Hjálp – hjálpaðu mér!

IMG_0231Hvað bregst fólk við þegar það lendir í lífsháska, t.d. fellur í ískaldan sjó og enginn bátur eða bjarghringur nærri? Ég hef hlustað á fólk lýsa viðbrögðum sínum. Og svo er líka æpt upp í himininn um hjálp.

Lífsópin

Hvað gerir flughrætt fólk þegar það lendir í flugdýfum í óveðri. Ég lenti einu sinni í rosalegu þrumuveðri yfir New York. Eldingar skáru myrk skýin og skruggurnar voru skelfileg nornaöskur. Um tíma var þögn farþeganna alger, nánast eins og í grafhýsi. Engar vélar lentu vegna óveðursins og flugvélin varð að bíða í risastórum flugstrokk yfir borginni. Allar vélarnar hringsóluðu og hentust til og tóku dýfur í öskrandi veðrinu. Þá ærðust nokkur af skelfingu og æptu í verstu kviðunum. Lífsþorstinn, lífsþráin spratt fram með miklum krafti.

Hvað gerir fólk þegar börnin veikjast og eru við dauðans dyr? Ég átti einu sinni dreng á vökudeild sem barðist fyrir lífi sínu. Og nokkur önnur voru á deildinni sem ekki var vitað hvernig reiddi af. Við, foreldrarnir, gengum um stjörf af ótta og bænirnir hrísluðust upp í hvelfingu himinsins. „Guð minn góður gefðu drengnum mínum líf.“ „Guð minn góður hjálpaðu stelpunni minni – ekki taka hana.“

Hvað gerir þegar þú þegar erfiðleikar steðja að þér og þú lendir í óskaplegum aðstæðum sem reyna á þrek, aðstæður, vit, þolinmæði og þrautsegju. Stundum verður álagið lamandi og fólk biður um að þessu megi linna og það geti komist út úr vandanum.

Hvað gerir þú þegar heilsan bilar? Ég hef horft í augu margra sem berjast við krabbamein. Ég bið fyrir mörgum sem eiga við skelfilegan heilsufarsvanda að etja. Hér í kirkjunni er m.a.s. bænastund í hverri viku – á þriðjudögum – þar sem beðið er fyrir veiku fólki. Á ögurstundum reynir á þroska fólks og hver er andleg festa þess. Og um hvað biður fólk? Lækningu, að verkir, mein læknist og að sjúkdómar víki. Fólk vill heilsu, gott líf.

Í hvaða aðstæðum leið þér verst? Hvenær var mest reynt á þig? Hvað gerðir þú þá? Hvernig brástu við? Baðstu annað fólk um hjálp? Hrópaðir þú til guðlegra máttarvalda? Trúir þú að frá Guði sé einhverja hjálp að fá?

Miskunna þú oss

Þessar spurningar, hugleiðingar og minningar eru til að ramma texta dagsins. Jesús var á ferð. Hann var við n.k. endimörk heimsins, þ.e. við samversku landamærin þar sem sómakærir fóru helst ekki. Og við þessi lífsmörk voru menn í lífshættu, tíu líkþráir menn alsettir sárum. Þeir voru menn sem allir forðuðust því sjúkdómur þeirra var hryllilegur og smitandi. Og líkþrá dró menn til dauða. Sjúkir menn rotnuðu eiginlega lifandi. Þeir voru því stórhættulegir, eins og geislavirkir. Fólk óttaðist þá og forðaðist þá fremur en að koma til þeirra. Þessi dauðasveit æpti til Jesú og bað hann að miskunna sér. Líkþráir menn eru sem tákn um allan vanda okkar og heimsins. Þeir æpa á hjálp af því þeir voru í lífsháska. Ekkert gat hjálpað þeim úr þessum nágreipum sem héldu fast og drógu þá niður í grafirnar hægt og örugglega. Hróp þeirra var einfalt en skýrt: „Jesús, meistari, miskunna þú oss!“ Í flestum mesum heimsins er þessi sama bæn beðin. Hún kemur frá þessum mönnum og öðrum sem kölluðu til Jesú: „… miskunna þú oss.“

Ranveruleg bæn?

Heyrum við þessi hróp? Skiljum við þau? Er þetta sem við segjum eða syngjum í upphafi messunnar bara orðagjálfur fólks sem nennir að fara á fætur á sunnudagsmorgni til að fara í kirkju? Er þetta merkingarlaus þula án blóðs, svita og tára? Þurfum við að taka glanspappírinn utan af messusetningunum? Þurfum við að þvo af okkur svolítið af slepju vanans, helgislepjunni líka? Getur verið að það gagnist okkur í vanda og lífi? Já, því allt sem er sagt og tjáð í messunni er um raunverulegt líf, um atburði í þínu lífi, tengist því sem þú ert og því sem þú upplifir. Við megum gjarnan skilja að orðin eru ekki himneska, utan við heiminn og í einhverju dauðhreinsuðu helgirými, heldur varða okkar innri mann, heilsu, samskipti, mat, hreyfingu, hlátur, áföll, flugslys, giftingar, börn – lífið í margbreytileika sínum.

