Greinasafn fyrir merki: frelsi

Skuggi Dostójevskís og Vladimir Pútín

Vladimir Pútín dáir Fjodor Dostójevskí og telur að Karamazov-bræðurnir sé ein af mikilvægustu bókum Rússa. Pútín hefur sagt að Dostójevskí sé einn þeirra rithöfunda sem skilji hvað best vald, ábyrgð og andstæðuna milli frelsis og skyldu. En Pútín er nútímaútgáfa rannsóknardómarans í Sevilla.

Rannsóknardómarinn ógurlegi

Ívan Karamazov sagði Aljosha, bróður sínum, sögu um kardínála sem var rannsóknardómari í Sevilla á Spáni. Sagan varð lykilsaga hins mikla sagnabálks um líf og örlög Karamazov-bræðranna. Í sögu Ívans segir frá að Jesús Kristur heimsótti Sevilla á tímum spænska rannsóknarréttarins sem var ofstækisútgáfa kaþólsku á miðöldum. Jesús fór meðal fólks, læknaði sjúka og lífgaði látið barn. Fólkið í borginni taldi sig þekkja Jesú Krist í þessum lækningamanni og lífgjafa en rannsóknardómarinn lét handtaka frelsarann í nafni kirkjunnar.

Klerkur vitjaði Jesú Krists svo í fangelsinu um nótt. Hann hélt langa ákærutölu og ásakaði Jesú fyrir að hafa ofmetið mennina, brugðist rangt við og haldið fram kenningu sem ekki passaði fólki. Jesús hafi ofmetið möguleika manna og ekki skilið að fólk kysi frekar mat en frelsi, að menn þyldu ekki að axla mikla ábyrgð og gætu ekki auðveldlega valið á milli kosta. Þess vegna hefði kirkjan neyðst til að leiðrétta boðskap Jesú Krists og búa til nýjar áherslur. Frelsi hefði verið skipt út og hlýðni komið í þess stað. Kirkjustjórnin hafi leiðrétt stefnu Jesú Krists og því gert mennina hamingjusama. Rannsóknardómarinn fangelsaði Jesú Krist, ákærði hann og dæmdi. Reyndar stóð Jesús upp án þess að verja sig eða mótmæla, kyssti kardínálann og hvarf síðan.

Frelsi eða hlýðni

Í fangelsisræðunni eru bornar saman ólíkar hugmyndir um frelsi og dýpstu þarfir manna. Stefna Jesú er stefna hins róttæka frelsis, virðingar fyrir manngildi og gildum. En stefna dómarans og leiðtoga kirkju einræðisins er táknmynd samfléttaðs valds og trúar, ástar og kúgunar. Rannsóknardómarinn elskar vissulega mannkynið en sú ást bindur og fjötrar. Hann álítur að mannfólkið sé það óþroskað og ósjálfstætt að það þarfnist sterks leiðtoga sem ákveður hvað sé rétt og hollt og hvað ekki. Þessi fulltrúi kirkjunnar afneitaði því Jesú Kristi í nafni mannúðar. Kjarni stefnu dómarans er að frelsi sé mönnum ekki blessun heldur byrði. Í ýmsum rússneskum trúar- og menningarhefðum er líka kennt að vilji fólks nægi ekki í lífsbarátunni heldur aðeins undirgefni við vilja Guðs. Merking og sátt fólks fæðist í hlýðni og skýrist í þjáningu. Hlýðni og þjáning er gjarnan réttlætt í ofstjórnarkerfum.

Rússahlýðnin og ríkið

Það er ekki tilviljun að Pútín talar um ríkið sem foreldri þjóðarinnar. Hann telur að Rússar þarfnist stjórnar sem getur varið þá gegn óreiðu frelsisins. Hann lýsir Vesturlöndum sem spilltum vegna einstaklingshyggju og siðferðisupplausnar en kennir að Rússland varðveiti siðferðisstyrk og öryggi. Lífsafstaða og heimsmynd Pútíns er sú sama og rannsóknardómarans, að frelsi leiði til sundrungar en hlýðni til öryggis og sáttar.

Pútín telur að Rússland hafi misst trúna þegar Sovétríkin féllu. Hlutverk hans sé að gefa fólki traust, þó ekki í frelsi, heldur með trú, þjóðernisvitund og öflugri landsstjórn. Afstaða Pútíns er að Rússar, rétt eins og íbúar Sevilla samkvæmt kenningu rannsóknardómarans, sækist eftir því sem sameinar. Hlutverk leiðtoga sé að veita öryggi. Og stjórinn verður jafnframt táknmynd þess hóps sem hann stjórnar og veitir nánast guðlegt öryggi.

