Liverpool, Klopp og lífsviskan

Í gær var ég að vinna í prédikun dagsins. Tíu ára gamall sonur minn beygði sig yfir tölvuna þegar hann sá að ég var að skrifa um fótbolta, las lengi, horfði svo á mig og sagði: “Þetta er góð ræða hjá þér pabbi minn!“  Hann hefur gaman af knattspyrnu, iðkar hana og veit mikið um fótboltafræðin. Og í dag ætla ég að ræða um áhugamál hans og þeirra bræðra.

Knattspyrna hefur ekki verið meginefni íhugana í kirkjum landsins og kemur ekki við sögu í messum hvern sunnudag. En boltaíþróttir eru mikilvægar í lífi nútímafólks, tengja saman þjóðir og hópa og eru fremur til friðar en ófriðar. Þær vekja áhuga á fólki frá öðrum svæðum, borgum og menningu. Knattspyrnusamtök vinna að ýmsum góðum málum t.d. er respect-virðingarátak FIFA til að innblása fólki mannvirðingu, að láta engan gjalda fyrir útlit, bakgrunn, lit eða eigindir. Ég tala um fótbolta í dag – ekki til að mæra eða hælast af íslensku landsliðum kvenna og karla sem bæði eru frábær – heldur til að íhuga lífið og hvað er til eflingar. Í dag er það fótbolti og guðsríkið en skoðunarefnið gæti allt eins verið blak, körfubolti og handbolti – raunar allar íþróttir – því kristinn boðskapur fjallar um allt fólk og veröldina.

Season of salvation

FourFourTwoÍ ágústbyrjun kom inn á mitt heimili tímaritið FourFourTwo sem er knattspyrnutímarit. Forsíðan var óvenjuleg og minnti á steindan glugga, helgimynd í kirkju. En í stað postula og engla eru á myndinni fótboltakarlar sem eru frægir fyrir fleira en siðprýði og hetjulund. Á myndinni eru líka Arsene Wenger þjálfari Arsenal í London, þáverandi Liverpool-stjóri, Brendan Rogers, Wayne Rooney úr Manchester United og Vincent Kompany úr City. José Mourinho, einn skrautlegasti knattspyrnustjóri heims, er á miðju myndarinnar eins og Jesús en þó í lakkskóm, með bindi og í jakkafötum. Margar helgimyndir hafa púka einhvers staðar til að minna á að lífið er ekki bara leikur á himneskum blómavelli. Það er m.a.s. púki á Hallgrímsmyndinni yfir aðaldyrum þessarar kirkju. Sepp Blatter, FIFA-forsetinn, er á tímaritsmyndinni í hlutverki hins illa enda aðalleikari í langdreginni spillingarsögu FIFA. Welcome to the Season of Salvation. Velkomin til tíma lausnarinnar, tíma frelsisins. Eða hvað?

Trúlegu skot fótboltans

Þessi forsíða varð umtöluð í knattspyrnuheiminum og þótti ýmsum sú besta í langan tíma. Fótboltinn skýst ekki aðeins inn í peningaveröldina og tískuheiminn heldur yfirtekur boltamenningin líka ýmis ritúalhlutverk trúarbragðanna. Trúarlífsfélagsfræðingarnir hafa löngum bent á að í atferli leikmanna og áhorfenda séu trúarvíddir og boltamenningin þjóni ýmsum þörfum fólks, t.d. að tilheyra hópi, samhengi og þiggja skilgreiningu um hlutverk sín. Og boltinn gegnir uppeldishlutverki einnig því hetjurnar verða mörgum fyrirmyndir um hegðun og afstöðu. Boltasiðferðið verður viðbót eða jafnvel viðmið grunnuppeldis.

Útaf

Það er ekkert öruggt í boltanum. Síða fótboltablaðsins í ágúst er orðin úrelt. Brendan Rogers – sem þjálfaði Gylfa Þór Sigurðsson hjá Swansea og vildi fá hann með sér til Liverpool þgar hann fór þangað -var sagt upp. Honum var hent út, settur út af “sakramentinu” – sýnt rauða spjaldið. Hann þótti ekki nógu góður því Liverpool hefur tapað og tapað og er mun neðar á stigatöflunni en púlarar (stuðningsmenn Liverpool) sætta sig við. „You never walk alone“ er slagorð Liverpool en nú gengur Rogers aleinn og yfirgefinn. Mourinho í Chelsea er hugsanlega á útleið og hinir jafnvel líka.

Celebrity-menningin

Helgimynd fótboltans í ágústblaðinu varð mér til íhugunar. Það er ekki rétt að fótboltahetjurnar hafi geislabaug sem verðlaunaskjöld eldskírnar, sigurlaun í úrslitaleik lífsins. Hetjunum á takkaskónum er hampað um stund meðan þeir hafa töfra í tánum og þjóna hlutverki í liðinu sínu en svo er þeim kastað út. Ef þeir eru “góðir” í boltanum eru sjaldnast gerðar til þeirra miklar vistmunalegar, menntunar-, félagslegar eða siðferðilegar kröfur enda hefur komið í ljós að margar stjörnurnar í boltanum hafa brennt illa af í vítaskotum einkalífsins.

Íþróttahetjurnar hafa orðið hluti celebrity-meningarinnar. Fótboltastjörnurnar eru í hópi fræga fólksins. Menningararvefur vestrænna samfélaga hefur breyst. Áhersla á dyggðir hefur dvínað og siðferðisgildunum hefur verið skotið út af. Þetta á við um meginskyldur, aðalreglur lífs, mennsku og trúar, að við berum ábyrgð á hverju öðru, velferð annarra, menningargildum og samfélagi. Þessi siðgildi skiljast illa eða ekki. Hetjur í trúarlegum, samfélagslegum, pólitískum og menningarlegum skilningi eru týndar en fræga fólkið er komið í staðinn. Celebrity-menningin er umbreyta viðmiðum og er sett í staðinn fyrir siðmenningu eða flæðir inn í götin sem myndast í gildaflæði. Fræga fólkið getur orðið fyrirmyndir í ýmsu en sjaldnast sem þroskaðar fyrirmyndir um hvað við eigum að gera í siðferðisklemmu, gagnvart flóttamönnum í neyð, í nánum samskiptum fjölskyldu og áföllum eða gagnvart dauða.

