Jesús í lit

Hver er mynd þín af Jesú? Hvaða mynd hefur verið dregin upp í huga þér af Jesú Kristi? Er hún dapurleg eða gleðileg? Í bernsku minni þótti mér kristindómurinn skrítinn á föstunni. Það var eins og trúin væri í bakkgír. Af hverju þessi dapurlegi stíll, dempandi og jafnvel kæfandi drungi?

Jesúsaga föstunnar er ekki beinlínis til að efla trú okkar á mannkynið. Góðmenni framselt í hendur níðinga. Jesús á leið frá heimahögum og undir hramm spillts valds. Vald fer oft illa með hið fagra og góða, einlægni og ást. “…krossfestur, dáinn og grafinn. Steig niður til heljar.” Sorgleg frásögn með gott upphaf en nístandi framhald.

Og svo hafa Passíusálmarnir hljómað eða verið lesnir, sálmar sem segja passíu – píslarsögu Jesú. Sálmarnir færðu yfirskilvitlegan drunga – að mér fannst fyrrum – yfir trúarlífið, mannlíf og kirkjuhúsin. Og ég spurði: Getur sorgarerindi verið fagnaðarerindi? Eru Passíusálmarnir bara um pínu og hvaða gleðifrétt er það?

Þjáningin

Þjáning hittir alla menn – þig líka. Enginn flýr sorgina. Þroskað fólk glímir við endanleika sinn og annarra. “Kenn oss að telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta” segir í Davíðssálmum. Er trú og kristni einkum meðal gegn dauðaógn eða er trú eitthvað annað og jafnvel stórum meira?

Á föstunni fléttast saga Hallgríms og í kirkjulífið og hluta þjóðlífsins. Við höfum líklega oftúlkað Hallgrím sem píslarmann. Hann málaði harmsögur heims og fólks svo vel að líðandi Íslendingar hafa um aldir fundið til samsemdar boðbera Guðs og sjálfs sín. Sjónum hefur gjarnan verið beint að dapurlegum þáttum í lífi Hallgríms sjálfs. Hann lenti visslega í klandri og klúðraði ýmsu. Hann sá á eftir börnum sínum og annarra í gröfina sem ekki ætti að leggja á nokkuð foreldri. Svo varð hann fyrir þeim skelfilega sjúkdómi að rotna lifandi.

Hallgrímur í lit

En hvað um hitt? Er sorgarsvipur og svört hempa allt sem einkennir Hallgrím, trú og kirkju? Nei, hann var í lit. Hallgrímur var skemmtilegur, eldhugi, fjölmenntaður, líklega góður pabbi og líflegur maður. Píslarmaðurinn var líka elskhugi og eftirlæti allra, sem kynntust honum. Hallgrímur var allur í plús – sjarmerandi góðmenni, hrífandi stórmenni, gjósandi listamaður.

Og hvað svo? Passíusálmarnir fimmtíu lýsa síðustu dögum Jesú. Myndin af Jesú er af himinkonungi sem er allt annað en upphafinn. Hann er himinkonungur, en kemur til að þjóna án allrar upphafningar. Það er ástin en ekki dauðinn sem er hvati og frumvaldur í lífsskoðun Passíusálmana. Jesús gekk inn í hlutverk menna til leysa þá frá vonleysi, þjáningu, lífsharmi. Áherslan er ekki á þjáningu heldur á hvað og hver megni að leysa vanda mannanna. Og það er elskandi Guð, sem kemur og fer á undan fólki um lífsdalinn. Jesú er ekki lýst sem hinum örugga konungi að baki víglínu, heldur hetjunnar, sem mætir, er og fórnar sér til að sigur vinnist. Hann hlýðir, fer fram í staðfastri auðmýkt og víkur sér ekki undan baráttu og þjáningu. Hann er ekki ofurkóngurinn heldur lífsþjónninn.

Að baki myrkrinu er ljós, að baki depurðinni er gleði. Sagan er ekki um pínu heldur um lífgjöf. Passíusálmar eru ekki sjálfspíslarsálmar heldur ástarsaga – margþætt og lífstrú saga um afstöðu Guðs og raunhæfar aðgerðir. Í orðahafi sálmanna heyrist grunnstefið:

Guð elskar, Jesús elskar, Guð elskar – alla menn – þig.

Jesús er ástmögur sem tjáir að lífið er gott, lífið er elskulegt, að Guð er alltaf nærri þér – og að eftir dauða kemur líf.

