Takk

Liðnar vikur í aðdraganda biskupskjörs hafa verið mér ríkulegur tími fræðslu og blessunar. Ég hef hitt stórkostlegt fólk, hlustað á merkilegar sögur, notið gestrisni, hlustað á óskir um að kirkjan lifi fallega og vel. Ég hef orðið vitni að þjónustulund framar skyldu og hlotið fararblessun margra.

Ég þakka stuðningsfólki, fjölskyldu minni og kjörmönnum, sem hafa treyst mér til biskupsþjónustu. Ég þakka meðframbjóðendum mínum fyrir góða og uppbyggilega samveru síðustu vikur. Ég þakka góðum Guði sem vakir yfir börnum sínum og veitir þeim kraft og gleði.

Kirkjan er kölluð til þjónustu við heiminn og spennandi tímar eru framundan. Prestar, söfnuðir og þjóðkirkjan eru tilbúin undir breytingar, vöxt og grósku í fjölbreytilegum samtíma. Verkefnin eru mörg og krefjast samstöðu og einingar. Kirkjan er farvegur möguleikanna og nú er tími tækifæranna. Guð geymi ykkur.