Ást sem lemur

Það sem gerir rannsóknardómarann í Sevilla skv. sögu Dostójevskís svo ógnvænlegan var ekki grimmd hans, heldur fremur ást hans. Hann réttlætti kúgun með góðmennsku. Hann svifti fólk frelsi til að frelsa það frá sjálfu sér. Þá djúpu siðferðislegu þversögn í riti Dostójevskís hefur Pútín gert að meginstefnu rússneskrar stjórnsýslu. Hann talar ekki eins og harðstjóri sem óttast fólk, heldur eins og verndari sem elskar það. Hann réttlætir árás á frelsi fjölmiðla sem varnarráðstöfun gegn siðspillingu Vesturlanda. Hann segir að Rússar þurfi að vera sameinaðir gegn ógn utanaðkomandi hugmyndafræði og gegn öllu vafasömu sem veikir þjóðina. Í nafni kærleika og trúar byggir hann kerfi sem útilokar efa og umbunar hlýðni. Það var líka aðferð rannsóknardómarans. Pólitísk stefna og siðfræði Pútíns er lík aðferð hrottans í heimilisofbeldi, að alvöru húsbóndi lemji fólkið sitt vegna ástar og umhyggju. Pútín er líkur rannsóknardómaranum í því að hann skammast sín ekki fyrir dóma og dráp. Báðir eru vissir í sinni sök – forhertir.

Kirkja sem ambátt

Í ræðu rannsóknardómarans er kirkja valdastofnun sem skilgreinir og stjórnar fólki og notar trú til að réttlæta og styrkja vald sitt. Sevillakirkjan hafði tekið yfir stjórn hins veraldlega samfélags. Í Rússlandi Pútíns hefur samruni líka orðið en með því móti að ríkið hefur innlimað kirkjuna í valdakerfi sitt. Rússneska rétttrúnaðarkirkjan er notuð sem menningarleg og andleg réttlæting ríkisvaldsins. Rússakirkjan blessar stríð, réttlætir fórnir og kallar andstöðu við Pútínstefnuna guðleysi. Pútín ver kirkjuna gegn gagnrýnendum, fangelsar þá og jafnvel líflætur. Rússneska ríkið hefur gert kirkjuna að ambátt sinni. Kirkjan gengur erinda pólitískrar stefnu. Ríki og kirkja eru eining, eitt kerfi. Þjóðin er líkami en leiðtoginn höfuð hennar. Pútín talar um Rússland sem heilagt land, siðferðilegt vald sem ver heiminn fyrir spilltri menningu. Pútínstefna minnir á Sevilla-einræði dómarans, að kirkjan hafi tekið að sér að gera mannkynið hamingjusamt með því að stjórna því Jesús Kristur hafi verið of veikur til að halda því saman.

Hinn eitraði kokteill

Dostójevskí sá og túlkaði hættuna á ofríki þegar hann skrifaði bókina um Karamazov-bræðurna. Þegar fólk er svift hinu djúpa og róttæka frelsi trúar verður til skert en hættulegt valdakerfi. Einræðisherrar telja sig hafa rétt fyrir sér, þeir elski fólk svo mikið að þeir megi og eigi að skilgreina í hverju velferð þess er fólgin. Fólk geti ekki valið rétt og orðið hamingjusamt nema kerfið sé í stíl við trú og stefnu leiðtogans.

Í djúpi sögu Dostójevskís er viðvörun um að kirkja sem óttast frelsi manna breytist í dómstól sem hlýðir valdi og er gríma guðleysis. Slíkir dómstólar fara á svig við manngildi og mannhelgi. Í hugmyndafræði Pútíns er trú ekki persónuleg reynsla og ræktuð í frelsi. Trú er skyldurækni og hlýðni við þjóð og leiðtoga. Þegar trú verður að þjónkun við siðareglu ríkisins verður hún að tæki stjórnunar. Trú sameinuð pólitík er eitraður kokteill.

