Greinasafn fyrir merki: kirkja

Íslandskirkja

Hvað er kirkja? Hvernig er hún og til hvers? Og hvaða stefnu hefur trúmaður í lífinu?

Ólafur Elíasson er orðinn einn frægasti myndlistarmaður heims. Verk hans vekja mikla athygli. Ólafur kom til Íslands í síðustu viku. Tilgangurinn var að opna sýningu í Listasafni Reykjavíkur. Á sýningunni eru jöklaljósmyndir sem sýna dramatískt hop jöklanna á tuttugu árum. Landið, sem kennt er við ís, er að tapa jöklum sínum! Skiptir það einhverju máli? Kemur það Jesú Kristi við? Hefur það eitthvað með trú að gera?

Spurningin varðar tilgang og erindi kirkju í heiminum. Kirkjur eru ekki aðeins athvarf fyrir lífsflóttamenn heldur fremur faðmar fyrir líf. Og Hallgrímskirkja, sem er orðin pílagrímastaður alls heimsins, er nothæf til íhugunar á nútímahlutverki trúmanna. Skipulag guðshússins er merkilegt. Altari í kirkju er staðsett á áhrifaríkasta bletti rýmisins. Þegar fólk kemur að altarinu finnur fólk, að það er statt á „heitum“ reit, sem trúmaðurinn kallar heilagan stað.

Sjónarhornið

Sjónarhorn skipta alltaf máli, alla menn í öllum efnum, líka í kirkjulífi, listum og trú. Hvað sérðu þegar þú situr á kirkjubekknum og horfir inn í kórinn? Þú sérð ekki bíla, hús eða mannlíf heldur himinn, skýjafar og leik ljóssins í skýjabólstrum. Fuglar fljúga stundum fyrir glugga og flugvélar líka. Á sólardögum skín sólin inn um kórgluggana og jafnvel blindar söfnuðinn. Það er eins og að fara inn í ljósríki að ganga að altarinu. Kórinn verður sem upphafinn ljósveröld. Kirkjan er jú forskáli himinsins. Augun leita fram og upp og hlið himins opnast.

En hvað sér maður í kórnum? Sjá þau, sem ganga upp tröppurnar og að altarinu, eitthvað annað en það sem þið sjáið í kirkjunni? Í hvert einasta sinn sem ég fer upp í kórinn og til þjónustunnar undrast ég því útsýn breytist algerlega. Sjónarhornið er allt annað í kórnum en frá bekkjunum. Sjónsvið prestsins er allt annað en sýn safnaðarins. Við altarið leita augun ekki lengur upp í himininn, til skýja, fugla eða himinljósa. Augun leita þvert á móti niður! Upp við altarið sér maður beint út um lága gluggana í bogahring kórsins og niður. Frá altarinu blasa við hús, og allt það sem tilheyrir mannlífinu. Þessa borgarsýn hefur söfnuðurinn ekki og fjöllin eru í fjarska sem sjónarrönd.

Þetta er raunar makalaus áminning fyrir öll, sem eiga erindi í kór og að altari. Þegar komið er í hið allra heilagasta breytist sjónsviðið. Fyrir augliti Guðs sér maður menn og náttúru! Þetta skipulag kirkjunnar má verða okkur öllum til íhugunar hvernig skilja má og túlka Guð, náttúruna, sköpunarverkið, mennina, jökla, dýr og þar með líka kirkju. Þegar við komum næst Guði förum við að sjá með nýjum hætti. Við lærum að sjá með augum Guðs sem er ekki upptekinn af eigin upphöfnu dýrð, heldur tengslum við veröldina og þig.

Þegar menn leita Guðs sem ákafast þá opnar Guð mönnum sýn – ekki inn í himinn og eilífð heldur beint inn í heim tímans, til mannfólks og náttúru. Þegar við sjáum Guð beinir Guð sjónum okkar að veröldinni, sem þarfnast okkar og verka okkar. Við menn erum kölluð til að elska – ekki aðeins að elska Guð – heldur fólk, jökla, lífið – líka Karlakór Reykjavíkur, messuþjónana, Björn Steinar, sem situr við orgelið, og allt fólkið sem er hér í kirkunni.

