Greinasafn fyrir flokkinn: Mataruppskriftir

Fleiri mataruppskriftir er að finna á sigurdurarni.annall.is

Lax, graslaukssósa og bygg

Uppskriftin er auðveld og hentar ágætlega bæði fyrir gestaboð sem og heimilismáltíð. Vert er að vinna sósuna nokkrum klukkutíum fyrir máltíð eða jafnvel deginum áður. 

Uppskrift ætluð 4

laxaflök, 800 gr, roðflett og beinlaus notið ekki sjóeldisfisk heldur fisk úr ám eða landeldisfisk) 
8 súrdeigsbrauðsneiðar
1 dl rifinn óðalsostur eða pizzuostur
1 tsk oreganó
1 tesk tímían
1 tsk salt
rifinn börkur af 2 limeávöxtum (þ.e. límónum)
safi úr 1 limeávexti
2 hvítlauksrif, pressuð
(150 g smjör – má sleppa)

Stillið ofninn á 200 gráður. Smyrjið stórt eldfast fat og leggið laxaflökin á fatið og saltið fiskinn. Setjið brauðsneiðarnar, ostinn, kryddið, börkinn og safann af limeávextinum og pressaðann hvítlaukinn í blandara og tætið vel í sundur. Látið vélina ekki ganga of lengi, þá verður brauðið blautt. Dreifið mylsnunni jafnt yfir laxaflökin. Bakið í 15 mínútur. Takið flakið úr ofninum og setjið smjör í litlum bitum ofan á – eða bræðið smjörið og hellið jafnt yfir.

Berið laxinn fram með graslaukssósunni, byggi, og uppáhaldssalati. Ég fer ýmsar leiðir bæði vegna bragðs og til að gefa liti á diskinn. 

Graslaukssósa
200 ml majones
200 ml sýrður rjómi
1 dl smátt klipptur eða saxaður graslaukur
2 msk smátt söxuð steinselja
1 tsk oreganó
ferskmalaður pipar og cayenne pipar á hnífsoddi
safi úr ½ limeávexti (þ.e. safi ur hálfri límónu)

Blandið öllu vel saman og kælið helst í a.m.k. 3 klst.

Sagan um fiskidráttinn mikla í fimmta kafla Lúkasarguðspjalls er mögnuð og verð íhugunar með fiskmeti. Fiskur er gamalt Kriststákn, sem kristnir menn frumkirkjunnar teiknuðu í sandinn til að tjá á hvern þeir tryðu. Kirkjan er kölluð til veiða í margvíslegum skilningi. Bragðgóður kirkjufiskur hentar í kirkjusamhengi og hefur í sér heilnæma merkingardýpt sem tjáir hlutverk kirkjunnar í veröldinni.

Bæn: Þökkum Drottni því að hann er góður, því miskunn hans varir að eilífu.

Verði ykkur að góðu.

Myndin er af Ísak, syni mínum. Hann var kátur þegar hann veiddi sjóbirting í Eystri Rangá fyrir mörgum árum. Nýrunninn sjóbirtingur hentar ágætlega í þessum rétti. Fyrsti lax Þórðar, elsta sonar míns, sem hann veiddi í Bíldfellshylnum í Soginu fyrir enn fleiri árum, var eldaður skv. þessari uppskrift. Vinir okkar Elínar elduðu réttinn fyrir hjónavígsluveisluna okkar á aðfangadegi páska 2000. Þetta er því hjónahamingjuréttur og ekki einkennilegt að Elín biður stundum um hann í kvöldmatinn. Kokkur segir þá amen. 

Bökuð hrísgrjón, minta, granatepli, feta og ólífusalsa

Hrísgrjón eru jafnan betri bökuð en soðin og hrísgrjónabökun heppnast oftast.  Bragðið er fíngert en fágað og því er réttara að velja sósu með af vandvirkni. Ég eldaði þennan rétt um síðustu jól og hann var dásamlegur og svo aftur nú eftir páska og þá var Jón Kristján, dugmikill hjálparkokkur. Rétturinn, sem er frá Ottolenghi, er fagur og hægt að bera fram með alls konar meðlæti, grænmeti, kjötrétttum eða fiski.

Fyrir sex.

