Greinasafn fyrir merki: Þingvellir

Ármannsfell er Helgafell Þingvellinga

Ingólfur Arnarson, landnámsmaður, upplýsti Ármann úr Dalmannsdölum að upp frá Hrafnabjörgum fyrir ofan skóga væru sagðir landkostir og fé væri þar feitara en annars staðar. Ármann settist að í Þingvallasveit og var Ármannsfell kennt við hann. Hann hafði fé sitt í helli eins og aðrir Þingvallabændur. Þegar hann lést varð hann hinn hollvættur manna og líka eftir að kristnin komst á og hétu menn á hann sér til stuðnings. Ármannssaga yngri er samin upp úr þjóðsögum og Ármannsrímum Jóns lærða. Sagan var fyrst gefin út árið 1782. Þegar þjóðfrelsisbarátta Íslendinga hófst á 19. öld notuðu Balvin Einarsson og félagar Ármann í Ármannsfelli til að ávarpa þjóðina og brýna til baráttu. Hann var því enn nothæfur hollvættur og Ármannsfell Helgafell héraðs og þjóðar. Mörg okkar eigum okkar Helgafell, öll höfum við þörf fyrir ármann í lífinu og heppin erum við sem njótum bæði ármanns og helgafells.

Ísland, Þorleifur jarlaskáld og stóru draumarnir

Þorleifur hét maður, hann var vígamaður og skáld og lifði fyrir  meira en 1000 árum. Um hann var fléttaður skemmtilegur þáttur, Þorleifsþáttur jarlaskálds, sem er í safni Íslendingaþátta. Þorleifur var fæddur á Íslandi og leitaði sér frama erlendis. Honum varð vel ágengt í þeim efnum. Hann var mikill fyrir sér en ekki allra, átti í útistöðum við jarl í Noregi og konung í Danmörk og notaði skáldagáfuna til áhrifa. Hann var raunar svo mikið kraftaskáld hann gat orkt kláða og óværu yfir menn og óvinir hans eða mótstöðumenn misstu jafnvel hár og skegg af hans völdum og með fulltingi skáldskaparins. Þorleifur bakaði sér óvild og óvinur hans sendi leigumorðingja til Íslands til að myrða hann. Þorleifur var veginn á Þingvöllum og var þar heygður. Haugur hans var þekktur sem örnefni og er nærri þar sem nú er vegurinn heim á Þingvallastað. 

Hallbjörn smala dreymir skáld

Víkur þá sögunni að smalanum Hallbirni á Þingvöllum. Honum var oft hugsað til mikilmennisins og hélt sig oft nærri haugnum og svaf jafnvel á honum um nætur. Kom Hallbirni í hug að lofa haugbúann með dýru kvæði. En smalinn var ekki skáld og átti því erfitt með að semja til heiðurs skáldinu svo sómi væri að. En hann náði þó að semja fyrstu línu af kvæði sínu, fyrsta vísuorðið, sem hann flutti haugbúanum aftur og aftur. Það hljóðar svona: „Hér liggur skáld.” En meira megnaði hann ekki og hélt þó skáldskapariðju sinni áfram og langaði til að bæta meiru við þetta eina: „Hér liggur skáld.”

Þorleifur jarlaskáld var enginn gunga í lífinu og það er sem haugbúanum hafi leiðst andleg teppa smalans. Nótt eina sofnaði smalinn og dreymdi að haugurinn opnaðist og glæsilegur maður kæmi út og talaði til hans á þessa leið: „Hér liggur þú og vildir kveða lof um mig, sem þér er ekki gefið. Nú er annað hvort að þú munt verða skáld, en hætta ella þessum tilraunum. Ég mun kveða vísu. Ef þú manst hana þegar þú vaknar muntu verða þjóðskáld og yrkja lof um höfðingja.“ Síðan fannst smalanum að haugbúinn bæði togaði í tungu hans og flytti honum gott kvæði. Smalinn vaknaði, mundi kvæðið, fór heim í bæ og sagði frá. Allt gekk eftir og smalinn hlaut lof, heima og erlendis. Og gott orð þjóðskáld!

