Greinasafn fyrir flokkinn: Prédikanir

Nálgast má eldri prédikanir mínar á tru.is Þar eru 267 prédikanir. Slóðin er þessi: https://kirkjan.is/kirkjan/tru.is/$PreachesListAdvanced/Index/?types=pistlarogpostillur&authorid=916cc6c9-cdbe-4136-a5c0-c57c836eb8fe&query=

Alger krísa

Vísindamenn heimsins hafa á síðustu árum orðið dómsdagsspámenn. Yfir 99% þeirra vísindamanna sem skrifað hafa um lofstslagsvá halda fram að menn séu ábyrgir fyrir ofurhitnun jarðar og afleiðingar hafa verið og verða hrikalegar fyrir lífríkið. Eigum við að hræðast og fara í keng? Í dag er dómsdagur! Vissulega ekki dómsdagur náttúrunnar eða heimsendir af Hollywoodtaginu en biblíutextarnir eru um dóm og endalok lífsbrenglunar. Við lifum í skurðpunkti tíma og eilífðar og dómsdagur verður ekki umflúinn! En dómsdagur kristninnar varðar ekki ragnarök eða fjöldadauða. Dómsdagur trúarinnar er mun merkilegri, betri en líka ágengari. Hann er núna! Hvað merkir það? Af hverju er dómsdagur? Eru textar dagsins kannski bara tjáning á fornum heimsslita- eða dauðakvíða, áhugaverðir en þó túlkun á úreltri hugmyndafræði? Kemur dómsdagur Biblíunnar okkur við?

Kirkjuárið og tímamót

Þá er það inngangurinn. Já, sunnudagurinn í dag er síðasti sunnudagur kirkjuársins. Kirkjuárið byrjar á öðrum tíma en almanaksárið. Það á sér allt annan hjartslátt en tímatakt klukkunnar eða dagatalningar ársins sem lýkur við áramót. Einingar og inntak þess tíma sem nú endar varðar ekki sekúndur eða mínútur og er ekki mælanlegur með úrum, tölvum og símum. Tími kirkjuársins varðar hinn djúpa andardrátt og hjartslátt lífsins. Tíminn sem nú endar varðar tengsl við það djúp lífsins sem við köllum Guð.

Þessi dagur er eiginlega gamlársdagur kirkjuársins. Við tímaskil er þarft og hollt að meta og skoða hvernig við lifum, hvað við erum og gerum. Það mat er hraðpróf sjálfsins, skoðun eigin sálar og lífs. Hallaðu þér því aftur, láttu fara vel um þig og spyrðu þig vinsamlega og nærfærið: Hvað hefur reynst þér erfiðast? Á liðnum dögum, mánuðum og ári? Hvernig hefur þér liðið? Hvað var þér erfiðast í vinnunni? Hvað sleit þér mest í tengslunum við ástvini þína, foreldra, börn, maka og vini? Hvað snart þig eða skók þig harkalega? Og þá getum við spurt meginspurningar á dómsdegi kirkjuársins: Hver er krísan í lífi þínu og hvernig bregstu við henni?

Krísa og dómur

Orð skipta máli og merking þeirra. Saga orða er oft lykill að merkingu þeirra og tengingum. Í flestum vestrænum málum er orðið krísa kunnulegt og notað og vísar gjarnan til áfalla og erfiðleika. Á enskunni er það orðið crisis, á þýskunni og norðurlandamálunum Krise. Orðið er notað í margs konar samhengi. Við tölum stundum um „krísu-stjórnun” og mörg eru sérmenntuð í slíkum fræðum. Þegar allt er í volli hjá okkur finnst okkur við vera í krísu. Svo eru peningakrísur, sálarkrísur, pólitískar krísur og heilsufarskrísur. Það er enginn hörgull á krísum. Enginn sleppur alveg við áföll og raunverulegar krísur reyna skelfilega á, skadda og jafnvel deyða.

Eitt mikilvægasta orðið sem er notað í Nýja testamentinu um dóm og að dæma er gríska orðið krisis. Vegna hins biblíulega upphafs og áhrifa kristni í heiminum hefur orðið borist um heimsbyggðina. Merking orðsins er fjölbreytileg. Krisis merkir ekki aðeins að fella dóm, heldur einnig að velja á milli kosta. Orðið varðar mat og jafnvel líka að hætta við eitthvað, breyta um stefnu og taka jafnvel u-beygju í lífinu!

Í dómssal er ekki til siðs, að dómarinn fari í eitthvert Pollyönnukast og segi við hinn dæmda: „Já, ég sé að þú hefur gert upp þín mál, hefur tekið út mikinn þroska síðan þú framdir glæp þinn. Ég sleppi þér við fangelsisvistina og gef þér tækifæri til að byrja upp á nýtt og bæta fyrir brot þín.” Svo kumpánlegt réttarfar búum við ekki við í köldum heimi skilvirks réttarríkis. Eftir málaferli er dómur felldur í venjulegum réttarhöldum. Þar á ekkert að vera óljóst og á milli vina. Þar er annað hvort sýkna eða sekt. En dómari getur auðvitað metið eitthvað til refsilækkunar. Dómarinn hefur ekki siðbótarhlutverki að gegna, heldur ber aðeins að dæma í ljósi þess sem fram hefur komið í réttarhaldinu og á grundvelli gildandi laga og réttarhefðar.

En réttlæti Guðs er annað en lagakerfa mannheima. Guð er ekki ofurdómari sem í fullkominni réttvísi sinni bíður aðgerðalaus eftir þér við lok æfi eða tíma og dæmir þig sekan eða saklausan. Guð heldur ekki á þessum frægu vogarskálum réttarfarsins og vegur réttlæti, gildi og gæði fólks. Réttur Guðs er annar en manna. Guð bíður ekki eftir ákveðnum tíma fyrir dómsuppkvaðningu heldur er persónulegur, sýnir frumkvæði, kemur og beitir sér. Guð er pró-aktívur. Að vita margt um réttarfar heimsins er ekki til skilningsauka um dómsdag og réttlæti Guðs.

Í fimmta kafla Jóhannesarguðspjalls er tjáð að sumir menn kæmu ekki til dóms heldur slyppu algerlega við hann. Jesús segir að við göngum frá dauðanum til lífsins og komum ekki til dóms. Eru þá í Biblíunni tvenns konar dómar eða skýrist málið ef við skoðum betur hvað það merkir að Guð dæmi? Skilningurinn á orðinu krisis hjálpar við að leysa gátuna. Krísa, þ.e. dómur Guðs er ekki aðeins það að dæma í eilífðarmálum, heldur ekki síður að hjálpa okkur núna, aðstoða okkur til að taka okkur á, ákveða að taka sinnaskiptum, efla okkur í lífsleikni og reyna að gera gott úr ástandi okkar – krísu okkar. Við skiljum líkinguna af Guði sem dómara best þegar við hugsum um, að Guð hjálpi okkur til góðs í raunverulegum aðstæðum lífsins, leiðbeini okkur, styðji okkur þegar við brjótum af okkur, erum að skilja við maka okkar eða verðum fyrir fjárhagsáfalli eða krísu í vinnunni. Jesús talar um dóm sem endurnýjun fólks og í tengslum við hann sjálfan.

