Kökur af himnum

photoÍ lok messunnar í Neskirkju 21. júlí hvatti ég söfnuðinn að venju að staldra við á Torginu eftir messu. Ég lét þess einnig getið að kosturinn yrði horandi því kirkjuvörðurinn, Valdimar Tómasson, hafði sagt mér að hann hefði ekkert annað en saltstangir til að setja fram með kaffinu! Svo fóru flestir úr kirkju í messukaffið. En sjá, kökukraftaverkið mikla varð.

 

 

Lesa áfram Kökur af himnum

Óskaganga á Helgafell

IMG_5111Skammt frá Stykkishólmi er hið forna höfuðbýli Helgafell. Sveitin umhverfis fær nafn af staðnum. Í Helgafelli var klaustur af Ágústínareglu frá árinu 1184, sömu reglu og Marteinn Lúther tilheyrði. Norðan bæjar og kirkju er fagurlega mótað Helgafellið, sem rís þokkafullt upp úr flatlendinu umhverfis og er líka fagurt að sjá frá sjó.

Á tvo vegu er fellið bratt en auðvelt að klífa það frá vestri og suðri. Norðan við kirkjuna er afgirt og greinilegt leiði Guðrúnar Ósvífursdóttur, kunnustu skvísu Laxdælasögu. Þaðan er auðvelt að ganga upp á fellið og að svonefndri kapellu. Sagan segir að hún sé rúst helgistaðar – væntanlega munkanna í klaustrinu. En byggingin gæti allt eins hafa verið skýli varðmanna sem fylgdust með umferð manna en kannski líka búpenings.

Göfgun og gönguhvati

Menn hafa löngum gefið ferðum sínum tilgang og reynt að göfga verk og daglegt atferli og séð í lífinu dýpri merkingu. Svo hefur verið gert við leiðina frá Helgafellskirkju og leiði Guðrúnar og upp á fellið. Hún varð að óskaferð, eins konar pílagrímsferð eða leið fyrir persónulega kyrrðargöngu.

Sagan segir að ef rétt sé farið að megi óska sér þrenns í þessari ferð. Til að vænta megi uppfyllingar óska eru skilyrðin að signt sé yfir leiði Guðrúnar, síðan verði gengið í algerri þögn upp stuttan stíg á fellið, ekki sé litið aftur á leiðinni og förumaðurinn snúi síðan í austur þegar upp er komið og beri fram óskir sínar með góðum huga.

Óskaganga

Fyrr í þessari viku fór ég í þessa pílagrímsgöngu með konu minni og yngri drengjum. Það var gaman að útskýra fyrir strákunum hvers konar ganga þetta væri, gera grein fyrir kröfunum sem gerðar væru fyrir göngumenn, hvers eðlis óskirnar gætu verið, hvað maður þyrti að gera á leiðinni og hvað maður mætti ekki gera. Ekki væri leyfilegt að tala, kvarta, spyrja, masa, hlægja eða gráta – ekki mætti horfa á annað en leiðina, hugsa um óskirnar með góðum huga, reyna að hreinsa þær þannig að þær væru raunverulega mikilvægar og maður gæti sjálfur unnið að því eða hjálpað til að þær rættust.

IMG_5080Síðan var hægt að tala um helgistaðinn, bænastaðinn, kirkjustaðinn, bænaiðju munka – sem synir mínir kölluðu nunnukalla á síðasta ári – en hlægja nú að því orði. Þeir og kona mín voru sammála um skilmála, aðferð og tilgang. Svo krossuðum við yfir leiðið, gengum í þögn og með hæfilegu millibili í góðviðri, með fuglasöng í eyrum, ilm jurta og sjávar í nösum og fundum fyrir örum hjartslætti í brjósti. Við orðuðum óskirnar í kyrru hugans og stóðum svo í kapellunni efra, horfðum í austur og bænir flugu í nafni Föður, Sonar og heilags Anda. Svo var þögnin rofin.

Merking óskagöngu

Hvað merkir svona ferð? Hvers eðlis er bera fram óskirnar? „Er þetta satt pabbi?“ spurðu drengirnir og ég skýrði út fyrir þeim eðli þjóðsagna, hlutverk þeirra, merkingu og hvað væri hvað? Er Helgafell töfrastaður, er þar styttra í svarstöð himins en annars staðar? Ef maður klúðrar einhverju rætast þá ekki óskirnar og snúast jafnvel í andhverfu sína? Ef maður lítur óvart aftur eða gleymir að signa yfir leiðið er þá ferðin til einskis eða jafnvel ills? Svona spurningar eru þarfar og mikilvægt að ræða. Einu gildir á hvaða aldri maður er. Svona spurningar eru mennskar og mikilvægar.

Saga gefur

Hvert er eðli og tilgangur þjóðsögu? Í þessari sögu er hægt að merkja að atferli leiðir til íhugunar og hreinsunar, að bænir eiga sér ytra form, að göngur hafa fengið dýpri skýringu, endurtúlkun og göfgun, að frátekin staður og guðsmenn hafa kallað á vitund um hið heilaga og skýringaþykkni. Og svo lifir saga um dásemd, möguleika, mikilvægi, merkingu og tilgang. Þjóðsögur eru ekki aðeins skemmtisögur heldur má fara inn í þær og skilja erindi þeirra á dýptina og hlusta eftir boðskap þeirra. Svona sögur á ekki að taka bókstaflega heldur vinsamlega – leyfa þeim að tjá gildi, dýpri mál, hlutverk og möguleika sem geta haft svo mikil áhrif að líf okkar breytist. Saga gefur, veitir fyrirmyndir, miðlar visku og styður því líf.

Guð kallar

Ytri skilyrðin voru okkur hinum fullorðnu ekki aðalatriði eða forsenda að óskir rættust. Ég rölti með mínu fólki upp á Helgafell í fullri vissu um að ég þyrfti ekki að lúta þrældómi aðferðar heldur væri annað mikilvægt. Aðferðirnar væru tæki til að opna djúp. Göngu og atferli væri ætlað að opna fyrir möguleika, kalla fram nýjar hugsanir, við mættum hlusta eftir djúpröddum hjartans sem er tjáning Guðsandans. Allt sem skiptir máli í lífinu krefst einhverrar fyrirhafnar. Guð er ekki utan við veröldina heldur talar í gegnum raunveruleika lífsins, hvort sem það er nú í golu í hríslum og blábergjalyngi, fuglasöng eða samskiptum við fólk. Guð kallar til lífs og vaxtar.