Nálægur Guð

Textar dagsins beina augum okkar upp en líka niður, að eilífð en líka í tíma. Lexían í Jesajabókinni er upphafið friðarljóð – eða friðarsálmur. Þar er lýst jafnvægi mannlífs og dýra. Þetta er stílfærð vonarveröld þar sem pardus, ljón, kýr, kálfar, nöðrur og börn eru öll vinir. Þegar við tengjum þessa markmiðssýn við raunaðstæður mengunar lífheimsins verður hún enn ágengari. Þetta er sýn Guðs fyrir veröldina. Okkar er að gera allt, sem við getum, til að tryggja heilbrigði umhverfisins. Textar dagsins minna okkur á samhengið. Guð talar við okkur í náttúru, í samfélagi og okkar er að axla ábyrgð og gegna kalli Guðs. Við eigum ekki að þjóna bara sjálfum okkur heldur lífinu.

Að trúa er ekki að fara úr þessum heimi og vakna til annars, heldur er trú tengsl og hefur siðlega vídd, að vera til taks fyrir fólk og veröld. Trú er ekki að skutlast frá jarðlífi til einhverrar geimstöðvar eilífðar. Í öllum bókum Biblíunnar er dregin upp sú mynd af nálægum Guði, að Guð er ástríðuvera sem elskar, grætur, faðmar, syrgir og gleðst. Guð kemur og skapar fólk til frelsis og yfirgefur menn aldrei. Fagnaðarerindi merkir, að lífið er góður gerningur Guðs, Guð leysir, frelsar, hjálpar. Guð elskar og við erum samverkafólk ástariðju Guðs.

Niður er leiðin upp!

Kirkjugangurinn og leiðin að altarinu er til íhugunar. Leiðin fram og upp er jafnframt niður. Leiðin til jóla og leiðin upp í himininn er alltaf í gegnum mannheim. Leið elskunnar til Guðs er vegleysa nema um raunheim mennskunnar. Trú, sem ætlar sér bara að veita mönnum gott símasamband við Guð í hæðum – en tengir fram hjá fólki í vandræðum – er guðlaus og þar með trúleysa.

Guð elskar og kallar okkur til að elska líka. Elska varðar það hugrekki að segja nei við öllu því, sem hemur og kúgar fólk. Við erum kölluð til að elska – jafnvel það, sem okkur hugnast ekki. Þegar þú gengur inn í Hallgrímskirkju horfir þú til himins og þegar þú ferð alla leið að altarinu sérðu veröldina. Að horfa upp til Guðs leiðir til að þú ferð að horfa á veröldina með augum Guðs og með elsku Guðs. Guðsnánd felur í sér mannnánd og náttúrunánd.

Aðventa

Þegar Ólafur Elíasson kom í Hallgrímskirkju fór hann upp í turn til að skoða sig um. Hann fór svo og opnaði sýninguna í Listasafni Reykjavíkur. Myndirnar sýna jöklana að ofan, frá sjónahorni Guðs. Það er trúarlegur blær á þessari myndaröð og þær hvísla til okkar rödd að ofan og handan. Það horft með elskuaugum á þessa hopandi jökla frá sjónarhóli Guðs.

Þeir Andri Snær Magnason Ólafur ræddu saman við sýningaropnunina um náttúru, list og ábyrgð manna. Ólafur sagði í samtalinu, sem er aðgengilegt á vefnum, frá heimsókn sinni í kirkjuna. Hann sagðist hafa verið að þvælast upp í kirkjuturni með Sigga presti! Hann sagði svo, að kirkja væri vettvangur fyrir lífið, opinn staður fyrir fólk til að fjalla um það sem mestu máli skiptir. Við Ólafur erum sammála um hlutverk okkar manna varðandi vernd lífs og þjónustu við umhverfi og fólk. Kristin kirkja beinir ekki sjónum okkar bara til himins heldur til manna. Leiðin upp er leiðin niður í dali manna og ríki lífs.