Kristin trú? Er hún þér slíkt fagnaðarerindi að þú finnir gleðina ólmast innan í þér? Eða tjáir þú og upplifir trúna með einhverju öðrum og hófstilltari hætti?

Þú mátt skipta út svörtu myndinni af Hallgrími og sjá hann í lit. Hver er mynd þín af Jesú? Er hún í sauðalitunum eða laðandi litum? Klisjumyndum af svart-hvítum Jesú má henda. Og svo er það þín eigin mynd af trú. Er kominn tími til að uppfæra? Ástarsagan er sögð og lifuð vegna þín.

Hamingjuleitin er aðalmálið

Ferming – sérblað Fréttablaðsins. Ýmislegt hefur breyst frá því Sigurður Árni Þórðarson, sóknarprestur Hallgrímskirkju, fermdist fyrir tæpum 53 árum í Neskirkju í vesturbæ Reykjavíkur. Í ár fermast yngstu börnin hans tvö.

Tæp 53 ár eru síðan Sigurður Árni Þórðarson,  sóknarprestur Hallgrímskirkju, fermdist en í ár fermast yngstu börnin hans, tvíburarnir Jón Kristján og Ísak. Starfsins vegna hefur hann séð fermingar þróast undanfarna áratugi betur en margir og segir þær snúast í æ meira mæli um upplifun og innlifun. „Ferming var siður í samfélaginu og flestir fermdust áður fyrr. Kirkjan var eins og skólinn, stofnun sem var nýtt og sótt. Áherslan í fermingarundirbúningnum var því á fræðslu en er í dag meiri á upplifun og innlifun, sem getur orðið á kostnað fræðslu. Það er mjög áberandi hvað fermingarungmenni eru upptekin af hamingjunni. Ég hef í fimmtán ár kannað viðhorf fermingarungmenna og hamingjuleitin er þeim aðalmál. Það er æviverkefni að vinna að lífshamingjunni og fermingartíminn er mikilvægt skref á þeim vegi.“

Spyrja gagnrýninna spurninga

Sjálfur fermdist Sigurður árið 1966 og hefur margt breyst síðan þá. „Menningarsamhengið hefur breyst, einhæfnin er rofin og fjölbreytnin er meiri. En inntakið í fermingarundirbúningnum er jafn áleitið og fyrrum. Mér þótti allt fermingarferlið merkilegt og sagði alvöru já við Guði og lífinu. Fermingarungmenni nútímans grufla af miklum heilindum, spyrja gagnrýninna spurninga og skoða mál trúar með opnum huga. Þau eru raunverulega að glíma við mennsku sína og þar með Guð. Og nú er framundan ferming tvíbura minna. Ég dáist að því hvað þeir eru tengdir sjálfum sér og opna fyrir lífsreynslu og hugsa stóru málin.“

Guð gefur lífið

Í fermingunni hljóma ekki aðeins já fermingarbarna segir Sigurður, heldur já, já, já Guðs. „Við erum oft með hugann við mannheima en gleymum stundum Guðsvíddinni. Mesta undrið í fermingunni er sama undrið og í skírninni. Guð gefur lífið og lofar að vera alltaf nærri. Guð svarar fermingarspurningunni ekki aðeins með fermingaryfirlýsingu: „Vertu trú(r) allt til dauða, og ég mun gefa þér kórónu lífsins.“ Guð svarar með því að gefa allt sem við þurfum til að lifa vel og með hamingju. Hvað er ferming? Já á jörðu og já á himni hljóma saman. Fermingarungmenni staðfesta lífið sem Guð gefur, staðfestir og viðheldur.“

Mættust á miðri leið

Ferming Sigurðar var eftirminnileg, ekki síst þar sem hann var yngri en hinir krakkarnir auk þess sem þau voru bara tvö fermingarbörnin í fermingarathöfninni í Neskirkju. „Ég var ekki fermdur að vori heldur haustið 1966. Við systkinin erum tvö og stutt á milli okkar. Ákveðið var að hafa eina fermingu og eina veislu. Systir mín er eldri og hún seinkaði fermingu sinni og ég fermdist hálfu ári á undan jafnöldrum mínum, var bara 12 ára. Við systkinin mættumst því á miðri leið og vorum fermd 23. október. Ég sótti fermingarfræðslu með krökkum á undan mér í aldri sem komu úr Hagaskóla en ég var úr Melaskóla. Í fermingarfræðslunni lærði ég 23 sálma, biblíuvers og fræði Lúthers og við vorum ágætlega undirbúin.“

