
Í Hallgrímskirkju er ljósberi með sætum fyrir bænakerti. Þangað leitar fólk og kveikir á kertum, vitjar ástvina í huganum og biður bænir. Á hnattlaga ljósberanum eru sæti fyrir 61 bænakerti. Í honum miðjum er stórt kerti sem er tákn fyrir heimsljós Guðs, Jesú Krist.
Hallgrímskirkja er ekki aðeins mest myndaða hús og fjölsóttasti ferðamannastaður landsins, heldur helgistaður alls heimsins. The Guardian útnefndi Hallgrímskirkju sem eitt af tíu mikilvægustu íhugunar- og bænahúsum veraldar. Alla daga situr fólk í kyrru kirkjunnar og íhugar og biður. Bænahnötturinn í kirkjunni laðar að og fljótlega eftir opnun kirkjunnar að morgni loga ljós í öll sætum ljósberans. Þá hefur fólk tyllt kertum sínum á aðra hluta ljósberans. Vegna fjöldans, sem reynir að koma ljósum fyrir, hafa kerti fallið niður á gólf. Það er fólki sárt að sjá bænaljósin sín hrynja. Og það er líka mikil vinna fyrir starfsfólk kirkjunnar að þrífa gólf og stjaka. Spurningarnar hafa oft leitað á starfsfólkið. Var bænahnötturinn orðinn of lítill?
Velgerðarfólk Hallgrímskirkju gaf kirkjunni ljósberann í ársbyrjun 1996. Hönnuður var Gunnsteinn Gíslason, myndlistarmaður og Þuríður Steinþórsdóttir, járnsmiður, vann stjakann. Í gjafabréfi segir: „Víða höfum við ferðast og ávallt á feðrum okkar leitum við til kirkju og hlýðum messu eða sitjum í kyrrð og þökkum þá miklu gleði sem börnin okkar þrjú hafa veitt okkur. Á þessum stundum höfum við kveikt á litlum kertum og látið á bænastjaka sem þar hafa verið. Við hjónin höfum margt að þakka. Því gleður það okkur mikið að ljósberinn fái að standa í Hallgrímskirkju sem þakklætisvottur okkar fyrir þá miklu gæfu sem börn okkar hafa fært okkur. Við biðjum þess jafnframt að margir finni sér stund til að tendra ljós á stikum hans og að þessi litlu ljós megi veita birtu í sál á tímum sorgar og hlýju þakklætis á tímum gleði.“
Ljósberar eru víða til í kirkjum og fólk staldrar við og hugsar um líf sitt og sinna og biður fyrir fólki. Hnattlaga ljóshnettir þjóna sama hlutverki og ljósberi Hallgrímskirkju.
Ljósberinn er Hallgrímskirkjufólki kær og enginn hefur viljað breyta honum þótt aðsókn og hreingerningavinnan væri mikil. Til að þurfa ekki að láta gera stærri ljóshnött smíðaði Járnsmiðja Óðins járnbaug undir stjakann. Hlaðbær Colas gaf marga poka af ljósum mulningi sem var hellt í bakkann. Flestum kom á óvart hve ljósberinn naut þessa nýja samhengis, eiginlega lyftist í rýminu. Sandmulningsbaugurinn rímaði vel við fótstykki Kristsstyttu Einars Jónssonar.
Hvernig brást fólk svo við sem kom í kirkjuna? Það var spennandi að fylgjast með hvernig ljósafólkið færi að. Þegar flest kertasætin voru fullnýtt var enginn sem tyllti aukaljósum á ljósberann eins og áður var. Kertunum var komið fyrir í sandinum. Sumir mynduðu handarfar og komu ljósinu sínu þar fyrir. Aðrir teiknuðu hjarta í sandinn sem varð eins og amen við bænirnar. Hin nýja undirstaða ljóshnattarins kemur til móts við þarfir ljóssækins bænafólks. Fleiri ljós, fleiri bænir, aukið þakklæti og meiri birta. Velkomin í Hallgrímskirkju. Verði ljós.

Þátttaka Íslands á HM 2018 var hrífandi. Liðið tryggði þátttökuna með glæsibrag. Það var ekkert gefið í undankeppninni og enginn veitti smáþjóðinni afslátt. Mörg okkar fylgdumst með undirbúningnum og svo hófst keppnin í Rússlandi. Jafnteflið við Argentínu í fyrsta leiknum var stórkostlegur árangur. Eftir tapið á móti spræku liði Nígeríu var allt lagt undir í lokaleiknum gegn Krótaíu. Leikur Íslendingana var í raun sigur. Liðið spilaði glæsilegan fótbolta og var óheppið að sigra ekki þann leik. Það vantaði aðeins herslumuninn að komast upp úr riðlinum. En það er ekki hægt að kvarta. Íslendingar eru í góðum hóp, sem er á heimleið, með Pólverjum og heimsmeisturum Þjóðverja ofl. Þetta heimsmeistaramót sýnir breiddina og dýptina á heimsfótboltanum. Engar þjóðir eiga neitt öruggt lengur. Fótboltinn hefur þróast svo að engar þjóðir eiga áskrift að árangri, sætum eða bikurum. Flestir leikir eru orðnir eru eins og úrslitaleikir, slík eru gæðin. Öll lið á HM eru frábær, líka okkar. Nútímafótbolti bestu liðanna er skapandi listgjörningur, eiginlega listsýningar.
Það var fátt sem minnti á grimmd og dauða þegar við ókum upp hlíðarnar fyrir ofan Rethymno á Krít. Gömul ólífutrén brostu við sól og um æðar þeirra streymdi lífsvökvi til framtíðar. Grænar ungþrúgurnar á vínviðnum voru teikn um líf og frelsi. En golan frá Eyjahafinu laumaði gömlu grísku slagorði í vitundina: Frelsið eða dauðann. Það voru valkostirnir í stríðum aldanna, en þetta 19. aldar slagorð á tvö þúsund og fimm hundruð ára skugga í grískri sögu. En þennan dag var það frelsið sem litaði veröldina og fyllti huga. Gróðurinn var ríkulegur í hlíðunum upp frá sjónum. Blómin voru útsprungin við vegina. Og ilmurinn frá kryddjurtunum sótti inn í bílinn. Oreganó og rósmarín, gleðigjafar öllum sem hafa gaman af eldamennsku. Þennan dag var bara frelsi og enginn dauði, ekki einu sinni á vegunum.

Ég fór í frí en lenti í skóla. Og það sem ég lærði varðar fagmennsku og manndóm. Við fjöskyldan erum í sumarleyfi á Krít. Tilgangur ferðarinnar er að vera saman og kynna drengjunum okkar gríska menningu og skemmtilega eyju, sem við heimsóttum fyrir sautján árum. Nú var komið að því að drengirnir fengju líka að kynnast Miðjarðarhafsmenningu og jafnvel grísku eyjastolti. Það þarf mikið til að við förum á sama hótelið tvisvar, en í þetta skipti vorum við ekki í vafa. Við vildum aftur á sama hótelið. Svo góð hafði þjónustan þar verið á hinum dramatísku septemberdögum 2001 þegar ráðist var á tvíburaturnana. Við vorum að vísu smeyk um að hótelið hefði elst og þjónustan líka. En niðurstaðan er, að hótelið hefur batnað og þjónustan sé stórkostleg. Við hjónin erum bæði í þjónustustörfum og við tökum eftir hvernig unnið er.