Greinasafn fyrir flokkinn: Mataruppskriftir
Fleiri mataruppskriftir er að finna á sigurdurarni.annall.is
Hægeldað lambalæri – Bernaise!
Ég bjó til góða og vel heppnaða bernaise-sósu með nautasteik. Það var talsvert eftir af henni í máltíðarlok og hún fór því í kælinn. Daginn eftir var ég með lambalæri í kælinum og velti vöngum yfir hvort hægt væri að sameina gæði sósunnar og lærisins. Matarsóun ekki boði og bragðrugl ekki heldur. En tilraunin heppnaðist – lambalæri bernaise varð til. „Þetta er frábært kjöt og frábær matur pabbi.“ Kokkinum þótti lofið gott.
Úrbeinað lambalæri (ég krydda oft daginn fyrir steikingu og smelli í kæliskápinn)
Bernaise sósa – köld, 3-4 dl.
Hvítlauksrif – nokkur lauf að smekk pressuð eða smáskorin
Krydd – eftir stemmingu dagsins
Salt og pipar
Ofn stilltur á 110°C (blástursstilling)
Ég úrbeinaði lærið og smurði bernaise-sósunni í opnuna á lambalærinu (þar sem beinið var), kryddaði vel og ekki gleyma salti og pipar. Stundum bæti ég við cayennepipar eða chili.
Saumaði kjötið saman í kúlu með bjúgnál (má vefja saman með þræði). Smellti kjötinu í steikingarfat með loki. Steikt í 3-4 klukkutíma. Í lokin er hitinn hækkaður í 180°C í 10 mínútur.
Kjötið tekið úr ofninum og haft í stofuhita í 15-20 mínútur. Þráðurinn er tekinn úr (þráðurinn sem bundið var með eða saumað með). Kjötið síðan skorið í þunnar sneiðar og borið fram. Ljómandi að strá nokkrum saltflögum yfir, bæði vegna bragðs og augnayndis.
Meðlæti að vild – t.d. sósa, salat og bakaðar kartöflur. Ég notaði bernaisesósuna og steikti sveppi, sauð líka beinið til að fá kjötkraft fyrir sósuna og rauðvínssletta og rjómi bæta mjög dýptarbragð sósunnar.
Meðfylgjandi mynd er í engu samræmi við bragðgæði kjötsins.
Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu.

Andalæri á blini eða lummum
Þetta er undursamlegur smáréttur. Ég byrja á því að baka blini eða lummur. Ef rétturinn á að vera fingrafæði er hægt að hafa blinistærðina og einfalda áleggið en lummustærðin með öllu dýrðarálegginu er hentugri fyrir dögurð-bröns. Þegar búið er að baka er farið í að undirbúa áleggið, sem auðvitað er hægt að breyta að smekk. Ég nota wasabiþykkni til að blanda út í léttmajones. En hægt er að fara aðrar leiðir, jafnvel nota chili-majó eða aðra uppáhaldssósu.
Hentar fyrir 6 og jafnvel fleirum ef margir smáréttir fylgja með.
4 stk. andalæri úr dós
200 gr hoisinsósa
1 dl kjúklingasoð
sítrónusafi
graslaukur eða vorlaukur
steinselja
langskornar gulrótarflísar og agúrkustrimlar
sesamfræ
Aðferð
Ég set andalærisdósina í heitt vatnsbað (vask eða stóran pott) til að bræða vel andafituna. Taka andalærin úr fitunni, hreinsa skinn og bein frá og merja með puttunum kjötvöðvana sundur. Geyma andafituna (t.d. frysta) og nota til steikingar síðar. Setja hoisin-sósu í pott með kjúklingasoði, hita upp rólega og bæta kjötinu svo út í og leyfa því að hitna og taka til sín sósuna.
Blini – lummur
1 bolli hveiti
1/2 tsk salt
1 egg
2 msk góð olía
2/3 bolli mjólk
1/2 tsk lyftiduft
Blandið öllu saman og steikið blinis eða lummurnar á pönnu. Látið kólna. Til eru blinipönnur sem ég hef prufað en mér hefur ekki þótt að þær gefi betri árangur en að baka frítt á pönnukökupönnu eða góðri steikingarpönnu. En um smekk er ósmekklegt að deila. Mér þykir skemmtilegt að blini verði í steikingu mismunandi í laginu og tilbrigði verði í lit líka.
