
Lovísa var traust og hlý. Þegar ég kynntist Lovísu, börnum hennar og fjölskyldu fylltist ég gleði og þakklæti yfir hlýjunni í samskiptum, virðingu í tengslum og samstöðu hennar með fólki og góðu mannlífi. Þegar maðurinn hennar Lovísu, Jón Pálmi Þorsteinsson, lést fyrir liðlega þremur árum íhuguðum við í útför hans trú og tengsl. Og traust eða skortur trausts er aðalmál í lífi allra, í samfélagi og í vef heimsbyggðarinnar. Einn merkasti sálfræðingur Bandaríkjamanna á tuttugustu öld, Erik Eriksson, setti fram merka kenningu um traust, og sú viska hafði mikil áhrif í fræðaheiminum og hafði áhrif á uppeldismál, skólaskipan, sálfræðimeðferð, kirkjustarf og aðrar greinar og víddir mannheima. Erikson dró saman efni úr umfangsmiklum rannsóknum og hélt fram að til að barn njóti eðlilegs þroska þurfi það að hafa tilfinningu fyrir að andlegum og líkamlegum þörfum þess sé fullnægt og að veröldin sé góður og viðfelldin staður. Þegar að þessara þátta er gætt getur orið til frumtraust – sem er afstaða til lífsins, fólks, veraldar og lífsins.
Manstu eftir hve Lovísu var annt um að öllu fólkinu hennar liði vel? Mannstu að henni var velferð fólks aðalmál? Hún vildi að líf ástvina hennar væri traust og hamingjuríkt. Traust er veigamikill þáttur í trú – og trú verður aldrei skilin, ræktuð eða þroskuð nema í anda trausts. Trú deyr í vantrausti. Og þegar dýpst er skoðað er mál Guðs að tryggja traust fólks til að lífið lifi og þroskist – að allir fái lifað við óbrenglaða hamingju. Það var erindi Jesú Krists í veröldinni að treysta grunn tilveru manna og alls lífs – að menn megi lifa sem börn í traustu samhengi.
Upphafið í Þingholtunum
Lovísa Bergþórsdóttir fæddist í Reykjavík inn í haustið þann 7. september, árið 1921. Og hún lést þann 14. ágúst síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Bergþór Vigfússon húsasmíðameistari og Ólafía Guðrún Einarsdóttir, húsfreyja. Hún var nefnd Sigríður Lovísa við skírnina, en það voru svo margar Sigríðar fyrir í fjölskyldunni, að hún notaði helst Lovísunafnið. Sigríðarnafnið hvarf vegna notkunarleysis. Fjölskylda Lovísu bjó í húsinu nr. 12 við Þingholtsstræti, rétt hjá Menntaskólanum í Reykjavík og KFUM-og K. Bræður Lovísu voru: Sigursteinn, sem lést ungur, og Einar Sigursteinn, en hann lést fyrir þrjátíu árum. Einar var árinu eldri en Lovísa.
Miðbærinn og Þingholtin voru skemmtilegur uppvaxtarreitur á milli-stríðsárunum. Lovísa naut góðra uppvaxtarskilyrða, hlýju og kærleika. Hún fylgdist vel með umhyggju foreldranna fyrir samferðafólki og hve vökul móðir hennar var gagnvart kjörum og aðstöðu fólks. Og Lovísa lærði gjafmildi, umhyggju og ábyrgð í foreldrahúsum. Hún fór stundum með lokuð umslög út í bæ til aðkreppts fólks og vissi að í þessum umslögum voru peningar, sem móðir hennar sendi. Og alla tíð síðan vissi Lovísa að fjármunir væru til eflingar heildarinnar og vandi annarra væri ekki einkamál þeirra heldur samstöðumál og tilkall. Þökk sé Lovísu og hennar fólki fyrir lífsvörslu þeirra – trausta framgöngu í þágu lífsins.