Pílagrímaganga – samfylgd Guðs og manns

Helgafell er vissulega áhrifaríkur sögustaður, vermireitur bókmennta og minnir á átakanlega ástarsögu Laxdælu. Helgafell er kirkjustaður, samkomustaður safnaðar til að biðja og syngja Guði lof. En svo gerir göngusagan Helgafell einnig að vettvangi pílagrímagöngu. Það er því hægt að nota staðinn til að gera upp mistök og sorgarefni og stafla þeim í grjótvegg kapellunnar efra og skilja þar eftir það sem miður fer og má hverfa í lífi fólks. En í staðinn koma gjafir Guðs til góðs.

Og til hvers eru pílagrímagöngur, eingöngur, kyrrðargöngur? Þær eru til að vinna með merkingu mannlífs, lífs okkar mannanna. Þær eru til að skilja við það sem dregur úr fólki gleði og lífskraft – allt sem splundrar okkur og sundrar sambandi við sjálf okkur og Guð. En þær eru líka til að kalla okkur til sjálfra okkar, leyfa þrá okkar að koma fram, dýpstu löngun okkar að hrópa til sjálfra okkar, leyfa óskum okkar að fljóta upp í vitundina og taka flugið til hæða. Pílagrímagöngur verða gjarnan til að við vöknum til að Guð fái talað við okkur. Þegar svo verður fyllumst við krafti til endurnýjunar. Þá fara bænirnar að rætast og við lifnum og eflumst.

Textar dagsins eru ferðatextar fyrir lífið. Og hverjum mætum við þegar við verðum fyrir mikilli reynslu á leið okkar? Guði. Það var vitnisburður ferðamannsins Páls sem lenti á sínu Helgafelli. Það var reynsla vina Jesú sem urðu vitni að því að veröldin er mikið Helgafell sem Guð á og gefur okkur til búsetu og líflistar.

Tilgangsferðir og trú

Á leiðinni ofan af fjallinu hjöluðu drengirnir mínir. Þeir höfðu beðið bænir sínar og tjáð óskir sínar og við hin eldri einnig. Þjóðsaga og helgisaga höfðu orðið okkur til góðs. Við höfðum fundið til helgi lífsins á Helgafelli. Sumarferðirnar eru ekki aðeins ferðir út í buskann heldur ferðir með ríkulegum tilgangi. Ég hafði ekki skipulagt pílagrímagöngu þennan dag, hún kallaði okkur til sín, kom okkur á óvart. Og við nutum hennar og hún hafði áhrif á okkur öll. Lífið er dásamlegt og þegar við leyfum ævintýri dýptanna að vitja okkar verður lífið skemmtilegra og eiginlega marglaga undur og óvæntir viðburðir til að gleðja og kalla til dýpta. Og það besta er að óskirnar rætast. Sumarferðir og kannski allar lífsleiðirnar mega verða okkur Helgafellsgöngur. Við megum bera fram óskir í góðum huga og þá göngum við inn í ósk Guðs, sem ann okkur mest og er okkur bestur.

Amen

Íhugun í Neskirkju 30 júní 2013

Réttir verðmiðar

verðmerkingTvö hundruð ár eru liðin frá fæðingu guðfræðingsins og heimspekingsins Sören Kirkegaard. Hann fæddist í maí 1813, skrifaði mikið á stuttri æfi og hafði mikil áhrif á vestræna menningu og hefur enn. Hann var ekki sjómaður en setti sig í spor sæfarans og þegar hann talaði um trú og Guðsafstöðu þá líkti hann því við að leggja á djúpið – á sjötíu þúsund faðma dýpi. Samkvæmt honum og raunar fylgdi hann Jesú Kristi í því: Lífsverk fiskimannsins og trúmannsis á sér innrím og líkindi. Í dag langar mig að miðla viskusögu sem Sören Kirkekgaard bjó til. Hún fjallar ekki um fiskveiðar en hvað merkir þessi saga? Sagan er svona:

Víxlun

Nótt eina brutust þjófar inn í skartgripaverslun. Í stað þess að stela dýrgripunum víxluðu og rugluðu þeir öllum verðmiðum. Því vissi enginn með vissu næsta dag hvort rétt væri merkt. Ódýru skartgripirnir höfðu skyndlega hækkað í verði og hinir dýrustu eitthvað verðbreyst. Og það makalausa var að hinir efnaminni gátu allt í einu keypt dýrgripi fyrir lítið fé en hinir fjársterku keyptu jafnvel glingur á okurverði. Glópagullið var dýrt en dýrmætin voru á kostakjörum. Þau sem töldu sig vera að kaupa vandaða dýrgripi keyptu drasl.

Hvað vakti fyrir höfundinum með svona sögu? Auðvitað er þetta kennslusaga og til íhugunar. Hún merkir að við menn eigum stundum erfitt með að greina hvað er mikilvægt frá hinu sem er lítilfjörlegt. Við ruglum oft gildum, víxlum miðum, grípum hið ómerkilega og sjáum ekki dýrmætin. Kierkegaard er ekki einn um að minna okkur á víxlmerkingar. Spekingar aldanna og allra menningarhefða hafa löngum bent á hið sama og hvatt menn til að róa á djúp gilda, trúar, speki og gæsku. Jesús Kristur talaði oft um hvað skipti fólk og líf máli og hvað ekki. Hvað setjum við í forgang, hvað þykir fólki eftirsóknarvert? Hver eru raunveruleg og varanleg gildi og hver ekki?

