Greinasafn fyrir merki: Biskupskjör 2012

Ástarsögur

“Þetta er kirkjan okkar. Kirkjan er hluti af okkur. Við viljum halda í hana og hafa hana fallega.” Ég stóð við hliðina á sóknarnefndarformanni norður í landi og ræddi við hann um stöðu kirkjunnar, um kirkjuhúsið og þróun kirkjumála. Hann færði í orð viðhorf fólks um allt land. Við eldhúsborð og í stofum hef ég heyrt svipaðar sögur fólks um kirkjuna. Þjóðkirkjan skiptir þau máli, en það er kirkjan þeirra, sóknarkirkjan og líf hennar, sem þau tala um af mestri elskusemi.

Kirkjuhús þjóna ýmsum hlutverkum. Þau eru skoðunarstaðir ferðafólks á leið um landið. Margir stoppa til að skoða kirkjur og garðana umhverfis þær vegna þess að þar eru menningarminjar. Þær tjá með ýmsum hætti stöðu og getu samfélags. Þær tjá líka sjálfsviðhorf fólks í sókninni. Fólk vill, að kirkjuhúsin séu falleg og þykir ótækt að þau grotni niður þó erfitt sé að finna fé til að kosta viðgerðir. Svo eru þessi hús umgjörð um mikilvægustu og helgustu athafnir í lífi fólks, staðir lifandi orðs og samfélags. Ytri ásýnd á því að hæfa tilefnum, umgjörð á að vera í samræmi við inntakið.

Kirkjur eru tákn um sögu viðkomandi byggðar og samhengi þeirra kynslóða, sem eiga sér sameiginlegan helgidóm, jafnvel um aldir. Kirkjur eru tákn, sem vísa til gilda og guðlegrar verndar. Hvert samfélag þarfnast dýpri skírskotunar um sið, hlutverk og tilgang. Kirkjurnar hafa ekki aðeins þjónað því hlutverki að teikna línur í landslag, vera kennileiti í sveit eða augnhvílur fólks á ferð. Kirkjuhús eru tákn um að mannfélag eigi sér dýpri rök og guðlegt samhengi, sem ekki bregst þó flest sé í heiminum hverfult.

Ég hef síðustu vikur heyrt margar kirkjulegar ástarsögur. Ég er djúpt snortinn af ástartjáningum fólks gagnvart kirkjunum þeirra. Að baki játningu þeirra er heilindaafstaða, ekki aðeins til húss, heldur til menningar, sögu og trúar.

Saga Jesú Krists er ástarsaga Guðs, sem gefur líf, nærir það og leysir úr viðjum. Við mannfólkið erum aðilar og persónur þeirrar sögu. Kristnin túlkar hana með margvíslegu móti. “Meðan kirkjan stendur mun þessi byggð standa” var sagt um kirkju á Suðurlandi. “Ég elska þessa kirkju” sagði ein konan og átti bæði við húsið og erindi hennar. Góðar ástarsögur hrífa. Ástarsaga Guðs skapar líf kirkjunnar og varðar okkur öll.

Lára G. Oddsdóttir, sóknarprestur í Valþjófsstaðarprestakalli

Ég styð sr. Sigurð Árna Þórðarson í kjöri til Biskups Íslands. Vegna þess að:

  • ég treysti honum til að hlusta á raddir fólksins í söfnuðum landsins
  • ég treysti honum til að hlusta á raddir þeirra sem starfa í kirkjunni
  • ég treysti honum til þess að leiða kirkjuna okkar og kirkjustarf inn í nýja tíma
  • ég treysti honum til þess að geta farsællega tekið á erfiðum málum sem upp kunna að koma
  • ég treysti honum til þess að verða ötull liðsmaður allra þeirra sem vilja færa gleði og góðan starfsanda i kirkjuna okkar
  • ég treysti honum til þess að leiða biðjandi, boðandi og þjónandi kirkju.

Þess vegna kýs ég sr. Sigurð Árna Þórðarson sem næsta Biskup Íslands.

Lára G. Oddsdóttir, sóknarprestur í Valþjófsstaðarprestakalli

http://www.visir.is/til-studnings-sigurdi-arna/article/2012120419979

Páskafólk

Kona, sem alla ævi bjó við fátækt og hafði misst mikið, átti sér orðtæki og sagði gjarnan: “Ég er svo heppin.” Hún hafði lært, að sjá ljós í erfiðum aðstæðum. Hún var – þrátt fyrir áföllin – hamingjusöm og lánsöm því hún tamdi sér jákvæðni. Hún hafði lært, að vinna með hið mótdræga og sá möguleika þar sem aðrir sáu bara kreppu. Hvernig ferðu að með það, sem er þér andsnúið? Er glasið þitt hálffullt eða hálftómt? Ertu föstudagsmaður eða sunnudagsmaður?