Lovísa þurfti ekki langt til að sækja skóla. Miðbæjarskólinn var skammt frá og Lovísa skokkaði niður og suður götu. Hún var námfús og vildi læra meira en grunnskólinn gat veitt henni. Og þegar Lovísa hafði aldur til fékk hún inni í öðrum skóla í nágrenninu, Verslunarskóla Íslands. En þá urðu skil, sem höfðu afgerandi áhrif á skólagöngu Lovísu. Móðir hennar missti hægri handlegg vegna krabbameins og heimilis- og fjölskyldu-aðstæður urðu til þess að Lovísa sagði sig frá námi, tók við heimilinu og ýmsum verkefnum sem á hana voru lögð. Hún annaðist móður sína vel og til enda. Lífsverkefnin tóku við og veigamikill þáttur þeirra tengdust Jóni Pálma Þorsteinssyni. Og þá erum við komin að ástalífinu.
Jón Pálmi Þorsteinsson
Þau Lovísa og Jón sáumst ekki á rúntinum í Lækjargötu í Reykjavík eða á síldarplani norður á Siglufirði heldur á Oxfordstreet í London! Margir hafa farið á Oxfordstreet í verslunarerindum, en fáir hafa verið eins lánsöm og þau Lovísa og Jón að finna hvort annað á þeirri merku verslunargötu í heimsborginni.

Það var mjö gaman að sjá ljómann í augum Lovísu þegar hún sagði okkur söguna um fyrsta fund þeirra. Þau Jón voru á sama hóteli eins og ástmögurinn á himnum hefði laðað þau saman með snilldaráætlun. Og Lovísa mundi líka nákvæmlega hvernig Jón hafði verið klæddur og þekkti hann jafnvel á fötunum. Svo kynntust þau, fundu traustið, festuna, í hvoru öðru, ástin kviknaði og þau luku árinu 1950 með því að ganga í hjónaband, þann 30. desember. Síðan áttu þau stuðning og voru hvors annars í 65 ár. Það er ekki sjálfsögð gæfa eða blessun. En þau ræktuðu traustið og virðinguna og það er gæfulegt veganesti til langrar samfylgdar.
Þau Jón og Lovísa nutu láns í fjölskyldulífi sínu og eignuðust tvö börn og afkomendafjöldinn vex þessi misserin. Pálmi er eldri og fæddist í október árið 1952. Pálmi er læknir og prófessor í fræðum sínum. Kona Pálma er Þórunn Bára Björnsdóttir, myndlistarmaður. Þeirra börn eru Lilja Björnsdóttir, Jón Viðar, Vala Kolbrún og Björn Pálmi.
Lilja er læknir og hennar maður er Einar Kristjánsson hagfræðingur. Þau eiga börnin Kristján, son Einars af fyrra sambandi, Lilju Þórunni, Sóleyju Kristínu og Birtu Lovísu.
Jón Viðar er hagfræðingur og kona hans er Lára Kristín Pálsdóttir, sérfræðingur í stjórnarráðinu. Börn þeirra eru Björk, Freyja, Lilja Sól – af fyrra sambandi Láru – og Hallgerður Bára.
Eins og mörg önnur í fjölskyldunni er Vala Kolbrún læknir. Hennar maður er Jón Karl Sigurðsson, stærðfræðingur. Þau eiga Pálma Sigurð.
Björn Pálmi Pálmason er tónlistarmaður og tónsmíðameistari eins og kona hans einnig. Hún heitir Veronique Vaka Jacques.
Jóna Karen er yngra barn þeirra Jóns og Lovísu. Hún er vorkona, fæddist í maí 1955. Hún er hjúkrunarfræðingur. Hennar maður er Ólafur Kjartansson, læknir og prófessor. Þau eiga þrjú börn: Lovísu Björku, Kjartan og Davíð.
Lovísa Björk er læknir.
Kjartan er rafeinda- og verkfræðingur.
Davíð er læknir og kona hans er Ramona Lieder, líftæknifræðingur. Og það er ánægjulegt að segja frá því að þau eru nýgift og sögðu sín já í Þingvallakirkju á laugardaginn síðasta. Hjónavígsludag þeirra er alltaf hægt að muna – því hann er menningarnæturdagurinn, Reykjavíkurmaraþondagurinn. Börn þeirra Davíðs og Ramonu eru Anna Lovísa og Ólafur Baldvin.