Og guðspjallssaga dagins er um að fólk geri ekki gull að guði sínum, rugli ekki merkimiðum lífsins. Og í smásögu Jesú í guðspjalli dagsins – sem er systursaga Kirkegaardsögunnar – segir Guð við hinn sjálfsörugga og sjálfsánægða auðmann: „Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð og hver fær þá það sem þú hefur aflað? Svo fer þeim er safnar sér fé en er ekki ríkur í augum Guðs.“

Eiga eða vera

Einn af þeim sem lærði af Sören Kierkegaard – stóð í þakkarskuld og hefð hans og naut þar með spekinnar – var sálgreinirinn Erich Fromm. Ég las á sínum tíma bók hans Að eiga eða vera. Bókarheitið gefur vel til kynna til efni ritsins. Fromm greindi á milli tvenns konar afstöðu eða veruleikanálgunar manna. Annars vegar er sókn fólks í eignir og að verða ríkt. Það fólk vill eiga – vera eignafólk. Hins vegar er sú lífsafstaða sem ekki er upptekin af eignasókn og eignahyggju, heldur því fremur að vera og þá óháð ytri verðmætum eða eignum. Vera eða eiga: Þetta eru stórflokkar sem við menn flokkumst í. Við sem einstaklingar tilheyrum flest báðum en í mismiklum mæli eða hutföllum.

Eignahyggjan snýst um efnisleg gæði og það sem eignarrétturinn getur tryggt. Grundvöllur eignarhyggjunnar er jafnan græðgi og aðferð hennar árásargirni samkvæmt Fromm. Veruhyggjuna segir hann hins vegar grundvallaða á elsku og aðferð hennar er að deila reynslu og samþætta krafta einstaklinga.

Ekki þarf mikið ímyndunarafl til að gera sér grein fyrir, að eignahyggjan sé drottnunargjörn en veruhyggjan samráðsleitandi, eignahyggjan leiti að skýru og þrepskiptu valdi en veruhyggjan hvetji til aðildar sem flestra til ákvarðana og valda. Af þessari einföldu skiptingu má draga mjög róttækar ályktanir. Frumástæðu mengunar og hernaðar gegn náttúrunni taldi Fromm fundna í eignarhyggjunni, sem engu eirði fyrr en búið væri að brjóta og ná nokkru valdi á.

Fjársjóður og hjartað

Það er einföld ástæða þess, að Kirkegaard og Fromm eru tilkvaddir sem vitni í erfðamáli guðspjalls á þessum sunnudegi. Kristnin kennir að líf sem snýst um eigur og ytri gæði leiðir ekki aðeins til tortímingar einstaklinga heldur einnig mannfélags. Og kristnin er ekki ein, boðskapur Jesú á sér samhljóm í Islam, Gyðingdómi einnig, norrænni speki og öðrum viskuhefðum einnig.

Þegar ytri gæði ráða hug og sókn fólks mun allt líða og bera skaða af, samfélag, þjóðfélag, verkmenning, já líka náttúran. Allt flekkast. Fyrsta boðorðið varðar þetta ofurmál. Hver meginafstaða fólks er varðar annað hvort heilsu og heill eða bölvun í heimi og mannfélagi. Siðferði og líf fólks er háð hver afstaðan er.

Er ástin til lífsins það sem einkennir þig, hefur þú smekk fyrir djúpferðum og fiskar þú á dýpi eða heldur þú þig bara á grunnsævi í öllum efnum? Ef eignasóknin nær að stjórna fólki og ráða er afleiðingin víxlun merkimiða, haldið fram hjá Guði. Þegar menn ætla að ná valdi á og sölsa undir sig hverfur auðmýkt gagnvart undri veraldar sem trúarhefðirnar kenna til Guðs.

Eiga – vera – trúa

Jesús benti, á að menn gætu ekki þjónað mörgum herrum. Mammon þolir ekki annað en að vera miðjan í vitund og lífi aðdáenda sinna. Hlaupamaðurinn, sem kom til Jesú til að afla stuðnings í erfðabaráttu, hafði gleymt sér á hlaupum eftir eignum. Jesús hafði aldrei neitt á móti fjármunum sem slíkum heldur var umhugað um innri heilindi, innræti fólks og frumafstöðu. Francis Bacon tjáði jesúlega afstöðu þegar hann orðaði svo hnyttilega að auðævin væru góður þjónn en afleitur húsbóndi. Skáldið Einar Benediktsson minnti á: “Hver laut sínum auði var aldrei ríkur/ Öreigi bar hann purpurans flíkur.” Í Sólarljóðum segir “margan hefur auður apað.” Alþýðuviskan minnir á, að á líkklæðunum séu engir vasar – speki sem var notuð í nýliðinni kosningabaráttu!

Jesús minnir okkur á að illa sé komið fyrir eignamanni sem á engin hlutabréf eða höfuðstól á himnum. Með hliðstæðum hætti segir Fromm: „Ef ég er það sem ég á og missi það, hvað er ég þá?“ Hann bætti við: „Á nítjándu öldinni var vandinn sá að Guð væri dauður. En á tuttugustu öldinni var vandinn að maðurinn væri dauður!“ Verkefni okkar á okkar tíma – 21. öldinni – er að lágmarka skefjalausa eignahyggju sem deyðir, en efla veruhyggju og líka trúna. Vegna hvers – vegna lífsins.

Aurasál og aðalgæðin

Sören Kierkegaard skrifaði: „Ef ég myndi óska mér einhvers myndi ég ekki óska mér auðs og valda heldur að ég skynji djúpt möguleika… …Ánægjutilfinning er hverful en möguleikar valda engum vonbrigðum. Hvaða vín freyðir eins fagurlega, ilmar svo vel eða hrífur eins stórkostlega og möguleikinn.“

Stöðugt er verið að víxla gildum – verðmiðum í samfélagi okkar. Okkar er að staldra við og meta sjálf, hugsa sjálf, taka sjálf ákvarðanir um hvað skipti máli. Okkar er að halda út á sjötíu þúsund faðma djúp eigin sálar og meta hvernig veiðiskapur okkar skuli vera, hver lífsgæði okkar við viljum halda í. Í samfélagi okkar er veiðiskapur stundaður og hann á að vera til heilla og í þágu allra. Þegar þú verður veiddur eða veidd upp úr trolli lífsins, hvaða merkimiða færðu þá. Það er ekki gott að þá verðir þú merktur sem heimskingi. Reyndar er á okkur strikamerki skírnarinnar. En látum ekki glepjast af glingrinu. Það er nú raunar æviverkefni og varðar útgerð til lífs.

