Greinasafn fyrir merki: Kvöldkirkja

Kvöldkirkjan

Allir, sem koma inn í Hallgrímskirkju fimmtudagskvöldið 24. október ganga inn í kyrrð og rökkvaða kirkju með kertaljósum. Þetta kvöld verður fyrsta kvöldkirkjan, sem er samvinnuverkefni presta og starfsfólks Hallgrímskirkju og Dómkirkju. Kvöldkirkja verður frá kl. 17 til 21,30 og verður fyrst um sinn einu sinni í mánuði, fyrst í Hallgrímskirkju og í Dómkirkjunni eftir áramótin.

Af hverju kvöldkirkja? Margt fólk upplifir samskipti fólks yfirborðsleg og ekki nærandi. Við prestarnir vitum, að margir leita einhvers, sem er djúptækt og persónulega gefandi í glundroða nútímans. Allir vilja jákvæða reynslu sem ógnar ekki eða spillir, heldur róar og kyrrir. Sunnudagsmessur og kyrrðarstundir dagkirkjunnar eru magnaðar en höfða þó ekki til allra.

Tilgangur kvöldkirkjunnar er að opna trúarheiminn fyrir fólki, sem finnur sig ekki í venjulegu helgihaldi dagkirkjunnar. Kvöldkirkjan er öðru vísi en hefðbundnu helgistundirnar, sem fólk hefur áður upplifað. Hún er ekki á sunnudegi heldur á virkum degi. Fólk er ekki bundið við kirkjubekkina, heldur hefur möguleika að ganga um kirkjurýmið, setjast niður, færa sig og finna nýja stað. Svo hefur fólk möguleika að tjá sig og tilfinningar sínar, skila inn í helgirýmið spurningum, líka reiði og sekt, sem sé túlka stóru lífsmálin og skila þeim til Guðs. Tilfinningarnar má svo líka setja á blað. Bænir eru tjáðar og iðkaðar með ýmsu óhefðbundnu móti í kvöldkirkjunni.

Þögn er mjög áberandi einkenni kvöldkirkjunnar. En orð hljóma þó á slökunarstundum og íhugunum. Þau, sem koma í kvöldkirkju, ganga inn með kyrrlátum hætti. Fólk talar um hversdagsmál sín utan kirkjunnar. Stundum verður tónlistarflutningur í kvöldkirkjunni. Og sá flutningur er ekki eins og á tónleikum, heldur þjónar aðeins íhugun og slökun. Eitt hljóðfæri verður stundum notað eða orðlaus söngur mannsraddar.

Fólk hefur frelsi til að vera það sjálft í hinu heilaga rými. Mikill hreyfanleiki er stíll kvöldkirkjunnar. Fólk situr ekki lengi, heldur rölta margir um kirkjuna í kyrrð og hlustar á sitt innra hvísl eða önnur hljóð rýmisins. Sumir eru lengi inni í kirkjunni og aðrir stutt. Mörgum hentar jafnvel að leggjast á kirkjubekki eða á dýnur til að stilla sinn innri mann og tengja við tákn og hljóma kirkjunnar. Sumir kveikja á kerti til íhugunar eða sem bænakerti. Aðrir krjúpa einhvers staðar í kirkjunni.

Kvöldkirkjan reynir að gefa fólki gott næði. Myndatökur eru t.d. ekki heimilaðar því þær trufla. Það er gott að fara í kvöldkirkjuna í Hallgrímskirkju og svo geta menn farið á pöbbinn eða út að borða og líka komið við í kirkjunni á leiðinni heim.

Dómkirkjuprestarnir, Elínborg Sturludóttir og Sveinn Valgeirsson, og Hallgrímskirkjuprestarnir, Irma Sjöfn Óskarsdóttir og Sigurður Árni Þórðarson, auk kirkjuvarða, sjá um efni kvöldkirkjunnar. Grétar Einarsson, kirkjuvörður í Hallgrímskirkju, er í stýrihópnum. Kvöldkirkjan verður í þrjú skipti í Hallgrímskirkju haustið 2019: Fimmtudaga 24. okt. 21. nóv. 12. des. , kl 17-21,30.