Dómsdagur er þegar menn viðurkenna að Jesús sé lífgjafi þeirra og taka skrefið frá dauðanum til lífsins. Dómsdagur er þá ekki aðeins framtíðarviðburður heldur í núinu og varðar þennan dag og okkur öll. Dómsdagur Jesú merkir, að í tengslum við hann verður öllum kreppum snúið til góðs, ef við viljum horfast í augu við vanda okkar og að Guð kallar okkur til góðra viðbragða. Allt sem áður íþyngdi er leitt til betri vegar. Það sem við gerðum og sáum eftir er fyrirgefið. Það sem við botnuðum ekki í og var okkur til ills er endurunnið til góðs. Krísan í Kristssamhengi merkir þá, að það sem var vont verði betra. Að vera í krísu hjá Kristi er að mega fara „yfir um” og til lífsins! Á hverju augnabliki kemur Guð og er kominn. Við lifum í skurðpunkti tíma og eilífðar.

Skiladagur eilífðar

En hvað þá um hinsta tíma? Gerir presturinn lítið úr honum og dómsdegi? Ber að skilja þessa íhugun dagsins eins og útvatnaða tilvistarspeki og að kostur okkar sé að lifa í tómhyggjuhugrekki gagnvart dauða og tilgangsleysi. Nei. Öll verðum við að standa skil á lífi, verkum, hugsunum og gjörðum. Við eigum að lifa svo að við mætum uppgjöri. Það er eiginlega nauðsyn svo hægt sé að gera upp hið illa sem ekki er hægt af mönnum og mannlegu dómsvaldi. Þess vegna hafa sjáendur allra alda talið framhald lífsins í eilífðinni nauðsyn. Öllum ber að lifa þannig á hverjum tíma að hann eða hún geti mætt „dómi“ með hreina samvisku. Í postullegu trúarjátningunni játum við, að Jesús muni dæma lifendur og dauða.

Dómsdagslýsingar

En hvernig það verður hafa menn skiptar skoðanir. Það er eðlilegt. Mikilvægt er að muna að hugmyndir okkar um dómsdag eru mjög tengdar forsendum og jafnvel fordómum. Sögulegt efni litar líka hvernig við skiljum eða hvort við tökum dómsdag alvarlegan. Margir afskrifa hann sem skemmtilegt en úrelt rugl. Áhugamenn um tónlist þekkja dómsdagssálminn Dies Irae, dies illa… sem sr. Matthías Jochumsson þýddi með Dagur reiði, dagur bræði… Lýsingar dómsdags eru í bókmenntum fornaldar og miðalda næsta rosalegar og tónsnillarnir hafa notað dramað í sálumessum. Listamenn aldanna hafa málað stórkostlegar dómsdagsmyndir, um hvernig hinir óguðlegu eru dæmdir til hryllingsvistar og hinir hólpnu leiddir inn í dýrð ljóssins. Þetta eru rosalegar krísur en menn eiga ekki að trúa þeim bókstaflega.

Svo eru auðvitað allar heimsslitakvikmyndir Hollywood tilbrigð við dómsdagsstef. Þó við höfum gaman af drama, litagleði og hugarflugi kvikmynda, listaverka og tónverka er efamál að dómsdagur Guðs verði í samræmi við lýsingarnar. Þetta eru tjáningar á tilfinningum en ekki hlutlægar eða vísindalegar lýsingar á viðburðum á krossgötum tíma og eilífðar. Textar Opinberunarbókar Jóhannesar eru eins og litríkar skyggnur, tilfinningaþrungin túlkun dómsdags og framtíðar. Við þurfum vissulega að að taka þessar tjáningar alvarlega, en þó ekki bókstaflega. Okkar er að greina merkingu að baki táknmáli.

Dómsdagsspár eru ekki lengur aðeins viðfang listamanna eða spámanna. Raunvísindamenn hafa tekið við af sjáendum fortíðar að spá fyrir um alvöru dómsdaga. Þar er krísa sem hvetur til að mannkyn, þjóðir, hópar og einstaklingar horfist í augu við ábyrgð okkar. Við búum framtíð börnum okkar og afkomendum. Við höfum ekki leyfi til loka eyrum, augum og vitund okkar. Guð kallar til ábyrgðar en þó ekki til kvíða, angistar eða þjáningar. Áhersla Biblíunnar er að Guð er Guð og að maðurinn hefur ráðsmennskuhlutverki að gegna.

Dómsdagur núna

Lærðu að sjá krísurnar í lífinu sem aðstæður sem þarf að taka á og leyfa að verða til góðs. Guð sendir þér ekki áföll til að reyna þig. Guð stendur með þér í krísunum og þær geta orðið til vaxtar og þroska. Guðshjálpin er raunverulegur kraftur til að breyta ógn í tækifæri, krísu í vaxtarmöguleika. Dómsdagurinn er dagur möguleika en ekki dagur reiði og bræði. Hin kristna dómshugsun hjálpar okkur til að skilja betur að við megum breyta öllu, hætta að dæma aðra og dæma fremur okkur sjálf til lífs og ábyrgðar. Niðurstaðan er að dómsdagur merkir að Guð stendur með þér og hjálpar þér að stíga frá dauðanum til lífsins – núna og líka um alla eilífð. Dómsdagur er nú því Guð kemur. Svo endar gamla árið og aðventan hefst sem tími eftirvæntingar og vona. Til hamingju með dóminn. Til hamingju með nýjan tíma og gjöfult líf.

Síðasti sunnudagur kirkjuársins.

Mynd SÁÞ

Hin hlið ástarinnar

Sonur minn spurði mig fyrir nokkrum dögum: „Pabbi hefur þú þurft að tilkynna fjölskyldu að einhver sem tilheyrði henni hafi lent í slysi og dáið?“ Ég svaraði honum að það væri erfiðasti þáttur prestsstarfsins að fara heim til fólks og bera því hörmulegar fréttir. Hann hélt áfram að spyrja: „Hvernig líður þér þegar þú hittir fólkið og þarft að segja þeim frá hræðilegum málum, slysum og dauða?“ Ég sagði honum frá hve átakanlegar aðstæðurnar væru oftast og líka tilfinningaflóðinu, hvað færi í gegnum hugann gagnvart þessu nístandi verkefni, hvernig ég undirbyggi mig, opnaði vitundina, tengdi inn í himininn og kyrrði hugann. Til þess að geta þjónað fólki vel væri mikilvægt að vinna með eigin ótta, áföll og trú. Við töluðum svo saman áfram, prestur og pabbi með reynslu af mörgum sorgarferðum og sextán ára ungur maður sem þorir að vinna með hlutverk, líf og dauða og spyrja. Mitt hlutverk er að vera honum faðir sem miðlar hvernig maður virðir mörk sín, bæði sem dauðlegur einstaklingur og líka sem prestur í þjónustu við líf, fólk og Guð.

