Kraftaverkið 1. maí

Dagur verkalýðsins, fyrsti maí, er í mínum huga dagur undra og stórmerkja. Kröfuspjöld, þungur göngutaktur eða hávaði ræðumanna eru ekki miðja minninga minna, heldur kaffipartí sem móðir mín og vinkonur hennar stóðu fyrir. Ilmur fyrsta maí er blanda af kaffikeim og kökulykt. Hljóð dagsins eru blanda af bollaglamri og hlýjum samræðum. Birtan, þessi dásamlega sólarbirta maíbyrjunar. Kraftaverkið varð í Betaníu, á horni Laufásvegar þar sem nú er safnaðarheimili Fríkirkjunnar. 

Aðfangadagur fyrsta maí

Seinni hluta apríl var mamma í önnum við bakstur, hringdi út og suður, talaði við félagskonurnar, vinkonur sínar í Kristniboðsfélagi kvenna. Að kvöldi 30. apríl fór öll fjölskyldan með alls konar varning niður í Betaníu. Kökur voru bornar inn, stólar færðir og borð dúkuð. Alltaf undraðist ég og laðaðist að hinum dularfullu og seiðmögnuðu myndverkum Betaníu. Þarna var stór mynd af litlum börnum, annað var hvítt, vestrænt og hitt kínverskt. Þau sátu á himnesku engi með dásamleg hús í baksýn og bentu á Jesúmynd. Þetta var merkileg mynd, með mynd í mynd, sem hafði að geyma predikun, sem Lúther hefði glaðst yfir, “bendir til Jesú.” Svo voru á ræðustólsveggnum líka einkennileg spjöld með kínversku letri, sem ég botnaði ekkert í. Ég var þó viss um að textinn væri hákristilegur.

Hið himneska hlé

Svo rann hasardagurinn upp. Mamma fór snemma og allar samstarfskonur hennar. Um tvöleytið fóru kristniboðsvinir að koma í kaffi. Betaníukaffið átti sér fasta og trygga aðdáendur, sem vissu vel að í upphafi var kökuúrvalið fullkomið. Svo voru auðvitað nokkur, sem komu snemma til að styrkja kristniboð en vildu dreifa aðsókn. Þetta voru hinir praktísku en staðföstu kristniboðsvinir. Þegar nær dró kaffitíma fóru svo lúnir verkamenn úr göngunni að skjótast inn. Verkalýðsleiðtogarnir komu líka og ég skildi síðar, að þeir voru ekkert að gera sér rellu út af Marxískum kreddum um trúna sem ópíum fólksins. Verkalýðsbarátta, kristniboð, borgarastétt, kröfuspjöld og verkafólk. Allt var þetta í jafnvægi og í himnesku hléi í kristniboðskaffi í Betaníu.

Kraftaverkakonur í Kristniboðsfélagi kvenna

Blessandi gjaldkeri og formaður

Mamma sat við dyrnar. Hún var gjaldkeri félagsins og það var hefð að slíkir sætu og tækju við greiðslu og ræddu við gesti á leið inn og út. Mamma hélt á brúnni smellutösku sem hún átti og setti borgun fyrir kaffið í töskuna. Margir greiddu margfalt. Þegar á leið voru gríðarlegir fjármunir komnir í töskuna. Ég man að hún hélt vel í töskuólina. Engum hefði tekist að hrifsa til sín fjárhirsluna og hlaupa með hana.

Öllum tók mamma vel og við alla átti hún orðastað. Síðar, þegar hún var formaður, færði hún sig fram í forstofu til að geta rætt við fólk. Hún blessaði alla fyrir framlög og þakkaði fyrir stuðninginn við kristniboðið. Við dyr og í forstofu var hún í essinu sínu að þakka eða taka við greiðslu fyrir kaffi sem var eiginlega meira en borgun. Það var framlag til að kristnir menn á Íslandi gætu staðið við boð Jesú Krists: „Farið og kristnið allar þjóðir…” Kristniboðskonurnar og mamma voru að vinna Guði gagn. Allir sem komu vissu að þeir ættu hlut í stórvirki og góðu verki.

Hið smáa verður stórt í Guðsríki

Pabbi sótti svo mömmu seint að kvöldi 1. maí. Þegar hún kom heim var hún alltaf steinuppgefin en þó alsæl. Alltaf unnu konurnar í kristniboðinu stórvirki fyrir Jesú Krist á þessum dögum. Öll sem frá þeim fóru voru með fullan maga af góðmeti og þakkarorð í eyra og blessun fyrir daga og vegi lífsins. Öll fundu til þess sem fóru úr Betaníu að þau höfðu gert mikið gott með komu sinni. Öll afrekuðu eitthvað fyrir Guð. Á þessum kaffidögum í Betaníu lærði ég að í hinu smáa er mannlegt framlag til guðsríkisins. Kaffiundrið í Betaníu lifir í minningunni. Safnað var til kristniboðs í Eþíópu og sú kirkja er einhver mesta hraðvaxtarkirkja í heimi. Undrið heldur áfram. Starf Betaníukvenna bar árangur og ber enn ávöxt. Fólk í Afríku og Asíu fær menntun, nýtur heilsugæslu og fær að heyra þær góðu fréttir að Guð elskar. Þannig er kristniboð.