Lovísa helgaði sig heimilinu og börnum sínum og velferð fjölskyldunnar var henni aðalmál. Þegar börnin voru fullorðin fór Lovísa að starfa utan heimilis, og þá við lyfjagerð og umbúðaframleiðslu. Eftir að eiginmaður hennar féll frá hugsaði Lovísa um sig sjálf þar til fyrir tæpu einu og hálfu ári að hún flutti frá Tjarnarstíg 3 og á hjúkrunarheimilið Sóltún og naut þar góðrar umönnunar, sem hér með er þökkuð.
Minningar
Við skil er mikilvægt að staldra við og íhuga. Við fráfall ástvinar er ráð að kveðja, að fara yfir þakkarefnin, rifja upp eigindir og segja eftirminnilegar sögur. Og varðveita svo í huga og lífi það sem við getum lært til góðs og miðla áfram í keðju kynslóðanna. Og það er svo margt sem Lovísa skildi eftir til góðs og í lífi fólksins hennar, ykkar sem hér eruð.
Manstu gæsku hennar? Hve kærleikur og umhyggja hennar var innileg? Lovísa var ástrík móðir, sem umvafði fólkið sitt og heimili kyrrlátum friði. Hún lagði börnum sínum í huga metnað, dug, vilja til náms, vinsemd til fólks og virðingu fyrir lífinu. Lovísa kenndi þeim visku – t.d. að ekki væri hægt að gera meiri kröfur til fólks en það stæði undir. Hver og einn yrði að gera eins hægt væri, en meira væri ekki hægt að krefjast.
Manstu hve fallega og vel Lovísa talaði til fólks og blessaði? Manstu hve Lovísa ávann sér virðingu? Og manstu að hún þorði og gat talað um tilfinningaefni og trúmál? Það er ekki öllum gefið og þakkarefni þegar fólk hefur í sér þroska til slíkra umræðna. Lovísa var óspör á að segja börnum sínum og ástvinum sögur frá fyrri tíð og var góð og gjöful sagnakona. Manstu skerpu Lovísu og greiningargetu hennar? Og svo var hún fjölhæf. Og Lovísa staðnaði ekki, hún hélt áfram að hugsa um þjóðmál og velferðarmál samfélagsins og varð róttækari með árunum. Mannvirðing bernskuheimilisins og umhyggja fyrir velferð fólks varð Lovísu leiðarvísir um hvað og hver gætu orðið fólki, menningu og þjóð til gagns.
Manstu hve skemmtileg Lovísa var? Hve bjartsýn og ljóssækin hún var? Svo hafði hún þokka, útgeislun, gætti vel að fötum sínum og klæðnaði. Og var afburða húsmóðir og rækti hlutverk sín og verkefni af alúð. Henni lánaðist að gera mikið úr takmörkuðum efnum. Og hún tók viðburðum lífsins með æðruleysi. Hún var góður kokkur. Lovísa talaði einhvern tíma um að hún sæi eftir að hafa ekki eignast börnin fyrr, til að hafa notið samvisanna enn lengur! En vísast hefði sagan þá orðið öðru vísi, og Jóna Karen og Pálmi ekki orðið til heldur eitthvað annað fólk! En hún naut samvistanna við fólkið sitt lengi og hlúði að því alla tíð.
Manstu dýravininn Lovísu? Þegar börnin hennar og fjölskyldur þeirra voru að flytja til útlanda fengu þau Jón hundinn Ponna að gjöf. Hann var nánast himingjöf. Og samstillt voru þau Lovísa um að gleðja Ponna og veita honum hið besta samhengi. Hann varð þeim líka góður heilsuvaki því þau stunduðu hundagöngur og fóru skemmtiferðir saman með Ponna.
Manstu lestrarkonuna sem fylgdist vel með? Hún las t.d. bók um Hillary Clinton og aðrar slíkar á ensku! Lovísa hafði áhyggjur af fátækt heimsins og stríðsrekstri og vildi leggja sitt af mörkum til að sem flestir nytu lífsgæða og friðar. Hún var friðarsinni og verndarsinni í afstöðu.