Af hverju heldur þú að Jesús hafi komið í þennan heim? Af því Guð horfir á heiminn og lætur sig þig varða. Að elska Guð er jafnframt að elska menn – og elska þessa veröld. Hlutverk okkar er að vera augu, hendur og faðmur Guðs í heimi. Gakktu fram til Guðs og þá sérðu heiminn.

Í Jesú nafni – Amen.

For those of you not understanding Icelandic. The biblical texts of the day are striking. The first one depicts a world of global peace. The poetic text celebrates a good and just world. The other texts contextualize the peace. It is God´s peace. God actualizes that which God aims for the world. And it is ours to work with God for the good. I did also tell about Ólafur Elíasson who is one of the outstanding visual artists of the world. He shows his works all over the world and also in Reykjavik. Last week he visited Hallgrimskirkja. At the opening of his exhibition in the Reykjavik Art museum he did tell the audience that he had been hanging around with the priest in the tower of Hallgrimskirkja. Then, with deep apreciation, he talked about the role of the Christian church to make space for people in working for the benefit of the world. That, I think, is a deep understanding of healthy Christianity. Faith is never a jump out of time and life into a heaven of eternal bliss. The road to God and with God is always through a world in time, dealing with people, tasks, responsibility, indeed all the tasks of life. The texts of Bible, the show of Ólafur Elíasson and the structure of this church direct us to face our role as responsible people in our life.

Ljósmynd með þessari íhugun  er tekin af Ólafi Elíassyni. 

Vegir Drottins

Hvað er trú og hvernig kemur hún fram? Hvernig er Guð? Hefur guðstrú einhver áhrif á siðferði fólks? Og ef svo er hvað gerir trúað fólk og hvernig bregst það við lífskreppum? Getur verið að trú sé stundum hindrum í samskiptum? Eða eru kreppur fólks fremur tengdar geðrænum sveiflum fólks en hugmyndum þess eða lífsskoðun? Það eru svona spurningar sem eru að baki þáttaröðinni, sem sýnd var í ríkissjónvarpsstöðum Norðurlanda haustið 2018. Sýndir voru tíu þættir í fyrri umferð, en sú seinni enn ekki verið sýnd á Íslandi, hvað sem verður.

Í Vegir Drottins er fylgst með litríkri en furðulegri prestsfjölskyldu í Danmörku. Ég þekki margar prestsfjölskyldur, íslenskar sem erlendar. Sumar eru skrítnar – en þessi prestsfjölskylda í Kaupmannahöfn er ólík öllum þeim, sem ég þekki. En dramatíkin verður nú að hafa eitthvað til að vinna með. Góð saga á ekki að líða fyrir sannleikann eða jafnvel trúverðuleikann. Og Vegir Drottins er ekki um raunverulega fjölskyldu og ekki heldur um danskt kirkjulíf. Heldur hvað?

Flest fer úrskeiðis í lífi Jóhannesar prests, fjölskyldu hans og söfnuði. Lestir mannanna eru fyrirferðarmiklir og talsverður skortur er á dyggðum. Fjölskyldufaðirinn er drykkjurútur, litrík týpa en bæði nærsýnn og þröngsýnn í guðfræði. Svo heldur þessi íhaldsami og sjálfumglaði karl framhjá konunni sinni. Þau eiga tvo syni sem eru ólíkir. Sá yngri er hlýðinn gæðadrengur sem tapar áttum, viti, ráði og rænu eftir að hann varð konu að bana í herþjónustu erlendis. Og hann deyr í lok tíunda þáttar, verður fyrir bíl og helst að skilja að sektin, sem hann bar, hafi orðið honum til dauða. Eldri sonurinn er vargur í samskiptum, en tekur þó sönsum þegar hann fer út fyrir kassa fjölskyldulífsins og opnar fyrir visku og húmor austursins. Svo er það mamman, sem hefur þjónað karli sínum og kerfum hans alla tíð. Hún hefur ekki hlustað vel á sjálfa sig fyrr en norsk tónlistarkona spilar upp tilfinningar hennar. Það dagar á prestsfrúna, að hún hafi bælt hneigðir sínar. Í dramatískri flækju þáttanna gerist margt og hraðinn er mikill. Stóru spurningar um lífið þyrlast upp. Hver er tilgangur með þessu lífi? Hvernig eigum við að lifa sem manneskjur? Hver eru tengsl mín við aðra? Hvað með Guð? Er Guð farinn, dáinn, úreltur? Eru vegir Guðs órannsakanlegir, þ.e. ófærir eða kannski óvæntir?