Víti til varnaðar

Jesús sagði ekkert, kyssti dómarann og fór. En kirkjuhöfðinginn sagði Jesú að fara og koma aldrei aftur. Senan er spegill allra valdhafa sem segjast virða hið trúarlega, jafnvel elska Guð, en bæta við: „Ekki trufla okkur.“ Pútín og rannsóknardómarinn kjósa ríki og samfélag þar sem friður og eining ríkja jafnvel þótt það sé á kostnað sannleikans og blóði drifið. Frelsið er dýrt.

Það er átakanlegt að Dostójevskí sem vildi bjarga Rússlandi frá andlausri nútímahyggju skuli hafa orðið innblástur fyrir vald sem réttlætir sterka forsjárhyggju og harðræði. En Dostójevskí var skarpur. Hann sá og skildi að mannfólkið er bæði trúarverur og samfélagsverur. Hann áttaði sig að ást á villigötum getur umbreyst í ofríki ef hún virðir ekki frelsi fólks og margbreytileika. Rannsóknardómarinn er ekki aðeins persóna í bókmenntum heldur víti til varnaðar. Í pólitík Pútíns er draugagangur. Pútín dáir kannski Dostójevskí og bók hans um Karamazov-bræðurna en Pútín er orðinn böðull í flokki rannsóknardómarans í Sevilla. Pútín er maðurinn sem elskar þjóðina of mikið til að treysta henni. Í því er fall hans fólgið. Jesús hefur þegar kysst hann.

Birtist sem skoðunargrein í Vísi 3. desember 2025

Guði að kenna?

Fjöldi fólks hvarf í svelg skriðunnar í Gjerdrum. Og Norðmenn spyrja. Af hverju? Við Íslendingar spyrjum gagnvart snjóflóðum og aurskriðum vetrarins: Af hverju? Næsta spurning er oft: Höfum við gert eitthvað af okkur? Heimsbyggðin spyr í nærri ársgömlu heimsfári: Af hverju? Voru gerð einhver mistök? 

Stórar spurningar kalla á stór svör. Sum varða mistök manna og rangar ákvarðanir. En svo vakna líka trúarspurningar. Í leikriti Shakespeare um Lér konung er spurt hvort mennirnir séu eins og flugur, sem guðirnir leiki sér að því að deyða. Er Guð valdur að dauðaskriðum? Er Guð að leika sér að því lauma veirum á milli lífkerfa á votmörkuðum í Kína og inn í mannheima til að gera tilraunir með fólk eða kannski bara skemmta sér? Er Guð eins og skapillur risi, harðbrjósta ofurvera sem ekki virðir reglur. Er það sá Guð sem við þekkjum og trúum á? Nei, svo sannarlega ekki.

Af hverju leyfir Guð að þetta komi fyrir? Fólk spyr, þegar áföllin dynja yfir, sjúkdómar æða, slys verða og ástvinir deyja. Glíma við sorg og merkingu þjáningarinnar er sístæð. Á öllum öldum hafa menn reynt að skilja hið óskiljanlega, botna í sorginni og leita trúarlegra raka. Í Biblíunni eru margar Guðsglímurnar vegna þjáningar, t.d. sagt frá hinum guðhrædda Job sem ekki skildi af hverju Guð leyfði að hann þjáðist án tilefnis. Trúarhefðirnar reyna að svara hinum stóru spurningum um illsku og þjáningu.

Einhæfni í guðstúlkun

Var Guð í heimsfaraldri og flóðum? Spurningin varðar Guðsímyndina og þær myndir, sem við notum til að túlka Guð. Ef Guð er í okkar huga sem einræðisherra er ekki einkennilegt að spurningin um Guð í flóðinu vakni. Slík mynd af Guði túlkar gjarnan bókstaflega hugtök um almætti og alvitund Guðs og önnur álíka. Síðan eru einnig oftúlkaðar líkingar af Guði sem heimssmið, konungi, herforingja, heimsarkitekt, tyftara, dómara og stríðsherra. Ef allt er tekið saman og menn varpa síðan yfir á Guð bókstafsskilningi á þessum hlutverkum í heimi manna verður til ímynd af guði sem allt skipuleggur fyrirfram. Guð sem hefur í höndum sér allt til góðs og ills í heimi, guð sem skipuleggur fæðingu og dauða hvers manns. Sem sé, þá vakna allar hinar djúptæku og skelfilegu spurningar um af hverju guð leyfi flóð og heimsfár. Gagnvart slíkum guði er eðlilegt að menn spyrji: Af hverju guð? Og gagnvart þeim guði er eðlilegt að menn segi: “Fyrst þú ert svona vil ég ekki lengur trúa á þig. Þú ert vondur!”