Haugbúinn og smalinn

Þátturinn um Þorleif jarlaskáld er ritaður af kristnum manni – það sést af orðfæri og siðaboðskap þáttarins. Þetta er ævintýri og væntanlega setta saman sem skýring á örnefni á Þingvöllum (etiólogísk saga). Nokkur grunnstef hafði skrifarinn, sem hann gerði úr skemmtilega flækju. Upp af merkingarhafi þáttarins rísa þeir svo tveir haugbúinn og smalinn. Annars vegar fjármaðurinn, sem við yfirsetu dreymdi stóra drauma. Staða hans var slík, að honum voru allar bjargir bannaðar nema að dreyma. Svo leitaði hann athvarfs hjá haugbúanum. Og svo kom þrástefið og draumastef hans:„Hér liggur skáld.“ Svo má æfa að auminginn verði öflugur. Undrið varð. Skáldið rauf þögn og friðarhöfn sína, dró úr stráknum tunguna og dengdi yfir hann kvæði. Þar með var honum gefinn skáldskapur, sem var og er lykill að öllum veröldum. Saga smalans var saga um draum Íslendinga í ellefu hundruð ár, stílfærð saga, en þó táknsaga um draum aðkrepptrar þjóðar. Þetta er saga til íhugunar og brýningar.

Við vorum

Menningarstíll þessarar þjóðar var löngum að liggja á haug fortíðar, mæra gullöld, leita fyrirmynda í þátíð – helst löngu liðinni fortíð. Og þó fjárástin hafi búið í mörgum dreymdi líklega marga smalana um að siga fé út í buskann í síðasta sinn, hleypa heimdraga, vinna lönd og afla sér virðingar. Þjóð okkar Íslendinga var sem sveinninn í margar aldir og stamaði sama stefið: Við vorum þjóð, við vorum menn, við vorum skáld. En ekkert gerðist, draumurinn um ljóðið lifði, um glæsileika, auð og frægð. Það er draumurinn um manndóm, um skapandi sjálfstæði, um kyngi orðs, að lífið er meira en brauðstrit og hlaup á eftir rollum. Hér liggur skáld, hér liggur þjóð. Undrið varð. Íslensk þjóð varð sjálfstæð og stofnaði eigið lýðveldi. Síðan hefur verið togað í tungu á fólki, æfingar í sjálfstæðistilburðum hafa skilað skoplegum furðugjörningum á ýmsum haugum, sigrum í sumu – en líka óskáldlegum ósigrum. Það tekur langan tíma fyrir þjóð að æfa sig í sjálfsögðum málum frelsisins, í sjálfstæði – að vera þjóð. 

Verkefni þjóðar

Ekkert ríki lifir án gilda. Engin menning þroskast án merkingarvefs og engin mannvera getur orðið mennsk án þess að klæðast því sem menning gefur. Hvað er menning okkar og hvað verður okkur til hjálpar? Hvernig reiðir trú af og þeim gildum sem kristnin hefur nært þjóð okkar með í á annað þúsund ár. Framundan er meiri fjölbreytni í trúarefnum á Íslandi en verið hefur. Ég hef ekki áhyggjur af fólki, sem aðhyllist aðrar trúarhugmyndir en hefðbundnar kristnar. En ég óttast skeytingarleysi gagnvart trú og gildum og fólki sem fellir groddadóma um trúarleg efni, heldur fram kjánafullyrðingum þvert á raunveruleika og grefur undan virðingu fyrir gildum. Virðum aukna fjölbreytni, en látum ekki ruglast af groddatúlkun á trú og siðum, gildum og gæðum. Verum raunsæ og látum ekki blekkjast af andróðri gegn kristinni trú, kristnum siðalærdómi, kristinni mannvirðingu og kristnu raunsæi. Íslensk þjóð hefur þörf fyrir þann boðskap til lífs.

