Greinasafn fyrir merki: kristni

Paradísarmissir – Paradísarheimt

Heimur Biblíunnar er dramatískur og litað er með sterku litunum um stærstu mál mannkyns og heims. Á síðari árum hefur mér þótt mengunarmál heimsins væru orðin svo dramatísk að þau væru orðin á biblíuskala. Margt sem skrifað hefur verið um þau efni hefur minnt á heimsendalýsingar Biblíunnar. Biblíutenging kom enn og aftur upp í hugann við bóklestur liðinnar viku. Ég lauk að lesa nýju bók Andra Snæs Magnasonar, Um tímann og vatnið. Það er áleitið rit um stóru málin, um náttúruna, meðferð okkar og ábyrgð á stórheimili okkar, jarðarkringlunni. Andri Snær skrifar ekki aðeins eins raunvísindamaður heldur segir persónulegar og blóðríkar sögur og opnar fyrir lífsviskuna, sem varðveitt er í trúarritum og helgidómum heimsins.

Missir og heimt

Í fyrstu bók Biblíunnar er lýst, að heimurinn var skapaður sem hamingjureitur. Heimurinn var Paradís. Síðan er harmsagan um hvernig menn spilltu heilagleika náttúrunnar og klúðruðu stöðu sinni. Og þessi lýsing er ekki náttúrufræði heldur listræn tjáning, erkiljóð, sem miðlar sársauka mannkyns yfir að hafa ekki staðið sig og skemmt það sem var gott. Sem sé paradísarmissir. Biblían tjáir, að menn hafi æ síðan leitað að paradís. Svo lýsir Biblían líka hamingjutímabilum þegar mannlíf var í jafnvægi, heilbrigði ríkti, allir höfðu í sig og á og friður ríkti.

Í langri sögu hebrea varð Jerúsalem miðja paradísar. Hún var tákn um að allt væri gott og rétt. Stórþjóðir tímanna réðust á smáþjóðina, sem hafði Jerúsalem að höfðuvígi. Saga hennar varð saga paradísarmissis eða paradísarheimtar. Sögurit Gamla testamentsins rekja paradísarleitina, spámannaritin spegla hana og í Sálmunum eru mikil ljóð sem tjá paradísarmissi en líka von. Á tímum herleiðingar og ofbeldis fæddist þráin eftir lausn. Messíasarvonir vöknuðu þegar kaghýddir hebrear þræluðu í hlekkjum. Það er á spennusvæðinu milli paradísarmissis og paradísarheimtar, sem Jesús Kristur kom í heiminn til að leysa úr fjötrum. Guðspjöllin eru um opnun paradísar, öll rit Nýja testamentisins sem og síðan öll helg saga síðan. En mennirnir eru samir við sig. Allir einstaklingar endurtaka frumklúðrið í sköpunarsögunni, allir síðan, í öllum samfélögum og þjóðum allra alda. Við erum börn, sem líðum fyrir missi paradísar en leitum að paradís.

Í Biblíunni er Jerúsalem paradís, ef ekki í raun þá sem táknveruleiki. Og um borgina er skáldlega talað og grafískt um að sjúga af huggunarbrjósti hennar og njóta nægta. Guð veitir Jerúsalem velsæld og færir henni ríkidæmi. Allir njóta, börnin líka. Jerúsalem biblíunar er nothæft tákn um náttúru í samtíð okkar.

Um tímann og vatnið

Bók Andra Snæs Magnasonar er bók um paradísarmissi, en líka um hvað við getum gert til bjargar. Hún er glæsilega skrifuð en líka óumræðilega þungbær. Ég varð að taka mér nokkurra daga hlé á lestrinum því illvirki manna gagnvart jarðarkúlunni eru opinberuð með svo lamandi hætti, að mér varð illt. Sókn okkar manna í gæði hefur skuggahliðar. Neysla, iðnvæðing, landbúnaðarbreytingar, orkunoktun og lífsháttabreytingar hafa breytt paradís jarðarkúlunnar í sjúka lífveru með ofurhita, sjúkling með dauðann í augum og æðum. Loftslagsvá ógnar lífi stórs hluta mannkyns. Risastór gróðursvæði hafa skaddast eða eyðst, vatni hefur verið og er áfram spillt um allan heim. Vegna athafna manna hafa dýrategundir dáið eða eru í hættu og lífríki riða til falls. Fíngert jafvægi hefur brenglast. Hópar og þjóðir fara á vergang, friður spillist, lífið veiklast. Paradísarmissir. Og ef við notum stóru stef Biblíunnar getum við dregið saman allt það, sem Andri Snær útlistar að Jerúsalem sé herleidd og flekkuð og deyji ef ekkert verður að gert.

