir hans lést þegar Ísleifur var 18 ára.

Ísleifur hóf skólagöngu á Skaganum en hélt svo áfram í Ingimarsskóla þegar suður var komið. Í fríum og eftir að skóla lauk fékk Ísleifur vinnu við skógræktarstörf. Ræktin var í fingrum hans og sinni. Líf skógræktarfólks varð honum eðlilegur lífsháttur. Alla tíð – allt til enda – var leiðin að hjarta og huga Ísleifs greiðust með því að ræða um gróður og ræktun.

Ísleifur fékk á stríðsárunum vinnu í Múlakoti í Fljótshlíð sem varð til að hann ákvað að fara til náms í skógfræði í Danmörk. Sumarliði, faðir hans, hafði lært á Jótlandi en Ísleifur fór til náms á Sjálandi. Hann naut ekki aðeins Danmerkurtímans sem gleðilegs tíma heldur ferðaðist suður allt Þýskaland. Það var hans – og þess tíma – útgáfa af Interrail-ferð. Ísleifi ógnuðu afleiðingar styrjaldarinnar og ásýnd Þýskalands hafði djúp áhrif á hann.

Þegar Ísleifur hafði numið fræðin, notið danskrar menningar og – skv. því sem mér telst til orðinn skógfræðingur þjóðarinnar nr. 7 – var hann tilbúinn til starfa á Íslandi. Í ársbyrjun 1949 var Ísleifur ráðinn til að verða skógarvörður á Norðurlandi, með aðsetur á Vöglum í Fnjóskadal. Hlutverk hans var að vakta skóga á Norðurlandi. Víða voru kjarrsvæði og skógarleyfar sem þurfti ekki aðeins að vakta heldur einnig að verja til að þau lifðu. Hlutverk skógarvarðarins var ekki aðeins að girða heldur líka beita sér í samskiptum við fólk og þmt stjórnvöld til að vernda viðkvæm svæði, sjá til að umgengni við skógana yrði bætt og peningar yrðu til að manna stöðvar og starf.

Svo breyttist skógarvarðarstarfið á Vöglum. Ísleifur beitti sér fyrir uppbyggingu ræktunarstöðvar og umfangsmiklum tilraunum með tegundir og kvæmi sem hægt væri að nýta á Íslandi. Hann og starfsfólkið á Vöglum byggðu upp þekkingargrunn sem var hagnýtur við skógræktarstarf í landinu á seinni hluta tuttugustu aldar. Um 1980 voru á Vöglum framleiddar um 150 þúsund skógarplöntur árlega til plöntunar í Fnjóskadal eða annars staðar á Norðurlandi. Þessi framleiðsla kom til móts við aukin skóræktaráhuga landsmanna, þjónaði skógræktarfélögum og einnig mikilvirkustu skógræktarmönnum þjóðarinnar, sumarbústaðafólkinu. Merkilegar tilraunir voru gerðar við að greina hvaða tegundir hentuðu og við hvaða aðstæður.

Sigurlaug, börnin og Vaglir

Svo var það ástin. Hinn bráðungi skógarvörður á Vöglum var einhleypur þegar hann kom norður í veturinn í Fnjóskadal. Fyrst bjó hann á Skógum, sem er vestan ár. En svo kom vorið. Skógræktin var byggðarstólpi í dalnum og veitti mörgum atvinnu. Og Ísleifur réði fjölda fólks til starfa, m.a. Sigurlaugu Jónsdóttur frá Skarði í Dalsmynni (f. 15. júlí 1931 – dóttir hjónanna á Skarði, Sigrúnar Guðmundsdóttur og Jóns Jóhannssonar).

Og kannski var það fyrirsjáanlegt að fallegi Ísleifur og hin fallega Sigurlaug hrifust af hvoru öðru. Þau féllust í faðma og voru glæsileg hjón. Þau gengu í hjónaband 12. nóvember árið 1950. Hann fékk hana í afmælisgjöf – og sú gjöf var ein af stóru lífsgjöfum hans og til blessunar. Það voraði vel í lífi hans í Vaglaskógi og hjúskapurinn varð Sigurlaugu og Ísleifi ávaxtasamur. Þau eignuðust sjö börn. Elst er Sigríður Ingibjörg sem fæddist árið 1951. Síðan komu börnin eitt af öðru og þétt. Jón fæddist árið 1952, Jóhann Svavar tveimur árum síðar. Sumarliði Ragnar fæddist árið 1955 og Sigurður Örn ári síðar. Rúnar kom svo í heiminn árið 1962. Árið 1973 fæddist Guðmundur Einar, en hann lést aðeins tveggja ára.

Þau Sigurlaug og Ísleifur bjuggu á Vöglum í 38 ár. Heimili þeirra var fjölsótt. Það var m.a. áfangastaður erlendra skógræktarmanna sem komu víða að úr veröldinni. Svo var fjöldi fólks sem starfaði í skóginum, nokkrir allt árið og jafnvel einhverjir tugir yfir sumarið. Því var í mörg horn að líta og reyndi á hæfni og samstöðu þeirra hjóna. Þau nutu svo föður Ísleifs meðan honum entist aldur (+1965). Hann studdi son sinn og tengdadóttur í ýmsu m.a. með því að vera börnunum á Vöglum natinn afi sem miðlaði fjölskyldusögu, trú og gildum hins gamla Íslands.