Tíu líkþráir menn stóðu ekki í verklausri pásu við veginn og biðu eftir einhverri skemmtun. Þeir æptu vegna þess að lífi þeirra var ógnað, innan frá, utan frá, félagslega og trúarlega. Þó þeir stæðu þarna lifandi voru þeir samt dauðadæmdir menn. Og þeir tjáðu sín hjartans mál með orðunum: „Miskunna þú oss.“ „Kyrie elison“ eru þessi orð á grísku og til í þúsundum tónverka, kirkjutexta, bókmenntum og menningarefni. Í þessari setningu er orðuð þrá lífsins í landi dauðans. Í Biblíunni hefur miskunn verið heiti yfir hjálp sem fólki veitist til að það geti lifað. Miskunn er ekki eitthvað á himnum heldur á jörðu; varðar mat, hjálp gegn óttaefnum, hjálp í stríðum, náttúruhamförum og þegar börnin deyja, maki ferst, þegar sjúkdómar æða eða villidýr bíta. Að njóta miskunnar er að njóta lífs. Beiðnin um að verða miskunnað merkir að fólk fái heilsu, verði bjargað, fái svalað svengd maga og sálar.

Þakkarleysið

Hinir líkþráu voru á leiðarenda og hrópuðu út úr dauðadeildinni. Og þeir báðu Jesú Krist, um hjálp. Sagan er ekki um hvað eða hvernig Jesús fór að. Sagan er fremur um til hvers lífið er, möguleika í aðkrepptum aðstæðum. Sagan tjáir að Guð heyrir köll, bregst við, svarar fólki og styður það sem er gott og verndar líf. Og mennirnir fóru og í ljós kom við rannsókn að sjúkdómur þeirra var rénandi, sárin voru að gróa, þeir voru heilir. En sagan á sér skuggahlið. Við fáum við líka að vita að 90% gleymdu að þakka fyrir sig. Þeir voru svo fljótir að gleyma að aðeins 10% hópsins kom til að segja takk við Jesú Krist, sem gaf þeim lífið að nýju. Og þakklæti varðar lífsafstöðu.

Hvernig tengir þú?

Miskunna þú mér – hjálp. Það var kall dagsins. Og nú erum við búin að biðja hjálparbænina í messunni í dag. Ef þú hefur lent í lífsháska eða verulega aðkrepptum aðstæðum veistu að þú hefur þurft hjálp. Við túlkum í algeru og róttæku frelsi hvort hjálpin er smá eða stór. Ef við höfum enga trú á guðlegum mætti búumst við ekki við neinum svörum við hjálparbeiðnum. En ef við erum trúarlega músíkölsk getum við séð Guð að verki alls staðar. Mér hugnast slík nálgun betur en hin. Á sjúkrahúsum, í skólum, í samskiptum fólks, í flugvélum, í stríðum og erfiðum aðstæðum er Guð nærri. Miskunna þú – hjálp. Og Guð heyrir og við megum trúa að Guð bregðist við.

Hvernig líður þér? Hefur þú hrópað á hjálp í lífsháska? Hefur þú fengið hjálp þegar ástvinir þínir börðust við sjúkdóma og dauða? Er hjálpin sem þú fékkst sjálfsögð eða guðsgjöf?

Amen.

Hallgrímskirkja 28. ágúst.

Textaröð: A

Lexía: Slm 146

Hallelúja.

Lofa þú Drottin, sála mín.

Ég vil lofa Drottin á meðan ég lifi,

lofsyngja Guði mínum meðan ég er til.

Treystið eigi tignarmönnum,

mönnum sem enga hjálp geta veitt.

Þegar öndin skilur við þá

verða þeir aftur að moldu

og áform þeirra verða að engu.

Sæll er sá sem á Jakobs Guð sér til hjálpar

og setur von sína á Drottin, Guð sinn,

hann sem skapaði himin og jörð,

hafið og allt sem í því er,

hann sem er ævinlega trúfastur.

Hann rekur réttar kúgaðra,

gefur hungruðum brauð.

Drottinn leysir bandingja,

Drottinn opnar augu blindra,

Drottinn reisir upp niðurbeygða,

Drottinn elskar réttláta,

Drottinn verndar útlendinga,

hann annast ekkjur og munaðarlausa

en óguðlega lætur hann fara villa vegar.

Drottinn er konungur að eilífu,

Guð þinn, Síon, frá kyni til kyns.

Hallelúja.

 

Pistill: Gal 5.16-24

En ég segi: Lifið í andanum og þá fullnægið þið alls ekki girnd holdsins. Holdið girnist gegn andanum og andinn gegn holdinu. Þau standa hvort gegn öðru til þess að þið gerið ekki það sem þið viljið. En ef þið leiðist af andanum þá eruð þið ekki undir lögmáli.

Holdsins verk eru augljós: frillulífi, óhreinleiki, saurlífi, skurðgoðadýrkun, fjölkynngi, fjandskapur, deilur, metingur, reiði, eigingirni, tvídrægni, flokkadráttur, öfund, ofdrykkja, svall og annað þessu líkt. Og það segi ég ykkur fyrir, eins og ég hef áður sagt, að þeir sem slíkt gera munu ekki erfa Guðs ríki.

En ávöxtur andans er: kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi. Gegn slíku er lögmálið ekki. En þeir sem trúa á Krist hafa krossfest holdið með ástríðum þess og girndum.

 

Guðspjall: Lúk 17.11-19

Svo bar við á ferð Jesú til Jerúsalem að leið hans lá á mörkum Samaríu og Galíleu. Og er hann kom inn í þorp nokkurt mættu honum tíu líkþráir menn. Þeir stóðu álengdar, hófu upp raust sína og kölluðu: „Jesús, meistari, miskunna þú oss!“ Jesús sá þá og sagði við þá: „Farið og sýnið yður prestunum.“ Þeir héldu af stað og nú brá svo við að þeir urðu hreinir. En einn þeirra sneri aftur er hann sá að hann var heill orðinn og lofaði Guð hárri raustu. Hann féll fram að fótum Jesú og þakkaði honum. En hann var Samverji. Jesús sagði: „Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu? Urðu engir til þess að snúa aftur að gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur?“ Síðan mælti Jesús við hann: „Statt upp og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér.“