Ég dáðist að syni mínum að hann hefði getu til samkenndar og að spyrja mikilvægra spurninga, væri reiðubúinn að ræða um myrkrið, óttann og eyðinguna og vilja til að halda á djúp visku og skilnings. Og var líka þakklátur fyrir að feðgatengsl okkar væru opin og þyldu svona þungaumferð sálarinnar. Ég hef sagt honum sögur úr eigin lífi, hvernig ég brást við eigin dauðaógn á unga aldri. Hann hefur líka sagt mér hvað hann hugsaði þegar hann hjólaði framan á bíl, flaug hátt í loft upp áður en hann skall í götuna. Og hann veit að við eigum alltaf val hvernig við bregðumst við áföllum og verkefnum lífsins.

Allir deyja – segjum við. Skuggahlið alls lífs er hrörnun og dauði. Hvaða afstöðu hefur fólk? Er lífi lokið við dauðastund eða er andlát fæðing til nýrrar veru? Hvernig bregðumst við í hörmulegum aðstæðum þegar fólkið okkar er slitið úr fangi okkar og fjölskyldu? Tengjum við sjálf okkur við skil tíma og eilífðar? Undirbúum við okkur undir fæðingu til eilífðar? Í dag íhugum við stóru málin í þessu hliði himins. Um líf og dauða, ást og sorg. Um sæluna sem Jesús talar um – og sú sæla er að vera með Guði.

Þessi vika er í kristninni notuð til að minnast ástvina sem eru farin á undan okkur inn í himin Guðs. Vikan er íhugunarvika hins heilaga, hinna heilögu, himinsins og þeirra sem þar syngja höfundi lífsins. Þegar við minnumst ástvina er hollt að hugsa um líðan okkar og líka íhuga viðbrögð okkar við missi og hvernig við viljum heiðra minningu en líka lifa óttalaust og í fullri gnægð. En djúpíhugun þessara daga varðar þó ekki dauða heldur fremur líf. Kristnin er ekki dauðasækin heldur lífssækin.  

Hefur þú misst einhvern sem var þér kær? Hefur einhver dáið sem þú hefur elskað? Ef svo er þekkir þú söknuð og sorg. Sorg er gjald kærleikans. Sorgin er skuggi ástarinnar. Sorg er hin hlið elskunnar. Þau sem aldrei hafa elskað syrgja ekki dauða annarra. Sorg er viðbragð þess sem hefur elskað en misst. En getum við forðast sorg og gætt að okkur svo við verðum ekki fyrir áfallinu? En valið á sér skuggahlið. Viltu sleppa að elska? Viltu fara á mis við ástvini? Fæst vilja afsala sér þeim undursamlega þætti hamingju og lífs. Ef við viljum losna við eða forðast að syrgja og sakna kaupum við þá sorgleysu dýru verði því þá megum við ekki elska neitt í þessum heimi.

Sorg er ekki sjúkdómur, hún er hluti af lífinu, tákn um heilbrigðar tilfinningar, ást sem hefur misst elskuna sína eða vin. Sorg er sársauki sem verður þegar við missum einhvern sem er okkur mikilvægur og við elskum. En að vinna með sorg og búa við sorg er vegferð. Enginn verður fullsáttur við missi en sorgarvinnan leiðir oftast til að fólk lærir að lifa áfram þrátt fyrir missinn. Syrgjandi kemst oftast á það stig að geta líka notið gleði á ný þrátt fyrir að lífið sé breytt. Látinn ástvinur skilur alltaf eftir skarð sem þau sem eftir lifa reyna að fylla. Við fráfall verður flest með öðrum svip en áður. Hið yfirþyrmandi verkefni syrgjenda er að læra ný hlutverk og finna sér jafnvel nýjan tilgang.

Sorgarvinnu er gjarnan lýst sem mynstri, sem kallað er sorgarferli. Fyrsta skrefið er áfall. Hið annað er einhvers konar aðlögun að missinum. Þriðja skrefið varðar að taka þátt í lífinu að nýju sem fullveðja þátttakandi. Þegar við missum verða flest dofin af högginu. Sum festast í afneitun í einhvern og stundum langan tíma. Í sumum tilvikum verður áfallið svo mikið að fólk fer í djúpan tilfinningadal og verður sem lamað af drunga áður en bataferlð hefst. Að syrgja og verða fyrir miklum tilfinningalegum sviftingum er ekki sjúklegt heldur oftast merki um að við erum heilbrigð, en bara á ókunnum tilfinningaslóðum.

Tilfinningadoði sem einkennir fyrstu daga og vikur missis er kæling eða frysting sálar. Stundum tekur þýðutíminn langan tíma. Vegna kælingardofans kemst fólk oft í gegnum útfarartíma án þess að bugast. Þegar kulda leysir svo – eins og í náttúrunni á vorin – verður flóð í sálinni. Það er gjarnan tímabil mikils sársauka. Þá hellist yfir syrgjendur raunveruleiki missis og endanleika. Margir upplifa að vera illa áttað, einmana í tilverunni – eiginlega utan við sjálf sig.

Söknuður er langlífur. Sterkar tilfinningarnar eru eðlileg viðbrögð heilbrigðs fólks í hræðilegum aðstæðum. Læknar tíminn sárin? Nei, tíminn læknar ekkert. Eins og líkamssárin þarfnast sálarsárin hreinsunar og ummönnunar. Við megum gjarnan tala um látna ástvini okkar, skrifa niður minningar um þau, skoða myndir af þeim, minnast viðburða og líka skondinna, áhrif þeirra á okkur, rifja upp það sem þau kenndu okkur og gerðu fyrir okkur – eða það sem þau gerðu ekki fyrir okkur og er okkur jafnvel sárt.

Hver hafði mest áhrif á þig til að gerði þig að þeirri manneskju sem þú ert? Var það móðir þín eða faðir, afi eða amma eða jafvel barnið þitt? Hvert þeirra sem býr í himninum varð þér til hjálpar? Var eitthvert þeirra kunnáttusamur kúnstner sem efldi þig? Hver varð þér vitringur? Var eitthvert þeirra sem kenndi þér að spenna greipar og tala við Guð eins og vin? Var eitthvert þeirra sem varð þér hlýr faðmur, skjól og hálsakot sem þú áttir víst í flóknum og köldum heimi? Var einhver sem bjargaði þér í aðkrepptum aðstæðum eða hjálpaði þér þegar þú þarfnaðist þess? Dragðu upp í huganum myndir og leyfðu þér að þakka fyrir þau.

Og svo að þínu lífi nú. Hver er sæla þín? Dagur látinna er dagur lífs. Hver er lífsstefna þín? Guð elskaði og himininn fylltist sorg yfir brenglaðri mannaveröld, mengun sköpunar og dauða sonarins á krossi. Guð lifir sig í sorg þína og skilur sársauka þinn. En dauðinn dó og lífið lifir. Því lýkur lífi ástvina þinna ekki í tómi endanlegs dauða heldur í ástarríki eilífðar. Guð hefur opnað allar gáttir dauðans með lífsmætti sínum. Því máttu fela Guði ástvini þína, ást þína, sorg þína og tilfinningar. Svo máttu falla í fang Guðs í þínum eigin dauða – og fæðast inn í ást eilífðar. Sorgin er skuggi ástarinnar en ljós Guðs lýsir upp alla skugga og nærir ástina.