Vaglaskógur var vegna skógræktar tengdur stórheiminum ekki síður en nærheimi. Skógarvörðurinn var ekki aðeins í góðri samvinnu við innlenda skógrækt heldur erlenda einnig. Fræsendingar komu um langan veg. Gestir komu færandi hendi og skógarvörðurinn eða þau Sigurlaug bæði ferðuðust um heiminn í vinnuerindum og oft í einkaerindum einnig. Á heimili þeirra Ísleifs mátti sjá minjagripi um heimsreisur þeirra og hve víða þau höfðu farið.

38 ár á Vöglum og svo þegar þau létu af störfum nyrðra voru þau reiðubúin að brjóta nýjan akur. Þegar þau höfðu lokað Vaglabænum í síðasta sinn hófu þau nýjan feril. Ísleifur og Sigurlaug fluttu árið 1986 suður í Mosfellsbæ. Þar keyptu þau hús og land og settu síðan upp gróðrarstöð sem þau ráku í tvo áratugi og framleiddu garðplöntur. Þau voru vön að starfa saman, nutu styrkleika hvors annars og gátu á eigin kostnað gert áfram tilraunir með gróður og í nýjum aðstæðum og á nýju svæði. Garðplöntusalan varð líka samastaður og jafnvel á stundum vinnustaður afkomenda þeirra hjóna. Þegar Ísleifur var áttræður og kona hans á áttræðisaldri var komið að nýjum skilum. Þau seldu hús og land og fluttu til Reykjavíkur. Ísleifur stríddi við vaxandi heilsuleysi síðustu árin og lést mánudaginn 29. júní, 88 ára að aldri. Þá höfðu þau Sigurlaug verið í hjónabandi í 65 ár.

Kveðjur hafa borist frá Frímúrum á Akureyri sem og frá systkinum í Nesi í Fnjóskadal.

Minningarnar

Hvernig manstu Ísleif Sumarliðason? Manstu dugnaðinn og vinnusemina? Hann var atorkumaður sem við munum eftir sem kynntumst honum. Hann var fjölhæfur hæfileikamaður. Áhugamaður um samfélagsmál og þjóðfélagsmál og las mikið alla tíð. Hann opnaði huga gagnvart menningu heimsins. Ísleifur var málafylgjumaður, hafði skoðanir á flestu og var stefnufastur í mörgu. Hið innra bjó í Ísleifi næmni og meir lund sem kom betur í ljós þegar leið á æfina. Hann var heiðarlegur og raungóður. Ættingjar og sveitungar vissu að hægt var að leita til Ísleifs um stuðning af ýmsu tagi. Ísleifur var öflugur stjórnandi, hvatti fólk til dáð í kringum sig, börnin sín til mennta og nærsamfélag til dáða.

Hvernig manstu hann? Hvað kemur í huga þinn? Lyftu upp, farðu vel með og legðu frá þér með natni – eins og þegar lagt er til spírunar það sem er ætlað til lífs.

Sumarlandið

Og nú er komið að skilum. Maðurinn sem byrjaði æfina með því að búa á Krossi fer nú undir merki krossins inn í eilífðina. Meistarinn mikli frá Nasaret var áhugamður um gróður, benti á liljur vallarins, sagði sögur af garðyrkju og fólki í ræktunarstörfum. Það er skógrækt og lífrækt í þeim Jesú Kristi sem líkti sjálfum sér við tré. Og það tré tilheyrði lífinu. Svo ræddi hann líka um sáðmann sem fór út að sá og sumt fræið bar ávöxt og annað ekki. Það er sagan um okkur menn, líka Ísleif Sumarliðason. Hann gekk í helgidóm skógarins, sáði í frjóan jarðveg og fylgdist svo með spírun, lífvexti og ávexti. Guð á himnum horfði með áhuga og stuðningi til Ísleifs, fylgdist með lífi hans og ávöxtum verka hans og fjölskyldu. Og svo er boðskapur úr gróðrarstöð himins skýr: Ég er upprisan og lífið. Ný spírun í nýjum sáðreit eilífðar. Þar fer ekkert forgörðum því sú ofuræktunarstöð er fullgerð, er án hreta og laus við öll dýr og mein.

Guð geymi Ísleif í því sumarlandi. Og Guð geymi þig.

Minningarorð í Neskirkju 7. júlí, 2015. Erfidrykkja í Neskirkju og jarðsett í Guðfuneskirkjugarði.

Mannaborg – Guðsborg

Mannaborg - Guðsborg
Mannaborg – Guðsborg – mynd SÁÞ

Listsýning Rósu Gísladóttur í forkirkjunni og á Hallgrímstorgi nefnist Borg Guðs. Það hefur verið gjöfult að skoða og íhuga þessa sýningu. Borg Guðs – heitið minnir á rit Ágústínusar kirkjuföður, kastalaborgir miðalda og rómantískar draumborgir 19. aldar bókmennta. Og minnir líka á þann rismikla sálm Marteins Lúthers: Þú Guð, ert borg á bjargi traust.

