+ Þórður Eydal Magnússon +

Það birti þegar Þórður kom. Kankvíst og vinsamlegt bros hans opnaði vitund og bægði drunga í burtu. Þórður kom með hlýju og gleðiauka í hús. Og þegar Kristín var með honum var gaman. Ég sá til þeirra þegar þau komu til kirkju, fylgdist með þeim og hreifst af hve glitrandi elskurík tengsl þeirra voru. Ég hugsaði oft, að þau væru eins og nýtrúlofuð, eins og hrifnir, tvítugir elskendur – og þó búin að vera hjón í hálfa öld. Hlýja, virðing, gleði og glæsileiki – allt þetta bjó í Þórði og Kristínu. Og við samferðafólk Þórðar Eydal þökkum við ferðarlok samfylgd og elskugjafir hans.

Upphaf og ætt

Þórður Eydal Magnússon kom í heim í birtu sumars. Hann fæddist í Vestmannaeyjum 11. júlí árið 1931. Foreldrar hans voru Sigríður Sigmundsdóttir og Magnús Ingibergur Þórðarson. Þau voru Skaftfellingar að ætt og kynntust í Eyjum og hófu hjúskap sinn þar. Nafnið Þórður var frá föðurafanum en Eydalsnafnið er flétta ömmu og staðar í Mýrdal. Föðuramma Þórðar Eydal hét Eygerður og þau hjón bjuggu í Neðra-Dal. Dalurinn og Eygerður voru samþættuð í Eydal. Í stórfjölskyldunni gekk Þórður gjarnan undir naninu Eydal og hjá barnabörnum var hann Eydal afi. Í vinnunni var hann Þórður Eydal.

Foreldrar Þórðar eignuðust tvo drengi, þá Sigmund og Þórð. Eldri hálfbóðir þeirra samfeðra var Þórarinn. Hann var sjómaður og kennari i Vestmannaeyjum. Sigmundur var þremur árum eldri en Þórður. Hann var læknismenntaður.

Fjölskyldan flutti til Reykjavíkur þegar Þórður var þriggja ára gamall. Þau fluttu fyrst til Hafnarfjarðar og síðan til Reykjavíkur. Um tíma bjuggu þau við þröngbýli í miðbæ Reykjavíkur. Þar höfðu þau eitt herbergi og deildu eldhúsi með nokkrum fjölskyldum. Þórður minntist þess, að þegar hann lærði fyrir skólann fann hann sér næðisstað á tröppunum niður í kjallara. En það var ekkert skemmtiefni, að rottur voru stundum á ferðinni við fætur hans. Þórður hafði sett sinn kúrs. „Ég skal“ sagði hann. Hann ætlaði sér að nýta allar sínar gáfur og var kappsamur í námi. Hann stóð sig frábærlega alla tíð í því, sem hann tók sér fyrir hendur. Vegna aðstöðuleysisins heima varð að ráði, að þeir bræður leigðu herbergi vestur í bæ til að hafa betra næði til náms. Þegar stríðið kom og atvinna jókst vænkaðist fjárhagur foreldranna og þau fluttu inn í nýja íbúð í stórhýsinu í Lönguhlíð 23. Þar fengu þau íbúð á fjórðu hæð og bræðurnir fengu aðstöðu í risinu.

„Ég skal“ sagði Þórður og fór hiklaus í MR og gekk vel í námi og kláraði stúdentspróf með glæsibrag vorið 1951. Og hvað svo? Þórður vissi, að stúdentspróf var áfangi á leið – og hann ætlaði lengra. Svo skráði hann sig í tannlækningar. Allt gekk honum að sólu í námi og lífi og hann kláraði háskólanámið. Hann var cand. odont. vorið 1956. Með próf upp á vasann fóru margir tannlænakandídatar að vinna í sinni grein. En Þórður sætti sig aldrei við hið auðvelda og smáa – hann horfði til hæða og möguleika. Hann stefndi til náms ytra, fór í framhaldsnám í tannréttingum – sem kallast fræðilega því hljómmikla og inntaksríka nafni orthodontia. Þórður var tvö ár í Kaupmannahöfn og síðan eitt í Oslo. Þá var hann sáttur og vissi, að hann hafði náð að sérhæfa sig vel. Hann var búinn að fá yfirlit yfir allt það besta, nýjasta og framsæknasta í orthodontíunni. Hann hafði náð námsmarkmiðum sínum og var á pari við færustu sérfræðinga í grein sinni og orðinn meistari á fræðasviðinu. Þá var hann til í að fara heim árið 1959, setja upp stofu og með framtíðina í brjósti, höndum og huga.