Í lok athafnar getið þið gengið fram og kveikt á kertaljósum og lagt í tröppurnar til að minnast látinna. Nýtið færið til að blessa minningarnar, vinna með tilfinningarnar – allar, líka þær sterku og neikvæðu, leyfa Guði að taka við eftirsjá og depurð þinni. Þú mátt kveikja ljós og minna þig á að lífið lifir. Trú er ekki vegferð til dauða heldur ferð lífsins. Dauðinn dó en lífið lifir.

Hugleiðing á allra heilagra messu í Hallgrímskirkju 7. nóvember, 2021. Meðfylgjandi mynd tók ég austan við Ingólfsfjall að kvöldi 30. október 2021. Útsýn til austurs og norðurljósin dönsuðu á danshvelfingu himins. 

Til hvers Grímseyjarkirkja, Hallgrímskirkja og … ?

Til hvers kirkja? Er þörf fyrir kirkju? Það er vissulega hægt að ná sambandi við Guð í fjallgöngu, við eldhúsborðið, í búðinni eða bílnum. En trú er ekki bara einstaklingsmál. Trú er stór og alltaf samfélagsmál. Kirkjuhús eru hús til að taka á móti fólki sem leitar hins heilaga, vill syngja lífssöngva, kyrra huga, nærast andlega og leyfa öllu því sem er hið innra að tengjast því djúpa, háleita, stórkostlega, tíma og eilífð – Guði. Kirkja er hverju samfélagi nauðsyn, ekki aðeins til að vera vettvangur um stóratburði lífsins, kveðja látna ástvini og félaga heldur eru kirkjur líka tákn um að nærsamfélagið lifir. Kirkjur eru lífstákn hverrar byggðar. Þegar kirkja brennur, fýkur eða skaddast er það áfall. Kirkjubruninn í Grímsey í september var skelfilegur og varðaði ekki bara Grímseyinga heldur þjóðina, okkur öll. Það var undursamlegt að fylgjast með viðbrögðum landa okkar eftir brunann, hve samúðin var rík og hve margir tjáðu vilja til að styrkja Grímseyinga. Og nú á að byggja. Er það ráðlegt, mikilvægt, gerlegt eða jafnvel þjóðhagslega hagkvæmt?

Til að svara slíkri spurningu er þarft að skoða sögu Hallgrímskirkju. Margir lögðust gegn byggingu kirkjunnar á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar. En hópur hugsjónafólks ákvað að byggja. Sigurbjörn Einarsson messaði á Holtinu og hvatti til framkvæmda. Ekki vantaði úrtölufólkið en kraftmiklir ofurhugar létu ekki stoppa sig. Miðað við fátækt safnaðar og kostnaðaráætlanir var fáránlegt að láta sig dreyma um svona stóra byggingu. Byggingaráform Hallgrímskirkju þóttu órar. Þegar fyrsta skóflustungan var tekin á köldum desemberdegi árið 1945 var ekki einn einasti fjölmiðlamaður við þann merka atburð og hvergi var frá honum sagt. En kvenfélag Hallgrímskirkju lét sig það litlu varða og bakaði með gleði upp kapellu og turn stórkirkjunnar.

Trú er alltaf stærri en hræddar peningasálir. „Við skulum fara til og byggja“ var prédikað á Skólavörðuholti. Ofurhugar Íslands heyrðu og við stöndum í þakkarskuld við þá. Þeir voru frumkvöðlar, sem eru okkur skínandi fyrirmyndir um að þora að hugsa stórt, þora að framkvæma og halda því fram sem mestu máli skiptir fyrir heilbrigði einstaklinga og samfélags. Milli bragganna í Skipton Camp á Skólavörðuholti var kapellan svo vígð Guði þann 5. desember árið 1948. Svo var haldið áfram. Fjöldi iðnaðarmanna hafði atvinnu og lifibrauð af byggingu guðshússins í áratugi. Og þeir unnu kraftaverk og kirkjan var vígð 26. október 1986. Hún á því 35 ára vígsluafmæli nú. Síðan hafa tugir milljóna hafa komið í þetta guðshús.

Grímseyjarkirkja

Kirkja er samfélagi nauðsyn. En er ástæða til að byggja kirkju í Grímsey? Já, þar sem er fólk þarf kirkja að vera, lifandi vettvangur um dýpstu mál lífsins, bestu söngva veraldar og staður til að tjá það sem skiptir máli. Hallgrímskirkjufólk veit hversu mikilvægt var að fá stuðning í framkvæmdum. Og það eru mörg sem stutt hafa kirkjubygginguna, kirkjustarfið, kirkjulistina og fólkið sem hér hefur starfað. Og af því við vitum að ofurhugar þurfa stuðning hefur sóknarnefnd Hallgrímskirkju ákveðið að fjóra sunnudaga í röð munum við í þessari kirkju safna fé til kirkjubyggingar í Grímsey. Fjármunir koma frá þeim sem koma í messu í kirkjunni en að auki hefur sóknarnefnd líka ákveðið að leggja fjármuni úr styrktarsjóði kirkjunnar á móti messusamskotum. Við viljum styðja kirkjubyggingu í Grímsey því kirkja er nauðsyn. Svo tengjumst við Grímseyjarkirkju með ýmsum hætti. Kirkjuvörður og sóknarnefndarmaður í Hallgrímskirkju er t.d. sonur Einars Einarssonar djákna í Grímsey, þess oddhaga kirkjumanns sem vígðist til þjónustu í Grímsey. Fonturinn sem hann gerði brann í kirkjubrunanum. Þegar áföll verða getur endurnýjun hafist. Kirkja er lífsmark, tákn, vettvangur og í Grímsey þarf meira en heimskautsbaut og höfn. Grímsey þarf helgistað, guðshús fyrir fólk. Förum til að byggja var sagt á Skólavörðuholti og svo varð. Förum til að byggja í Grímsey – og svo mun verða.

Bæn og kraftaverk

Í guðspjalli dagsins segir Jesús merkilega sögu. Um konu sem hafði í sér einurð, einbeittni og þor. Hún hafði verið órétti beitt og vildi ekki láta ofbeldið eða óréttinn sigra. Konan ætlaðist til að réttarkerfið virkaði, dómarinn sinnti starfi sínu og mál væru réttilega dæmd skv. lögum og góðri stjórnsýslu. Og hún bað, talaði og hikaði ekki. Hún var n.k. spámaður metoo í fornöld. Þegar þolandi víkur ekki heldur höfðar til sannleika og réttar falla álögin. Jesús Kristur stóð alltaf með lífinu og sagði þessa sögu af konunni sem þorði, vildi og gat. Einbeitni í lífinu skiptir máli. Staðfestan skilar að festurnar losna. Sögumaðurinn Jesús notaði dæmið til að minna á guðsdýrkun og hið mikilvæga að biðja. Í lífinu þörfnumst við þess að tengja við djúp sjálfs okkar, við dýptir lífsins, réttinn og elskuna. Jesús sagði þessa sögu til að minna á að tengja við Guð sem aldrei verður þreyttur á okkur mannfólkinu. Guð heyrir, hlustar, þyrstir að við ræðum um mál okkar, gleðimál og sorgarefni – að við biðjum. Og þegar við hegðum okkur eins og konan sem vildi, þorði og gat gerast kraftaverk. Bæn er ekki að tala við sjálfan sig eða upp í vindinn. Bæn er öflugasta tjáning heims sem jarð- og himintengir, eyðir álögum, sektarkennd, órétti og býr til sátt og leggur grunn að friði. Þess vegna eru kirkjur tengistöðvar. Þeim er ætlað að vera kraftstöðvar fyrir gott og gjöfult líf.