Erindi kristni og mengun

Hin miklu klassísku rit Biblíunnar, trúarbragðanna og klassíkra bókmennta mannkyns draga upp stórar myndir um merkingu þess að lifa sem manneskja í samfélagi og fangi jarðar. Við kristnir menn höfum endurtúlkað allt sem varðar það líf. Guð er ekki lítill smáguð þjóðar í fjarlægu landi, heldur Guð sem skapaði þessa jarðarkúlu og alla heima geimsins, elskar lífið sem af Guði er komið, liðsinnir og hjálpar. Paradísarmissir og paradísarheimt varða sögu Guðs og er raunar saga Guðs. Nú er svo komið, að kristið fólk veit og skilur, að Jesús Kristur kom ekki aðeins til að frelsa Jóna og Gunnur, þ.e. mannkyn, heldur líka krókódíla, kríur og hvali, vatnsæðar heimsins og himinhvolfið einnig. Við menn – í græðgi okkar og skeytingarleysi – erum dugleg við að skemma lífvefnað jarðarkúlunnar. Nú þurfum við að stoppa, hugsa, dýpka skilning okkar og þora að breyta um kúrs. Við jarðarbúar, við Íslendingar líka, höfum seilst í alla ávexti aldingarðsins, höfum breytt skipulaginu og klúðrað málum svo harkalega, að við höfum tapað paradís.

Þegar Jerúsalem féll í fornöld, sem var reyndar nokkuð reglulega, komu fram spámenn til að vara við, setja í samhengi, vekja til samvisku, hvöttu til að snúa við, taka sinnaskiptum, iðrast. Alltaf var Guð með í för þegar rætt var um lífið. Bók Andra Snæs er ekki klassískt spámannsrit heldur nútímalegt, eftir-biblíulegt viskurit um, að mengun er mál okkar allra. Við erum kölluð til verka. Við höfum ekki lengur þann kost að búa um okkur innan múra afneitunar. Við getum í afneitun varið okkur sem erum komin á eldri ár en við megum ekki og eigum ekki að taka þátt í að eitra fyrir börn okkar og afkomendur. Vandinn er svo stór, að börnum okkar er ógnað. Við getum vissulega ekki bjargað heiminum ein en við getum öll gert margt smátt. Paradísarmissir er ekki eitthvað sem varðar hina – en ekki okkur. Missirinn er okkar allra. Við erum heimsborgarar og hlutverk okkar er paradísarheimt.

Framtíðin kallar. Ungt fólk um allan heim gegnir kallinu og stendur vörð um líf, heilbrigði og ábyrgð. Það eru ekki aðeins Greta Thunberg sem beitir sér, heldur milljónir ungs fólks um allan heim, líka Íslendingar. Í þessari viku verður æskuþing haldið um aðalmál íslenskra unglinga. Og miðað við viðtöl liðinna daga við unglingana munu þau ræða um hvernig megi bregaðst við mengunarmálum. Ég er djúpt snortinn af elsku og heilindum framtíðarfólksins. Í boðskap þeirra – og Andra Snæs einnig – heyri ég vonarboskap sem varðar lífið. Guð kallar til starfa að við njótum og verndum Jerúsalem náttúrunnar – verndum lífmóður okkar. Jesús býður ekki aðeins okkur að koma til sín heldur kemur til okkar og er með okkur. Guð stendur með lífinu og erindi kristninnar er paradísarheimt.

Ógnar pólitísk rétthugsun jólum?

img_1621

Er það hlutverk sveitarstjórna, skólastjóra, kennara, stjórnmálamanna og fyrirtækja aðbreyta ferlum og mannfundum til að móðga ekki einhverja, sem eru ekki hrifnir af kristnum siðum og venjum? Á Bretlandseyjum hefur ekki lánast að byggja menningarbrýr sem hafa þjónað fjölbreytnisamfélaginu. Það var niðurstaða nefndar á vegum enskra stjórnvalda og var birt í The Sunday Telegraph og fleiri miðlum. Að skera kristin gildi, heiti, venjur og hefðir út úr opinberu menningarlífi, t.d. jólahaldi, hefur ekki orðið til að skapa opið samstöðu-samfélag sem hinir pólitískt rétttrúðu væntu. Af ótta við að særa brugðust yfirvöld og vel meint kurteisin var kjánaleg í ýmsum tilvikum. Lög voru jafnvel ekki virt. Í sumum innflytjenda-gettóum var ekki tekið á ofbeldi, s.s. misnotkun barna og kynferðisglæpum gegn konum. Spennan vex í bresku samfélagi og Brexit er m.a. niðurstaðan af vaxandi pirringi.

Boðskapur skýrsluhöfunda á vegum Cameron og May er að nú sé komið að menningarlegum viðsnúningi. Jólatrén á ekki lengur að kalla “hátíðartré” heldur Christmas tree. Skólayfirvöld, sveitarstjórnir, ráð samfélags og viðskiptalífs eiga að virða að samfélög hafa gildi, hefðir og venjur sem þarf að viðhalda og rækta. Verja þarf fólk gegn hvers konar ofbeldi.