Hin kristna sýn

Jesús breytti öllum forsendum, skipti út bæði stýrikerfi trúarinnar og öllum forritum. Hann breytti hinum gyðinglega boðskap um sértækan guð þjóðar eða kynþáttar sem útvaldi sumt fólk en hafnaði öðrum, valdi fólk til lífs og aðra til slátrunar. Sá Guð, sem Jesús opinberaði í orði og verki var persóna elskunnar, sem var tilbúinn að fórna öllu í þágu ástarinnar. Sá Guð fylgdist með höfuðhári og hamförum en ávallt í ljósi elskunnar. Það er slíkur Jesús sem ég sé í Biblíunni og starfi kristninnar um allan heim og á öllum öldum.

Því fer fjarri að allir sem kenna sig við Krist séu mér sammála. Í kristninni má greina margar túlkunarhefðir. Þær trúarútgáfur eru ekki allar jafnfagrar.[i] Í þeim verstu hefur Guð verið túlkaður sem orsök og samhengi erfiðleika, sjúkdóma, hamfara og dauða. Slíkur guð sprettur fram í hugum þröngt hugsandi manna.

Frelsið

En ef Guð elskar hvað gerir þá Guð? Í kvikmyndinni Bruce Almighty fær söguhetjan innsýn í vanda þess að vera Guð og fær jafnvel að leika hlutverk Guðs. Í ljós kemur að Guð hefur gefið mönnum frelsi til að ákveða og leggur á það þunga áherslu að alls ekki megi skerða það frelsi. Kvikmyndin tjáir ágætlega að við menn eru frelsisverur.

Við þennan boðskap vil ég bæta að náttúran er með sömu einkennum. Vissulega lýtur hún leikreglum náttúrulögmála og þróunarferla. En þar ríkir líka frelsi og samspil. Við skulum ekki vanmeta þann þátt eins og fram kemur skýrt í svo sértækum viðburðum eins og heimsfaraldri eða skriðuföllum. Í mannheimi hefur fólk frelsi til að ákveða stefnu og gerðir. Vitaskuld erum við bundin af skorðum erfða og aðstæðna en frelsið er ótrúlega mikið samt. Í ljósi þessa getum við nálgast allan hrylling heimsins.

Guð beitir ekki inngripsvaldi. Guð sleppir ekki veirum lausum að geðþótta, hristir ekki jarðskorpufleka heinsins, ýtir ekki af stað skriðum í fjöllum eða þrýstir á kvikleir til að kalla fram hrun íbúðabyggða. Ég þekki engan ábyrgan guðfræðing eða trúmann sem heldur slíku fram. Slík guðsmynd er aðeins í hugum brenglaðra sem aflaga guðsmynd að eigin þörfum og þrám, hvað sem það kostar.

Kærleiksmáttur

Hvað þá? Hver er hlutur Guðs? Guð er sá andlegi kraftur sem á öllum augnablikum beitir kærleiksáhrifum sínum, varpar upp möguleikum, í efnaferlum náttúrunnar, í huga einstaklinga, í góðum samhug hópa og þjóða – já mannkynsins alls. En á öllum þrepum og stigum getur efni, náttúruferlar, einstaklingar, hópar og þjóðir brugðist við með réttu eða röngu móti eða blöndu af hvoru tveggja í einhverjum hlutföllum. Hlutverk manna og þar með talið stjórnvalda er að sinna kalli til öryggis. Til okkar er kallað sem einstaklinga, samtaka, þjóða og mannheims að rétta hjálparhendur þegar þarf og styðja í úrvinnslu hörmunganna.

Hinn hvetjandi Guðsnánd

Menn hafa notað hugtakið almætti til að tjá mátt Guðs. En Guð er ekki eins og mennskur alræðisforstjóri eða einræðisherra veraldar. Í Guði sjá kristnir menn dýpri og mennskari veruleika nándar. Guð tekur þátt í baráttu fólks, grætur með þeim sem syrgja og hlær með hinum fagnandi. Því varð þessi makalausa sendiför Guðssonarins inn þennan heim til að samsamast öllu lífi manna, leysa úr viðjum og bjarga.