Wasabimajones
1msk wasabipaste
3 dl léttmajones
Öllu blandað saman og sett í sprautupoka
Á blini-lummurnar eru settir gulrótar- og ágúrkustrimlarnir. Þá kemur hrúga af andalærinu. Wasabimajonesinu sprautað yfir og síðan kemur graslaukur eða vorlaukur yfir og svo sesamfræ.
Bliniuppskriftin frá Albert eldar og andalærisuppskriftin af mbl. Takk fyrir.
Rabarbarakaka Elínar með hvítu súkkulaði, kókos og marsípani
Þetta er besta rabarbarakakan! Um það eru flestir sammála. Jafnvel þau sem hafa aldrei verið hrifin af rabbarbarakökum eða rabbarbarapæ lofsyngja þessa dásamlegu uppskrift. Elín Sigrún Jónsdóttir setti saman uppskriftina sumarið 2024 og hún hefur slegið í gegn meðal fagurkeranna.
- 3 egg
- 2 dl hrásykur
- 1 tsk vanilluextrakt
- 100 gr brætt smjör
- 2,5 dl fínmalað spelt
- 1 tsk lyftiduft
- sjávarsalt á hnífsoddi
- 3-400 gr rabarbari, skorinn í litla bita
- 2 tsk kartöflumjöl
- 100 gr marsípan, (lífrænt í Nettó)
- 100 gr hvítt súkkulaði, dropar (lífrænt í Nettó)
- 1 dl kókosmjöl
Hitið ofnin í 175 gráður, bræðið smjörið og leyfið aðeins að kólna. Þeytið egg, sykur og vanillu þar til létt og ljóst. Hellið bræddu smjörinu út í meðan hrært er. Bætið mjölinu, lyftiduftinu og saltinu saman við og hrærið þar til allt er vel blandað.
Stráið kartöflumjölinu yfir rabarbarann og einnig kókosmjölinu og súkkulaðinu. Blandið þessu út í deigið. Rífið marsípanið með grófu rifjárni yfir kökuna. Bakið í 35-40 mínútur. Ef marsípanið dökknar má leggja álpappír yfir kökuna eftir ca. 25 mínútur. Gæti þurft jafnvel 5-10 mín. bakstur til viðbótar.
Berið fram með rjóma. Og meðmælanlegt að þakka fyrir lífsundrin – og og lofsyngja skapara þeirra.
Blómkál – hvítlaukur og krydd
Foreldrar mínir ræktuðu blómkál og á hverju hausti var blómkál í boði. Við hámuðum í okkur hrátt blómkáli og mamma notaði blómkál í ýmsa rétti, sauð og steikti. Mér þykir gaman að yngri kynslóðin á mínu heimili hefur uppgötvað bragðgæði nýupptekins blómkáls: „Þetta er bragðupplifun,“ sagði sonur minn um daginn. Hér er blómkálsréttur með Ottolenghi-snúningi.
Blómkálshöfuð meðalstórt, skorið í 1-2 cm blóm (stilkurinn ekki notaður)
4 hvítlauksgeirar
1/4 bolli góð ólífuolía
1 tsk reykt paprika
1 tsk chlliflögur
1 tsk kúmmín
1/2 tsk túrmerik
Saltið og piprið að smekk.
Steinselja skorin til skreytingar
1 sítróna skorin í fjóra hluta
Blómkálið gufusoðið í 5-7 mínútur. Á meðan kálið er soðið er kryddið sett í olífuolíu á pönnu og hrært saman. Þegar kálið hefur verið soðið er það sett í kryddolíuna á pönnunni og steikt við meðalhita þar til það er gullið og augjóslega steikt. En pönnusteikingin ætti að taka 5-8 mín. Komið fyrir á diskum og streytið með steinselju eða dilli. Allt í lagi að smella þrílitri fjólu líka sem kórónu á diskinn. Blómkálstíminn er kartöflutími og því ljómandi að sjóða nýjar kartöflur, merja lítillega og hella yfir bráðnu kryddsmjóri. Betra verður það ekki.

Þökkum Drottni því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Verði ykkur að góðu.