Amen.

Prédikun í Neskirkju 2. júní 2013.

Textaröð: B

Lexía: Mík 6.6-8

Hvað á ég að koma með fram fyrir Drottin,
fram fyrir Guð á hæðum? 
Á ég að koma fram fyrir hann með brennifórnir,
með veturgamla kálfa?
 Hefur Drottinn þóknun á þúsundum hrúta
og tugþúsundum lækja af ólífuolíu?
 Á ég að fórna frumburði mínum fyrir synd mína,
ávexti kviðar míns fyrir misgjörðir mínar? 
Maður, þér hefur verið sagt hvað gott er 
og hvers Drottinn væntir af þér: 
þess eins að þú gerir rétt, 
ástundir kærleika 
og þjónir Guði í hógværð.

Pistill: 1Tím 6.17-19

Vara ríkismenn þessarar aldar við að hreykja sér og treysta fallvöltum auði, bjóð þeim heldur að treysta Guði sem lætur okkur allt ríkulega í té sem við þörfnumst. Bjóð þeim að gera gott, vera ríkir að góðum verkum, örlátir, fúsir að miðla öðrum, með því safna þeir handa sjálfum sér fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna og munu geta höndlað hið sanna líf.

Guðspjall: Lúk 12.13-21


Einn úr mannfjöldanum sagði við Jesú: „Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum. “
Hann svaraði honum: „Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur?“ Og hann sagði við þá: „Gætið ykkar og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum þótt auðugur sé. “
Þá sagði Jesús þeim dæmisögu þessa: „Maður nokkur ríkur átti land er hafði borið mikinn ávöxt. Hann hugsaði með sér: Hvað á ég að gera? Nú get ég hvergi komið fyrir afurðum mínum. Og hann sagði: Þetta geri ég: Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri og þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum. Og ég segi við sálu mína: Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð.
 En Guð sagði við hann: Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð og hver fær þá það sem þú hefur aflað? Svo fer þeim er safnar sér fé en er ekki ríkur í augum Guðs.“

Þórólfur Meyvantsson + líf og gleði

þórólfurÞórólfur og Guðrún kynntust á skólaballi í Mýrarhúsaskólanum á Seltjarnarnesi. Guðrún missti hæl undan öðrum skónum og það er bagalegt á balli. Þá snaraði sér að henni myndarlegur piltur. Þar var kominn Þórólfur Meyvantsson – sagðist vera á vörubíl, með græjur til viðgerða. Hann gæti lagað hælinn ef hún nennti að fara með honum út í bíl. Hún fór og hélt á hæl í hendi. Þórólfur brá sér í hlutverk skóarans, mundaði hamar og festi hæl við skó með myndarlegum nagla.

Þessi upphafskynni þeirra eru sjarmerandi. Og svo er broslegt að ungur piltur fékk lánaðan vörubíl pabbans til að fara á ball. Hvers konar flutninga hafði hann í hyggju? Svo sá hann stúlkuna bæði hællausa og ráðalausa. En Þórólfur kunni á dansandi fólk, öll hans fjölskylda sótti út á gólfið og kannski hafði hann fest hæl áður? Það skal vanda sem lengi skal standa. Best að byrja á grunninum og hælfestan dugði þeim vel því þegar minnst er á annað þeirra hjóna þá kemur hitt í hug. Þau voru vinir og bandið milli þeirra var ást, virðing, vinátta og svo auðvitað kátína og hlátur.

Fjölskylda og samhengi

Þórólfur Meyvantsson fæddist í Reykjavík 23. ágúst 1923. Foreldrar hans voru Björg María Elísabet Jónsdóttir og Meyvant Sigurðsson. Hún var að austan og hann fæddist í Selvoginum. Þórólfur var þriðji yngstur í systkinahópnum. Hin eru Sigurbjörn Frímann; Þórunn Jónína; Magdalena Valdís; Sigríður Rósa; Sverrir Guðmundur; Ríkharður; Elísbet og Meyvant.

Meyvant, faðir Þórólfs, var einn af frumkvöðlum vörubílabílaútgerðar í landinu og Þórólfur ólst upp við bílamenningu og gat því farið á rúnt og ball á vörubíl. Þórólfur ólst upp á Eiði – sem sem stóð ekki langt frá þeim stað sem verslunarmiðstöðin á Eiðistorgi stendur nú. Þar bjuggu foreldrar hans og fjölskylda um árabil og ráku bú með kindum og kúm – svo var þar mannlífsmiðstöð líka.

Mýrarhúsaskóli var ekki aðeins góður til að æfa skósmíðar eða dansa. Þangað sótti Þórólfur skóla. Þegar hann hafði aldur til fór hann á sjó og var um áratugi matráður á skipum. Nærri lokum seinni heimsstyrjaldar var hann munstraður á Ólaf Garðar frá Hafnarfirði og svo síðar Mars. Síðan komu nýsköpunartogararnir sem hann var á líka. Þegar stærri togarar voru keyptir til landsins var Þórólfur líka uppfærður. Hann var m.a. á togurunum Bjarna Benediktssyni og Surprise.

Þórólfur var umhyggjusamur félagi skipverja, hafði metnað í starfi og þótti mikilvægt að hlúa vel að félögum sínum því góður kostur á sjó skiptir miklu og gerir oft gæfumun um móral um borð. Þórólfur stundaði stíft gæðaeftirlit í eigin verkahring og hikaði ekki að skila kjötpoka ef heildsalinn sendi hækla og beinahrúgu. Borðnautar hans áttu ekkert nema það besta skilið. Vinnuveitendur Þórólfs virtu hann, vissu að hann kunni að reikna og stýrði innkaupum svo að mötuneyti hans var rekið með hagkvæmni þótt kosturinn væri afbragð. Þórólfur taldi ekki eftir sér að mæta fyrstur um borð til að elda matarmikla kjötsúpu. Allir fengu vel að borða, gátu hvílt sig á ústíminu og voru tilbúnir í atið þegar út var komið. Þórólfur hafði lagt grunn að árangri áhafnar, eldaði með gæðum og natni og kryddaði með glettni og gamansemi. Þórólfur var metinn vegna kosta og visku og naut jafnrar hylli útgerðaraðila og áhafna. Slíkir voru og eru vandfundnir.