Verk Rósu eru fjölbreytileg. Á einum veggnum er gullglansandi helgiskrín sem vekur margar spurningar. Síðan eru tvær svífandi, samsettar himinborgir eða helgiheimar hangandi í loftinu. Þessar upphöfnu veraldir hafa hrifið ferðamennina sem príla upp tröppur til að skoða og taka myndir.

Annars vegar er tvenna klausturs í Armeníu og bæjarins á Keldum á Rangárvöllum. Nokkrir Armenar komu í heimsókn í kirkjuna fyrir skömmu og spurðu óðamála hvað þetta ætti eiginlega að þýða að setja líkan klaustursins, sem þau þekktu svo vel, með þessum ókunna bæ. Þeir róuðust þegar þeir fengu að vita að ermskir (armennskir?) guðsmenn hefðu komið í kirkjuerindum til Íslands fyrir öldum.

Hinum megin gangsins er þrenna stíliseraðra helgihúsa, mosku og sýnagógu í Berlín og Hallgrímskirkju í Reykjavík. Þessi samsetta þrenna minnir á sameiginlega rót fléttu trúarbragða gyðingdóms, Islam og kristni. Öll hafa sprottið úr hinum hebreska átrúnaði og ritum.

Þegar fólk hefur beðið eftir að komast í lyftuna upp í turn hefur sýningin orðið mörgum þeirra dásamleg uppljómun. Það eru forréttindi að standa í röð með svo elskulega krefjandi listaverk allt í kring.

Spegillinn

Eitt verka Rósu er úti og fyrir framan kirkjuna. Það er hringspegill sem fólk gengur að og sér sjálft sig og alveg sama hvernig það hreyfir sig, sjálfsmyndin er þarna. Eins og Guð væri að horfa: „Þarna ertu, ég sé þig, þú ert fyrir augliti mínu, ég er þér svo nærri sem þú vilt, eða fjarri sem þú óskar.“ Marteinn Lúther notaði setninguna Coram Deo til að minna okkur menn á að við værum alltaf fyrir augum Guðs, frammi fyrir ásjónu Guðs. Og ein bóka Sigurbjarnar Einarssoar, sem einu sinni þjónaði þessum söfnuði, heitir Coram Deo – fyrir augliti Guðs.

Sýning Rósu hefur vakið þanka um návist hins guðlega í lífi fólks, spurningar um hvað geti verið og sé borg Guðs og hvernig. Ég gleðst þegar listaverk vekja viðbrögð en er hvað þakklátastur þegar þau kveikja tilvistarspurningar, bæta í menningarvefinn og stækka veröld fólks.

Fólk á ferð

Fólk kemur í þessa kirkju og sækir landið heim. Íslendingar eru á ferð um land og heimsbyggð. Fólk er á ferð. Söngsveinar, drengir, frá Fjóni í Danmörk koma til að gleðja okkur með söng sínum. Í samræmi við ferðagleði tímans er á dagskrá þessa messudags ferðatexti úr Nýja testamenntinu. Jesús er á ferð til Jerúsalem. Við heyrum lýsingu einhvers sem hafði orðið vitni að biblíulegu uppþoti í ferðahóp Jesú. Ferðafélagarnir höfðu ólíkar skoðanir. Jesús tjáði stefnu sem Pétur, vinur hans, var ósamála. Pétur skammaði m.a.s. Jesú og vildi umsnúa honum. Og hvað var svona skammarlegt? Ekki að Jesús væri á ferð til borgar Guðs, Jerúsalem, heldur ferðarerindið. Jesús talaði um að hann að myndi deyja.

Það var sú dauðastefna sem gekk fram af Pétri. Hann vildi skiljanlega Jesú fremur lífs en látinn. Hann batt vonir sínar við menningarlegan, trúarlegan og pólitískan frama Jesú og skildi hlutverk hans sínum skilningi og vænti mikils. Því bæði reiddist hann og hræddist ferðaplan Jesú Krists. Orð Jesú um að hann færi til borgarinnar til að láta lífið taldi Pétur ekki aðeins lélegan húmor, heldur óábyrgt tal.

Vík burt Satan

Pétur var allt í einu kominn í hluverk fjölmiðlaráðgjafa sem bannaði aðalmanninum að tala frjálst. Jesús var á leið til borgar Guðs með dauða í huga og hjarta – en Pétur var hornóttur og skömmóttur. Viðbrögð Jesú eru mikil og hann segir við sinn besta vin og félaga: „Vík frá mér, Satan, þú vilt bregða fæti fyrir mig, þú hugsar ekki um það sem Guðs er heldur það sem manna er.“ Pétur – þessi sem Jesús útvaldi til að verða hornsteinn heimskirkjunnar – er allt í einu kominn í hlutverk djöfulsins – orðinn hið illa. Það er rosalegt, sjokkerandi og íhugunarvert. Eigum við að afskrifa þetta sem pirring Jesú? Var hann bara í örgu skapi og skeytti sér á þeim sem næstur var? Eða var annað og meira að baki?

Ég held ekki að Jesús hafi allt í einu álitið að Pétur væri djöfullinn. Ég held ekki heldur að hann hafi verið fúll og skeytt skapi sínu á vini sínum. Ég álít að þetta hafi verið ígrunduð setning og afstaða, sem varðar ekki einn karl í fornöld heldur líka okkur sem erum á ferð í þesari kirkju öldum síðar, alla ferðalanga sem hingað koma, öll þau sem horfa á Guðsborgarverk Rósu, mannabörn heimsins. „Vík frá mér Satan“ er setning sem á við okkur öll, er eins og sjónskífa Rósu úti fyrir kirkjunni. Við erum fyrir ásjónu Guðs. Viltu vera á réttum vegi? Tekur þú sönsum?

