Greinasafn fyrir merki: þakklæti

Bjartar nætur – þroskasaga Dostojevskí

„Pabbi, ég mæli með að þú lesir Bjartar nætur eftir Dostojevskí,“ sagði Ísak, sonur minn. Hann hafði verið að lesa bókina á kvöldin eftir göngudaga þeirra bræðra hátt í svissnesku Ölpunum – og hreifst. Það eru forréttindi að börnin manns rétta manni bækur til samtals. Ég var áður búinn að puða í Karamazov-bræðrunum sem er þroskaverk Dostojevskís og varð forvitinn um þetta æskuverk sem hann gaf út aðeins 27 ára.

Mér þótti margt forvitnilegt við Bjartar nætur, m.a. sögusvið Pétursborgar. Nærri hálf milljón manna bjó í borginni þegar sagan gerðist fyrir miðja 19. öld. Dostojevskí lýsir m.a. hvernig borgarbragurinn breyttist þegar fjöldi fólks fór í sumarhallirnar og sveitasetrin – dacha. Mér kom á óvart hve stór yfirstéttin var og að sumarfjörið hefði færst út í sveitirnar í kraganum umhverfis borgina. Mér þótti líka áhugavert að lesa um hvernig næmur og ungur maður glímdi við samskiptareglur og hvernig siðferðismótun ungra kvenna gat orðið í rússneskri borg í vexti. Bókin varð mér marglaga fræðslurit.

Sagan er þroskasaga og tímaramminn er aðeins fjórir sólarhringar. Söguhetjan er ungur maður sem glímir við einsemd, tengslaleysi en dreymir um djúptengsl. Hann gengur fram á snökktandi konu og síðan er sagt frá samskiptum þeirra og samtölum. Samfundirnir flétta saman strengi og þræði merkingar. Í sögunni er heimspekileg dýpt, guðfræðileg næmni og tilvistarleg nákvæmni sem er forsmekkur síðari sálarspegla Dostojevskís og rússneskra skáldsagna.

 Í guðfræðilegum skilningi má lesa söguna sem leit að ást sem er óháð yfirráðum eða eignarhaldi. Draumadrengurinn speglar tengslaþorsta – en hann elskar án þess að krefjast. Ást hans er handan allrar kröfu. Þetta er ekki saga um brostnar vonir heldur sálarsaga um að gildi djúprar reynslu jafnvel þótt hún vari stutt. Elskuhugsun kristninnar er jú að gjöf hafi gildi þótt hún sé ekki endurgoldin. Þegar stúlkan, Nastenka, velur elskhugann í stað söguhetjunnar bregst hann hann ekki við með sjálfhverfri reiði heldur þakklæti: „Blessuð sért þú fyrir þessi fjögur kvöld hamingju.“ Afstaðan er jákvæð en ekki neikvæð krafa. Þakklæti í sorg líknar og læknar.

Bjartar nætur á norðurslóð eru ekki bara sjónarspil heldur tákn um andlega vídd sem Dostojevskí orðar og nýtir. Sumarnætur eru honum trúarlegar, sýna ljós í myrkri einsemdar. Ljós í trúarhefð Biblíunnar opinberar, afhjúpar og stingur jafnvel. Draumajói Dostojevskís lifir í ljósinu og verður meðvitaður um eigin einangrun. Sagan verður n.k. helgiganga ungs manns á leið lífsvisku og þroska. Hann sér sig, hlutverk sitt og líf í nýju ljósi. Hann lærir að bregðast við eigin innri manni, öðru fólki og samskiptum með nærfærni og mildi. Ástaráfallið verður honum til þroska. Lífið er vegferð opinberunar.

Guðfræðilega má lesa Bjartar nætur sem dæmisögu um blessun, þetta sem kallað er náð á máli kristninnar. Í þessari sögu er náðin tengd hinu fínlega og birtist í samtölum, viðkvæmum samverustundum, mildi elskunnar, snertingu og reynslu augnablikanna. Boðskapur Dostjojevskís er að hið guðlega birtist fólki sem þorir að reyna og sjá. Jafnvel stuttir samfundir fólks sem glímir við lífsmálin geta orðið helgistundir sem veita þroska. Eilífðin birtist líka í augnablikunum.

Í anda rómantískra forvera eins og í sögu Goethes um Werter unga lifir sögupersónan í tilfinningauppnámi. En þroskasaga Dostojevskís lýkur ekki með sjálfsvígi heldur þroskaglímu við sorg og áfall. Sögur Dostojevskís fara alltaf á dýptina, líka þessi æskusaga hans. Hún á því enn erindi til fólks sem lætur sér ekki nægja skorthugsun efnishyggju eða einhæfni sjálfhverfunnar.

Takk Ísak – mögnuð saga – Dostó er djúpur.

Ég las ensku Penguin-útgáfuna sem heitir White Nights í þýðingu Ronald Meyer. Íslensk þýðing Arnórs Hannibalssonar, þess mæta og góða kennara míns, heitir í hans útgáfu Vornætur: Úr endurminningum draumóramanns og kom út árið 1998. 