Inn í eilífðina
Nú eru skil. Leyfið myndunum að þyrlast upp í huga. Lovísa brosir ekki framar við þér, grennslast eftir líðan þinni eða fer út í garð til að lykta af angandi rósum. Hún fer ekki framar upp að Esjurótum til að hleypa hundi og tjáir þér ekki framar þakklæti. Lovísa átti gott og gjöfult líf, sem er þakkarvert. Nú er hún horfin inn í traustið sem ekki bregst, rósagarð himinsins. Hún fer blessuð og þakkir ykkar er ilmur eilífðar.
Guð geymi Lovísu og varðveiti um eilífð. Guð geymi þig og gefi þér traust og trú.
Amen.
Útför Lovísu var gerð í kyrrþey frá Fossvogskapellu fimmtudaginn, 23. ágúst, 2018. Bálför og því jarðsett síðar í duftgarðinum Sóllandi, K – 10 – 10. Erfidrykkja í Hótel Radisson Blu við Hagatorg.

Bjarni Bragi fór inn í Greyhound-rútu í Kaliforníu, bauð góðan daginn og kom sér vel fyrir. Svo hófst ferðin og Íslendingurinn hreifst svo af öllu sem skynfærin færðu til heilans að hann stóð á fætur og byrjaði að syngja. Og allir í rútunni heyrðu og einn kallaði: „Hey, listen to the tenor.“ Þetta er heillandi mynd. Gestakennarinn í Pomona-College svo snortinn af undri veraldar að hann söng. Og þannig þekkjum við mörg Bjarna Braga Jónsson, hæfileikamann, tilfinningaríkan snilling sem hló, orðaði viðburði lífsins, túlkaði en stundum þurfti hann bara að syngja. Og börnunum hans þótti þetta ekki smart þegar þau voru yngri. Einu sinni barst söngur Bjarna Braga í sumarblíðunni um austurhlíðar Kópavogs. Og krakkarnir hættu leik og sperrtu eyru: „Er þetta pabbi þinn?“ Svörin komu seint og ógreinilega. Og svo þegar hagfræðingur Seðlabankans kom inn í strætó á leið í vinnuna bauð hann auðvitað góðan daginn. En börnum hans þótti tryggara að fara á afasta bekkinn og hafa hægt um sig því fyrr en varði hafði Bjarna Braga lánast að hleypa farþegunum í umræðu um stórviðburði í pólitíkinni. Og ef tilfinningin var rétt breyttist strætó á leið úr Kópavogi niður í bæ í ómhöll á hjólum. Tilfinningar kalla á söng. Og Bjarni Bragi var þeirrar gerðar að hann leyfði tilfinningum heimsins að hríslast um sig. Og við sem kynntumst honum þökkum litríki hans, gáfur, afrek, húmorinn, snilld, djúpsækni, þor og elskusemi. Í öllu var hann stór – var hástigssækinn – eins og hann orðaði það sjálfur.
Og þá er komið að Rósu og fjölskyldu. Þau voru hátt uppi þegar þau kynntust í Hvítárnesi á Kili. Bjarni Bragi efndi til hálendisferðar Æskulýðsfylkingarinnar og þar var Rósa Guðmundsdóttir með í för og systur hennar einnig. Rósa hefur alla tíð séð gullið í fólki og heillaðist af þessum káta og fjölfróða syngjandi formanni. Tilhugalífið var stutt og þau Bjarni Bragi og Rósa gengu í hjónaband árið 1948 þegar hann var 19 ára og hún 18. Þau voru því búin að vera hjón í 70 ár þegar Bjarni Bragi fór inn í ómhús eilífðar. Heimili þeirra Rósu og Bjarna Braga var hamingjuríkt. Þau stóðu alla tíð þétt saman, studdu hvort annað og virtu. Og það var hrífandi að sjá hve hrifinn Bjarni Bragi var af Rósu sinni, sem endurgalt tilfinningar hans og gætti hans og styrkti allt til enda.