Til hvers kirkja? 

Vestræn samfélög eru að breytast og hið íslenska einnig. En er trú að hverfa? Nei. Guð hættir ekki að vera til þó samfélög þróist. Þrá í grunni mennskunnar hverfur ekki. En formgerðir og stofnanir breytast í rás tímans. Greina verður að stofnanir og mannlíf. Það eru gamlar kirkjustofnanir fremur en kristni sem eru á skilorði samfélagsins. Það merkir ekki að kirkjuskipulag sé ónauðsynlegt – heldur að kirkja sé að endurnýjast. Stofnanir brenna og hverfa en Guð kallar alltaf með nýjum hætti á hverri tíð. Eðli trúar er að lifa í minningu sögunnar en líka í hverri nútíð guðskallsins og þora að ganga til móts við opna framtíð. Ef við bara snúum til fortíðar, lifum í fortíð, munum við ekki verða vör við að Jesús hefur staðið upp og kallað til lífs og starfa.

Hvaða hlutverki gegnir þessi 35 ára Hallgrímskirkja? Hún er guðshús. Hún er falleg. Fjölmiðlar heimsins hafa líka lyft henni í hæðir topplistanna. Árið 2015 valdi Architectural Digest Magazine Hallgrímskirkju sem eina af tuttugu fegurstu trúarbyggingum heims. En helgirýmið laðar og hvetur til íhugunar. Alla daga er hópur fólks biðjandi í kirkjuskipinu. 2016 útnefndi the Guardian kirkjuna sem eina af tíu mikilvægustu íhugunarhúsum heims. Ferðavefurinn Big Seven Tra­vel birt­ir ár­lega lista yfir fimm­tíu fallegustu bygg­ing­ar heims. Listi þessa árs, 2021, hefur verið birtur og Hall­gríms­kirkja er í 38. sæti á þeimn list­a. 127 þúsund ferðamenn tóku þátt í að raða á list­ann. Ekkert annað hús á Norðurlöndunum komst inn á hann. Sem sé Hallgrímskirkja er samkvæmt þessum lista fegursta hús Norðurlanda. Mörgum þykir óperuhúsið í Sydney fagurt en Hallgrímskirkju er þó raðað ofar!

Hallgrímskirkja er sóknarkirkja og líka þjóðarhelgidómur. Hún er áfangi ferðalanga, pílagrímastaður. Kirkjan hefur orðið mörgum hlið himins og margir segjast hafa náð að tengja við uppsprettur lífsins, sjálft sig og verðandi tímans. Alla daga sækir fólk í þetta hlið himins til að tengja við djúpið. Í kirkjunni er gott að íhuga, gott samband. Það sem er mikilvægast er að kirkjan er hús Guðs. Hún er ekki utan þjónustusvæðis. Hún þjónar því hlutverki að vera tengill Guðs og manna. Hún er guðshús eins og Hallgrímur Pétursson nefndi kirkju. Guðshús er bænahús fyrir fólk og líf. Þannig eru allar kirkjur landsins. Hús fyrir bænir og Guð heyrir.

Hallgrímskirkja 24. október 2021. 21. sunnudagur eftir þrenningarhátíð, 35 ára vígsluafmæli Hallgrímskirkju, 347. ártíð Hallgríms Péturssonar. Fyrsta messa hins nýja Kórs Hallgrímskirkju undir stjórn Steinars Loga Helgasonar. Meðfylgjandi mynd tók ég frá þriðju hæð Háskóla Íslands undir morgun síðla vetrar 1982. Sperrur komnar í kirkjuskipinu en ekki fokhellt. 

Lexía: 2Mós 23.1-9
Þú skalt ekki breiða út róg. Þú skalt ekki leggja þeim lið sem fer með rangt mál með því að bera ljúgvitni. Þú skalt ekki fylgja meirihlutanum til illra verka. Þú skalt ekki vitna gegn andstæðingi í neinni sök þannig að þú fylgir meirihlutanum og hallir réttu máli. Þú skalt ekki draga taum fátæks manns í málaferlum. Rekist þú á villuráfandi naut eða asna óvinar þíns skaltu færa honum skepnuna aftur. Sjáir þú asna andstæðings þíns liggja uppgefinn undir byrðinni skaltu ekki láta hann afskiptalausan heldur rétta honum hjálparhönd. Þú skalt ekki halla rétti fátæks manns sem hjá þér er þegar hann á í málaferlum. Forðastu mál byggð á lygi og vertu ekki valdur að dauða saklauss manns og réttláts því að ég dæmi ekki sekan mann saklausan. Þú skalt ekki þiggja mútur því að mútur blinda sjáandi menn og rugla málum þeirra sem hafa rétt fyrir sér. Þú skalt ekki beita aðkomumann ofríki. Þið farið nærri um líðan aðkomumannsins því að þið voruð aðkomumenn í Egyptalandi

Pistill: Kól 2.2-7
Mig langar að allir uppörvist í hjörtum sínum, sameinist í kærleika og öðlist fulla sannfæringu og innsýn og geti gjörþekkt leyndardóm Guðs sem er Kristur. En í honum eru allir fjársjóðir spekinnar og þekkingarinnar fólgnir. Þetta segi ég til þess að enginn blekki ykkur með fagurgala. Ég er hjá ykkur í andanum þótt ég sé líkamlega fjarlægur og horfi með fögnuði á góða skipan hjá ykkur og festu ykkar í trúnni á Krist. Þið hafið tekið á móti Kristi, Drottni Jesú. Lifið því í honum. Verið rótfest í honum og byggð á honum, staðföst í trúnni, eins og ykkur hefur verið kennt, og auðug að þakklátsemi.

