Greinasafn fyrir merki: Biskupskjör 2012

Takk

Liðnar vikur í aðdraganda biskupskjörs hafa verið mér ríkulegur tími fræðslu og blessunar. Ég hef hitt stórkostlegt fólk, hlustað á merkilegar sögur, notið gestrisni, hlustað á óskir um að kirkjan lifi fallega og vel. Ég hef orðið vitni að þjónustulund framar skyldu og hlotið fararblessun margra.

Ég þakka stuðningsfólki, fjölskyldu minni og kjörmönnum, sem hafa treyst mér til biskupsþjónustu. Ég þakka meðframbjóðendum mínum fyrir góða og uppbyggilega samveru síðustu vikur. Ég þakka góðum Guði sem vakir yfir börnum sínum og veitir þeim kraft og gleði.

Kirkjan er kölluð til þjónustu við heiminn og spennandi tímar eru framundan. Prestar, söfnuðir og þjóðkirkjan eru tilbúin undir breytingar, vöxt og grósku í fjölbreytilegum samtíma. Verkefnin eru mörg og krefjast samstöðu og einingar. Kirkjan er farvegur möguleikanna og nú er tími tækifæranna. Guð geymi ykkur.

Tími tækifæranna

“Hvað, hefur þú tíma til að vera hér í kvöld? Á ekki að telja á morgun?” Já, við Elín, kona mín, vorum á dásamlegu námskeiði um Lúther og undirbúning ferðar á Lúthersslóðir síðar á árinu. Og rétt áður en talið verður í biskupskjöri er heilsusamlegt að núllstilla og hugsa um eðli siðbótar og þjónustu kirkjunnar í sögu og samtíð. 2017 nálgast og ég er tilbúin til að vinna að því að kirkjan verði kirkja bóta og góðs siðar, hvernig sem á mál verður litið.

“Og hvernig líður þér?” var ég spurður í kvöld. Og mér líður ágætlega. Biskupskjör er ekki grískur harmleikur með eingöngu vondum kostum. Biskupskjör er fremur gleðimál með góðum kostum. Alla vega lít ég svo á, að hvað sem kemur út úr kjörinu hafi ég lært mikið, upplifað margt jákvætt og orðið svo margs vísari að ég komi út í stórkostlegum plús – óháð atkvæðamagni og útkomu kosningar. Ég hef notið fræðslu og blessunar í þessu kosningaferli. Þessar liðnu vikur hafa orðið mér ríkulegur tími, bæði persónulega og líka sem þjóni kirkjunnar og kirkjuþingsmanni. Ég hef fengið dýpri og betri skilning á þörfum kirkjunnar í landinu, afstöðu fólks, þörfum safnaða og hverju þurfi að breyta og hvað þurfi að bæta. Kirkjuþingsmaðurinn í mér hefur skarpari sýn á hvað þurfi að gera og leggja til á kirkjuþingi. Og kirkjan, fólkið, prestarnir og söfnuðurnir eru búin undir breytingar. Nú er tími tækifæranna.

Ég hef hitt stórkostlegt fólk undanfarnar vikur, hlustað á stórmerkilegar sögur, notið gestrisni, hlustað á sterkar óskir um, að kirkjan lifi fallega og vel, orðið vitni að þjónustulund framar skyldu, hlotið fararblessun margra. Ég hef notið stuðnings og velvilja samverkafólks míns á kirkjuþingi og í kirkjuráði, í öllum prófastsdæmum, í nærsamfélagi og meðal vina og samverkafólks í Neskirkju. Ég hef fengið ótrúlega margar hringingar, gagnrýni sem ég er þakklátur fyrir, blóðríkar umsagnir fólks sem eru ekki minningargreinar heldur lífsyrðingar. Allt þetta hefur orðið til að skerpa og efla.

