+ Þorleifur Stefán Guðmunsson +

Allir fasteignasalar þekkja eða kannast við Þorleif á Eignamiðlun. Hann lagði grunn að vinnutóli fasteignasala, forritinu hefur verið notað við útreikning lána og við sölu. Þau sem hafa unnið í þessum geira samfélagsins vissu að Þorleifur var ábyrgur og natinn. Honum mátti treysta. Ég heyrði nýlega sögu um að fasteignasali var fenginn til að meta fasteign svo hægt væri að bera saman við mat Eignamiðlunar. Honum var sagt að það hefði verið Þorleifur Guðmundsson sem mat. Þá sagði hann. „Ef Þorleifur á Eignamiðlun er búinn að meta, þá verður engu bætt við. Honum má treysta.“ Þetta er fögur umsögn samkeppnisaðila en túlkar afstöðu kollega Leifa til hans. Matið hans Leifa var eins konar hæstiréttur.

Ætt og uppruni

Leifi Þorleifur Stefán Guðmundsson fæddist í Keflavík 1. febrúar árið 1957. Foreldrar hans voru Guðmundur Helgi Gíslason og Guðfinna Jónsdóttir. Bæði voru úr Garðinum á Reykjanesi. Þar bjó Leifi fyrstu árin í blíðviðri og veðurbáli.

Leifi var yngstur í systkinahópnum. Eldri eru Marta, Ingibjörg Jóhanna, Jón og Sigrún. Þau komu í heiminn á sjö árum. Það var því oft mikið fjör í bænum á bernskuárum Leifa. Svo var líka fjöldi barna í Garðinum og Leifi var leiðtogi í barnaskaranum.

Leifi sótti skóla í heimabyggð en eftir landspróf fór hann í Menntaskólann á Laugarvatni. Hann flutti þar með að heiman og varð að treysta sjálfum sér og flétta eigið líf. Honum leið vel á Laugarvatni og bar æ síðan góðan hug til ML en þaðan lauk hann stúdentsprófi árið 1977. Eins og Jón, stóri bróðir hans, hafði Leifi hug á raunvísindum og fór í líffræðina. Hann lauk B.Sc.-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1981.

Líffræðin og Eignamiðlun

Leifi hafði burði, gáfur og getu til að verða góður líffræðingur. Og við hefðum alveg getað ímyndað okkur hann sem frábæran kennara eða öflugan rannsóknarmann í heimi fræðanna. En ævistarf hans varð á öðru sviði. Fyrst starfaði Þorleifur með námi hjá Íslenskum aðalverktökum. Svo hóf hann störf á fasteignasölunni Eignamiðlun í Reykjavík árið 1981 og starfaði við fasteignasölu óslitið til dauðadags. Leifi var sá lukkuhrólfur að vera sæll í starfi og vinnu alla tíð. Hann stóð alltaf með sínu liði í lífinu, í einkalífi, íþróttum og líka vinnulífi. Þegar hann hafði gengið til liðs við Eignamiðlun stóð hann með sínu fyrirtæki, vinnufélögum og verkefnum. Og alla daga var hann sæll í starfi og var í besta starfi í heiminum. Hann skemmti sér og vinnufélögunum með uppátækjum, en það var svona eins og að skilla á leiðinni að markinu, sækja fram og klára sölu. Og við sem fylgdumst með Leifa við að meta, sýna eða ráðleggja við fasteignaviðskipti gátum ekki annað en dáðst að honum. Hann var sérlega farsæll í starfi, kappsamur, marksækinn, ósérhlífinn, vinnusamur, glöggur, kátur og heillyndur. Hann var ávallt ákveðinn í að Eignamiðlun ætti alltaf að vera besta fasteignasalan á Íslandi. Því varð hann þessi frábæri fasteignasali og sómi Eignamiðlunar. Og við megum gjarnan muna að Leifi var á Eignamiðlun í liðlega 35 ár. Það er afar fátítt um menn af hans kynslóð og á hans aldri að hafa verið sælir á sama vinnustaðnum í svo langan tíma. Það sýnir festu hans, heillyndi og traust.

Leifi lauk námi til löggildingar fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala árið 2005 og kenndi nokkur misseri hjá Endurmenntun Háskóla Íslands. Hann lauk prófi frá Matsmannaskóla Íslands og sat í stjórn Matsmannafélags Íslands frá árinu 2004.