Guðspjall: Lúk 18.1-8
Þá sagði Jesús þeim dæmisögu um það hvernig þeir skyldu stöðugt biðja og eigi þreytast: „Í borg einni var dómari sem hvorki óttaðist Guð né skeytti um nokkurn mann. Í sömu borg var ekkja sem kom einlægt til hans og sagði: Lát þú mig ná rétti á mótstöðumanni mínum. Það vildi hann ekki lengi vel. En að lokum sagði hann við sjálfan sig: Ekki óttast ég Guð að sönnu né skeyti um nokkurn mann. En þessi ekkja lætur mig aldrei í friði. Því vil ég rétta hlut hennar áður en hún gerir út af við mig með nauði sínu.“ Og Drottinn mælti: „Heyrið hvað rangláti dómarinn segir. Mun Guð þá ekki rétta hlut sinna útvöldu sem hrópa til hans dag og nótt? Mun hann draga að hjálpa þeim? Ég segi yður: Hann mun skjótt rétta hlut þeirra. En mun Mannssonurinn finna trúna á jörðu þegar hann kemur?“

 

Fegurst í heimi

Er Hallgrímskirkja falleg kirkja? Hvað sýnist þér? Þegar þú horfir í kringum þig, inn í kór, upp í hvelfingarnar, hver er þá niðurstaðan? Er kirkjan fögur? Hvað finnst þér um staðsetningu kirkjunnar í borgarlandslaginu? Hvernig líkar þér þegar þú kemur frá Keflavík og sérð Hallgrímskirkjuturninn og kirkjuskipið nánast sigla ofar borginni? Í vikunni keyrði ég um Kjalarnesið og mér þykir alltaf heillandi þegar Hallgrímskirkjuturn ber nákvæmlega við Keili. Þá verður samstilling formanna og kraftanna.

Hvað er falleg kirkja? Fegurð má vissulega skilgreina með margvíslegu móti og frá öðrum sjónarhólum en hinum fagurfræðilegu – estetísku. Er Hallgrímskirkja falleg? Kirkjuhúsið kitlar augu margra. Ljósflæðið hrífur og formfegurðin líka. Mörgum þykir kirkjan vera bæði fjarskafögur og innanfögur. Arkitektaskólar eru farnir að senda fólk til Íslands til að skoða kirkjuna og byggingarlist Guðjóns Samúelssonar. Mörgum í sókninni þykir vænt um kirkjuna og eiga dýrmætar minningar héðan um stóratburði lífsins, skírnir, fermingar, giftingar og útfarir og minnast annarra hátíða og viðburða. Sum þeirra tala líka um hvað það hafi verið gaman að klifra í stillönsunum. Fjöldi Íslendinga, utan sóknar, sækir þjónustu til þessarar kirkju.

38

Meðal ferðafólksins er kirkjan vinsæl og aðdráttarafl. Fjölmiðlar heimsins og matsaðilar hafa lyft henni í hæðir topplistanna. Árið 2015 valdi t.d. hið heimsþekkta Architectural Digest Magazine Hallgrímskirkju eina af tuttugu fegurstu trúarbyggingum heims. Ári síðar útnefndi the Guardian kirkjuna sem eina af tíu mikilvægustu íhugunarhúsum í heimi. Ferðavefurinn Big Seven Tra­vel birt­ir ár­lega lista yfir fimm­tíu fal­leg­ustu bygg­ing­ar heims. Listi þessa árs, 2021, hef­ur nú verið birt­ur og Hall­gríms­kirkja er í 38. sæti á list­an­um. 127 þúsund ferðamenn tóku þátt í að raða á list­ann.Ekkert annað hús á Norðurlöndunum komst inn á hann. Sem sé Hallgrímskirkja er skv. þessum lista fegursta hús Norðurlanda. Mörgum þykir óperuhúsið í Sydney fagurt en Hallgrímskirkja er fyrir ofan það á listanum.

Hvað er falleg kirkja?

Fyrir nokkrum árum kom ég í Frúarkirkjuna í Kaupmannahöfn. Thorvaldsensskúlptúrar kirkjunnar eru hrífandi og gerð byggingarinnar er laðandi. Ég var á kirkjufundi í Kaupmannahöfn. Við stóðum saman uppi á svölum tveir samverkamenn í fjölþjóðlegum kirknasamtökum og ræddum um kirkjuna. Ég spurði vin minn, finnskan biskup: „Finnst þér þetta falleg kirkja?“ Hann horfði á mig hugsi, blikkaði augum meðan íhugaði spurninguna og svaraði svo brosandi og ákveðið: „Þetta er hús Guðs. Þetta er kirkja. Þar með er hún falleg.“ Ég spurði frá sjónarhóli fagurfræði og bygingarlistar og um smekk mannsins. En sá finnski svaraði guðfræðilega. Viðmiðið hans var trúarlegt. Það sem þjónar Guði er fallegt. Og slík er afstaða hins kristna. Það sem þjónar Guði, þjónar lífi, eflir gæði í lífi fólks. Og frá sjónarhóli Guðs er fallegt skilgreint róttækt. Við þurfum að temja okkur þennan trúarsnúning til að skerpa smekk, augu, skynjun, tengsl og túlkun. Hver er smekkur Guðs?

Hlutverkin og aðalmálin

Hallgrímskirkja er margt og gegnir mörgum hlutverkum. Hún er pílagrímastaður. Vegna þess að hún er orðin fræg um allan heim koma hingað ferðamenn. Hún er leiksvið ljóss og skugga og gott ómhús tónlistar. Í þessu hliði himins hefur fólk svo náð að tengja við uppsprettur lífsins, sjálft sig og verðandi tímans. Alla daga þegar kirkjan er opin sækir fólk í þetta hlé til að tengja við djúpið. Hér er gott að íhuga, gott samband. Það sem mikilvægast er að hér er Guð, friður, Andi Guðs. Við sem hér störfum gerum okkur grein fyrir mikilvægi þess að þjóna fólki, vera fólki útréttir armar himins, eyru hins hjálpandi kærleika, augu hins umhyggjusama. Hlutverkin eru margvísleg og flókin. Oft erum við ekki viss um hvaða leið eigi að fara. En þegar allt er skoðað og skilgreint er meginhlutverkið skýrt. Kirkjan er hús Guðs. Hún er falleg því hún þjónar því hlutverki að vera tengill Guðs og manna. Hún er ekki utan þjónustusvæðis heldur getur fólk tengt.

Smekkur Guðs

Smekkur fólks er mismunandi. Um gæði húsa hefur fólk og má hafa á mismunandi skoðanir.Við deilum ekki um smekk. En kirkjuleg fegurð varðar ekki aðeins útlit, efni, liti eða form, heldur fremur andlegan veruleika – að kirkja er hús Guðs. Það er aðalatriðið og skilgreiningaratriði sem er handan smekks einstaklinga og sprengir öll þröng og einstaklingsbundin viðmið. Guðsdýrkunin og guðstengslin skilgreina allt. Og það er raunar stórkostlegt að breyta um fegurðarskyn og merkingartúlkun, og læra að horfa á allt með hætti guðssýnarinnar, endurskoða gildi alls sem er í kringum okkur og í okkur líka. Ertu fallegur? Ertu falleg? Fegurðardrottning heimsins? Á topplistanum? Já, þannig horfir Guð á þig – þú ert djásn í heimi og lífi.

Alla daga og á öllum árum þarf kirkja Jesú Krists að fara yfir hvað er við hæfi í lífi kristninnar og þar með kirkjunnar. Er þjónusta við ferðamennina í samræmi við hlutverk kirkjunnar og hvernig megum við efla tjáninguna um að fólk sé elskað og Guð sé nær fólki en vitund og hjartsláttur þess? Er hægt að styrkja eitthvað í kirkjustarfinu til að þjóna betur hamingjuleit fólks á ferð? Geta sýningar, tónleikar, listin og reksturinn þjónað mönnum og Guði betur? Getum við bætt þjónustu við söfnuðinn með nýjum starfsþáttum og starfsháttum? Er mannahaldið í samræmi við að þetta er fallegt hús Guðs?