Júlía og jurtirnar

Í dag skírði ég Júlíu Ósk sem býr í húsinu í grænmetisgarðinum hennar mömmu við Tómasarhaga í Reykjavík. Júlía Ósk tók svo sannarlega þátt í skírninni, setti hendina í vatnið og var vel áttuð. Mamma hefði haft gleði og gaman af þessari efnilegu og ákveðnu konu. Og mér þótti afar vænt um að fá að vitja hennar, fjölskyldu hennar og hússins sem var byggt í þessum garði bernsku minnar. Hugurinn leitaði aftur.

Garðurinn var gróðurvin hverfisins frá miðri tuttugustu öld og frægur fyrir gæðakál, ofurrófur og gulrætur sem krakkarnir í nágrenninu laumuðust í. Mamma skammaðist ekki yfir rófnastuldi heldur taldi þvert á móti mikilvægt að koma vítamíni í ungviðið. Svo var í garðinum ræktað alls konar vel ilmandi krydd og fjöldi kartöflutegunda því mamma var tilraunakona eins og góðir ræktunarmenn eru. Hún hreifst af fjölbreytileika og litríki gróðurs og mannlífs. Þegar mamma hafði ræktað í garðinum í hálfa öld seldi hún lóðina, fylgdist svo með húsbyggingu og blessaði framtíðaríbúa. Mér þykir vænt um að fá að skíra fallega stúlku sem þar býr nú, ausa hana vatni, biðja henni blessunar sem og fjölskyldu hennar. Hún er óskabarn.

Garðrækt mömmu vakti athygli og Þjóðviljinn flutti þá fregn, að kona í Vestubænum ræktaði dýrustu karftöflur á Íslandi. Blaðið birti mynd af garðinum á dýrmætri byggingarlóð við Tómasarhagann og því augljóst að konan var mamma. Verktakar og lóðaþurfandi framkvæmdamenn komu í röðum og báðu um lóðina. Pabbi vísaði þeim brosandi á mömmu. Svo hringdu aðrir og spurðu hvort þeir gætu ekki fengið þessa óbyggðu lóð. Og enn vísaði pabbi á mömmu. Þar fengu framkvæmdamenn heimsins fullkomlega skýr svör. Nei, þeir gætu ekki fengið þessa lóð af því að hún væri notuð til kartöflu- og kál-ræktar. „En hættið þið ekki bráðum þessari garðrækt, þetta er jú byggingarlóð?“ „Nei,“ sagði mamma ákveðin. „En gætuð þið ekki fengið betra garðaland hjá borginni?“ spurðu þeir enn. „Nei,“ svaraði mamma alveg skýrt. Það var alveg sama hvað skynsemi heimsins spurði um, hvað byggingamennirnir buðu og hvað praktískt hyggjuvitið bar upp. Garðurinn var ekki falur fyrir byggingu af steinsteypu og járni, heldur viðkvæmar byggingar jurta, sem nutu verndar, athygli, ástúðar og elsku mömmu.

Við pabbi og Kristín systir vorum vön atlögum hinna lóðargírugu og kipptum okkur ekki upp við áganginn. En svo komst ég að því að nágrannarnir gerðu grín að mömmu. Krakkarnir báru þessar fréttir og miðluðu af kostgæfni böðulsins. „Mamma þín er skrítin því hún ræktar kartöflur. Getur hún ekki keypt þær út í búð eins og mömmur okkar? Eða kálið? Það fæst líka í KRON.“ Þegar við systkin bárum upp þessi eineltisefni settist mamma niður með syni og dóttur við eldhúsborðið og skýrði málið. Mamma var eldri en flestar hinar mömmurnar og hún hafði líka þroskað með sér stefnu og lífsleikni. Hún tilkynnti okkur slök og með hlýju í augum að henni væri alveg sama um hvað fólki fyndist um svona ræktun. Hún skýrði út að fólkið í sumum húsunum við götuna héldi að það væri fínna að vinna ekki moldarvinnu og vera ekki eins og fólkið í sveitinni. En því miður hefði það bara ekki skilið meira og verið þroskaðra en þetta. Svo hló mamma bara að Þjóðviljanum og nágrannaviljanum. Hún væri ræktunarkona sem hefði gaman af jurtunum og að auki væri það gott fæði sem hún byggi til. Hún væri frjáls, veldi sér atvinnu, sparaði heimilinu peninga sem við gætum notað í eitthvað skemmtilegt í stað þess að kaupa kartöflur og kál.

Þá var það skýrt og klárt. Mamma notaði tækifærið til að kenna eðli smáborgaraháttarins, mikilvægi góðrar næringar, neysluvenjur, rekstur heimilis og mikilvægi frelsis og sjálfstæðis. Svo ræktaði hún sitt dýra kál, seldi í KRON og Sölufélag garðyrkjumanna og sauð niður afganginn til vetrarins. Mamma var græn í hugsun og svo var það auðvitað alveg sjálfgefið að Guð elskaði afstöðu hennar og starf. Kartöflurnar hennar voru betri en annarra, kálið hennar stórvaxnara og ljúffengara en í búðinni. Mamma var í leynibandalagi með Guði, sem skapar og elskar fólk sem ræktar og hefur áhuga á lífríkinu. Svo fengu nágrannarnir sendingu úr garðinu þegar haustaði, ekki til að breyta hugsun þeirra, heldur af því maður deilir með öðrum gæðum garðs og heims. Ræktun er siðlegt mál og félagslegt.