Sannkölluð tertuveisla

Fermingarveislan var haldin heima á Tómasarhaga og segir Sigurður hana hafa verið eins og framlag Íslands í heimsmeistarakeppni í tertugerð. „Stórfjölskyldan og fjölskylduvinir komu og m.a. biskupshjónin sem bjuggu hinum megin götunnar, Magnea og Sigurbjörn. Þau gáfu mér Biblíu sem Sigurbjörn skrifaði fallega í. Veislan endaði á eftirminnilegri myndasýningu um náttúruperlur Hornstranda en við systkinin vorum ekki spurð um útfærslu veislunnar en hún varð þó eftirminnilegur menningarviðburður.“

Var sítengdur Guði

Eftir á að hyggja var kannski ekki skrýtið að Sigurður skyldi hafa valið sér þennan starfsvettvang. „Ég var sem barn sítengdur við Guð. Efni og andi, tími og eilífð, hafa alla tíð verið mér eining. Ég sótti að og í sjóinn við Ægisíðu og var á fjöllum og kafi í veiði og náttúrupplifunum í sveitinni. Náttúra og yfirnáttúra voru systur og aldrei andstæður í lífi mínu. Fermingarfræðslan varð eitt af mörgum skrefum í minni lífsframvindu. Á menntaskólaárunum hætti ég við að verða læknir og ætlaði að læra líffræði en tók u-beygju varðandi náms- og starfs-val um tvítugt og þá vegna veikinda.“

Grein í sérblaði Fréttablaðsins – Fermingar, 26. febrúar 2019. Ljósmyndina af okkur feðgum tók Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari. 

Frá vinstri: Jón Kristján, SÁÞ og Ísak. 

Alls konar kirkjulíf og athafnir

Tilboðum um lágstemmdar athafnir fjölgar í norrænu kirkjunum. Margir vilja ekki íburðarmiklar athafnir en vilja þó fá að nýta kirkju sem þeim líkar við. Þjónusta safnaðanna er að breytast vegna breyttra þarfa. Fleiri sæjast eftir persónulegri þjónustu en stóru athafnirnar eru kannski á útleið? Þetta tengist líklega djúptækum samfélagsbreytingum, sem hafa orðið síðustu áratugina og einnig að einangrun samfélags og þjóðfélags er rofin. Að skjótast til Kaupmannahafnar er ekki meira mál en að fara vestur á Snæfellsnes.

Félagstengingar fólks eru allt aðrar í nútíð en var í fortíðinni. Áður voru íslensk samfölg næsta kyrrstæð en nú einkennast þau af hraða og flæði. Fyrrum var fólk innrammað í aðstæður og tengsl þess voru nánast ákveðin fyrir það. Nú tilheyrir fólk ekki sjálfkrafa einhverju afmörkuðu svæði, stofnunum eða hverfiskirkjunni. Eitt árið býr fólk í einhverju hverfi í Reykjavík, næsta árið í Borgarnesi, síðan erlendis og svo þar á eftir austur á landi. Í borgarsamfélaginu er flest á floti og félagstengingar eru alls konar. Dæmi úr knattspyrnunni geta orðið einhverjum til skilningsauka. Þó menn búi í Vesturbæ Reykjavíkur getur verið að fótboltaáhugamennirnir hafi mun meiri áhuga á Liverpool eða Tottenham en KR. Margir Garðbæingar eru stuðningsmenn United frekar en Stjörnunnar. Búseta tryggir ekki skoðanir, tengsl eða stofnanasókn fólks. Börn í Kópavogi fara í Hjallaskóla í Reykjavík, fólk flengist höfuborgarsvæðið á enda með börnin sín í leikskóla og sækir félagslíf í önnur sveitarfélög. Flæðið hefur mikil áhrif á kirkjulífið. Hafnfirðingar, utan eða innan þjóðkirkju, sækja kirkju í Hallgrímskirkju og fermingarbörnin í Hallgrímskirkju koma víða að.