Guð skelfist og stendur með með óttaslegnu fólki í skriðubyggðum Ísands. Guð stjórnar ekki atburðarásinni, en Guð líður ferlið með sköpun sinni. Guð er ekki ofvirkur heldur samvirkur. Guð er ekki eins og kúgandi móðir eða harður pabbi sem neyðir börn sín. Guð ofstjórnar ekki heldur meðstýrir. Guð tekur ekki af sköpun sinni frelsi heldur bendir á ábyrgð. Guð hefur ekki yfirgefið sköpun sína, heldur styður með kærleikskrafti sínum.

Faraldur og umhverfisvá eru ekki refsingar af himnum, ekki hefndaræði guðlegrar reiði. Breytingar í náttúrunni og hamfarir má skýra með rökum fræða og almennrar dómgreindar. En áföll kallar á næmni og hvetur til öflugs viðnáms gegn siðferðisbrotum. Guð er að starfi en ekki sem íhlutandi Guð, heldur sem nálæg systir eða bróðir sem stendur við hlið manna, hvetur til starfa, styður þegar við föllum, hvíslar að okkur huggunarorð þegar við höfum misst og yfirgefur okkur aldrei, þótt við bregðumst. Guð er nærri.

[i] Ég bendi á rit Pjeturs Pjeturssonar, biskups á Íslandi á 19. öld, sem dæmi um skelfilega trúarhugsun. „Guð og þjáningin í Pjeturspostillu : „En lof sé þér líka, líknsami faðir! fyrir sóttir og sjúkdóma“ Kirkjuritið 67 (3): 2001.

Flýja eða mæta – Trevor Noah og frelsið

Hvað gerum við þegar við verðum fyrir áfalli? Kostirnir eru oftast tveir og báðir erfiðir: Að fara eða vera. Við annað hvort flýjum eða mætum áfallinu. Þegar við flýjum reynum við að losna undan afleiðingunum, tilfinningum, sorg, missi, því sem ekki varð eða rættist, öllu þessu skelfilega eða óþægilega, sem áfallið olli eða opinberaði. En ef við mætum skelfingunni erum við færari um að vinna úr, eflast af eða styrkjast – af því að glímt er við meinið, talað um það, rætt um það og reynt að greina hvað er hægt að læra af því. Við erum aldrei algerlega strand í grískum harmleik. Áfalli getum við mætt í frelsi. 

Í liðinni viku sat ég á grískri strönd. Kliðmjúkur söngur smáöldunnar leið í eyru, birta sótti í sál og ég las bók í skugga ólífutrjánna á ströndinni. Forlagið Angústúra gefur út þrungnar bækur í nýrri ritröð og Elín mín hafði tekið með tvær úr röðinni. Ég fór að lesa uppvaxtarbók Trevor Noah, Glæpur við fæðingu, sem ég vissi ekkert um áður. Bókin er grípandi. Höfundur teiknar vel aðskilnaðarstefnu S-Afríku í framkvæmd. Hann er sonur s-afrískrar, þeldökkrar konu og hvíts, svissnesks föður. Og slíkur blendingur var brot á lögum og drengurinn lenti utan hópa, kerfa og menningarkima og fór líka á mis við nánd föðurins. Og þvílíkur rússíbani stórmála, áfalla og tilfinninga. Höfundur miðlar okkur sýn til fólks og lífsbaráttu þess á breytingartíma í S-Afríku. Honum tekst líka að miðla okkur lokunum, heftingum, tabúum, niðurþrykkingum og fjölda glerþaka. Hvað er til ráða? Og þar er komið að viskunni í þessari fjörmiklu lífsleiknibók.

Trevor Noah lenti í rosalegum málum, en hann var elskaður og það er besta vegarnestið. Hann átti lífsviljandi móður, sem var honum fyrirmynd um frelsi, sjálfstæði, hugrekki, einbeitni og húmor líka. Og Trevor Noah lærði, að maður þarf ekki að draga áföll á eftir sér, er ekki skuldbundinn til að láta sektarkennd og eftirsjá eða afbrot annarra verða aðalmál eigin framtíðar. Hlutverk okkar er að vinna úr áföllum okkar og lifa í frelsi.

Áfallaflóttin býr bara til vælupúka, fórnlömb. En þegar fólk mætir og glímir við er hægt að taka ákvörðun um að sleppa. Það er alltaf val þeirra, sem lenda í áfalli, að sleppa reiðinni gagnvart þeim sem brjóta á manni, hafa skaðað eða kerfum og hópum sem níðast á öðrum. Það er líka hægt að fyrirgefa gungunum sem ekki þora að standa með sannleika eða réttlæti og hlaupa í burtu frá líðendum og þolendum til að bjarga eigin skinni. Frelsi eða fangelsi, skilyrðingar eða opnun.