Hráefni

400 gr basmatihrísgjón

50 gr smjör

800 ml sjóðandi vatn

40 gr minta

150 gr fetaostur – skorinn í 1 cm bita

Salt og pipar

Salsa

50 gr grænar ólífur, þunnt skornar

1 granatepli – fræ úr einum ávexti – ca 90 gr

50 gr valhnetur, saxaðar og þurrristaðar lítillega á pönnu

3 msk ólífuolía

1 tsk sæta (t.d. stevía eða hunang)

10 gr minta

2 hvítlauksrif – marin

Matreiðslan

1 Forhita ofninn í 230°C

2 Setja hrísgrjónin í fat með háum köntum. Krydda með ca 1 tsk af maldonsalti og pipar. Hella vatninu yfir og koma smjörinu fyrir líka. Raðið mintunni yfir og lokið með álpappír (eða loki fatsins ef það er til). Setja í ofninn og baka í 25 mínútur eða þar til hrísgrjónin eru fullbökuð og vökvinn að mestu horfinn úr botninum.

3 Útbúa salsað – en bíða með að setja mintuna yfir.

4 Taka hrísgrjónin úr ofninum fullbökuð. Taka burt álþynnuna (lokið). Taka mintuna af, henda stilkunum en nota mintublöðin og setja yfir réttinn. Smella fetaostinum yfir hríusgrjónin og salsað þar yfir. Svo er afgangnum af mintunni dreift yfir.

Bera fram heitt og ráð að njóta þessa augnayndis og bragðgæðanna – og vert að þakka fyrir.

Borðbænina samdi Sigurður Ægisson, Siglufjarðarprestur:

Þökk fyrir matinn, Guð minn góður.

Gefðu að hverri systur, bróður,

sem að hér gengur út og inn

ávallt hann bendi’ á kærleik þinn.

Verði ykkur að góðu.

Kjúklingaskál með kókos-hrísgrjónum

Mar­in­eraður kjúk­lingur með kó­kos­hrís­grjón­um og lit­ríku græn­meti. Þetta er augnayndi og bragðundur. Ekki aðeins er kjúklingurinn dásamlegur, heldur eru hrísgrjónin unaðsleg og heildarsamsetningin heillar. Fyrir 4.

700 g kjúk­linga­bring­ur

3 msk sojasósa

2 msk púður­syk­ur

2 msk ses­a­mol­ía

1 msk chilisósa

4 hvít­lauksrif, mar­in

1 tsk rif­inn engi­fer

 

Kó­kos-hrís­grjón:

1½ bolli jasmín-hrís­grjón

1½  bolli kó­kos­mjólk

½ bolli kó­kos­vatn

¼ tsk. salt

1½ msk. kó­kosol­ía

 

Fyr­ir skál­ina:

4 vor­lauk­ar, fínt skorn­ir

3 stór­ar gul­ræt­ur, skorn­ar í strimla

2 boll­ar skorið rauðkál

2 avoca­do, skorin í þunn­ar sneiðar

2 msk. ristuð ses­am­fræ

1/2 bolli stein­selja

1 lime

Aðferð:

Setja kjúk­ling­inn í poka. Píska sam­an í skál sojasósu, sykur, ses­a­mol­íu, hvít­laukssósu, hvít­lauk og engi­fer. Hella blönd­unni yfir kjúk­ling­inn og geyma í pokanum og marinera, í klukkutíma eða lengur. Marinering yfir nótt er auðvitað til bóta.

Kó­kos­hrís­grjón: 

Hita pott á meðal­hita og setja hrís­grjón út á pönn­una ásamt kó­kos­mjólk, kó­kos­vatni og salti. Hrærið í og láta suðu koma upp. Lækka þá hit­a og látið malla í 30 mín­út­ur þar til vökvinn hef­ur gufað upp. Hrærið aðeins í hrís­grjón­un­um og bæta kó­kosol­í­unni út í.

Kjúklingurinn:

Grillið annaðhvort kjúk­ling­inn eða setjið í ofn á 220°C í 30 mín­út­ur (at­hugið samt hvort hann sé til­bú­inn eft­ir þann tíma). Leyfið kjúk­lingn­um að hvíla í 10 mín­út­ur áður en hann er skorinn í sneiðar.

Setja kó­kos­hrís­grjón á botn­inn á skál, því næst kem­ur avoca­do, rauðkál, gul­ræt­ur, vor­lauk­ur og smá stein­selja. Toppið með kjúk­lingn­um ásamt nokkr­um avoca­do-sneiðum. Ef kjúklingurinn er steiktur í ofni er gott að nota vökvann sem eftir er í steikarfatinu og setja yfir kjúklinginn. Síðan er ristuðum ses­am­fræj­um stráð yfir og lime kreist yfir allt sam­an.

Borðbænin er: Þökkum Drottni því að hann er góður. Og miskunn hans varir að eilífu.

Verði þér að góðu.

