Páskafólk

Kona, sem alla ævi bjó við fátækt og hafði misst mikið, átti sér orðtæki og sagði gjarnan: “Ég er svo heppin.” Hún hafði lært, að sjá ljós í erfiðum aðstæðum. Hún var – þrátt fyrir áföllin – hamingjusöm og lánsöm því hún tamdi sér jákvæðni. Hún hafði lært, að vinna með hið mótdræga og sá möguleika þar sem aðrir sáu bara kreppu. Hvernig ferðu að með það, sem er þér andsnúið? Er glasið þitt hálffullt eða hálftómt? Ertu föstudagsmaður eða sunnudagsmaður?

Í lífinu er ekki bara spurt um jákvæðni eða neikvæðni, að vera í stuði eða í mínus, föstudagsgeðslag eða sunnudagsstemmingu. Þegar föstudagurinn langi var að kvöldi kominn var öllu lokið. Guð og maður á krossi! Þá var illt í efni, verra verður það ekki. En síðan er seinni hluti sögunnar, að dauðanum var snúið í andhverfu sína, sagan endaði vel þrátt fyrir dauða söguhetjunnar. Gröfin sleppti feng sínum, lífið lifnaði og tilveran er því góð. Það eru þær fréttir, sem breyta öllu í lífi kristins manns. Fasta breytist í páska, Guð leysir alla fjötra.

Ef við temjum okkur jákvæðni í lífinu höfum við lært lífsleikni, sem hjálpar í þrautum og þegar eitthvað verður okkur mótdrægt. Við verðum þar með sunnudagsfólk. En þegar við heyrum páskaboðskapinn og tökum hann til okkar verðum við að auki páskafólk. Páskaboðskapurinn verður sem kraftaverk í lífi sunnudagsjákvæðninnar. Lífið er ekki bara af sjálfu sér heldur líf í samhengi Guðs.

Páskaboðskapurinn umbyltir lífi okkar. Hann breytir heimssýn trúmanna og þar með veröldinni. Hún er ekki lengur lokað kerfi dapurlegra ferla, ekki lengur aðeins tilvera til dauða. Veröldin verður opið kerfi og jafnvel lögmál lífs og dauða eru brotin. Ekkert er svo slæmt í lífi okkar, ekkert er svo dapurlegt, engin áföll eru svo stór, að Guð geti ekki, megni ekki og nái ekki að koma þar að með hjálp sína og gleði. Guð elskar og við erum svo heppin að mega vera páskafólk.

Kristur er upprisinn – Kristur er sannarlega upprisinn.

Greinin birtist fyrst á trú.is.