„Ég hef hlustað á þennan gaur,“ sagði annar sonur minn. „Hann er stjarna í Ameríku og á Youtube.“ Og þá komst ég að því að Trevor Noah hafði ekki bara lifað af og iðkað lífsleikni, heldur líka slegið í gegn sem uppistandari og þáttastjóri. Svo unglingurinn fór að lesa bókina – bókin er alltaf betri!

Mér þótti efnið kjarnmikið veganesti fyrir okkur öll því ekkert okkar sleppur. Við lendum öll í stórum og smáum áföllum. Við líðum margt og mikið en við erum þó aldrei fórnarlömb nema við ákveðum það sjálf. Annað hvort flýjum við eða mætum áfallinu. Við þurfum að viðurkenna og tala um sorgarefni okkar. Trevor Noah og mamma hans sýna, að enginn neyðir okkur til að leika hlutverk fórnarlambsins. Við erum frjáls – jafnvel í ómögulegum aðstæðum og fangelsum anda, menningar og líkama. 

Takk Angústúra fyrir að koma þessari bók út.

Þýðing Helgu Soffíu er góð og ég hikstaði sjaldan í hraðlestrinum. Kynning forlagsins á bók Trevor Noah er á þessari slóð:

https://www.angustura.is/glaepur-vid-faedingu

Glæpur við fæðingu

Stórmerkileg saga uppistandarans og stjórnmálaskýrandans Trevor Noah sem ólst upp í skugga aðskilnaðarstefunnar í Suður-Afríku: Sjálf tilvist hans var glæpur, því samband móður hans og föður af ólíkum hörundslit var refsivert á þeim tíma. Trevor segir á heillandi hátt frá æsku sinni og unglingsárum í samfélagi sem enn er í sárum, fyrstu skrefunum í skemmtanabransanum og trúrækinni móður sem opnaði fyrir honum heiminn.

Trevor Noah (f. 1984) hefur vakið mikla athygli fyrir hárbeitta þjóðfélagsrýni í þættinum The Daily Show í Bandaríkjunum sem hann hefur stýrt frá árinu 2015. Hann er vinsæll uppistandari og má nálgast heimildarmyndir um hann á Netflix. Glæpur við fæðingu var valin ein besta bók ársins af helstu fréttamiðlum Bandaríkjanna þegar hún kom út. Kvikmynd er í bígerð.

„Ástarbréf til einstakrar móður höfundarins.“ – The New York Times

„Lykilrit… því það afhjúpar aðskilnaðarstefnuna… fremur en aðrir nýlegir fræðitextar.“ – The Guardian 

Trevor NoahHelga Soffía Einarsdóttir þýddi

Saumuð kilja 110 x 180 mm 368 blaðsíður.

Frelsið eða dauðinn

Það var fátt sem minnti á grimmd og dauða þegar við ókum upp hlíðarnar fyrir ofan Rethymno á Krít. Gömul ólífutrén brostu við sól og um æðar þeirra streymdi lífsvökvi til framtíðar. Grænar ungþrúgurnar á vínviðnum voru teikn um líf og frelsi. En golan frá Eyjahafinu laumaði gömlu grísku slagorði í vitundina: Frelsið eða dauðann. Það voru valkostirnir í stríðum aldanna, en þetta 19. aldar slagorð á tvö þúsund og fimm hundruð ára skugga í grískri sögu. En þennan dag var það frelsið sem litaði veröldina og fyllti huga. Gróðurinn var ríkulegur í hlíðunum upp frá sjónum. Blómin voru útsprungin við vegina. Og ilmurinn frá kryddjurtunum sótti inn í bílinn. Oreganó og rósmarín, gleðigjafar öllum sem hafa gaman af eldamennsku. Þennan dag var bara frelsi og enginn dauði, ekki einu sinni á vegunum.