Um valdið sem brotnar

Í þáttunum verðum við vitni að því þegar djúptækar breytingar verða og gamall heimur hrynur. Jóhannes, fjölskyldufaðirinn, er tákn fyrir úrelt karla-valdakerfi. Það stenst ekki lífið, menningarlegan fjölbreytileika, breytt samfélag, innflytjendastraum og breytt samfélagsviðmið. Gamli presturinn stenst ekki siðferðilega, guðfræðilega eða félagslega. Hann bregst öllu og öllum, sjálfum sér, konu sinni, sonum og þar með Guði, sem hann notar sem einhvers konar vonaregó sjálfs sín. Og Jóhannes prestur er æpandi tákn, um úrelta valdastofnun trúmála og þegar dýpst er skoðað valdastofnanir almennt.

Trú?

Eru þættirnir um trú og Guð? Nei, ekki sérstaklega. En kirkja og trú kemur oft við sögu vegna þess að það er prestsfjölskylda en ekki forstjórafjölskylda sem er notuð til að tala um samfélagsbreytingar, gildaþróun og breytt lífsmynstur fólks, sem reynir á samskipti og tengsl. Þættirnir Vegir Drottins eru minna um Guð og trú en um fordóma og úrelt gildi, sem leiða fólk í ógöngur, siðferðiskrísur og samslátt gilda og hugmynda á breytingatímum vestrænna samfélaga. Stofnanir, og þar með talin kirkjustofnun, höndla illa að þjóna fólki í kreppum og á hraðferð í tilraunum með gildi. Tröppustofnanir þjóna oft fremur þörfum stjórnenda og eigenda en þörfum fólks. Kirkjur í hinum vestræna heimi mega gjarnan muna að yfirmenn, kirkjueigendur, hafa tilhneigingu til að nota stofnun í eigin þágu. Í þáttunum er trú túlkuð, sem flótti frá lífinu fremur en aflvaki lífs fólks í lífsbaráttu. Trú í þessum þáttum aðskilur fólk frekar en tengir saman í samfélag, sem er skilgreining kirkju. Trú í þessum þáttum lengir bil milli fólks og skaðar hið mannlega, sem er andstæða klassísks trúarskilnings kristninnar.

Aðalpersónan hefur einfeldningslega afstöðu til trúar, siðferðis og lífs. Hann lifir í aðskildum siðferðisheimum. Á góðum dögum getur Jóhannes prestur haldið smellnar ræður, en svo lemur hann fólk óhikað með þröngsýnum boðskap lífsfjarlægrar bókstafshyggu. Hann réttlætir alls konar bresti og eigin óra með trú og guðstengslum. Trúartúlkun þáttanna er því fremur sjúkleg en heilbrigð. Í prestsfjölskyldunni eru blóðböndin sterk þó allt sé í rugli. Allir hafa sínar þarfir og upplifanir, sem þó er ekki unnið úr. Þar er hreyfikraftur þáttanna. Þetta er lemstruð fjölskylda, sem passar að ræða ekki erfiðu málin og tabúin. Og kannski eru margar nútímafjölskyldur þannig. Fólk vill vel, vill vera gott við hvert annað, stendur saman á tímum áfalla en á erfitt með að höndla aðalmál lífsins og vinna í gegnum vandamálin.