Svo átti kokkurinn jafnvel til að toppa góða máltíð með því að lesa fyrir áhöfnina úr dagblaði valda en stórkostlega frétt sem var svo ágeng og beinskeytt að upplesturinn hafði bein áhrif og breytti jafnvel lífi einhvers þeirra til hins betra. Kokkurinn var þá búinn að umbreyta sér í spunameistara og sagnamann. Þórólfur hafði alltaf gaman af að kanna útmörk tiltrúarinnar og kæta glaðsinna efasemdarmenn. Svona vitundarstækkandi húslestra um stórfréttir í lífi tilheyrenda las hann líka við eldhúsborðið heima – sínu fólki til undrunar og skemmtunar.

Síðustu árin á sjó var Þórólfur á björgunarskipinu Goðanum og kom svo í land alkominn árið1990. Hann varð síðan vaktmaður í birgðastöð Pósts og síma og síðan öflugur sendiherra Morgunblaðsins.

Þórólfur hafði lagað hælinn á skó Guðrúnar Eyjólfsdóttur en svo fóru þau í sitt hvora áttina, en gleymdu þó ekki hvoru öðru. Einu sinni þegar Guðrún hafði verið í fjallgöngu með unga fólkinu af Grímsstaðaholti kom Þórólfur í heimsókn heim til hennar. Henni þóttu þær fréttir góðar og Guðrún rataði til Þórólfs. Kannski hélt hællinn og Guðrún sá í Þórólfi andlega getu, ljúflyndi og gleði og hann í henni uppfyllingu drauma sinna. Þau gengu í hjónaband á þjóðhátíðardegi Norðmanna, 17. maí 1949. Þau hófu búskapinn á Eiði og eignuðust þar fyrstu börnin og bjuggu þar í góðu nábýli við nágranna svo íbúunum þykir að þau hafi verið fyrsta kommúnan á Íslandi. Eftir 15 Eiðisár fluttu þau á Dunhaga og eftir það festu þau kaup á húsi foreldra Guðrúnar á Grímsstaðaholtinu, sem var Smyrilsvegur 2 en er nú númer 28 – fallega húsið norðan við Björnsbakarí við Fálkagötu. Meðan þau Þórólfur voru á Dunhaganum bjuggu þau yfir Pétursbókabúð sem þau keyptu og Dúna rak sem Bókabúð Vesturbæjar – og fluttu verslunina svo síðar á Víðimel og ráku til 1986. Árið 1989 keyptu þau Þórólfur og Guðrún íbúð á Aflagranda 40. Þegar hann gat ekki lengur verið heima vegna heilsubrests varð Grund honum athvarf síðustu árin. Guðrún kom til hans alla daga, hressti hann og gladdi. Þórólfur naut góðs atlætis og umönnunar starfsfólks á Grund sem fjölskylda hans metur mikils og þakkar fyrir.

Guðrún var einu sinni í tímaritsviðtali spurð um hvernig þeim Þórólfi hafi tekist að halda sjó í hjónabandinu. Guðrún svaraði skýrt: „Það er ekki velmegun að þakka eða því að við höfum alltaf siglt lygnan sjó í tómri sælu. Síður en svo. Ég orða það stundum við ungt fólk að það sé ekki alltaf rjómagrautur á borðum heldur líka hafragrautur. En ég held að það sé væntumþykja og æðruleysi sem hafi gert útslagið hjá okkur. Það er líka mikilvægt að leysa ágreiningsmálin í staðinn fyrir að hlaupa í burtu frá þeim… …Við erum búin að þekkjast í rúmlega sjötíu ár og vera í hjónabandi í á sjöunda áratug. Það er sterkur strengurinn á milli okkar.“

Þessa þroskuðu visku ástalífsins megum við gjarnan taka til okkar og læra af. Ástarsaga Dúnu og Tóta er hrífandi. Við megum elska mikið og þá getum við kvatt – vissulega með tárum en þó ríkulegu þakklæti eins og Dúna minnti mig á í gær.

Þau Guðrún og Þórólfur eignuðust fimm börn og fjölda afkomenda. Elst var dóttir sem fæddist í maí 1947 en komst ekki til lífs. Gunnar fæddist árið 1949. Kona hans er Jóhanna Friðgeirsdóttir. Þau eiga þrjú börn, níu barnabörn og fjögur barnabarnabörn; Elísabet fæddist árið 1950. Hún á tvö börn og fjögur barnabörn. Meyvant fæddist árið 1951. Kona hans er Rósa Guðbjartsdóttir og þeirra börn eru tvö og fjögur barnabörn. Fimmti og yngstur er Bjarni Þór sem fæddist 1968. Kona hans er Hrefna Sigríður Briem. Þau eiga þrjú börn.

Fyrir átti Guðrún soninn Brynjólf Ásgeir Guðbjörnsson sem fæddist árið 1943. Kona hans er Sigríður Halldórsdóttir og eignuðust þau fjögur börn, átta barnabörn og sjö barnabarnabörn.

Þetta er stór ættbogi og lánlegur. Ég hef verið beðinn að bera ykkur kveðjur frá Madison í Wisconsin, frá þeim Ívari, Emmu og börnum – og einnig frá Stokkhólmi, frá Brynjólfi og Valgerði.

Minningarnar

Hvernig var Þórólfur? Hvað kemur í hugann? Þórólfur var félagslyndur, glaðsinna, glettinn, mildur, nærgætinn og skipulagður. Í honum bjó mikil stærðfræðigeta. Hann hafði gaman af stærðfræðiþrautum eins og mörg ykkar munið. Hvað er bílnúmerið SG fjórðungur af níu hundruð? Og gátuglettnin hljóp í Þórólf og hann horfði niður og beið meðan viðmælendur brutu heilann, stundum með árangri en alltaf með ávinningi, sem jafnvel hjálpaði fólkinu hans í prófum.