Fortíðin er liðin, skáld fortíðar liggja í haugum sínum og gröfum. Börn samtíðar dreymir nýja drauma og vilja gjarnan yrkja nýjan tíma með gjörðum sínum. Smalarnir eru margir, sem vilja búa til framtíð úr eigin smæð og smekk. En við megum aldrei tapa sambandinu við gildi fortíðar, annars fer illa. Við eigum ekki gefa eftir hina kristnu mannsýn og jákvæðu heimssýn, hið kristna líf – þá fer hörmulega. En ef við hins vegar munum ljóð fortíðar, ljóð landsins, munum og iðkum lífsvisku Jesú Krists í vöku okkar og verkum þá mun farnast vel. Þá verðum við skáld, þá verðum við fullveðja, þá náum við eðlilegum þroska sem mun skila okkur því sem við viljum vera og lifa vel.

Sjö eða níu halar – sagan um Skötutjörn

Austan við Þingvallakirkju er falleg tjörn og gjá í henni miðri. Tjörnin heitir Skötutjörn og nafnið verður skiljanlegt ef lögun hennar er skoðuð. Um tjörnina er til saga, sem er úr flokki þjóðsagna. Slíkar sögur miðla ekki aðeins þurrum fræðum, heldur skemmta og miðla oft lífsspeki. Hið yfirborðslega verður tilefni til að tala um hið innra. Hversdagsleg mál eru færð í sögur til lærdóms og góðs lífs. Svo er einnig með söguna um Skötutjörn. 

Sagt var, að eitt sinn hafi Skötugjáin náð undir eldhúsið á Þingvallabænum og fiskur var í gjánni. Matarkistan var betri en nokkur kæliskápur samtíðar því ekki þurfti fiskbirgja og Bónus til að fylla á. Í eldhúsinu var hlemmur, sem rennt var til hliðar þegar fisk vantaði í soðið og færi var rennt þar niður. Ekki mátti þó veiða nema til einnar máltíðar. Allt skyldi gert í hófi og þar með er skiljanleg auðlindasiðfræði sögunnar.

Ágjarn maður settist að á Þingvöllum og sinnti ekki reglunni um að veiða skyldi samkvæmt þörf. Hann veiddi með græðgi og að lokum festi hann öngul sinn í stórskepnu. Dró karl nú ákaft og þegar hann sá skepnuna varð honum ljóst, að hann hafði sett í skötu með sjö eða níu hala. Var þetta jafnvel sá vondi sjálfur? Eftir mokveiðina hefur síðan ekkert veiðst í Skötutjörn. Hún varð fisklaus, blessunin var misnotuð. Gjáin liggur ekki lengur undir eldhús bæjarins og þessi endurnýjanlega matarkista varð ekki til nokkurs magagagns.

Í sögunni er líka tjáður mannskilningur meðalhófs, jafnvægis og ábyrgðar. Sama stefna er túlkuð í trúarhefð þjóðarinnar t.d. Vídalínspostillu og Passíusálmum. Kristnin hefur um aldir innrætt mönnum hófstillingu með litríkum viskusögum. Græðgi skilar aðeins stundarfró en engri varanlegri hamingju. Fiskimaðurinn á Þingvöllum var sjálfhverfur. Hann veiddi án fyrirhyggju, en varð svo fyrir ískyggilegri reynslu í ati græðginnar. Þá fór hann loksins að hugsa. Utan sjálfhverfs æðis mætum við sjálfum okkur og þar með Guði.

 Drögum við að okkur í ágirnd og eignasókn? Erum við fólk græðgi og þar með ófara? Hvenær er mikið nóg? Eða erum við tilbúin að íhuga undrið, lífslánið, sem við njótum á hverjum degi? Hvað eða hver veldur gæsku og elsku? Er græðgi góð? Nei, hún er með sjö eða níu hala ófara. Höldum til veiða og gætum að hófi og stillingu.