Skíthælar

Vegir Drottins fjalla sýna hve fólk getur verið miklir skíthælar. Söguhetjur þáttanna eru sjúkar. Annar sonurinn, sem virðist góður, er morðingi. Hann deyr að lokum vegna brots, sem ekki var unnið með. Áföll í lífinu deyða. Hinn sonurinn snýr baki við trú og siðferði og verður sjálfhverfur notandi fólks. Honum er þó ekki alls varnað fremur en mörgum dólgum heims. Þættirnir fjalla um spillt vald, valdastofnanir og frekju fremur en um kærleika. Þó prestakraginn hafi verið hengdur á þessa þætti eru þeir um hið sammannlega en ekki sérkirkjulega.

Sýndarlíf og völd

Vegir Drottins sýna okkur sýndarmennsku marga í samfélagi okkar. Leikrit fólks, sýndargerningar, gagnvart öllum öðrum verða að halda áfram. Allir eiga og verða að leika sitt hlutverk samkvæmt stýrikerfi hins drottnandi stjórnanda. Og þegar þarfir vanhæfs stjórnanda og spilltrar stjórnar stýrir ferð fer illa. Vont vald spillir. Hið illa veldur böli og dauða. Fjölskyldan í þáttunum gæti verið hvaða valdafjölskylda sem er, peningafólk, eigendur fyrirtækis með marga í vinnu, pólitísk valdafjölskylda. Staða og vald spilla þegar eftirlit og ganrýni fær ekki að hreinsa vitleysu og spillingu. Prestar eiga trúnaðarsamtöl við fólk á ögurstundum lífs og vita að í öllum fjölskyldum er eitthvað rotið í pokahorninu. Margir burðast með stór og óuppgerð mál, sem grátið er yfir þegar mismikið elskaðir fjölskyldumeðlimir deyja.

Elskan mest?

Hver elskar mest? Það er eiginlega mamman. Hún elskar karlinn sem er ómögulegur, drengina sína sem eru um margt mjög misheppnaðir, hún elskar líka norsku vinkonu sína. Hún talar ekki stöðugt um Guð en þjónar í kærleika.

Sonurinn Ágúst er einfeldningurinn. Hann vill vel og hegðar sér vel. Reynir að þóknast en er veikur í ósjálfstæði sínu. Hann höndlar ekki sekt og vinnur ekki úr. Í þúsundasta lið… sekt kynslóðanna kemur fram í honum og á honum. Hann deyr vegna sektar sinnar en kannski annarra líka. Getur einn dáið fyrir marga? Ágúst er sem fulltrúi ungs fólks. Hann leitar að hlutverki en misskilur sjálfan sig, stöðu sína og hlutverk, og stendur utan við líf fólks.

Húmor og leikur

Mér hefur lengi þótt húmor fléttast um allt hið danska samfélag. Og hlýja kímni hefur oftast liðast inn í danskar kvikmyndir og þætti. En furðulegt nokk, það vantar alveg húmor í Vegi Drottins. Í starfi presta sem eru alltaf við mörkin, dauða og fæðingu, kreppur og stórhátíðr er hláturinn eins eðlilegur og hinn djúpi grátur. Samtöl verða því gjarnan snarpdjúp. Í kviku fólks er myrkur og ljós, reiði og hlátur. En í samtölunum í þáttunum eru flest samtöl yfirborðsleg og án sveiflu, dýptar og húmors. Það eru fáir prestar sem eru svoleiðis. Í þessum þáttum er heilmikið talað um Guð en mjög lítið um hvernig trú hefur áhrif á gott líf. Fjölskyldudramað stýrir öllu og svo er trú og Guð eins og uppfylliefni.

Þættirnir eru sjónræn veisla. Myndatakan er flott, myndmálið kraftmikið og flæðandi táknmálið vekur marga þanka. Stjörnufans danskra leikara kemur fram. Lars Mikkelsen er frábær leikari, en karlinn, sem hann leikur verður heldur leiðigjarn þegar á líður. Ann Elenora Jörgensen túlkar prestsfrúna vel á leið hennar út úr meðvirkni og til sjálfsvirðingar. Simon Sears er skemmtilega frakkur og sveiflar sér milli andstæðna manns í leit að sjálfi, heilbrigði og trú. Adam Price er óumdeilanlega meistari. 