Möguleiki til djöfulskapar

Satan er ekki goðsöguleg vera sem sprettur einstaka sinnum fram í vondu fólki. Við þurfum að temja okkur lifandi sýn varðandi hið illa og veruleika þess. Goðsagan er óþörf en mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir möguleika okkar allra til ills. Satan er tákn, safntákn fyrir allt það sem hindrar líf, gæsku, gleði, hamingju og trú fólks í þessum heimi. Ég get orðið Satan þegar ég set sjálfan mig í gegn Guðs góða vilja og að fólk og líf fái notið sín. Þú getur orðið Satan þegar þú horfir of smátt á sjálfa þig eða sjálfan þig, vilt ekki njóta þess góða sem Guð gefur þér alla daga, hindrar hið góða vegna eigin hags, þegar þú vilt ekki horfast í augu við að Guðsríkið skiptir mestu máli í öllu lífi, öllum heimi – líka þínum.

Val okkar alla daga

Við höfum tilhneigingu til að einfalda orð og verk Jesú Krists og taka einfeldningslega því sem hann sagði. Við gleymum oft að orð hans skírskota til lífs allra manna á öllum öldum, líka mín og þín. Erindi hans í texta dagsins varðar ekki aðeins Pétur í líki örvæntingarfulls fjölmiðlafulltrúa, heldur þig í þínum aðstæðum. Viltu hlusta á erindi Guðs við þig? Ef þú hugsar smátt, vilt bara þínar aðferðir, skilur of þröngt – ertu í svo alvarlegum aðstæðum að þær eru djöfullegar. Við getum í afskiptaleysi eða eigingjörnum aðgerðum orðið Satan í lífi fólks. Hið illa er ekki goðsöguvera heldur lifnar í sjálfhverfu fólks og öllum smásálarskap eða hroka. Guð er Guð lífsins en hið djöfullega eyðir lífi. Guðsborgin er borgin þar sem lífið fær að blómstra.

Verkin hennar Rósu eru hvatar til menningarlesturs og sjálfskoðunar. Orð Jesú eru vakar til lífs. Þú getur gotið augum til listaverkanna, horft á þig í speglinum og skellt skollaeyrum og látið þig litlu varða. Þú getur einnig afskrifað orð Jesú sem pirring og fýlutal – en þá ferðu jafnvel á mis við lífið og þitt eigið sjálf. Má bjóða þér að horfa, hlusta og upplifa hið merkilegasta?

„Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér. Því að hver sem vill bjarga lífi sínu mun týna því og hver sem týnir lífi sínu mín vegna mun finna það. Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og glata sálu sinni? Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?“

Þannig mælir Jesús Kristur. Lifir þú í Guðsborginni eða aðeins í mannaborg? Það er hin róttæka spurning hvers dags í lífi okkar.

Amen.

Prédikun í Hallgrímskirkju, 5. júlí, 2015.

Textar fimmta sunnudags eftir þrenningarhátíð. Textaröð B.

Lexía: Jer 15.19-21

Þess vegna segir Drottinn: Viljir þú snúa við sný ég þér svo að þú getir aftur þjónað mér. Ef þú talar þungvæg orð en ekki léttvæg skaltu vera munnur minn. Þá leita menn til þín en þú mátt ekki leita til þeirra. Ég geri þig að rammbyggðum eirvegg til að verjast þessu fólki. Þeir munu ráðast á þig en ekki sigra þig því að ég er með þér, ég hjálpa þér og frelsa þig, segir Drottinn. Ég bjarga þér úr höndum vondra manna og frelsa þig úr greipum ofbeldismanna.

Pistill: Post 26.12-20

Þá er ég var á leið til Damaskus slíkra erinda með vald og umboð frá æðstu prestunum sá ég, konungur, á veginum um miðjan dag ljós af himni sólu bjartara leiftra um mig og þá sem mér voru samferða. Við féllum allir til jarðar og ég heyrði rödd er sagði við mig á hebresku: Sál, Sál, hví ofsækir þú mig? Erfitt verður þér að spyrna móti broddunum. En ég sagði: Hver ert þú, herra? Og Drottinn sagði: Ég er Jesús sem þú ofsækir. Rís nú upp og statt á fætur. Ég birtist þér til þess að þú þjónir mér og segir frá því að þú hefur séð mig bæði nú og síðar er ég mun birtast þér. Ég mun senda þig til Gyðinga og heiðingja og vernda þig fyrir þeim. Þú átt að opna augu þeirra og snúa þeim frá myrkri til ljóss, frá valdi Satans til Guðs, til þess að þeir trúi á mig og öðlist fyrirgefningu syndanna og arf með þeim sem helgaðir eru. Fyrir því gerðist ég, Agrippa konungur, eigi óhlýðinn hinni himnesku vitrun heldur boðaði ég fyrst þeim í Damaskus og í Jerúsalem, síðan um alla Júdeubyggð og heiðingjunum að taka sinnaskiptum og snúa sér til Guðs og sýna það í verki.