Þótt fólk sé ekki bundið af hverfiskirkjunni hverfa trúarþarfir þess þó ekki. Flestir glíma við trú og tilgang lífsins og atgangurinn er oftast óháður búsetu og hvaða kirkjur eru nærri. Bylgjuhreyfingin í norður og vestur-Evrópu er að snúast við skv. skýrslum kirkjugreinenda. Söfnuðirnir verða og vilja koma til móts við fólk á forsendum þarfa þess, en ekki aðeins í anda kirkjuhefðanna og hvað „alltaf“ hefur verið gert. Söfnuðirnir gera tilraunir með nýtt helgihald og efna t.d. til lágstemmdra athafna. Fólk í þéttbýli er ekki bundið hverfiskirkjunni, heldur sækir það kirkju sem svarar óskum og þörfum. Skyndiskírnir og hjónavígslukvöld eru meðal þess, sem ýmsir söfnuðir á Norðurlöndum efna til. Þróunin er frá hinu almenna og til hins persónulega og kemur fram í stíl og gerð þessara athafna. Ekki er slakað á undirbúningi af kirkjunnar hálfu, en reynt að koma til móts við þarfir fólks fyrir hið persónulega. Þröskuldarnir eru lækkaðir, íburðurinn minnkaður og kostnaði er haldið í lágmarki. Ekki er innheimt fyrir þjónustu presta, organista eða kirkjuvarða. Ekki er heldur greitt fyrir afnot af safnaðarheimili og kaffi og te er á könnunni í boði kirkjunnar.

Þorum við að opna? Það er nú reyndar skylda lifandi kirkju horfast í augu við köllun sína, breytta samfélagsgerð og þarfir fólks. Breytingar kalla á breytingar. Kirkjan á að vera opin.

Stóristyrkur

Í vorbirtunni 1941 settu stúdentar upp húfur sínar. Annar landsdúxanna var kona. Dúxar eru dýrmæti og hæsta einkunn skipti máli því dúxar fengu stórastyrk. Það var peningasjóður til að kosta nám erlendis. Svo var sagt frá í fréttum ríkisútvarpsins að menntamálaráð hefði ákveðið að styrkja ekki aðeins fjóra eins og verið hafði heldur tíu stúdenta. En engin kona var þó í hópi styrkþega! Stúdentinn með hæstu einkunn í landinu, kvendúxinn í MR, var ekki meðal þeirra. Og hver skyldi ástæðan hafa verið? Rökin voru að kona sem færi utan til náms myndi væntanlega falla í fang erlends eiginmanns, ekki rata til baka til Íslands, týnast. Að fjárfesta í kvendúx væri því vond fjárfesting!

Valborg Sigurðardóttir lærði að ágætiseinkunn er engin vörn gegn spilltu valdi. Að ná frábærum námsárangri er afleiðing góðrar ástundunar en svo eru fordómar og óréttlæti allt annað. En hún gaf sig ekki og hvikaði ekki í réttlætissókn sinni. Hún hafði sigur, fékk stórastyrk ári síðar og fór vestur um haf, lærði sálarfræði í Minnesota og síðan uppeldisfræði í Massachusetts. Þar var hún metin að verðleikum fyrir að vera dúx og lúx. Hún lærði í kvennaháskólanum Smith College sem slípaði dýrmæti og agaði námsforka til þroska. Skólinn útskrifaði ekki aðeins Nancy Reagan og Barböru Bush, heldur líka Betty Friedan, Gloriu Steinem og Valborgu! Þar óttaðist enginn að menntun kvenna gerði þær villugjarnar. Í deiglu skólans mótuðust ýmsir málsvarar mannréttinda og þar með femínisma eftirstríðsáranna, sem höfðu vítæk áhrif til góðs.

Dúxinn umbreyttist í menntakonu. Stríðinu lauk, karlaherirnir streymdu heim af vígstöðvunum en meistaraneminn sem var að skrifa lokaritgerð sína var ekki með hugann við þá. Henni var ekki villugjarnt. Valborg var beðin um að stýra skóla sem gæti fagmenntað starfsfólk til starfa á stofnunum fyrir forskólabörn. Hún fór heim og faðmaði síðar Ármann Snævarr og eignaðist fimm börn. Valborg breytti íslensku menntakerfi og viðmiðum í uppeldi barna. Hún mótaði nýjan skóla, í nýju lýðveldi og á nýjum tíma. Hún skrifaði uppeldisstefnu fyrir leikskólastigið og bækur um uppeldi. Svo kenndi hún og útskrifaði um 900 fóstrur og síðar leikskólakennara á ferli sínum sem skólastjóri. Á níræðisaldri skrifaði hún og gaf út bókina: Íslensk menntakona verður til. Valborgarsaga er heillandi lykilsaga og varðar hæfni, gildi, réttlæti og vald. Og af henni getum við margt lært um afstöðu til fólks, stjórnsýslu og við erum smiðir gæfunnar.