 

Guð tjáir sig í kartöflum og eplum

Hvernig tekur þú við gjöfum? Hvaða merkingu hafa gjafir og hvernig bregstu við þeim?

Ég var í Tallinn í Eistlandi liðna helgi. Borgin er heillandi og hefur fríkkað og braggast eftir sjúkdómstíma kommúnismans. Þetta get ég sagt því ég sótti hana heim á sovéttímanum árið 1990 – og þrisvarsíðan. Það er gaman að ganga um gamla bæinn og sjá hvernig húsum hefur verið gert gott til, sótið hefur verið þvegið, gömul málning skafin af og allt endurmálað. Nýjar þakrennur eru á húsunum, göturnar eru viðgerðar og mannífið ríkulegt í gömlu miðaldaborginni. Eins og álagaham hafi verið lyft, allt fengið lit, líf og fegurð að nýju. Kirkjurnar sem voru laskaðar, vanhelgaðar, eru nú viðgerðar. Það er heillandi fara inn í þessa söguríku, miklu helgidóma. Í öllum eru auðvitað ölturu og prédikunarstólar og orgel allt þetta sem búast má við í kirkjum. En það sem kom á óvart var að í öllum kirkjunum var mikið af grænmeti og ávöxtum. Við kórtröppurnar voru kartöflur, kálhausar, grasker, epli, gulrætur, laukur, tómatar, ber og perur. Það var fagurt, að sjá þessar náttúrugjafir í kirkjunum. En af hverju var búið að koma þessu fyrir? Var þetta skreyting, eitthvað til að fegra og í staðinn fyrir blóm eða listmuni? Eða selja fólki? Var búið að breyta kirkjum í markað? Nei. Ástæðan var önnur. Hver var hún?

Ávextir jarðar hafa verið bornir í helgidómana á haustin um aldir. Hinir fornu hebrear höfðu liðið sáran matarskort á langferð til fyrirheitna landsins og pílagrímagöngu tímans. Þegar hinir umreikandi Aramear höfðu fengið land til ræktunar og frið til að yrkja jörðina spratt fram þakklæti. Þetta fólk gerði sér grein fyrir að matur er ekki mannréttindi heldur þakkarverðar lífsgjafir. Og svo varð til helgigjörningar til að marka tengsl mannaþakka og guðsgjafa. Í 26. kafla 5. Mósebókar segir frá að setja eigi þessar jarðargjafir í samhengi gæsku Guðs og bera sumt af þeim í helgidóminn. Það voru ekki gjafir til að gefa guðunum að borða, heldur var gjörningurinn til að staðfesta samhengi lífsins. Svo hefur verið um allan heim. Þegar landnemar í Bandaríkjunum höfðu uppskorið héldu þeir þakkargerðarhátíð.

Að vera maður Guðs í heiminum er andstætt lífi frekjunnar. Allan sóvéttímann, í baráttu og matarskorti bar fólk í Eistlandi kartöflur og aðra jarðarávexti í kirkjurnar á haustin. Það var gerningur gleði og þakkar, afstaða sem alltaf er sterkari en dólgshátturinn. Eftir dauða kemur líf. Jesúboðskapur, Jesúiðkun – djúpur hjartsláttur þess heims sem Guð hefur gert. Grænmeti og ávextir í kórum kirkna heimsins vekur djúpar spurningar. Hvernig lifi ég? Hvernig lifir þú? Tekur þú bara til þín í markaleysi og frekju eða ræktar þú með þér gjafmildi. Það er merkilegt að lesa ábendingar um meðferð jarðagæðanna meðal hebreanna, að sérstaklega er tekið fram að fólk skuli halda hátíð en líka gefa aðkomufólki með sér. Við börn heims og himinsins erum öll í sömu þörf fyrir gjafir lífs. Í okkur öllum býr þrá til hamingju, öryggis, friðar, matar og sáttar við sjálf, samfélag og lífgjarann sjálfan. Og kartöflur, kál og epli í kirkjum eru tákn um ást, sem skapar okkur öll, já – spannar okkur öll, alla náttúru. Okkar er að tryggja að allir njóti. Þannig er ástarsaga himins. Guð tjáir sig í kartöflum og eplum.

