Greinasafn fyrir merki: trúarbrögð

Ógnar pólitísk rétthugsun jólum?

img_1621

Er það hlutverk sveitarstjórna, skólastjóra, kennara, stjórnmálamanna og fyrirtækja aðbreyta ferlum og mannfundum til að móðga ekki einhverja, sem eru ekki hrifnir af kristnum siðum og venjum? Á Bretlandseyjum hefur ekki lánast að byggja menningarbrýr sem hafa þjónað fjölbreytnisamfélaginu. Það var niðurstaða nefndar á vegum enskra stjórnvalda og var birt í The Sunday Telegraph og fleiri miðlum. Að skera kristin gildi, heiti, venjur og hefðir út úr opinberu menningarlífi, t.d. jólahaldi, hefur ekki orðið til að skapa opið samstöðu-samfélag sem hinir pólitískt rétttrúðu væntu. Af ótta við að særa brugðust yfirvöld og vel meint kurteisin var kjánaleg í ýmsum tilvikum. Lög voru jafnvel ekki virt. Í sumum innflytjenda-gettóum var ekki tekið á ofbeldi, s.s. misnotkun barna og kynferðisglæpum gegn konum. Spennan vex í bresku samfélagi og Brexit er m.a. niðurstaðan af vaxandi pirringi.

Boðskapur skýrsluhöfunda á vegum Cameron og May er að nú sé komið að menningarlegum viðsnúningi. Jólatrén á ekki lengur að kalla “hátíðartré” heldur Christmas tree. Skólayfirvöld, sveitarstjórnir, ráð samfélags og viðskiptalífs eiga að virða að samfélög hafa gildi, hefðir og venjur sem þarf að viðhalda og rækta. Verja þarf fólk gegn hvers konar ofbeldi.

Niðurstaða ensku skýrslunnar er að mestu mistökin hafi verið að halda ekki í grunngildi, grunnlög og grunnhefðir til að þau sem fluttu inn gætu aðlagast bresku samfélagi. Til að samfélag sé opið og vel virkt þarf að gæta inntaks menningar. Trú og hefðir eru veigamiklir þættir heilbrigðs siðar en einfeldningsleg pólitík er engum til gagns.

Við Íslendingar megum gjarnan læra af mistökum granna okkar. Miklu skiptir að halda vörð um gildi og siði sem þjóna fólki, gefa samhengi, tjá menningu, styrkja samfélag og auðga andlegt líf fólks. Kristnir menn eiga alltaf að styðja það sem eflir andlegt heilbrigði. Trú, gildi og gefandi hefðir lífga og efla. Ræktum hið góða á aðventu og Guð gefi ykkur öllum gleðileg jól.

Fréttablaðið 19. desember, 2016.