Þau Rósa nutu nutu barnláns. Jón Bragi var elstur, fæddist árið 1948. Hann var frumkvöðull eins og hans fólk, var ekki aðeins afburða kennari í efnafræði, prófessor við Háskola Íslands heldur höfum við mörg notið hugvits hans í notkun þorskafurða í smyrslum frá Pensími, sem hann stofnaði. Bjarni Bragi minnti son sinn gjarnan á að móðir hans hafi verið hans fremsti stuðnings- og sölu-aðili í upphafi. Fyrri kona Jóns Braga var Guðrún Stefánsdóttir og seinni kona hans var Ágústa Guðmundsdóttir. Jón Bragi varð bráðkvaddur árið 2011. Þeir feðgar og nafnar voru nánir, báðir fjölfræðingar og skoðuðu flest mál sjálfstætt. „Ef ég þarf eitthvað get ég alltaf leitað til pabba“ sagði Jón Bragi.
Heimilislífið var glaðvært. Bjarni Bragi studdi Rósu í námi og störfum og mat mikils kennslustörf hennar. En hann gætti þess vel að greina að trúnaðarmál í bankanum og heimalífið. Þegar gengisfellingar dundu reglulega yfir íslenskt samfélag spurði Rósa hann einhvern tíma af hverju í ósköpunum hann hefði ekki sagt frá að fella ætti gengið. Það hefði nú verið hentugt að geta keypt eldavél eða búshluti. Þá hló Bjarni Bragi hjartanlega og sagði að það mætti hann ekki. Og þannig var hann gagnvart fólkinu sínu, vinnunni og veröldinni – heiðarlegur, ábyrgur og siðlegur. Á heimili Bjarna Braga var ekki hægt að merkja yfirvofandi gengisfellingu.
Hvernig manstu Bjarna Braga Jónsson. Manstu hve skemmtilegur hann var? Oft fyndinn en alltaf hnyttinn! Djarfur ræðumaður. Manstu vinsemd hans og glettnina, áhugann og duginn? Manstu hve góður hagfæðingur hann var? Manstu einbeitni hans, að hann gat lesið námsbók um leið og hann var á kafi í barnableyjum. Manstu íslenskuhæfni hans? Svo var hann konungur minningagreinanna. Vissir þú að að Bjarni Bragi magnaði alla ungu hagfræðingana þar sem hann var, umgekkst þá sem jafningja og hvatti til dáða. Hann var ekki aðeins veitull í fræðasamhenginu heldur líka sem kollegi. Manstu ættfræðiáhuga Bjarna Braga og víðfeðma og langsækna þekkingu á tengslum og ættum. Og hann var ekki lengi að rekja saman ættir og ekki höfðu við fyrr kynnst á sínum tíma en hann var búinn að tengja. Manstu hve vel Bjarni Bragi var að sér í tónlist og hvernig músíkin liðaðist í öll fræði og kryddaði allt líf? Hann söng Schubert í Vín og ameríska og jafnvel skoska slagara í Kaliforníurútu. Manstu fræðafang hans, hve vítt það var? Mér þótti skemmtilegt að tala við Bjarna Braga um guðfræði. Hann var gagnrýninn trúmaður og við vorum hjartanlega sammála um bókstafshyggju og trúarlega grunnfærni. Hann var vel lesinn og lagði sig eftir helstu straumum og stefnum í guðfræði rétt eins og öðrum greinum. Og á fyrri parti ævinnar velti hann vöngum yfir hvort hann hefði átt að verða við hvatningu sr. Jakobs Jónssonar í Hallgrímskirkju um að læra til prests því þjóðin þyrfti besta fólkið í prestastétt. Svo var Bjarni Bragi sinn eiginn lögfræðingur, hann kunni að leita að og lesa lagatexta. Manstu hve reglusamur hann var? Sástu einhvern tíma fjölskyldumyndabækurnar og hve vel þær voru gerðar og í þær raðað? Manstu hagyrðinginn Bjarna Braga og orkti hann jafnvel um þig? Hann ljóðaði jafnvel til dóttur sinnar einu sinni í útför og bað um að hún gerði duftkerið hans. Og þessa vel sniðluðu bón má sjá aftan á sálmaskránni. Og við henni verður orðið. Austfirska smáblómið við hlið vísunnar er verk Rósu. Manstu hve opinn og spurull Bjarni Bragi var? Spurði hann þig einhvern tíma hvernig gengi í ástalífinu? Stundum setti hann fílterarna til hliðar til að tala sem beinast og greiðast! Og manstu hestamanninn á Seljum á Mýrum? Manstu vininn Bjarna Braga og hve vel Rósa og hann ræktuðu vini sína?