Þórður var brautryðjandi á Íslandi í tannréttingum og gaf holgóma fólki eða með munnfrávik nýja möguleika og jafnvel nýtt líf. Í tannlækningum Þórðar vann hann kraftaverk. Hann setti upp stofu fyrst á Hverfisgötu og síðar í Domus Medica, hér austan við Hallgrímskirkju. Hann rak eigin tannlækningastofu frá 1959 til 1995. Þórður var stundakennari í tannlækningum við Háskóla Íslands á árunum 1962 – 1970. 1. janúar árið 1971 var Þórður skipaður prófessor í tannréttingum við læknadeildina og ári síðar – er tannlæknadeildin varð sjálfstæð deild – varð hann prófessor við þá deild. Alla tíð var hann mjög virkur í grein sinni og fræðimennsku. Hann var fyrstur Íslendinga til að ljúka doktorsprófi frá tannlæknadeild Háskóla Íslands árið 1979. Og það er óneitanlega mikill bálkur ritverka sem Þórður skrifaði og gaf út. Hann hafði alla tíð vakandi áhuga á grein sinni og fræðum, hélt tengslum, stýrði doktorsnámi fólks og hélt áfram að vinna að rannsóknum eftir að hann lauk formlegum starfsskyldum. Það vakti líka mikla athygli fyrir einu og hálfu ári að birt var grein hans í samvinnu við Decode. Þórður var aldrei of gamall til að grennslast fyrir um líf og fræði.

Allt gekk eftir sem hann ætlaði sér. Og það er ekki sjáfgefið. Þegar við lítum til baka er ljóst, að uppvöxtur Þórðar Eydals var flókinn. Hann var mikill af sjálfum sér, hann setti sér stefnu þvert á líkindi og aðstæður. Hann var viljugur og stefnufastur. Sá getur sem vill. Þórður var skínandi fyrirmynd.

Kristín og fjölskyldan

Og svo er það ástarævintýri Þórðar. Kristín Sigríður Guðbergsdóttir var heilladís ævi hans. Þórður hafði séð hana í miðasölunni í Tjarnarbíói. Svo kom hann í bíóið og vildi miða. En Kristín sagði honum, að það væri uppselt. Hann átti bágt með að trúa því, að hún gæti ekki fundið miða handa honum. Svo kom að balli í Gúttó við Tjörnina. Þegar herrarnir gátu boðið upp renndi Þórður sér fótskriðu til Kristínar til að vera á undan öllum hinum strákunum. Og þó Kristín gæfi honum ekki miða í Tjarnarbíó gat hún alveg dansað við hann. Og viti menn, hann var þessi fíni dansherra. Sporin urðu fleiri og ástin kviknaði. Þórður var heillaður af Kristínu og hún af honum. Þau dönsuðu ekki aðeins heldur kynntust þau, tengslin dýpkuðu og þau urðu par. Og hún fann síðar miða handa honum í Tjarnarbíó. Hann fékk að fylgja henni upp á Skólavörðuholtið og fram hjá Hallgrímskirkju og heim á Leifsgötu. Svo hófu þau hjúskap í skjóli foreldra Þórðar. Kristín studdi mann sinn og tryggði að hann gæti sinnt náminu.

Þau Kristín eignuðust þrjá syni. Magnús fæddist í apríl árið 1956. Magnús er byggingatæknifræðingur og kona hans er Kristín Kristjánsdóttir. Börn hans eru: Fríða Kristín, Guðrún Lilja, Þórður Eydal, Kristinn Örn, María Rós og Aron Máni.

Ari fæddist í maí árið 1961. Hann lést 46 ára gamall í nóvember árið 2007. Kona hans var Eva Naji. Börn Ara eru Aníta Líf og Rut.

Björn fæddist í ágúst árið 1966. Hann býr í Kolding í Danmörk og rekur ferðaskrifstofu ásamt konu sinni, Dögg Káradóttur. Börn Björns eru Eyja Eydal, Rakel Stefánsdóttir, sem kemst ekki til þessarar athafnar og biður fyrir kveðju. Börn þeirra Daggar og Björns eru Tinna Eydal og Kári Eydal.

Þau Þórður og Kristín voru samstiga og samhent í lífinu, studdu hvort annað og varðveittu gleðina í hjúskapnum.

Minningarnar

Hvernig manstu Þórð Eydal? Hvað einkenndi hann? Hann var ekki bara góður dansari, fræðimaður, öflugur faðir og félagsmálamaður. Hann var brautryðjandi, frumkvöðull á sviði lækninga. Þórður Eydal bætti ekki bara ásýnd fjölda fólks, heldur gaf þeim styrk, sjálfstraust og hamingju. Hann varð þessu fólki kraftaverkamaður.