Árni Guðjón var skírður áðan. Hvað haldið þið að foreldrar hans og fjölskylda vilji helst gefa honum sem nesti til ævinnar? Það sem reynist honum best. Hann mun alast upp í samhengi og menningu sem haldið er fram í samfélagi og vefmiðlum og foreldrarnir vilja að hann mannist vel og hafi gott innræti, menningu og menntun til lífs.

Hvernig afstaða og iðkun

Textar dagsins fjalla um tengsl fólks. Við erum minnt á hetjuna Rut í bók sem ber nafn hennar. Hún var flóttamaður sem þorði að velja hið erfiða en siðferðilega fagra. Í dauðanum valdi hún lífið. Hún var hetja og því dýrlingur. Í pistlinum er fjallað um að gera hið rétta, iðka hið góða sem alltaf er í krafti Guðs og vera þar með skínandi ljós og fyrirmynd meðal fólks. Í guðspjallinu er svo sjónum beint að mismunandi viðbrögðum fólks. Þar eru tveir en ólíkir synir. Annar segir já þegar pabbi hans bað hann en gerði þó ekkert. Hann sem sé sveik. Hinn sagi nei við pabbabeiðninni en framkvæmdi þó það sem beðið var um. Líf fólks er líf gagnvart öðrum, atferli okkar hefur áhrif á aðra og varðar gildi, sannleika, traust eða vantraust. Við erum alltaf í tengslum og iðkum annað hvort hið góða eða vonda. Og yfir okkur er vakað. Allt sem við gerum eru tengsl við grunn lífins, það sem við trúmenn köllum Guð. Jesús sagði að það sem við gerðum hinum minnstu systkinum gerðum við honum.

Klopp og Guð

Áfram með fótboltann. Brendan Rogers var rekinn frá Liverpool og er aleinn og yfirgefinn. Og af því celeb-menningin gleypir siðinn er söngur Liverpool úreltur: You never walk alone. Svo var Jürgen Klopp ráðinn í hans stað. Hann er kraftaverkamaður sem gerði Borussia Dortmund að stórkostlegu liði í Þýskalandi og heimsboltanum. Af hverju skilar hann liðum lengra en aðrir? Það er vegna þess að Klopp byggir á gildum en ekki yfirborðshasar, virðir mennsku spilaranna en ekki bara töfra í tánum, leggur upp úr að allir vitji þess sem innra býr og spili með hjartanu.

En af hverju þessar íþróttafréttir í messu? Hvað kemur Klopp kirkju við? Það er vegna þess að Guð er aðili að fótbolta Klopp. Hann var spurður um hvort fótboltaguðinn hefði snúið baki við honum. Klopp skrifaði og talaði um að hann tryði ekki á fótboltaguð heldur alvöru Guð. Við menn værum í frábærlega góðum höndum Guðs sem væri stórkostlegur. Sá Guð elskaði okkur, með kostum okkar en líka göllum og hefði gert okkur ábyrg gagnvart okkur sjálfum og öðrum. Guð héldi ekki á okkur sem strengjabrúðum. Við værum sjálf ábyrg fyrir því sem við værum og gerðum. Við menn yrðu að skora okkar eigin mörk í lífinu.

Knattspyrnan hjá Klopp er ekki kristilegri heldur en í hinum liðunum – heldur er afstaða hans til mannlífs og annara hið áhugaverða og skilar að mínu viti jákvæðri mannsýn, hvatningu og ástríðu. Sem drengur í Svartaskógi var hann alinn upp við eflandi tengsl við Guð. Mamman kenndi honum bænir og amman fór með hann í kirkju sem hann sækir. Hann tekur tíma á hverjum degi til að vitja sjálfs sín og biðja sínar bænir. Síðan hefur hann lifað í stóra neti guðstrúarinnar og ræktaðri mannvirðingu. Sem þjálfari nálgast hann leikmenn sem mannverur en ekki aðeins vöðvavélar, að allir leiti hamingju og merkingar í áföllum og gleði lífsins. Nú festa hundruðir þúsunda aðdáenda Liverpool trú sína við Klopp en Klopp festir trú sína við meira en sjálfan sig.

Árni Guðjón, ferðamennirnir og þú í þínum verkum, gleði og sorgum, fótboltabullurnar og öll hin sem hafa engan áhuga á tuðrum, – öll reynum við að lifa hamingjuríku lífi. Hvað dugar best; celeb eða siður, lúkkið eða viskan? Ætlar þú að segja já eða nei í lífinu? Hvað ætlar þú gera? Já er best í lífinu og siðvit í samræmi við það já.

Amen.

Prédikun í Hallgrímskirkju 20. sunnudag eftir þrenningarhátíð, 18. október, 2015.