Birtist í Vísi. Kennimyndin er af myndskreytingu um Skötutjörn í gestastofu þjóðgarðsins á Þingvöllum við Hakið.

 

Norsku konungshjónin og skemmtilegasta heimsóknin

Ég sá í fréttum að Haraldur 5. konungur var fluttur á spítala í Malasíu. Hjartsláttur kóngs var veikur og nú er hann kominn með gangráð. Norsk herflugvél flutti Harald síðan heim til Noregs. Fréttin rifjaði upp liðlega þrjátíu ára minningu.

Ég hitti Harald og konu hans einu sinni og þá voru þau hjartanlega kát. Konungshjónin heimsóttu Þingvelli 8. september 1992 í opinberri heimsókn. Þá bjó ég og fjölskylda mín í Þingvallabæ og hlutverk okkar var að gera Þingvöllum gott til og þjóna komufólki hvort sem það voru hópar skólabarna, Þingvellingar eða aðrir Íslendingar að vitja helgistaðar þjóðarinnar, erlendir túristar eða gestir Íslands í opinberum heimsóknum.

Veður var bjart þegar Vigdís forseti, Davíð forsætisráðherra, Jón Baldvin utanríkisráðherra og fylgdarlið komu með konungi og drottningu Norðmanna. Kröftugt norðanrok stytti ávarp Hönnu Maríu þjóðgarðsvarðar og stansinn á Hakinu. Veðrið var slíkt að galsi hljóp í mannskapinn á göngunni niður Almannagjá og mjög slaknaði á formlegheitum hinnar opinberu heimsóknar. Davíð var í smitandi stuði. Jóni Baldvini var strítt fyrir brúnar og slitnar flauelsbuxur en hann tók gamninu vel og kenndi um grasekkilsstandi.

Konungshjónin spurðu um náttúru Þingvalla, þinghald, tengslin við norska löggjöf og framvindu sögunnar. Í Þingvallakirkju var hlé fyrir rokinu og hópurinn gekk í kirkju. „Ertu norskur eða af norskum ættum?“ spurði kóngur mig í ræðulok því hann undraðist norskan framburðinn. Ég upplýsti hann ég hefði verið við nám í Noregi í tæplega eitt ár og hefði átt heima steinsnar frá Slottet í miðborg Osló. „Það er skýringin“ sagði hann brosandi. 

Svo var haldið í Þingvallabæ. Í frétt Moggans daginn eftir var ranglega hermt að farið hafi verið í ráðherrabústaðinn sem þá voru tvær syðstu burstir bæjarins. Stofa forsætisráðherrans var of lítil svo hádegisverðurinn var í stofunni okkar megin í þessu parhúsi þess tíma. Og það var gaman. Maturinn var góður og allir lögðu til samtals. Konungshjónin skildu að íslensk gleðisókn hefði vikið formlegheitum til hliðar og þau tóku þátt í gamninu. Ég dáðist að því hve Vigdís hélt snilldarvel saman öllum þráðum. Hún tilkynnti að vegna roks yrði að fella niður heimsókn í Reykholt. Haraldur hafði hlakkað til en skildi máltækið að þó kóngur vildi sigla myndi byr ráða. Veðurhamurinn lengdi því hádegisverðinn í stofunni heima. 