Niðurstaða ensku skýrslunnar er að mestu mistökin hafi verið að halda ekki í grunngildi, grunnlög og grunnhefðir til að þau sem fluttu inn gætu aðlagast bresku samfélagi. Til að samfélag sé opið og vel virkt þarf að gæta inntaks menningar. Trú og hefðir eru veigamiklir þættir heilbrigðs siðar en einfeldningsleg pólitík er engum til gagns.

Við Íslendingar megum gjarnan læra af mistökum granna okkar. Miklu skiptir að halda vörð um gildi og siði sem þjóna fólki, gefa samhengi, tjá menningu, styrkja samfélag og auðga andlegt líf fólks. Kristnir menn eiga alltaf að styðja það sem eflir andlegt heilbrigði. Trú, gildi og gefandi hefðir lífga og efla. Ræktum hið góða á aðventu og Guð gefi ykkur öllum gleðileg jól.

Fréttablaðið 19. desember, 2016. 

Aldrei aftur París

Sonur minn horfði á móður sína og sagði: „Mér finnst allt vera breytt.“ Drengurinn tjáði okkur að honum þætti veröldin væri önnur eftir morðin í París. hann fann að foredlrum hans var brugðið og skelfdist það sem hann heyrði í fjölmiðlum um voðaverk óðra manna. hann óttaðist að þriðja heimsstyrjöldin væri hafin. 

129 manns létu lífið í París í fyrradag. 352 særðust og þar af eru um eitt hundrað í lífshættu. Við kveiktum ljós fyrir allt þetta fólk í gær á kyrrðarstund í kirkjunni og komum þeim fyrir í kórtröppunum. Ljósin voru óhugnanlega mörg og þöktu efstu tröppurnar. Smátt og smátt erum við að fá tilfinningu fyrir umfangi, dýpt og hryllingi þessara voðaverka glæpamanna sem standa fremur með dauðanum en lífinu.

Þau sem létu lífið eru í bænum okkar, ástvinir þeirra og franska þjóðin. Og hverjir voru þessir glæpamenn sem myrtu saklaust fólk með köldu blóði, skutu fólk sem sat úti fyrir kaffihúsum og á tónleikum og sprengdu sprengjur – og sjálfa sig með – m.a. við þjóðarleikfang Frakka, Stade de France. Það voru ekki einhverjir gamlir, vitskertir, siðblindir kallar heldur fyrst og fremst ungir menn, sumir voru unglingar, aðeins 15-18 ára gamlir. Þessi drengir hafa verið aldir upp í og heilaþvegnir til að standa fremur með dauðanum en lífinu. Hvers konar afstaða er það? Hvers konar viðhorf og siðhrun er það? Öll heimsbyggðin er agndofa gagnvart hryllingnum. Allt er skelfilegt varðandi hörmungaratburðina í París.

Og hvað eigum við að gera? 

Hvernig getum við brugðist við? Samfélagsmiðlarnir loga og margt er þar vel sagt. Mikil samúð er tjáð, fólk speglar samstöðumyndir með Parísarbúum og Frökkum, litar prófílmyndirnar á facebook í frönsku fánalitunum og smellir inn friðarmynd af Eiffelturninum með krossi í miðju. En svo eru önnur sem bregðast við með gífuryrðum og hella úr skálum reiði sinnar með því að tengja ófriðinn við fólk sem hefur ekkert til saka unnið. Það þjónar ekki réttlæti eða friði að uppteikna alla múslima sem djöfulóða öfga- og glæpamenn. Er það hjálplegt í þessum hryllilegu aðstæðum að fella alla múslima í einn hóp? Búa til úr þeim hóp sem eru allt annað en “við?” Nei, allir múslimar eru ekki ábyrgir fyrir þessum hryllingi frekar en að ég og þú eigum sök á fjöldamorðunum í Útey í Noregi. En það þjónar hins vegar ekki friði eða réttlæti að bregðast við með því að afneita alvöru málsins. Stríð í Austurlöndum nær eru stríð sem okkur varða og vandi íbúa þeirra einnig. Fólkið sem flýr Sýrland til Evrópu er að flýja sömu glæpamennina og sama drápshópinn og réðst á Parísarúa. Átökin eru ekki aðeins átök stríðandi hópa sem berjast til valda. Stríðin varða afstöðu til lífsins, siðferði, rétt minnihlutahópa, hvort úrelt hugmyndakerfi fái ráðið.