Guðspjall: Matt 16.13-26

Þegar Jesús kom í byggðir Sesareu Filippí spurði hann lærisveina sína: „Hvern segja menn Mannssoninn vera?“ Þeir svöruðu: „Sumir Jóhannes skírara, aðrir Elía og enn aðrir Jeremía eða einn af spámönnunum.“ Hann spyr: „En þið, hvern segið þið mig vera?“ Símon Pétur svarar: „Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.“ Þá segir Jesús við hann: „Sæll ert þú, Símon Jónasson! Enginn maður hefur opinberað þér þetta heldur faðir minn í himninum. Og ég segi þér: Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína og máttur heljar mun ekki á henni sigrast. Ég mun fá þér lykla himnaríkis og hvað sem þú bindur á jörðu mun bundið á himnum og hvað sem þú leysir á jörðu mun leyst á himnum.“ Þá lagði hann ríkt á við lærisveinana að segja engum að hann væri Kristur. Upp frá þessu tók Jesús að skýra lærisveinum sínum frá því að hann ætti að fara til Jerúsalem og líða þar mikið af völdum öldunga, æðstu presta og fræðimanna og verða líflátinn en rísa upp á þriðja degi. En Pétur tók hann á einmæli og fór að átelja hann: „Guð forði þér frá því, Drottinn, þetta má aldrei fyrir þig koma.“ Jesús sneri sér við og mælti til Péturs: „Vík frá mér, Satan, þú vilt bregða fæti fyrir mig, þú hugsar ekki um það sem Guðs er heldur það sem manna er.“ Þá mælti Jesús við lærisveina sína: „Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér. Því að hver sem vill bjarga lífi sínu mun týna því og hver sem týnir lífi sínu mín vegna mun finna það. Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og glata sálu sinni? Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína?

Þjóðhátíðardagur Bandaríkjanna

Mér þykir vænt um Bandaríki Norður Ameríku. Ég naut bandarískra styrkja og þeirrar gæfu að nema við bandarískan háskóla. Ég kynntist mörgum og flest eru þau og voru úrvalsfólk. Ég komst að því margt af því besta, sem heimsmenningin hefur alið, varð til í Bandaríkjunum. Ég á frábært venslafólk sem er búsett vestra og hef lært margt af.

Á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna fagna ég. Alltaf hefur mér þótt skemmtilegt, að fáni þeirrar þjóðar skuli hafa sömu liti og hinn íslenski. Svo blakta þeir saman í vindinum, samlitir fánar litla og stóra. Um allan heim blaktir tákn Bandaríkjanna á þessum degi. Frelsisbarátta þjóða litar jafnan hátíðisdaga hennar. 4 júlí er þjóðhátíðardagur vegna þess að þann dag árið 1776 var samþykkt sjálfstæðisyfirlýsing hinna þrettán nýlendna, The Declaration of Independence of the Thirteen Colonies.

Yfirlýsingin á erindi við fólk sem hefur áhuga á gildum samfélaga, stjórnun, réttlæti, já og lífinu. Það er athyglisvert að lesa hina löngu röð ávirðinga og ákæra á hendur breskum stjórnvöldum sem rituð eru í sjálfstæðisyfirlýsingunni. Ef aðeins helmingur var sannur hefði það verið nóg til að réttlæta viðbrögð af hálfu nýlendumanna í Ameríku.

Kraftplagg í þágu heimsbyggðar

Bandarísk áhrif eru gríðarleg um allan heim. Sem heimsveldi hafa Bandaríkin oft beitt styrk sínum til góðs utan eigin landamæra og miðlað mikilvægum gildum sem varða mannréttindi og heilbrigði í stjórnmálum. En oft hefur utanríkispólitík þjóðarinnar verið skeytingarlítil um menningu, tilfinningar og stefnu annarra þjóða og hópa. Bandaríkjamenn fóru t.d. offari í Íraksstríðinu eins og allar helstu kristnar kirkjudeildir Bandaríkjamanna bentu á. Bandarísk stjórnvöld geta jú gert svipuð mistök og fallið í sömu gryfjur og Georg III sem gagnrýndur var í sjálfstæðisyfirlýsingunni. En öllum þeim sem er annt um gildi, góða pólitík og stjórnssýslu geta séð í yfirlýsingunni kraftplagg í þágu heimsbyggðarinnar. Bandaríkjamenn eiga í sögu sinni stöðuga áminningu til heilbrigði í pólitík og menningarlífi.

Lýðræði og mannréttindi

Sjálfstæðiyfirlýsing Bandaríkjanna fjallar um frumrétt fólks til lífs, frelsis og sóknar í hamingju. Rétt eins og siðbótarmaðurinn Marteinn Lúther en ekki Thomas Jefferson héldi á pennanum segir í yfirlýsingunni, að til að fólk og þjóðir geti notið þessara grunngæða séu stjórnvöld stofnsett. Valdið er frá fólkinu og stjórnvöld stýra í krafti þess valds. Þegar þau bregðast skyldu sinni er rétt og skylt að kollvarpa stjórnvöldum. Hér er grunnhugsun lýðræðis og mannréttinda sett á blað. Fólk á rétt á lífi og lífsgæðum. Hlutverk stjórnvalda og þar með stofnana og einstaklinga er að verja þau gæði.