(Meðfylgjandi myndir eru annars vegar af Brautarhólssystrum og allar voru þær í Kristniboðsfélagi kvenna. Þær eru Lilja Sólveig, Filippía (sem notaði skáldanafnið Hugrún) og Svanfríður Guðný allar dætur Kristjáns Tryggva og Kristínar Sigfúsínu á Brautarhóli í Svarfaðardal. Hin myndin er af vinkonum í Kristniboðsfélaginu á sumarferð. Þar eru þær systur líka.)

 

Kjúklingaskál með kókos-hrísgrjónum

Mar­in­eraður kjúk­lingur með kó­kos­hrís­grjón­um og lit­ríku græn­meti. Þetta er augnayndi og bragðundur. Ekki aðeins er kjúklingurinn dásamlegur, heldur eru hrísgrjónin unaðsleg og heildarsamsetningin heillar. Fyrir 4.

700 g kjúk­linga­bring­ur

3 msk sojasósa

2 msk púður­syk­ur

2 msk ses­a­mol­ía

1 msk chilisósa

4 hvít­lauksrif, mar­in

1 tsk rif­inn engi­fer

 

Kó­kos-hrís­grjón:

1½ bolli jasmín-hrís­grjón

1½  bolli kó­kos­mjólk

½ bolli kó­kos­vatn

¼ tsk. salt

1½ msk. kó­kosol­ía

 

Fyr­ir skál­ina:

4 vor­lauk­ar, fínt skorn­ir

3 stór­ar gul­ræt­ur, skorn­ar í strimla

2 boll­ar skorið rauðkál

2 avoca­do, skorin í þunn­ar sneiðar

2 msk. ristuð ses­am­fræ

1/2 bolli stein­selja

1 lime

Aðferð:

Setja kjúk­ling­inn í poka. Píska sam­an í skál sojasósu, sykur, ses­a­mol­íu, hvít­laukssósu, hvít­lauk og engi­fer. Hella blönd­unni yfir kjúk­ling­inn og geyma í pokanum og marinera, í klukkutíma eða lengur. Marinering yfir nótt er auðvitað til bóta.

Kó­kos­hrís­grjón: 

Hita pott á meðal­hita og setja hrís­grjón út á pönn­una ásamt kó­kos­mjólk, kó­kos­vatni og salti. Hrærið í og láta suðu koma upp. Lækka þá hit­a og látið malla í 30 mín­út­ur þar til vökvinn hef­ur gufað upp. Hrærið aðeins í hrís­grjón­un­um og bæta kó­kosol­í­unni út í.

Kjúklingurinn:

Grillið annaðhvort kjúk­ling­inn eða setjið í ofn á 220°C í 30 mín­út­ur (at­hugið samt hvort hann sé til­bú­inn eft­ir þann tíma). Leyfið kjúk­lingn­um að hvíla í 10 mín­út­ur áður en hann er skorinn í sneiðar.

Setja kó­kos­hrís­grjón á botn­inn á skál, því næst kem­ur avoca­do, rauðkál, gul­ræt­ur, vor­lauk­ur og smá stein­selja. Toppið með kjúk­lingn­um ásamt nokkr­um avoca­do-sneiðum. Ef kjúklingurinn er steiktur í ofni er gott að nota vökvann sem eftir er í steikarfatinu og setja yfir kjúklinginn. Síðan er ristuðum ses­am­fræj­um stráð yfir og lime kreist yfir allt sam­an.

Borðbænin er: Þökkum Drottni því að hann er góður. Og miskunn hans varir að eilífu.

Verði þér að góðu.

Fjörtíu geira kjúklingur

Því meiri hvítlaukur því betri matur. Enginn skyldi hafa áhyggjur af lyktinni. Því meiri hvítlaukur þeim mun minni lykt! Það er svolítið maus að flysja laukinn en það kemst upp í vana. Ég skora á ykkur að prufa! Uppskriftin f 4.