Svo var ramakvein og harmað á Tómasarhaganum þegar mamma nálgaðist nírætt og treysti sér ekki lengur til rækta í öllum 500 fermetrunum eins og áður. Þá tók hún skrefið og seldi garðinn. En hún átti enn horn í gömlu lóð afa míns og ömmu, Litlabæjarlóðinni. Mamma tók svo upp úr þremur kartöflubeðum síðasta haustið sem hún lifði! Grænt er sálarvænt.

Guðspjall dagsins og boðskapur Biblíunnar varðar líf og ræktun og að mannlífið væri tengt lífgjöf Guðs. Mamma þekkti gleðiboðskap Jesú að lífið þarfnast næringar og alúðar. Plöntur og menn þarfnast heilbrigðs samhengis. Menn þrífast best þegar flæði lífsnæringar er óheft. Guð ræktar vel og mennirnir njóta. Skírnarþegi dagsins er alinn upp í ræktuðu samhengi garðsins hennar mömmu. Í moldinni urðu máttarverk, allt ræktaðist vel og hluti af áburðinum voru elskulegar bænir móður minnar. Júlía Ósk er blessuð í dag og fjölskylda hennar líka. Ég held að græn elska mömmu lifi enn og bænirnar hennar skili enn blessun. Já blessun fylgi Júlíu sem er óskabarn og öllu hennar góða fólki. Ræktunin heldur áfram.

Lífið er svo hlykkjótt – Kristín Sigurðardóttir og lífsafstaðan

Hvað gerist þegar við erum slegin niður, verðum fyrir áfalli eða slysi? Krist­ín Sig­urðardótt­ir, slysa- og bráðalæknir, er fyrirmynd um skapandi lífsleikni. Hún hef­ur starfað sem slysa- og bráðalækn­ir. Hún hefur búið og unnið í Bretlandi, á Kana­ríeyj­um og á Íslandi. En allt í einu varð Kristín fyrir áfalli. Hún þoldi ekki mygluna á Landspítalanum. Eins og margt starfsfólk spítalans varð hún að hætta vinnu þar vegna veik­inda sem rakaskemmdir ollu. Þessi kraftmikla og heilsuhrausta kona hrundi heilsufarslega. Í heilt ár var hún að gera sér grein fyrir að ytri aðstæður á vinnstað hennar ollu heilsubresti hennar. Átti hún að reyna að þrauka til að vinna við það sem henni þótti mikilvægt og skemmtilegt? Valið stóð hjá henni, eins og svo fjölmörgum öðrum, milli heilsu og vinnu. Hún valdi heilsuna, skráði sig í leiðsögumannanám og hóf störf í nýjum greinum. Niðurstaða hennar er að lífið sé hlykkjótt.

Hvað gerist þegar fólk lendir í áfalli. Margir verða reiðir og finna sökudólgana í kringum sig, festast reiðinni. En Kristín sagði: „Ég er svo mik­il Pol­lý­anna í mér að ég hef ekki lagst í reiði. Ég meira að segja neita að hugsa um mig sem veika, held­ur segi ég bara eins og er, að ég þoli ekki sumt hús­næði. Þá forðast ég það bara og geri allt sem ég get til að halda mér hraustri. Ég var líka lán­söm að áður en ég veikt­ist var ég rosa­lega hraust og gat hlaupið upp hvaða fjall sem er. Fyrst var ég mjög svekkt og sorg­mædd að hafa misst þessa hreysti mína. En það breytt­ist og seinna varð ég þakk­lát fyr­ir að hafa í raun verið svona hraust áður, því það hef­ur hjálpað mér að þola veik­ind­in bet­ur. Ég horfi á það sem ég hef og er þakk­lát fyr­ir að vera með svona góða fjöl­skyldu og vini, hreyfigetu og að geta stundað úti­vist.“

Lífsafstaða skiptir máli. Við veljum fæst af áföllum okkar eða slysum. En við höfum alltaf val um hvernig við bregðumst við þeim. Það er þungbært að hrekjast úr vinnu sinni. En þegar valið stendur milli heilsu og vinnu er mikilvægt að flýja ekki heldur horfast í augu við vandann. En í kreppum eru líka tækifæri. Kristín var opin fyrir hlykkjóttum leiðum lífsins. Þakklæti fyrir styrkleikana hjálpar við að bregðast við kreppunum. Þannig opnast framtíð.

Takk fyrir Kristín Sigurðardóttir.

Viðtal við Kristínu í sunnu­dags­blaði Mbl, 3. maí 2020. Ásdís Ásgeirsdóttir. Meðfylgjandi mynd er einnig tekin af Ásdísi, sem er frábær ljósmyndari og líka penni. Takk Ásdís. 

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/05/03/lifid_er_svo_hlykkjott/