„80 ára og heldur uppá 1500 sjósund með því að synda sjósund við Nauthólsvík í Reykjavík.“ Þetta var yfirskriftin á fréttavef á vefnum fyrir einu og hálfu ári síðan. Haukur hafði að venju farið í Nauthólsvík, hitt félaga sína og vini. Svo fór hann í sjóinn og synti tvö hundruð metra. „Það er stórkostleg tilfinning“ sagði hann fréttamanninum og upplýsti að hann hefði byrjað sjósund vorið 2008. Hann hefði langað til að athuga hvort hann gæti farið í svo kaldan sjó og hefði byrjað á því að fara í sjóinn í eina mínútu. En svo hefði tíminn lengst og hann hefði farið að skrifa hjá sér þegar hann hefði farið í sjóinn og líka hvert hitastigið væri. Og svo var hann búinn að synda 1500 skipti þegar blaðamaðurinn ræddi við hann.
Margrét var fædd 17. apríl árið 1964. Hún var barnlaus og lést árið 2010. Agnes fæddist nákvæmlega tveimur árum á eftir systur sinni, eða 17. apríl, 1966. Hennar maður erÞórir Borg Gunnarssyni. Börn Agnesar eru Sara Borg Þórisdóttir og Haukur Borg Þórisson. Haukur og Málfríður skildu.
Haukur mat Rögnu sína mikils, vináttuna við hana, hæfileika hennar og getu, sem hann dáði. Og þökk sé Rögnu fyrir hve gott heimili hún bjó Hauki og virti þarfir hans og uppátæki. Og studdi hann og styrkti allt til enda.
Hlaupin voru Hauki heilsurækt og lífgjafi þegar hann greindist með krabbamin árið 2005. En þegar hann fékk svo lungnamein varð Haukur að hætta að spretta úr spori. Þegar ein leið lokast geta aðrar opnast – ef fólk er opið og þorir að breytast. Haukur hafði fyrr orðið að breyta í lífinu, breyta um starfsvettvang og hafði glímt við breyttar hjúskaparaðstæður. Þegar lungun voru orðin veil vissi hann að hann yrði að bregðast við og vinna að heilsurækt sinni. Þá gerði hann tilraunina með sjóbað. Og böðin, trúin á gæði þeirra og góður félagsskapur varð honum til eflingar. Haukur var mikils metinn heiðursfélagi í söfnuði sjóðbaðsfólksins. Það var sérstök heiðursstaða hans að fá heitt súkkulaði í heita pottinn í dýrlegum glæsibolla sem bara útvaldir nutu. Morgunblaðið birti einu sinni mynd af Hauki vera skenkt í bolla og þið getið gúglað Hauk á vefnum og skoðað myndirnar – þá sjáið þið skemmtilegheitin.
Og ef sjóböðin minna á skírn minna þessar skenkingar á kirkjulega altarisgöngu. Þegar Haukur gat ekki lengur skokkað tók hann til við fjallgöngur. Hann gekk á Hvannadalshnúk þegar hann var sjötugur, sem tjáir hve vel hann var að manni þrátt fyrir rosalega krabbameinsmeðferð. Síðar gekk hann á Heklu, fór yfir Fimmvörðuháls og gekk Laugaveginn úr Landmannalaugum í Þórsmörk. Og oft fór hann á Esjuna og hundurinn Bubbi rölti stundum með honum. Og Haukur fór jafnvel einn á gamlárskvöldi til að geta – frá besta mögulega sjónarhorni – notið ljósadýrðar kvöldsins. Svo gekk hann á skíðum yfir Drangafjökul. Heilbrigð sál í hraustum líkama. Haukur vissi, að hann gat stuðlað að heilsubót og varð lengri og betri lífdaga auðið en annars hefði orðið. Haukur vissi um heilsumátt ofurfæðis og þau Ragna týndu á hverju hausti mikið af bláberjum til að eiga í heilsudrykki vetrarins, sem Haukur gerði af þekkingu og list.