Félagsmálamaðurinn

Leifi var sérlega hæfur í mannlegum samskiptum. Hann sótti í glaðan félagsskap og kom víða við sögu. Hann var félagi í Oddfellow-reglunni. Í Leifa bjó líka músk og í tónlistinni varð hann músíkfræðingur á áhugasviðum sínum. Leifi gat haldið lærða fyrirlestra um Peter Gabriel, Genesis, Sigurrós eða einhverja aðra músíkdýrð. Og vinur hans minnist að hann hafi ekki látið trufla sig þó gjaldmælirinn tikkaði ef hann var komin á flug við áhugasaman og Gabrielþyrstan leigubílstjóra. Leifi, sem hafði byrjað tónlistarnám, lærði á fullorðinsaldri að meta sitt eigið raddhljóðfæri og söng í Karlakór Grafarvogs frá stofnun kórsins.

Íþróttamaðurinn

Leifi hafði hreyfiþörf. Strax í bernsku sótti hann í hreyfingu og hvers konar íþróttir. Hann varð snemma stór og kröftugur og þegar hann þurfti að flýta sér með félögum sínum í Garðinu, skellti hann jafnvel einum félaganna á bakið til að sá drægi ekki úr hraða og yfirferð. Leifi stundaði alls konar íþróttir um æfina. Hann var ekkert að sýta ef engir vildu leika. Hann fór bara út á tún og þjálfaði sjálfan sig í alls konar markmannsskutlum. Leifi var m.a. markvörður meistaraflokks knattspyrnufélagsins Víðis í Garði á árunum 1977-1984 og þrátt fyrir allar annir og ómegð skellti hann sér á æfingar suður eftir. Svo var hann liðtækur körfuknattleiksmaður og keppti í meistaraflokki Íþróttafélags stúdenta í mörg ár. Og Leifi hafði gaman af því að geta státað af því að hafa keppt við Barcelona. Það eru ekki margir Íslendingar sem geta laumað slíku inn í karlaraupið. En það var reyndar í körfu en ekki á Camp Nou. Síðari árin æfði hann badminton með börnum sínum og vinum sér til heilsubótar.43

Púlarar og og YNWA

Svo er nú Liverpool sérstakur kapítuli. Og segja verður hverja sögu eins og hún er. Leifi byrjaði sinn feril með því að fylgjast með skyttunum í London, Arsenal. En svo kom hann til sjálfs sín og varð alheill púlari, stuðningsmaður Liverpool. Það er gaman að koma sjónvarpsherbergi Leifa í kjallaranum í Jakaselinu. Það er eins og helgirými, kapella. Margar gerðir af Liverpooltreflum eru þar, bolir af ýmsum árgöngum og áhugavert Liverpooldót. Hann, félagarnir og fjölskyldan fóru í ferðir á Anfield til að hvetja sína menn, hafa gaman, æpa og faðma og kannski stundum tárast svolítið. Svo var stuðningsmannahópur púlara svo elskulegur og rausnarlegur að láta klappa nafnið hans Þorleifs á stein og koma fyrir á Anfiled. Þar á hann bautastein svo lengi sem Anfield lifir. Púlararnir standa saman og ganga auðvitað líka saman. Það er áhrifaríkt og raunar stórkostlegt að hlusta á eða syngja You never walk alone. Og skammtstöfunin YNWA fer á krossinn á leiðinu hans Leifa.

73Nú fer að rofa til, Liverpool lofar góðu. Klopp er maður kraftaverkanna og trúarinnar. Grínarar annarra liða munu ekki halda lengur fram að YNWA standi fyrir setninguna: You never win away! Nú er runnin upp ný tíð. Og við sem sjáum nú á bak Leifa megum trúa að lífið sé skemmtilegt, alltaf séu nýir möguleikar, líka í handaheimi Guðs. Leifi, sem alltaf var í Liverpooltreyju – eins og þið sjáið dæmi um í sálmaskránni – er vísast kominn í glitrandi treyju og farinn að verja mark með himneskum púlurum. Lífið er ríkulegt og undursamlegt þeim sem þora að sjá meira en efnið, hafa næmni fyrir himneskum húmor og trúa gleðifréttum Guðs. Þess vegna þori ég að sjá Leifa í ljósi eilífðar, í nýrri treyju, en ég held að hann þurfi engan trefil!