½ bolli ólífuolía

4 stilkar sellerí (þverskorið fremur smátt)

2 msk. estragon

2 msk. fínt klippt steinselja

1 góður kjúklingur hlutaður í sundur

salt og nýmalaður pipar

2 niðurrifnar múskathnetur

40 afhýddir hvítlauksgeirar

½ dl. koníak eða sletta af sherrý

¾ bolli hveiti vatn

Hitið olíuna, setjið sellerí, steinselju og estragon út í heita olíuna og látið mýkjast í 2-3 mínútur (passa ekki brenna). Stráið vel af salti, pipar og nýrifnu múskati á kjúklingabitana og steikið upp úr olíunni. Setjið allt saman í eldfast mót (með loki), hvítlauksgeirarnir og koníakið sett út í, lokið sett á (helst lok sem fellur vel að). Hrærið saman hveiti og vatni svo úr verði þykkur jafningur og þéttið lokið með honum, sem sé loka pottinum rækilega (það skilar sér vel!). Bakið réttinn í ofni við 190° C í eina og hálfa klst. Athugið að krydda vel með salti, pipar og múskati, annars verður maturinn bragðlítill, sem alls ekki má henda! Mikil og góð sósa verður í pottinum og því er ljómandi að hafa hrísgrjón eða bygg með réttinum og ekki síðra að hafa líka nýbakað brauð til að veiða upp vökvann.

Páskafólk

Konur á leið út úr borginni og í ómögulegum erindagerðum. Þær voru vonsviknar og sorgbitnar. Þær höfðu ekki aðeins misst náin vin í blóma lífsins, heldur líka málstað, sem hafði virst svo gæfulegur en hafði tapað, já með því róttæka móti að leiðtogin var aflífaður. Konurnar, sem gengu út til garðs og grafar á páskamorgni voru á leið að lokaðri gröf, sem þær gætu alls ekki opnað.

Þessar konur eru fulltrúar fólks, sem verður fyrir áföllum, verður fyrir sjúkdómum, óttast um ástvini sína, missir vinnu, tapar fé, lendir í ógöngum, verður fyrir skakkaföllum. Þessar konur höfðu upplifað langan föstudag. Þær voru föstudagskonur.

Í lífi allra manna verða áföll. Við erum öll föstudagsfólk, við eigum öll okkar löngu föstudaga í lífinu, verðum fyrir þungum raunum sem fylla okkur depurð og eru okkur raun. En miklu skiptir hvernig úr áföllum er unnið. Öllu varðar að reyna að læsast ekki inni. Það sem einkennir föstudagsfólkið er lokun, hefting og bæling. Föstudagsfólkinu er starsýnt á vandkvæði, vesen, sjúkdóma og vond tíðindi. Heimur þeirra hefur tilhneigingu til að fara versnandi og hin góðu mál fara fram hjá þeim. Föstudagsfólkinu er tamt, að sjá bara það sem næst er og túlka með ótta eða neikvæðni í huga. Í stað þess að sjá möguleika, nýjung og opnun í þróun og jafnvel áföllum hættir föstudagsfólkinu til að ræða um erfiðleika, ógnir og fyrirstöður. Í stað þess að hrífast af undrum lífsins, litbrigðum jarðar, bruminu á trjánum hér utan kirkju eða þungum nið tíma og geims sér föstudagsfólkið bara lokuð kerfi og afþakkar eða afneitar öllum frekari dýptum og víddum.

Jú, áföllin eiga sinn tíma – allir þarfnast næðis eftir að lífið hefur krossað þá. Allir verða ringlaðir á löngum föstudögum lífsins. En er náttúran bara ljót? Er tilveran bara neikvæð, sjúk, dapurleg og til dauða? Föstudagsfólkið hneigist til þeirrar afstöðu, ef ekki í lífsskoðun þá í praxis.

Páskalíf

Og þá er mál páskamorguns. Nýr dagur, dauðinn dó en lífið lifir. Kristur er upprisinn – Kristur er sannarlega upprisinn. Yfirvöld höfðu sett verði við gröfina til að varna grafarráni og hindra að líki Jesú yrði stolið. En verðirnir urðu fyrir mikilli reynslu, og það hefur væntanlega verið einhvers konar ljósvitrun. Það sem þeir urðu vitni að var svo rosalegt að þeir lögðu á flótta, sem varðmenn gerði ekki nema í ítrustu neyð því hlaup frá varðmennskunni var grafalvarlegt brot.

Þegar harmþrungnar föstudagskonurnar komu út í garðinn var steinninn frá, gröfin tóm og lík hins látna Jesú Krists horfið. Konurnar urðu líka fyrir reynslu, sem síðan var höfð í minnum, sögð og endursögð margsinnis og íhuguð. Þá lenti föstudagsfólkið í sunnudagsfréttunum. Konurnar urðu að bregðast við viðburðinum, nýjum aðstæðum og nýrri túlkun. Já, tilveran breyttist vissulega þegar leiðtoginn féll frá við krosspyntingarnar. En svo breyttist allt að nýju með boðskap páskadags.

