Greinasafn fyrir merki: fall

Fallið – Anatomy of a Fall

Ástalíf fólks er alls konar og sjaldnast einfalt. Flestir leita gefandi og nærandi tengsla en svo verða áföll á leiðinni sem teikna lífsmynd fólks. Kvikmyndin Anatomy of a Fall er um ást sem endar með dauða. Hjón í svissneskum fjallaskála eru bæði rithöfundar. Henni gengur vel og gefur út bók eftir bók. Honum gengur verr, á við ritstíflu að stríða, kennir um tímaleysi og alls konar áraun lífsins að hann klárar ekki bókina sína og segir upp kennslustöðu sinni. Og svo var keyrt á drenginn þeirra sem nánast blindaðist. Hann og blindrahundur hans komu að föðurnum látnum í snjónum. Augljóst var að maðurinn hafði fallið af þriðju hæð hússins. En var fallið sjálfsvíg? Drap eiginkonan manninn? Hinn blindi sonur varð meginvitni lögreglu og réttarhalda. Í krufningu hjónalífsins var ansi langt seilst.  

Hvað er sannleikur? Hvað er rétt og er minni alltaf traust? Hjónalíf og ástalíf er marglaga og tengsl fólks líka. Svo bætast við hefðir og venjur í menningu, lögreglu og réttarfari. Er kenningasmíð lögreglu sannleikur og er stundum heldur snemma hrapað að niðurstöðu?

Það hefur löngum verið erfitt að vera manneskja. Flókið ferli yfirheyrslu og réttarhalda er eitt en svo eru tengsl fólks margþætt. Stórkostlegt handrit myndarinnar tekur á öllum þessum þáttum. Það er margþættur, litríkur en vel heppnaður vefur sem kitlar áhorfendur alla leið og til loka. Smásögurnar sem sagðar eru til stuðnings heildinni eru sjarmerandi. Klippingin er meistaraleg. Leikur allra er sérkapítuli – stórkostlegur. Sandra Hüller er orðin ein af skærustu leikstjörnum samtímans.

Þið sem elskið gæðakvikmyndir – látið ekki þetta undraverk fram hjá ykkur fara. Þetta er ekki afþreyingarmynd heldur listaverk fyrir huga, augu, íhugun, tilfinningar og samtöl. Þetta er ekki mynd fyrir fyrsta deit en kannski ættu öll pör að sjá þessa mynd, bæði þau sem eru að byrja að kyssast og hin sem kunna að strjúka ástúðlega og rýna af getu í dýptir elskunnar. Áföll verða en það er okkar að vinna úr og lifa. Og boðskapur myndarinnar er skýr að við veljum í lífi okkar hvort við sköpum og lifum eða ákveðum að vera þolendur og þar með fólk fallsins. Greining falls hjálpar við greiningu ástar og lífs.

Um myndina á IMDb að baki

 

Sýnd þessa dagana í bíó Paradís.