Valborg lést 25. nóvember 2012. Síðustu lífsvikurnar las hún í Saltara Biblíunnar. Þar segir í 46. Davíðssálmi: „Guð er oss hæli og styrkur, örugg hjálp í nauðum. Því óttumst vér eigi…“ Merkingin er að mannfólkið og veröldin nýtur verndar, blessunar, styrks og hælis. Valborg naut stórastyrks, varð stóristyrkur og nýtur nú þess sem er stóristyrkur lífsins. Þar eru engin svik, ekki fordómar eða áföll. Þar ríkir friður Guðs.

Harissa nautasteik með papriku, tómata og sítrónu-viðbiti

Á mínu heimili var orðin uppsöfnuð nautasteikarþörf og kona mín benti á áhugaverða uppskrift í Simple -bók Ottolenghi (bls 224-5). Hægt að vinna eldhúsverkin með góðum fyrirvara. Hægt að gera viðbitið daginn áður! Má gjarnan marinera kjötið í marga klukkutíma og yfir nótt. Með góðri fyrirhyggju og forvinnu tekur ekki nema 20 mínútur að koma mat tilbúnum á borð frá því kveikt er á eldavélinni þar til allt er komið á borð. Því hentugur matur fyrir vinaboð – þeirra sem enn borða kjöt. 

Fyrir fjóra

Nautakjöt 800 gr (mjaðmabiti – sirloin – eða lund)

Harissa rautt 1 ½ matsk (fæst í Melabúðinni)

Paprikur 3 rauðar og/eða gular (ca 400 gr).

Ólífuolía 2 matsk

Hvítlaukur 3 geirar – pressaðir

Tómatar – maukaðir – 1 400 gr niðursuðudós

Chiliflögur ½ tsk

Paprika ½ tsk

Niðursoðin (preserved) sítróna fínsöxuð. Fleygja steinunum

Steinselja – ein lúka niðursöxuð – ca 15 gr

Sítróna – eitt stykki skorin langsum í fjóra hluta

Saltflögur (Maldon eða álíka) og svartur pipar.

1 Setjið rautt harissa í skál, ½ tsk af saltflögum og malið pipar í. Slettu af olíu til að þynna út. Smyrjið kjötið og leyfið því að marinerast amk klukkutíma og helst lengur. Ef kjötið hefur verið sett í kæli leyfið því að ná innihita áður en það er steikt.

2 Þá er komið að paprikunum. Forhitið ofninn og setjið á grillstillingu. Steikið paprikurnar í miðjum ofni í 20-25 mínútur og snúið oft til að þær brenni ekki heldur bakist allar. Smellið paprikunum í skál og setjið matarfilmu yfir skálina og leyfið að kólna það mikið að hægt sé að fara höndum um paprikurnar og rífa af þeim húðina, sem á að losna. Hendið húðinni. Skerið paprikurnar niður í ca cm-breiða strimla. Hendið einnig kjarnanum og þmt fræunum.

3 Setjið olíu á steikarpönnu og meðalhitið. Bæta við pressaða hvítlauknum og brúnið í ca 1 mín. Bæta við hökkuðu tómötunum, chilliflögunum, paprikunni og slettu af salti (ca 1 tsk) og malið svartan pipar í. Sjóðið í 6-7 mínútur. Þá er paprikunum bætt út í og líka söxuðu sítrónunni (þessari niðursoðnu – preserved) og söxuðu steinseljunni. Sjóða í 7 mínútur. Setjið til hliðar og leyfið að kólna aðeins.

4 Steikarpanna snarphituð. Og síðan kjötið steikt og snúið reglulega. Tímalengdin fer eftir hvort bitinn er óskorinn eða ekki. Sett til hliðar á disk og maldonsalti stráð yfir og látið bíða í nokkrar mínútur.

5 Bera fram kjötið í ca cm þykkum bitum og komið litfögru viðbitinu fyrir við hliðina. Og sítrónubátur fer vel á disknum líka.

Svo má auðvitað bæta meiru á diskinn, þ.e. meira viðbit. Einhverjir vildu kúskús með, bakaðar sætar kartöflur eða Vallanesbygg. 

Geturðu steikt aftur svona kjöt? Það var það sem mitt fólk sagði eftir þessa máltíð. Harissa kom sekmmtilega á óvart og papriku, tómat og sítrónuþykknið er skemmtilegt og varðveitir vel skapandi andstæður afrísks og austur-miðjarðarhafsmatar. Ef notaðar eru líka gular með rauðu paprikunum fjölgar litum á disknum. 

Þökkum Drottni, því að hann er góur – og miskunn hans varir að eilífu.

Verði ykkur að góðu.