Greinasafn fyrir flokkinn: Greinar og pistlar

113 pistlar SÁÞ eru inn á tru.is og aðgengilegt á slóðinni trú.is.

Hvernig hlustar þú?

heyrnGrein mín um hlustun birtist í Fréttablaðinu í morgun. Rétt fyrir hádegið hringdi kona til að þakka mér fyrir. Hún sagði mér að greinin hefði orðið til að hún hefði tekið ákvörðun um að breyta hlustun sinni – gagnvart fólki sem hún væri í samskiptum við. Ég er þakklátur fyrir ef skrifin verða til að styðja fólk í lífsleikni. Greinin fer hér á eftir:

Hvernig hlustar þú?

Á námskeiði sem ég sótti í liðinni viku var hópnum skipt í pör og fengin samtalsverkefni. Við fórum í hlutverkaleik og æfðum viðbrögð, mismikila nánd og misgóða hlustun. Viðmælandi minn átti að halda fram persónulegu markmiði, en mitt hlutverk var að tjá efasemdir og andúð. Svo hófst samtalið og var dapurlegt. Svo skiptum við um hlutverk. Ég reyndi að halda fram málstað sem var mér mikilvægur en uppskar aðeins úrtölur og grettur. Þrátt fyrir leikinn fór ég að efast um gildi þess sem ég hélt fram.

Svo fengum við nýtt verkefni, áttum ekki lengur að vera fúl og neikvæð heldur tjá hrifningu og stuðning. Við áttum hvetja og hrósa. Þvílík breyting. Gleðin spratt fram og augun leiftruðu. Málin urðu ekki aðeins mikilvæg, heldur urðu samtölin skemmtileg. Í þessum hlutverkaleikjum fundum við vel hve afstaða viðmælenda hefur mikil og afgerandi áhrif.

Hugsanir þutu um koll minn. Minningar um hópa sem kunnu jákvæð samskipti spruttu fram, en líka um hópa sem liðu fyrir neikvæð samskipti. Það er hægt að draga úr fólki trú og sjálfstraust með líkamsbeitingu. Þegar fólk fitjar upp á nefið, snýr sér frá þeim sem það talar við eða fettir sig til að tjá yfirburði verður óöruggur viðmælandi hræddur. Svo er hægt að spúa eitraðri neikvæðni, streitu og óþolinmæði yfir fólk og fylgja svo eftir með niðrandi ummælum. En jákvæðni gerir hins vegar kraftaverk. Þau sem virða fólk stíga úr yfirburðastöðu niður á plan jöfnuðar og uppskera gjarnan opið og heiðarlegt samtal. Þau sem tala frá hjartanu tala til hjartans.

Okkur leið fremur illa þegar við vorum að draga kjark úr fólki, rífa niður skoðanir þess og málstað. En það var gefandi og skemmtilegt að hrósa, hvetja og lofa. Þá varð gaman og samtalið varð lipurt. Hvernig væri nú að efna til einfaldra lífsleikniæfinga á heimilum, skólum og vinnustöðum? Allir, yngri og eldri, þurfa að vita í hverju jákvæð samskipti eru fólgin.

Hvernig hlustar þú? Hvernig nánd temur þú þér? Afstaða fólks skiptir máli. Viðmælendur dauðans eru þau sem bara kvarta, draga niður og efla ekki. Það er engin ástæða til skjalls og yfirborðslegs hróss. En þegar tilefni er til má gjarnan segja: „Þetta er glæsilegt hjá þér. Þetta líst mér vel á.“ Þannig tala viðmælendur lífsins. Ertu einn af þeim?

Segðu það með blómum Halldóru

Halldóra Kristinsdóttir var mikil hannyrðakona og gaf fólki í Neskirkju sem hafði gaman af hannyrðum vettlinga og blóm. Hún prjónaði rauð blóm handa konunum í Litlakórnum og síðar Hljómi og rauða skartklúta handa körlunum. Við vorum mörg í Neskirkju á föstudag með Halldórublóm á barmi eða klút frá Halldóru í vasa.

Útför hennar var gerð frá Neskirkju föstudaginn 8. febrúar og minningarorðin eru hér á þessum vef og að baki þessari smellu. Eftir útförin tók ég mynd með símanum mínum af blóminu mínu – setti það á hempuna. Þegar ég sé þetta fallega blóm, snerti það léttilega – þá kemur myndin af yndislegri, glaðsinna og umhyggjusamri konu fram í hugann. Blessuð veri minning Halldóru Kristinsdóttur.

Halldóruklútur

Vatn, guðfræði og stækkun trúar

IMG_2949Ævar Kjartansson guðfræðingur og útvarpsmaður er skemmtilegur viðmælandi. Ég fagnaði því þegar hann kallaði mig til sunnudagsfundar á Rúv-rás 1 til að ræða um vatn í guðfræði, kirkju og trúariðkun. Þátturinn er að baki þessari smellu. Og svo hafði Ævar náð sér í bók mína Limits and Life og greinilega lesið. Í sunnudagsspjalli 3. febrúar 2013 ræddum við líka hvernig samtíð og aðstæður breyta trú og túlkun hennar. Ég aðhyllist stækkun trúar!

Hjarta og hugrekki

hjarta2Vilborg Arna Gissurardóttir fór alla leið á pólinn. Hún hefur grunngildi sín á hreinu og skráði þau á heimasíðu sína. Hún skrifaði þau innan á tjaldið sitt líka. Þau blöstu því við henni alla daga og minntu hana á hver hún væri og í krafti hvers: „Með gildi mín: jákvæðni, áræðni og hugrekki ætla ég að ná markmiði mínu.“ Stefnan var því skýr og í samræmi við innri afstöðu. Ofurkuldi, slæm færð, stórviðri, veikindi, svengd og kal brutu ekki niður, heldur urðu fremur verkefni Vilborgar til að vinna með. Lesa áfram Hjarta og hugrekki