Mannvirðing er leiðarstjarna yfirlýsingarinnar og er endurómur kristinna grunngilda. Góð og ábyrg stjórn Bandaríkjanna er gæfa allrar heimsbyggðarinnar en vond stjórn á þeim bæ er ólán allra manna. Heimsbyggðin á eiginlega siðferðalega kröfu til að koma að vali forseta þessa stórveldis! Best væri að Sameinuðu þjóðirnar hefðu rétt á afneita vali forystu stærstu ríkja heims – þegar ljóst má vera að valið ógni heimsfriði eða fari á svig við almannahag heimsbyggðarinnar. Stjórnvöld valdamestu ríkja heims eru ekki einkamál þeirra.

Allir ættu að staldra við og lesa sjálfstæðisyfirlýsinguna og velta vöngum yfir tengslum hennar við kristinn boðskap. Sú tvenna veitir ljómandi blöndu af efni fyrir gott mannlíf! Til hamingju heimsbyggð, að Bandaríkjamenn skuli eiga kraftmikla sjálfstæðisyfirlýsingu og einnig góða stjórnarskrá.

Jón Pálmi Þorsteinsson + 1915 – 2015

Jón var traustur og áreiðanlegur. Það er vitnisburður barna hans og ástvina. Mér þótti áhrifaríkt að sitja með konu hans og börnum og upplifa traustið í þeim, tengsl og hlýja virðingu – samstöðuna. Traustið sem þau tjáðu með ýmsum hætti rímaði við það sem við nemendur Jóns fundum ávallt og virtum. Jón var ákveðinn, ljúfur og kraftmikill kennari sem við gátum algerlega reitt okkur á og treyst.

Frumtraust

Þessi tilfinning fyrir trausti í Jóni og fólkinu hans minnti mig á kenningu um frumtraust, sem Erik Erikson, einn merkasti sálfræðingur Bandaríkjamanna  á tuttugustu öld, setti fram og hafði mikil áhrif í fræðaheiminum. Jón hafði áhuga á sálfræði og stefndi jafnvel á nám í þeirri grein vestan hafs þó aðstæður styrjaldarára hafi hindrað að hann færi vestur þó hann hefði fengið skólavist. Erikson dró saman efni úr umfangsmiklum rannsóknum og hélt fram að til að barn nái eðlilegum þroska þurfi það að hafa tilfinningu fyrir að andlegum og líkamlegum þörfum þess sé fullnægt og að veröldin sé góður og viðfelldin staður. Þegar þessum þáttum er fullnægt skapast frumtraust – sem er afstaða til lífsins.

Manstu eftir hve Jóni var annt um að öllu hans fólki liði vel? Hann spurði gjarnan um velferðarþætti og var ekki í rótt nema að hann gæti treyst að öllu væri óhætt og vel fyrir komið. Hann spurði um grunnvelferð og vildi að allir nytu hennar, að fólkið hans nyti góðra aðstæðna til þroska, menntunar og hamingju. Og þau atriði eru ekki aðeins mál sálfræði eða skóla, fjölskyldu eða prívatlífs heldur varðar einnig inntak trúar. Traust er trú, trú verður aldrei skilin, ræktuð eða þroskuð nema í anda trausts. Trú deyr í vantrausti. Og þegar dýpst er skoðað er mál Guðs hið sama og Jóns Þorsteinssonar að tryggja traust fólks til að lífið lifi – að allir nái þroska og fái lifað og notið hamingju. Það var erindi Jesú Krists í veröldinni að treysta grunn tilveru manna og alls lífs – að menn megi lifa sem börn í traustu samhengi.

Upphaf

Jón Pálmi Þorsteinsson fæddist 19. október árið 1915 í Gröf í Kirkjuhvammshreppi í V-Húnavatnssýslu. Foreldrar Jóns voru hjónin í Gröf, Þorsteinn Sigurður Jónsson (f. 4. 1.1874 í Mölshúsum Bessastaðahreppi, d. 1.7.1930) og Sigríður Hallný Pálmadóttir (f. 27. 7.1874 í Hraundal Nauteyrarhreppi, d. 18.9.1953). Jón var yngstur systkinanna. Elstur var Hrólfur Jóhannes sem fæddist árið 1907 og Hansína Kristín fæddist ári síðar. Valgerður fæddist árið 1910 og svo kom Jón í heiminn fimm árum síðar. Uppeldisbróðir þeirra var Þorsteinn Ásgeir Hraundal. Nú er allur þessi hópur farinn inn í eilífðina og Jón var síðastur þeirra.