Hvað eigum við að gera? Hvernig eigum við að bregðast við? Við getum margt lært af viðbrögðum Norðmanna við fjöldamorðunum í Noregi fyrir fjórum árum. Þá létu Norðmenn ekki dauðann ráða heldur lífið og lífsástina. Gegn hatri og grimmd létu Norðmenn hatur og ótta ekki ráða för heldur kærleika og mannúð. Forystumenn múslima og kristinna, húmanista, trúmanna og vantrúarmanna tóku höndum saman um að treysta frið og eindrægni í samfélaginu. Haldnar voru fjöldasamkomur í kirkjum og á torgum, í moskum og félagsmiðstöðvum til að fólk gæti sameinast um lífið til að dauðinn fengi ekki sigrað.

Prófið mikla

Nú er komið að miklu prófi menningar Vesturlanda. Hvernig eiga franska þjóðin og okkar heimshluti að bregðast við dauðasveitunum? Hvað er best og ábyrgast að gera? Er það valkostur að Vesturlönd fari í stríð við Islamistanna? Hófst þriðja heimstyrjöldin í París? Margir halda að svo sé en við eigum ekki að láta ofbeldismennina ráða, við eigum aldrei að láta eða leyfa glæpamönnum að stjórna samfélögum eða lífi okkar. Okkar köllun og okkar skylda er fyrst og fremst að standa með lífinu en ekki dauðanum. Standa með rósemi en ekki ótta. Efla friðinn en ekki óreiðu og órétlæti.

Fellur aldrei úr gildi

Kæru fermingarungmenni sem sitjið á fremstu bekkjunum í kirkjunni í dag. Hvaða afstöðu ætlið þið að taka? Hvað ætlið þið að gera í ykkar lífi? Hvaða stefnu ætlið þið að taka? Hvernig gildi viljið þið temja ykkur? Og þær spurningar varða okkur líka sem eldri erum.

Tíma einfeldninnnar er lokið um hvað trú og siður sé. Það skiptir máli hver eru gildi okkar og lífsafstaða. Við höfum alist upp í menningu sem er gegnsýrð og mótuð af kristindómi, kærleiksboðskap Jesú, umburðarlyndi, tillitssemi, fyrirgefninu og kærleika. Sá boðskapur fellur aldrei úr gildi. Kristin gildi eru leikreglur vestrænna samfélaga og hafa haft áhrif á viðmið, uppeldi, samskipti, menntunarstefnu og löggjöf. En mörgum hefur sést yfir í hraða og erli síðustu ára hve kristnin er samofin mestu dýrmætum menningar okkar. Nú er komið að krossgötum. Viljum við frelsi, jafnrétti og bræðralag sem er slagorð frönsku byltingarinnar sem jafnframt eru gildi kristninnar? Eða eitthvað annað? Það er ekki valkostur að afskræma trú og menningu annarra og það er ekki valkostur að afskræma hinn kristna sið og gildi heldur.

Ræða stóru málin

Við þurfum hugrekki til að ræða trú og sið, menningu og ómenningu opinskátt og í almannarými samfélagsins. Við þurfum að ræða málin í skólum, fjölmiðlum, samfélagsmiðlunum og í almenningnum. Við megum gjarnan vera eins og Jesús Kristur og horfa á alla með augum ástarinnar, með hlýju en fullkomnu raunsæi og einbeittri skynsemi. Nú flæða inn í vestræn samfélög, og brátt okkar líka, fólk með allt öðru vísi mótun, annan hugsunarhátt og viðhorf. Móttökur okkar eiga að vera kærleiksríkar en skynsamlegar. Við megum og eigum að gera kröfur um að fólk virði leikreglur vestrænna samfélaga, vestrænnar gagnrýni, vestrænnar löggjafar – hins vestræna vefs menningar.

Aldrei aftur París

Já, það er allt breytt. Við stöndum á krossgötum og þurfum að hugsa okkur um og taka stefnu, án ótta, með upplýstri trú og af kærleiksríkri einurð. Fjöldamorðin í París eru árás á gildi, trú, menningu og stefnu vestrænna þjóða. Stríðsyfirlýsing gagnvart siðum og venjum Vesturlanda. Skipta þau okkur máli? Tíma einfeldninnar er lokið. Við stöndum með Frökkum. Við erum öll Parísarbúar þessa sorgardaga. Eigum við að leyfa skothríðinni í París að hræða og beygja okkur? Nei. Glæpur var unnin á frönsku þjóðinni en líka okkur – öllum. Hatrið réðst gegn ástinni. Látum ekki fólk deyja til einskis, heldur heiðrum þau með því að treysta samfélagsfriðinn. Mætum ótta með trausti. Hvikum ekki frá uppeldi fólks til menningarlegrar og trúarlegrar fjölbreytni. Ræðum opinskátt eðli hatursins. Leyfum lífinu að lifa. Til forna var sagt: Aldrei aftur Masada. Gegn hatri nútíma: Aldrei aftur París.

Íhugun í Hallgrímskirkjumessu 15. nóvember, 2015