Þórólfur hafði þjálfað með sér frásagnarhæfni og lagði gleði við. Hann skemmti sér konunglega þegar tilheyrendur vildu trúa en voru þó ekki viss um hvort hann var að þylja staðreyndir eða krítaði með svo ískyggilega trúverðugu móti að allt gat verið satt en þó líka allt uppspuni. Þórólfur var meistari á þessu Eiði raunheima, kátheima og hvergilands.

Svo var hann talnaglöggur með afbrigðum og stálminnugur. Hann brilleraði í meðferð talna. Og hafði að auki bæði skilning og tilfinningu fyrir flæði og ferlum. Verkefnastjórn hans var því öflug í mötuneytisrekstri og matseld í þágu fjölmennra áhafna. Hann hefði orðið framúrskarandi á öllum sviðum sem þörfnuðust skapandi talnavinnu og lausnaleitar. Og stóra bikarasafnið vegna bridssigra ber þessari samþættingu margra hæfnisþátta vitni. Hann gat beitt skerpu, minni, útreikningum, ferlavitnd, flæði – en líka innsæi í fólk og svo var hann leiftursnöggur að greina sundur og tengja rétt saman. Þetta er það sem heitir greind á venjulegri íslensku.

Þórólfur hafði áhuga á mannlífinu og náði auðveldlega og fljótt að tengjast fólki hvar sem hann fór. Hann var viðkvæmur og hlýr, frómur og þótti miður þegar menn óðu á súðum um menn og málefni. Og hann var nægilega stór til að kunna að þjóna fólki og mikilvægum málum. Hann átti í sér heimafengna lotningu fyrir lífinu, að það er brothætt en fagurt og það sé þess virði að þjóna því. Og hann var svo hreinlyndur gagnvart sjálfum sér og öðrum að hann viðurkenndi eigin víddir og bar virðingu fyrir öðrum og ekki síst Dúnu sinni. Hún svaraði vel og því var hann hamingjumaður. Hann átti ríkidæmi í fólkinu sínu og þau áttu bandamann sinn og lífsins í honum.

Ekki má gleyma pólitíkinni – hún var á hreinu. Þórólfur hefði verið sáttur við að Sjálfstæðismenn halda að nýju um stjórnartauma á Íslandi. Og það skal upplýst að áður en þau Guðrún og Þórólfur gengu í hjónaband hafði hann þegar skráð hana í Sjálfstæðisflokkinn! Þetta var að smella pólitíska hælnum á hana svo göngulagið væri rétt.

Til lífs

Og nú eru skil. Ég minni á að erfidrykkjur eru góður vettvangur til að segja sögur, sem vakna upp í andrúmi kveðjustundar. Segðu sögu af Þórólfi, kynnum við hann, minningu sem gleður og er þess virði að segja frá. Hann vann vel með líf sitt, gerði upp fæðingararf sinn, vann úr lífsefnum sínum, umvafði Dúnu sína, gaf af sér, hleypti gleði að fólkinu sínu, spann og spurði, setti upp gátuglottið, galopnaði faðm og heimili og var í mun að allir nytu gæða sem hann og Dúna gætu veitt.

Nú er hann farinn en minning hans lifir. Og þú mátt trúa að hann lifir í ríki sem við köllum himinn. Þórólfur spurði: Hvað kemst maður langt inn í skóg? Og við getum skipt út og spurt hvað maður komist langt inn í himininn? Sama svarið fyrir skóg og eilífð. Inn í miðju, haldi maður lengra er maður á leiðinni út. Þórólfur leggur ekki lengur fyrir þig gátur. En það er gott að nota svolítið af lífskúnst Þórólfs um himininn. Guð kann spilagaldur lífsins – Guð hefur minni, kunnáttu, útsjónarsemi og ferlavitund bridsspilarans – já í ofurstíl – hefur gaman af slemmum og stórum sögnum. Og ég trúi að Þórólfur geti fengið að krydda hina himnesku kjötsúpu á útstími eilífðar. Þar sé grín, gátuglott, mannúð og friður. Þórólfur rúntar kannski ekki lengur um á vörubíl til að skemmta ástvinum sínum og afkomendum en hin jákvæða bjartsýni kristninnar rímar algerlega við Þórólfslífið. Allt frá Eiði upphafsins var hann blessaður. Og nú má hann búa á hinu himneska Eiði – þar er hann meðal vina. Þar er gott og allir hafa hælana í lagi. Ef ekki þá eru laghentir til reiðu.

Guð geymi hann ávallt og ævinlega og Guð geymi þig, leggi þér til lífsvernd og blessun.

Amen

Guðrún Kristjánsdóttir – tákn og fyrirmynd

Guðrún Kristjánsdóttir 3Rúna var tákn í lífinu – tákn hins góða. Hvernig fólk hefur talað um hana er samhljóða. Ástvinir og samferðafólk minnast góðrar og elskuríkar konu sem var umhugað um aðra, líðan fólks og velferð: „Rúna var góð – hún stóð sig alltaf svo vel – hún var alveg pottþétt.”

Við undirúning útfarar íhuga prestar gjarnan hvernig lífsþættir ríma við biblíustef. Fólkið hennar Rúnu hugsaði stundarkorn þegar presturinn spurði um biblíutenginu. Og svo kom skýrt svar við þeirri spurningu eins og öðrum. Rúnu var annt um upphafsversin í 121. Davíðssálmi:

Ég hef augu mín til fjallanna,

hvaðan kemur mér hjálp?

Hjálp mín kemur frá Drottni,

skapara himins og jarðar.

Sjón til hæða, upp til fjalla. Hjálp sem kemur úr veruleika hins háleita, góða og fagra. Enginn er alger aðeins af sjálfum sér – við erum tengd, inn á við, til dýpta, við fólk, við djúp og hæðir – og erum kölluð til starfa á þeim reit sem nýtir hæfni. Okkur er falið að annast ungviði og vera í tengslum við ásvini. Hvað verður til lífs, hvaða gildi duga, hvaða lífsafstaða verður til góðs? Og hvað gerum við í erfiðleikum, þegar máttur dvín, minnið daprast og tengingar við veruleikann slitna og hverfa?