Lexía: Rut 2.8-12

Þá sagði Bóas við Rut: „Taktu nú eftir, dóttir mín. Tíndu ekki kornöx á neinum öðrum akri og farðu ekki héðan heldur haltu þig að stúlkunum mínum. Hafðu augun á akrinum þar sem piltarnir eru að skera korn og gakktu á eftir þeim. Ég hef bannað vinnufólkinu að amast við þér. Ef þig þyrstir farðu þá að vatnskerunum og drekktu af þeim sem piltarnir hafa fyllt.“

Þá féll hún fram á ásjónu sína, laut til jarðar og sagði við hann:

„Hvers vegna sýnir þú mér þá góðvild að virða mig, útlendinginn, viðlits?“

Bóas svaraði: „Mér hefur verið sagt allt um það hvernig þér fórst við tengdamóður þína eftir dauða manns þíns, að þú yfirgafst föður þinn og móður og ættland þitt og fórst til þjóðar sem þú hafðir aldrei áður kynnst. Drottinn, Guð Ísraels, launi þér verk þitt til fullnustu fyrst að þú ert komin til að leita verndar undir vængjum hans.“

Pistill: Fil 2.12-18

Þess vegna, mín elskuðu, sem ætíð hafið verið hlýðin, vinnið nú að sáluhjálp ykkar með ugg og ótta eins og þegar ég var hjá ykkur, því fremur nú þegar ég er fjarri. Því að það er Guð sem verkar í ykkur bæði að vilja og að framkvæma sér til velþóknunar. Gerið allt án þess að mögla og hika til þess að þið verðið óaðfinnanleg og hrein, flekklaus Guðs börn meðal rangsnúinnar og gerspilltrar kynslóðar sem þið skínið hjá eins og ljós í heiminum. Haldið fast við orð lífsins mér til hróss á degi Krists. Þá hef ég ekki hlaupið til einskis né erfiðað til ónýtis. Enda þótt blóði mínu verði úthellt við fórnarþjónustu mína þegar ég ber trú ykkar fram fyrir Guð, þá gleðst ég og samgleðst ykkur öllum. Af hinu sama skuluð þið einnig gleðjast og samgleðjast mér.

Guðspjall: Matt 21.28-32

Jesús sagði: „Hvað virðist ykkur? Maður nokkur átti tvo syni. Hann gekk til hins fyrra og sagði: Sonur minn, far þú og vinn í dag í víngarði mínum. Hann svaraði: Það vil ég ekki. En eftir á sá hann sig um hönd og fór. Þá gekk hann til hins síðara og mælti á sömu leið. Hann svaraði: Já, herra, en fór hvergi. Hvor þeirra gerði vilja föðurins?“ Þeir svara: „Sá fyrri.“ Þá mælti Jesús: „Sannlega segi ég ykkur: Tollheimtumenn og skækjur verða á undan ykkur inn í Guðs ríki. Því að Jóhannes kom til ykkar og vísaði ykkur á réttan veg og þið trúðuð honum ekki en tollheimtumenn og skækjur trúðu honum. Það sáuð þið en tókuð samt ekki sinnaskiptum og trúðuð honum.“

Þessir flóttamenn

ÁvextirGult lauf liggur á götunum. Rauð reyniberin mynda fagurt litaívaf í haustlitasinfóníuna. Tré og runnar hafa náð fullum þroska og fuglar himins uppskera. Menn hafa bjargað forða til hausts og vetrar.

Þótt fæst okkar séum með beinum hætti háð gróðri jarðar lifum við samt í hrynjandi náttúru og megum gleðjast yfir jurtum sem þroskast, í samræmi við köllun sína og skila ávexti sínum til lífkeðju veraldar og fræjum til framtíðar. Rauð ber, fullþroska grænmeti og líka hálfslompaðir, syngjandi þrestir eru fulltrúar lífsins í verðandi veraldar.

Í Biblíunni eru ávaxtaríkar sögur sem ríma við tímann. Það eru ekki úreltar sögur – eins og grunnhyggnir skríbentar halda fram – heldur sögur sem eru svo kraftmiklar og lífseflandi að þær móta og eru erkisögur. Sögur um að við menn megum bera ávöxt í samræmni við eðli okkar og viðmið. Ein þeirra er Rutarsaga í Gamla testamentinu. Texti úr þeirri bók er lexía næsta sunnudags sem er 20. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Í Rutarbók er heillandi frásögn um fólk, um lífið, gildi lífsins, ábyrgð, val, ást, flóttafólk og hvernig hægt er að bregðast við útlendingum. Eru þessi stef nokkuð úrelt, er eitthvað sem minnir þig á vanda og val okkar í nútíma?

Sagan hefst meira en þúsund árum fyrir Kristsburð. Fólk var á ferð, eiginlega á flótta frá Jerúsalem til landsvæðis austan Jórdandals. Þar settist að ísraelsk fjölskylda, kjarnafjölskylda, foreldrar og tveir drengir. Strákarnir uxu upp. Fjölskyldan kom sér vel og aðlagaðist umhverfinu það vel að ungu mennirnir gengu að eiga nágrannameyjar. Heimastúlkurnar gengu hjónaband með útlensku strákunum. En svo urðu hörmungar. Pabbinn og báðir synirnir dóu, konan varð ekkja sem og ungu tengdadæturnar. Í karlstýrðu samfélagi voru þeim flest sund lokuð. Ekkjan ákvað að fara heim og ungu konurnar – sem voru barnlausar – urðu að velja lífsstefnu. Önnur varð eftir og hin fór með gömlu konunni. Hún axlaði ábyrgð umfram alla skyldu.

Sú unga gekk í verk til að bjarga sér og tengdamóður sinni, hreif fólk í nágrenni Jerúsalem og svo varð merkileg ástarsaga, með pólitískum snúningum, siðferðilegum, trúarlegum og menningarlegum pælingum. En Rut var ábyrg í einu öllu, lifði með reisn í ómögulegum aðstæðum og var reynd í flestu. Hún var sem skírð í eldi lífsreynslunnar. Hún var trú yfir litlu sem stóru. Saga hennar er saga hetjunnar. Það var þessi kona sem síðan varð ættmóðir lausnar Ísraels og heimsins – formóðir Davíðs og Jesú Krists. Flóttakona varð formóðir lífsins. Það er djúpgaldur hins guðlega vefs.