Innri ákörðun

Hvað viltu með þessa frásögn þessa lífsdags? Hvað gerir þú með gleðifréttina að dauðinn dó og lífið lifir? Hvernig ertu hið innra? Ertu föstudagsmaður eða sunnudagsmaður? Er glasið þitt hálffullt eða hálftómt? Hvernig ferðu með allt, sem er þér mótdrægt og andsnúið?

Ég veit um konu, sem sagði gjarnan: “Ég er svo heppin.” En alla ævi bjó hún þó við kröpp kjör, mikla fátækt og missti mikið. Hún hafði lært að sjá í erfiðum aðstæðum ljós og möguleika. Hún var – þrátt fyrir áföllin – hamingjusöm og lánsöm því hún tamdi sér jákvæðni. Hún sá ekki bara ógnir heldur tækifæri, gleði í stað sorga, líf í stað dauða.

En lífið er ekki bara spurning um jákvæðni eða neikvæðni, að vera í stuði eða í mínus, föstudagsgeðslag eða sunnudagsstemmingu. Þegar föstudagurinn langi var að kvöldi komin var öllu lokið. Guð og maður á krossi! Þá var illt í efni. Verra verður það ekki. En síðan er seinni hluti sögunnar sá, að dauðanum var snúið í andhverfu sína, sagan endaði vel þrátt fyrir dauða söguhetjunnar. Gröfin sleppti feng sínum, lífið lifnaði og tilveran er góð. Það eru þær fréttir, sem breyta öllu í lífi kristins manns. Það eru þær fréttirnar sem eru kallaðar fagnaðarerindi. Slíkar fréttir eru gleðifréttir, frábærar fréttir.

Ef við temjum okkur jákvæðni í lífinu höfum við lært lífsleikni, sem hjálpar í þrautum og þegar eitthvað verður okkur mótdrægt. Við verðum þar með sunnudagsfólk. En þegar við heyrum páskaboðskapinn og tökum hann til okkar verðum við að auki páskafólk. Og páskaboðskapurinn verður sem kraftaverk í lífi sunnudagsjákvæðninnar, þegar geisli sólar sem fer í gegnum okkur og umbreytir okkur. Lífið er ekki bara af sjálfu sér heldur líf í sólarsamhengi Guðs.

Lífsfrásögn páskanna umbreytti veröldinni. Þegar við heyrum páskaboðskapinn megum við leyfa honum að umbylta lífi okkar. Veröldin er ekki lengur lokað kerfi dapurlegra ferla. Heimurinn er ekki bara til dauða, heldur er opið kerfi og jafnvel lögmál lífs og dauða eru brotin. Ekkert er svo slæmt í þínu lífi, ekkert er svo dapurlegt, engin áföll eru svo stór, að Guð geti ekki, megni ekki, nái ekki og megi ekki koma þar að með hjálp sína og gleði.

En engillinn mælti við konurnar: „Þið skuluð eigi óttast. Ég veit að þið leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn … Hann er upp risinn frá dauðum …“

Bænatré heimsins

Litríkt birkitré var í Hallgrímskirkju á föstunni. Á æskulýðsdegi þjóðkirkjunnar í byrjun mars 2019 var lögð áhersla á náttúruvernd og mannvernd. Lagt var til að tré yrðu sett í kirkjurnar og síðan gæti kirkjufólkið náð sér í garnspotta og bundið á tréð. Garnið var í sjö litum og fólk valdi sér þann lit, sem vísaði til þeirra bænaefna sem skipti það mestu máli.

Ég sótti birkitré austur í Árnessýslu og kom fyrir í jólatrésfætinum mínum við prédikunarstól kirkjunnar. Það var hrífandi að taka þátt í gjörningnum, binda garnspottana og biðja. Tréð varð litríkt í messunni og brosti við sól og mönnum. Ekkert ýtti á að taka tréð niður strax og ferðamennirnir héldu áfram að binda sína bænaspotta á birkitréð allt fram til miðvikudagsins í kyrruviku.

Í öðrum kafla biblíunnar er sagt frá alls konar trjám og lífsins tré sérstaklega nefnt. Tré hafa fangað athygli okkar og þau hafa gefið mannkyni ávexti til næringar. Tré hafa orðið tákn um öryggi, næringu, andlega líðan og velferð. Í 32. passíusálmi íhugar t.d Hallgrímur Pétursson merkingu hins græna trés og líka hins visnaða. Kristnir menn hafa um allar aldir munað, að kross Jesú var tré í þágu lífsins. Og trén, sem tákn umhverfisverndar, hafa svo sprottið upp úr jarðvegi kristninnar.

Föstutréð í Hallgrímskirkju sló í gegn. Það var tákntré sem kallaði fólk til bæna. Tréð bar bænatákn alls heimsins. Og svo grænkaði það! Á bak við alla spotta og litina sprungu birkibrumin út. Lífið lifir. Bænir virka og Guð heyrir ágætlega.