Ástvinir Rúnu vissu að hún átti í sér frumvitund trúar, frumtraust til lífsins og Guðs. Hún átti sér athvarf og samhengi. Svo var hún líka sjálf trausts verð í samskiptum. Hún var rún – tákn og fyrirmynd.

Æfi og störf

Guðrún Kristjánsdóttir fæddist 18. október árið 1939 í Reykjavík. Hún var elsta barn hjónanna Emmu Guðmundsdóttur og Kristjáns Gunnarssonar. Pabbinn var á sjó, stýrði skipi en mamman var konan í brúnni heima. Kristján lést árið 1969 en Emma lifir enn – á tíræðisaldri.

Systkini Guðrúnar eru fjögur. Næstelst er Karítas sem fæddist árið 1941. Hún er hjúkrunarfræðingur og búsett í Bandaríkjunum. Gunnar, prestur og fræðimaður, fæddist í ársbyrjun 1945. Ágúst kom svo í heiminn þremur árum síðar – eða árið 1948. Hann lést árið 1989. María Vigdís er yngst. Hún fæddist árið 1954 og starfar við kennslu og þýðingar.

Rúna fæddist við upphaf seinni heimstyrjaldar. Faðir hennar var á sjó öll stríðsárin og Emma, Rúna, Karítas og Gunnar bjuggu við ógn stríðsins. Hver áhrifin urðu á sálarlíf þeirra er enginn til frásagnar um en stríð eru engum lífsbót. Vegna vinnu fjölskylduföðurins bjó fjölskylda Rúnu um tíma á Seyðisfirði og þar sá hún El Grillo fara niður. Svo settist fjölskyldan að í Laugarneshverfi í Reykjavík og Rúna fór í þann metnaðarríka Laugarnesskóla og lauk síðan gagnfræðaprófi frá Austurbæjarskóla árið 1956.

Á sumrin var Rúna send í sveit. Hún var á Akureyjum á Breiðafirði, austur í Mýrdal og best þótti henni að vera hjá ættingjum sínum á Hala í Djúpárhreppi. Þar naut hún sín, fékk laun fyrir vinnusemi, lærði að lesa náttúru og njóta frelsis sveitarinnar, undurs hestamennsku og horfa til fjallanna. Og á Suðurlandi er himininn stór og faðmar fjöll og fólk.

Þegar Rúna hafði aldur til fór hún í Hjúkrunarskóla Íslands og lauk þaðan námi í mars 1963. Hún starfaði um tíma við Sjúkrahúsið á Akranesi og Sjúkrahúsið í Eyjum og síðan á Landspítalanum í Reykjavík. Síðan fór hún til starfa í Kaupmannahöfn sem veitti henni faglegt veganesti. Hún var á barnadeild Köbenhavns Amts Sygehus í Gentofte og síðan á lyflækningadeild Sönderbro Sygehus. Rúna fékk því bæði innsýn og útsýn í heimi hjúkrunar og spítala ytra.

Hún fór svo til starfa á Barnaspítala Hringsins árið 1965 og starfaði þar til 1967. Rúna var afburðanemandi, hafði í sér fræðslufærni og var ráðinn til að kenna við Hjúkrunarskóla Íslands á árunum 1967 til 1968 og var nemendum sínum eftirminnilegur kennari. Síðar starfaði hún á Heilsuverndarstöðinni í nokkur ár og þaðan fór hún til starfa í Melaskólanum – hinum megin Neshagans. Margir Vesturbæingar muna eftir henni sem natinni, viðmótshlýrri skólahjúkrunarkonu. Öllum tók hún með ljúfmennsku og það var ekki óttaefni að fara til Rúnu í skoðun heldur var hún traustsins verð. Síðustu starfsárin helgaði Rúna sig hjúkrun aldraðra. Hún vann á öldrunardeild á Landakotsspítala um tíma. Á meðan börn hennar voru ung tók hún gjarnan nætur- og helgarvaktir til að hámarka samvistatíma með ástvinum heima. Lengst starfaði hún samfellt á Hrafnistu í Reykjavík. Árið 1998 var hún ráðin til Borgarspítala í Fossvogi og vann þar á gjörgæsludeild þar til sumarið 2000 er hún lét af störfum sökum eigin sjúkdóms.

Hjúskapur og fjölskylda

Eggert Sigfússon varð sálufélagi og eiginmaður Rúnu. Þau voru nánast jafngömul – á milli þeirra var aðeins vika og hann yngri en hún. Eggert missti föður sinn ungur og fjölskylda hans flutti frá Hvolsvelli í bæinn. Hann lenti í sama bekk og Rúna. Henni varð á þessum árum starsýnna á hann en honum á hana. Svo skildu leiðir. En þegar Eggert var við lyfjafræðinám í Höfn átti handboltalandslið Íslands erindi til Danmerkur til að keppa við landslið þarlendra. Íslendingar fjölmenntu á leikinn og Eggert var meðal þeirra. Volkswagenrúgbrauð var leigt og einn farþeganna var Rúna, falleg íslensk stúlka sem Eggert hafði auga fyrir. Þá sá hann hana! Svo hittust þau aftur á myndakvöldi til að rifja upp landsleiksviðburðinn. Og þá sáu þau hvort annað enn betur. Ástin kviknaði og þroskaðist og þau fóru að fara út saman. Þau rugluðu reitum og bjuggu hér í Vesturbænum. Svo höfðu þau samband við prest í Neskirkju og gengu fyrir altari þessarar kirkju til að segja sín hjúskaparjá á jóladegi 1967. Þá hófst hamingjuferð þeirra Rúnu og Eggerts og mikið eiga þau íslenskum handbolta að þakka! En sundið varð þó fjölskyldusportið og börnin þeirra sundkappar.

Þau Eggert eignuðust þrjú börn. Sigríður Anna fæddist í október árið 1968. Hún býr í Noregi og er arkitekt. Maður hennar er arkitektinn og jóladrengurinn Eirik Rönning-Andersen. Þau eiga Ylvu og Frey.