Rutarbók er saga um ást, um líf og reisn þrátt fyrir vanda og mótlæti. Saga um að þegar fólk axlar ábyrgð og flýr ekki geta kraftaverk orðið. Ástarjátning Rutar er ekki aðeins dýr lífstjáning heldur hefur verið endursögð um aldir, túlkað tilfinnningar fólk, orðið hvati til þroska og síðan verið tjáð í hjónavígslum fólks af alls konar kynhneigð. Samskipti Bóasar og Rutar eru sem hefðarminni sem ratar til okkar í ýmsum útgáfum s.s. í samskiptum Jesú Krists og konunnar við brunninn. Jesús gaf sig á tal við útlenska konu. Biblíusögur eru lífseigar og til að menn beri ávexti og fræ til framtíðar. Rutarsaga er ástarsaga um landflótta konur en endar sem saga um barn sem fæðist. Og það barn var upphaf sögu um lífið, vonar og hins góða.

Og þá lexíutexti sunnudagsins. Rutarbók, annar kafli. Bóas við Rut:

„Taktu nú eftir, dóttir mín. Tíndu ekki kornöx á neinum öðrum akri og farðu ekki héðan heldur haltu þig að stúlkunum mínum. Hafðu augun á akrinum þar sem piltarnir eru að skera korn og gakktu á eftir þeim. Ég hef bannað vinnufólkinu að amast við þér. Ef þig þyrstir farðu þá að vatnskerunum og drekktu af þeim sem piltarnir hafa fyllt.“ Þá féll hún fram á ásjónu sína, laut til jarðar og sagði við hann: „Hvers vegna sýnir þú mér þá góðvild að virða mig, útlendinginn, viðlits?“

Útlendingar á nýjum slóðum. Landflótta fólk í veröldinni. Rutarbók segir okkur að aðkomufólk er ekki réttlaust, vont fólk heldur jafn lifandi og við hin. Það þráir öryggi, ást, frið, skilning þrátt fyrir að það sé útlendingar og öðru vísi. Og yfir vakir Guð elskunnar, sem elskar innlenda og útlenda, elskar alla jafnt og vill að við iðkum Guðsástina í samskiptum og tengslum við aðra.

Biðjum:

Fyrir hvert skref sem ég tek í lífi mínu – ver mín leiðarstjarna – þú lífsins Guð

Fyrir allar byrðar lífsins – ver mér styrkur – lífsins Guð

Fyrir allar fjallaferðir ævinnar – gef mér kraft – lífsins Guð

Fyrir allar árnar sem ég þarf að vaða – ver mér styrk hönd, lífsins Guð

Fyrir alla áningarstaði mína ver mér friður – lífsins Guð
Fyrir aftureldingu og sólarlag allra daga ver mér gleðigjafi – þú lífsins Guð

(ensk pílagrímabæn)

Biðjum bæn Drottins: Faðir vor….

Drottinn blessi oss og varðveiti oss, Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir oss og sé oss náðugur. Drottinn upplyfti sínu augliti yfir oss og gefi oss frið.

Um Rutarbók sjá ágæta og áhrifaríka prédikun sr. Sigurvins Lárusar Jónssonar.

Íhugun – kyrrðarstund í Hallgrímskirkju 15. október, 2015.

Porvoo-kirknasamfélagið dafnar

YorkTvær lútherskar kirkjur undirrituðu Porvoo-sáttmálann þann 19. september og urðu þar með fullgildir aðilar Porvoo-kirknasamfélagsins. Martin Lind undirritaði fyrir hönd Evangelísk-lúthersku kirkjunnar á Bretlandseyjum, LCiGB, og Elmars Ernst Rozitis fyrir hönd Lettnesk-evangelísk-lúthersku kirkjunnar erlendis, LELCA, en Lettar hafa stofnað kirkjusöfnuði víða, m.a. í Þýskalandi, á Bretlandseyjum og í Norður-Ameríku. Undirritunarthöfnin fór fram í lok leiðtogafundar Porvoo-kirknasambandsins sem haldinn var í York 17.-19. september.

Porvoo-kirknasamfélagið hefur verið samband anglíkanskra kirkna á Bretlandseyjum og meginlandi Evrópu og Íberíuskaganum og evangelísk lútherskra kirkna á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum. Átján ár eru liðin frá undirritun Porvoo-yfirlýsingarinnar. Nú hefur lútherska kirkjan á Bretlandseyjum orðið fullgildur aðili samfélagsins sem og Lettneska ev.-lúth. kirkjan erlendis. Þessar tvær kirkjur hafa til þessa tekið þátt í Porvoo-starfinu sem áheyrendur.

Porvoo-kirknasamfélagið þjónar tengslum og gagnvirku samfélagi kirknanna. Samfélagið er ekki stofnun heldur tengslasamband, hefur enga skrifstofu né fasta starfsmenn en allar kirkjur hafa tilnefnt tengla í tengslahóp, PCG, sem hittist árlega. Á tveggja ára fresti hittast höfuðbiskupar kirknanna til að ræða saman og miðla upplýsingum. Kirkjurnar hvetja til samskipta safnaða, prófastsdæma og biskupsdæma. Prestar hafa fengið möguleika til starfa í Porvookirkjum sem hefur orðið til gagns, kynningar og þar með skilnings. Þá efnir sambandið reglulega til guðfræðifunda og býður til samkirkjulegra funda. Daglega er beðið fyrir einhverjum kirkjum samfélagsins. Fyrir Íslandi og íslensku kirkjunni verður beðið 15. júní í ár. Bænaefni og uppýsingar er hægt að nálgast á heimasíðu samfélagsins http://www.porvoocommunion.org