Amen.

Guð sem skapar, Guð sem leysir, Guð sem helgar.

Þökk sé þér fyrir ástargjafir þínar, grænmetið, alla ávexti jarðar, mannfólk, litríki veraldar, tónlist heimsins.

Þökk fyrir að þú vilt að veröldin sé ríkulegt veisluhús mettaðs og þakkandi fólks.

Allt líf kallar þú fram, allt líf nærir þú og allt líf helgar þú.

Kyrrðarstund í Hallgrímskirkju 18. október 2018

 

Ástarsögur

Ég stóð einu sinni við hlið manns í Skagafirði og ræddi við hann um kirkjuna í heimabyggð hans. Orð hans voru eftirminnileg og opnuðu mér glugga að viðhorfi fólks um allt land, jafnvel óháð trú eða vantrú. Hann sagði: „Þetta er kirkjan okkar. Kirkjan er hluti af okkur. Við viljum halda í hana og hafa hana fallega.“ Svo skýrði hann mál sitt og mér vitraðist að kirkjan var honum mun meira en bara guðsþjónusturými. Hún var manninum tákn um líf fólksins hans, sögu þeirra og menningu. Víða hef ég heyrt fólk tala með svipuðum hætti um kirkjuna sína. Sögur þeirra eru ástarsögur, ekki um spýtur, steypu og gler, heldur um líf fólks og menningu.

Kirkjuhúsin þjóna ekki einu heldur mörgum og mismunandi hlutverkum. Ferðafólk á leið um landið vitjar þeirra. Margir skoða kirkjur og garðana umhverfis þær vegna þess m.a. að þar eru menningarminjar. Þær tjá sjálfsviðhorf fólks í sókninni og getu samfélagsins. Fólk vill, að kirkjuhúsin séu falleg og þykir ótækt að þau grotni niður þó erfitt sé að finna fé til að kosta viðgerðir. Þeim er jafnvel haldið við eftir að allt fólk er flutt úr sveitinni. Svo eru þessi hús umgjörð um mikilvægustu athafnir í lífi fólks, staðir lifandi orðs og samfélags. Ytri umgjörð á að vera í samræmi við inntakið.

Kirkjur eru tákn um sögu viðkomandi byggðar og samhengi þeirra kynslóða, sem eiga sér sameiginlegan helgidóm, jafnvel um aldir. Kirkjur eru tákn, sem vísa til gilda og tilgangs. Hvert samfélag þarfnast skírskotunar um sið, hlutverk og tilgang. Kirkjur þjóna ekki aðeins því hlutverki að teikna línur í landslag, vera kennileiti í sveit eða augnhvílur fólks á ferð. Kirkjuhús eru tákn um að mannfélag eigi sér dýpri rök og gilt samhengi, sem ekki bregst þó flest sé í heiminum hverfult. Það er skírskotun – hin guðlega vídd – helgistaða.

Ástartjáning fólks gagnvart kirkjum þeirra er heillandi. Og rímar við ástarsögu Guðs, sem kemur fram í erkifrásögn kristninnar um að lífið er gott því Guð leggur til allt sem þarf til góðs lífs. Við mannfólkið erum aðilar og persónur þeirrar sögu. „Meðan kirkjan stendur mun þessi byggð standa,“ var sagt um kirkju í Vestur-Skaftafellssýslu. „Ég elska þessa kirkju,“ sagði kona við mig og átti bæði við húsið og erindi hennar. Góðar ástarsögur hrífa. Ástarsaga Guðs skapar líf kirkjunnar og varðar okkur öll. Kirkjuhúsin tjá hvaða viðhorf höfum við til menningar okkar. Við seljum ekki eða förgum því sem við elskum heldur verndum og gætum.