Karítas fædddist svo í mars 1971. Hún er tækniteiknari. Maður hennar er Heiðar Einarsson verkfræðingur. Karítas á þrjú börn. Elstur er Hlynur Sigurðarson og síðan eru Rakel og Einar Atli – Heiðarsbörn.

Rúna og Eggert eignuðust Kristján í ágúst 1973. Hann er arkitekt. Kona hans er Theresa Himmer myndlistarmaður og arkitekt.

Það hefur verð hrífandi að hlusta á fjölskylduna tala um Rúnu, finna fyrir virðingunni sem ástvinirnir tjá vel í hennar garð. Hún ól önn fyrir þeim öllum, var þeim traust og gjöful, glöð og stöndug – og skilaði þeim til lífs og hamingju. Ástvinum og söfnuði senda hollsystur samúðarkveðjur. Þær eru útskriftarárgangur Rúnu. Hega Ólafsdóttir vinkona Rúnu biður um að í útfararræðu sé minnst á að sérstakar samúðarkveðjur séu frá þeim hollsystrum sem búsettar eru erlendis (útskriftarárgangurinn úr Hjúkrunarskólanum).

Minningar um Rúnu

Hvernig manstu Rúnu? Mörg ykkar vitið að alzheimer-sjúkdómurinn herjaði á Rúnu síðustu árin sem sleit tengingar hennar við tilveruna. Það nístir að sjá ástvin sinn tærast upp innan frá, styrka konu veiklast og hverfa svo inn í veröld handan tjáningar og tengsla. Hvernig er hægt að vinna úr þeirri upplifun?

Minningar er hægt að orða, færa í tal og segja frá. Til að sefa sorg er gott að segja sögur. Í því er undur fólgið að gæla við nöfn fólks og segja frá minningu í framhaldinu. Nefndu nafnið hennar og segðu sögu.

Þegar fólk verður fyrir áföllum og sorg leitum við í hæðir. Hvaða kemur þér hjálp? Hvað verður til að styktar þegar við líðum. Orð eru mikilvægur farvegur tilfinninga. Ég legg til að þú notir erfirdrykkjuna hér á eftir til að segja sögu um Rúnu. Hvernig kynntistu henni? Gerði hún þér einhvern tíma gott? Að hverju dáðistu í lífi hennar? Mannstu hvað vel hún hjúkraði bróður sínum? Hún var eins og fjölskyldulæknir, greindi vel, var heima í mörgum hjúkrunar- og lækningagreinum og gat því bent til vegar ef áhyggjufull ættmenn vissu ekki hvað gera skyldi.

Mannstu eftir ferðaflugunni Rúnu – hve mikla gleði hún hafði að fræðast og skoða veröldina. Hún fór meira að segja allan heimshringinn með systurinni Karítas. Og hún sótti til fjalla, ekki aðeins í andlegum skilningi heldur til að njóta, tína ber, draga í sig liti og upplifanir – næra sálina. Og þar sem hún hafði góðan skilning á heilsufæði náði hún í fjallagrös fyrir seyði. Og svo bar hún hollustuna á borð og líka heimatilbúna jógurt sem var misvinsæl. Með heilsuræktaráherslu og fæðuvitund var Rúna var tákn um nýjan tíma, á undan sinni samtíð og hefði notið lífrænu vakningar nútímans. Hún var sem rún heilsuræktar.

Manstu eftir ást hennar á dýrum – einkum hestum? Eða dansáhuganum? Rúna naut hreyfingar, fjörs, gleði og fótfimi. Eggert var kannski ekki tangómeistari en það var gaman að sjá blikið og fögnuðinn í augum hans þegar hann talaði um Rúnu dansara.

Hún las mikið, var sólgin í þekkingu og fylgdist vel með. Hún var sá afburðanemandi að hún hefði orðið framúrskarandi í þeim greinum sem hún hefði ákveðið að stunda, fræðilegum sem verklegum. Rúna var handlægin, listfeng og skapaði með höndum ef hún hélt ekki á bók.

Manstu hve umhyggjusöm hún var? Hún var elsta barnið í systkinahóp og gekkst við ábyrgð sinni. Þegar bróðir hennar veiktist á unglingsaldri var hún reiðubúin að þjóna honum og létta undir með móður og ástvinum. Á þessum tímamótum er vert að þakka óeigingjarna þjónustu hennar á sama tíma og börnin hennar voru ung og hún hafði í mörgu að snúast. Henni var ekki aðeins fagmennska eðlileg heldur knúði mannelska, mannúð og umhyggja hana í störfum. Hún var fyrirmyndar hjúkrunarfræðingur og fyrirmynd í hvernig samskipti fólks eiga að vera og hvers ber að gæta. Rúna var umtalsfróm og bar hag fólks fyrir brjósti, á vinnustað, í fjölskyldu og meðal ástvina. Áttu sögu að segja um það efni?

Manstu hvað hún gerði miklar kröfur til sjálfra sín og hve vel hún reis undir þeim? Hún setti markið hátt í flestum efnum og kröfur hennar gerði hún fyrst til sjálfrar sín. Hún var fyrirmynd í því einnig.

Hef augu til fjalla

Svo horfði hún til hæða. Hún þáði í arf jákvæða lífssýn og lífstrú. Guðstrú á heimili Rúnu var eðlileg og því gat fólkið hennar horft á eftir henni inni óminnið og síðan eilífðina því sálin hennar lifir.

Nú eru skil – Rúna er horfin inn í himin handan fjalls. Og svo máttu trúa að hjálpin kemur frá skapara himins og jarðar. Rúna var tákn um allt hið góða sem Guð gefur. Rúna var fyrirmynd um elskusemi, mannúð og fegurð. Í þeim og hennar anda máttu lifa. 121. sálmur endar með stóru faðmlagi: Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu héðan í frá og að eilífu.

Góður Guð varðveiti Rúnu að eilífu. Guð varðveiti þig – Amen.

Minningarorð við útför i Neskirkju 15. maí, 2013.