Á fundinum í York var rætt um átján ára unglinginn, Porvoo-kirknasamfélagið. Glaðst var yfir samskiptaháttum og að hið gagnvirka net hafi skilað í tengslum og auknum skilningi. Síðustu átján ár hafa einkennst af miklum breytingum í Evrópu, menningarlegum, félagslegum og trúarlegum. Að anglíkankar og lútherskar kirkjur hafa átt greiðar samskiptaleiðir hefur skilað skilningi, samstöðu og umhyggju. Engar samþykktir voru gerðar á York-fundinum en þeim mun meira talað og rætt um erindi kirkjunnar í samtíðinni, ungt fólk í kirkjunni og framtíð kirkjunnar. Porvoo-kirkjurnar eru á leiðinni, þær eru að breytast og spyrja um tilgang sinn, hlutverk og þjónstu gagnvart Guði og mönnum. Kirkjurnar eru á ferð.

Þessi skýrsla mín átti að birtast á vef þjóðkirkjunnar í septemberlok 2014. Ég var að leita á netinu og tók þá eftir að hún var í felum og hafði aldrei birst. Til að hún sé aðgengileg er hún birt nú – seint og um síðir.

Slóð á myndasafn þessa fundar er: https://www.flickr.com/photos/56754544@N00/albums/72157647642131119

Hvað á ég að gera?

Himinsýn - mynd Þorsteins Jósepssonar
Himinsýn – mynd Þorsteins Jósepssonar

Prestur og leigubílstjóri dóu og stóðu í röðinni við Gullna hliðið. Klerkur sá að engillinn, sem tók á móti leigubílstjóranum afhenti honum gullstaf, fallega skikkju og veislumat. Leigubílstjórinn varð hissa og hélt fagnandi inn í himininn. Hann hafði fremur átt von á vandræðum við hliðið en ekki að hann yrði verðlaunaður. Presturinn gekk fram en fékk ekki sömu höfðingjamóttökur. Honum voru fenginn tréstafur, einfaldur kyrtill og brauð og vatn. Presturinn fyrtist við og spurði pirraður: „Heyrðu mig nú engill. Hvernig stendur á þessu og hvers á ég að gjalda? Ég hef alla ævi stritað í kirkjunni – en hann, þarna á undan mér, hefur ekkert gert annað en aka bíl og er frægur fyrir ofsaakstur.“ Engillinn svaraði honum. „Við spyrjum nú um árangurinn í lífi fólks. Þú hefur verið í kirkjunni, það er rétt. En ef þú hugsar til baka verður þú að viðurkenna að fólkið dottaði oftast þegar þú fluttir stólræðurnar. Það var ekki mikið sem sat eftir en þegar þessi maður sat við stýrið og keyrði sinn leigubíl, upphófst trúaratferli hjá hverjum einasta farþega. Í ökuferðunum báðu farþegarnir bænir – já og án afláts!“

Svarið er athylgisvert og klerkur hugsar sitt. Hefur engillinn í sögunni rétt fyrir sér? Er dómurinn á himnum árangurstengdur? Er spurt um hvað við höfum gert – afrekað í lífinu – þegar komið er að uppgjöri lífsins?

Guðspjallið

Maður kom hlaupandi til Jesú. Hann var ekki úr hópnum sem fylgdi Jesú jafnan en var tilbúinn til að læra af honum. Nú kom hann til meistarans til að fá ráð. Beiðnin var einlæg: Hvað á ég að gera til að komast inn í himininn – til að öðlast eilíft líf? Hvað á ég að gera?

Jesús þekkti spurningarnar og fór í rólegheitum yfir námsefnið, rétt eins og hann væri með fermingarbörn í tíma. „Hver er góður? Jú Guð. Þú kannt boðorðin, þetta með bannið við manndrápum, framhjáhaldi, að stela ekki, að svindla ekki á öðrum og virða foreldra þína.“ Og maðurinn skilkdi og kunni allt og sagði eins og satt var. „Ég hef gætt alls þessa.“ Jesús horfði á manninn með elskusemi og samúð og vissi að hann passaði sig í öllu sem hann gerði. Og svo bætti Jesús Kristur við og þar kom Salómonsdómurinn: „Eins er þér vant – bara eitt sem vantar upp á: Farðu og losaðu þig við eigur þínar, húseignirnar, peningana, hlutina, allt og gefðu andvirðið fátækum – komdu svo. Þá muntu eignast meira en allar jarðnesku eigurnar.“ Hljóp maðurinn burt til að gera það sem Jesús bauð honum? Nei, hann sneri örvæntingarfullur frá. Skýringin í guðspjallinu er að hann hafi átt miklar eignir.

Hvernig get ég komist inn?

Hvað á ég að gera? Hvernig get ég komist inn? Við skiljum alveg engilinn í Gullnahliðssögunni. Við árangurstengjum.

Ef stjórn og forstjóri í fyrirtæki skila ekki hagnaði eða klúðra málum er farið að velta vöngum yfir að skipta út og síðan er fólk rekið þegar illa gengur. Eins og hjá Volkswagen í síðustu viku. Þar voru óheilindi opinberuð sem koma til með að kosta fyrirtækið svo mikla fjármuni að það verður beiglað og fer jafnvel á hausinn. Stjórnendur stýrðu Volkswagen út af.

Við viljum alls ekki að lífeyrissjóðurinn sem við greiðum í sé rekinn með halla, heldur að ávöxtun þeirra sé góð og haldi til elliára. Við viljum – þegar við leggjum á okkur mikið erfiði í einhverju – að við getum notið árangurs. Og við getum alveg samþykkt að þegar sjóðir veita styrki til verkefna að þá sé þegar við upphaf gefin markmið sem unnið er að og síðan metið hvernig hafi tekist til. Allt nútímasamfélag okkar á Vesturlöndum snýst æ meira um hvernig peningalegar forsendur eru gefnar og afleiðingar og árangur mælist.