Mér þykir Hallgrímskirkja falleg kirkja, en fallegust er hún þegar hún verður því fólki sem sækir kirkjuna heilagur staður. Kirkja er hús fyrir samfélag, fyrir mikilvægustu söngva lífsins og bestu orð veraldar. Kirkja er veruleiki og samhengi þess að himin og jörð kyssast. Kirkjuhúsið Hallgrímskirkja er merkilegt byggingar- og menningar-sögulegt djásn, 38. fegursta hús heims skv. smekk fjölda ferðamanna. Ytri ásýnd kirkjunnar er mikilvæg en fegurð kirkjunnar verður best skilgreind í ljósi trúar og guðstengsla. Guð er fegurðin í fyllingu sinni. Allur heimur og allt líf þiggur fegurð og merkingu frá þeirri uppsprettu. Að húsið er hús fyrir bæn merkir að kirkjan er heitur reitur tengsla Guðs og manna. Þegar kirkja er vettvangur faðmlags Guðs og lífs er kirkja bænahús.

Hvað er fallegt og hvað er mikilvægt? Fólk getur metið hluti, málstað og fólk misjafnlega en í samhengi Guðs breytast öll viðmið. Menn eru misjafnt metnir í misvitru samfélagi fólks. En smekkur Guðs er annar og um hann verður ekki deilt heldur. Þegar Guð horfir er fólk fallegt. Guð býr ekki til lista yfir fallega fólkið og svo hina sem ekki eru falleg. Við erum elskuð, falleg, á topplista Guðs. Þegar Guð horfir á okkur erum við stórkostleg. Af hverju? Vegna þess að við erum Guðs börn. Já kirkja er falleg því hún þjónar Guði en svo er það makalausa að Guð elskar fólk meira en hús. Þú komst í fallegt hús en við megum vita að við í okkur býr fegurð himinsins. Þú ert fögur og fallegur því þú ert ástvinur Guðs. Já musteri Guðs.

Hallgrímskirkja 5. september. 14. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Aðalfundur Hallgrímssafnaðar. 

Sjónlist lífsins

Vestan við Osló í Noregi er merkileg listamiðstöð sem fjölmiðlar heimsins hafa í mörg ár bent á og fékk m.a. heimsverðlaun listasafna árið 2019. New York Times, Bloomberg, The Telegraph og fjöldi miðla hafa hvatt alla sem hafa áhuga á menningarmálum að heimsækja Kistefos í Jævnaker í Noregi. Must see er ábending stórmiðlanna. Og ég vitjaði staðarins í sumar.

Fyrir 130 árum var byggð sögunarmylla við ána Randselva. Henni var svo lokað um miðja síðustu öld. Síðar var ákveðið að nýta svæðið í þágu lista. Helstu skúlptúristar heimsins hafa unnið verk fyrir Kistefos og af því metnaðurinn er gífurlegur eru gæði verkanna mikil. Árið 2019 var svo tekið í notkun nýtt galleríhús sem hefur vakið mikla athygli og verður í framtíðinni örugglega á topp-hundrað listum yfir fegurstu eða merkilegustu byggingar heims. Húsið þverar ána. En það er ekki lagleg bygging eða brú heldur mun fremur skúltúr því það er sextíu metra langur sívalningur, sem er undinn í miðjunni. Ekki hátt hús heldur snúin lengja, skúlptúr á hlið. Hvernig færi ef Hallgrímskirkjuturn væri lagður á hliðina yfir Ölfusá? Hann myndi líklega brotna í miðjunni. Það var verkfærðilegt afrek að hanna og byggja húsið. Af því að húsið er snúið heitir það Twist. Og miðlar heimsins segja að þessi snúður sé mustsee og skúlptúraskógurinn líka.

Kvisjá og auga

Heimslistamennirnir hafa skapað mikil listaverk fyrir Kistefos. Nú eru þar fimm tugir verka og fjölgar á hverju ári. Eitt er eftir Ólaf Elíasson, okkar mann, sem gerði flottan kaleidoskóp, kviksjá eða speglakíki, sem hægt er að snúa og sjá tilveruna með nýjum og óvæntum hætti.Hreyfing, þáttaka, sjón og uppstokkun eða endurlit eru mikilvægir þættir í mörgum verkum Ólafs. Á öðrum stað var kolkrabbi Bjarne Melgård sem var með fætur í jörðu en angarnir komu sum staðar upp. Það var sem skepnan kæmi upp úr vatni og mold og horfði á okkur. Jeppe Hein gerði völdunarhús úr 460 þrístrendum speglasúlum sem mynda eilífðarsýn, allt brotnar en margfaldast líka. Allir komumenn laðast að þessu verki sem heitir Þagnarvegur og ganga leiðina eða veg verksins og leita að þagnarmiðjunni. Á leið kyrrðarvegarins eru alls konar þrautir sem börn á öllum aldri glíma við. Margir blotna á leiðinni en allir sjá tilveruna frá nýjum sjónarhóli. Skúlptúrinn hefur margar trúarlegar vísanir.

Út í lóni við vatnsinntak stöðvarhússins er ristastórt listaverk eftir japönsku listakonuna Kusama. Eins og mörg listaverk Kusama, t.d. skúlptúrar og föt, er verkið doppótt og grunnlitur anganna var rauður. Fólk á öllum aldri staldraði við þessa litríku arma sem teygðust upp úr vatninu og til himins, eins og ákall til hæða. Kusama hefur talað um þetta verk eins og sálm mannkyns, bæn um frið og von. Hægt er að velja hvort fólk horfir beint á verkið eða í gegnum gler og ramma. Þessi doppótti sálmur var mörgum opinberun.

Einn af stærstu skúlptúrum Kistefos er verk Marc Quinn sem gerði risastórt auga – tíu metra breitt – og kom fyrir í miðju fljótinu. En augað er ekki aðeins eftirmynd auga lifandi manns heldur flæðir vatn út úr auganu. Skúlptúrinn ýtir við fólki. Auga í vatni og vatn úr auga. Er náttúran og maðurinn þar með eitt? Er augað guðlegt og grætur? Mér þótti Kistefos vera eins og staður nýrrar sýnar. Kraftaverkastaður, vitjunarstaður.

Sjón og sýn

Hvað sjáum við, hvernig og hvað er mikilvægt að sjá? Eitt er hvað við ættum að sjá – must see – en svo er ekki öllum gefið að sjá. Maðurinn í guðspjalli dagsins var blindur. Jesús Kristur horfði á hann og fann sjónarþrá hans. Listamaður lífsins – gjörningasnillingurinn Jesús Kristur – opnaði. Hann hjálpaði maninum til að sjá að menn væru ekki tré heldur dásamlegir tvífætlingar sem væru öðru vísi en kyrrstæðar lífverur.