Ég þakka biskupsefnum, sem hafa verið mér samferða um landið, en þó mest fyrir elsku þeirra gagnvart kirkjunni. Svo hefur mér þótt elja stuðningsfólks míns ótrúleg og langvarandi kraftaverk. Fyrir hug þeirra og verk er ég þakklátur. Svo er ég þakklátur Elínu, konu minni fyrir staðfestu, kátínu og jafnlyndi hennar, sem aldrei bregst. Við höfum svo sannarlega notið ferða og fundanna. Það er ómetanlegt að geta notið sterkrar lífsreynslu saman. Svo hafa börnin mín verið mér traust stoð. Þau hafa verið óspör á hvatningu í “biskupakeppninni” eins og sex ára synir mínir hafa kallað undirbúning biskupskosningar.

Kæru kjörmenn: Takk, þið sem studduð mig. Við alla kjörmenn vil ég segja: Takk fyrir að þið kjósið í þágu kirkjunnar og vegna framtíðar hennar. Kirkjan er farvegur möguleikanna og nú er tími tækifæranna. Guð geymi ykkur.

Kristinn Örn Sigurðsson, hugbúnaðarsérfræðingur

Yndislegur maður í alla staði

Sem efasemdarmaður get ég átt góðar samræður við Sigurð Árna. Hann leggur sig fram við að skilja önnur sjónarmið, auðvelt er að rökræða við hann því hann er alls ekki þröngsýnn á önnur trúarbrögð eða þá sem trúa ekki. Ég hef sjaldan hitt jafn yndislegan og góðan mann sem treður ekki skoðunum sínum upp á aðra.

Sigurður Árni berst fyrir vellíðan og réttindum fólks, burt séð frá því hvað það trúir. Ég get ekki hugsað mér betri einstakling til þess að þjóna sem biskup þjóðarinnar.

Katrín H. Árnadóttir, viðskipta- og umhverfisfræðingur

Lengi býr að fyrstu gerð. Þessi málsháttur kom upp í huga mér þegar ég settist niður til að skrifa hugleiðingu um vin minn Sigurð Árna Þórðarson í tilefni þess að hann býður sig fram til biskups.

Sigurði Árna kynntist ég þegar hann og góð vinkona mín Elín Sigrún Jónsdóttir hófu samband og hafa fjölskyldur okkar átt margar og dýrmætar stundir saman í fjölda ára. Það sem einkennir Sigurð Árna er einstök næmni og umhyggja fyrir öðru fólki, næmt fegurðarskyn gagnvart náttúrunni í hvaða mynd sem er og einstakt listfengi sem nýtur sín í ræðu, riti og ekki síst í ljósmyndum hans. Í jólapakkanum frá þeim hjónum í ár var bók sem Sigurður Árni hafði skrifað og gefið út um móður sína, Svanfríði Guðnýju Kristjánsdóttur, sem lést árið 2004, þá 94 ára að aldri. Bókin er minningarrit en er jafnframt menningarsaga ásamt hugleiðingum um móður- og föðurarf og tengsl mannsins við Guð og trúarlíf. Bókin er rituð af miklum kærleik, skilningi, umhyggju og listfengi og ber höfundi sínum gott vitni. Hin fallega lýsing Sigurðar Árna á persónu og eiginleikum móður sinnar í bókinni hef ég fundið búa
í honum sjálfum sem felst m.a. í elsku hans á náttúrunni, umhyggju fyrir öðrum, gegnheilu trúarlífi, staðfestu, sjálfstæði og trausti. Glögglega má sjá við lestur bókarinnar hve gott , heilt og trúrækið uppeldi skilar sér í heilsteyptum einstaklingi og má því segja að eiginleikar Sigurðar Árna eigi sér bæði djúpar og sterkar rætur.

Vináttan við Sigurð Árna og Elínu Sigrúnu hefur ætið verið umvafin elsku, trausti og virðingu. Sigurður Árni leggur sig fram við að hlusta og skilja hvað býr að baki töluðu orði og spyr viðmælendur sína spurninga sem oftar en ekki er skautað yfir í hinu daglega lífi. Heilindi eru hans einkunnarorð og gerir hann kröfur til samferðamanna sinna um það sama.

Í ljósi þeirra tímamóta sem kirkjan stendur á í dag, þar sem efla þarf m.a. traust, gegnsæi og andlega leiðsögn er ég ekki í nokkrum vafa um að séra Sigurður Árni Þórðarson sé rétti maðurinn til að leiða það vandasama starf sem næsti biskup Íslands.