Allt sem hindrar

Hvað á ég að gera? Segðu mér það Jesús. Hvað á ég að gera til að komast inn í himininn? Ég skal fara að öllum fyrirmælunum. Og Jesús horfði á hinn unga, heiðarlega og ríka mann og benti á eina veika blett hans: „Losaðu þig við allt sem þú átt. Losaðu þig við eigurnar – allt.“

En af hverju sagði Jesús þetta? Var hann á móti eignasöfnun? Var hann á móti peningafólki? Var hann á móti því að fólk færi vel með? Nei, svo sannarlega ekki – nema að það yrði til að hindra fólk í Guðstrúnni, hindra fólk á leið hamingjunnar. Svo einfalt er það. Ef það er eitthvað, sem hindrar þig í að vera Guðs, lifa Guði, fylgja Jesú, er það eitthvað sem þú þarft að losa þig við.

Verkmennið

Hvað á ég að gera? spurði hann. Jesús svarar: Þú átt ekki að gera – heldur vera. Það er boðskapur dagsins.

Á þetta við um okkur og aðstæður okkar? Athafnakapp á liðinni öld varð til að fræðimenn fóru að tala um nútímamanninn sem homo faber – verkmenni. Erum við of önnum kafin? Er þjóðfélag okkar fremur vinnustaður en samfélag? Við hömumst í vinnu til að skapa okkur og fjölskyldum okkar góðar aðstæður. En svo komumst við að því á einhverjum dimmum haustdegi lífsins að hamingjan er gufuð upp, heilsan farin og lífið brenglað. Við hömumst í vinnu til að komast áfram og svo uppgötvum við að vinnan er leiðinleg og vinnugleðin þverr. Við gefum maka okkar hluti þar til við uppgötvum að hann eða hún vill bara ást, tíma og samfundi.

Vera eða gera

Við hömumst við að gera en gleymum oft að vera. Að vera er aðalmál lífsins. Hamingjan er ekki í hasarnum heldur að vera. Og að vera er að lifa í samræmi við það besta í sjálfum sér, bregðast við erli daganna með jákvæðni, opna vitundina gagnvart lærdómi í öllu því sem lífið færir okkur, hinu þægilega en líka hinu erfiða (per ardua ad astra er forn viska). Að vera er að sækja í visku og frið sem hinir fornu Hebrear kölluðu jafnvægi kraftanna.

Að vera er verkefni allra manna og á sér þar með trúarlega vídd. Jesús minnir á að köllun mannsins er að fylgja honum, trúa honum. Viljum við það? Viljum við vera – vera Guðs? Eða viljum við kannski fremur hafa veröldina eins og kjörbúð og veljum bara og stingum því í körfu okkar sem okkur hugnast best? Að vera í Jesúskilningi er það að velja Guð og taka afleiðingum þess.

Gera eða að vera. Þetta er viðfangsefni allra alda og þar með allra trúmanna. Þetta var það sem siðbót Lúthers snerist um. Lúther, eins og allir hinir siðbótarmennirnir, hafnaði algerlega þeirri slæmu kenningu að maðurinn þyrfti að gera þetta og gera hitt til að þóknast Guði og tryggja himnaförina. Það var Jesús Kristur sjálfur sem gerði allt sem þurfti. Það þurfti ekki að gera neitt í lífinu eða dauðanum – ekkert annað en að vera Guðs. Það er valið mikla. Það er val ástarinnar, það er lífsins val. Það er val Guðs. En skiptir þá engu hvað við gerum. Jú svo sannarlega. Öllu máli skiptir að hafa röðina rétta og hún er þessi: Hið fyrsta er að vera Guðs og hið annað er svo að gera vel. Að gera gott blíðkar ekki Guð heldur er það algerlega nauðsynlegur þáttur lifandi Guðstrúar. Guð árangurstengir ekki heldur elskutengir. En af því Guð elskutengir árangurstengir trúmaðurinn.

Hvort viltu vera eða gera?

Prédikun í Hallgrímskirkju 4. október, 2015, 18. sd. eftir þrenningarhátíð.

Óli Valur Hansson – minningarorð

Óli Valur Hansson
Óli Valur Hansson

Allt er vænt sem vel er grænt. Það er áhrifaríkt að horfa á opnu sálmskrárinnar og sjá liti og form gróðursins, sem myndar baksvið sálma og textanna sem sungnir eru við útför Óla Vals Hanssonar. Að lifa vel var verkefni hans og að efla lífið var vinna hans. Hann var þjónn lífsins og nú er hann farinn inn í gróðurreit himinsins og getur skemmt sér við það sem honum þótti gaman að gera – skoða lauf og handleika fræ. Hann getur skoðað himneska runna og plöntur. Hvert er hið latneska heiti lífstrésins? Latnínunafnasnillingurinn Óli Valur er nú í þeim fræðaranni.

skógarbotnÉg er vínviðurinn og þér eruð greinarnar, sagði Jesús Kristur. Óli Valur lærði snemma speki lífgjafarans frá Nasaret og skildi þann boðskap. Í lífinu gekk hann svo erinda þess fagnaðarerindis sem er grænt og vænt. Hann var trúr í öllu, smáu sem stóru. Þökk sé honum og lof.