Fjörtíu geira kjúklingur

Því meiri hvítlaukur því betri matur. Enginn skyldi hafa áhyggjur af lyktinni. Því meiri hvítlaukur þeim mun minni lykt! Það er svolítið maus að flysja laukinn en það kemst upp í vana. Ég skora á ykkur að prufa! Uppskriftin f 4.

½ bolli ólífuolía

4 stilkar sellerí (þverskorið fremur smátt)

2 msk. estragon

2 msk. fínt klippt steinselja

1 góður kjúklingur hlutaður í sundur

salt og nýmalaður pipar

2 niðurrifnar múskathnetur

40 afhýddir hvítlauksgeirar

½ dl. koníak eða sletta af sherrý

¾ bolli hveiti vatn

Hitið olíuna, setjið sellerí, steinselju og estragon út í heita olíuna og látið mýkjast í 2-3 mínútur (passa ekki brenna). Stráið vel af salti, pipar og nýrifnu múskati á kjúklingabitana og steikið upp úr olíunni. Setjið allt saman í eldfast mót (með loki), hvítlauksgeirarnir og koníakið sett út í, lokið sett á (helst lok sem fellur vel að). Hrærið saman hveiti og vatni svo úr verði þykkur jafningur og þéttið lokið með honum, sem sé loka pottinum rækilega (það skilar sér vel!). Bakið réttinn í ofni við 190° C í eina og hálfa klst. Athugið að krydda vel með salti, pipar og múskati, annars verður maturinn bragðlítill, sem alls ekki má henda! Mikil og góð sósa verður í pottinum og því er ljómandi að hafa hrísgrjón eða bygg með réttinum og ekki síðra að hafa líka nýbakað brauð til að veiða upp vökvann.

Bleikja eða lax í tómata-appelsínu og kúrenusalsa

Enn einn dásemdarrétturinn úr Simple-bókinni hans Ottolenghi. Í upprunauppskriftinni er gert ráð fyrir að silungur sé notaður. En þar sem lax er kosinn af meirihlutanum á mínu heimili notaði ég hann. En ég hef hugsað mér að elda þennan rétt í sumar og nota þá sjógengna bleikju. En þetta reyndist ekki bara réttur fyrir mánudag heldur gersemi. Uppskriftin er miðuð við tvo.

Hráefni

150 gr smátómatar, piccolo eða kokteil – fjórðungaðir

1 appelsína – lífræn því börkurinn er raspaður af og síðan safinn krestur úr

2 límónur – safinn úr annari kreistur en hin er skorin til að skreyta.

1 ½ tsk hlynsýróp

1 ½ matskeið kúrenur  sem liggja í 1 msk sítrónusafa í hálftíma – í uppskriftinni er hin útgáfan að nota 1 ½ msk barberries – sem ég fann hvergi í borginni – krydd sem notað er í persneskri og oríentalskri matargerð.

1 tsk fennelfræ – mulið í mortéli

1 msk góð ólífuolía

70 gr ósalt smjör

2 hvítlauksrif – marin eða pressuð

500 gr lax eða bleikja

10 gr koríanderlauf – smásaxað

Salt, pipar að vild – ég notaði líka smávegis af chilliflögum.

Matargerðin

1 Hita ofninn – 200°C

2 Þegar búið er að fjórðunga – þe skera tómatana fjóra hluta– er þeim komið fyrir í skál. Appelsínusafinn, appelsínubörkurinn, límónusafinn, hlynsýrópið, kúrenur, fennelfræið, olían og smávegis af flögusalti yfir sem og nýmalaður pipar. Hræra til að blanda saman hráefnum. Þetta er salsað sem er svo notað til að setja yfir fiskinn þegar hann kemur úr ofninum og er borinn fram. 

3 Bræða smjörið á vægum hita og hvítlaukurinn út í. Þegar smörið er bráðið er slökkt undir. Fiskinum komið fyrir á olíubornu ofnföstu fati. Stráið salti yfir fiskinn. Smjörið fer svo yfir fiskinn. Fatið með fiskinum í sett í ofn og bakað í ca 15 mínútur. Ath að tímalengdin fer eftir hversu stór/þykkur fiskurinn er.

4 Setjið á disk. Setjið kóríanderlaufin niðurskornu í salsað og síðan er því ausið yfir fiskinn. Og svo er flott að skreyta með litfögrum límónum við hliðina. Og einhverjir vilja kreista þær yfir fiskinn.

Ég sauð núðlur með og saltaði og bragðstyrkti með tamarisósu.

Þökkum Drottni því að hann er góður.

Og miskunn hans varir að eilífu.

(tips: Hebreskt rím er m.a. inntaksrím: Gæska Guðs inntaksrímar við miskunn Guðs – og það er ofurkrydd með svona fínum mat).

Verði ykkur að góðu.