Inga og hamingjan

inga-og-leifi-2Leifi var láns- og hamingjumaður í einkalífi. Inga var honum dásamlegur maki sem hann gat alltaf treyst, hafði húmor fyrir honum, studdi hann og styrkti. Hún var tilbúin að reka hið stóra heimili þeirra og Leifi kunni að meta sína frú. Það var vermandi að heyra hvernig Leifi talaði um hana Ingu sína. Í því er hann fyrirmynd börnum sínum, vinum og öllum eiginmönnum um hvernig ræktuð ást er í framkvæmd.1

Þau Inga sáu hvort annað hjá vinum og það var ekki logandi ást við fyrstu sýn, en eitthvað gerðist við aðra sýn og því betur sem þau horfðu á hvort annað þeim mun betur sáu þau manngæðin sem rímuðu svo vel hjá þeim. Og eldurinn þeirra skíðlogaði til hinstu stundar. Þau Þorleifur og Ingibjörg Sigurðardóttir gengu í hjónaband 6. ágúst 1983 og bandið þeirra trosnaði aldrei. Fyrst bjuggu þau í kjallaranum við Flókagötu, hjá foreldrum Ingu, þeim Audrey og Sigurði. Svo fóru þau um tíma inn í Hlíðar, í Eskihlíð 11.

Engjaselið

Þar á eftir tóku við hamingjuár í Engjaselinu. Þau Inga bjuggu í einstöku samfélags- og kraftaverkahúsi ef trúa má frásögum Leifa. Það var og er gaman að hitta Engjaselsfólkið á heimili Ingu og Leifa, svo djúp vinátta bast milli þessara barnafjölskyldna á spírunartíma í lífi þeirra. Konurnar urðu vinkonur og þær Engjaselssystur hittast enn. Karlarnir léku saman við börnin úti og Leifi spilaði við íbúana körfu úti á flöt. Svo áttu karlarnir sér sameiginlegt fyrirtæki. Þeir komu sér niður á stórkostlegar aðferðir við að vinna í getraunum. Þeir hittust á fimmtudögum og skemmtu sér við að fylla út seðlana. Og þegar félagarnir í Tippmilljónafélaginu höfðu unnið allt sem hægt var að vinna með góðu móti héldu þeir áfram að grínast og glensast. Og börnin urðu félagar í þessu góða og gjöfula húsi.

Börnin og afkomendur

Börn Þorleifs og Ingibjargar eru fimm.

Elstur er Sigurður James sem kom í heiminn í desember árið 1980. Kona Sigurðar er Ólöf Birna Margrétardóttir. Börn þeirra eru Ingibjörg Soffía (2009), Stefán Daði (2011) og Margrét Birta (2013).

Elín, eina dóttirin í barnahópnum, fæddist í júlí árið 1984. Hennar maður er Pétur Rúnar Sverrisson. Þau eiga Ásdísi Ösp (2007) og Alexöndru Fjólu (2010).

Kári er tvíburabróðir Elínar. Bjarki er vormaðurinn í hópnum. Hann kom í heiminn í mars 1993. Og Bjartur rekur lestina. Hann er vetrarmaður eins og Sigurður og fæddist á nýju ári, í janúar, árið 1995.82

Þegar þessi stóri barnahópur Ingu og Leifa hafði sprengt af sér íbúðina í Engjaselinu festu þau kaup á Jakaseli 29 og fullgerðu. Þar varð mikil og góð mannlífshöll og miðstöð stórfjölskyldunnar. Þangað koma börnin frá útlöndum eða til fjölskyldufunda. Og þar ríkir andi Leifa og Ingu.63

Minningarnar um Leifa

Hvernig manstu svo Leifa? Manstu hve kátur hann var? Alltaf var stutt í sprellið. Í honum bjó elskulegur og áreitnislaus húmor. Hve mörg ykkar urðu fyrir glensi frá honum? Ég þori eiginlega ekki að biðja ykkur að rétta upp hendur – en margar gætu farið á loft!

Munið þið hve umtalsfrómur og tillitssamur Leifi var ávallt? Hann lagði gott til allra og hafð lag á að lægja öldur. Af því að hann var svo hlýr og góður fyrirgafst honum góðlátlegt símaat. Smáleikrit eða gleðisveifla varð til að efla vinnustaðamóralinn og hleypa kæti í vinahópinn og fjölskyldulífið.