Í þessari sögu notaði Jesús lífsvökva sinn til að væta augu hins blinda. Vatn flæddi í og um augu. Þegar Jesús framdi gjörning gerði hann gjarnan eitthvað táknrænt og notaði sýnileg efni. Hann potaði einnig í eyrun á mönnum sem voru sjúkir eða vætti málhaltar tungur eða blind augu. Stundum sagði Jesús máttarorð, eins og Effaþa – opnist þú. Í frásögnum um Jesú segir frá mönnum sem leituðu bættrar heilsu. Saga dagsins um blinda manninn er hluti af mikilli leyndarhefð, sem liðast um guðspjöllin, og skýrir af hverju maðurinn átti ekki að fara inn í þorp eftir lækningu. Sögurnar tjá vel að Jesús hafði ekki áhuga á að vera landlæknir Palestínu eða sóttvarnalæknir heldur farvegur lífsins, nærvera Guðs. Ef við erum opin gagnvart sérstökum kraftaverkum getum við notið svona sögu og séð í henni lífgefandi himinlist. Ef við efumst almennt um kraftaverkasögur er þó hægt að greina í henni næman og öflugan græðara sem gat og gerði meira en aðrir. Og sagan er líka táknsaga um að lífið hefur tilhneigingu til að fara vel og guðslífið afar vel. Kraftaverkasögurnar eru twist – vöndull eða snúningur – eins og Kistefosskúlptúrinn og þær opna.

Saga dagsins miðlar okkur merkingu. Við lendum öll einhvern tíma í aðstæðum að við sjáum ekki rétt og vel eða erum fjötruð af einhverju sem lamar eða hindrar. Fjölskyldur lenda í vandkvæðum, samfélög líka, þjóðir geta verið haldnar af vondum mönnum, hamförum, meinum eða áföllum sem leiða til ills. Mæla þarf fram lausnarorð eða framkvæmda gjörninga til góðs. Þörf er málsvara lífsins, hvort sem það eru sálfræðingar, stjórnmálajöfrar, hugsuðir, gjörningamenn, prestar, listamenn eða hugsjónamenn sem tala og gera það sem þarf til að leysa og opna.

Mannvirðing

Jesús Kristur viðurkenndi og viðurkennir vanda. Hann afskrifar ekki fatlaðan mann heldur virðir og veitir nýja sýn. Sagan er mannvirðingarsaga. Jesús Kristur kemur til hjálpar. Kristnin, hreyfing Jesú, hefur fylgt fordæmi hans, metur menn mikils, elur á mannvirðingu óháð hæfni og getu, reynir að koma fólki til hjálpar og sjálfshjálpar og eflir til lífs. Því hafa mannréttindi sprottið fram í kristnu, vestrænu samhengi og um allan heim þar sem orð og verk Jesú hafa verið metin. Textinn er því rammpólitískur. Jesús stóð með lífinu og gegn fjötrum.

Opnun eilífðar

Lífið hefur tilhneigingu til að fara vel vegna þess að Guð vakir yfir og leysir fjötra. Vandi manna – okkar – er ekki aðeins líkamlegir og andlegir kvillar sem geta dregið okkur til dauða, félagslegar festur eða náttúruvá. Við mörk lífs og dauða, tíma og eilífðar, kemur Jesús Kristur líka við sögu. Máttargjörningur Jesú veldur að lífi lýkur ekki við dauðastund og tveimur metrum undir grænni torfu. Kristindómur er átrúnaður opnunar. Við, menn, megum hitta Jesús Krist alla daga, líka í dauðanum. Hann opnar sjónleiðir eilífðar.

Hallgrímskirkja er í fjölmiðlum heims must see-staður. Og kirkjan er fegursta hús Norðurlanda skv. nýjum matslista ferðamanna heimsins. Fjöldi fólks kemur í kirkjuna í kyrrð og til að tengja við Guð, verða svo snortin og sjá betur lífsmál sín. Kistefossundrin eru líka dásamlegar augnhvílur. Í lífinu eru svo mörg must see. En til að við getum séð með skýrleika þurfum við kraftaverk, sjón frá Jesú, guðssýn í trú. Við megum læra að sjá okkur sjálf með guðsaugum, líka veröldina, náttúruna, annað fólk og fang eilífðar. Trúarsýn gefur þennan snúnings-twist eða kaleidoskóp til að sjá víðar og fleira. Mikilvægast er að Jesús Kristur virðir og kemur. Hann vill vökva augu og mæla máttarorð til að við getum horft vel og skilið betur, okkur sjálf, veröldina og Guð. Það er besta kraftaverk veraldar og listaverk lífsins.

Amen.

A few words for those of you not speaking Icelandic. Maybe you could understand the words must see and several of the world media I did mention. I did tell about a wonderful sculpture-park west of Oslo in Norway. In it I did learn to look differently. All of us need to work with our sight. How do we look at places and things and deside what is important? Is it only the must-see places? Are we ourselves, values, hopes and love also must see issues. Yes, they are. Jesus attended to the needs of the blind one and gave possibilities for new sight. Novelty is the way of the kingdom of God, opening in love. Must see – places are interesting – but your beauty is a must to attend to. The God-given sight concerns your beauty, the beauty of the world and the beauty of God.

Lexía: Slm 86.9-13, 15
Allar þjóðir, sem þú hefur skapað, 
munu koma og falla fram fyrir þér, Drottinn,
og tigna nafn þitt
því að þú ert mikill og gerir undraverk,
þú einn ert Guð.
Vísa mér veg þinn, Drottinn,
að ég gangi í sannleika þínum, 
gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt.
Ég vil þakka þér, Drottinn, Guð minn, af öllu hjarta
og tigna nafn þitt að eilífu 
því að miskunn þín er mikil við mig,
þú hefur frelsað sál mína frá djúpi heljar.
En þú, Drottinn, ert miskunnsamur og líknsamur Guð,
þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur.

Pistill: Post 9.1-5
Sál hélt enn áfram að æða um með líflátshótanir gegn lærisveinum Drottins. Nú fór hann á fund æðsta prestsins og beiddist bréfa af honum til samkundnanna í Damaskus að hann mætti flytja í böndum til Jerúsalem þá er hann kynni að finna og væru þessa vegar,[ hvort heldur karla eða konur. En þegar hann var á ferð sinni kominn í nánd við Damaskus leiftraði skyndilega um hann ljós af himni. Hann féll til jarðar og heyrði rödd segja við sig: „Sál, Sál, hví ofsækir þú mig?“ En hann sagði: „Hver ert þú, Drottinn?“ Þá var svarað: „Ég er Jesús sem þú ofsækir.“

Guðspjall: Mrk 8.22-27
Þeir koma nú til Betsaídu. Þar færa menn til Jesú blindan mann og biðja að hann snerti hann. Hann tók í hönd hins blinda, leiddi hann út úr þorpinu, skyrpti í augu hans, lagði hendur yfir hann og spurði: „Sérðu nokkuð?“ Hann leit upp og mælti: „Ég sé menn, ég greini þá líkt og tré, þeir ganga.“ Þá lagði Jesús aftur hendur yfir augu hans og nú sá hann skýrt, varð albata og gat greint allt. Jesús sendi hann síðan heim til sín og sagði: „Inn í þorpið máttu ekki fara.“