Manstu málafylgjumanninn? Hann ræktaði með sér ríka réttlætiskennd og þorði að sækja mikilvæg réttindamál og réttlætismál. Manstu jafnréttissinnann? Þökk sé honum því það eru aðeins stórmennin sem þora. Manstu félagsmálamanninn, forystumanninn í félagsstörfum, sem sat í fjölda stjórna og nefnda og lagði alltaf gott til og til eflingar.

Þórður var líka öflugur iðkandi íþrótta og var sem trimmari á undan sinni samtíð. Hann hljóp að heiman í Skerjafirðinum og upp að Þjóðminjasafni og til baka. Hann var óhræddur við að vera talinn skrítinn – að vera skokka svona eins og unglingur. Svo bætti hann við sundiðkunum og hljóp ekki aðeins, heldur synti líka langa leiðir.

Manstu litina hans Þórðar? Hann þorði að skarta rauðum slaufum og bindum til að gleðja augu okkar hinna. Og manstu snyrtimennið, sem ekki aðeins klæddi sig flott – reyndar með hjálp Kristínar – heldur var natinn við hreinsun og þreif jafnvel með puttunum ef hann sá kusk eða rusl á gólfinu. Í öllu var hann dugmikill og skilvís.

Og svo var það skógræktarmaðurinn. Þau Kristín keyptu Neðri-Dal í Mýrdal, jörð afa og ömmu. Þar átti fjölskyldan athvarf lengi, gerði við hús, byggði upp og plantaði skóg sem er veröldinni, englum og mönnum vitni um natni og dug Þórðar, Kristínar og barna þeirra. Manstu hinn mjúka en líka metnaðarfulla föður, sem hvatti fólk til átaka við nám, líf og fræði? Hann var til í að leggja heilmikið á sig, ef það mátti verða til að styrkja fólkið hans.

Manstu mannræktandann Þórð Eydal, sem blandaðist í félagsmálamanninum og lagði Frímúrarareglunni lið og mátt? Manstu hlýjuna hans og hve elskulegur hann var í samskiptum?

„Já maður getur alltaf gert betur“ sagði Þórður og það vissi fólkið hans vel. Manstu menntunaráhersluna og námshvatningu Eydals afa? Og Þórður kennarinn hafði metnað fyrir hönd nemenda sinna. Ef honum þótti líklegt, að eitthvert þeirra vildi í framhaldsnám var hann reiðubúinn að veita þeim aðgang að gagnasöfnum sínum, sem hann og Kristín höfðu unnið að. Þórður var sérlega gjöfull á gögn sín og gæði.

Manstu hvað Þórður var skýrmæltur um óhollustu reykinga? Hann átti það jafnvel til að stoppa á förnum vegi og benda mönnum til betri vegar og gilti einu hvort viðkomandi var íslenskur eða erlendur ferðamaður sem var grandalaus að fá sér smók!

Manstu eftir hve veröldin var Þórði Eydal stór? Hann hafði ekki bara trú á að tilveran væri háð tíma, heldur væri til fleira en það sem við þreifuðum á. Þórður Eydal þorði að sjá fleira en hið efnislega, hann þorði að stækka veröldina – trúði á annað líf og trúði á Guð.

Skilin

Og nú eru skil. Nú er hann farinn heim. Hann segir ekki framar: „Sjáðu konuna mína, hvað hún er glæsileg.“ Hann kaupir aldrei framar ís á Selfossi og stráir svo Neskaffi út á ísinn og laumar jafnvel hluta til hundsins Bangsa. Hann spyr ekki barnabörnin sín um skólann, námið eða vini þeirra hverra manna þau væru. Hann brosir ekki framar af stolti yfir, að afkomendur hans standi sig vel í íþróttum eða námi. Hann skoðar ekki framar bit eða tannbil. „Blessi þig“ sagði hann og því segi ég blessi þig Þórður Eydal. „Er ekki lífið dásamlegt?“ sagði hann líka. Við sjáum á bak stefnuföstum brauðryðjanda, mannvininum Þórði Eydal Magnússyni. Guð geymi hann og varðveiti í Eydal eilífðar. Blessi þig.

Amen.

Ég hef verið beðinn um að bera ykkur kveðju útskriftarárgangs MR árið 1951.

Kistulagning í Fossvogskapellu 23. október. Útför í Hallgrímskirkju 24. október kl. 15. Bálför og jarðsett í Sóllandi. Erfidrykkja í safnaðarheimili Neskirkju.

Myndina af Kristínu og Þórði tók ég í safnaðarferð Neskirkju til Þingvalla.