Ætt og uppruni

Óli Valur Hansson fæddist í Reykjavík. Hann var sonur hjónanna Magdalenu Margrétar Eiríksdóttur, húsmóður (1884 – 1937), og Hans Wíum Bjarnasonar múrara og fjárbónda, (1888-1961). Hún var fædd á Álftanesi en hann var Skaftfellingur, frá Hruna á Brunasandi. Systkinahópur Magdalenu og Hans voru fjögur. Elst var Eydís. Hún fæddist árið 1917, náði háum aldri og lést árið 2008. Nils Einar, fæddist 1919 en lést ungur eða árið 1927. Óli Valur kom svo í heiminn í október árið 1922 og var því barn að aldri þegar bróðir hans lést. Guðrún Gyða fæddist árið 1925 og lést 2005. Margrét, móðir Óla Vals og þeirra systkina, féll frá árið 1937 svo áföllin í fjölskyldunni voru mikil. Hvaða afleiðingar höfðu missir bróður og móður á drenginn á Baldursgötunni? Þeirri spurningu verður ekki svarað en aðeins leitt að líkum að sálir voru markaðar.

Skóli, menntun og störf

Óli Valur sótti nám í hinn nýja og glæsilega Austurbæjarskóla. Hann lék sér á Skólavörðuholtinu, skemmti sér og söng í KFUM og hafði það falleg hljóð að hann tróð upp og söng einsöng í Gamla bíó. Hans, faðir hans, var bóndi að mótun og hélt sauðfé í bakgarðinum og sleit sig ekki frá búskapnum og bjó um tíma – á efri árum – í fjárhúsi sínu þegar hann hafði ekki lengur skyldum að gegna gagnvart börnum sínum. Það er lífsnatni í þessu fólki.

Óli Valur laut að blómum og jurtum og hneigðist til ræktunar og fékk snemma vinnu í samræmi við áhugann. Skömmu fyrir seinni heimstyrjöld, með stuðningi föður síns og fyrir hvatningu ræktunarmanna, fór Óli Valur – þá sautján ára – til náms í Danmörk. Hann hafði meiri áhuga á grænu víddinni en gráu hernaðarvíddinni. Þrátt fyrir stríð og fár í Evrópu náði Óli Valur að fara víða og markmið hans var að læra sem mest. Hann vann í Danmörk við garðyrkju og svo var hann ráðinn til starfa um tíma í stöð í Berlín. Hann sá nasíska forkólfa en hafði enga löngun til að ganga í SS-sveitirnar og þegar hann fór til Danmerkur aftur tengdist hann andspyrnuhreyfingu Dana.

Óli Valur stundaði nám í Landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn og lauk prófi árið 1946. Þá fór hann heim til Íslands og tók að sér verkstjórn í þrjú ár á garðyrkjustöð Stefáns Árnasonar á Syðri-Reykjum í Biskupstungum sem var brautryðjendastöð. Árið 1949 varð Óli Valur kennari við Garðyrkjuskóla ríkisins og var þar átta ár eða til ársins 1957. Þá varð hann garðyrkjuráðunautur hjá Búnaðarfélagi Íslands og var að til ársins 1985. Hann hafði eins og margir aðrir starfsmenn bændasamtakanna fyrst skrifstofu í búnaðarfélagshúsinu við Tjörnina og síðar í Bændahöllinni við Hagatorg.

Vegna starfa síns ferðaðist Óli Valur um allt land, lagði á ráðin um ræktun, teiknaði fyrir bændur garða, skýrði út möguleika og kosti, efldi garðyrkjufólk, ráðlagði einstaklingum, hélt fyrirlestra fyrir almenning og m.a. í útvarpi, skrifaði greinar í blöð og tímarit – og hélt fram hinu græna fagnaðarerindi. Og þegar Óli Valur var búinn að koma í heimsókn í sveitir landsins var hugur í fólki og karlarnir voru jafnan sendir í kaupstað til að kaupa girðingarefni fyrir garða við bænadabýlin. Sagt var að vorið kæmi í sveitirnar þegar Óli Valur kom. Lummur voru bakaðar og veislur voru haldnar til heiðurs þessum forgöngumanni um íslenskrar garðyrkju. Einn bóndinn orkti svo um komu hans:

Kær er sá sem koma skal,

konurnar þekkja róminn.

Allar elska hann Óla Val

eins og fögur blómin.“

Óli Valur var mikill fræðari. Mér – eins og þúsundum annarra Íslendinga – eru útvarpserindi Óla Vals minnistæð. Óli Valur hélt fyrir almenning fjölda fyrirlestra um garðyrkju. Þá var hann ritstjóri búnaðablaðsins Freys um nokkurt skeið auk þess að ritstýra bókum um matjurtir og garðyrkju. Vert er að minna á að færslur um Óla Val í ritaskrá Gegnis eru 26!

Óli Valur lét víða til sína taka í græna heiminum en í öðrum veröldum einnig. Hann var t.d. öflugur frímerkjasafnari, var félagi í Félagi frímerkjasafnara og formaður þess um tíma.

Óli Valur hafði mikil, víðtæk og langvinn áhrif varðandi garðyrkju á Íslandi. Nokkrum dögum eftir andlát hans kom ég í garðyrkjubýlið Friðheima í Biskupstungum. Þar er á stóru fræðsluspjaldi minnt á að Óli Valur hafi ekki aðeins þjónað einstaklingum heldur hafi í starfi sínu hvattt garðyrkjubændur til dáða og lagt grunn að nútímagarðyrkju. Í Friðheima koma nú þúsundir íslenskra og erlendra ferðamanna, dást að ræktun og möguleikum garðyrkju á Íslandi. Og allir sem koma í þessa gróðurvin eru þar með einnig fræddir um að Óli Valur Hansson var aðalmaður í þróun garðyrkju á tuttugustu öld.

Mér hefur verið falið að bera þessum söfnuði kveðju frá Sambandi garðyrkjubænda. Garðyrkjubændur minnast hans með virðingu og þökk fyrir störf hans í þágu íslenskrar garðyrkju.