Leifi efldi fólk. Hann hafði gott lag á börnum og hafði áhuga á fólki á öllum aldri. Mannvirðingin skilaði honum einstökum árangri í störfum í flókinni og krefjandi vinnu við fasteignakaup, þar sem höndlað er með æfitekjur fólks, lán þeirra eða ólán. Mannvirðing Leifa var ómetanlegur grunnur í starfi hans. Hann var alltaf ábyrgur, gerði eins vel og hann gat og vildi tryggja að fólk nyti réttra upplýsinga og kjara og gæti tekið upplýstar ákvarðnir í stóru málum lífsins.

Manstu eftir útvistarmanninum Leifa eða sumarbústaðakarlinum? Manstu eftir hve góður kennari hann var? Sérðu fyrir þér brosglottið hans Leifa? Manstu hve fljótur hann var að ljúka því sem hann vann við? Manstu hve gaman Leifi hafði af að taka hluti sundur, en kannski síður að setja saman þegar hann var búinn að skilja snilld gangverksins. Manstu eftir Leifa í miðahallæri í Liverpool? Manstu hve hugaður hann var? Manstu að Leifi sagði óhikað að hann hafði bestu vinnu í heimi? Manstu æðruleysi hans í lífinu og hvernig hann lengdi í lífi sínu með lífsafstöðu sinni? Manstu eftir hve snöggur Leifi var þegar fólk notaði málið markalaust? Að þau, sem sögðu að eitthvað væri ógeðslega gott, fengu strax spurningu hvort það væri virkilega svona vont! Manstu eftir Leifa á tónleikum og hve glaður hann gat orðið að fá óvænt miða á Peter Gabriel? Manstu hvað hann gat verið ráðagóður og ráðhollur? Jafnvel níu ára guttinn sagði örvæntingarfullri systur sem hafði lent í vondum málum: „Það er alltaf best að segja satt.“ Og það iðkaði hann síðan sjálfur.

Garðsmaraþonið og Guðsengið

Og nú er hann farinn. Þegar Leifi var strákur í Garðinum var hann fullur af hugmyndum um möguleika lífsins og hvað hann gæti gert og afrekað. Hann heillaðist af afreksmönnum, t.d. mönnum sem gátu hlaupið maraþon. Og Leifi gat allt sem hann ætlaði sér – næstum allt. Pabbi hans hafði slegið túnið og var búinn að raka í garða. Leifi, sem átti hjól með hraða- og lengdarmæli hljólaði ysta hringinn á túninu og mældi nákvæmlega vegalengdina. Svo reiknaði hann hvað þyrfti að hlaupa marga hringi kringum túnið til að ná að hlaupa alla 42195 maraþonmetrana. Og af því að Leifi var leiðtogi barnanna í Garðinum fór hópur af krökkum með honum til að hlaupa Garðsmaraþonið mikla og í boði Leifa. Svo hljóp hópurinn af stað en þeir taka í kílómetrarnir þegar búið er að hlaupa einn eða tvo klukkutíma. Svo var aðeins einn eftir – Leifi langhlaupari. Systur hans báru í hann vatn og næringu og áfram hélt hann. Hann hætti ekki fyrr en hann hafði hlaupið rúmlega 42 kólómetrana. Þannig var Leifi. Hann hljóp til enda. Og nú er þessi mikli maraþonmaður gæðanna hlaupinn inn í eilífðina. Alltof snemma, alltof hratt og við sjáum á eftir honum inn á Anfield eilífðar. Það er sóun að Leifi skuli vera farinn, mikið harmsefni öllum sem honum tengdust.

Inga hans, börnin, systkinin, barnabörnin og allir vinirnir eiga ekki lengur í honum styrk, gleði og stuðning. En trúmönnum er gott að vita hann er á góðum leik, á góðum velli og í góðum hóp. Leifi skilur eftir sig stórkostlegar minningar – hversu ljúf-sárar sem þær eru við skilin. Og hann verður þar ekki einn – hann gengur ekki einn – því Guð gengur með okkur. Og því getum við sagt og sungið að við munum aldrei ganga ein.

Guð geymi Leifa og varðveiti þig og hjálpi þér til að njóta hvers dags, því allt er að láni úr eilífiðinni. Amen

Óli Rúnar Ástþórsson getur ekki verið við þessa útför og biður fyrir kveðjur sínar. Sömuleiðis hefur mér verið falið að bera ykkur kveðju frá Sossu og Margréti Sif í Gautaborg.

Bálför. Jarðsett í Sóllandi. Erfidrykkja á Kjarvalsstöðum.