Jón naut frumfræðslu á heimaslóð og ólst upp við sveitastörf og lærði að bjarga sér og hvert gildi vinnu væri. Árið 1930 – þegar Jón var aðeins 14 ára gamall – lést faðir hans. Alþingisárið varð því ekki fagnaðar- heldur sorgar-ár í fjölskyldunni og breytti algerlega stöðu og afkomu hennar. Það var Jóni ekki aðeins tilfinningalegt álag að missa föður heldur breytti menntunarmöguleikum hans til hins verra. En presturinn í Hindisvík á Vatnsnesi kom til hjálpar. Hann hafði grun um hvað byggi í fermingardrengnum og tók hann til sín til að kenna honum og styðja til bókar og þroska. Á þeim árum tóku prestar gjarnan nemendur á heimili sitt og urðu því margir menntunarhvatar og mikilvægir skólamenn. Og að mér hefur læðst að við nemendur Jóns Þorsteinssonar höfum notið einhverra kennsluhátta eða áherslna sem hann lærði af klerki. Í Hindisvík lærði Jón ekki aðeins að opna augu, eyru og hjarta gagvart tungumálum og fjölbreytni heimsins og merkilegum bókum heldur líka að mikilvægt væri að vernda líf og náttúru. Það er ekki aðeins mannfólkinu mikilvægt að traust sé virt og ræktað heldur náttúrunni einnig. Klerkurinn vildi jafnvel friða seli og hvali og virða lífríkið. Hann var því á undan samtíð sinni en blés nemanda sínum hugmyndum í brjóst.

Frá Hindisvík fór Jón svo til náms í Héraðsskólanum á Reykjum í Hrútafirði. Þar var hann á árunum 1933-35. Þegar Jón hafði svo náð að öngla saman nægilegu fé fór hann suður og í Kennaraskólann og lauk þaðan kennaraprófi árið 1937. Þaðan í frá hafði hann atvinnu af að kenna grunnskólanemum. Hann var kennari á Barðaströnd veturinn 1937-8 og næsta skólaár við Hörðudalsskóla í Dalasýslu. Síðan lá leiðin norður í Skagafjörð og hann kenndi við Hofstaðaskóla veturinn 1939-40.

Jón missti föður sinn árið 1930 og Hrólfur, elsti bróðir hans, var það mörgum árum eldri að hann eignaðist í honum fyrirmynd, stoð og styrk. Það var því annað áfall þegar þessi glaðsinna og öflugi bróðir fórst vegna árásar þýsks kafbáts á togarann Pétursey í mars árið 1941. Jón lærði því snemma að ekkert er sjálfgefið og altryggt í þessari veröld.

Árið 1944 fékk Jón stöðu sem kennari við Barnaskóla Siglufjarðar og þar var hann á árunum 1944-51. Svo kenndi hann í eitt ár í einhverjum besta skóla þjóðarinnar á þeim árum, Laugarnesskóla í Reykjavík 1951-2 og svo í Langholtsskóla í Reykjavík næsta skólaár.

Frá árinu 1953 til loka starfsferils í þágu hins opinbera var Jón Pálmi Þorsteinsson kennari í Melaskóla. Kennaralaunin hafa aldrei verið há og til að treysta fjárhag fjölskyldu sinnar stundaði Jón löngum smíðar meðfram kennslu. Hann tók sér hlé á kennslustörfum á stríðsárunum og smíðaði í Reykjavík á árunum 1940-44.

Lovísa Bergþórsdóttir

Svo sáust þau Lovísa Bergþórsdóttir og Jón. Það var ekki á rúntinum í Reykjavík eða á síldarplani norður á Siglufirði heldur á Oxfordstreet í London! Margir hafa farið þangað í verslunarerindum en fá hafa verið eins lánsöm og þau Lovísa og Jón að finna hvort annað á þeirri merku götu í heimsborginni. Oxfordstreet – og það var gaman að sjá ljómann í augum Lovísu þegar hún sagði okkur söguna og að þau Jón voru á sama hóteli – eins og ástmögurinn á himnum hefði laðað þau saman með snilldaráætlun. Og Lovísa mundi hvernig Jón hafði verið klæddur og endurþekkti hann jafnvel á fötunum. Svo kynntust þau, fundu festuna í hvoru öðru, ástin kviknaði og þau luku árinu 1950 með því að ganga í hjónaband 30. desember. Síðan hafa þau verið hvors annars og átt stuðning hins. Í 65 ár – þvílík blessun og gæfa, þeim báðum, börnum þeirra og afkomendum. Mikið þakkarefni og ekki sjálfsagt. Og Oxfordstreet verður héðan í frá ástarstræti í mínum huga.

Þau Jón og Lovísa nutu láns í fjölskyldulífi sínu og eignuðust tvö börn og sjö barnabörn. Pálmi er eldri og fæddist í október árið 1952. Hann er læknir. Kona hans er Þórunn Bára Björnsdóttir, myndlistarmaður. Þeirra börn eru Lilja Björnsdóttir, Jón Viðar, Vala Kolbrún og Björn Pálmi.

Lilja er læknir og hennar maður er Einar Kristjánsson hagfræðingur. Þau eiga börnin Kristján, Lilju Þórunni, Sóleyju Kristínu og Birtu Lovísu.

Jón Viðar er hagfræðingur og sambýliskona hans er Lára Kristín Pálsdóttir, stjórnarráðsfulltrúi. Börn þeirra, hennar úr fyrra sambandi, eru Björk, Freyja og Lilja Sól.

Eins og mörg önnur í fjölskyldunni er Vala Kolbrún læknir. Hennar sambýlismaður er Jón Karl Sigurðsson, stærðfræðingur.

Björn Pálmi Pálmason er tónlistarmaður og kona hans einnig. Hún heitir Veroníque Vaka Jacques.