Meðfram störfum hjá Búnaðarfélagi Íslands starfaði Óli Valur um árabil hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins að tilraunum með matjurtir og berjarunna.  Þá vann hann hjá Blómamiðstöðinni og síðar Grænum Markaði frá 1985 til aldamóta. Hann þjónaði aukinni fjölbreytni íslensks gróðurs með því að fara í fræsöfnunarferðir, m.a. til Alaska og Kamtsjaka í Síberíu. Þær ferðir skiluðu miklu.

Óli Valur var mikill tungumálamaður, talaði dönsku svo lýtalaust að Danir heyrðu ekki á mæli hans að hann væri ekki landi þeirra. Óli Valur las þýsku, ensku og hollensku og svo var hann einnig mikill íslenskumaður og hafði ást á íslenskri tungu. Vert er að minna á að hann er höfundur nafna fjölda íslenskra skrautjurta og barðist gegn því að tekin væru upp hrá erlend plöntunöfn. Það eru því ekki aðeins garðyrkjumenn sem geta þakkað Óla Val heldur þjónaði hann íslenskri menningu með margvíslegum hætti.

Hjónaband

HjónÓli Valur og Emmy Daa Hansson (f. 31.8.1928 d. 11.11 1989) gengu í hjónaband 11. febrúar 1950. Þið sjáið hjónavígslumyndina aftan á sálmaskránni og glöggt má sjá hve glæsileg þau voru. Þau Emmy kynntust í Danmörku árið 1945 þegar hann var enn við nám ytra. Skömmu eftir að þau kynntust fór Óli Valur til Íslands. Hún beið eftir honum og sat í festum í langan tíma. Að lokum fór hún á eftir kærastanum til að skoða landið og aðstæður og þau gengu svo í hjónaband. En einfalt var hvorki fyrir hana né aðrar erlendar konur að hverfa frá stórfjöskyldunni ytra og aðlagast algerlega nýrri menningu, tungu og verekfnum.

Þau Emmy og Óli Valur gerðu með sér samkomulag, hann dró að og hún sá um heimili – og bæði stóðu við sinn hluta og hjúskapur þeirra var hamingjuríkur og farsæll. Þeim fæddust tveir synir. Rolf Erik fæddist í apríl árið 1956. Hann er tannlæknir. Kona hans er Herdís Sveinsdóttir og er prófessor í hjúkrunarfræði. Óttar er elsti sonur þeirra og kona hans er Sunna Símonardóttur og þau eiga tvær dætur. Nína Margrét er gift Björgvini Halldór Björnssyni og þau eiga einn son. Jakob er næstyngstur og sambýliskona er Margrét Ólöf Halldórsdóttir. Þau biðja fyrir kveðju til ykkar, en þau eru í Danmörk og komast ekki til þessarar athafnar. Jökull er yngsti sonur Rolfs og Herdísar.

Yngri sonur Óla Vals og Emmyar er Ómar Björn. Hann er júlídrengur og fæddist árið 1959. Ómar er tannsmiður að mennt og einnig flugmaður og stundar viðskipti. Kona hans er Guðríður Anna Kristjánsdóttir lögfræðingur og tannlæknir. Þau eiga synina Óla Val og Björn Dúa.

Emmy lést frá fyrir aldur fram árið 1989. Óli Valur naut í sorg sinni sona sinna og fjölskyldu, var ungu kynslóðinni elskulegu afi, hafði lífsfró af vinnu sinni og naut að greina blöð og safna fræi af fallegum plöntum. Svo kynntist hann Áslaugu Valdemarsdóttur á níunda áratugnum og þau urðu nánir vinir þó þau rugluðu aldrei reitum. Í meira en tvo áratugi var Áslaug Óla Val elskuleg vinkona. Hann varð ömmubörnum hennar sem afi og hún amma afabörnum hans. Elskusemi hennar í garð Óla Vals er þökkuð.

Minningarnar

Hvernig var Óli Valur? Hvað þótti þér eftirminnilegt í fari hans, skemmtilegt eða mikilvægt?

Manstu ljúflyndi hans? Ég man have gaman var að koma í Búnaðarfélagið og hitta hann, kátan og með bros í augum. Það var eftirminnilegt hve hann tók öllum gestum vel – stórum sem smáum. Og samskiptanetið hans varð því mikið og stórt.

Varstu einhvern tíma vitni að því hve Óla Vali var fagnað þegar hann fór um sveitir landsins í fræðsluferðir? Manstu eftir erindum hans og greinum, bókum og ritum? Áttu kannski plöntu í garðinum þínum sem kom vegna frumkvöðlastarfs hans?

Manstu hve flott Óli Valur var klæddur og hve mikið snyrtimenni hann var.

Manstu hve ljúfur hann var í samskiptum, óáreitin og umburðarlyndur gagnvart ævintýrum annarra og þmt. afkomenda sinna? Svo var hann hógvær og vildi aldrei neitt láta fyrir sér fara.

Manstu hve minnugur Óli Valur var, hvað hann gat romsað upp jurtaheitum á latínu. Svo þekkti hann fólk á flestum bæjum á Íslandi.

Og manstu have gjafmildur hann var og að hann sagði hug sinn með blómum. Fordæmi hans eru fræ til spírunar í lífi þínu.

Óli Valur Hansson skilaði miklu dagsverki. Veröldin er betri, ríkulegri og gróðursælari vegna þess að hans naut við. Óli Valur færði fólki vorið. Nú er hann orðinn vormaður í eilífð Guðs og skemmtir sér yfir ríkidæmi lífsins. Hann er í lífríki Guðs.

Guð geymi hann og Guð geymi þig.

Amen.

Minningarorð í útför í Fossvogskirkju miðvikudaginn 23. september, 2015. Bálför.