Katrín H. Árnadóttir, viðskipta- og umhverfisfræðingur

Lengi býr að fyrstu gerð. Þessi málsháttur kom upp í huga mér þegar ég settist niður til að skrifa hugleiðingu um vin minn Sigurð Árna Þórðarson í tilefni þess að hann býður sig fram til biskups.

Sigurði Árna kynntist ég þegar hann og góð vinkona mín Elín Sigrún Jónsdóttir hófu samband og hafa fjölskyldur okkar átt margar og dýrmætar stundir saman í fjölda ára. Það sem einkennir Sigurð Árna er einstök næmni og umhyggja fyrir öðru fólki, næmt fegurðarskyn gagnvart náttúrunni í hvaða mynd sem er og einstakt listfengi sem nýtur sín í ræðu, riti og ekki síst í ljósmyndum hans. Í jólapakkanum frá þeim hjónum í ár var bók sem Sigurður Árni hafði skrifað og gefið út um móður sína, Svanfríði Guðnýju Kristjánsdóttur, sem lést árið 2004, þá 94 ára að aldri. Bókin er minningarrit en er jafnframt menningarsaga ásamt hugleiðingum um móður- og föðurarf og tengsl mannsins við Guð og trúarlíf. Bókin er rituð af miklum kærleik, skilningi, umhyggju og listfengi og ber höfundi sínum gott vitni. Hin fallega lýsing Sigurðar Árna á persónu og eiginleikum móður sinnar í bókinni hef ég fundið búa
í honum sjálfum sem felst m.a. í elsku hans á náttúrunni, umhyggju fyrir öðrum, gegnheilu trúarlífi, staðfestu, sjálfstæði og trausti. Glögglega má sjá við lestur bókarinnar hve gott , heilt og trúrækið uppeldi skilar sér í heilsteyptum einstaklingi og má því segja að eiginleikar Sigurðar Árna eigi sér bæði djúpar og sterkar rætur.

Vináttan við Sigurð Árna og Elínu Sigrúnu hefur ætið verið umvafin elsku, trausti og virðingu. Sigurður Árni leggur sig fram við að hlusta og skilja hvað býr að baki töluðu orði og spyr viðmælendur sína spurninga sem oftar en ekki er skautað yfir í hinu daglega lífi. Heilindi eru hans einkunnarorð og gerir hann kröfur til samferðamanna sinna um það sama.

Í ljósi þeirra tímamóta sem kirkjan stendur á í dag, þar sem efla þarf m.a. traust, gegnsæi og andlega leiðsögn er ég ekki í nokkrum vafa um að séra Sigurður Árni Þórðarson sé rétti maðurinn til að leiða það vandasama starf sem næsti biskup Íslands.