Jóna Karen er yngra barn þeirra Jóns og Lovísu. Hún er vorbarn, fæddist í maí 1955. Hún er hjúkrunarfræðingur. Hennar maður er Ólafur Kjartansson, læknir. Þau eiga þrjú börn: Lovísu Björku, Kjartan og Davíð.

Lovísa Björk er, læknir og hennar sambýlismaðurer Laith Al Rabadi, læknir. Hún kemst ekki til þessarar athafnar vegna starfa sinna í Boston en biður fyrir kveðjur til ykkar.

Kjartan er rafeinda- og verkfræðingur. Davíð lærir til læknis og kona hans er Ramona Lieder, náttúrufræðingur. Þau eiga dótturina Önnu Lovísu.

Jón skapaði traust í fjölskyldu sinni og uppskar traust í fjölskyldutengslum. Honum var í mun að öllum liði vel – nytu frumtrausts í lífinu.

Minningar

Hvaða minningar áttu um Jón Þorsteinsson? Ég á mínar því Jón var kennari minn í grunnskóla. Ég man hve annt honum var um velferð okkar, nemendanna. Hann hélt skapandi aga í bekk sínum, hafði lag á að móta skikkan sem þjónaði námi og framförum. Hann tamdi okkur aga í öllu greinum, m.a.s. hve marga og hvernig blýanta við áttum að hafa í pennaveski okkar í skólanum – þrjá, langa og vel yddaða.

Melaskóli var og er merkileg menntastofnun og þar voru margir afburðakennarar. Jón var einn af þeim bestu og kunnur að skila öflugum námsmönnum til Hagaskóla. Við bárum virðingu fyrir umsjónarkennara okkar, og sú afstaða – eins og traustið – varð til í samskiptum. Jón bjó okkur skýran ramma, gerði skiljanlegar kröfur, studdi okkur þegar við vorum óviss og gerði okkur grein fyrir hvar mörkin lágu. Því leið öllum vel í bekk hans og hann gætti þeirra sem áttu undir högg að sækja heima. Þau börn sem bjuggu við einhverja óreglu eða óreiðu farnaðist vel í bekkjum Jóns og fundu í honum styrka föðurímynd. Svo þótti okkur ekki verra að Jón var örugglega lang-sterkasti kennarinn í skólanum. Ég vil fyrir hönd okkar nemanda Jóns Þorsteinssonar bera fram þakkir fyrir öll kennslu- og menntastörf hans og metnað fyrir okkar hönd – og einnig færa fram þakkir fyrir hönd Melaskóla og Vesturbæinga sem nutu starfa hans og kennslu í áratugi.

Eigindir

Hvernig var Jón Pálmi Þorsteinsson?

Manstu hve orðvar hann var? Að hann stóð alltaf í skilum með alla hluti. Manstu að hann var stólpi til að styðja sig við? Manstu hve vænn hann var í samskiptum við konu sína. Manstu eftir honum hjólandi heim í hádeginu til að eiga stund með sínu fólki? Manstu eftir honjum í stólnum sínum, ekki með ipad í hönd heldur bók? Kannski var það bók á ítölsku eða frönsku, sem hann hafði lært í sjálfsnámi eða bók um hugleiðslu. Manstu eftir áhuga hans á andlegum fræðum, heilbrigðum lífsháttum og hollri fæðu – eða eftir sundmanninum Jóni? Manstu eftir hve annt honum var um fagra tónlist? Tefldir þú við hann einhvern tíma? Manstu frímerkjamanninn og myntsafnarann? Kunnátta hans í þeim fræðum varð fjölskyldu hans til búdrýginda. Manstu hve heimakær hann var? Jón fór og hitti fólk og tók þátt í félagslífi samfélagsins en sagði gjarnan þegar hann kom í ganginn heima að alltaf væri best að vera kominn heim.

Við skilin

Jón Pálmi Þorsteinsson átti gott og gjöfult líf, naut ástríkis í hjúskap, bjartsýnnar og ljóssækinnar eiginkonu, hamingju fjölskyldu og farsældar í störfum. Hann naut lífsins og við sem kynntumst honum nutum hans fjölmörgu kosta. Svo var hann tilbúinn að fara. Eitt sinn varð hann alvarlega veikur og þá kom í ljós að hann óttaðist ekki skilin eða brottför sína. En nú er hann farinn en skilur eftir dýrmætar minningar. Þær minningar varða alúð í samskiptum, leik við heimilisdýr, skilning á þörfum barna sinna og annarra. Dóttir hans sagði eftirminnlega frá að hann var janvel tilbúinn að ná í peninga úr heimilissjóðnum til að kaupa hvíta kápu á hana unglinginn.

Nú er þessi trausti og væni maður farinn inn í þann himinn sem kenndur er við traust – og dýpsta traust varðar trú og reynslu af hinum farsæla. Nú er hann kominn heim og þar er best. Maður nær heillar aldar er alfarinn inn í eilífðina. Ég treysti að fyrir honum sé vel séð, hann megi njóta friðar í því ríki þar sem lífið er ekki bara fagurt heldur friðað af þeim Guði sem er traustsins verður og boðar traust.

Guð geymi hann og varðveiti um eilífð. Guð geymi þig og gefi þér traust og trú.

Amen

Útför Jóns Pálma í Fossvogskapellu fimmtudaginn, 2. júlí, 2015. Bálför og jarðsett í duftgarðinum Sóllandi.