Við komum bílnum fyrir í skugga frá stóru tré á bílastæðinu við Arkadiouklaustrið og röltum að hliðinu. Klaustrið stendur á lítilli sléttu í fimm hundruð metra hæð yfir sjó. Útveggir eru sem virkisveggir, klaustrið ferhyrnt og klefar og salarkynni klaustursins við útveggina. Við fórum um hliðið, greiddum elskulegum klausturverði aðgangseyri og gengum inn í klausturgarðinn. Við Elín Sigrún höfðum komið þarna fyrir mörgum árum og það var ljóst að margt hafði verið gert síðan til fegrunarauka og fræðslu. Vel hirtar rósir, kryddrunnar, ávaxtatré, margar tegundir blóma og vínviður glöddu augu. Svo var komið glæsilegt safn, sem gaf innsýn í sögu klaustursins. Og tíminn varð eiginlega þykkur.

Við gengum úr einni vistarverunni í aðra, dáðumst að húsum, munum og málverkum. Presturinn íhugaði mun vestrænnar og austrænnar kristni, helgimyndagerð – íkónógrafíu Grikkja og klausturskipulagið. Svo komum við að norðvesturhorni klaustursins og fórum alveg inn í horn. Þar var gangur og hlið og þar stoppuðum við. Þar vorum við komin að einum átakanlegasta stað Krítar. Og drengirnir mínir upplifðu þungan nið sögunnar og skelfingu stríðs.

Grikkir og Tyrkir hafa barist um aldir. Á nítjándu öld var Krít stríðssvæði. Árið 1866 flýði hópur í skjól í klaustrinu undan framsókn Tyrkja. Fimmtán þúsund hermenn á vegum Tyrkja sóttu að því. Þó klaustrið væri víggirt væri ekki hægt að verjast ofurefli. Engin hjálp barst að utan og Tyrkirnir brutu allar varnir. Augljóst var að blóðbaðið yrði ægilegt og fólkinu yrði misþyrmt og það vanhelgað. Og þá voru kostirnir tveir heldur aðeins einn: Dauði. Börn, konur, munkar og hermenn, á níunda hundrað manns, söfnuðust í gamla vínkjallarann. Þar voru tunnur með því púðri sem eftir var. Þegar Tyrkirnir komu hlaupandi var kveikt í púðrinu. Sprengingin var svo öflug að steinhvelfingar yfir þessum sal dauðans splundruðust og grjót og brak dreifðist víða. Dauðinn kom skjótt.

Tyrkirnir þóttust hafa unnið mikinn sigur, en dauði píslarvottanna hleypti lífi í frelsisbaráttu Krítverja og varð sem tákn fyrir alla Grikki. Rendurnar í fána Grikkja eru tákn um kostina sem einstaklingar og þjóðin hafa orðið að velja, frelsi eða dauða. Það var þrúgandi að standa á þessum stað þar sem svo margir létu lífið. Þjáningin var nánast yfirþyrmandi. Sótið er enn á veggjunum og eins og blóðlyktin hefði ekki alveg horfið. Miklir steinveggir, engin hvelfing heldur aðeins opinn himinn. Og við fórum inn í kirkjuna í miðjum klausturgarðinum, kveiktum kerti fyrir fórnarlömb grimmdar og stríða, táknkerti um rétt manna til að búa við öryggi og frið.

Hverjar eru hugsjónir okkar? Eru gildi algerlega sveigjanleg og afstæð? Eða er eitthvað svo mikils virði að án þess tapi lífið gildi? Er grimmd einhverra svo skelfileg, að skárri kostur sé að sprengja sig og börnin sín í loft upp? Foreldrum fyrri tíðar hefur það verið skelfileg siðklemma. 

Fyrir tæpum sautján árum (11. september) vorum við Elín Sigrún á þessum sama stað og íhuguðum frið og stríð, átök þjóða og hlutverk okkar. Á þeim degi var flugvélum rænt og m.a. flogið á tvíburaturnana í New York. Það var einkennilegt að koma frá klaustrinu og heyra um árásirnar í Bandaríkjunum. Þá sprungu flugvélar í okkur öllum. Hvaða gildi getum við gefið drengjunum okkar og iðkað svo þeir hafi veganesti til lífgjafar en ekki grimmdarverka? Við vildum sýna þeim þetta gríska klaustur sem væri tákn um baráttu fólks á öllum öldum. Þetta var ekki skemmtiferð, sem við fórum, heldur ferð á vit gilda, hugsjóna og lífsgæða. Þegar bænakertin ljómuðu inn í kirkjunni kviknaði bál tilfinninga hið innra. Aldrei aftur Masada, aldrei aftur Arkadiou, aldrei aftur Verdun, aldrei aftur Sýrland… Gegn dauðanum stendur alltaf frelsið, eini valkosturinn. 

11. júní 2018