Haraldur gekk úr Þingvallabæ hlægjandi og Sonja drottning laut að mér og sagði: „„Þið eruð svo fullkomlega afslöppuð í kátínu ykkar. Þetta er skemmtilegasta opinbera heimsóknin sem við höfum nokkurn tíma notið. Takk fyrir.“ Já, slíkt var gamanið. Ég lærði þennan dag að veður skiptir minnstu máli fyrir hve vel heppnaðar ferðir eru. Aðalmálið er hvernig unnið er úr og hvernig áhöfnin bregst við. Það var skemmtilegt að taka á móti norsku konungshjónunum. Ég vona að hjartsláttur Haraldar 5. verði sem jafnastur og bestur og hann megi hlægja sem mest. Konungshjónin lærðu þennan septemberdag að á Íslandi er oftast gaman í vondu veðri. Þá falla álög mannamunarins af fólki. 

Meðfylgjandi hér fyrir neðan er skjáskot af fréttum Mbl af opinberri heimsókn norsku konungshjónanna.  Myndin hér að ofan er af Sögu, Þórði og Kötlu, börnum mínum í þjóðlegum búningnum, þegar forseti Þýskalands kom í heimsókn. 

101 Öxará

Hvað tekur þú með þér inn í haust, myrkur og vetur? Hvaða liti, hljóð, sögur, orð og upplifanir eru þitt vetrarnesti? Ég nýt þeirrar blessunar með konu minni að horfa líka á veröldina með ungum drengjum okkar. Við reynum að miðla þeim visku og vitum að á þessum árstíma eru Þingvellir aðalstaðurinn til upplifana. Við notuðum því laugardaginn til pílagrímsferðar inn í ríki blámans, langsýna og skýrleika. Gjárnar seiddu, hægur Silfrustraumur heillaði og haustlitir glöddu. Við skokkuðum upp hleðslugötuna upp Hallann og í Stekkjargjá og síðan að úðandi Öxarárfossi.

Eftir gleðihopp í gjánni héldum við svo niður að breiðunni við Neðrifoss. „Nú ætla ég að sýna ykkur undur lífsins” sagði ég við karlana mína. Við læddumst öll að ánni og viti menn. Þarna var stór urriði, sem rauk af stað og sprettbunga myndaðst á grunnsævinu. „Vá” hann er stór. „Þeir eru fleiri hér einhvers staðar,” sagði pabbinn, „það glittir í eitthvað þarna við flúðina.” Við fórum upp á brúna við Drekkingarhyl og undrið blasti við. Stór torfa fiska brosti þarna í glitrandi vatninu, kviðmiklir og bolþykkir. Sporðarnir voru sem skóflur. Ég taldi 101 stykki, kannski voru sumir þessara risafiska nærri tuttugu pund?

Ég hef fylgst vel með Öxará í tvo áratugi og ástalífið þar fer batnandi. Mikilvægar riðstöðvar við útfall Sogsins við Kaldárhöfða voru eyðilagðar við gerð Steingrímsstöðvar fyrir hálfri öld. Hinn stórvaxni urriðastofn vatnsins hrundi, en hefur braggast síðustu ár með hjálp manna. Fyrir tuttugu árum voru aðeins nokkrir fiskar sem komu í Öxará til að efla lífið, en nú má vænta tvö til fjögur hundruð ofurfiska í ána hvert haust. Það er því sjón að sjá boltana. Nú er ástalífið í gerðinni í Öxará og lífsgleðin magnast.

Fyrst er að kenna drengjum á undur lífsins, að við megum njóta og taka með okkur svona upplifun inn í okkur og veturinn. Svo þurfum við líka að vita að menn geta skemmt eða verndað. Ég sagði þeim ekkert um Drekkingarhyl í þessari ferð, en naut þess fremur að tala og hugsa um þessa lífiðju, gleði og vonir neðan við fossinn hjá hyl grimmdarinnar. Töfrar lífsins þrátt fyrir dauða. Í nánd við Drekkingarhyl spírar lífið í þessari Lífbreiðu. Neðan við Drekkingarhyl eru stangveiðar bannaðar en upplifanir leyfðar. Dauðinn dó en lífið lifir – góð viska fyrir veturinn og allt líf mannabarna.

 Þessi pistill birtist upprunalega í Vísi 5. október 2010.