Í lífinu er ekki bara spurt um jákvæðni eða neikvæðni, að vera í stuði eða í mínus, föstudagsgeðslag eða sunnudagsstemmingu. Þegar föstudagurinn langi var að kvöldi kominn var öllu lokið. Guð og maður á krossi! Þá var illt í efni, verra verður það ekki. En síðan er seinni hluti sögunnar, að dauðanum var snúið í andhverfu sína, sagan endaði vel þrátt fyrir dauða söguhetjunnar. Gröfin sleppti feng sínum, lífið lifnaði og tilveran er því góð. Það eru þær fréttir, sem breyta öllu í lífi kristins manns. Fasta breytist í páska, Guð leysir alla fjötra.

Ef við temjum okkur jákvæðni í lífinu höfum við lært lífsleikni, sem hjálpar í þrautum og þegar eitthvað verður okkur mótdrægt. Við verðum þar með sunnudagsfólk. En þegar við heyrum páskaboðskapinn og tökum hann til okkar verðum við að auki páskafólk. Páskaboðskapurinn verður sem kraftaverk í lífi sunnudagsjákvæðninnar. Lífið er ekki bara af sjálfu sér heldur líf í samhengi Guðs.

Páskaboðskapurinn umbyltir lífi okkar. Hann breytir heimssýn trúmanna og þar með veröldinni. Hún er ekki lengur lokað kerfi dapurlegra ferla, ekki lengur aðeins tilvera til dauða. Veröldin verður opið kerfi og jafnvel lögmál lífs og dauða eru brotin. Ekkert er svo slæmt í lífi okkar, ekkert er svo dapurlegt, engin áföll eru svo stór, að Guð geti ekki, megni ekki og nái ekki að koma þar að með hjálp sína og gleði. Guð elskar og við erum svo heppin að mega vera páskafólk.

Kristur er upprisinn – Kristur er sannarlega upprisinn.

Greinin birtist fyrst á trú.is.

Flaggskip þjóðkirkjunnar

Í aðdraganda biskupskjörs var ég spurður um fyrstu verkefni í starfi ef ég yrði kjörinn biskup. Af þremur forgangsverkefnum er varða ungt fólk, fjármál og starfsfólk tel ég að mikilvægasta verkefnið varði æsku þjóðarinnar.

Heilbrigð kirkja þjónar fólki. Þjóðkirkjan á að leggja sérstaka rækt við framtíðarfólkið, börn og unglinga, og þjóna barnafjölskyldum vel. Sem barn naut ég þeirra forréttinda að alast upp í barnvænu trúarumhverfi kirkjunnar. Þjónusta mín við kirkju Krists í landinu á rætur í þeirri sáningu og umönnun, sem ég naut í æsku. Ég á sjálfur ung börn og uppeldismál eru mér því áhugaefni og daglegt viðfangsefni.

Við upphaf 21. aldar er trúaruppeldi þeirrar kynslóðar, sem nú er að vaxa úr grasi, mikilvægasta fjárfesting kirkjunnar. Brýn verkefni eru að tryggja góða þjónustu við börn og unglinga óháð búsetu og að efla fagmennsku í æskulýðsstarfi.

Æskulýðsstarf kirkjunnar er grunnþjónusta, sem á að vera í boði í öllum sóknum. Aðstæður eru ólíkar og söfnuðir í dreifbýli og þéttbýli hafa ólíkar þarfir. Þess vegna skiptir höfuðmáli að greina þarfir sóknanna á landsvísu og byggja upp frá grasrótinni glaða og ríka kirkju. Uppbygging í barna- og unglingastarfi hefur margfeldisáhrif því á bak við hvert glatt barn í kirkjustarfi eru ánægðar fjölskyldur.

Kirkjan þarf að tryggja faglegt umhverfi fyrir barna- og æskulýðsstarf. Það verður aðeins gert með fagmenntuðu fólki, sem hefur umsjón með og ber ábyrgð á starfinu. Á landsbyggðinni sinna sóknarprestar barna- og unglingastarfi og þeim þarf að tryggja aðgang að kennsluefni og faglegu baklandi til að sinna unga fólkinu sem best. Nýta þarf samstarfssvæði safnaða þar sem margar sóknir starfa saman líkt og nýtt átaksverkefni í æskulýðsmálum í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi er vísir að. Þar verður ráðinn æskulýðsfulltrúi í hálft starf til að styðja minni söfnuði í prófastsdæminu við uppbyggingu æskulýðstarfs. Þá þarf að tryggja aðgang ungs fólks að leiðtogaþjálfun.

Samstarf er lykillinn að árangri. Með því að færa efnisgerð og forystu um einstaka þætti æskulýðsstarfs út til safnaðanna nýtist mannauður kirkjunnar til fulls. Þannig gætu sóknir, sem skara fram úr á einstökum sviðum, fengið fjárveitingu til að leiða þann málaflokk í ákveðinn tíma og orðið „móðurkirkjur“ þess starfs. Með því að færa verkefni út í söfnuðina má nýta sérþekkingu þeirra í þágu heildarinnar. Hlutverk biskupsstofu verður síðan að miðla því efni, sem til verður og samþætta samstarf safnaðanna.

Barna- og æskulýðsstarf er flaggskip kirkjunnar og ætti að vera forgangsverkefni á komandi árum. Unga fólkið er framtíð kirkjunnar og starf í þess þágu kallar fjölskyldur í landinu til liðs við kirkjuna.